Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 96/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 96/20187

Föstudaginn 25. maí 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 12. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Vinnumálastofnunar á erindi hennar, dags. 19. október 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2016, var kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, að fjárhæð 160.667 kr. að meðtöldu 15% álagi. Með bréfi, dags. 19. október 2017, óskaði kærandi eftir því að mál hennar yrði tekið til endurskoðunar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en hún hafði þá greitt endurgreiðslukröfuna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 12. mars 2018 og vísaði meðal annars til þess að erindi hennar frá 19. október 2017 hefði ekki verið svarað. Kærandi tók fram að Vinnumálastofnun hafi lagt 56.591 kr. inn á reikning hennar 24. nóvember 2017, án nokkurra skýringa.

Með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 4. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort endurupptökubeiðni kæranda hefði verið svarað og öllum gögnum málsins. Svar barst frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 23. apríl 2018, og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Vinnumálastofnunar vegna beiðni kæranda um endurupptöku máls.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. apríl 2018, kemur fram að endurupptökubeiðni kæranda hafi verið tekin fyrir í nóvember 2017. Kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á vinnu hennar á árinu 2014, nánar tiltekið miðað við að hún hafi verið í vinnu dagana 8.-10., 14.-15. og 21.-22. ágúst 2014. Vinnumálastofnun hafi leiðrétt skráningu í samræmi við þá beiðni en þar sem kærandi hafi þegar greitt skuldina hafi mismunur verið greiddur henni þann 20. nóvember 2017. Tekið er fram að fyrir mistök hafi kæranda ekki verið tilkynnt að beiðni hennar hefði verið samþykkt. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta