Mál nr. 201/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 201/2020
Fimmtudaginn 10. september 2020
A
gegn
Barnaverndarnefnd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 17. apríl 2020, móttekinni 24. apríl 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar frá 31. mars 2020 vegna umgengni kæranda við son sinn, D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn D er X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóður drengsins.
Kærandi var svipt forsjá sonar síns með dómi Héraðsdóms E 9. apríl 2019 sem var staðfestur í Landsrétti 11. október 2019. Drengurinn hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá því sumarið 2018, eða frá því að hann var tæplega X ára gamall.
Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Drengurinn D, skal hafa umgengni við kynmóður sína, A, tvisvar á ári í þrjár klst. í senn undir eftirliti. Umgengni verði í apríl og október á hverju ári. Símtöl milli móður og barns verða leyfð í kringum jól og á afmælum drengsins í samráði við fósturforeldra.“
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst með bréfi, dags. 26. júní 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júní 2020. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með tölvupósti 18. ágúst 2020, auk viðbótargagna sem bárust 19. ágúst 2020. Voru athugasemdir lögmanns kæranda og viðbótargögnin send barnaverndarnefnd til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. ágúst 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ákvörðuð meiri umgengni en í hinum kærða úrskurði.
Í kæru er greint frá því að í skýrslu talsmanns komi greinilega fram að drengurinn sakni kæranda og að hann vilji búa hjá henni, vera sem mest hjá henni og að þar líði honum vel. Það sé því erfitt að sjá hvernig sú takmarkaða umgengni sem ákvörðuð sé í hinum kærða úrskurði þjóni best hagsmunum barnsins en lögbundið sé samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl. að taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins.
Á fundi barnaverndarnefndar hafi sérstaklega verið rætt að kærandi og sambýlismaður hennar hefðu rætt við drenginn um að hann ætti heima hjá móður en ekki fósturforeldrum en þetta sé ekki rétt þar sem þau hafi ekki reynt að hafa áhrif á afstöðu drengsins.
Sérstök athygli sé vakin á því að samkvæmt úrskurðinum sé tekið fram að það sé ekki markmið með umgengni drengsins við kæranda að viðhalda tilfinningatengslum við hana. Þessu sjónarmiði sé alfarið mótmælt, enda sé kærandi enn að vinna í sínum málum með aðstoð sálfræðings og aðstæður hennar séu verulega breyttar frá því sem áður var þar sem hún sé nú komin í sambúð. Barnaverndarnefnd B hafi verið upplýst um að kærandi muni reyna að fá forsjá drengsins aftur í ljósi breyttra aðstæðna, auk þess sem margt hafi verið ranglega borið upp á kæranda í forsjársviptingarmálinu.
Í ljósi þess sem að framan greinir og með vísan til fyrirliggjandi gagna sé ljóst að hinn kærði úrskurður sé ekki barninu fyrir bestu og þjóni á engan hátt hagsmunum þess.
Í viðbótarathugasemdum lögmanns kæranda er bent á að í málinu liggi fyrir ný skýrsla talsmanns barnsins frá 3. júlí 2020 þar sem fram komi að drengurinn segist vilja fara til móður sinnar í sumar og standi drengurinn greinilega í þeirri trú. Að mati lögmanns kæranda sýni þetta ótvíræðan vilja drengsins og von sem beri að virða. Einnig bendir lögmaður á að fyrir liggi ný greinargerð starfsmanna sem lögð hafi verið fram á fundi 18. ágúst 2020 vegna beiðni frænku drengsins um að fá umgengni við hann. Þar komi fram að fósturforeldrar hafi staðfest að drengurinn sakni móður sinnar.
III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B
Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að í upphafi fósturs hafi umgengni kæranda við son sinn verið einu sinni í mánuði, átta klukkustundir í senn. Umgengni hafi gengið ágætlega til að byrja með og hafi fósturmóðir drengsins sagt að hann væri glaður þegar hann færi í umgengni til móður og líka glaður þegar hann kæmi til baka. Þegar á leið tók að bera á vanlíðan drengsins og erfiðri hegðun í kjölfar umgengni við kæranda. Eitt sinn eftir umgengni hafði fósturmóðir eftir drengnum að sambýlismaður móður hefði sagt honum að hann ætti heima hjá mömmu. Eftir umgengni í september 2018 hafi drengurinn verið fremur órólegur og í ójafnvægi og þurfti meðal annars að sækja hann í skóla vegna erfiðrar hegðunar. Hann hafi í sífellu sagt að hann ætti ekki heima á fósturheimilinu og mamma hans hefði sagt honum að segja að hann ætti heima hjá henni og kærasta hennar. Kvað svo rammt að erfiðri hegðun drengsins að barnalæknir jók við lyfjaskammtinn hans í þeim tilgangi að hann næði meira jafnvægi. Skólastjóri hafi haft sömu sögu að segja, þ.e. að drengurinn hefði talað um að hann ætti ekki að vera á fósturheimilinu og hefði verið gríðarlega erfiður í hegðun eftir að hann kom úr umgengni við móður. Í ljósi þeirra erfiðleika sem upp höfðu komið eftir umgengni hafi verið lögð á það áhersla við kæranda að hún virti tilmæli barnaverndar um að ræða ekki við drenginn um framtíðarbúsetu hans og annað sem tengdist fósturráðstöfun. Eftir að niðurstaða Landsréttar lá fyrir og ljóst hafi verið að drengurinn myndi vera á fósturheimili til frambúðar hafi barnaverndarnefndin ákveðið með úrskurði, dags. 31. mars 2020, að umgengni drengsins við kæranda yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti, í apríl og október, og auk þess yrðu leyfð símtöl á milli þeirra í kringum jól og afmæli drengsins í samráði við fósturforeldra.
Drengurinn sé greindur með ódæmigerða einhverfu, málskilningsröskun, athyglisbrest með ofvirkni, almenna þroskaseinkun og álag í félagsumhverfi. Hann sé undir eftirliti barnageðlæknis og taki meðal annars lyfin Concerta og Circadin. Áður en drengurinn hafi farið á fósturheimilið hafi hann átt við mjög erfið hegðunarvandamál að stríða, hann hafi beitt félaga sína og starfsmenn á leikskóla grófu ofbeldi, togað í hár, bitið, kýlt og sparkað ef hann fengi ekki að stjórna. Hann hafi verið félagslega mjög illa staddur, ekki myndað vinatengsl og ekki lesið í aðstæður. Þá hafi hann verið í miklu tilfinningalegu ójafnvægi og sýndi vanlíðan sem hafi brotist út í ofbeldi og stjórnunarþörf. Drengurinn sé núna í litlum skóla og fámennum bekk og að sögn kennara hans og annarra sem komi að umönnun hans, hafi hegðun hans breyst mjög til batnaðar eftir að hann kom á fósturheimilið og honum hafi farið fram í námi. Þá hafi aðlögun hans að fósturheimilinu gengið mjög vel. Bæði hafi kennarar hans og barnalæknir borið að drengurinn sé nú glaðari en hann hafi áður verið og í betra jafnvægi. Hann hafi þannig aðlagast vel að fósturheimili sínu og skóla þar sem hann hafi fengið þann stuðning sem hann hafi þurft á að halda.
Drengnum hafi verið skipaður talsmaður áður en úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið kveðinn upp. Talsmaðurinn hafi haft sérþekkingu á málefnum barna með fötlun. Í skýrslu hans, dags. 19. febrúar 2020, kom fram að drengurinn hafi verið jákvæður, bæði gagnvart kynmóður sinni og fósturforeldrum. Hann hefði með aðstoð sagt að hann væri glaður hjá kynmóður sinni og liði vel þar. Hann hafi þó talað mun meira um núverandi heimili en um heimili móður. Þó að drengurinn hafi verið jákvæður gagnvart umgengni við kynmóður sína verði að mati barnaverndarnefndar að hafa greiningar drengsins og þroskastig hans í huga í þessu sambandi og má efast um að hann hafi nægan þroska til að meta hvað honum sé fyrir bestu.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eigi með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hafi barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varði rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hans.
Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. sé bent á að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað sé að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Í 4. tölul. 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 segi að með varanlegu fóstri sé átt við að fóstur haldist þar til forsjárskyldur falli niður samkvæmt lögum og að markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Í 25. gr. sömu reglugerðar segi meðal annars að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Umgengni drengsins við kæranda þurfi því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hans í fóstur. Markmið varanlegs fósturs sé að hann aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni til frambúðar og að honum verði tryggt það stöðuga og örugga umhverfi sem hann hafi ekki átt kost á í foreldrahúsum og að umgengni við foreldra og aðra nákomna valdi honum sem minnstum truflunum. Vegna fötlunargreininga drengsins og vandamála þeim tengdum sé að mati Barnaverndarnefndar B sérstaklega áríðandi að drengurinn fái tækifæri til að búa við stöðugleika og öryggi á fósturheimilinu og að ekkert verði til þess að rót komist á líf hans og fósturfjölskyldunnar. Fram hafi komið að drengnum líði vel á fósturheimilinu, hann sé í betra jafnvægi en áður og fái allan þann stuðning sem hann þurfi á að halda. Þó að afstaða hans sé bæði jákvæð gagnvart kæranda og fósturfjölskyldu sé að mati nefndarinnar ekkert sem bendi til að hann hafi þörf fyrir meiri umgengni við kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá skóla og fósturforeldrum hafi drengurinn sýnt meiri vanlíðan og verið erfiðari í hegðun eftir umgengni hjá kæranda og einnig hafi komið upp grunur um að kærandi og sambýlismaður hennar hefðu reynt að hafa áhrif á afstöðu drengsins til fósturheimilisins.
Faðir drengsins búi erlendis og sé ekki með forsjá. Hann hitti son sinn við og við þegar hann komi til landsins. Einnig hittir drengurinn föðurfjölskyldu sína í samráði við fósturforeldra. Afasystir drengsins í móðurætt hafi krafist sjálfstæðrar umgengni við hann. Á meðferðarfundi barnaverndarteymis þann 27. apríl 2020 hafi verið samþykkt að heimila umgengni drengsins við hana tvisvar á ári. Þá hafi systir hans, sem búi erlendis, óskað eftir umgengni og hafi henni verið bent á að hafa samband við barnaverndarnefnd þegar hún eigi leið til landsins og yrði þá metið hvort unnt væri að koma á umgengni þeirra systkina. Gera megi ráð fyrir að kynmóðir drengsins verði með í einhver þessara skipta sem hann hafi umgengni við afasystur og systur og drengurinn hitti þannig kæranda talsvert oftar en tvisvar á ári.
Við ákvörðun um umgengni drengsins við kæranda verði að mati Barnaverndarnefndar B að hafa í huga að sem mestur friður ríki um drenginn í fóstrinu, að hann fái tíma til aðlagast fósturfjölskyldu sinni án mikilla truflana frá upprunafjölskyldu og njóti þeirra góðu aðstæðna og þroskamöguleika sem fósturheimilið geti boðið honum svo að hann fái búið við þann frið og stöðugleika sem hann eigi rétt á og sé honum nauðsynlegt. Tilgangurinn með umgengni barna í varanlegu fóstri við upprunafjölskyldu sína sé sá að þau þekki uppruna sinn en ekki að styrkja tengsl foreldra og barns og verður umgengi að vera í samræmi við hag barns og þarfir þess. Að mati Barnaverndarnefndar B sé ekkert sem bendir til þess að drengurinn hafi hag af því að umgangast kæranda meira en ákveðið hafi verið.
IV. Sjónarmið drengsins
Fyrir liggur skýrsla talmanns drengsins, dags. 19. febrúar 2020. Talsmanninum var falið að leita eftir að fá svör við því hvert væri viðhorf drengsins til umgengni við móður sína og einnig að fá svör við því hvernig líðan hans væri í umgengni við móður og hvernig honum líði eftir umgengni við hana.
Í skýrslu talmanns kemur fram að drengurinn sagðist sakna móður sinnar og með aðstoð sagði hann að hún væri góð, hann væri glaður hjá henni, liði vel og það væri gaman hjá henni. Einnig kemur fram að í þá stund sem drengurinn ræddi við talsmann hafi hann talað mun meira um núverandi heimili en um heimili móður.
V. Sjónarmið fósturforeldra
Starfmaður úrskurðarnefndar velferðarmála hafði samband við fósturmóður drengsins símleiðis þann 31. júlí 2020. Fram kom í því símtali að sjónarmiða fósturforeldra hafi ekki verið aflað áður en úrskurðað hafi verið í málinu hjá Barnaverndarnefnd B. Fósturmóðir sagðist ekki skilja hvers vegna ákveðin hefði verið eins lítil umgengni og raun ber vitni. Að hennar mati megi umgengni vera oftar. Hún telji þó að umgengni einu sinni í mánuði eins og þegar drengurinn var í tímabundnu fóstri sé of mikil. Hún viti þó í raun ekki hvort né hve mikil umgengni þjóni hagsmunum drengsins þar sem hann sé með einhverfu.
VI. Niðurstaða
Drengurinn D er X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi, sem er kynmóðir drengsins, var svipt forsjá sonar síns með dómi Héraðsdóms E 9. apríl 2019 sem var staðfestur í Landsrétti 11. október 2019. Drengurinn hefur verið í fóstri frá árinu 2018.
Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 31. mars 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn og undir eftirliti. Auk þess væru símtöl leyfð í kringum jól og á afmælum drengsins í samráði við fósturforeldra.
Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði meiri en ákveðið hefur verið.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við drenginn á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með stöðu hans að leiðarljósi, en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Í máli drengsins er því ljóst að ekki er stefnt að því að hann fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drenginn þarf því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur.
Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við drenginn, verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir drengsins og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta frekari umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni drengsins við kæranda ákveðin tvisar sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn. Kærandi telur að engin gögn liggi fyrir sem styðji fullyrðingar fósturforeldra um erfiða hegðun í tengslum við umgengni.
Eins og vikið er að hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir hans að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að þannig séu þroskamöguleikar hans best tryggðir til frambúðar. Hann þarf að fá svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Þá er einnig til þess að líta að gögn málsins gefa til kynna að drengurinn sé erfiður þegar hann kemur úr umgengni og sé nokkurn tíma að jafna sig. Þá verður heldur ekki annað ráðið en að drengnum líði vel í fóstrinu og ekkert bendir til þess að hann hafi þörf fyrir breytingar. Hvað varðar umgengni við kæranda er ekki verið að reyna styrkja þau tengsl, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er drengurinn með greiningar um ódæmigerða einhverfu, málskilningsröskun, athyglisbrest með ofvirkni og álag í félagsumhverfi. Hann er undir eftirliti barnageðlæknis og tekur meðal annars inn lyf vegna fyrrgreindrar greiningar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af framangreindu að hann sé ekki í stakk búinn til að meta hvernig umgengni skuli best háttað við kæranda.
Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró drengsins verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hann nái að þroskast og dafna sem best.
Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 30. mars 2020 um umgengni D við A, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson