Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 155/2023-Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 155/2023

Fimmtudaginn 10. ágúst 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með erindi, dags. 28. júní 2023, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 155/2023 þar sem kæru hans var vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur væri liðinn.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði látið hjá líða að tilkynna stofnuninni um ástundun náms. Þá var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 24. október 2022 sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. mars 2023 vegna þeirrar ákvörðunar. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 25. maí 2023 en kærunni var vísað frá á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kæranda þyki mat úrskurðarnefndar velferðarmála, um að ekkert bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr, afar sérstakt þar sem upplýsingar þær sem hann hafi fengið frá starfsmönnum Vinnumálastofnunar um að ekki hefði verið rétt farið að í hans máli hafi hann ekki fengið fyrr en að kærufresti liðnum. Þær upplýsingar séu aðal ástæðan fyrir því að hann hafi lagt fram kæruna og því geti hann ekki séð hvernig hægt sé að halda því fram að ekki sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.

Þær upplýsingar sem um ræði séu í fyrsta lagi að miða ætti við önnina og lok hennar en ekki lok varnar og því hefði kærandi átt að geta sótt um bætur að nýju 1. janúar en ekki 14. febrúar líkt og honum hafi verið sagt af öðrum starfsmanni Vinnumálastofnunnar og kærandi hafi farið eftir. Kærandi líti á þessar upplýsingar sem hann hafi fengið sem áreiðanlegar þar sem þær hafi komið frá lögfræðingi Greiðslustofu sem hafi unnið þar í 12 ár. Það verði að teljast afar sérstakt að miðað sé við upphaf annar en ekki lok annar, heldur dagsetningu sem kærandi hafi fengið úthlutaða fyrir vörn ritgerðar sem hafi verið einum og hálfum mánuði eftir lok annar. Samkvæmt þessum nýju upplýsingum hafi verið brotið á rétti kæranda með röngum upplýsingum af hálfu starfsmanns Vinnumálastofnunar. Einnig sé miðað við upphaf annar en ekki 16. september, sem kærandi hafi sýnt fram á að væri sá dagur sem hann hafi byrjað námið.

Í öðru lagi þær upplýsingar um að ekki væri miðað við einingafjölda þegar nám sé skilgreint sem nám samhliða vinnu. Þessar upplýsingar hafi kærandi fengið frá starfsmanni sem hafi unnið hjá Vinnumálastofnun í 15 ár og telji hann þær áreiðanlegar. Samkvæmt starfsmanninum hefði kæranda átt að vera bent á í byrjun að gera námssamning, þar sem fram kæmi að um nám samhliða vinnu væri að ræða. Það hafi honum hins vegar aldrei verið bent á heldur aðeins að umrætt nám mætti ekki stunda með atvinnuleysisbótum, sem samkvæmt nýjum upplýsingum sé ekki rétt.

Einnig komi fram í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Varðandi þetta bendi kærandi á að frá hans bæjardyrum séð séu þetta gríðarlega veigamiklar ástæður. Í fyrsta lagi hafi þetta haft mikið fjárhagslegt óöryggi í för með sér og skuldasöfnun sem annars hefði verið hægt að komast hjá. Í öðru lagi telji kærandi mikilvægt að Vinnumálastofnun sinni leiðbeiningarskyldu sinni af kostgæfni og leiðbeini þeim sem þangað sæki í rétta átt. Mikilvægt sé að aðrir lendi ekki í sömu stöðu í samskipum sínum við stofnunina. Að auki komi fram í kafla I. Málsatvik og málsmeðferð að bótaréttur hafi fallið niður vegna þess að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna stofnunninni um ástundun náms. Það sé einfaldlega ekki rétt því kærandi hafi hringt í Vinnumálastofnun fyrir nám og rætt við fulltrúa sem hafi tjáð honum að hann hefði tíma til þess að útvega fjármagn til þess að geta stundað námið og ætti að skrá sig af bótum þegar það væri í höfn, sem og hann hafi gert.

Enn sitji eftir þær spurningar hvort þessir starfsmenn hafi farið með rangt mál, sem kæranda þætti afar ósennilegt, enda hefðu þeir enga ástæðu til. Hvort miðað sé við einingafjölda þegar um sé að ræða nám sem sé ætlað samhliða vinnu og hvort miðað sé við lok varnar líkt og gert hafi verið í tilfelli kæranda eða námsönnina. Lögfræðingur Greiðslustofu sem hafi unnið þar í 12 ár hafi sagt að engin fordæmi væru fyrir slíku og því hefði kærandi fengið rangar upplýsingar hvað það varði hjá Vinnumálastofnun.

Að lokum komi fram í niðurstöðu úrskurðarins að gögn máls bentu ekki til þess að hin kærða ákvörðun hefði verið efnislega röng. Kærandi spyrji því hvort það sé þá rétt að miðað sé við lok varnar í stað hefðbundinnar námsannar og að miðað sé við einingafjölda þegar um sé að ræða nám ætluðu samhliða vinnu. Þá hafi þessir ágætu starfsmenn, annars vegar lögfræðingur Greiðslustofu með 12 ára starfsreynslu og hins vegar starfsmaður Vinnumálastofnunar með 15 ára starfsreynslu báðir að halda einhverju fram sem ekki sé rétt og það væri þá í enn eitt skiptið sem kærandi fengi rangar og villandi upplýsingar frá þessari stofnun. Kærandi verði að viðurkenna að hann sé engu nær og hafi haldið að úrskurðarnefnd velferðarmála myndi veita honum svör með rökstuðningi hvernig þessum málum sé raunverulega háttað.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 25. maí 2023. Með úrskurðinum var kæru vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, vísað frá á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli, rangri túlkun lagaákvæða eða röngu mati.

Í beiðni kæranda um endurupptöku er gerð athugasemd við þá afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti. Einnig rökstyður kærandi þá afstöðu sína að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til athugasemda kæranda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda athugasemdir kæranda í endurupptökubeiðni efnislega samhljóða þeim sem fram komu í kæru til nefndarinnar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 155/2023 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 155/2023 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta