Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 281/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 281/2016

Föstudaginn 13. janúar 2017.

A

gegn

barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 5. júlí 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. júní 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er fædd árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir stúlkunnar fór áður ein með forsjá hennar en afsalaði sér forsjánni með yfirlýsingu X. Báðir foreldrar stúlkunnar áttu við vímuefnavanda að etja. Stúlkan fór í tímabundið fóstur frá X til X á meðan móðir hennar ætlaði að taka á vímuefnavanda sínum og bæta aðstæður sínar. Það gekk ekki eftir og fór stúlkan í varanlegt fóstur árið X til móðurömmu sinnar og eiginmanns hennar sem bjuggu þá í Reykjavík en fluttu síðar til D. Fósturrof varð í X og fór stúlkan þá á Vistheimili barna. Í X fór hún svo í fóstur á heimili í F sem ætlað var að standa til 18 ára aldurs. Sú fósturráðstöfun gekk ekki sem skyldi og varð fósturrof í X. Stúlkan fór þá á ný í umsjá móðurömmu og stjúpafa. Hún er nú í varanlegu fóstri hjá þeim. Kærandi er faðir stúlkunnar.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 2012 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári, þrjá tíma í senn og var kveðið á um eftirlit við upphaf og lok umgengni. Skilyrði var um vímuefnaprófun fyrir umgengni. Þá voru símatímar ákveðnir einu sinni í mánuði. Kærunefnd barnaverndarmála staðfesti úrskurðinn með úrskurði 16. janúar 2013.

Samkvæmt því sem fram hefur komið af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur gekk umgengnin ágætlega en kærandi nýtti sér þó ekki alla umgengni sem honum stóð til boða. Fólk úr föðurfjölskyldu kom ávallt með föður í umgengni.

Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. maí 2014 var úrskurðað um umgengni föðurforeldra við stúlkuna og var sá úrskurður staðfestur af kærunefnd barnaverndarmála 25. ágúst 2014. Með úrskurðinum var málinu jafnframt vísað til barnaverndarnefndar Reykjavíkur til meðferðar að nýju, þar sem kröfugerð fósturforeldra, sem laut að því að þeir treystu sér ekki til að skapa stúlkunni öruggar og þroskavænlegar uppeldisaðstæður ef hún væri í samskiptum við kæranda og föðurfjölskylduna og lögðu til að slitið væri á alla umgengni, hafði ekki komið fram við meðferð málsins hjá barnaverndarnefndinni.

Í mati sálfræðings X, sem gert var í tilefni af því að barnaverndarnefndin hafði óskað eftir sálfræðilegu mati á líðan og afstöðu stúlkunnar til umgengni við föðurfjölskyldu, kemur fram að stúlkan hafi greint frá vanlíðan sinni vegna ósættis sem ríkti milli móður- og föðurfjölskyldu. Í matinu segir að samskipti móður- og föðurforeldra virtust slæm og virtist stúlkan mjög meðvituð um þennan ágreining. Samskipti við föður og föðurforeldra hafi reynst stúlkunni krefjandi og virtist sem hún hefði verið dregin inn í deilumál. Stúlkan sé orðin langþreytt á ósættinu sem hafi verið á milli móður- og föðurfjölskyldu. Í matinu kemur enn fremur fram að henni virtist líða vel á fósturheimilinu og virtust góð tengsl vera á milli stúlkunnar og móðurömmu sem er fósturmóðir hennar. Stúlkunni þyki einnig vænt um föðurfjölskylduna og vilji hún halda tengslum við hana. Svo virtist hins vegar vera að stúlkan hefði verið beitt þrýstingi af hálfu föðurfjölskyldunnar um varanlega búsetu sem veki bæði upp sektarkennd og óöryggi hjá stúlkunni um framtíðina. Hún sé mjög meðvituð um það ósætti sem sé á milli föður- og móðurfjölskyldna sinna og óski eftir því að vera haldið utan þess.

Málið var aftur tekið fyrir hjá barnavernd þar sem ósætti á milli föður- og móðurfjölskyldu stúlkunnar olli bæði sektarkennd og óöryggi hjá stúlkunni um framtíðina. Óskaði hún eftir því að vera haldið utan við ósættið. Það var mat barnaverndar að það þyrfti að fyrirbyggja að rætt væri við stúlkuna um málefni er varði búsetu hennar og umgengni. Var því reynt að ná samkomulagi við kæranda um breytingar á umgengni en það tókst ekki. Málið var því tekið til úrskurðar hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 17. febrúar 2015 þar sem umgengni var breytt á þá lund að eftirlit skyldi haft með umgengni og símtöl voru ekki heimiluð. Af hálfu barnaverndar hefur komið fram að kærandi var ósáttur við úrskurðinn og rækti ekki umgengni í kjölfarið. Kærunefnd barnaverndarmála felldi úrskurðinn úr gildi með úrskurði 7. ágúst 2015 vegna ágalla á málsmeðferð.

Í gögnum málsins kemur fram að talsmaður hafi hitt stúlkuna 2. maí 2016 og hún hafi greint frá afstöðu sinni. Málið hafi svo aftur farið fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 7. júní 2016. Fyrir hafi legið krafa föður um að stúlkan væri hjá honum einu sinni í mánuði frá kl. 18 á föstudegi til kl. 18 á sunnudegi. Fyrir hafi legið greinargerð starfsmanna 26. maí 2016 þar sem fram komi að starfsmenn telji ekkert hafa breyst sem bendi til þess að umgengni geti gengið vel verði hún án eftirlits. Telji starfsmenn líklegt að umgengni án eftirlits verði til þess fallin að raska ró stúlkunnar og því jafnvægi sem tekist hafi að koma á líf hennar. Starfsmenn leggi til að umgengni verði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn og verði eftirlit með umgengni. Símtöl verði ekki leyfð.

Í bókun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. júní 2016 kemur fram að nefndin taki undir ofangreint mat starfsmanna. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þess sem fram hafi komið sé talið að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni verði fjórum sinnum á ári undir eftirliti. Til að koma til móts við óskir föður telji nefndin að hagsmunir stúlkunnar mæli ekki gegn því að umgengni sé allt að þrír tímar í hvert sinn. Bent sé á að kærandi hafi ekki hitt stúlkuna í tæp tvö ár þar sem hann hafi ekki fallist á umgengni undir eftirliti. Stúlkan hafi því ekki átt samskipti við föður sinn um lengri tíma.

Umgengni kæranda við barnið var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. júní 2016 ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum þeim stað sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur treysta sér til að hafa eftirlit á. Skilyrði fyrir umgengni eru að faðir sé edrú, undirgangist vímuefnapróf og sé metinn í jafnvægi. Símtöl eru ekki heimiluð.“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Kærandi krefst þess að stúlkan hafi umgengni við sig mánaðarlega frá kl. 18 á föstudegi til kl. 18 á sunnudegi. Eftirlit við upphaf og lok umgengni er samþykkt. Ekki er gerð krafa um fasta símatíma. Til vara er gerð krafa um hverja þá aukningu á umgengni sem úrskurðarnefnd velferðarmála telur hæfilega.

Stúlkan hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarnefndar frá því í X. Erfiðlega hafi gengið að ná stöðugleika í fósturvist hennar. Hún hafi verið vistuð hjá þremur mismunandi fósturforeldrum auk vistheimilis barna. Þá hafi rof orðið á fósturvistun í tvígang, fyrst hjá núverandi fósturforeldrum, sem eru móðuramma og sambýlismaður hennar, og síðan hjá fósturforeldrum í F. Þrátt fyrir þessa erfiðleika hafi starfsmenn barnaverndar aldrei haft samband við kæranda með það fyrir augum að barnið verði vistað hjá honum eða öðrum í föðurfjölskyldu.

Umgengni hafi upphaflega verið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar 18. september 2012. Kærandi telji þá umgengni hafa gengið vel, hann hafi nýtt sér bæði símatíma og umgengni. Kærandi hafi óskað eftir aukinni umgengni haustið 2014. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi kveðið upp úrskurð 17. febrúar 2015 þar sem umgengni var skert frá því sem áður hafði verið. Umgengni hafi verið ákveðin tvær klukkustundir, fjórum sinnum á ári undir eftirliti. Símtöl hafi ekki verið heimiluð. Úrskurðurinn hafi verið kærður til kærunefndar barnaverndarmála en nefndin hafi fellt úrskurðinn úr gildi þar sem ekki hafi verið leitað eftir afstöðu stúlkunnar til umgengni og símatíma.

Í kjölfarið hafi barnaverndarnefnd fengið málið aftur til meðferðar en það hafi ekki verið fyrr en á vormánuðum 2016 sem vinna hafi hafist við að kanna afstöðu stúlkunnar. Með skýrslu 2. maí 2016 komi vilji stúlkunnar til umgengni við kæranda fram. Þar komi fram að stúlkan vilji hitta kæranda mánaðarlega, gista hjá honum og því virðist hún ekki vilja að umgengni sé undir eftirliti. Jafnframt hafi hún lýst því að hún vilji ekki eiga símasamskipti við kæranda. Stúlkan sé orðin það stálpuð að engin ástæða sé til þess að líta fram hjá vilja hennar við afgreiðslu málsins. Langt sé síðan vandamál hafi komið upp tengd umgengni og því nauðsynlegt í samræmi við meðalhófssjónarmið að láta reyna á umgengni með því sniði sem stúlkan vilji sjálf í stað þess að ákveða fyrirfram að vandamál verði tengd umgengni. Verði umgengni í samræmi við kröfur kæranda eða sambærileg umgengni ákveðin hafi starfsmenn barnaverndar ávallt möguleika til þess að grípa inn í og skerða umgengni, gangi hún illa. Kærandi myndi til að mynda ekki mótmæla þeirri tilhögun að reynt yrði á umgengni með nýju fyrirkomulagi í tvö til þrjú skipti og í kjölfarið myndi starfsmaður ræða við stúlkuna að nýju til að kanna líðan hennar í umgengni. Þá geri kærandi ekki athugasemdir við að eftirlit verði við upphaf og lok umgengni eins og verið hafi um nokkurn tíma.

Kærandi telji umgengni undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur hvorki í hans þágu né stúlkunnar. Slík umgengni yrði tilgangslaus og fremur til þess fallin að eyðileggja samband þeirra feðgina. Því hafi hann ekki viljað nýta sér þá umgengni sem honum hafi boðist frá því úrskurður barnaverndar hafi verið kveðinn upp. Þess háttar umgengni sé niðurlægjandi og ekkert bendi til þess að slík tilhögun umgengni sé nauðsynleg. Kærandi vísar til þess að hann hafi óskað eftir því að umgengni verði komið á en ekki sé búið að ákveða tíma.

Að því er varði athugasemdir fósturforeldra um umgengni kæranda við stúlkuna bendi kærandi á að þeim skuli taka með verulegri varfærni og fyrirvara enda liggi fyrir að föður- og móðurfjölskyldur hafi deilt óvenju hart vegna stúlkunnar. Telur kærandi engar líkur til þess að fósturforeldrar muni lýsa jákvæðri reynslu stúlkunnar í kjölfar umgengni við hann. Nauðsynlegt sé að nýta talsmann stúlkunnar til að fá fram upplýsingar um raunverulega líðan stúlkunnar í kjölfar umgengni. Að mati kæranda vilji fósturforeldrar útiloka hann frá lífi stúlkunnar en athugasemdir þeirra beri þess merki.

Kærandi telur úrskurð barnaverndarnefndar ekki í samræmi við vilja stúlkunnar. Litið sé fram hjá vilja stúlkunnar hvað varði gistingu á heimili kæranda. Einnig sé umgengnistími verulega skammur eða aðeins þrjár klukkustundir samfleytt. Telur kærandi ekkert benda til þess að stúlkan muni bera skaða af meiri umgengni, sérstaklega þegar fyrir liggi að kærandi vilji fara að vilja stúlkunnar til búsetu á fósturheimilinu til frambúðar. Kærandi telur fyrri úrskurð kærunefndar barnaverndarmála bera þess merki að heimila eigi aukna umgengni sé það vilji stúlkunnar burtséð frá staðhæfingum og ásökunum gagnvart foreldrum kæranda um að reyna að hafa áhrif á stúlkuna til að hún vilji búa hjá föðurfjölskyldu.

Kærandi telur ekki nauðsyn á eftirliti með umgengni. Af úrskurði barnaverndarnefndar megi álykta að ástæða eftirlitsins sé fyrst og fremst sú afstaða starfsmanna barnaverndar að föðurfjölskylda sé að reyna að hafa áhrif á stúlkuna þannig að hún þrýsti á um að fá að búa hjá þeim. Kærandi telur að hann sjálfur hafi aldrei lagt að stúlkunni með þessum hætti og stærstur hluti vísbendinga um það varði ekki hann sjálfan heldur ættingja hans. Um sé að ræða ósannaða háttsemi gagnvart honum og upplýsingar sem fyrst og fremst komi frá fósturforeldrum en þau geti ekki talist óháðir aðilar. Kærandi telur það ekki í samræmi við meðalhófsreglu 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga að takmarka umgengni hans af þessum sökum. Meint framferði föðurforeldra eigi ekki að hafa áhrif á umgengni kæranda við stúlkuna.

Í úrskurði barnaverndarnefndar og greinargerð starfsmanns barnaverndar sé reynt að líkja stöðu kæranda við stöðu foreldra hans. Sá rökstuðningur sem fram komi í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála um umgengni þeirra við stúlkuna sé yfirfærður á kæranda. Sé því sérstaklega mótmælt enda allt aðrir hagsmunir sem geti verið fyrir hendi að því er varði umgengni við föður heldur en umgengni við föðurforeldra. Það þurfi að líta til sterkari tengsla á milli föður og dóttur heldur en annarra ættingja.

Til vara gerir kærandi kröfu um hverja þá aukna umgengni hans við stúlkuna sem úrskurðarnefnd velferðarmála telur hæfilega. Kærandi áskilur sér þó allan rétt til þess að meta sjálfur hvort það sé stúlkunni fyrir bestu að hann hitti hana undir eftirliti eða hvort það gæti verið skaðlegt fyrir samband hans við stúlkuna að rækja umgengni við þær aðstæður.

Að auki sé hér vísað til rökstuðnings kæranda í fyrri kæru hans til kærunefndar barnaverndarmála sem vísað er til hér að framan. Mörg sömu rök eigi enn við enda hafi barnaverndarnefnd í raun kveðið upp nær samhljóða úrskurð og hún gerði í byrjun árs 2015.

Þá geri kærandi athugasemd við málshraða hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Kærunefnd barnaverndarmála hafi kveðið upp úrskurð í málinu í ágúst 2015 en síðan virðist nær ekkert hafa gerst í málinu í um níu mánuði. Þessi framganga brjóti í bága við málshraðareglu stjórnsýslulaga.

Kærandi krefst þess að í málinu verði einungis tekið mið af sameiginlegum hagsmunum feðginanna. Eigi að takmarka umgengni með þeim hætti sem gert sé í úrskurði barnaverndarnefndar sé nauðsynlegt að rannsaka málið betur og rökstyðja niðurstöðuna betur. Kærandi telur hagsmuni stúlkunnar standa til þess að hún haldi tengslum við kæranda. Gögn málsins bendi til þess að hún sé í þörf fyrir og vilji verulega umgengni við kæranda.

III. Afstaða C

Í skýrslu talsmanns C 2. maí 2016 sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kallaði eftir kemur fram að stúlkan kveðst ekki sátt við að hitta kæranda fjórum sinnum yfir árið í tvo tíma í senn undir eftirliti. Hún vildi hitta hann oftar og þá heima hjá honum án eftirlits. Hana langaði til að gista. Stúlkan hafi verið spurð hvað hún ætti við með því að segjast vilja hitta kæranda oftar. Hún hafi svarað „einu sinni í mánuði eða oftar“. Það væri ekkert hægt að gera ef hún hitti kæranda aðeins í nokkra klukkutíma, en miklu meira væri hægt að gera á tveimur dögum. Talsmaður hafi spurt hvort það sem stúlkan vildi væri að hitta kæranda tvo daga í mánuði. Stúlkan hafi svarað „já og kannski oftar“. Stúlkan hafi verið spurð um afstöðu sína að því er varðaði símatíma við kæranda og hún hafi svarað „ég vil heldur hitta pabba en tala við hann í síma“. Stúlkan hafi tekið skýrt fram að hún vildi vera í sambandi við kæranda og föðurfjölskyldu sína en hún vildi búa hjá fósturforeldrum. Í framhaldinu hafi talsmaður spurt stúlkuna hvernig henni liði í D. Stúlkan hafi svarað: „Mér líður vel hér og vil ekki búa annars staðar.“ Stúlkan kvað tengsl sín við fósturforeldra góð og þau væru góð við sig. Hún hafi ekki yfir neinu að kvarta og fósturforeldrarnir væru góðir við sig.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Barnaverndarnefndin vísar til þess að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála nr. 8/2014, þar sem umgengni stúlkunnar við föðurforeldra hafi verið til umfjöllunar, komi fram að nefndin telji mikilvægt fyrir þroska og geðheilbrigði stúlkunnar að hún geti verið í friði og ró í fóstrinu. Einnig að hún verði fyrir sem minnstum truflunum og utanaðkomandi áreiti, ófriði eða togstreitu hinna fullorðnu sem hlut eigi að máli. Jafnframt komi fram að illindi og deilur nákominna ættingja geti skaðað börn verulega, sérstaklega þau sem búi við viðkvæmar aðstæður eins og hér sé raunin. Eftir því sem umgengni sé meiri auki það hættu á áreiti og togstreitu. Kærunefndin hafi talið að þrátt fyrir að stúlkan hafi lýst því að hún vildi hafa umgengni við föðurforeldra eina helgi í mánuði og að hún fengi að hringja í þau þegar hana langaði til þá yrði að líta til þess hve slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að valda óróa hjá stúlkunni og hættu á vanlíðan leiddu samskipti í tengslum við umgengni til togstreitu og árekstra.

Gögn málsins beri með sér að þegar umgengni stúlkunnar við kynforeldra hafi verið rúm virtist það hafa slæm áhrif á líðan hennar og hafi stúlkan þá verið óörugg á fósturheimilum. Ítrekað hafi verið fjallað um umgengni föður og föðurfjölskyldu frá því að stúlkan fór í varanlegt fóstur. Fyrir liggi sjö talsmannsskýrslur og þrjár skýrslur sálfræðings í tengslum við málið.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs hennar. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé umgengni yfirleitt mjög takmörkuð. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð all verulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri, jafnvel þó ekki sé ágreiningur um hana.

Samkvæmt upplýsingum í málinu líði stúlkunni afar vel í fóstrinu og vilji ekki búa annars staðar en hjá núverandi fósturforeldrum sínum. Stúlkunni gangi vel í öllu því sem hún taki sér fyrir hendur og virtist farnast vel í lífinu nú. Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 7. júní 2016 að mikilvægt væri að skapa stúlkunni stöðugleika og öryggi. Slíkt væri nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 13. september 2016 segir að kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar 7. júní 2016. Hann hafi verið mjög æstur, hafi rokið út af fundinum áður en honum hafi verið lokið og skellt hurðum. Auk þess hafi hann haft í hótunum við fósturforeldra er biðu fyrir utan. Barnaverndarnefndin lýsir yfir miklum áhyggjum yfir þeirri framkomu er kærandi hafi sýnt, bæði í garð þess starfsmanns er fari með málið og fósturforeldra stúlkunnar. Nefndin telur fullt tilefni til að eftirlit verði með umgengni auk þess sem eftirlit þurfi að vera með því að ekki sé rætt við stúlkuna á dvalarstað hennar eða annað er raskað geti ró hennar.

Stúlkan hafi síðast haft umgengni við kæranda X 2014. Kærandi hafi þó verið viðstaddur umgengni stúlkunnar við föðurforeldra helgina X 2014. Það sé því langt síðan að stúlkan hafi haft umgengni við kæranda þó að það hafi verið reynt.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V. Afstaða fósturforeldra

Fram kemur í bókun af fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. júní 2016 að fósturforeldrar séu sammála tilögum nefndarinnar um umgengni. Þau telja ekki gott fyrir stúlkuna að umgangast kæranda. Þau hefðu verið fyrir utan fundarsal barnaverndarinnar þegar kærandi hafi ruðst þaðan út. Fósturmóðirin vilji ekki að stúlkan sjái kæranda eins og hann sé nú. Stúlkunni gangi mjög vel í námi og íþróttum. Félagslega sé hún einnig vel sett. Margt hafi breyst til betri vegar hjá henni frá því að hún kom aftur til fósturforeldranna. Fyrst hafi stúlkan ekki getað sofið ein, verið óörugg og ekki getað verið ein nema hafa læst að sér, jafnvel um hábjartan dag. Í dag komi stúlkan sér alls staðar vel og allar umsagnir séu jákvæðar. Hún hafi fullorðnast og fengi að segja sínar skoðanir. Stúlkunni liði vel og vildi hvergi annars staðar vera en á fósturheimilinu. Það væri erfitt að þurfa að takmarka umgengni við kæranda. Stúlkan hefði viljað gefa kæranda jólagjöf jólin 2015. Fósturforeldrar hafi reynt að setja sig í samband við föður með tölvupósti og síma en hann hafi ekki svarað. Þá benda fósturforeldrar á að stúlkan sé nú á viðkvæmum aldri.

Í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 6. janúar 2017 ítreka fósturforeldrar ofangreind sjónarmið sín. Þau taka einnig fram að kærandi hafi einungis nýtt sér umgengni í eitt skipti á árinu 2016.

Hugsanlega væri staðan önnur ef kærandi hefði nýtt sér þá umgengni sem honum hefði staðið til boða.

VI. Niðurstaða

Kærandi gerir athugasemd við málshraða hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Hann kveður lítið hafa verið gert í málinu í níu mánuði frá því að úrskurður kærunefndar barnaverndarmála var kveðinn upp í ágúst 2015. Í gögnum málsins kemur fram að á tímabilinu hafi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur reynt að hafa samband við kæranda til að koma á umgengni en án árangurs. Málið hafi síðan verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 4. maí 2016. Úrskurðarnefndin tekur að nokkru leyti undir það með kæranda að málið hafi dregist í meðförum Barnaverndar Reykjavíkur en ekki verður litið fram hjá því að töfin varð að einhverju leyti vegna þess að ekki náðist í kæranda.

C er X ára gömul stúlka og hefur verið í varanlegu fóstri frá X. Móðir stúlkunnar fór ein með forsjá hennar en afsalaði sér forsjánni með yfirlýsingu þann dag. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarefndar Reykjavíkur frá 9. júní 2016 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegnum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur eða á öðrum þeim stað sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur treystu sér til að hafa eftirlit á. Skilyrði fyrir umgengni eru að kærandi sé edrú, undirgangist vímuefnapróf og sé metinn í jafnvægi.

Kærandi krefst þess að þeirri skipan umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að stúlkan hafi umgengni við sig mánaðarlega frá kl. 18 á föstudegi til kl. 18 á sunnudegi. Kærandi fellst á að eftirlit verði við upphaf og lok umgengni. Til vara er gerð krafa um hverja þá aukningu á umgengni sem úrskurðarnefnd velferðarmála telur hæfilega.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hans við barnið verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Umgengni kæranda við barnið þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum og samkvæmt því verður að telja hag stúlkunnar best borgið með fastákveðinni, reglubundinni og skipulagðri umgengni. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum stúlkunnar best í þeim tilgangi að hún raski sem minnst ró hennar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ekkert hafi breyst sem bendi til þess að umgengni kæranda við stúlkuna geti gengið vel sé umgengnin án eftirlits. Líklegast yrði það til þess að raska þeirri ró og jafnvægi sem tekist hafi að koma á í lífi stúlkunnar. Bent er á að kærandi hafi ekki hitt stúlkuna í tæp tvö ár þar sem hann hafi ekki fallist á umgengni undir eftirliti. Stúlkan hafi því ekki átt samskipti við föður sinn um lengri tíma. Einnig lýsir barnaverndarnefndin yfir miklum áhyggjum yfir þeirri framkomu sem kærandi sýndi á fundi nefndarinnar, bæði í garð starfsmanns nefndarinnar og fósturforeldra stúlkunnar, en kærandi varð mjög æstur á fundinum og hafði í hótunum við fósturforeldra.

Fram kemur í bókun af fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. júní 2016 að fósturforeldrar séu sammála tilögum nefndarinnar. Þau telja ekki gott fyrir stúlkuna að umgangast kæranda. Stúlkunni gangi mjög vel í námi og íþróttum, hún sé vel sett félagslega og margt hafi breyst til betri vegar hjá henni frá því að hún kom aftur til þeirra.

Kærandi vísar til þess að stúlkan vilji hitta sig mánaðarlega og gista hjá honum. Hann telur enga ástæðu til að líta fram hjá vilja stúlkunnar við afgreiðslu málsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta til þess að kærandi hefur valið að rækja ekki umgengni við stúlkuna í langan tíma en þau hafa ekki hist í um það bil tvö ár. Af þessari ástæðu er ekki eingöngu hægt að leggja vilja stúlkunnar til grundvallar við úrlausn málsins. Mikilvægast er að sá friður og ró sem skapast hefur í núverandi fóstri haldist áfram en fram kemur í gögnum málsins að stúlkan er í góðu jafnvægi og líður vel í dag. Á núverandi stigi er því ekki rétt að gera róttækar breytingar á núverandi fyrirkomulag umgengni.

Kærandi kveður langt síðan vandamál tengd umgengni hafi komið upp. Kærandi hefur ekki nýtt sér þá umgengni sem honum hefur staðið til boða í langan tíma og með vísan til þess telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þetta sjónarmið hans.

Kærandi telur nauðsynlegt með vísan til meðalhófssjónarmiða að látið verði reyna á umgengni með því sniði sem stúlkan sjálf vilji. Hann kveðst ekki myndi mótmæla því að látið yrði reyna á nýtt fyrirkomulag umgengni í tvö til þrjú skipti og í kjölfarið myndi talsmaður ræða við stúlkuna til að kanna líðan hennar í umgengni. Úrskurðarnefndin á ekki úrlausnarvald um þessa kröfu kæranda á þessu stigi málsins en hún hefur ekki verið borið undir barnaverndarnefnd. Með vísan til þess ber að hafna kröfunni og sjónarmiðum kæranda varðandi hana.

Kærandi lítur svo á að stúlkan virðist ekki vilja að umgengni sé undir eftirliti. Þá kveðst hann ekki gera athugasemdir við að eftirlit verði í upphafi og við lok umgengni. Hann er á hinn bóginn mótfallinn því að eftirlit verði meðan á umgengni standi. Við mat á því hvort eftirlit sé með umgengni verður að líta til hagsmuna stúlkunnar. Samkvæmt gögnum málsins virðist ljóst að kærandi hefur ekki viljað hlíta þeim skilmálum sem honum hafa verið settir við umgengni. Stúlkan er í varnalegu fóstri og telur úrskurðarnefndin að hagur hennar sé best tryggður með því að umgengni við foreldri sé reglubundin, vel skipulögð og í föstum skorðum. Álítur úrskurðarnefndin að fullt tilefni sé til að eftirlit sé haft með umgengni við þessar aðstæður en hér verða hagsmunir stúlkunnar að ganga framar hagsmunum kæranda.

Kærandi telur að verið sé að líkja stöðu kæranda til stöðu foreldra hans en líta beri til sterkari tengsla á milli föður og dóttur heldur en annarra ættingja. Við úrlausn þessa máls er einungis litið til stöðu stúlkunnar og hvernig hagsmunir hennar verði sem best tryggðir. Með vísan til ofangreindra röksemda er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að tekið hafi verið fullt tillit til tengsla feðginanna eins og unnt er miðað við þær aðstæður sem hér að framan hefur verið lýst. Ber einkum að líta til þess að kærandi hefur ekki nýtt sér þá umgengni sem honum stóð til boða.

Úrskurðarnefndin telur í ljósi ofangreindra atriða að takmarka beri umgengnina og tryggja að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Með því verði hagsmunir og þarfir barnsins best virtir.

Með vísan til þess er að framan greinir og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengnin kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.


Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 9. júní 2016 varðandi umgengni a við dóttur hans, c, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta