Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 394/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 394/2021

Fimmtudaginn 7. október 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, kærði C lögmaður, f.h.  A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndarnefndar B um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsþjónustu. 

Í gögnum málsins kemur fram að lögmannsaðstoð hafi verið veitt í tengslum við mál barna kæranda hjá Barnaverndarnefnd B fyrir önnur tímabil en hér um ræðir. Þá hafði verið samþykkt að greiða sem nam 39 klst. á tímagjaldinu 19.000 kr.

C lögmaður sendi Barnavernd B tölvupósta þann 11. júní, 7. júlí og 5. ágúst 2021 með beiðni um greiðslu styrks vegna lögmannsþjónustu svo og tímaskýrslu. Samkvæmt tímaskýrslu var vinnuframlag 10,74 klst. vegna tímabilsins 11. júní 2021 til 7. júlí 2021.

Málið sem hér er til meðferðar tekur því einungis á tímaskýrslu kæranda varðandi 10,74 klst. Samþykkt var að greiða sem nam 4 klst. af framangreindum tímum, sbr. ákvörðun sem fram kom í bréfi Barnaverndarnefndar B, dags. 27. júlí 2021.

Erindi kæranda var eftirfarandi:

 

 „Ég er búin að aðskilja vinnu vegna dómsmálsins og vinnu við barnaverndarmálið að því marki sem unnt er. Sendi nú tímaskýrslu vegna vinnu við barnaverndarmálið undanfarinn mánuð. Bið þig að yfirfara hana og senda mér ákvörðun þína.“

Þann 6. ágúst 2021 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B. Greinargerðin barst þann 8. september 2021 með bréfi, dags. 6. september 2021, og sama dag var hún send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Barnaverndar B um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmáls varðandi börn kæranda, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2021,  tilkynnti Barnavernd B kæranda um þá ákvörðun sína að veita styrk upp á 4 klst á tímagjaldinu kr. 19.000 vegna lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. bvl. Samkvæmt tímaskýrslu var vinnuframlag 10,74 klst. og því langt frá því að kostnaðarmat barnaverndar sé raunhæft. Greint er frá því að áður hafi lögfræðingur barnaverndar skert tímaskýrslu lögmanns úr 84 klst. niður í 25 klst., fyrir annað tímabil.

Um sé að ræða umfangsmikil mál tveggja barna sem tvær barnaverndarnefndir hafi haft til meðferðar. Málið hafi útheimt mikla vinnu við gagnaskoðun og andsvör við ákvörðunum barnaverndar. Tilraunir til að fá barnavernd til að sinna þeirri skyldu sinni að koma á umgengni hafi einnig leitt til tölvupóstskrifa og margra símtala við starfsmenn og lögfræðing barnaverndar. Framganga barnaverndar í málinu hafi gert allt þyngra í vöfum og valdið kæranda sálarkvölum sem bæði kölluðu á samskipti og enn frekari skoðun gagna um samskipti foreldranna. Að auki hafi sú staða verið uppi eftir að málið kom til kasta Barnaverndarnefndar B að formaður nefndarinnar hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir móður barnanna sem hugðist höfða forsjár- og/eða lögheimilismál. Formaðurinn vék sæti í málinu en engu að síður hafi þessi afstaða gefið tilefni til andmæla á grundvelli vanhæfissjónarmiða og hafi kallað á töluverða vinnu.

Vísað var til þess að lögmaður kæranda hafi gætt hagsmuna fjölda foreldra í barnaverndarmálum en aldrei áður hafi hugmyndir barnaverndar um eðlilegt endurgjald verið jafn fjarri lagi og í máli kæranda. Þess skal getið að kærandi er atvinnulaus.

Þá var bent á að samkvæmt tímaskýrslu  hafi verið um að ræða vinnu sem að stærstum hluta til voru símtöl við ákveðinn starfsmann Barnaverndar B vegna tilrauna til sátta um umgengni og til að koma umgengni á. Þarna var iðulega um það að ræða að lögfræðingur barnaverndar hafði samband við lögmann kæranda og mjög miklar og raunverulegar tilraunir til að koma umgengni á og að sætta málið voru gerðar. Síðan neitar sá hinn sami lögfræðingur kæranda um styrk vegna umræddrar vinnu.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi það fyrir Barnavernd B að greiða reikning samkvæmt meðfylgjandi vinnuskýrslu lögmannsins.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að ráða megi af kæru að aðeins sé verið að kæra ákvörðun sem kemur fram í bréfi, dags. 27. júlí 2021. Var þar um að ræða samþykki á styrk fyrir kæranda sem nam 4 klst. en tímaskýrsla kæranda vegna þessarar ákvörðunar innihélt 10,74 klst. Nær því greinargerðin aðeins til umræddrar tímaskýrslu.

Réttilega hafi verið bent á að málið hafi áður verið á borði annarrar barnaverndarnefndar, auk þess sem kærandi hafði notið ráðgjafar annarra lögmanna og notið fjárstyrks vegna vinnu þeirra. Þá hafi Barnaverndarnefnd B greitt fyrir fyrri lögmann, auk þess sem kærandi hafi sent þrjár tímaskýrslur og Barnavernd B samþykkt samtals fjárstyrk til greiðslu lögmannsþóknunar sem nam 39 klst. á tímagjaldinu 19.000 kr. Var í umræddum þremur tilfellum ekki unnt að samþykkja tímaskýrslurnar óbreyttar með vísan til reglna Barnaverndarnefndar B um fjárstyrk þar sem verklýsing rúmaðist ekki alltaf innan umræddra reglna.

Í þeirri tímaskýrslu sem hér er til umfjöllunar var aðallega um samskipti að ræða, engir fundir barnaverndarnefndar á dagskrá né beiting þvingunarúrræða innan þess tímaramma. Mikil samskipti á þessum tíma skýrist að mestu á erfiðum samskiptum við kæranda þar sem hann var sjálfur ekki tilbúinn að ræða við starfsmenn barnaverndar og fékk lögmann kæranda til að vera í öllum samskiptum. Það skal skýrt tekið fram að kærandi hafði fengið reglur Barnaverndarnefndar B um fjárstyrk í hendurnar á fyrstu stigum málsins svo að kæranda og aðila málsins mátti vera það ljóst að barnavernd greiðir ekki fyrir hvaða samskipti sem er, heldur verða þau að rúmast innan reglna nefndarinnar. Þá má einnig nefna að umrædd tímaskýrsla var númer tvö af þremur frá kæranda. Áður hafði verið samþykkt að greiða fjárstyrk vegna lögmanns kæranda sem nam 25 klst. Var í þeirri skýrslu meðal annars um að ræða yfirferð gagna, gerð greinargerðar, barnaverndarnefndarfundur og fleira. Í hinni kærðu tímaskýrslu var verklýsing sem segir: „lesið yfir dagála“, en ekkert benti til þess að á umræddu tímabili hafi komið svo margir nýir dagálar að lögmaðurinn hafi þurft 2,5 klst. til að lesa þá yfir. Flestir dagálar fylgdu gögnum málsins fyrir fundinn sem var í apríl 2021.

Barnaverndarnefnd B taldi ljóst að í umræddu barnaverndarmáli hafi kæranda verið veittur fjárstyrkur til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 2. mgr. sömu greinar, auk fyrrnefndra reglna sem nefndin setur. Kærandi hafi átt þess kost að tjá sig munnlega og skriflega með aðstoð lögmanns um efni málsins og annað sem lýtur að málsmeðferðinni. Líkt og kemur fram í kæru lögmannsins er gert mikið úr samskiptavanda vegna vanhæfis formanns barnaverndarnefndar. Var aðilum strax leiðbeint að kvarta til Barnaverndarstofu hvað það varðaði, auk þess sem boðið var að flytja málið til annarrar barnaverndarnefndar til þess að fá vinnufrið í málinu, allt með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Það var ekki samþykkt og þótti ekki duga til þar sem starfsmaður Barnaverndar B myndi áfram fylgja málinu. Athugasemdir við málsmeðferðina hvað vanhæfi formanns Barnaverndarnefndar B varðaði var tekið fyrir í kærumáli í Héraðsdómi D og þar féllst dómurinn ekki á sjónarmið kæranda. Kærandi naut gjafsóknar í því máli, en um var að ræða kæru á vistunarúrskurði frá því í lok júlí 2021. Þá hafi kærandi einnig sent kvörtun til Barnaverndarstofu með bréfi, dags. 6. ágúst sl., og verður því svarað á næstu dögum. Eru þessi atriði nefnd til þess að varpa skýrara ljósi á samskiptavandann í málinu, auk þess sem kærandi sjálfur nefnir það í kæru sinni.

Barnavernd B greinir frá því að með bréfi, dags. 27. júlí 2021, um styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar hafi verið tekið tillit til efnahags aðila málsins og eðlis og umfangs málsins. Barnaverndarnefnd B hefur áður veitt lögmanni kæranda fjárstyrk sem nemur 45 klst. og jafngildir það um 855.000 kr. Þar af á kærandi 39 klst. af þeim tímum. Mál þetta er nokkuð frábrugðið öðrum málum því að í raun voru aðilar sammála um ákveðna hluti í málinu en það gekk erfiðlega að fylgja því eftir og þau samskipti sem tengdust því beint getur barnavernd ekki heimfært alfarið undir reglur Barnaverndarnefndar B um fjárstyrk. Þó hafi verið tekið tillit til hluta af þeim samskiptum því að vonast var til að aðkoma lögmannsins myndi liðka til í samskiptum, en svo reyndist ekki vera. Má við þetta bæta að aðili málsins nýtur einnig annars konar fjárstyrks sem er í formi greiðslna til meðferðaraðila þar sem markmiðið er meðal annars að liðka til í samskiptum foreldra og barna þannig að umgengni geti gengið þótt það sé þó vissulega ekki kæruefnið hér, en ljóst er að samskipti lögmanns við meðferðaraðila sem aðili málsins velur rúmast ekki innan reglna Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, líkt og kærandi hélt fram um tíma.

Í reglum Barnaverndarnefndar Bum veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar kemur fram að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vegna vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Þá kemur sérstaklega fram að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns.

Með vísan til gagna málsins og þess sem hér að ofan hefur verið rakið getur Barnaverndarnefnd B með engu móti fallist á að umfang og eðli málsins kalli á sérstakar aðstæður til þess að fara mikið út fyrir þau verkefni sem rúmast innan reglna Barnaverndarnefndar B um fjárstyrk. Óskað er eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun Barnaverndar B um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga sem kæranda var kynnt með bréfi, dags. 27. júlí 2021, og að tekið verði tillit til þess sem kærandi hefur fengið greitt við meðferð málsins.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur í samræmi við tímaskýrslu vegna lögmannsaðstoðar á grundvelli 47. gr. bvl. vegna meðferðar máls hans hjá Barnavernd B.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Barnaverndarnefnd B samþykkti þann 18. september 2018 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. Í 1. gr. er kveðið á um að Barnaverndarnefnd B veiti foreldrum og barni, 15 ára og eldra, sem er aðili máls, fjárstyrk að teknu tilliti til efnahags foreldra/forráðamanns barna, til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr 1. mgr. 47. gr. bvl. Í 2. mgr. 1. gr reglnanna er greint frá því að veittur sé styrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Í 2. gr. reglnanna er síðan greint frá því að greiddur sé lögmannskostnaður fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr 47. gr. bvl. Fram kemur í  5. gr. reglnanna að fjárhæð styrkja skuli metin eftir eðli og umfangi málsins og skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð fram tímaskýrsla lögmanns sem kvað á um 10,74 klst. vegna tíma sem unnir voru á tímabilinu 11. júní 2021 til og með 7. júlí 2021, en fallist var á að greiða styrk sem nam lögmannsþjónustu í 4 klst. á tímagjaldinu 19.000 kr., sbr. ákvörðun sem fram kemur í bréfi, dags. 27. júlí 2021.

Samkvæmt ofangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. bvl. skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Samkvæmt reglunum ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk, en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns vegna málsins. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar eins og önnur gögn málsins við ákvörðun styrkfjárhæðar.

Í sundurliðaðri tímaskýrslu nemur vinna C lögmanns og fulltrúa hennar,  E, samtals 10,79 klst., vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda á tímabilinu 11. júní 2021 til og með 7. júlí 2021. Í gögnum málsins kemur fram að á umræddu tímabili hafi aðallega átt sér stað samskipti á milli aðila, engir fundir barnaverndarnefndar hafi verið á dagskrá né beiting þvingunarúrræða innan þess tímaramma sem um ræðir. Einnig kemur fram að ekkert hafi bent til þess að á hinu umrædda tímabili hafi komið svo margir nýir dagálar að lögmaðurinn hafi þurft 2,5 klst. til að lesa þá yfir þar sem flestir dagálar hafi fylgt gögnum málsins fyrir fundinn sem var í apríl 2021. Ekkert bendir til þess að við mat Barnaverndarnefndar B á hæfilegum tímafjölda vegna framangreindrar vinnu hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða.

Með hliðsjón af framangreindu, framlagðri tímaskýrslu, eðli og umfangi máls svo og fjárstyrkja sem veittir hafa verið í sambærilegum málum, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B.

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar er staðfest


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. júlí 2021, í máli A, vegna fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, er staðfest.       

 

Guðrún Agnes Þorsteindóttur formaður

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta