Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 458/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 458/2016

Föstudaginn 27. janúar 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 21. nóvember 2016 kærði C hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar-nefndar B frá 12. október 2016 um að loka máli, sbr. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), vegna barna kæranda, D, og E.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Börnin D og E eru fædd X og X og eru börn kæranda, sem er móðir þeirra, og F. Foreldrar barnanna fara sameiginlega með forsjá þeirra en ágreiningur hefur verið um umgengni. Kærandi hefur nú höfðað forsjármál á hendur föður barnanna.

Í málinu liggja meðal annars fyrir neðangreindar tilkynningar til lögreglu og barnaverndar og dagálar barnaverndar vegna barnanna:

Tilkynning til lögreglu X. apríl 2016. Samkvæmt tilkynningunni óskaði kærandi eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs manns á heimili foreldra F X. apríl 2016 Þegar lögregla kom á vettvang var allt með kyrrum kjörum en lögreglu var greint frá því að skömmu áður hafi F veist að kæranda og ýtt henni svo að hún féll í baðker. Tilefni þessa hafi verið að þennan dag átti F að fá börnin til helgarvistunar. Kærandi hafi farið á heimili F með föt á börnin en F var ekki heima. Kærandi veitti athygli bjórdós á eldhúsbekknum og taldi víst að F væri undir áhrifum áfengis en samkvæmt umgengnisskilmálum átti F ekki að fá börnin væri hann undir áhrifum áfengis. Hafi kærandi því næst farið á heimili foreldra F en þá hafi hann verið staddur þar á leið burt með börnin. Kærandi hafi greint F frá því að hún teldi hann ölvaðan en þá kom til ryskinga á milli þeirra. F hefði greint lögreglu frá því að hann væri ekki undir áhrifum áfengis en hann hefði þó ekki fengist til að gefa öndunarsýni. Að sögn lögreglu var smá áfengisþefur af F. Fulltrúi barnaverndar var kallaður á staðinn. Málinu hafi lyktað þannig að D fór með kæranda heim en ljóst hafi verið að hann vildi ekki vera hjá föður sínum. E hefði verið skilin eftir í umsjá föður síns sem hafi gengið með hana heim til sín.

Kærandi kom á lögreglustöð Xapríl 2016 og óskaði eftir aðstoð vegna E. Kvað kærandi barnið hjá föður sínum en hann væri líklega að drekka og ekki hæfur til að annast það. F væri með fullt af áfengi í bíl sínum svo og heima hjá sér. Kærandi fengi ekki að tala við barnið og gæti ekki nálgast það.

Í dagálum barnaverndar Xapríl 2016 kemur fram að starfsmenn barnaverndar hafi farið á heimili F eftir að upplýsingar hefðu borist um áfengisneyslu og óstöðugt ástand hans. Þegar komið var á staðinn hafi E staðið á tröppum nágranna. Er hún varð vör við starfsmenn barnaverndar fylltist hún skelfingu, gekk yfir að heimili föður síns, fór inn og lokaði á eftir sér. Í framhaldinu var ítrekað hringt á dyrabjöllu og bankað þar til F kom til dyra. Hann var illa áttaður í fyrstu en þegar hann gerði sér grein fyrir að um starfsmenn barnaverndar var að ræða lokaði hann hurðinni, læsti og opnaði ekki aftur. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu en áður en lögregla kom hafi F opnað. Hann greindi frá því að hann ætlaði ekki að ræða við starfsmenn og lokaði á ný. Ákveðið að aðhafast ekki frekar þar sem barnið var ekki talið í hættu hjá föður sínum.

Kærandi kom aftur á lögreglustöð Xapríl 2016 og skýrði frá því að E væri enn heima hjá föður sínum en hann hefði átt að fara með barnið í leikskólann um morguninn. Kæranda var greint frá því að lögregla myndi ekki grípa til aðgerða nema fyrir tilstilli barnaverndarnefndar. Kærandi kvaðst þá mundu fara heim til F. Þegar hún kom þangað hringdi hún til lögreglu, sagði barnið hágrátandi inni og F langölvaðan. Kærandi braut sér því næst leið inn í húsið og tók barnið. Lögregla kom á vettvang og kvað F í ójafnvægi en ekki væri gott að segja til um hvort hann væri allsgáður. Barnaverndarnefnd var gerð grein fyrir málinu.

Á teymisfundi barnaverndarnefndar 20. apríl 2016 kom fram að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar væri rík ástæða til að kanna hvort aðstæður barnanna gætu talist viðunandi. Foreldrar yrðu boðaðir til viðtals. Kærandi kom í viðtal X. apríl 2016 og lagði áherslu á að við ríkjandi aðstæður væri umgengni við föður andstæð hagsmunum barnanna. Þau væru mjög hrædd og veltu fyrir sér hvenig þau gætu falið sig ef pabbi kæmi að sækja þau. F kom í viðtal X apríl 2016. Hann kvaðst sammála því að átök og ágreiningur vegna umgengni hefði í för með sér álag fyrir börnin. Að hans mati hafi kærandi brotið á rétti hans og barnanna. Hann hafi lýst atburðum Xapríl 2016 þannig að kærandi hafi gert E hrædda með látum fyrir utan húsið og meðal annars kallað til barnsins inn um bréfalúgu og sagst vera að koma til að bjarga henni. F bar ekki á móti því að eiga við áfengisvanda að glíma. Hann gætti þess þó að drekka ekki þá fjóra daga sem börnin væru hjá honum og hefði nokkuð góða stjórn á drykkjunni nú. Hann byggi oft við mikið ónæði af hálfu kæranda þegar börnin væru hjá honum, stundum hafi hún haldið börnunum frá honum.

Á samráðsfundi í skóla D þann X apríl 2016 kom fram að borið hefði á öryggisleysi barnsins. Í eitt skipti hefði hann látið í veðri vaka að hann kviði því að fara til föður. Könnunarviðtal barnaverndar við starfsmenn á leikskóla E fór fram Xmaí 2016. Þar kom fram að líðan hennar virtist góð í leikskólanum en undanfarnar vikur hefði hún verið órólegri og kallað á athygli með óæskilegri hegðun. Það hefði gerst að F yrði reiður ef E væri ekki í skólanum þegar hann kæmi að sækja hana í umgengni. Einnig hafi starfsmenn á leikskólanum orðið vitni af því að hann talaði reiðilega og mjög skipandi til kæranda. Komið hafi fyrir að barnið mætti ekki í leikskóla mánudaga og föstudaga þegar það væri í umgengni hjá föður sínum. Barnið hafi talað um að faðir væri stundum veikur og drykki þá bjór.

Þann X. maí 2016 hafi farið fram könnun á líðan barnanna vegna barnaverndartilkynningar samkvæmt 21. gr. bvl. Niðurstaða könnunar hafi verið sú að börnunum liði vel hjá móður en vildu ekki vera hjá föður vegna áfengisneyslu hans. E sakni föður síns en hvorugt barnanna vilji hitta hann við núverandi aðstæður. D sagðist ekki vilja hitta föður þó að hann væru ekki í neyslu. Bæði börnin væru upptekin af áfengisneyslu föður og bæði segðu að þeim liði vel hjá kæranda.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að X maí 2016 hafi F hringt og óskað aðstoðar lögreglu við að fá börnin en þau væru læst inni hjá foreldrum kæranda. Hann ætti að vera með börnin núna. Lögregla hafi haft símasamband við móður kæranda sem hafi sagt að börnin væru hjá henni og ekki væri ætlunin að afhenda þau föður. Daginn eftir, X maí 2016, hafi kærandi hringt til lögreglu og tilkynnt um F á stigagangi í húsi foreldra hennar. Lögregla hafi mætt á staðinn og hitt F þar fyrir. Hann hafi verið rólegur, kurteis og edrú. Hann kvaðst kominn til að sækja börnin sem væru hjá foreldrum kæranda. Ítrekað væri búið að brjóta á honum umgengnisrétt og bera upp á hann rangar sakargiftir um ölvun og fleira. Eftir að F var farinn hafði lögregla tal af kæranda sem sagðist búa þarna með foreldrum sínum. Hún hafi viðurkennt að börnin væru hjá henni en ætlaði ekki að láta F fá þau þar sem hann væri andlega veikur, oft drykkfeldur og mjög drukkinn þegar hann væri með börnin. Hún væri að vernda börnin.

Á teymisfundi barnaverndarnefndar 1. júní 2016 var ákveðið að gera áætlun samkvæmt 23. gr. bvl. Bæði kærandi og F undirrituðu áætlunina sem gilti frá 22. júní til 22. september 2016. Í samræmi við áætlunina fór fram könnunarviðtal við börnin X ágúst 2016. Fram kom að D geislaði af gleði og öryggi. Hann hafi hitt föður sinn oft um sumarið en ekki gist hjá honum. D sagði frá því að stundum fyndist honum gaman að hitta föður sinn og stundum ekki. Mat könnunarinnar var að honum virtist líða vel með núverandi fyrirkomulag. E hafi einnig sagt frá því að hún hefði hitt föður sinn mörgum sinnum í sumar. Henni fyndist það gaman og líkaði vel það fyrirkomulag sem væri til staðar.

Á teymisfundi í Barnaverndarnefnd B 12. október 2016 hafi eftirfarandi bókun verið gerð vegna máls barnanna:

„Mál barnanna hafa verið til vinnslu skv. áætlun sem nú er runnin út. Fram hefur komið að líðan þeirra hefur batnað og samskipti foreldranna einnig, þótt ágreiningur um, umgengni virðist enn til staðar. Hann er nú til meðferðar hjá sýslumanni og mun sáttameðferð þegar hafin. Þá virðist faðirinn hafa haldið sig frá neyslu áfengis í u.þ.b. hálft ár. Markmið áætlunarinnar hafa því náðst að verulegu leyti og ekki ástæða til frekari íhlutunar barnaverndar að óbreyttu. Málum barnanna verður því lokað.“

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess óskað að ákvörðun um lokun málsins verði felld úr gildi og að barnaverndarnefnd reyni að koma á nýrri áætlun í þeirri viðleitni að fá föður til að taka á áfengisvanda sínum.

Í kæru segir að faðir barnanna eigi við alvarlegan áfangisvanda að etja. Hann hafi ekki tekið á vanda sínum og séu börnin mjög óttaslegin og kvíðin eftir uppákomur tengdar drykkju hans. Vandinn sem varð til þess að málið var opnað sé því enn til staðar.

Kærandi kveðst óttast að senda börnin í umgengni til föður. Hún hafi höfðað forsjármál en telji að bregðast þurfi við til að tryggja öryggi barnanna.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar 6. janúar 2017 kom fram að barnavernd hafi ekki fylgt eftir kröfu um að faðir leitaði sér aðstoðar vegna áfengisvanda. Kærandi kveður föður hafa haldið áfram drykkju í lotum. Vegna alvarlegrar sögu hans hefði þurft að fylgja því betur eftir að hann leitaði sér meðferðar.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B 6. desember 2016 kemur fram að mál barnanna hafi hafist hjá nefndinni 20. apríl 2016 með ákvörðun um könnun á efni nokkurra tilkynninga sem allar tengdust átakamiklum samskiptum foreldranna. Hafi komið fram grunsemdir, einkum frá kæranda, um að faðir væri ekki hæfur til að sjá um börnin í umgengni. Þó að deila um umgengni sem slík varði ekki við barnaverndarlög hafi það verið mat barnaverndarnefndar að sá ágreiningur og þau átök sem fram komi í tilkynningunum væri tilefni könnunar samkvæmt barnaverndarlögum um hvort aðgerða væri þörf til að bæta aðstæður og tryggja öryggi barnanna.

Við könnun málsins hafi verið aflað upplýsinga frá báðum foreldrum, skólum barnanna auk þess sem rætt hafi verið við börnin. Einnig hafi verið hafðar til hliðsjónar upplýsingar vegna fyrri afskipta barnaverndarnefndar og dagbókarfærslur frá lögreglu vegna afskipta af ágreiningi foreldranna. Niðurstaðan hafi verið sú að fyrirliggjandi ástand hefði í för með sér óviðunandi álag fyrir börnin. Það hafi verið talið staðfest að faðir ætti við áfengisvanda að stríða en óstaðfest að hann hafi verið ölvaður með börnin í sinni umsjá. Gögn málsins gefi til kynna tilfinningalegan óstöðugleika begga foreldra og vanlíðan barnanna. Átök foreldranna hafi borist í skóla barnanna og hafi þannig haft óheppileg áhrif þar.

Foreldrar hafi komið til viðtals X júní 2016 þar sem þeim hafi verið kynnt ofangreint svo og tillögur um meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. Bæði hafi samþykkt áætlunina. Þar hafi komið fram að kærandi skyldi ávallt leitast við að leysa ágreining um umgengni með formlegum hætti og aðhafast ekkert sem ógnaði jafnvægi barnanna og vellíðan. Hún myndi leita ráðgjafar og sálfræðings í þessu skyni. Barnavernd myndi greiða sex sálfræðiviðtöl fyrir kæranda, fylgjast með líðan barnanna í samráði við skóla og með vitjun á heimili beggja foreldra og ræða við börnin til að kanna líðan þeirra. Áætlunin hafi gilt til 22. september 2016 en áformaður hafi verið fundur 1. september til að meta árangur stuðningsaðgerða.

Á fundinn 1. september hafi kærandi ein mætt. Þar hafi legið fyrir nýlegar upplýsingar úr samtölum sálfræðings við börnin en líðan þeirra hafi verið mun betri en áður. Meiri friður hafi verið í tengslum við umgengni við föður sem börnin höfðu þá hitt í fylgd kæranda. Kærandi hafi nýtt sér aðstoð sálfræðings og taldi þá aðstoð hafa komið að notum. Á fundinum hafi ekki komið fram upplýsingar um frekari stuðningsþörf en kærandi hafi greint frá því að umgengnismálið væri til meðferðar hjá sýslumanni og óvíst um niðurstöðu þess. Engar nýjar upplýsingar eða grunsemdir hafi legið fyrir um áfengisneyslu föður.

Ekki hafi náðst tal af föður fyrr en 6. október 2016. Þá hafi komið fram að hann hefði ekki bragðað áfengi í um hálft ár og hitt börn sín nokkrum sinnum yfir sumarið.

Á teymisfundi í barnavernd 12. október 2016 hafi verið gerð bókun í málinu þess efnis að líðan barnanna svo og samskipti foreldra hefðu batnað. Faðir virtist hafa haldið sér frá áfengisneyslu í um hálft ár. Markmið þeirrar áætlunar sem gerð hafi verið hafi þannig að verulegu leyti náðst og ekki sé ástæða til frekari íhlutunar barnaverndar að óbreyttu. Því hafi verið ákveðið að loka málinu og hafi sú niðurstaða verið kynnt foreldrum. Barnaverndarnefnd B krefst þess að kærunni verði vísað frá.

VI. Niðurstaða

Börnin D og E eru fædd X og X og lúta sameiginlegri forsjá kæranda, sem er móðir barnanna, og F sem er faðir þeirra. Kærandi hefur höfðað forsjármál á hendur föður.

Málavextir eru þeir að frá miðjum apríl 2016 höfðu átt sér stað mikil átök á milli kæranda og barnsföður hennar varðandi umgengni með börnunum. Kærandi sakaði föður um að vera undir áhrifum áfengis á meðan börnin voru í umgengni hjá honum en faðir hafnaði því og sakaði kæranda um að tálma umgengni. Að undangengninni könnun máls samkvæmt 22. gr. bvl. gerðu foreldrar barnanna og Barnaverndarnefnd B áætlun um meðferð máls samkvæmt 2. mgr. 23. gr. bvl. en í lagaákvæðinu segir að ef könnun leiddi í ljós að þörf væri á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt bvl. skyldi barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls. Áætlun skyldi gerð til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum.

Meðferðaráætlunin var gerð 22. júní 2016 og skyldi hún gilda til 22. september 2016. Í áætluninni er hlutverki forsjáraðila lýst þannig að þau skuli forðast átök vegna barnanna og aðhafast ekkert sem ógnað gæti jafnvægi barnanna og vellíðan. Kærandi skuli leita aðstoðar sálfræðings í þessu skyni svo og til að styrkja forsjárhæfni sína. Stuðningsúrræðum barnaverndarnefndar er meðal annars lýst svo að greitt verði fyrir sálfræðiaðstoð kæranda í sex tíma. Fylgst verði með líðan og aðlögun barna í samráði við skóla og með vitjun á heimili þeirra hjá móður og einnig hjá föður verði því við komið. Einnig verði rætt við börnin á tímabili áætlunar.

Rætt var við börnin X maí 2016, þ.e. á meðan könnun máls stóð yfir, og aftur X ágúst 2016, eða tveimur mánuðum eftir að meðferðaráætlun var gerð. Kom fram að líðan þeirra beggja hafði batnað töluvert á tímabilinu. Börnin höfðu hitt föður sinn dagpart nokkrum sinnum á tímabilinu að kæranda viðstaddri og virtust ánægð með það fyrirkomulag.

Í meðferðaráætlun kom fram að farið yrði yfir stöðu málsins á fundi 1. september 2016, kl. 13. Kærandi mætti til þess fundar en ekki faðir. Í gögnum málsins kemur fram að ekki hafi náðst tal af föður fyrr en 6. október 2016. Vísað er til þess af hálfu barnaverndarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um stuðningsþörf áfram. Barnaverndarnefndin tók svo ákvörðun 10. október 2016 um að loka málinu þar sem líðan barnanna hefði batnað á tímabili meðferðaráætlunar og sömuleiðis samskipti foreldranna. Faðir virtist hafa haldið sig frá neyslu áfengis í um það bil hálft ár. Markmiðum meðferðaráætlunar hafi þannig að verulegu leyti verið náð og ekki tilefni til frekari íhlutunar barnaverndar að óbreyttu.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu felst að barnaverndarnefnd skal að eigin frumkvæði tryggja að mál sé nægjanlega upplýst, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir barnaverndarnefndar séu bæði löglegar og réttar.

Í máli þessu var meðferðaráætlun gerð til þriggja mánaða. Þegar tveir mánuðir voru liðnir af meðferðartímabilinu var rætt við börnin en mánuði síðar var ákveðið að loka málinu án þess að líðan barnanna væri könnuð frekar. Úrskurðarnefndin telur þá ákvörðun Barnaverndarnefndar B ekki hafa verið í samræmi við hagsmuni barnanna. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að átök og ósætti foreldra hafa haft slæm áhrif á börnin og valdið þeim vanlíðan og kvíða. Börnin hafa ítrekað þurft að upplifa alvarlegan samskiptavanda á milli foreldra og meðal annars verið látin horfa upp á afskipti lögreglu af foreldrum sínum. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að faðir barnanna virtist hafa haldið sig frá neyslu áfengis í um það bil hálft ár. Úrskurðarnefndin telur að í ljósi áfengisvanda föður hefði þurft að fylgjast mun lengur með líðan og aðstæðum barnanna til að lögmætt væri að taka ákvörðun um að loka málinu. Í ljósi alls þessa var nauðsynlegt að fylgst væri með líðan og aðstæðum barnanna lengur en í þá tvo mánuði sem gert var og eftir atvikum gerð ný meðferðaráætlun samkvæmt bvl.

Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefndin að barnaverndarnefndin hafi ekki við málsmeðferð, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. bvl., rannsakað málið með fullnægjandi hætti og í samræmi við 1. mgr. 41. gr. bvl. áður en tekin var ákvörðun í því.

Með vísan til þessa þykir rétt að hin kærða ákvörðun Barnverndarnefndar B verði felld úr gildi og að málinu verði samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. vísað aftur til meðferðar barnaverndarnefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B 12. október 2016 um að loka máli barnanna D og E er felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar barnaverndarnefndar á ný.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta