Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 36/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 36/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að þann 26. nóvember 2008 samþykkti Vinnumálastofnun umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur frá 8. október 2008. Bótaréttur kæranda var hins vegar skertur vegna fjármagnstekna kæranda. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 9. desember 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að leigutekjur sem hún hafi af eignum sínum séu dregnar frá atvinnuleysisbótum hennar. Kærandi á þrjár íbúðir í R, en hún leigir út þriggja herbergja íbúð að S nr. 5 og tveggja herbergja íbúð að T nr. 20 og býr sjálf í íbúð á U nr. 4. Kærandi kveðst hafa komið því á framfæri að þessar tekjur séu á engan hátt notaðar til að framfleyta henni heldur fari þær beint í afborganir á áhvílandi lánum á eignunum sem séu leigðar út. Lánin hafi verið tekin til að kaupa eignirnar. Hún fari því fram á að þessar leigugreiðslur verði ekki dregnar af atvinnuleysisbótum hennar. Kærandi kveðst ekki hafa neinn ágóða af þessum leigutekjum heldur greiði hún með eignunum. Fram kemur af hálfu kæranda að ef hún hefði selt íbúðirnar sem hún leigir út og greitt niður skuldir sem hvíli á íbúðinni sem hún býr í, hefði hún ekki fengið neinar athugasemdir eða frádrátt frá Vinnumálastofnun. Kærandi kveðst ekki hafa möguleika á að selja eignirnar, hún sitji uppi með þær og hún spyr hvort þetta stríði ekki gegn jafnræðisreglu.

Fram kemur að afborganir af lánum og fasteignagjöld af íbúðinni á S nr. 5 nemi samtals 114.335 kr. á mánuði. Leigutekjur eru 90.000 kr. mánaðarlega og af þeirri fjárhæð greiðir kærandi í skatt 9.000 kr. Mismunurinn er 32.335 kr. sem kærandi kveðst greiða úr eigin vasa.

Afborganir af lánum og fasteignagjöld af íbúðinni á T nr. 20 nema samtals á mánuði 93.770 kr. Leigutekjur eru 85.000 mánaðarlega og af þeirri fjárhæð greiðir kærandi í skatt 7.650 kr. Mismunurinn er 17.270 kr. sem kærandi kveðst greiða úr eigin vasa.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. febrúar 2009, kemur fram að á fundi stofnunarinnar þann 26. nóvember 2008 hafi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verið samþykkt. Vísað er til 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún fjallar um frádrátt vegna tekna. Fram kemur að með skýru orðalagi 1. mgr. 36. gr. laganna sé mælt fyrir um skerðingu á bótarétti til handa tryggðum samkvæmt lögunum njóti þeir annarra tekna, s.s. fjármagnstekna. Þar sem kærandi hafi slíkar tekjur skerðist réttur hennar í samræmi við það. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi vísi í kæru sinni til sjónarmiða um jafnræði og réttlæti. Hvað þau sjónarmið kæranda varði beri að taka það fram að það sé ekki hlutverk Vinnumálastofnunar að meta hvort þau lög sem stofnunin starfi eftir geti leitt til niðurstöðu fyrir einstaklinga sem sé í einhverjum tilfellum ,,óréttlát” að þeirra mati heldur beri að beita lögunum með hlutlægum hætti að teknu tilliti til þeirra krafna sem skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins setji stofnuninni. Jafnframt er tekið fram að sú krafa felist í jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að sambærileg mál í lagalegu tilliti hljóti sams konar úrlausn og það hafi stofnunin gert í máli kæranda. Vinnumálastofnun telur því rétt að skerða bætur kæranda í samræmi við reglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt af atvinnuleysisbótum vegna tekna og hljóðar greinin svona:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.-34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 2. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum og fjármagnstekjur hins tryggða. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Samkvæmt 1. tl. C liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt eru leigutekjur fjármagnstekjur. Leigutekjur kæranda af eru því fjármagnstekjur og í framangreindri 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur skýrt fram með hvaða hætti skuli skerða atvinnuleysisbætur hins tryggða þegar hann nýtur fjármagnstekna. Í því sambandi skiptir skuldastaða kæranda ekki máli, þ.e. ekki er unnt að líta fram hjá skyldunni til skerðingar bóta á þeim grundvelli að kærandi noti tekjurnar til að greiða af skuldum. Slík niðurstaða væri ekki í samræmi við lögin og í henni fælist brot á jafnræði gagnvart þeim sem ekki geta bent á skuldir á móti slíkum tekjum. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða atvinnuleysisbætur til kæranda í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða bótarétt A vegna leigutekna hennar er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta