Mál nr. 193/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 193/2022
Mánudaginn 20. júní 2022
A
gegn
Barnavernd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.
Með bréfi, dagsettu 7. apríl 2022, kærði A lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndar B um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsþjónustu.
Í gögnum málsins kemur fram að málefni barna kæranda hafi verið til umfjöllunar hjá Barnavernd B og að börnin hafi verið vistuð utan heimilis á grundvelli 67. gr. og 23. gr. bvl. samkvæmt héraðsdómi í júní 2021.
B lögmaður sendi Barnavernd B bréf, dags. 4. mars 2022, þar sem óskað var eftir styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar á grundvelli 47. gr. bvl. Jafnframt fylgdi tímaskýrsla með þar sem upplýst var um 28,5 klukkustunda. vinnu á tímagjaldi kr. 17.000 ásamt virðisaukaskatti vegna vinnu frá 14. janúar 2022 til og með 4. mars 2022.
Erindi kæranda var svohljóðandi:
„Sótt er um fjárstyrk til lögmannsaðstoðar á grundvelli 1. gr. reglna nr. 80/2002 um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. laga nr. 80/2002 þar sem mælt er fyrir um að Barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem eru aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð, en óskað hefur verið eftir því að ítrekað að málið verði lagt fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar, en starfsmenn barnaverndarnefndar hafa ekki enn orðið við því og hafa reynt sættir í málinu frá því í nóvember 2021. Aðkoma lögmanns að málinu varð í byrjun árs 2022.
Með tilliti til umfangs málsins og bágs efnahags umbjóðanda míns, en hann hefur verið lýstur gjaldþrota, er hér með sótt um styrk til greiðslu. Meðfylgjandi er tímaskýrsla lögmanns, þar sem fram kemur að unnið hafa verið 20 tímar í heildina er varðar vistun dætra hans utan heimilis á grundvelli 67. gr. og 23. gr. bvl. héraðsdóms í júní 2021. Um er að ræða 28,5 tíma fram til dagsins í dag og gerð er krafa um fjárstyrk að fjárhæð 484.500 krónur auk virðisaukaskatts eða 600.780 krónur. Meðfylgjandi er tímaskýrsla.“
Ákvörðun Barnaverndar B um að synja kæranda um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. mars 2022.
Þann 7. apríl 2022 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndar B sem barst með bréfi, dags. 25. apríl 2022. Framangreind greinargerð var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. apríl 2022. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd með bréfi, dags. 9. maí 2022, og voru þær sendar Barnavernd B til kynningar með bréfi, dags. 10. maí 2022. Viðbótarupplýsingar bárust frá Barnavernd B með bréfi, dags. 24. maí 2022, voru þær sendar til kæranda til kynningar með bréfi, dags. 31. maí 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Barnaverndar B á veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmáls varðandi börn kæranda.
Með bréfi, dags. 29. mars 2022, tilkynnti Barnavernd B kæranda þá ákvörðun sína að synja um styrkveitingu vegna greiðslu lögmannsaðstoðar. Kærandi krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og staðfest verði að greiða umræddan fjárstyrk með hliðsjón af tímaskýrslu, þ.e. 28,5 klst., sem lögð hafi verið fram með styrkbeiðni, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl.
Stryrkveitingu hafi verið hafnað þar sem Barnavernd B taldi skilyrði 2. mgr. 47. gr. bvl. ekki vera fyrir hendi. Á þetta verði ekki fallist.
Lögmaður kæranda greinir frá því að í upphafi árs 2022 hafi kærandi haft samband og óskað eftir lögmannsaðstoð vegna samskipta sinna við Barnavernd B vegna tveggja dætra sinna. Þær hafa verið skjólstæðingar nefndarinnar að því er virðist frá árinu 2017. Kærandi fari með sameiginlegt forræði yfir þeim ásamt móður þeirra sem er heimilislaus fíkniefnaneytandi.
Ástæða þess að kærandi hafi leitaði til lögmanns var vegna þess að honum skildist að hann ætti að skrifa undir skjal er varðaði vistun dætra hans, en allt var þetta mjög óljóst í huga hans. Hann hafi frá sumarmánuðum 2021 reynt að fá afhent gögn og dagála sem sneru að dætrum hans. Fékk hann þau afhent í desember 2021, en þá hafi að því er virðist verið tekin ákvörðun um vistun stúlknanna utan heimilis. Hann hafi aldrei verið hafður með í ráðum barnaverndarnefndar með eitt né neitt sem viðkom dætrum hans, ekki boðaður á fundi, ekki upplýstur um gang mála, tilkynningar um vanrækslu eða nokkuð annað. Lengi vel efaðist barnavernd um að hann hefði forræði yfir stúlkunum en móðir hafi beitt umgengnistálmunum í mörg ár. Því ástandi var viðhaldið af hálfu barnaverndarnefndar.
Þegar málið kom til lögmanns hafi strax verið óskað eftir upplýsingum um hvort frekari gögn hefðu borist nefndinni frá því að faðir fékk nefndan gagnapakka í byrjun desember, sjá tölvupóst, dags. 17. janúar 2022, sjá skjal merkt 1. Eftir svar frá starfsmanni barnaverndarnefndar þann sama dag óskaði lögmaður eftir því að málið yrði lagt fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar á þeim forsendum að engin úrræði hafi verið reynd af hálfu barnaverndarnefndar til að styrkja föður til þess að rækja forsjárskyldur sínur þó að hann hafi ítrekað lýst sig reiðubúinn til þess. Hann hafi ekki verið tilbúinn til að samþykkja vistun dætra sinna utan heimilis en aldrei hefur verið efast um forsjárhæfni hans af hálfu barnaverndar, sjá skjal merkt 2.
Í framhaldi af ósk um að úrskurðað yrði í málinu barst póstur frá starfsmanni nefndarinnar sem sagði að málið hefði verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna þann sama dag, eða 18. janúar 2022, þar sem lögmaður hafi verið boðaður ásamt föður til fundar með starfsmanni og deildarstjóra til að ræða næstu skref. Lögmaður kvaðst hafa þurft að undirbúa sig undir fundinn með lestri allra gagna málsins.
Fundurinn hafi verið haldinn 28. janúar sl., sjá skjal merkt 3. Fyrir fundinn óskaði lögmaðurinn eftir því að fá senda bókun meðferðarfundarins frá 18. janúar og dagála ef nýir hefðu bæst í málið. Í pósti starfsmanns þann 25. janúar hafi verið upplýst um einn dagál en að málið hafi ekki verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þó að það hafi verið tekið til umræðu og upplýst var að bókað yrði um málið á meðferðarfundi eftir fund lögmanns, föður og nefndar þann 28. janúar 2022.
Þann 2. febrúar 2022 sendi umræddur starfsmaður Barnaverndar B kæranda bókun meðferðarfundarins en ekki lögmanni. Slíkt sé þvert á starfsreglur þegar lögmaður sé kominn að málinu en þá eru mál allajafna sent honum. Kærandi sjálfur kom bókun meðferðarfundar til lögmanns síns sem í framhaldi ritaði andmælabréf vegna þess sem fram kom í bókuninni. Andmælabréfið barst starfsmanni barnaverndarnefndar þann 10. febrúar 2022. Í því bréfi var óskað eftir að bókað yrði um rétt föður til styrks til greiðslu lögmannskostnaðar með sama hætti og málið hefði farið fyrir Barnaverndarnefnd B, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða, sjá skjal merkt 4. Í póstinum var jafnframt vakin athygli á því að faðirinn væri að íhuga að skrifa undir meðferðaráætlunina. Þar sagði meðal annars:
„Í því ljósi er umbjóðandi minn alvarlega að íhuga að skrifa undir fyrstu meðferðaráætlunina um vistun dætra hans utan heimilis, en áður en að því verður þá vill hann fá að kynna sér hvernig þær meðferðaráætlanir munu líta út sem gerðar verða.
- hvert verður hlutverk barnaverndarnefndar, hvaða stuðning veitir hún.
- hvert verður hlutverk fósturaðila,
- hvert verður hlutverk forsjáraðila og hvaða stuðning fær faðir við að nálgast dætur sínar og tryggja þeim öryggi og skjól.
- hvert er það markmiðið sem að er stefnt gagnvart stúlkunum og forsjáraðilum báðum (ekki aðeins móður)
- hvernig á að mæla árangur af áætluninni
Þá leggur umbjóðandi minn áherslu á að a) forsjárhæfnismat verði gert á móður á tímabilinu sem meðferðaráætluninni er ætlað að gilda, b) að umgegni við móður verði aðeins undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar og að forsenda þeirra sé edrúmennska móður og hún verði látin blása í upphaf umgengni og c) að það heimili sem þær eru vistaðar á eins og farið var af stað með, hjá móðurforeldrum verði undir eftirliti og þurfi að sæta óundirbúnum heimsóknum eftirlitsaðila.
Því er óskað eftir að barnaverndarnefnd leggi fram drög að meðferðaráætlun í máli stúlknanna sem fyrst svo faðir geti tekið afstöðu til þess hvort hann riti undir meðferðaráætlunina.“
Daginn eftir var bréfið móttekið og upplýst að það yrði lagt fyrir meðferðarfund næsta þriðjudag.
Þann 15. febrúar barst lögmanni póstur frá starfsmanni Barnaverndar B þar sem fram kom að málið hefði ekki verið tekið fyrir á meðferðarfundi en hefði verið rætt. Varðandi greiðslur til lögmannsins hafi verið óskað eftir að lögfræðisviði yrði sendir reikningar og tímaskýrsla sem myndi svo taka ákvörðun um hvort greitt yrði fyrir vinnuna þó að málið hafi ekki farið fyrir nefndina. Þá átti að bóka málið að nýju, taka næstu skref og koma með tillögur að meðferðaráætlun til föður.
Með pósti lögmanns til Barnaverndar B þann 4. mars var óskað upplýsinga um stöðu málsins og áréttað að efnislega hefði ekki borist svar við tölvupóstinum frá 10. febrúar. Þann sama dag var send beiðni um greiðslu lögmannskostnaðar ásamt tímaskýrslu sem nú hefur verið hafnað.
Fram kemur í kæru að kærandi hafi hafnað því að skrifa undir meðferðaráætlun, dagsetta í nóvember 2021, og einnig hafi hann óskað eftir því að málið yrði tekið til úrskurðar en Barnaverndarnefnd B hafi ekki orðið við því.
Í kæru er greint frá því að Barnaverndarnefnd B hafi boðað lögmann á fund nefndarinnar með tölvupósti 18. janúar síðastliðinn. Þannig hafi verið óskað eftir aðkomu hans að málinu á þeim tímapunkti. Til þess að lögmaður gæti sinnt hlutverki sínu var honum nauðsynlegt að fá öll gögn málsins og lesa þau yfir og funda með umbjóðanda sínum. Í forsendum tveggja héraðsdómsúrskurða í máli um vistun barna utan heimilis, sem staðfestur var með úrskurðum Landsréttar í málum nr. 57/2021 og 58/2021, segir: „Dómurinn telur einnig nauðsynlegt að árétta að það er ekki ábyrgðalaust verkefni að taka að sér hagsmunagæslu fyrir foreldra sem eru komnir undir verndarvæng Barnaverndar og barnaverndarnefndar. Gögn málsins sýna að það var að frumkvæði foreldris og lögmanns hennar að áætlun um meðferð máls var gerð 13. júlí. [...] Öllum einnig lögmönnum sem gegna þessu hlutverki, ber að tryggja að beitt sé þeim ráðstöfunum sem má ætla að séu barni fyrir bestu. Það er því þeirra hlutverk að stuðla með ráðum og dáð að samvinnu foreldra, sem þeir vinna fyrir, við barnaverndaryfirvöld til þess að velferð barnanna sé tryggð.“
Barnavernd geti því ekki boðað lögmann á fund með skjólstæðingum sínum og ætlast til að þeir mæti þarna til skrauts, án þess að vera búinn að lesa gögn málsins, mynda sér skoðun á því, funda með umbjóðendum sínum og eftir atvikum að eiga samskipti við barnavernd á meðan unnið er að því að stuðla að samvinnu foreldranna við barnaverndaryfirvöld með það að leiðarljósi að velferð barnanna sé tryggð. Verður í raun ekki annað séð en að þær forsendur sem niðurstaða barnaverndar byggir á um að neita kæranda um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sé einfaldlega rangur og byggi á röngum forsendum hvað það varðar að aldrei hafi verið óskað eftir aðkomu lögmanns.
Það að barnavernd vilji ekki leggja málið fyrir nefndina til þess að tryggja hag barnanna er óskiljanlegt og það þrátt fyrir óskir kæranda. Slík stjórnsýsla eigi ekki að leiða til þess að kærandi, sem var úrskurðaður gjaldþrota fyrir fjórum árum, sé sviptur rétti sínum til að fá styrk til greiðslu lögmannskostnaðar.
Meðferðaráætlun sem móðir skrifaði undir á að ljúka 5. maí 2022 svo að það hafa liðið fimm mánuðir af sex, án þess að Barnavernd B hafi fengið undirritun beggja forsjáraðila á meðferðaráætlunina og barnavernd hafni því að setja málið í úrskurð eins og lög í raun krefjast.
III. Sjónarmið Barnaverndar B
Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að synjað hafi verið um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. Um sé að ræða stúlkur sem lúti sameiginlegri forsjá beggja foreldra og hafa lögheimil hjá móður en séu vistaðar utan heimilis hjá móðurforeldrum vegna vímuefnavanda móður.
Málefni stúlknanna hafa verið til könnunar hjá Barnavernd B með hléum frá 2017 vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit en mikil óregla hefur verið á lífi móður til lengri tíma samkvæmt gögnum málsins.
Þann 6. apríl 2021 barst Barnavernd B tilkynning vegna vímuefnanotkunar hjá móður en þá hafði mál stúlknanna verið lokað frá júní 2020. Önnur tilkynning barst í júlí og var málinu úthlutað til starfsmanns í september 2021. Faðir stúlknanna hafði þá óskað eftir gögnum í málinu þann 4. ágúst 2021. Fékk hann gögn afhent í desember sama ár en afhending gagna dróst vegna mikilla anna og þess ástands sem var þá í samfélaginu.
Þann 20. september 2021 var málið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B. Fram kom í bókun að móðir væri heimilislaus og að stúlkurnar dveljist hjá móðurforeldrum sínum. Til að tryggja stöðugleika í lífi stúlknanna var það mat starfsmanna að það þyrfti að vista þær samkvæmt 67. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 hjá föður sínum til níu mánaða. Á þeim tíma hafði faðir samþykkt það og var stúlkunum skipaður löglærður talsmaður til að kanna afstöðu þeirra til vistunar vegna aldurs þeirra. Talsmaður stúlknanna skilaði skýrslu til Barnaverndar B, dags. 20. október 2021. Í skýrslu talsmanns kom fram skýr afstaða stúlknanna um að þær vildu ekki búa hjá föður sínum. Einnig kom fram hjá þeim að þær höfðu ekki tölu á því hversu oft þær hafi hafnað því að búa hjá föður, meðal annars við meðferð málsins hjá sýslumanni. Stúlkurnar sögðu föður ekki taka tillit til langana þeirra varðandi búsetu og virtist upptekinn af því prinsippi að börn eigi að búa hjá foreldrum sínum. Kom fram að stúlkurnar höfðu ekki búið hjá föður síðan […]. Fram kom að stúlkunum liði vel hjá móðurforeldrum sínum og voru þær ekki tilbúnar að svo stöddu að fara til föður. Afstaða þeirra kom ítrekað fram í meðfylgjandi talsmannskýrslu.
Þann 29. september 2021 ræddi starfsmaður við föður símleiðis en faðir hafði þá haft samband til að athuga stöðu málsins. Faðir var þá upplýstur um að stúlkunum hafi verið skipaður talsmaður sem myndi ræða við stúlkurnar og skila skýrslu. Ferlið var útskýrt fyrir föður og að fram hafi komið hjá stúlkunum að þær væru mjög ákveðnar í að vilja búa áfram á heimili móðurforeldra. Faðir krafðist þá þess að stúlkurnar myndu búa hjá sér. Starfsmaður útskýrði fyrir föður að vegna aldurs stúlknanna væri nauðsynlegt að taka tillit til þeirra óska. Faðir hafi ekki sætt sig við þá útskýringu og var föður bent á að óraunhæft væri að vista stúlkurnar á stað gegn vilja þeirra, þær myndu einfaldlega fara og sagðist faðir gera sér grein fyrir því en vildi samt sem áður að þær yrðu neyddar til að búa hjá honum. Faðir var reiður, órökréttur og dónalegur að mati starfsmanns sem að lokum sleit símtalinu við föður.
Þann 23. október 2021 óskaði faðir eftir fund með starfsmanni ásamt yfirmanni til að fara yfir málið. Starfsmaður bauð föður að mæta á fund þann 3. nóvember 2021 í tölvupósti til hans þann 27. október 2021. Starfsmaður ítrekaði tölvupóstinn eftir að svar hafði ekki borist þann 2. nóvember 2021. Faðir sendi starfsmanni tölvupóst þann 14. nóvember 2021 og ítrekaði þá beiðni sína um að fá afhent gögn málsins áður en til fundar kæmi og kom þá einnig fram hjá föður að hann væri komin með lögmann. Faðir fékk gögnin afhent um miðjan desember en þá hafði verið mikið álag á starfsmanni Barnaverndar B sem hafði séð um afhendingu gagna og sendi hann þá föður tölvupósta 21. desember og 27. desember varðandi hvenær faðir vildi koma á fund. Starfsmaður hafi síðan ítrekað pósta sína til föður vegna fundar dagana 4. og 5. janúar 2022.
Þann 14. janúar 2022 barst erindi lögmanns föður sem óskaði eftir öllum gögnum í málinu.
Faðir mætti ásamt lögmanni sínum þann 28. janúar 2022 til fundar við starfsmenn Barnaverndar B. Þar greindi faðirinn frá því að hann myndi hvorki skrifa undir samþykki fyrir vistun stúlknanna utan heimilis né meðferðaráætlun. Lagði lögmaður föður til að stúlkurnar yrðu vistaðar hjá föður en gerður yrði ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra. Stúlkurnar yrðu því í umsjá móðurforeldra alla virka daga en hjá föður um helgar. Starfsmenn töldu rétt að láta reyna á þá leið sem faðir vildi fara því að starfsmenn höfðu engar efasemdir um að faðir væri hæfur til að annast dætur sína.
Starfsmenn samþykktu því tillögur föður sem hann lagði fram á fundi við starfsmenn þann 28. janúar 2022 og var litið svo á að náðst hefði samkomulag um hag stúlknanna við föður.
Í kæru lögmanns föður til úrskurðarnefndar kemur fram að óljóst hafi verið hjá föður hvaða skjal hann átti að undirrita og því hafi hann orðið að hafa lögmann. Starfsmenn barnaverndar töldu sig hafa útskýrt vel fyrir föður um hvað málið snerist og hvað skjalið sem hann átti að undirrita þýddi. Starfsmenn samþykktu tillögur sem komu frá föður eins og fram hefur komið.
Lögmaður föður vísar til þess að Barnavernd B hafi lengi efast um forræði föður yfir stúlkunum en það er allrangt. Barnavernd B barst staðfesting í september 2019 frá Þjóðskrá Íslands um sameiginlega forsjá foreldra yfir stúlkunum, sjá meðfylgjandi skjal. Kerfi Barnaverndar B séu ekki beintengd Þjóðskrá og varð því að fá staðfestingu frá Þjóðskrá á þeim tíma þar sem stúlkurnar voru með lögheimili hjá móður en ekki föður. Lögmaður vísar einnig til umgengnistálmana sem móðir hafi haft við föður sem viðhaldið hafi verið af Barnavernd B en því sé hafnað þar sem engin gögn sýna fram á neitt slíkt. Barnavernd telur að vilji stúlknanna sé afar skýr til búsetu hjá föður en ítrekað hafi komið fram í máli þeirra, meðal annars í talsmannskýrslum að þær vilji ekki búa hjá föður. Lögmaður vísar einnig til þess að engin úrræði hafi verið reynd af hálfu Barnaverndar B til að styrkja föður en starfsmenn töldu enga forsendu til þess að styrkja föður sérstaklega þar sem starfsmenn efuðust ekki um hæfni föður til að annast stúlkurnar, málið snerist fyrst og fremst um þeirra vilja. Í þessu samhengi megi þó benda á að starfsmenn settu í meðferðaráætlun að börnin og faðir myndu njóta fjölskyldumeðferðar, kysi hann það ásamt því að barnavernd hafi verið að greiða sálfræðiviðtöl stúlknanna.
Fram kemur hjá lögmanni að hún hafi verið boðuð sérstaklega á fund þann 18. janúar 2022. Á þeim tíma hafði starfsmaður ekki fengið neitt svar frá föður vegna fundar sem hann hafði sjálfur óskað eftir og var lögmaður föður komin í samband við starfsmann og taldi starfsmaður því rétt að reyna að koma þessum skilaboðum áleiðis til föður í gegnum lögmann. Hvorki var óskað sérstaklega eftir viðveru lögmanns á fundinum né á neinum öðrum tímapunkti.
Lögmaður föður vísi einnig til þess að þann 2. febrúar 2022 hafi starfsmaður sent bókun á föður en ekki á lögmann og vísar lögmaður í að slíkt sé þvert á starfsreglur. Óljóst sé hvaða starfsreglur lögmaður föður vísar þarna til en faðir hafði fyrr sama dag átt samtal við starfsmann þar sem hann óskaði sérstaklega eftir því að fá bókunina senda til sín rafrænt, ekki til lögmanns, enda hafi það legið fyrir að starfsmenn hafi ekki óskað eftir aðkomu lögmanns á neinum tímapunkti, sjá meðfylgjandi dagál, Símtal – faðir, dags. 2. febrúar 2022.
Lögmaður föður vísar til þess að faðir hafi þurft lögmann, enda hafi verið um að ræða íþyngjandi ákvörðun. Starfsmenn töldu það rangt, enda var verið að fara að kröfum föður og hans tillaga samþykkt. Tillögur starfsmanna voru áður að fara að vilja stúlknanna þar sem þær vildu vera alfarið í umsjá móðurforeldra sinna. Faðir óskaði eftir að stúlkurnar yrðu vistaðar hjá sér og að gerður yrði ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra þannig að þær yrðu hjá móðurforeldrum alla virka daga en aðeins hjá föður um helgar.
Lögmaður vísar að lokum til þess að barnavernd vilji ekki leggja málið fyrir nefndina til þess að tryggja hag barnanna, þrátt fyrir óskir kæranda sem var úrskurðaður gjaldþrota fyrir fjórum árum. Eins og fram hefur komið telja starfsmenn barnaverndar að náðst hafi samkomulag við föður um vistun stúlknanna. Upphaflegar tillögur starfsmanna voru á þá leið að vista stúlkurnar alfarið hjá móðurforeldrum þeirra og voru þær tillögur með hag stúlknanna að leiðarljósi, enda í samræmi við skýran vilja þeirra. Þær vilji ekki, að eigin sögn, búa hjá föður. Telja starfsmenn barnaverndar einnig að gjaldþrot föður fyrir fjórum árum eins og lögmaður föður vísar til, sé málinu óviðkomandi, enda megi telja að staða föður væri þá betri í dag, tveimur árum tæplega eftir að gjaldþrotaskiptum lýkur.
Barnaverndarnefnd B samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar þann 19. febrúar 2019. Eiga þær reglur sér lagastoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem kveðið er á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem aðila máls, fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð eftir reglum sem nefndin setji. Í 1. gr. þeirra reglna kemur fram:
„Barnaverndarnefnd B veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar B nema sérstaklega sé um annað samið.“
Í reglunum komi skýrt fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar, nema sérstaklega hafi verið óskað eftir aðkomu lögmanns að málinu af hálfu starfsmanna. Hér sé ekki verið að ræða um fundi með barnaverndarnefnd heldur aðra þá fundi sem haldnir eru út af málum sem eru til vinnslu hjá Barnavernd B.
Síðan segir að í umræddu máli hafi stúlkurnar búið undanfarin ár hjá móðurforeldrum sínum og faðir krefðist þess nú að þær séu vistaðar gegn vilja sínum á heimili föður. Starfsmenn töldu sig hafa náð samkomulagi við föður þegar þeir samþykktu tillögur föður þess efnis að stúlkurnar yrðu vistaðar hjá föður gegn vilja þeirra en gerður yrði ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra þess efnis að stúlkurnar væru hjá þeim alla virka daga en um helgar hjá föður. Þegar samkomulagi er náð við foreldra eru mál ekki lögð fyrir Barnaverndarnefnd B með tilliti til úrskurðar. Það er því mat Barnaverndar B að málsmeðferðin sé ekki íþyngjandi fyrir föður. Fram hafi komið hjá föður að óskað hafi verið eftir úrskurði með tilliti til vistunar stúlknanna en svo fór að starfsmenn og faðir náðu samkomulagi, sbr. fund þeirra þann 28. janúar 2022, og fór málið því ekki fyrir fund Barnaverndarnefndar B eins og skilyrði er um til að foreldrar geti fengið styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar.
Í framangreindri 1. gr. tilvísaðra reglna kemur fram að veita skuli fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir Barnaverndarnefnd B áður en nefndin kveði upp úrskurð. Veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Í þessu máli var aldrei óskað eftir aðkomu lögmanns fyrir föður heldur var það val kæranda að hafa lögmann í málinu. Starfsmenn Barnaverndar B voru ekki meðvitaðir um aðkomu lögmanns fyrr en lögmaður sendi Barnavernd B umboð sitt og ósk um gögn. Eins og fram hefur komið náðist samkomulag um vistun stúlknanna á milli föður og starfsmanna. Það var því mat starfsmanna Barnaverndar B að beiðni föður um styrkveitingu uppfyllti ekki skilyrði 1. gr. nefndra reglna. Beiðni föður um styrk vegna lögmannskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 var því synjað og töldu starfsmenn Barnaverndar B að það væri ljóst að faðir ætti ekki rétt á styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.
Í viðbótargreinargerð Barnaverndar B kemur eftirfarandi fram:
„Barnavernd B barst erindi úrskurðarnefndar B þann 17. maí 2022 vegna kæru í máli nr. 193/2022. Í erindi úrskurðarnefndar voru andmæli lögmanns föður vegna greinargerðar barnaverndarnefndar B, dags. 25. apríl 2022.
Lögmaður föður áréttar þar þrjú atriði í andmælum sínum.
Lögmaður vísar til þess í greinargerð sé ekkert vikið að því að lögmaður föður hafi óskað eftir því að málið yrði lagt fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar og neitað að skrifa undir vistun utan heimilis skv. 23. gr. bvl. Vísar lögmaður til tölvupóst þann 17. janúar 2022.
Eins og fram hefur komið mætti faðir á fund starfsmanna ásamt lögmanni sínum þann 28. janúar 2022, sá dagáll fylgdi greinargerð barnaverndar. Á þeim fundi var farið yfir gögn málsins og sagðist faðir ekki samþykkja vistun stúlknanna. Á þeim fundi lagði lögmaður föður fram þá tillögu um að gerður yrði umsjársamningur við föður og ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra. Málið var bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 1. febrúar 2022. Fram kemur í bókun sá vilji stúlknanna, að þær vilja búa hjá móðurforeldrum sínum og lögðu starfsmenn til þess að fallist yrði á tillögur sem lögmaður föður lagði fram á fundi þann 28. janúar, þess efnis að stúlkurnar yrðu hjá móðurforeldrum alla virka daga en myndu vera hjá föður um helgar. Þannig yrðu stúlkurnar vistaðar hjá föður en gerður ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra. Töldu starfsmenn að ekki væri ástæða til að fara gegn ósk föður hvað þetta varðaði og væri þá einnig verið að koma til móts við óskir stúlknanna. Lögmaður föður óskaði einnig eftir að gert yrði forsjárhæfnismat á móður. Sú beiðni var tekin fyrir á meðferðarfundi starfsmanna þann 8. mars 2022 og var það mat starfsmanna að ekki væri tímabært að framkvæma slíkt mat þar sem hún væri í neyslu vímuefna og húsnæðislaus. Móðir hafði þá ekki farið fram á umgengni né voru stúlkurnar í hennar umsjá.
Lögmaður vísar til þess í greinargerð að ekki er á það minnst að starfsmaður barnaverndar hafi boðað lögmann á fund með nefndinni með tölvupósti þann 18. janúar 2022. Óljóst er hvað lögmaður föður vísar þarna til en í tölvupósti starfsmanna til lögmanns þann 17. janúar 2022 er tekið fram að mál föður verði tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna daginn eftir, þann 18. janúar 2022. Mál föður var ekki bókað á fundi starfsmanna þann 18. janúar 2022 heldur 1. febrúar 2022 eins og komið hefur fram þar sem faðir mætti í viðtal til starfsmanns þann 28. janúar.
Lögmaður vísar til þess að því er haldið fram í greinargerð að starfsmenn barnaverndar hafi samþykkt tillögur föður sem hann hafi lagt fram á fundi þann 28. janúar 2022.
Lögmaður föður gerir athugasemdir við meðferðaráætlun, dags. 23 mars 2022 og að hún væri ekki í samræmi við óski föður, sbr. dagál 28. janúar 2022. Vísar lögmaður til þess að tillaga frá lögmanni föður hafi verið að gerður yrði umsjársamningur við föður og ríflegur umgengnissamningur við móðurforeldra sem og að það yrði gert forsjárhæfnismat á móður. Þann 23. mars 2022 var meðferðaráætlun send lögmanni föður og var hún send til föður rafrænt til undirritunar þann 30. mars 2022. Meðferðaráætlun var undirrituð af föður rafrænt þann 1. apríl 2022 án athugasemda, sjá meðfylgjandi fylgiskjal, undirrituð meðferðaráætlun þann 1. apríl 2022.
Lögmaður föður vísar til þess í greinargerð sinni að ómöguleiki sé að gera meðferðaráætlun skv. 23. gr. bvl. ef faðir er ekki samþykkur og beita á öðrum úrræðum eða loka máli.
Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir að mál stúlknanna fór ekki fyrir fund barnaverndarnefndar B né var óskað eftir aðkomu lögmanns föður af hálfu starfsmanna Barnaverndar B, sbr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar. Þær reglur eiga sér lagastoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í ljósi þess að faðir samþykkti meðferðaráætlun þann 1. apríl 2022 og að ekki hafi verið sérstaklega óskað eftir aðkomu lögmanns föður af hálfu starfsmanna Barnaverndar B né mál stúlknanna lagt fyrir fund barnaverndarnefndar er ítrekuð fyrri beiðni um að hinn kærða ákvörðun, sem kynnt var með bréf, dags. 29. mars 2022, verði staðfest af hálfu úrskurðarnefnd velferðarmála.“
Mál stúlknanna hafi því hvorki verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B né hafi verið óskað eftir aðkomu lögmanns föður af hálfu starfsmanna Barnaverndar B.
Með vísan til framangreinds og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er þess krafist að hin kærða ákvörðun, sem kynnt var með bréfi, dags. 29. mars 2022, verði staðfest af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur vegna aðstoðar lögmanns á grundvelli 47. gr. bvl. vegna meðferðar máls hjá Barnavernd B.
Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.
Barnavernd B samþykkti þann 19. febrúar 2019 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl.
Í 1. gr. reglna Barnaverndarnefndar B segir:
„Barnaverndarnefnd B veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanns á fundi Barnaverndarnefndar B nema sérstaklega sé um annað samið.“
Kærandi óskaði eftir fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar með bréfi, dags. 4. mars 2022. Tímaskýrsla fylgdi framangreindu bréfi þar sem kveðið var á um 28,5 klukkustunda vinnu á tímagjaldi kr. 17.000 kr. ásamt virðisaukaskatti vegna tíma sem unnir voru frá 14. janúar 2022 til og með 4. mars 2022.
Með bréfi, dags. 29. mars 2022, synjaði Barnavernd B kæranda um styrk vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu B lögmanns fyrir kæranda. Í bréfinu var vísað til þess að málið hafi á umræddum tíma ekki verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B og að starfsmenn hafi ekki óskað eftir aðkomu lögmanns.
Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni, sem er aðili máls, fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð vegna andmælaréttar samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð.
Eins og að framan greinir var málið ekki tekið til úrskurðar Barnaverndarnefndar B. Af gögnum málsins verður ekki séð að starfsmenn Barnaverndar B hafi sérstaklega óskað eftir aðkomu lögmanns á fundum vegna meðferðar málsins.
Með hliðsjón af framangreindu verður því hvorki fallist á að mál kæranda hafi verið til meðferðar á grundvelli þess að kveða þyrfti upp úrskurð í því hjá Barnaverndarnefnd B né að starfsmenn Barnaverndar B hafi óskað eftir viðveru lögmanns.
Ákvörðun Barnaverndar B um synjun á greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 29. mars 2022, í máli A , um að synja kæranda um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, er staðfest.
Fh. úrskurðarnefndar velferðarmála
Guðrún Agnes Þorsteinsdóttur formaður