Mál nr. 184/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 184/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 6. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 3. september 2010 fjallað um mál kæranda og tekið þá ákvörðun að fella niður bótarétt hennar í 40 daga sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, vegna höfnunar kæranda á atvinnutilboði. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 7. janúar 2009 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn.
Í júlímánuði 2010 var ferilskrá kæranda send til verslunarinnar X ehf. og var kærandi í kjölfarið boðuð í viðtal hjá fyrirtækinu. Í ágúst 2010 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar frá verslunarstjóranum í versluninni X þess efnis að kærandi hafi tekið það fram í starfsviðtalinu að hún vilji ekki vera ein í afgreiðslu verslunarinnar og sökum þess hafi kærandi ekki verið ráðin til starfa hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum athugasemdum frá kæranda vegna þessara atvika í máli hennar, með bréfi dags. 20. ágúst 2010. Kærandi færði fram skýringar í tölvupósti til Vinnumálastofnunar, dags. 25. ágúst 2010, og segir að um misskilning sé að ræða, henni hafi ekki verið boðið starfið og því hafi hún ekki hafnað starfi.
Afstaða kæranda til höfnunar á starfi hjá X ehf. var tekin fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 3. september 2010. Kæranda var í kjölfarið sent erindi þar sem henni var tilkynnt um tveggja mánaða niðurfellingu á bótarétti kæranda.
Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda, dags. 14. september 2010, þar sem hún fer fram á endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar um niðurfellingu bótaréttar, þar sem hún telji að niðurstaðan hafi verið byggð á röngum upplýsingum. Kærandi ítrekar að henni hafi ekki verið boðið umrætt starf og fer fram á að Vinnumálastofnun rökstyðji ákvörðun sína frá 6. september 2010 og færi einnig sönnur fyrir því að kæranda hafi verið boðið umrætt starf. Samkvæmt athugasemd í samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar, tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun á fundi stofnunarinnar þann 22. september 2010, að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar um tveggja mánaða biðtíma kæranda eftir atvinnuleysisbótum.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. september 2010, ítrekar kærandi þá kröfu sína að Vinnumálastofnun sýni fram á að henni hafi verið boðið umrætt starf og hafnað því. Kærandi vísar til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi ítrekar að henni hafi aldrei verið boðið umrætt starf og fer því fram á að Vinnumálastofnun færi sönnur á að skilyrðum viðurlaga sem fram koma í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé fullnægt. Kærandi kveðst tvisvar hafa mótmælt niðurstöðu Vinnumálastofnunar um að hún hafi hafnað umræddu starfi, en Vinnumálastofnun hafi ekki tekið skýringar hennar gildar og stofnunin hafi ekki fært fram neinn rökstuðningi fyrir því.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dags. 9. maí 2011, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin vísar til greinargerðar sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, en þar eru tilgreindar ástæður sem geta komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima, við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að viðeigandi flytji búferlum.
Vinnumálastofnun vísar til ummæla kæranda í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. september 2010, um að henni hafi ekki verið boðið umrætt starf hjá X hf. og þeirrar kröfu kæranda að Vinnumálastofnun færi fyrir því sönnur að henni hafi í raun verið boðið starf sem hún í kjölfarið hafi hafnað. Vinnumálastofnun telur ljóst að kærandi hafi farið í atvinnuviðtal hjá X hf., eins og fram kemur í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 25. ágúst 2010. Þar segi kærandi að hún hafi farið í atvinnuviðtal hjá fyrirtækinu en að henni hafi ekki verið boðið starfið í kjölfarið. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi verið boðuð í atvinnuviðtal hjá umræddum atvinnurekanda vegna þess að hún hafi skráð verslunarstörf sem óskastarf í umsókn sína um atvinnuleysisbætur og einnig hafi kærandi haft reynslu af verslunarstörfum. Tilgangur með starfsviðtali hafi verið að fá kæranda til starfa. Vinnumálastofnun vísar til upplýsinga frá X ehf. um starfsviðtal kæranda, en starfsmannastjóri fyrirtækisins hafi veitt Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hafi tjáð sér að hún vildi ekki starfa einsömul í verslun. Þau ummæli kæranda hafi orðið til þess að ekki hafi orðið af ráðningu hjá fyrirtækinu.
Vinnumálastofnun áréttar að 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi er boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn að ganga í þau störf, líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga. Telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn ekki sinnt atvinnuviðtali í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því sú að ákvörðun stofnunarinnar um að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi skuli standa.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Í 4. mgr. 57. gr. kemur fram að við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta hvort ákvörðun atvinnuleitanda um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra fjölskyldumeðlima. Er því ljóst að atvinnuleitanda er eingöngu heimilt að hafna starfi án þess að þurfa að sæta viðurlögum, ef höfnunin var réttlætanleg á grundvelli þeirra ástæðna sem taldar eru upp í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi hefur fært fram þær skýringar að henni hafi ekki verið boðið starfið og því sé ekki um höfnun á starfi að ræða. Ljóst er að kærandi var boðuð í atvinnuviðtal og þar tók hún skýrt fram að hún myndi ekki vilja starfa ein í verslun atvinnurekandans. Staðfesting liggur fyrir frá viðkomandi atvinnurekanda um að kæranda hafi ekki verið boðið umrætt starf á grundvelli þeirra ummæla sinna. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga er að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Er þar tekið fram að umsækjandi þurfi m.a. að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir. Kærandi reyndist ekki reiðubúin að taka því starfi sem í boði var, en ekki verður séð að það að vilja ekki starfa einn síns liðs í verslun geti talist gild ástæða fyrir höfnun á starfi. Atvinnuleitandi sem er ekki reiðubúinn að ganga í þau störf sem bjóðast, á að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber kæranda því að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. september 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson