Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 7/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 7/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að kærandi, A, fékk sent innheimtubréf, dags. 20. júlí 2012, þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 20. maí 2009 til 19. febrúar 2012 að fjárhæð 579.564 kr. ásamt 15% álagi, þ.e. 86.930 kr., eða samtals 666.464 kr. vegna tekna. Skuldin væri innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 9. janúar 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vinnumálastofnunar telur að vísa skuli málinu frá þar sem kæran sé of seint fram komin.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 9. janúar 2013, að hann telji Vinnumálastofnun ekki hafa málefnalega heimild til að beita úrræðinu sem ákvörðunin byggi á með afturvirkum hætti. Byggt sé á því að ákvörðunin nái þrjú ár aftur í tímann, en ljóst sé að stofnunin hafi bæði skyldu og öll tækifæri til að hafa betri gætur á forsendum útreikninga greiðslna til skjólstæðinga sinna. Þessari ábyrgð telur kærandi að eigi ekki að vera að fullu varpað á skjólstæðinga stofnunarinnar með afturvirkum hætti. Varðandi kærufrest þá vísar kærandi til þess að hann hafi ekki gert sér grein fyrir áhrifum stjórnsýslukæru og talið að vísað væri til þess að hægt væri að höfða dómsmál.

 


 

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar- atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. mars 2012, kemur fram að Vinnumálastofnun telji að vísa beri kæru kæranda frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn vegna ákvörðunar sem tekin hafi verið 20. júlí 2012 um innheimtumeðferð á skuld kæranda við stofnunina vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta til hans. Engar skýringar hafi komið fram sem réttlæti töf á kæru.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. apríl 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. apríl 2013. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 17. maí 2013.

 

Í athugasemdum sínum greinir kærandi frá því að hann hafi haldið að einungis væri unnt að leita til dómstóla með ágreining við Vinnumálastofnun. Kærandi vísar í álit umboðsmanns Alþingis, nr. 64433/2011, til stuðnings því að taka skuli kæru hans til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn þar sem veigamiklar ástæður standi til þess.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 


 

 

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 9. janúar 2013. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda hefur verið honum kunn frá því hann fékk innheimtubréf stofnunarinnar dags. 20. júlí 2012. Í bréfi Vinnumálastofnunar kemur meðal annars skýrlega fram að ef viðtakandi hafi athugasemdir við efni bréfsins eða vilji hann koma að andmælum og frekari skýringum skuli hann hafa samband í tölvupósti á ákveðið netfang hjá stofnuninni. Þá kemur einnig skýrlega fram að viðtakanda sé heimilt að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins, sbr. og 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Þá er jafnframt greint frá heimilisfangi úrskurðarnefndarinnar og símanúmeri.

 

Samkvæmt gögnum málsins fóru fram tölvupóstsamskipti á milli starfsmanns Vinnumálastofnunar við kæranda 26. júlí og 30. júlí 2012 en í tölvupósti 30. júlí 2012 greinir starfsmaðurinn kæranda frá því að heimilt sé að kæra ákvörðunina og bendir á upplýsingar sem komi fram í innheimtubréfi, dags. 20. júlí 2013.

 

Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


 

Úrskurðarorð

 

Kæru A dags. 9. janúar 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta