Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 122/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 122/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. október 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 21. október 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 8. september 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 1. mgr. 61. gr. sömu laga um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. nóvember 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Samkvæmt kæru lauk fæðingarorlofi kæranda 26. apríl 2009 en samhliða orlofinu stundaði hún nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands á vorönn 2009. Námið var 30% af heildarnámi á önn, þ.e. 6 einingar. Fram að setningu laga nr. 37/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, gilti sú stjórnsýsluframkvæmd að námsmenn, í sömu sporum og kærandi, mættu vera í námi en áttu þrátt fyrir það rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Þetta byggðist á skilgreiningu laganna á námi, sbr. þágildandi c-lið 3. gr. laganna. Eftir að lög nr. 37/2009 voru birt 7. apríl 2009 gilti sú regla að námsmenn, í sambærilegri stöðu og kærandi, ættu ekki rétt til atvinnuleysisbóta, sbr. gildandi c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Að mati kæranda hafði Vinnumálastofnun ekki komið þessum upplýsingum á framfæri áður en hún ákvað að skrá sig í áframhaldandi nám á haustönninni 2009.

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi með rafrænni umsókn sótt um atvinnuleysisbætur og var umsóknin staðfest í lok maí 2009. Kærandi hóf töku atvinnuleysisbóta 1. júní 2009 og átti fullan bótarétt. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2009, var kæranda gefinn kostur á að taka starfi í B-stað hjá fyrirtækinu C ehf. Kærandi, sem ala þarf önn fyrir tveimur ungum börnum, taldi starfið ekki henta sér eftir að hafa rætt við forstjóra fyrirtækisins. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2009, tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hún myndi ekki þiggja starfið hjá C ehf. og benti á að hún og forstjórinn hefðu sammælst um að óþarfi væri að ræða nánar hvort hún tæki starfið. Með bréfi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2009, var kæranda tilkynnt að hún glati rétti til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 9. september 2009 en þá tók Greiðslustofa Vinnumálastofnunar ákvörðun þess efnis. Ákvörðunin var reist á því að kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með tveimur bréfum, dags. 3. september 2009, er staðfest, annars vegar af kæranda og hins vegar af Fjölbrautaskóla Suðurlands, að kærandi hafi hætt námi eftir vorönn 2009. Að fengnum tilmælum Vinnumálastofnunar sótti kærandi um atvinnuleysisbætur aftur með umsókn sem dagsett var 8. september 2009. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2009, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt en að réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir með vísan til 1. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í kæru er lögð áhersla á að kærandi hafi ekki stundað námið og því hafi hún ekki getað hætt í því.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 23. febrúar 2010, er vísað í 1. mgr. 55. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. og 2. mgr. 61. gr. laganna um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvörðunar. Bent er á að í athugasemdum við 1. mgr. 55. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið skýrt þröngt sem hafi þýtt í raun og veru að fá tilvik falli þar undir. Ágreiningurinn í máli þessu snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir því að hætta námi sínu teljist gildar í skilningi framangreindra ákvæða.

Þá kemur fram að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og því beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum eða hætta námi sínu um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi. Kærandi hafi unnið að því að ljúka stúdentsprófi, en hafi skotið því á frest ótímabundið með því að hætta námi sínu. Kæranda hafi mátt vera það ljóst að það væri erfiðleikum bundið fyrir hana að komast í starf og með því að hætta námi sínu hafi hún tekið ákvörðun um að vera skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun í stað þess að halda áfram námi sínu.

Það er mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hún hætti námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og sé bótaréttur hennar því felldur niður í 60 daga, sbr. 1. mgr. 55. og 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði þess að fara á nýtt bótatímabil og af því leiði að núverandi bótatímabil kæranda haldi áfram að líða, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta teljist hluti þess tímabils.

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun á rót sína að rekja til umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur sem barst 8. september 2009. Tveimur dögum síðar, eða 10. september 2009, var kæranda tilkynnt að greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar væri frestað um 40 daga með stoð í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði ekki þá ákvörðun heldur þá ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. október 2009 að ákvarða sér 60 daga biðtíma frá og með 8. september 2009. Síðarnefnda ákvörðun byggist á því að um ítrekunaráhrif sé að ræða, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eða eftir atvikum 1. mgr. 56. gr. sömu laga.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hafði hún ekki áður sætt viðurlögum í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 61. gr. laganna. Þegar af þessum ástæðum var ekki hægt að beita þeim ákvæðum til að ákvarða henni viðurlög vegna brotthvarfs hennar úr námi. Jafnframt ber að líta til þess að samkvæmt vottorði Fjölbrautaskóla Suðurlands, dags. 3. september 2009, hafði kærandi hætt námi 31. maí 2009. Aðstæður hennar að öðru leyti gáfu tilefni til að ætla að ákvörðun hennar um að halda ekki áfram námi væru gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, m.a. vegna skorts á leiðbeiningum af hálfu Vinnumálastofnunar um hvaða breytingar lög nr. 37/2009 hefðu í för með sér og því hversu takmörkuðu námi hún var í samhliða fæðingarorlofi vorið 2009. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og mælt fyrir um að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá og með 8. september 2009 en þó ekki í 40 daga frá og með 10. september 2009 að telja.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. september 2009 gat samkvæmt efni sínu aldrei stuðst við 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heldur varð að byggjast á 1. mgr. 57. gr. sömu laga enda hafði kærandi hafnað starfi en ekki hafnað því að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. október 2009 í máli A er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 8. september 2009 en þó ekki í 40 daga frá og með 10. september 2009 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta