Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 131/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 131/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. desember 2009, vakti Vinnumálastofnun athygli kæranda, A, á því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði II með lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, ljúki bótatímabili hennar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði þann 31. desember 2009. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, mótteknu þann 14. desember 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda kemur fram að hún sé í hlutastarfi á veturna en vinni í 90 klukkustundir á viku á vorin og sumrin.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. mars 2010, kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni fyrir gildistöku laga um atvinnuleysistryggingar þann 15. október 2004. Vinnumálastofnun vísar í bráðabirgðaákvæði II og III með lögum um atvinnuleysistryggingar og bendir á að ákvæði laganna eigi að öllu leyti við um þá sem skráðir hafa verið atvinnulausir fyrir gildistöku laganna, hafi þeir starfað samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Hafi sá tryggði starfað í meira en sex mánuði áður en hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur skuli ekki litið til fyrra bótatímabils samkvæmt eldri lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og ekki gert að skilyrði að eldra tímabili ljúki áður en tímabil skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hefjist.

Samkvæmt greiðslusögu kæranda og fyrirliggjandi gögnum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi ekki starfað í sex mánuði á umræddu tímabili án þess að vera á sama tíma skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þau hlutastörf er kærandi hafi gegnt hafi verið unnin samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá tími sem greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur til bótatímabilsins. Samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi ekki áunnið sér rétt á nýju bótatímabili, hvorki á grundvelli 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar né bráðabirgðaákvæðis III með lögunum. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að bráðabirgðaákvæði II með lögum um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda og geti hún því ekki notið greiðslu atvinnuleysistrygginga eftir 31. desember 2009 nema að öðrum ákvæðum laganna uppfylltum.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. mars 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. apríl 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, öðluðust gildi 1. júlí 2006 og leystu þá af hólmi lög sama efnis nr. 12/1997. Með hinum nýju lögum voru gerðar ýmsar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu, meðal annars var boðið upp á að atvinnuleysisbætur yrðu tekjutengdar í allt að þrjá mánuði frá tilteknu tímamarki, sbr. 32. gr. laganna, og að lengd tímabils sem atvinnuleysisbætur væru greiddar fyrir takmarkaðist við ákveðið hámark, sbr. 29. gr. laganna. Þar sem meginreglur hinna nýju laga gátu annað hvort aukið réttindi þeirra sem voru þá á atvinnuleysisbótum eða dregið úr þeim, var með ákvæðum I–III til bráðabirgða tekin afstaða til réttarstöðu þeirra atvinnuleitanda sem nutu greiðslu atvinnuleysisbóta áður en hin nýju lög komu til framkvæmda. Kærandi var einn þeirra sem tilheyrði þessum hópi atvinnuleitanda.

Fallist verður á það með Vinnumálastofnun að ákvæði II til bráðabirgða hafi átt við um kæranda þegar hin kærða ákvörðun var tekin en lagaákvæðið er svohljóðandi:

Sá sem var skráður atvinnulaus fyrir 15. nóvember 2005 og hefur verið án atvinnu samfellt síðan eða hefur starfað í skemmri tíma en sex mánuði á innlendum vinnumarkaði getur að hámarki átt rétt á grunnatvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum til 31. desember 2009 en þó ekki í lengri tíma en fimm ár frá skráningu hjá svæðisvinnumiðlun að teknu tilliti til starfstímabila hans. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um réttindi hans og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Í ljósi þess að ákvæði þetta mælir fyrir um stöðvun greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 1. janúar 2010 að telja þá verður hin kærða ákvörðun staðfest með vísan til þess rökstuðnings sem Vinnumálastofnun hefur fært fyrir henni.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um það að hún eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta frá og með 1. janúar 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta