Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 112/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 112/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. ágúst 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 14. ágúst 2009 tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Ástæðan var sú að kærandi virtist ekki vera í virkri atvinnuleit og búsettur erlendis á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði faðir kæranda, hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, fyrir hönd kæranda, með bréfi, dags. 20. október 2009, og krefst þess að kæranda verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi staðfesti atvinnuleit sína á heimasíðu Vinnumálastofnunar frá Taílandi þann 24. júní 2009. Hann var í kjölfarið beðinn um að skýra dvöl sína í útlöndum innan sjö daga frá dagsetningu bréfs, þann 6. júlí 2009, þar að lútandi. Hann hafði ekki samband við stofnunina og með öðru bréfi, dagsettu þann 23. júlí 2009, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði fjallað um mál hans á fundi sínum þann 21. júlí 2009 og ákveðið að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um virka atvinnuleit. Bréf stofnunarinnar vegna staðfestingar á atvinnuleit var endursent þann 28. júlí 2009. Kærandi krafðist, með bréfi dags. 20. ágúst 2009, rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans frá 21. júlí 2009. Rökstuðningurinn var veittur með bréfi dags. 9. september 2009. Hin kærða ákvörðun var síðan tekin þann 14. ágúst 2009 eins og fram hefur komið.

Af hálfu kæranda kemur fram að bréf Vinnumálastofnunar frá 6. júlí 2009 hafi ekki borist honum og heldur ekki bréf stofnunarinnar frá 23. júlí 2009. Hann hafi eðlilega ekki getað sent umbeðnar skýringar þar sem hann hafi ekki fengið umrædd bréf. Það sé því ljóst að andmælaréttur hans með vísan til stjórnsýslulaga hafi verið brotinn. Þá hafi ekki verið stuðst við meðalhófs- eða rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né aðrar stjórnsýslureglur við úrlausn málsins. Kærandi kveðst hvorki hafa farið í atvinnuleit til útlanda eða í leyfi. Hann hafi ekki verið í útlöndum í júní 2009 og eigi því ekki til flugfarseðla. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar frá 5. ágúst 2009 kemur fram hjá föður kæranda að hann hafi sjálfur stimplað son sinn frá útlöndum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. febrúar 2010, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það markmið laganna að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamann. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laganna sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun geri miklar kröfur um að umsækjendur um atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit og hafnar stofnunin því að atvinnuleitandi geti heils hugar sinnt virkri atvinnuleit einvörðungu á rafrænan máta. Umsækjendum um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun sé gert að hafa reglulega samband við stofnunina og sé það liður í að sýna fram á að þeir séu virkir í atvinnuleit.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að hún hafi ítrekað gert tilraunir til að hafa samband við kæranda með því að senda bréf á aðsetur sem skráð sé í kerfi stofnunarinnar og á lögheimili. Þá hafi stofnunin margoft hringt í síma kæranda án árangurs. Vinnumálastofnun telur umsækjendur um atvinnuleysisbætur sjálfa bera ábyrgð á því að heimilisfang þeirra sem og símanúmer sé rétt skráð hjá stofnuninni. Kærandi hafi ekki mætt í þau viðtöl er stofnunin hafi með tiltækum ráðum reynt að boða hann til. Þá hafi ekki tekist að ná sambandi við hann er ákvörðunin var tekin. Það sé því ekki hægt að líta svo á að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit.

Bréf sem úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur sent kæranda hafa verið endursend og hafa tilraunir til þess að hafa símasamband við hann verið árangurslausar. Kæranda var því send með tölvupósti, þann 8. febrúar 2010, greinargerð Vinnumálastofnunar og önnur gögn málsins og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða óskaði þess að kærandi sendi nefndinni umboð til föður síns vegna málsins og barst umboðið þann 1. mars 2010.

 

2.

Niðurstaða

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin hafði Vinnumálastofnun undir höndum gögn sem bentu til þess að kærandi hefði staðfest atvinnuleit sína frá Taílandi. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru stöðvaðar og honum tilkynnt það með bréfi. Í þessu bréfi var honum gefinn kostur á að andmæla ákvörðun stofnunarinnar. Bréfið var sent á heimilisfang kæranda og jafnframt var ítrekað reynt að ná símasambandi við hann en án árangurs. Vinnumálastofnun hafði því gert allt sem í hennar valdi stóð til að koma upplýsingum til kæranda vegna þessa. Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið kæranda að andmælaréttur hafi verið brotinn gagnvart honum enda stendur það kæranda næst að sjá til þess að réttar upplýsingar um heimilisfang og símanúmer liggi fyrir hjá Vinnumálastofnun.

Svo atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit þarf hann að vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. d-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt verður að líta til þess að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá í virkri atvinnuleit sem er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og honum ber án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt þessum málslið, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Það er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2009, að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar um slíkar bætur skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit, skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti og taka skal fram ástæður þess að atvinnuleit var hætt, sbr. 10. gr. laganna.

Kærandi sinnti ekki skyldu sinni samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum og því verður ekki komist hjá að fallast á þau sjónarmið Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit þegar atvinnuleysisbætur voru felldar niður. Þá braut kærandi þá skyldu sína sem atvinnuleitandi að upplýsa Vinnumálastofnun um breytta hagi sína. Með hliðsjón af framanröktum ákvæðum 9., 10. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur til kæranda staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. ágúst 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta