Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 431/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 431/2020

Þriðjudaginn 15. desember 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. september 2020, kærði B f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. júlí 2020, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. maí 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun  á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns sem sætti sóttkví. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. júlí 2020, var samþykkt að greiða kæranda 5.688 kr. vegna viðkomandi starfsmanns. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. september 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. september 2020. Með bréfi, dags. 15. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 15. október 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að starfsmanni fyrirtækisins hafi verið gert að ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að sæta sóttkví á tímabilinu 3. til 17. mars 2020. Starfsmaðurinn hafi unnið tvær vaktir í viku í fjóra tíma í senn og hafi því verið í sóttkví í fjórar vaktir, eða 16 klukkustundir. Fyrirtækið hafi ákveðið að greiða starfsmanninum laun í sóttkví og sækja um endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 24/2020. Starfsmaðurinn hafi haldið fullum launum og því fengið greiddar 16 klukkustundir vegna launa í sóttkví frá fyrirtækinu og 16,27 klukkustundir vegna unninna stunda fyrir mánuðinn. Hann hafi því verið fjarverandi á launum í sóttkví tæplega helming launamánaðarins. Tímakaup starfsmannsins sé 2.400 kr. og orlof 10,17%. Samtals hafi fyrirtækið því greitt starfsmanninum 85.324 kr., þar af 42.306 kr. vegna launa í sóttkví. Endurgreiðsla Vinnumálastofnunar vegna í launa í sóttkví, að fjárhæð 5.668 kr., nemi því einungis um 13,4% af greiðslu félagsins en þá sé ekki tekið tillit til launatengdra gjalda. Það sé alls óvíst hvort fyrirtækið hefði tekið að sér, umfram skyldu, að greiða starfsmanninum laun í sóttkví hefði það haft vitneskju um að endurgreiðslan yrði þessi. Markmið laganna, að styðja atvinnurekendur sem greiði launamönnum sem sæti sóttkví í þeirri viðleitni að tryggja að starfsmenn þeirra sem svo sé ástatt um geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni, sé bersýnilega stefnt í hættu.

Í lögum nr. 24/2020 séu allir dagar almanaksmánaðarins lagðir til grundvallar, jafnframt frídagar en hámarksgreiðsla á dag sé fundin með því að deilda 30 með 633.000 kr. Það séu því einungis þær heildartekjur sem starfsmaður fái í þeim launamánuði sem honum sé gert að sæta sóttkví og tímalengd sóttkvíarinnar sem skipti máli. Engu máli skipti hversu marga vinnudaga starfsmaðurinn hefði átt að vinna á meðan hann sætti sóttkví. Þessi leið sé rökrétt, enda ekkert beint samhengi á milli tekjutjóns fyrirtækisins og fjölda vinnudaga starfsmanns sem geti verið mislangir. Þetta sé skýrt nánar í athugasemdum með 6. gr. í frumvarpi til laganna. Kærandi telji túlkun og útreikning Vinnumálastofnunar ranga og fer fram á að fá greiddan þann mismun sem það eigi rétt á samkvæmt ákvæðum laganna og þeirri fjárhæð sem greidd hafi verið, eða 36.617 kr. Til vara gerir kærandi þá kröfu að sú aðferð sem lögð sé til grundvallar í athugasemdum með frumvarpi til laganna verði lögð til grundvallar, þ.e. að heildarlaun starfsmannsins þann launamánuð sem honum hafi verið gert að sæta sóttkví, 85.324 kr., verði deilt niður á 30 daga og greiddir verði 14 dagar miðað við þá fjárhæð. Starfsmaðurinn hafi verið í sóttkví í 14 daga og endurgreiðsla ætti því að vera 39.818 kr. (2.844*14) að frádreginni innborgun Vinnumálastofnunar að fjárhæð 5.688 kr. Til vara geri fyrirtækið því þá kröfu að fá mismuninn greiddan samkvæmt þessari aðferð, samtals 34.130 kr.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mál þetta varði útreikning Vinnumálastofnunar vegna launa starfsmanns kæranda sem hafi sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Þar segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum komi fram að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann hafi sætt sóttkví en með almanaksmánuðum sé átt við þau tilvik þegar sóttkví vari yfir mánaðamót. Gert sé ráð fyrir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að sæta sóttkví. Í greinargerðinni sé áréttað að til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Þannig myndi atvinnurekandi sem hafi greitt laun til launamannsmanns í sóttkví eiga rétt á greiðslu í réttu hlutfalli við mánaðarlaun sem hann hafi greitt launamanninum en þó aldrei hærri en sem nemi 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð að uppfylltum öllum skilyrðum, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Í ljósi þess að miðað sé við 30 daga í mánuði þegar fundin sé út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag myndu hámarkgreiðslur til atvinnurekanda vegna hvers dags sem atvinnurekandinn greiðir launamanni sem sætir sóttkví laun þannig nema 21.100 kr.

Í greinargerðinni með frumvarpinu til laganna sé tekið dæmi um það hvernig greiðslur í sóttkví skuli reiknaðar. Þar segi: „Sem dæmi má nefna launamann sem hefur fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fær því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn er í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hafi launamaðurinn verið í sóttkví í 14 daga getur atvinnurekandinn því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000x14).“ Viðkomandi starfsmaður kæranda hafi fengið greiddar 85.324 kr. í þeim mánuði er hann hafi sætt sóttkví. Ávinnslan byggi á 30 daga reiknireglu laganna. Dagsgreiðslur = (laun mánaðar/30) = (85.324 kr./30) = 2.844 kr. Heildargreiðslur = (Dagsgreiðslur*Starfsdagar í sóttkví) = (2.844*2) = 5.688 kr. Á þessum grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að greiðslur í sóttkví vegna starfsmannsins, sem hafi misst tvo daga í vinnu vegna þess að hann sætti sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, skyldu vera 5.688 kr.

Hvað varði varakröfu kæranda vísi Vinnumálastofnun til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 24/2020 þar sem fram komi að í umsókn um greiðslu skuli tilgreina þá einstaklinga sem sótt sé um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta sökum þess að þeim hafi verið gert að vera í sóttkví eða að þeir hafi annast barn í sóttkví. Stofnunin hafni því þeim sjónarmiðum kæranda að greiða skuli fyrir hvern og einn þeirra 14 daga sem starfsmaður hafi sætt sóttkví, enda geri lög nr. 24/2020 ekki ráð fyrir að heimilt sé að greiða umsækjanda umfram þá vinnudaga sem hann hefði ella unnið, hefði ekki komið til sóttkvíar. Með hliðsjón af skýru orðalagi laganna beri stofnuninni að leggja til grundvallar fjölda vinnudaga sem starfsmaður hafi ekki getað sinnt vegna sóttkvíar. 

Í 5. gr. laga nr. 24/2020 komi fram skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Í því samhengi bendi stofnunin á það að lögin geri ráð fyrir því að launþegi hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví, sbr. b. liður 1. mgr. 5. gr. laganna. Auk þess komi fram í c. lið greinarinnar að skilyrði fyrir greiðslum sé að önnur atvik hafi ekki staðið því í vegi að launþegi hafi ekki getað unnið störf sín. Af þessu sé ljóst að einungis komi til greiðslna til launþega þá daga sem viðkomandi hafi átt að vera í vinnu en ekki verið það sökum þess að hann sætti sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. 

Við umsókn um greiðslur skuli einungis gefa upp fjölda starfsdaga starfsmanna, líkt og réttilega hafi verið gert í umsóknum kæranda. Ekki skuli skrá fjölda daga sem viðkomandi starfsmaður hafi verið í sóttkví, enda sé einungis greitt fyrir þá daga sem viðkomandi starfsmaður hefði átt að mæta til vinnu en ekki getað það vegna þess að hann sætti sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Af þeim sökum leggi stofnunin ekki til grundvallar að greiðslur séu ákvarðaðar miðað við sóttkvíardaga viðkomandi starfsmanna.

Með vísan til þess sem hér að ofan greini sé það mat stofnunarinnar að kærandi hafi aðeins átt rétt til greiðslna fyrir þá tvo starfsdaga sem starfsmaðurinn hafi ekki getað sinnt vinnu þar sem hann sætti sóttkví. Stofnuninni hafi borið að leggja til grundvallar þau laun er atvinnurekandi hafi reiknað starfsmanninum í sóttkvíarmánuði, alls 85.324 kr. Lög nr. 24/2020 geri ekki greinarmun á starfshlutfalli starfsmanns og gildi umrædd reikniregla fyrir alla launþega óháð því hvert starfshlutfall viðkomandi starfsmanns sé. Stofnuninni sé ekki heimilt að líta til annarra sjónarmiða en þeirra sem fram komi í fyrrgreindri reiknireglu eins og hún birtist í 6. gr. laganna.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að útreikningi vegna greiðslna í sóttkví til kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda 5.688 kr. á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns sem sætti sóttkví. Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna þeirrar greiðslu. 

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Í 5. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna en þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða atvinnurekanda launakostnað eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að lagt sé til að heimilt verði að greiða atvinnurekanda launakostnað hafi hann greitt launamanni sem sæti sóttkví laun. Gert sé ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði það að launamaður hafi sætt sóttkví og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Þannig sé gert ráð fyrir að ekki geti komið til greiðslna til atvinnurekanda hafi launamaður sinnt starfi sínu áfram þaðan sem hann hafi sætt sóttkví, enda hafi atvinnurekandi þá notið vinnuframlags starfsmannsins á því tímabili sem um ræði hverju sinni. Jafnframt sé gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til atvinnurekanda sé það að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi mætt til vinnu á vinnustað og að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann sætti sóttkví.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/2020 skal greiðsla til atvinnurekanda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laganna segir svo um þessa reiknireglu:

„Þannig myndi atvinnurekandi, sem hefur greitt laun til launamannsmanns í sóttkví, eiga rétt á greiðslu í réttu hlutfalli við mánaðarlaun sem hann greiddi launamanninum en þó aldrei hærri en sem nemur 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð að uppfylltum öllum skilyrðum, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Jafngildir sú hámarksfjárhæð hámarksábyrgð á kröfum launamanna samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa. Í ljósi þess að miðað er við 30 daga í mánuði þegar fundin er út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag myndu hámarkgreiðslur til atvinnurekanda vegna hvers dags sem atvinnurekandinn greiðir launamanni sem sætir sóttkví laun þannig nema 21.100 kr.

Sem dæmi má nefna launamann sem hefur fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fær því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn er í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hafi launamaðurinn verið í sóttkví í 14 daga getur atvinnurekandinn því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000x14).“

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 24/2020 skal í umsókn um greiðslu tilgreina þá einstaklinga sem sótt er um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta sökum þess að þeim var gert að vera í sóttkví eða þeir önnuðust barn í sóttkví. Umsókn skal vera skrifleg og henni skulu fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, þar með talið afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví og launaseðlar fyrir þann almanaksmánuð sem sóttkví stóð yfir sem og undanfarandi almanaksmánuð.

Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslu til kæranda sem greiddi starfsmanni sínum laun á meðan hann sætti sóttkví. Sóttkví starfsmannsins stóð yfir í 14 daga á tímabilinu 3. til 17. mars 2020 en fyrir þann mánuð greiddi kærandi starfsmanninum laun að fjárhæð 85.324 kr., þar af 42.306 kr. vegna launa í sóttkví. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að starfsmaður kæranda hafi misst tvo daga úr vinnu á sóttkvíartímabilinu og því bæri einungis að greiða fyrir þá daga eða 2.844 kr. á dag líkt og reikniregla 6. gr. laga nr. 24/2020 geri ráð fyrir.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á framangreind reikniregla Vinnumálastofnunar sér ekki stoð í lögum nr. 24/2020 og ljóst að hún er í andstöðu við markmið og tilgang laganna. Með framkvæmd Vinnumálastofnunar fær kærandi ekki greiðslu í réttu hlutfalli við þau mánaðarlaun sem hann greiddi starfsmanninum og þar með er útlagður launakostnaður ekki bættur nema að litlu leyti. Úrskurðarnefndin telur að reikna eigi endurgreiðslu til kæranda þannig að heildarlaunum starfsmannsins sé deilt með 30 og margfaldað með tímalengd sóttkvíarinnar. Sá skilningur er í samræmi við orðalag ákvæðis 6. gr. laga nr. 24/2020 og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. júlí 2020, um greiðslu á grundvelli laga nr. 24/2020 til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta