Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 293/2019 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 293/2019

Miðvikudaginn 13. nóvember 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júlí 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B, sem var kynnt kæranda á fundi 13. júní 2019, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), vegna sonar kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X ára en hann er sonur kæranda og D. Kærandi er móðir drengsins og fer ein með forsjá hans. Drengurinn á lögheimili hjá kæranda og hefur átt umgengni við föður á heimili kæranda.

Mál drengsins barst Barnaverndarnefnd B fyrst með tilkynningu frá kæranda X þar sem fram kom að hún hefði áhyggjur af því að faðir drengsins hefði ekki innsýn í þarfir drengsins ásamt því að vanrækja drenginn.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndar X og ákveðið að það yrði sett í farveg könnunar. Í niðurstöðu könnunar Barnaverndarnefndar B kemur fram að það sé mat starfsmanna barnaverndar að ekki sé þörf á frekari afskiptum vegna tilkynningarinnar. Málið sé í vinnslu hjá sýslumanni til að reyna að ná sátt um umgengni en foreldrum hafi ítrekað verið tjáð að barnavernd fari ekki með mál þar sem ekki sé sátt á milli þeirra um umgengni. Málið hafi verið tekið til könnunar vegna tilkynningar um líðan drengsins. Samskipti á milli foreldra hafi verið brösótt í gegnum tíðina. Foreldrar bendi hvort á annað sem sökudólg sem muni ekki bæta líðan drengsins.

Drengurinn sé í viðtölum hjá sálfræðingi fyrir tilstilli móður. Mælt sé með því að hann haldi viðtölum áfram, en drengurinn þurfi að hafa aðila sem hann geti treyst og leitað til. Hann verði var við ósætti foreldra sinna, ásamt því að hann viti hluti sem hann ætti ekki að hafa vitneskju um. Drengurinn hafi, að sögn móður og upplýsinga frá skóla, gjörbreyst í hegðun frá því um miðbik vetrar sem talið sé vera vegna vanlíðanar hans. Vinna þurfi með þá líðan svo að drengurinn geti fengið að blómstra. Mikilvægt sé að foreldrar séu varkárir í tali um hitt foreldrið, standi saman og nái sátt með líðan drengsins í fyrirrúmi. Starfsmenn barnaverndar hafi hvatt foreldra til að ná sáttum sín á milli með velferð drengsins í fyrirrúmi.

 II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en hefur margvíslegar athugasemdir fram að færa vegna meðferðar Barnaverndar E í máli sonar síns. Skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að loka málinu verði felld úr gildi.

Í kæru kemur meðal annars fram að könnunin hafi ekki verið unnin út frá því sem kærandi hafi tilkynnt um, heldur út frá kvörtun föður. Þá greinir hún frá því að erfitt hafi verið að ná í starfsmann barnaverndar og gagnrýnir störf hans. Vísar kærandi einnig til þess að svo virðist sem starfsmaður barnaverndar hafi orðið hræddur við lögfræðing föður og unnið málið út frá því en ekki almennt út frá hagsmunum barnsins miðað við tjáðar áhyggjur móður. Heilt á litið hafi þetta verið illa og ófagmannlega unnið sem geri ekkert fyrir barnið.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að ein tilkynning hafi borist frá kæranda þann X þar sem fram komi að hún telji föður drengsins ekki hafa innsýn í þarfir hans og að hann vanræki drenginn þegar hann sé hjá föður.

Kærandi hafi sent tölvupóst á félagsmálastjóra þann X þar sem hún hafi óskað eftir aðstoð vegna samskipta drengsins við föður. Félagsmálastjóri hafi samdægurs vísað málinu áfram til félagsráðgjafa er hafi átt að sinna málinu. Félagsráðgjafi hafi sent kæranda póst þar sem hún hafi boðið kæranda að koma í viðtal og ræða við starfsmann í síma. Þann X hafi kærandi hitt starfsmann. Í viðtalinu hafi kærandi viðrað áhyggjur sínar af heimsóknum drengsins til föður. Hún hafi rætt um að faðir vanræki þarfir drengsins og hafi sagt máli sínu til stuðnings að faðir gefi drengnum ekki að borða þegar drengurinn sé svangur, heldur sé einungis borðað þegar faðir sé sjálfur svangur. Þá sé faðir mikið í tölvunni þegar drengurinn sé hjá honum og gefi drengnum ekki mikinn gaum. Þá hafi kærandi sagt frá atviki í síðustu umgengni drengsins við föður þar sem vinkona kæranda hafi sótt drenginn fyrir hana. Ástæðan hafi verið sú að drengurinn og faðir hans hafi orðið ósáttir og drengurinn orðið hræddur og ekki viljað vera áfram hjá föður sínum að sögn kæranda. Kærandi hafi velt fyrir sér möguleika á að stöðva umgengni drengsins við föður og hafi henni verið bent á að hafa samband við sýslumann. Hann kæmi að umgengnissamningum en barnavernd tæki ekki afstöðu til umgengnissamninga. Starfsmaður hafi jafnframt bent kæranda á að hún gæti haft samband við starfsmann aftur hafi hún ætlað sér að tilkynna málið til barnaverndar.

Kærandi hafi aftur haft samband þann X en þá hafði hún haft samband við sýslumann sem hafi ráðlagt henni að tilkynna til barnaverndar. Kærandi hafi tilkynnt málið til barnaverndar þann X og hafi verið ákveðið á meðferðarfundi þann X að taka málið til könnunar. Þann X hafi kærandi og sonur kæranda verið boðuð í viðtöl. Könnun hafi farið fram með tveimur viðtölum við drenginn, viðtali við föður, þremur viðtölum við kæranda og tölvupóstsamskiptum. Leitað hafi verið upplýsinga hjá skóla og heilsugæslu. Greinargerð um könnun hafi verið unnin úr upplýsingum sem hafi borist og ekki gefið ástæðu til að gera meðferðaráætlun.

Starfsmenn telji sig hafa unnið könnunina af heilindum og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi. Í kæru komi fram að kærandi segi að stundum hafi verið erfitt að ná á starfsmann og hann reikull í svörum. Í því samhengi sé bent á tölvupóstsamskipti þar sem fram komi að starfsmaður hafi ætíð svarað eins fljótt og auðið hafi verið. Þá komi fram í kæru að kærandi sé ósátt við að drengurinn hafi verið fenginn á fund áður en hún hafi komið. Áður hafi verið kynnt að starfsmaður hyggðist tala við þau hvort í sínu lagi, en móðir hafi verið á salerni þegar að viðtali kom og hafi drengurinn því verið tekinn á undan. Ekki hafi verið sérstaklega rætt að kærandi kæmi á undan. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag á þeim tíma.

Kvartað sé undan trúnaðarbresti starfsmanns barnaverndar. Því sé vísað alfarið á bug. Þá vilji barnavernd koma á framfæri að starfsmenn reyni ávallt að koma fram af fagmennsku.

Kærandi sé greinilega ósátt við að ekki hafi verið aðhafst frekar að könnun lokinni þótt ekkert slíkt hafi komið fram við starfsmenn fyrr en með kvörtun til Barnaverndarstofu og úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá telji hún starfsmenn hafa verið í liði með föður. Starfsmenn vilji árétta að þeirra faglega mat hafi byggst á þeim upplýsingum sem hafi verið safnað er varðaði velferð drengsins. Tekin hafi verið sú ákvörðun í ljósi stöðu að könnun lokinni að barnavernd aðhefðist ekki frekar í málinu. Barnaverndarnefnd hafi talið deilur um umgengni í réttum farvegi hjá sýslumanni. Jafnframt hafi starfsmenn talið móður vera að sinna forsjárskyldum sínum með því að huga að vellíðan drengsins og leita sálfræðiaðstoðar fyrir hann. Því hafi ekki þótt ástæða til frekari afskipta barnaverndar.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er X ára gamall og lýtur forsjá móður sinnar. Kærandi er móðir drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.

Í málinu liggur fyrir ein tilkynning frá Xtil barnaverndar frá kæranda. Þann X tók barnavernd ákvörðun á fundi að taka málið til könnunar. Við meðferð máls tók barnavernd tvö viðtöl við drenginn, eitt viðtal við föður og þrjú viðtöl við móður. Einnig var aflað upplýsinga frá skóla drengsins og heilsugæslu og gáfu þær ekki tilefni til að ástæða væri til að halda áfram með könnun máls. Samkvæmt 22. gr. bvl., sem vísað er til hér að framan, er markmið könnunar máls samkvæmt lögunum að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl. Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndin hafi réttilega metið að ekki hafi verið þörf á að leita úrbóta eða beita sérstökum úrræðum samkvæmt ákvæðum bvl. að könnun lokinni og því ætti að loka málinu. Í greinargerð Barnaverndarnefndar B, sem tekin var saman af hálfu barnaverndarinnar um könnun málsins samkvæmt 23. gr. bvl., er niðurstöðum könnunar lýst og jafnframt ítarlega rakið á hverju niðurstöðurnar eru byggðar.

Úrskurðarnefndin telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að rétt hafi verið af hálfu barnaverndarinnar að loka málinu í kjölfar könnunar. Í því sambandi er jafnframt litið til þess sem fram kemur í athugasemdum með 22. gr. bvl., en þar segir að við framkvæmd 22. gr. bvl. beri að hafa í huga að öll afskipti barnaverndarnefnda af málefnum fjölskyldu feli í sér íhlutun í mál sem venjulega myndu teljast einkamál. Af þeim sökum sé það meginregla að könnun máls gangi ekki lengra en þörf sé á hverju sinni. Þá verður ekki fallist á með kæranda að málið hafi verið illa og ófagmannlega unnið af hálfu barnaverndar.

Samkvæmt ofangreindu telur úrskurðarnefndin að Barnaverndarnefnd B hafi borið að loka málinu samkvæmt 23. gr. bvl., eins og gert var með hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að staðfesta verði hina kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B, um að loka máli vegna drengsins C, er staðfest.

 

 

Kári Gunndórsson

 

                   Björn Jóhannesson                                                     Guðfinna Eydal                                      

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta