Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 215/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 215/2017

Þriðjudaginn 10. október 2017

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 8. júní 2017 kærði A hrl., f.h. Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarstofu 15. maí 2017 um að lögsaga í máli drengsins C skuli vera hjá nefndinni. Gerð er sú krafa að ákvörðun Barnaverndarstofu verði felld úr gildi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að X 2014 var mál til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B, sem er kærandi í máli þessu, vegna drengsins C. Því máli var lokað með bréfi kæranda til móður drengsins X 2014. Móðir drengsins hafði samband við kæranda X 2014 og tilkynnti að drengurinn myndi flytjast til stjúpömmu sinnar og -afa í D eftir X. Taldi móðir að drengurinn fengi betri þjónustu í D að því er varðaði aðstoð í skóla.

Drengurinn hefur búið hjá núverandi vistunaraðilum, stjúpömmu sinni og -afa, í D frá X 2015. Að sögn kæranda flutti móðir drengsins til E stuttu seinna þótt formleg lögheimilisskráning virðist ekki hafa átt sér stað fyrr en X 2016. Hvorki móðirin né drengurinn hafa fasta búsetu í umdæmi kæranda í dag. Barnavernd E fer nú með mál vegnaX annarra barna móður drengsins.

Í X 2017 höfðu vistunaraðilar drengsins samband við Barnaverndarnefnd D sem hafði í kjölfarið samband við Barnaverndarstofu varðandi ráðleggingar um lögsögu í málinu. Því næst hafði Barnaverndarnefnd D samband við Barnaverndarnefnd E en ekki náðist samkomulag um lögsögu á milli nefndanna. Sendi Barnaverndarnefnd E þá bréf til Barnaverndarstofu og óskaði formlegrar ákvörðunar um lögsögu í málinu. Í framhaldi af því var haldinn símafundur að frumkvæði Barnaverndarstofu með kæranda og hinum nefndunum tveimur en ekki náðist samkomulag um lögsögu. Á fundinum var þó ákveðið að Barnaverndarnefndin í D hæfi könnun máls þar sem drengurinn er búsettur þar.

Þar sem ekki tókst samkomulag um lögsögu í málinu tók Barnaverndarstofa ákvörðun um lögsöguna 15. maí 2017. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og ákvarðað að lögsaga í málinu skyldi vera hjá kæranda; Barnaverndarnefnd B.

II. Afstaða Barnaverndarnefndar B

Kærandi byggir kröfu sína um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi á því að ákvörðunin eigi ekki við rök að styðjast og sé byggð á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum. Af hinni kærðu ákvörðun verði ekki skýrlega ráðið á hvaða grundvelli Barnaverndarstofa telji að lögsaga málsins eigi að vera hjá kæranda. Í ákvörðuninni sé þannig að finna umfjöllun um ákvæði 15. og 90. gr. bvl. og sérstaka umfjöllun um túlkun ákvæðis 4. mgr. 90. gr. bvl. án þess að sérstaklega sé vísað til einstakra ákvæða í niðurstöðu ákvörðunarinnar.

Í 1. mgr. 15. gr. bvl. segi að barnaverndarnefnd í því umdæmi sem barn eigi fasta búsetu skuli fara með málefni þess. Fyrir liggi að drengurinn hafi haft fasta búsetu í umdæmi Barnaverndarnefndar D frá X 2015. Í 3. mgr. 15. gr. bvl. komi fram að ef það þyki hentugra að mál sé að einhverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn eigi fasta búsetu geti viðkomandi barnaverndarnefndir samið um það á milli sín. Á grundvelli þessa ákvæðis hafi Barnaverndarstofa beint því til kæranda og Barnaverndarnefndar D að fara yfir málið og reyna að komast að samkomulagi um lögsögu. Slíkt samkomulag hafi ekki náðst.

Í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr., sbr. 6. gr. bvl., komi fram að ef ágreiningur rís á milli barnaverndarnefnda geti Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn eigi fasta búsetu og einnig mælt fyrir um að önnur nefnd en sú, þar sem barn eigi fasta búsetu, fari með málið ef það sé talið tryggja betur meðferð þess. Af greinargerð með ákvæðinu megi ráða að þessar reglur um lögsögu séu fyrst og fremst settar í þeim tilgangi að tryggja samfellu í málsmeðferð barnaverndarmála með tilliti til hagsmuna barna. Telji kærandi að þetta megi jafnframt ráða af umfjöllun í greinargerð með 2. mgr. 15. gr. bvl., þ.e. að markmið bvl. hvað varði lögsögu barnaverndarnefnda sé meðal annars að tryggja tengsl barns og/eða foreldra við viðkomandi umdæmi í því skyni að „tryggja samfellu í vinnslu og meðferð“ máls. Í ákvörðun Barnaverndarstofu sé í engu rakið hvernig það sé talið tryggja betur meðferð málsins að ákvarða lögsögu þess hjá kæranda. Kærandi byggi á því að við töku ákvörðunar sé Barnaverndarstofa bundin af ákvæði 3. mgr. 15. gr. bvl. þannig að ef stofan víki frá meginreglu 1. mgr. 15. gr. bvl. um lögsögu þar sem barn eigi fasta búsetu, geti það einungis verið á grundvelli mats Barnaverndarstofu á því að það tryggi betur meðferð máls að víkja frá meginreglunni.

Í ákvörðun sinni fjalli Barnaverndarstofa sérstaklega um ákvæði 90. gr. bvl. sem kveði á um heimildir foreldra til þess að vista barn sitt sjálfir utan heimilis. Reki Barnaverndarstofa sérstaklega ákvæði 3. mgr. ákvæðisins um könnun og mat á aðstæðum af hálfu barnaverndarnefndar í kjölfar tilkynningar um slíka vistun en Barnaverndarstofa telji að kærandi hafi vanrækt það. Af þessari umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun telji kærandi að megi ráða að Barnaverndarstofa líti svo á að meint brot kæranda á skyldum samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 90. gr. bvl. skuli leiða til þess að lögsaga málsins eigi að vera hjá kæranda á grundvelli 4. mgr. sama ákvæðis. Þessu mótmæli kærandi og byggi á því að umrætt sjónarmið sé ólögmætt og í öllu falli ómálefnalegt við töku ákvörðunar um lögsögu í málinu.

Þó litið yrði svo á að um tilkynningarskylda vistun hefði verið að ræða á grundvelli 1. mgr. 90. gr. bvl. og að kæranda hafi borið að kanna aðstæður drengsins, sbr. 3. mgr. 90. gr. bvl., telji kærandi að slíkt sjónarmið geti ekki haft áhrif á ákvörðun um lögsögu í málinu nú. Slíkt myndi falla undir eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu með starfsemi barnaverndarnefnda á grundvelli reglugerðar nr. 264/1995 um Barnaverndarstofu en geti ekki orðið sjónarmið við ákvörðun um lögsögu í málinu. Barnaverndarstofu beri enda að byggja ákvörðun sína um lögsögu á mati á því hvort meðferð máls sé betur tryggð hjá kæranda, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl. Telji Barnaverndarstofa að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum verði ekki séð hvernig það leiði til að unnt sé að líta svo á að meðferð þessa tiltekna máls sé betur tryggð hjá kæranda. Að mati kæranda sé ótækt að svo almennt sjónarmið er lúti að barnaverndarkerfinu í heild sinni gangi framar hagsmunum í því máli sem hér sé til meðferðar.

Í ákvörðun Barnaverndarstofu virðist einnig á því byggt að lögsaga kæranda í málinu skuli ákveðin á grundvelli 4. mgr. 90. gr. bvl. en í því ákvæði segi að barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldris geti gripið til úrræða á grundvelli nánar tiltekinna ákvæða bvl. hafi barn verið í umsjá annarra í þrjá mánuði eða lengur. Móðir drengsins búi í E en að mati kæranda fari það gegn tilgangi ákvæðisins, svo og tilgangi 15. gr. bvl., að ákvarða lögsögu hjá kæranda þegar hvorki móðir né barn hafi lögheimili eða búsetu í umdæmi kæranda.

Þá hafi kærandi bent á að ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl. sé skýrt um að það sé barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldris sem geti gripið til úrræða samkvæmt bvl. Barnaverndarstofa hafi hins vegar viljað byggja á ummælum í greinargerð með ákvæðinu þar sem segi að sú nefnd, þar sem barnið hafi átt lögheimili þegar foreldrar hafi vistað það, fari með málið. Þótt greinargerð sé vissulega oft til skýringar og fyllingar lagaákvæðum telji kærandi að það eigi ekki við hér þar sem orðalag lagaákvæðisins og orðalag í greinargerð stangist í raun á. Að mati kæranda verði að líta svo á að skýr lagatexti gangi þá framar.

Þar sem tilgangur ákvæðisins hljóti meðal annars að vera sá að tryggja samfellu í meðferð máls sé sú lögskýring nærtækust. Það sé að sjálfsögðu gert með því að barnaverndarnefnd í því umdæmi sem foreldrar séu búsettir fari þá með málið, nema annað og meira komi til enda megi búast við að barn kunni að fara aftur til búsetu hjá foreldrum sínum í tilvikum sem þessum. Þegar svo hátti til eins og hér, að foreldrið sé flutt úr því umdæmi sem það bjó í er það tók ákvörðun um vistunina, rofni þessi tengsl og engin rök standi þá til þess að nefndin í því umdæmi sem foreldrið bjó í fari með slíkt mál, jafnvel löngu eftir að bæði foreldrarnir og barnið séu flutt úr umdæminu. Að mati kæranda fari það gegn tilgangi ákvæðisins, svo og tilgangi 15. gr. laganna að ákvarða lögsögu hjá kæranda þegar hvorki móðir né barn hafi lögheimili eða búsetu í umdæmi kæranda.

Barnaverndarstofa virðist einnig byggja rökstuðning sinn á því að allt frá stofnun Barnaverndarstofu hafi skapast venja varðandi túlkun á ákvæðum bvl. um lögsögu. Kærandi bendi á að Barnaverndarstofa rökstyðji þetta ekki. Jafnvel þó að slík venja teldist fyrir hendi gengi hún ekki framar skýrum ákvæðum bvl. um lögsögu, sbr. til dæmis Hrd. í máli nr. 34/2010 frá 28. október 2010. Í öllu falli telji kærandi að ekki verði ráðið af ákvæðum bvl. að Barnaverndarstofa hafi einhvers konar almenna heimild til að ákveða lögsögu á grundvelli ákvæða bvl. heldur sé heimild hennar til ákvörðunar takmörkuð við ákvæði 3. mgr. 15. gr. Í rökstuðningi Barnaverndarstofu sé í engu vikið að því hvernig það tryggi betur meðferð málsins að ákvarða lögsögu hjá kæranda á grundvelli 3. eða 4. mgr. 90. gr. bvl.

Eins og rakið hafi verið sé staðan í reynd sú að drengurinn hafi dvalið í umdæmi Barnaverndarnefndar D frá X 2015. Í ársbyrjun 2017 hafi fyrst komið tilkynning til þeirrar nefndar vegna drengsins, þ.e. frá vistunaraðilum hans. Engin tengsl séu því lengur við umdæmi kæranda hvað varði hagsmuni drengsins eða möguleg úrræði. Því verði að mati kæranda ekki séð hvernig það megi vera til þess að tryggja betur meðferð málsins að lögsaga málsins sé nú ákvörðuð hjá kæranda, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl.

Að mati kæranda sé hér hvorki um að ræða lögmæt né málefnaleg sjónarmið af hálfu Barnaverndarstofu þar sem niðurstaða stofunnar gangi beinlínis gegn tilgangi bvl., einkum ákvæðis 15. gr. um lögsögu barnaverndarnefnda. Telji Barnaverndarstofa að kærandi hafi á einhvern hátt vanrækt skyldur sínar og að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða gagnvart honum verði það ekki gert með því að ákvarða lögsögu kæranda í því máli sem hér um ræði. Slíkt þjóni í engu þeim hagsmunum sem ætlunin sé að vernda, þ.e. hagsmunum drengsins.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að fella verði ákvörðun Barnaverndarstofu um lögsögu kæranda í málinu úr gildi. Að mati kæranda liggi ljóst fyrir að Barnaverndarnefnd D eigi að hafa lögsögu í málinu á grundvelli 1. mgr. 15. gr. bvl. nema það sé talið tryggja betur meðferð málsins að önnur barnaverndarnefnd fari með málefni hans. Um það sé á hinn bóginn ekki fjallað í hinni kærðu ákvörðun.

Í greinargerð Barnaverndarstofu komi fram að hin kærða ákvörðun eigi sér lagastoð í 4. mgr. 90. gr. bvl. Þá segi í greinargerðinni að ákvæði 4. mgr. 90. gr. sé skýrt hvað varði lögsögu, og að „[þ]annig hafa ákvæði laganna um lögsögu mála alltaf verið túlkuð[] og hefur skapast um það venja eins og fram kemur í ákvörðun stofunnar.“ Telur Barnaverndarstofa sér „því ekki heimil[]t að taka ákvörðun, þvert á það sem kemur fram í skýrum ákvæðum laganna og athugasemdum með einstaka ákvæðum.“ Þá telur Barnaverndarstofa að með því að ákvarða lögsögu málsins hjá D „væri verið að ganga í berhögg við skýr ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl.“ Þessu mótmælir kærandi.

Barnaverndarstofa fari með ýmis verkefni samkvæmt bvl., til að mynda eftirlit, leiðbeiningar- og fræðsluskyldu, leyfisveitingar, og yfirstjórn heimila og stofnana, sbr. 2. til 5. mgr. 7. gr. bvl. Þá fari Barnaverndarstofa með önnur verkefni sem henni séu falin í bvl., sbr. 6. mgr. 7. gr. bvl. Barnaverndarstofa fari með eftirlit með barnaverndarnefndum og leiðbeiningar- og ábendingarskyldu til barnaverndarnefnda í samræmi við 3. mgr. 8. gr. bvl. Barnaverndarstofu sé falið að skera úr ágreiningi um lögsögu barnaverndarnefnda í ákveðnum tilvikum, sbr. 3., 5. og 6. mgr. 15. gr. bvl. Af rökstuðningi Barnaverndarstofu megi hins vegar ráða að stofan telji sig hafa heimild til þess að skera úr ágreiningi um lögsögu barnaverndarnefnda á grundvelli 4. mgr. 90. gr. bvl. Kærandi mótmæli því að lagastoð fyrir slíkri heimild sé að finna í 4. mgr. 90. gr. bvl. Einu heimildir Barnaverndarstofu til að taka ákvörðun um lögsögu samkvæmt bvl. sé að finna í 3., 5. og 6. mgr. 15. gr. bvl. Telji kærandi því ljóst að með ákvörðun Barnaverndarstofu um lögsögu kæranda á grundvelli 4. mgr. 90. gr. hafi Barnaverndarstofa farið út fyrir valdsvið sitt.

Kærandi byggi þannig á því að eina heimild Barnaverndarstofu til að ákvarða lögsögu í því tilviki sem hér um ræði sé að finna í 3. mgr. 15. gr. bvl. Enda hafi ágreiningur um lögsögu verið í þeim farvegi, þ.e. viðkomandi barnaverndarnefndum hafi verið gert að reyna að ná samkomulagi um lögsögu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. bvl. Í 3. mgr. 15. gr. bvl. segi „[e]f ágreiningur rís á milli barnaverndarnefnda getur Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn telst eiga fasta búsetu, svo og mælt fyrir að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál ef það er talið tryggja betur meðferð þess.“ Kærandi telji ljóst að ef Barnaverndarstofa ætli að taka ákvörðun um lögsögu annarrar barnaverndarnefndar en þeirrar þar sem barn eigi fasta búsetu verði Barnaverndarstofa að gera það á þeim grundvelli að það sé „talið tryggja betur meðferð“ viðkomandi máls, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl.

Burtséð frá ágreiningi aðila um túlkun orðalags ákvæðis 4. mgr. 90. gr. bvl. hvað varði „heimilisumdæmi forsjárforeldra“ telji kærandi vissulega að það geti verið sjónarmið við töku ákvörðunar Barnaverndarstofu um lögsögu á grundvelli 3. mgr. 15. gr. bvl. að það tryggi betur meðferð tiltekins máls að barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldra, sbr. 4. mgr. 90. gr. bvl., fari með málið. Barnaverndarstofa byggi hins vegar hvorki á því í hinni kærðu ákvörðun né í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar að það tryggi betur meðferð þess máls sem hér sé til umfjöllunar að lögsaga málsins sé hjá kæranda.

Hvað sem líði skorti á rökstuðningi Barnaverndarstofu fái kærandi ekki séð hvernig það ætti að tryggja betur meðferð þessa tiltekna máls og hagsmuni drengsins að kærandi, sem sé barnaverndarnefnd B, færi með málið.

Kærandi taki undir með Barnaverndarstofu að við töku ákvarðana á grundvelli bvl. verði að líta til laganna í heild sinni, tilgangs laganna og þeirra hagsmuna sem þeim sé ætlað að tryggja. Í þessu sambandi bendi kærandi á eftirfarandi staðreyndir: Þegar móðir hafi tekið ákvörðun um flutning drengsins hafi ekkert barnaverndarmál verið opið hjá kæranda, en máli vegna drengsins hafði verið lokað í X 2014. Drengurinn og móðirin hafi bæði flutt úr umdæmi kæranda X 2015. Þau hafi engin tengsl haft við umdæmi kæranda frá þeim tíma. Drengurinn hafi verið í D í tvö ár. Móðirin búi í E og þar sé opið barnaverndarmál vegna annarra barna hennar.

Með hliðsjón af því sem hér hafi verið rakið telji kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun um að lögsaga málsins skuli vera hjá honum fari beinlínis gegn markmiði og tilgangi bvl. og sé síst til þess fallin að tryggja samfellu í vinnslu og meðferð málsins.

Að lokum sé því sérstaklega mótmælt er komi fram í greinargerð Barnaverndarstofu að málatilbúnaður kæranda byggist á einhvers konar „vanþekkingu á barnaverndarkerfinu í heild sinni og því lagaumhverfi sem um það gildir.“ Kærandi sé barnaverndarnefnd og hafi mikla þekkingu á barnaverndarlöggjöfinni og meðferð mála samkvæmt henni almennt. Að mati kæranda sé með öllu óeðlilegt að æðra stjórnvald setji fram slík ummæli í greinargerð til úrskurðarnefndar þegar lægra sett stjórnvald nýti sér lögbundna heimild til að láta reyna á ákvörðun þess æðra, sem hann telji í reynd ólögmæta. Telji kærandi þetta sérstaklega ámælisvert í ljósi hlutverks Barnaverndarstofu lögum samkvæmt.

III. Afstaða Barnaverndarstofu

Barnaverndarstofa vísar til þess að stofunni hafi borist bréf 8. febrúar 2017 þar sem óskað hafi verið eftir því að leyst yrði úr ágreiningi um lögsögu á milli Barnaverndar E, Barnaverndarnefndar B og [Barnaverndarnefndar] D vegna máls C.

Meðal þess sem fram hafi komið í erindi Barnaverndar E sé að í X 2015 hafi móðir drengsins, sem jafnframt er forsjáraðili hans, verið með skráð lögheimili í umdæmi nefndar B. Á þeim tíma hafi hún sjálf komið drengum fyrir hjá fyrrum tengdaforeldrum sínum sem búsett séu í sveitarfélaginu D. Frá og með X 2015 hafi drengurinn búið á framangreindu heimili og verið með skráð lögheimili þar. Þá komi einnig fram að móðir hafi flutt frá B til E í X 2016 og hafi verið með skráð lögheimili í E síðan.

Í kjölfar þess að framangreind beiðni hafi borist stofunni hafi verið haldin símafundur með nefndunum þremur 14. febrúar 2017. Á þeim fundi hafi meðal annars komið fram að vistunaraðilar drengsins hefðu leitað til Barnaverndarnefndar D þar sem þau hafi haft áhyggjur af því að móðir drengsins, sem sé í neyslu, myndi reyna að nálgast hann. Þar sem móðir drengsins hafi verið með skráð lögheimili í E hafi nefndin í D framsent erindið til nefndarinnar í E. Á símafundinum hafi verið farið yfir helstu lagaákvæði sem reyndi á í tengslum við lögsögu mála og leitast við að ná samkomulagi milli nefndanna þriggja um lögsögu og vinnslu málsins. Ekki hafi náðst samkomulag um lögsögu málsins en hins vegar hafi náðst samkomulag um að nefndin í D myndi hefja könnun á aðstæðum drengsins auk þess sem nefndin í D og nefndin á B færu yfir málið og mætu hvort forsendur væru fyrir samkomulagi milli nefndanna varðandi lögsögu málsins. Samkomulag hafi ekki náðst á milli nefndanna tveggja.

Fjallað sé um lögsögu barnaverndarnefndar í 15. gr. bvl. Í 1. mgr. ákvæðisins komi fram að barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn eigi fasta búsetu eigi úrlausn um málefni þess. Fram komi í 1. málslið 2. mgr. 15. gr. bvl. að ef barn flytjist úr umdæmi nefndar á meðan hún hafi mál þess til meðferðar skuli nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í umdæminu sem barnið flytji til, upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta henni í té öll nauðsynleg gögn málsins. Þá komi fram í 3. mgr. 15. gr. að ef hentugra þyki að mál sé að einhverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn eigi fasta búsetu geti viðkomandi barnaverndarnefndir samið um það sín í milli. Þá segi enn fremur að ef ágreiningur rísi á milli barnaverndarnefnda geti Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn teljist eiga fasta búsetu svo og mælt fyrir um að önnur nefnd en sú þar sem barn eigi fasta búsetu fari með mál ef það sé talið tryggja betur meðferð þess.

Sérstaklega sé kveðið á um heimildir foreldra til þess að vista barn sitt sjálfir í 90. gr. bvl. Í 3. mgr. 90. gr. sé kveðið á um að þegar barnaverndarnefnd fái upplýsingar um slíka ráðstöfun foreldris, skuli nefndin kanna hvort þörf sé fyrir stuðning við foreldra sem geti gert þeim kleift að hafa barnið hjá sér. Sé svo ekki skuli barnaverndarnefnd kanna sérstaklega hvort hagsmunum og þörfum barns sé fullnægt á nýjum dvalarstað þess. Í 4. mgr. 90. gr. bvl. sé jafnframt kveðið á um að ef barn hafi verið í umsjá annarra í þrjá mánuði eða lengur skv. 90. gr. geti barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldra gripið til úrræða skv. 27., 28. eða 29. gr. bvl.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að þegar barnaverndarnefnd fái upplýsingar um að foreldri hafi ráðstafað barni til utanaðkomandi aðila skv. 90. gr. bvl. sé nefndinni skylt að kanna hvort unnt sé að styðja foreldri þannig að vistun þurfi ekki að eiga sér stað. Leiði niðurstaða þeirrar könnunar í ljós að svo sé ekki, þurfi nefndin að kanna aðstæður barnsins á því heimili sem því hafi verið ráðstafað til skv. 90. gr. bvl. Eðlilegt sé að slík könnun fari fram af hálfu þeirrar nefndar sem hafi verið með mál barnsins til meðferðar enda sé í 4. mgr. 90. gr. bvl. sérstaklega kveðið á um að það sé nefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldra sem geti gripið til ráðstafana skv. 27., 28. eða 29. gr. bvl. Þá sé fjallað enn frekar um lögsögu barnaverndarnefnda í þessum tilvikum í athugasemdum um framangreint ákvæði í frumvarpi bvl. Þar sé sérstaklega tekið fram að miðað sé við að barnaverndarnefnd þar sem barnið hafi átt lögheimili þegar foreldrar hafi vistað það fari með mál samkvæmt ákvæðinu nema sú barnaverndarnefnd og barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn sé vistað semji um annað. Enn fremur sé tekið fram að þetta sé í fullu samræmi við ákvæði 15. gr. frumvarpsins. Í þessu samhengi bendi stofan á að löglíkur séu fyrir því að lögheimili barns og foreldris sé það sama á þeim tíma er foreldri sjálft komi barni sínu fyrir í vistun á öðru heimili. Í athugasemdum með 4. mgr. 90. gr. bvl. séu nánari leiðbeiningar um hvernig eigi að túlka 90. gr. og 15. gr. saman í þeim tilvikum sem foreldrar hafi flutt á milli sveitarfélaga eftir að þeir vistuðu barnið skv. 1. mgr. 90. gr. bvl. Að mati Barnaverndarstofu séu athugasemdir með framangreindu ákvæði bvl. í fullu samræmi við ákvæðið sjálft, það er að segja 4. mgr. 90. gr. bvl. sem og önnur ákvæði laganna sem fjalli um lögsögu barnaverndarnefnda.

Í Handbók fyrir barnaverndarnefndir og starfsfólk þeirra sé fjallað um valdsvið barnaverndarnefnda í 5. kafla. Þar komi meðal annars fram að barnaverndarnefnd þar sem barn eigi fasta búsetu, eigi fyrst og fremst úrlausn um málefni þess. Stundum geti þurft að meta hvar barn teljist eiga fasta búsetu og við það mat sé fyrst horft til þess hvar barnið eigi lögheimili, enda löglíkur fyrir því að þetta fari saman. Þá sé bent á þá staðreynd að samkvæmt barnaverndarlögum ráði lögheimili barns eða dvalarstaður ekki alltaf úrslitum, til dæmis ef barnið sé hjá öðrum en forsjáraðilum sínum. Sé í því tilliti sérstaklega bent á að samkvæmt 90. gr. bvl. geti foreldri falið öðrum daglega umönnun og uppeldi barns síns með vissum skilyrðum.

Með hliðsjón af ofangreindu sé nokkuð ljóst að lögsaga barnaverndarmála sé ekki alltaf ákvörðuð út frá fastri búsetu barns.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar sé því haldið fram að hin kærða ákvörðun eigi ekki við rök að styðjast og sé því í raun byggð á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum. Því sé einnig haldið fram að ekki sé ljóst á hvaða lagagrundvelli ákvörðun stofunnar sé byggð. Þá sé því haldið fram að Barnaverndarstofa sé bundin af ákvæði 3. mgr. 15. gr. bvl. með þeim hætti að stofan hafi einungis heimild til þess að ákvarða lögsögu máls þannig að slík ákvörðun tryggi betur meðferð málsins. Þá komi fram í kærunni að umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um að barnaverndarnefnd B hafi ekki unnið mál drengsins í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga feli í sér að stofan hafi byggt ákvörðun sína á ólögmætu sjónarmiði og sé ákvörðunin í öllu falli ómálefnaleg. Þá sé því haldið fram að Barnaverndarstofa hafi ekki rökstutt með hvaða hætti sú venja hafi skapast hjá stofunni að túlka ákvæði um lögsögu barnaverndarmála með þeim hætti sem gert sé í hinni kærðu ákvörðun auk þess sem slík venja geti ekki gengið framar skýrum ákvæðum bvl. um lögsögu. Að lokum haldi kærandi því fram að lögsaga málsins geti hvergi verið annars staðar en hjá [Barnaverndarnefnd] D.

Í málinu sé óumdeilt að drengurinn og móðir hans hafi bæði verið með skráð lögheimili og fasta búsetu í umdæmi nefndar B þegar móðir hafi tekið ákvörðun um að vista drenginn hjá fyrrum tengdaforeldrum sínum í D. Fyrir liggi að móðir hafi haft samband við nefnd B X 2014 og tilkynnt að drengurinn væri að flytja þangað þar sem hann hefði ekki fengið þann stuðning sem hann hafi þurft á að halda í umdæmi nefndar B. Eftir áramót hafi verið reynt að hafa samband við móður án árangurs og barnaverndarnefndin hafi í kjölfarið lokað málinu. Með hliðsjón af framangreindu liggi ljóst fyrir að nefndin á B hafi ekki sinnt skyldum sínum, sbr. 3. mgr. 90. gr. bvl., þar sem nefndin hafi ekki aðhafst með þeim hætti sem kveðið sé á um í ákvæðinu, þ.e. að ekki hafi verið athugað hvort unnt væri að styrkja móður í sínu hlutverki og veita drengum þann stuðning sem móðir hafi talið vanta. Þá hafi nefndin ekki athugað hvernig aðbúnaði drengsins hafi verið háttað hjá fyrrum tengdaforeldrum móður. Hér sé ekki um heimildarákvæði að ræða heldur beri viðkomandi barnaverndarnefnd skylda til þess skv. 3. mgr. 90. gr. bvl. að kanna framangreinda þætti og leggja mat á aðstæður hverju sinni.

Með hliðsjón af ákvæðum bvl. um lögsögu og því sem rakið sé í ákvörðun Barnaverndarstofu um lögskýringar verði að ákveða lögsögu málsins á grundvelli 4. mgr. 90. gr. bvl. Það sé alveg skýrt í ákvörðun stofunnar að framangreint ákvæði sé sú lagastoð sem byggt sé á. Við töku ákvörðunar á grundvelli barnaverndarlaga verði að túlka lögin í heild sinni. Þegar foreldarar hafi ráðstafað barni sínu sjálfir til vistunar hjá öðrum gildi ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl. um lögsögu mála og því ekki unnt að líta eingöngu til ákvæða 15. gr. bvl. hvað það varði. Þannig hafi ákvæði laganna um lögsögu mála alltaf verið túlkuðu og hafi skapast um það venja eins og fram komi í ákvörðun stofunnar. Slíka venju þurfi ekki að rökstyðja frekar þar sem hún sé í fullu samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og lögskýringargögn með þeim. Hafi framangreindar reglur meðal annars þann tilgang að koma í veg fyrir að aðilar að barnaverndarmálum geti komist hjá afskiptum barnverndaryfirvalda með því að flakka á milli sveitarfélaga. Barnverndarstofa telji sér því ekki heimilt að taka ákvörðun þvert á það sem komi fram í skýrum ákvæðum laganna og athugasemdum með einstaka ákvæðum. Umfjöllun stofunnar um að barnaverndarnefndin hafi ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum á þeim tíma er móðir drengsins hafi vistað hann hjá fyrrverandi tengdaforeldrum sínum hafi verið sett fram í því skyni að varpa ljósi á þau atriði í vinnslu málsins sem hafi haft áhrif á mat stofunnar við túlkun laganna. Í lögskýringarfræðum sé það vel þekkt að mikilvægt sé að líta til tilgangs og markmiða laga við túlkun þeirra. Framangreind sjónarmið geti því aldrei talist ómálefnaleg. Sú staðhæfing í kæru varpi ljósi á vanþekkingu á barnaverndarkerfinu í heild sinni og því lagaumhverfi sem þar gildi. Þá sé ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl. í fullu samræmi við 4. mgr. 15. gr. bvl. þar sem fram komi að sú barnaverndarnefnd sem ráðstafi barni í fóstur eða vistun haldi áfram með málið. Framangreind ákvæði skapi samræmi við framkvæmd laganna þegar staðan sé þannig að barni hafi verið ráðstafað í vistun utan heimilis hvort sem foreldrarnir sjálfir eða barnaverndarnefnd geri það. Með því að ákvarða lögsögu málsins hjá [Barnaverndarnefnd] D væri verið að ganga í berhögg við skýr ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl.

Barnaverndarstofa bendi á að í athugasemdum kæranda virðist gæta misskilnings um þá lagastoð sem hin kærða ákvörðun byggi á. Í málinu sé stofan að taka ákvörðun um lögsögu á grundvelli 3. mgr. 15. bvl. Í málum sem varði lögsögu, svo og öðrum málum þar sem bvl. gildi, verði að horfa á lögin í heild sinni. Barnaverndarstofa ítreki þá afstöðu sína að stofan telji sér ekki fært að taka ákvörðun um lögsögu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. [stjórnsýslulaga] þvert á ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl. og þeirra lögskýringagagna sem því ákvæði fylgi þar sem sérstaklega sé tekið fram að miðað sé við að barnaverndarnefnd þar sem barnið hafi átt lögheimili þegar foreldrar vistuðu það fari með mál samkvæmt ákvæðinu nema sú barnaverndarnefnd og barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn sé vistað semji um annað.

Einnig bendi stofan á að það hafi ekki áhrif í þessum efnum að móðir drengsins sé nú búsett og með skráð lögheimili í umdæmi Barnaverndarnefndar E þar sem skýrt sé kveðið á um það í framangreindu ákvæði bvl. hvernig lögsögu mála sé háttað í málum sem þessum. Enn fremur liggi það fyrir í gögnum málsins að málefni móður og systkina drengsins séu á viðkvæmu stigi og ákveðnum farvegi hjá Barnavernd E en nefndin í E hafi bent á að það gæti haft slæm áhrif á vinnslu þeirra mála að bæta máli drengsins við.

Barnaverndarstofa geti ekki fallist á að með ákvörðun sinni sé stofan að fara út fyrir valdsvið sitt heldur þvert á móti sé stofan að taka ákvörðun um lögsögu á grundvelli framangreindra ákvæða barnaverndarlaga og þeirra sjónarmiða sem lögin byggi á. Þá sjái stofan ekki hvernig ákvörðun um lögsögu í þessu umrædda máli geti verið ákvörðuð hjá [Barnaverndarnefnd] D eða Barnavernd E ef ekki liggi fyrir samkomulag um hvaða nefnd eigi að vinna málið.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það mat Barnaverndarstofu að lögsaga málsins sé hjá Barnaverndarnefnd B.

IV. Niðurstaða

Í málinu er deilt um þá ákvörðun Barnaverndarstofu að Barnaverndarnefnd B hafi lögsögu í máli C. Drengurinn hefur búið hjá fyrrverandi tengdaforeldrum móður sinnar í umdæmi Barnaverndarnefndar D frá því X 2015 en móðir ákvað að vista drenginn hjá þeim. Áður bjó drengurinn hjá móður sinni í umdæmi Barnaverndarnefndar B. Móðir drengsins hefur forsjá hans en hún býr nú í E.

Núverandi vistunaraðilar drengsins höfðu samband við Barnaverndarnefnd D í lok árs 2016. Höfðu þau áhyggjur af því að móðir, sem væri í neyslu, reyndi að hafa samband við hann. Barnaverndarnefnd D ráðfærði sig við starfsmann Barnaverndarstofu sem taldi lögsögu málsins eiga að vera hjá Barnaverndarnefnd E þar sem móðir drengsins býr. Með bréfi 8. febrúar 2017 óskaði Barnaverndarnefnd E eftir því að Barnaverndarstofa tæki ákvörðun um lögsögu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. bvl. þar sem Barnaverndarnefnd E taldi álitamál hvort lögsaga málsins væri hjá barnaverndarnefndinni í E, Barnaverndarnefnd D eða Barnaverndarnefnd B. Fyrir milligöngu Barnaverndarstofu var haldinn símafundur með barnaverndarnefndunum þremur 14. febrúar 2017. Í kjölfarið var kannað hvort samkomulag næðist á milli nefndanna þriggja um lögsögu í málinu. Samkomulag náðist ekki og því tók Barnaverndarstofa ákvörðun í málinu 15. maí 2017 þar sem lögsaga var ákveðin í umdæmi Barnaverndarnefndar B. Þessa ákvörðun kærði Barnaverndarnefnd B til úrskurðarnefndar velferðarmála og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Að mati Barnaverndarstofu gilda ákvæði 4. mgr. 90. gr. bvl. um lögsögu mála þegar foreldrar hafa sjálfir ráðstafað barni sínu til vistunar hjá öðrum og því sé ekki unnt að líta eingöngu til ákvæða 15. gr. bvl. hvað það varði. Þannig hafi ákvæði laganna um lögsögu mála alltaf verið túlkuðu og hafi skapast um það venja. Slíka venju þurfi ekki að rökstyðja frekar þar sem hún sé í fullu samræmi við ákvæði bvl. og lögskýringargögn með þeim. Hafi framangreindar reglur meðal annars þann tilgang að koma í veg fyrir að aðilar að barnaverndarmálum geti komist hjá afskiptum barnaverndaryfirvalda með því að flytjast á milli sveitarfélaga.

Kærandi telur á hinn bóginn að eina heimild Barnaverndarstofu til að ákvarða lögsögu í því tilviki sem hér um ræði sé að finna í 3. mgr. 15. gr. bvl. Kærandi mótmælir því að lagastoð fyrir slíkri heimild sé að finna í 4. mgr. 90. gr. bvl. Að mati kæranda hefur Barnaverndarstofa farið út fyrir valdsvið sitt með því að ákvarða lögsögu kæranda á grundvelli 4. mgr. 90. gr. bvl. Þá vísar kærandi til þess að ef Barnaverndarstofa ætli að taka ákvörðun um lögsögu annarar barnaverndarnefndar en þeirrar þar sem barn eigi fasta búsetu verði Barnaverndarstofa að gera það á þeim grundvelli að það sé „talið tryggja betur meðferð“ viðkomandi máls, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl. Barnaverndarstofa byggi hins vegar hvorki á því í hinni kærðu ákvörðun né í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar að það tryggi betur meðferð þess máls sem hér sé til umfjöllunar að lögsaga málsins sé hjá kæranda. Kærandi fái ekki séð hvernig það ætti að tryggja betur meðferð þessa tiltekna máls og hagsmuni drengsins að kærandi, sem sé barnaverndarnefnd B, færi með málið. Kærandi telur að ákvörðun Barnaverndarstofu um að lögsaga málsins skuli vera hjá honum fari beinlínis gegn markmiði og tilgangi bvl. og sé síst til þess fallin að tryggja samfellu í vinnslu og meðferð málsins.

Við úrlausn málsins telur úrskurðarnefndin rétt að skýra ákvæði bvl. að því er varðar lögsögu barnaverndarnefndar, vegna máls er varðar drenginn, með hliðsjón af aðstæðum í málinu. Í 1. mgr. 15. gr. bvl. segir að barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn eigi fasta búsetu eigi úrlausn um málefni þess. Í 3. mgr. 15. gr. kemur fram að ef hentugra þyki að mál sé að einhverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn eigi fasta búsetu geti viðkomandi barnaverndarnefndir samið um það sín í milli. Ef ágreiningur rís milli barnaverndarnefnda geti Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn teljist eiga fasta búsetu, svo og mælt svo fyrir að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál ef það er talið tryggja betur meðferð þess.

Í greinargerð með 15. gr. bvl. er vísað til þess að í lögum um lögheimili nr. 21/1990 komi fram að lögheimili manns sé þar sem hann hafi fasta búsetu. Búi barn hjá hvorugu foreldra sinna eigi það lögheimili þar sem það hafi fasta búsetu. Þyki heppilegt að miða við lögheimili barns þegar valdsvið barnaverndarnefndar sé ákvarðað. Með þeim hætti ætti sjaldnast að leika vafi á hvaða barnaverndarnefnd eigi með réttu að fjalla um mál. Um 3. mgr. 15. gr. bvl. segir í greinargerð: „...Rök geta verið fyrir þessari heimild í fleiri tilvikum, t.d. þegar um er að ræða stuðningsúrræði í samvinnu við foreldra. Þau tilvik hafa komið upp að fjölskylda, sem er undir eftirliti barnaverndarnefndar, grípur til þess ráðs að flytjast úr umdæmi til að losna við afskipti nefndarinnar. Í slíkum tilvikum riðlast oft úrvinnsla málsins og börnin fara á mis við nauðsynlegan stuðning og vernd sem þeim hefði annars staðið til boða.“

Í 90. gr. bvl. koma fram heimildir foreldra til að vista barn sitt sjálfir. Í 4. mgr. 90. gr. bvl. kemur fram að hafi barn verið í umsjá annarra í þrjá mánuði eða lengur samkvæmt þessari grein geti barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi forsjárforeldra gripið til úrræða samkvæmt 27. gr. bvl. (úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis), 28. gr. bvl. (úrskurður dómstóls um vistun barns utan heimilis) eða 29. gr. bvl. (forsjársvipting). Í athugasemdum með 90. gr. bvl. kemur fram að ákvæðið snúi fyrst og fremst að hlutverki barnaverndarnefndar við ofangreindar aðstæður. Í athugasemdum með 4. mgr. 90. gr. segir að í ákvæðinu sé mælt fyrir um lögsögu barnaverndarnefndar. Miðað sé við að barnaverndarnefnd, þar sem barnið átti lögheimili þegar foreldrar vistuðu það, fari með mál samkvæmt greininni, nema sú barnaverndarnefnd og barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn er vistað semji um annað. Þetta sé í samræmi við ákvæði 15. gr. frumvarpsins.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan um 15. gr. og 90. gr. bvl. telur úrskurðarnefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á lagaákvæðin en svo að í 15. gr. bvl. sé mælt fyrir um lögsögu barnaverndarmála almennt. Í 4. mgr. 90. gr. bvl. er sérákvæði varðandi lögsögu þegar svo háttar til að beita þarf þvingunarráðstöfunum samkvæmt 27. gr., 28. gr. eða 29. gr. bvl. þegar foreldrar hafa sjálfir vistað barn sitt hjá öðrum samkvæmt heimild í 1. mgr. 90. gr. bvl. Framangreint sérákvæði um lögsögu gildir um slíka vistun þrátt fyrir að foreldrar hafi vistað barn í umdæmi annarrar barnaverndarnefndar en í umdæmi þar sem þeir eru búsettir.

Í samræmi við þetta er meginreglan sú að barnaverndarnefnd í því umdæmi þar sem barn á fasta búsetu á úrlausn um málefni þess nema þegar beita þarf þvingunarráðstöfunum eftir að foreldrar hafa sjálfir falið öðrum daglega umönnun og uppeldi barns eða vistað það hjá öðrum samkvæmt 90. gr. bvl., sbr. framangreint. Þetta verður að telja eðlilega reglu, enda getur barnaverndarnefnd, sem starfar í því umdæmi sem barn býr, best fylgst með líðan og aðstæðum barns, sinnt þeirri nærþjónustu við barn sem nauðsynleg er í barnaverndarstarfi og átt samskipti við til dæmis skóla, leikskóla, stuðningsaðila og aðra sem koma að málefnum barns. Frá meginreglunni koma jafnframt fram undantekningar í 3. mgr. 15. gr. bvl. en í þeim felast tvær reglur. Samkvæmt fyrri reglunni geta viðkomandi barnaverndarnefndir samið sín á milli um hvor nefndin fari með mál barns ef hentugra þykir að mál sé að einhverju eða öllu leyti rekið í öðru umdæmi en þar sem barn á fasta búsetu. Hin reglan varðar þau tilvik er ágreiningur um lögsögu rís á milli barnaverndarnefnda en þá getur Barnaverndarstofa mælt svo fyrir að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál ef það er talið tryggja betur meðferð þess. Verður að skilja þetta svo að Barnaverndarstofa hafi ekki heimild til að ákveða að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál barns, nema þegar það tryggir betur meðferð málsins. Verður að ætla að þetta eigi við í þeim tilvikum er hagsmunum barns við vinnslu barnaverndarmáls verði með einhverjum hætti betur borgið svo og meðferð málsins ef önnur nefnd, en þar sem barn á fasta búsetu, fái lögsögu málsins.

Í því máli sem hér um ræðir hefur drengurinn búið í D frá X 2015 eða í rúmlega tvö og hálft ár. Áður bjó hann í umdæmi Barnaverndarnefndar B. Eins og fram hefur komið býr móðir drengsins í E en þar eru til meðferðar barnaverndarmál vegna annarra barna hennar. Í gögnum málsins kemur fram að vistunaraðilar drengsins höfðu samband við Barnaverndarnefnd D í lok árs 2016 í tilefni af því að þau óttuðust að móðir drengsins sem talin var í neyslu setti sig í samband við drenginn. Fyrirspurnir nefndarinnar til Barnaverndarstofu leiddu til að upp kom óvissa um lögsögu í málinu. Á símafundi Barnaverndarstofu og nefndanna þriggja 14. febrúar 2017 varð samkomulag um að Barnaverndarnefndin í D skyldi hefja könnun málsins þar sem brýnt þótti að hefja athugun á aðstæðum drengsins sem fyrst. Jafnframt varð samkomulag um að kannað yrði hvort forsendur væru fyrir því að ná samkomulagi um lögsögu í málinu.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður að telja að málið liggi nú þannig fyrir að 90. gr. bvl. hafi ekki átt við í málinu þegar vistunaraðilar drengsins höfðu samband við Barnaverndarnefnd D og ágreiningur varð milli nefndanna þriggja um það hvaða barnaverndarnefnd skyldi sinna barnaverndarmáli vegna drengsins.

Stendur þá eftir hvort skilyrði 3. mgr. 15. gr. bvl. voru uppfyllt þannig að Barnaverndarstofu hafi verið heimilt að ákvarða að barnaverndarnefnd, utan þess umdæmis þar sem drengurinn á fasta búsetu, fari með málið. Eins og rakið hefur verið þarf í slíkum tilvikum að vera uppfyllt skilyrðið um að meðferð máls sé betur tryggð hjá barnaverndarnefnd í öðru umdæmi en þar sem barn á fasta búsetu. Barnaverndarstofa hefur ekki sett fram nein rök sem leiða til þess að meðferð í máli drengsins sé betur tryggð hjá Barnaverndarnefnd B en Barnaverndarnefnd D þar sem drengurinn býr. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð hvernig málefni drengsins eða meðferð málsins yrði betur tryggð hjá nefnd B en [nefnd] D. Verður í því sambandi að líta til þess að nefnd B hefur ekkert haft með málefni drengsins að gera frá því í X 2014, eða í um þrjú og hálft ár. Jafnframt verður að telja að barnaverndarstarf úr svo mikilli fjarlægð sé verr til þess fallið að ná þeim markmiðum laganna að tryggja sem best hagsmuni drengsins og viðeigandi meðferð málsins.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið fellst úrskurðarnefndin á þau sjónarmið kæranda að með hinni kærðu ákvörðun hafi Barnaverndarstofa ekki gætt þeirra lagasjónarmiða sem hér eiga við samkvæmt framangreindu og að hún hafi með því tekið ákvörðun sem ekki er lagastoð fyrir. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja málið fyrir Barnaverndarstofu að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Barnaverndarstofu 15. maí 2017, um að lögsaga í máli drengsins C skuli vera hjá Barnaverndarnefnd B, er felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar Barnaverndarstofu á ný.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta