Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál 135/2009

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 135/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. nóvember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 21. október 2009 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri í lánshæfu námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. nóvember 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Samkvæmt gögnum sem Vinnumálastofnun barst frá Háskóla Íslands var kærandi skráð í 30 ECTS einingar hjá skólanum á haustönn 2009. Kærandi kveðst vera í fjarnámi á menntavísindasviði Háskóla Íslands og að hún hafi stundað námið með fullri vinnu síðustu þrjú árin. Hún segist vera í þremur áföngum á haustönn og tveimur á vorönn. Hún sé á lokaári og útskrifist vorið 2010. Kærandi kveðst hafa starfað við grunnskólann á B-stað síðustu þrjú ár sem leiðbeinandi samhliða náminu, en hafi misst vinnuna síðastliðið haust. Kærandi kveðst vera barnshafandi og þar sem hún geti ekki sýnt fram á laun síðustu sex mánuði fyrir barnsburð eigi hún ekki rétt á launum í fæðingarorlofinu. Kærandi óskar úrlausnar á sínum málum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dagsettri 29. mars 2010, kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur með umsókn þann 24. ágúst 2009 og að í umsókn hennar hafi komið fram að hún stundi nám. Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 27. september 2009, þar sem fram kom að stofnunin hafi ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur og var henni veittur frestur til að leggja fram skólavottorð vegna náms hennar. Vottorðið barst ekki. Á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi Vinnumálastofnun leitað eftir upplýsingum frá menntastofnunum á Íslandi yfir þá sem eru skráðir í nám og samkvæmt þeim upplýsingum hafi kærandi verið skráð í 30 ECTS einingar á haustönn 2009. Vinnumálastofnun kveðst hafa sent kæranda bréf, dags. 9. október 2009, þar sem tilkynnt var að mál kæranda væri til skoðunar hjá stofnuninni og var henni gefinn frestur til að athuga hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir gerð námssamnings. Kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 14. október 2009, og var mál hennar tekið fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 21. október 2009. Í ljósi þess að nám kæranda er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og með hliðsjón af einingafjölda námsins taldi stofnunin ekki unnt að gera við kæranda námssamning. Þann 10. nóvember var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Ljóst sé af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laganna að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins tekið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Í greinargerðinni bendi Vinnumálastofnun á að undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við í máli kæranda og verði því að álykta svo að meginregla 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt henni teljist kærandi ekki tryggð samkvæmt lögunum og eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sínu.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun Vinnumálastofnunar og með bréfi, dags. 4. desember 2009, var orðið við þeirri beiðni.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. apríl 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 24. ágúst 2009. Með bréfi, dags. 27. september 2009, upplýsti Vinnumálastofnun kæranda að afgreiðslu umsóknar hennar hafi verið frestað. Vinnumálastofnun hafði ekki tekið afstöðu til umsóknar hennar þegar kæranda barst bréf frá stofnuninni, dags. 9. október 2009, um fyrirhugaða stöðvun greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar. Vinnumálastofnun sendi kæranda svo aftur bréf, dags. 11. nóvember 2009, þar sem henni var tilkynnt að þar sem hún hafi verið skráð í nám beri að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Þessi ákvörðun var tekin þótt kærandi hafi aldrei fengið atvinnuleysisbætur greiddar. Mál skýrðust nokkuð eftir að kærandi óskaði eftir rökstuðningi við ákvörðun stofnunarinnar en hann var veittur með bréfi stofnunarinnar dags. 4. desember 2009. Þar kemur fram að sú ákvörðun hafi verið tekin að hafna umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem hún hafi verið námsmaður og eigi ekki rétt á námssamningi.

Kærandi hefur í málflutningi sínum fyrir nefndinni gagnrýnt framangreinda málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Nefndin tekur undir þá gagnrýni kæranda. Mál kæranda var í tilteknum farvegi í kjölfar umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur og bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 27. september 2009. Því var hins vegar kippt út úr þeim farvegi, væntanlega fyrir mistök, og sett í þann farveg að stöðva þyrfti greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna náms hennar. Hin kærða ákvörðun var svo reist á þessum grundvelli. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar, dags. 4. desember 2009, byggist hins vegar á að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli umsóknar hennar frá 24. ágúst 2009. Rökin fyrir þeirri niðurstöðu eru þau að kærandi sé námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hún uppfylli því ekki skilyrði laganna til að fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Þrátt fyrir þau mistök sem gerð voru af hálfu Vinnumálastofnunar við meðferð málsins þykir rétt og nauðsynlegt að ljúka því fyrir úrskurðarnefndinni enda liggja öll gögn þess fyrir. Þá verður talið að Vinnumálastofnun hafi í reynd útskýrt ákvörðun sína á réttum lagagrundvelli með rökstuðningi sínum, dags. 4. desember 2009.

Í 1. mgr. 52. gr. þeirra laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Samkvæmt c-lið 3. gr. laganna er nám skilgreint sem samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur nám á háskóla­stigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hún stundar nám í skilningi laganna.

Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda er 30 ECTS einingar og telst lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli hennar.

Samkvæmt því sem að framan greinir er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að synja kæranda, A um greiðslu atvinnuleysisbóta, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta