Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 16/2015

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 16/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með greiðsluseðlum og tilkynningum á heimasvæðinu „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar tilkynnti stofnunin kæranda A, um skuldamyndun hans vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum var skuldajafnað á móti síðar tilkomnum bótum kæranda í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þann 30. júní 2014 var útistandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun 350.026 kr. Þann 29. júlí 2014 fól Vinnumálastofnun Sýslumanninum á B að innheimta kröfuna. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. febrúar 2015. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi skuldamyndunar í máli kæranda. Kærandi fer fram á að skuldin verði látin niður falla.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 6. júní 2011 og reiknaðist með 100% bótarétt. Fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur til 29. júlí 2014 eða þangað til hann fullnýtti bótatímabil sitt.

Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta starfaði kærandi hjá C og D og fékk jafnframt greiddan lífeyri. Vegna starfa hans fyrir C og D skilaði kærandi ekki inn tekjuáætlun, heldur hafði hann þann háttinn á að tilkynna um tekjur sínar eftir á. Voru því greiðslur atvinnuleysisbóta leiðréttar afturvirkt og af þeim sökum myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Vegna lífeyrisgreiðslna kæranda lá fyrir tekjuáætlun en greiðslurnar námu iðulega hærri fjárhæð en tekjuáætlun gerði ráð fyrir sem gerði það jafnframt að verkum að skuld myndaðist í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda voru skertar afturvirkt. Kæranda var tilkynnt um skuldamyndum með greiðsluseðlum ásamt því að fá tilkynningar á heimasvæðinu „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar.

Í kæru segir kærandi að kröfur sínar séu að útreikningar Vinnumálastofnunar í málinu séu endurskoðaðir og að skuldin verði látin niður falla. Með kærunni fylgdi handskrifað yfirlit yfir greiðsluseðla á árunum 2013 og 2014 ásamt eigin útreikningum kæranda.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. mars 2015, segir að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi starfað hjá C og D samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sökum þess að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun vegna starfa hans hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og jafnframt vegna þess að tekjuáætlun hans vegna lífeyrisgreiðslna hafi iðulega verið lægri en rauntekjur hans. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda hafi verið tilkynnt um skuldamyndum með birtingu greiðsluseðla ásamt tilkynningum á heimasvæðinu „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi borið í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendi Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi ekki fyrirfram gert grein fyrir tekjum sínum frá C og D og hafi tekjuáætlun hans vegna lífeyrisgreiðslna iðulega verið lægri en raungreiðslur hans. Hafi greiðslur atvinnuleysisbóta kæranda verið réttilega skertar í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Útistandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemi nú 46.638 kr.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. mars 2015, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. apríl 2015. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi sem var móttekið 9. apríl 2015. Fram kemur að kærandi telji „þetta frekar einfalt reikningsdæmi“ með vísan í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á tímabilinu 2013-2014 hafi skuld vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta farið úr 45.563 kr. þann 1. febrúar 2013 í 350.026 kr. í lok tímabils. Árið 2012 hafi greiðslur frá Vinnumálastofnun numið 481.946 kr. Launagreiðslur kæranda árið 2012 hafi verið samtals 3.890.059 kr., þ.e. lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá C og frá D.

Þá segir kærandi að aldrei hafi verið minnst á tekjuáætlun fram í tímann á bótatímabilinu. Hann hafi tilkynnt mánaðarlega um allar tilfallandi tekjur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar auk lífeyrisgreiðslna, sem hann hafi reynt „að uppfæra reglulega“ á u.þ.b. tveggja til þriggja mánaða fresti. Hvergi sé minnst á að gera tekjuáætlun. Athugasemdir kæranda voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með tölvupósti þann 13. ágúst 2015. Athugasemdir bárust ekki.

Með tölvupósti þann 6. október 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir sundurliðuðum útreikningum á kröfu Vinnumálastofnunar. Með tölvupósti þann 4. desember 2015 bárust útreikningar frá Vinnumálastofnun ásamt athugasemdum. Í athugasemdunum kemur fram að við yfirferð hjá stofnuninni hafi komið í ljós að greiðslur vegna ágústmánaðar 2011 hafi ekki verið leiðréttar með hliðsjón af rauntekjum hans. Þá hafi komið í ljós að stofnunin hafi ofreiknað skerðingu til hans vegna tekna um 85.562 kr. Enn fremur hafi stofnunin ranglega rukkað kæranda um 6.634 kr. vegna ágústmánaðar 2012 en í þeim mánuði hafi hann sætt biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta og geti því ekki hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í þeim mánuði. Það sé því mat stofnunarinnar að stofnunin hafi ofreiknað ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans að fjárhæð 92.196 kr. Eftirstöðvar skuldar hans í dag séu 262.455 kr. Að teknu tilliti til framangreinds þá myndi skuld hans lækka niður í 170.259 kr. Þar sem búið sé að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til nefndarinnar hafi stofnunin ekki leiðrétt skuldastöðu hans hjá stofnuninni heldur bíði niðurstöðu nefndarinnar.

Athugasemdir Vinnumálastofnunar voru sendar kæranda til kynningar með tölvupósti þann 7. desember 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar. Skuld kæranda á annars vegar rætur sínar að rekja til þess að kærandi var í hlutastarfi hjá C og D samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga en ekki lágu fyrir upplýsingar um laun hans fyrr en eftir að greiðsla þeirra fór fram. Hins vegar á skuldin rætur sínar að rekja til þess að kærandi fékk greiddar lífeyrisgreiðslur samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og voru raungreiðslur hans iðulega hærri en tekjuáætlun sagði til um.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt af atvinnuleysisbótum vegna tekna og hljóðar málsgreinin svona:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Af framangreindu lagaákvæði er ljóst að hinum tryggða er skylt að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi byggir á því að hann hafi engar upplýsinar fengið um að honum bæri að skila inn tekjuáætlun. Af samskiptasögu hans í málinu má ráða að hann fékk upplýsingar þar að lútandi. Sérstaklega má benda á bréf, dags. 9. apríl 2013, sem kærandi fékk frá Vinnumálastofnun þar sem starfsmaður stofnunarinnar segir að áætlun kæranda vegna lífeyrisgreiðslna hafi verið of lág en hún hafi lagað áætlun þessa í samræmi við upplýsingar sem kærandi hafi veitt með tölvupósti 8. apríl 2013. Þá koma upplýsingar um framangreint fram á heimasíðu Vinnumálastofnunar og einnig eru slíkar upplýsingar veittar á kynningarfundi stofnunarinnar sem kærandi mætti á 14. júní 2011, samkvæmt gögnum málsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að útreikningur stofnunarinnar á skuldamyndun hans sé rangur. Misræmi er í gögnum málsins um skuldastöðu kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er fjárhæð skuldar kæranda röng í greinargerð stofnunarinnar. Úrskurðarnefndin óskaði eftir sundurliðuðum útreikningum á kröfu Vinnumálastofnunar með tölvupósti þann 6. október 2015. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni kom í ljós við yfirferð stofnunarinnar að útreikningarnir voru rangir. Krafa Vinnumálastofnunar var hærri en hún átti að vera. Stofnunin hefur því viðurkennt að útreikningarnir voru rangir.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar ómerkt og málinu vísað til stofnunarinnar til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um útreikning á skuldamyndun kæranda er ómerkt og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til meðferðar að nýju.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta