Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 188/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 188/2024

Miðvikudaginn 18. september 2024

A og B

gegn

barnaverndarþjónustu C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 22. apríl 2024, kærði D lögmaður, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs barnaverndar í E frá 25. mars 2024 vegna umgengni F, við G.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan F er X ára gömul. Barnaverndarþjónusta C fer með forsjá stúlkunnar sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Stúlkan hefur verið í fóstri hjá kærendum óslitið frá því að móðir hennar afsalaði sér forsjá árið 2016, fyrst í tímabundnu fóstri en síðar í varanlegu fóstri. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar.

Barnaverndarnefnd C hefur frá árinu 2017 úrskurðað sjö sinnum í máli stúlkunnar vegna umgengni hennar við föður. Í fyrstu var umgengni annan hvern laugardag, fimm klukkustundir í senn. Með úrskurði barnaverndarnefndar árið 2017 var lagt fyrir föður að virða einkalíf stúlkunnar og fósturforeldra og birta ekki myndir eða myndbönd af barninu opinberlega. Í júní 2017 var umgengni minnkuð í eitt skipti í mánuði, þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti og í lok nóvember sama ár var umgengni ákveðin fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn.

Á vormánuðum 2018 var ákveðið að gera hlé á umgengni föður við stúlkuna í tólf mánuði en í janúar 2019 var umgengni aukin að nýju í fjögur skipti á ári, tvær klukkustundir í senn og aftur var því beint til föður að virða friðhelgi einkalífs stúlkunnar og fósturforeldra og virða trúnað um gögn málsins. Í byrjun janúar 2020 var sama umgengni ákveðin, en í maí 2021 var hún minnkuð í tvö skipti á ári í tvær klukkustundir í senn.

Umgengni hefur farið fram í þrígang frá því að barnaverndarnefnd B úrskurðaði í málinu þann 6. maí 2021 og samkvæmt gögnum málsins gekk vel í tvö skipti. Þriðja og síðasta umgengni fór fram 15. nóvember 2022 en rjúfa þurfti þá umgengni vegna framkomu föður.    

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs barnaverndar í E þann 25. mars 2024. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C, dags. 3. ágúst 2023, sem lögðu til að umgengni yrði stöðvuð tímabundið vegna líðan og afstöðu stúlkunnar. Kærendur óskuðu jafnframt eftir því að umgengni yrði stöðvuð. Faðir var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umdæmisráð ákveður að stúlkan F, eigi umgengni við kynföður sinn, G, í fjögur skipti á ári, tvær klukkustundir í senn. Umgengnin skal vera undir eftirliti sérfræðinga í málefnum barna sem barnaverndarþjónusta tilnefnir.“

Kæra fósturforeldra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 22. apríl 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 24. apríl 2024, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu C ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu C barst nefndinni með bréfi, dags. 10. maí 2024 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2024, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að gerð sé krafa um að hinum kærða úrskurði verði hrundið og málinu vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá barnaverndarþjónustu C.

Kærendur krefjast þess að framkvæmd hins kærða úrskurðar verði frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn sbr., 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga. 

Hvað varðar málavexti eins og þeir horfa við kærendum, þá vísist til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna barnaverndarþjónustu C. Kærendur taki undir þá lýsingu sem þar komi fram.

Stúlkan hafi verið í fóstri hjá kærendum óslitið frá því árið 2016, fyrst í tímabundnu fóstri en síðar í varanlegu fóstri. Fram komi í gögnum málsins og sé óumdeilt að fóstrið hafi gengið vel og stúlkan hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kærendur.

Á fundi umdæmisráðs barnaverndar í E þann 25. mars 2024 hafi verið úrskurðað um umgengni stúlkunnar við föður, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í hinum kærða úrskurði hafi umgengni verið ákveðin tvær klukkustundir í senn, fjórum sinnum á ári, undir eftirliti sérfræðinga í málefnum barna sem barnaverndarþjónusta tilnefni.

Kærendur byggi kæru sína í fyrsta lagi á því að verulegur formgalli hafi verið á málsmeðferð og niðurstöðu umdæmisráðs. Í hinum kærða úrskurði komi fram að málið hafi verið tekið fyrir öðru sinni þann 15. júní 2023 þar sem aðilar eigi að hafa mætt og rætt afstöðu málsins. Samkvæmt úrskurðinum hafi málið verið tekið til úrskurðar að fundi loknum. Þann sama dag hafi borist tölvupóstur frá lögmanni föður þar sem fram hafi komið að faðir, lögmaður föður og lögmaður barnaverndarþjónustu C hefðu átt samtal að loknum fundi, þar sem þau hafi ákveðið að reyna að finna aðila í sameiningu til að vinna að umbeðnu tengslamati. Að ósk aðila hafi umdæmisráð frestað því að kveða upp úrskurð í málinu.

Kærendur hafi aldrei verið boðuð á umræddan fund og því ekki getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærendur hafi því jafnframt farið á mis við að koma að sínum sjónarmiðum varðandi hver skyldi vinna hið umbeðna tengslamat.

Kærendur séu aðilar að málinu á grundvelli 74. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé því verulegur annmarki á hinum kærða úrskurði að þau hafi ekki verið boðuð til fundar hjá umdæmisráði þegar aðrir aðilar máls hafi verið boðaðir og mætt til fundar.

Þetta skýri jafnframt atburðarásina í kringum vinnslu tengslamatsins í desember 2023, enda hefðu kærendur ekki hugmynd um að búið væri að finna aðila til að framkvæma hið umbeðna tengslamat, hvað þá hver sá aðili væri og hvenær viðkomandi myndi framkvæma matið. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi viðkomandi mætt í skóla barnsins án þess að láta fósturforeldra vita, sem hafi þar af leiðandi ekki getað undirbúið stúlkuna eða í það minnsta látið hana vita af því að ókunnug manneskja kæmi að ræða við hana í skólanum.

Kærendur bendi á að það geti ekki verið barni fyrir bestu að þvinga það til að eiga umgengni við mann sem það óttist. Kynfaðir hafi sýnt það í gegnum tíðina að hann sé óútreiknanlegur bæði gagnvart stúlkunni og kærendum, svo sem með birtingu trúnaðargagna á netinu, bæði texta og myndbanda. Kynfaðir hafi sýnt ótrúlegt dómgreindarleysi í síðustu umgengni sem hann hafi átt með stúlkunni sem hafi gert það að verkum að stúlkan sé hrædd við hann og vilji ekki hitta hann eða heyra í honum.

Eins og lýst sé í gögnum málsins hafi stúlkunni verið skipaður talsmaður sem hafi skilað talsmannaskýrslu þann 25. janúar 2024. Af þeirri skýrslu megi lesa að stúlkan vilji ekki vera í umgengni við föður sinn, vilji ekki tala við hann í síma og ekki hitta hann á opinberum stað, svo sem í Skopp, á skautum eða öðru slíku. Hún hafi jafnframt sagst ekki vilja þiggja frá honum gjafir auk þess sem hún væri hrædd við hann.

Kærendur telji þetta lýsa vilja stúlkunnar með einlægum hætti. Kærendur bendi á að eftir því sem börn verði eldri og stálpaðri beri að taka meira tillit til réttmæts vilja þeirra. Kærendur byggi því á að virða eigi vilja stúlkunnar og hafna umgengni kynföður við stúlkuna.

Þá skuli þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við upprunafjölskyldu sína. Þau virði þann rétt stúlkunnar og hafi ávallt leitast við að styðja við umgengni hennar við upprunafjölskyldu sína, svo hún megi njóta þeirra réttinda. Stúlkan sé hins vegar orðin það gömul og stálpuð nú að hún verði ekki þvinguð til að eiga samskipti við mann sem hún hafi ekki áhuga á að hitta og sé í raun hrædd við.

Kærendur telji að í hinum kærða úrskurði sé um of einblínt á fyrri umgengni og hvernig það hafi gengið. Kærendur telji að leggja beri áherslu á síðustu umgengni og hegðun og framkomu kynföður þar. Líkt og áður segi og fram komi í gögnum málsins hafi kynfaðir gengið þar fram af stúlkunni sem og eftirlitsaðilum. Umrædd umgengni hafi farið fram í nóvember 2022 en frá þeim tíma hafi stúlkan ekki treyst sér til að vera í umgengni við kynföður sinn. Þó svo að fyrri umgengni hafi gengið þokkalega samkvæmt skýrslum eftirlitsaðila telji kærendur að horfa beri til þeirrar síðustu við ákvörðun um umgengni og að á grundvelli hennar og hegðunar kynföður undanfarin ár eigi að úrskurða að engin umgengni verði á milli kynföður og stúlkunnar.

Fram kemur að kærendur telji að úrskurðarorð hins kærða úrskurðar sé ekki nægilega ítarlegt. Í ljósi forsögu málsins telji kærendur nauðsynlegt að í úrskurðarorðum sé kveðið á um hvernig aðlögun að umgengni skuli fara fram og í hvaða skrefum hún skuli gerð. Umdæmisráð fari í löngu máli yfir hvernig það telji best að haga aðlögun að umgengni en kærendur telji að þessi atriði hafi þurft að koma fram í úrskurðarorðum, enda séu þar talin upp atriði sem þurfi að framkvæma að þeirra mati áður en umgengni geti hafist. Líklegt verði að teljast að skortur á þessu muni koma til með að flækja málin þegar fram líði stundir.

Kærendur telji fullt tilefni til að framkvæmd hins kærða úrskurðar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggi fyrir, sbr. 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga. Stúlkan sem mál þetta snúist um hræðist kynföður sinn og því sé ekki ástæða til að leggja það á hana að fara í umgengni við kynföður komist nefndin að þeirri niðurstöðu að senda beri málið til nýrrar meðferðar umdæmisráðs.

Með vísan til alls framangreinds krefjist kærendur þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá umdæmisráði barnaverndar í E, svo leggja megi nýtt mat á hagsmuni stúlkunnar með tilliti til tíðni umgengni hennar við föður.

III. Sjónarmið barnaverndarþjónustu C

Í greinargerð barnaverndarþjónustu C kemur fram að málið varði umgengnismál kynföður við dóttur hans sem barnaverndarþjónusta C fari með forsjá yfir. Krafa kynföður um umgengni hafi verið tekin fyrir hjá umdæmisráði barnaverndar í E í mars 2024 sem hafi kveðið upp úrskurð þann 25. mars 2024. Fyrir umdæmisráði hafi legið fyrir krafa kynföður um aukna umgengni auk tillögu barnaverndarþjónustu C um að umgengni yrði stöðvuð tímabundið vegna líðan og afstöðu stúlkunnar. Fósturforeldrar hafi jafnframt óskað eftir því að umgengni yrði stöðvuð.

Umdæmisráð hafi úrskurðað um umgengni í fjögur skipti á ári. Það sé í andstöðu við tillögu barnaverndarþjónustu C sem telji umgengni ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar að svo stöddu. Því sé ljóst að barnaverndarþjónustan geti ekki svarað fyrir úrskurð umdæmisráðs sem hún sé ósammála. Barnaverndarþjónustan telji sig í raun eiga að hafa kæruheimild í umgengnismálum barna sem hún hafi forsjá yfir.

Að því sögðu styðji barnaverndarþjónusta C kæru fósturforeldra á úrskurði umdæmisráðs í E frá 25. mars 2024 og geri athugasemdir við málsmeðferð umdæmisráðs í málinu.

IV. Afstaða stúlkunnar

Stúlkunni var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hana þann 25. janúar 2024. Í skýrslu talsmanns segir að farið hafi verið yfir með stúlkunni hlutverk talsmanns í samræmi við aldur hennar og þroska.

Stúlkan hafi lítið vilja tala um föður sinn og ekki vitað hvernig hún ætti að útskýra hann. Þegar stúlkan hafi verið spurð hvort hann væri pabbi hennar hafi hún sagst ekki vilja kalla hann pabba, hún kallaði fósturföður sinn pabba.

Stúlkan hafi lýst því að hún hafi orðið hrædd við föður sinn í kjölfar umgengni í nóvember 2022 þar sem hann hefði öskrað á eftirlitsaðila. Þá hafi stúlkunni ekki liðið vel. Þegar stúlkan hafi verið spurð hvort hún myndi vilja hitta föður sinn á opinberum stað undir eftirliti hafi hún svarað því neitandi. Hún hafi ekki viljað hitta hann, sér liði ekki vel þegar hún gerði það.

Þegar stúlkan hafi verið spurð hvort hún myndi vilja tala við föður sinn í síma hafi hún svarað því neitandi, þar sem henni myndi ekki líða vel. Þá hafi hún sagt að hún vilji ekki þiggja jólagjöf frá honum. Aðspurð hafi stúlkan ekki sagst vita hvað fósturforeldrum hennar finnist um að hún hitti föður sinn en sagt að þeim líkaði ekki við hann.

V. Afstaða föður

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu föður til kærunnar og barst hún með bréfi, dags. 21. júní 2024. Í greinargerð lögmanns föður kemur fram að gerðar séu eftirfarandi athugasemdir við kæru og úrskurð umdæmisráðs.

Í fyrsta lagi séu gerðar alvarlegar athugasemdir við að skýrsla tengslamatsaðilans, H, dags. í janúar 2024, sem sannarlega hafi verið lögð fram í máli þessu til umdæmisráðs, hafi ekki verið meðal gagna þeirra sem úrskurður byggir á.

Minnt sé á að það hafi verið umdæmisráðið sjálft sem óskaði eftir umræddri skýrslu í bréfi sínu dags. 19 apríl 2023.

Í skýrslu H og greinargerð frá fyrrum vinnsluaðila málsins, I, komi skýrt fram að fósturforeldrar hafi hafnað öllu samstarfi um vinnslu tengslamatsins og hafi komið markvisst í veg fyrir að sérfræðingur myndi ræða við stúlkuna, m.a. með því að taka hana úr skóla.

Kröfðust fósturforeldrar þess m.a.  að vanhæfir barnaverndarstarfsmenn tækju aftur við vinnslu málsins og að lögmaður þeirra hefði tjáð þeim að þeim væri heimilt að hafna öllu samstarfi við barnavernd um vinnslu tengslamats. Sendu fósturforeldrar eða lögmaður þeirra (sem sé einnig lögmaður barnaverndar C, Í) ítrekaða pósta og bréf á barnavernd til að koma í veg fyrir vinnslu matsins. Gögn um þetta megi finna í skýrslu H.

Það skjóti því skökku við að fósturforeldrar séu nú að krefjast ógildingar á úrskurði þar sem vinna við þetta mat fór ekki fram - enda hafi það verið þeirra vegna sem svo fór. Þá sé stingur í hjartað að sjá að fósturforeldrar beri fyrir sig „vilja barnsins“ þegar svo ljóst sé af gögnum málsins að fósturforeldrar hafi haft neikvæð áhrif á vilja barnsins.

Skýrt komi fram í gögnum málsins að stúlkan sé meðvituð um andúð fósturforeldra á blóðföður hennar og segir stúlkan að fósturforeldrar hafi skýrt henni frá því hversu illa þeim sé við föður hennar. Þá hafi verið rætt við stúlkuna í viðurvist fósturmóður þegar afstaða hennar til umgengni var fengin í nóvember [2023] - en fósturmóðir hafi m.a. lýst því með afar dramatískum hætti að þegar hún hafi frétt að sérfræðingur ætti að ræða við stúlkuna í 15 mín hafi hún „verið send heim af kvöldvakt í vinnu sinni þar sem fósturmóður grét stöðugt yfir vanlíðan yfir því að geta ekki varið barnið fyrir viðtali við sérfræðing" (sjá skýrslu I dags ágúst [2023], bls. 4). Þá séu aðrar öfgakenndar lýsingar fósturforeldra á meintri vanlíðan stúlkunnar yfir 15 mínútna samtal við þaulvanan sérfræðing sem sé með doktorsgráðu í sálfræði og sérþjálfuð í að ræða við börn, afar ótrúverðugar. Sú ályktun sé dregin af þessu að fósturforeldrar hljóti almennt að vera í verulegu ójafnvægi og nokkuð ljóst að það hafi ekki farið framhjá stúlkunni. Þá sé líka bent á að fósturforeldrar virðast ófærir um að sjá að það séu hagsmunir stúlkunnar og mannréttindi hennar að fá að eiga heilbrigt, óþvingað og eðlilegt samband við pabba sinn. Slíku sambandi hafa fósturforeldrar og barnavernd gert föður og stúlkunni ómögulegt að eiga með linnulausri stjórnun, eftirliti, röngum skýrslum, umgengnisbanni og illu umtali.

Er á því byggt að fósturforeldrar, sem og ómannúðlegt og niðurlægjandi og þrúgandi fyrirkomulag umgengninnar, sem hafi verið alltof stopul, hafi í reynd haft þau áhrif að stúlkan sé orðin afhuga því að hitta föður sinn, í fyrsta sinn í öll þessi ár. Vel sé skiljanlegt að sjá að stúlkan sé í togstreitu og vil þóknast fósturforeldrum sem hafa öll þessi ár barist harkalega gegn allri umgengni stúlkunnar við föður sinn og hafi sagt stúlkunni að þeim sé illa við föður hennar.

Svarið sé ekki að útiloka alla umgengni og slíta endanlega öll tengsl á milli þeirra - heldur aðstoða fósturforeldra við að geta sett hagsmuni stúlkunnar um að eiga tengsl við föður sinn, ofar eigin hagsmunum sem virðast þeir að „eiga barnið ein“ og losna við blóðföðurinn.

Þá þurfi að aðstoða stúlkuna og föður að ná tengingu á ný svo þau geti átt heilbrigt og gott samband til framtíðar líkt og þeirra mannréttindi kveða á um.

Sagan sýnir að svo stopul og takmörkuð umgengni, eftirlit og stjórnun og meðvirkni gagnvart fósturforeldrum hafi í átta ár engu skilað nema þjáningu, stríði og vanlíðan allra hlutaðeigandi. Það að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við annarri niðurstöðu sé skilgreiningin á geðveiki. Búið sé að rökstyðja ítarlega og ítrekað fyrir úrskurðarnefndinni að tengslarof milli barns og foreldris er mannréttindabrot og ill meðferð. Búið sé að staðfesta í skýrslu vöggustofunefndar að rof á tengslum milli foreldra og barna felur í sér illa meðferð og mannréttindabrot. Í rauninni sé fyrirkomulagið og vinnsla umgengnismálsins í átta ár ekkert annað en ill meðferð á barni og föður þess sem þráir það eitt að fá að hitta dóttur sína og rækta tengsl við hana en hefur ekki fengið það.

Eina lausnin í þessu máli er að úrskurða um eðlilega helgar umgengni og rúma umgengni í fríum. Miðað við forsögu sé eðlilegt að hafa aðlögun að þeirri umgengni og faðir sé tilbúinn að vinna slíkt í samvinnu við sérfræðing. Það muni hins vegar ekki takast ef fósturforeldrar halda áfram að lýsa andúð sinni á föður við stúlkuna og berjast gegn þeirri litlu umgengni sem þó sé leyfð (sjá skýrslu talsmanns dags. 25.1.24. „Stúlkan sagði að mömmu sinni og pabba líkaði ekki við G, hún vissi það þar sem þau höfðu sagt henni það“)

Úrskurðarnefnd velferðarmála sé ekki bundin af niðurstöðu umdæmisráðs. Sem æðra stjórnvald sé úrskurðarnefnd eingöngu bundin af því sem sé barninu fyrir bestu. Áframhaldandi stríð milli þeirra aðila sem eiga að annast þessa stúlku og standa henni næstir, áframhaldandi tengslarof við blóðföður og uppeldi þar sem henni virðist talin trú um að faðir hennar sé vondur af fósturforeldrum, mun tæta sál hennar að innan og er til þess farið að valda verulegum sálrænum og tilfinningalegum vanda til framtíðar litið.

Í greinargerð sálfræðings stúlkunnar segir að sálfræðingurinn telji að F þurfi ekki frekari sérhæfða meðferðarvinnu ef einhver farsæl lausn finnst á umgengni hennar við kynföður, sbr. grg. dags. 12.2.24. Ljóst sé að stríðið og ágreiningurinn linnulaust sem hefur verið við lýði alla ævi stúlkunnar sé að valda henni kvíða og vanlíðan, eðlilega. Það sem nú þarf er að finna farsæla lausn á umgengni stúlkunnar við pabba sinn, líkt og sálfræðingur hennar bendir réttilega á.

Að mati lögmanns föður séu þrjár leiðir í boði:

1. Fella niður alla umgengni og slíta endanlega öll tengsl á milli föður og barns. Hér verður að telja að um alvarleg brot á mannréttindum feðginanna sé að ræða og illa meðferð í skilningi MSE og stjórnarskrár og því ekki um lagalega færa leið né siðferðislega æskilega.

2. Gera það sama og gert hafi verið aftur og aftur og aftur undanfarin átta ár, og fá sömu niðurstöðu. Umgengni 2-4 skipti á ári, með tilheyrandi og áframhaldandi tengslarofi, ágreiningi og ósætti. Áframhaldandi stríð milli barnaverndar, fósturforeldra og föður stúlkunnar, með tilheyrandi og fyrirsjáanlegum neikvæðum áhrifum á barnið (sjá grg. sálfræðings). Þetta getur ekki talist „farsæl lausn“.

3. Breyta um nálgun og úrskurða um eðlilega og rúma helgarumgengni. Með aðlögun og samstarfi allra aðila. Stúlkan fær að þekkja pabba sinn og eiga heilbrigt samband við hann og tengsl. Fósturforeldrar fá aðstoð við sínar neikvæðu tilfinningar gagnvart föður og ráðgjöf um að tala ekki illa um blóðföður í hennar eyru. Farsæl lausn bæði til skemmri tíma litið og lengri tíma.

Það að verða við kröfum fósturforeldra og ógilda úrskurð umdæmisráðs og setja enn eina hringavitleysuna í gang skili engu fyrir þetta barn. Stúlkan sé í brýnni þörf fyrir breytingar og farsæla lausn. Stjórnvöld bera ríkar skyldur til að leita allra leiða til að sameina fjölskyldur og vernda tengsl barna við foreldra. Bent sé á að faðir í þessu máli hefur aldrei verið metinn óhæft foreldri. Þá hafa stjórnvöld í þessu máli ekkert gert í gegn um öll þessi ár, annað en að síminnka umgengnina og smátt og smátt slíta tengslin meira og meira. Þannig hafa takmarkanirnar á umgengninni hindrað og komið í veg fyrir það markmið að sameina fjölskylduna á ný - sem á ávallt að vera meginmarkmiðið. Þess í stað hafi verið gengið út frá því sem vísu að fóstrið eigi að vera til frambúðar en MDE hafi dæmt slíkt markmið ólögmætt.

Af dómaframkvæmd MDE ber stjórnvöldum skýr skylda til að leita allra leiða til að sameina fjölskylduna á ný. Vísað sé í þessu sambandi til neðangreindra dóma MDE. Af þeim þremur leiðum sem færar eru hér er aðeins ein leið sem kemst nálægt því að uppfylla þessa skyldu. Það sé að auka umgengni til muna og aðstoða feðginin við að byggja upp heilbrigt samband á ný. Umgengnin hingað til hafi verið allt allt of lítil og við þrúgandi aðstæður. Enda megi sjá að samband milli föður og barns sé ekkert í dag. Þá hafa áður verið löng tímabil þar sem föður og dóttur hans hafi verið meintað alfarið að hittast. Hér er vísað til MDE;

„The minimum to be expected of the authorities is to examine the situation anew from time to time to see whether there has been any improvement in the family’s situation. The possibilities of reunification will be progressively diminished and eventually destroyed if the biological parents and the children are not allowed to meet each other at all, or only so rarely that no natural bonding between them is likely to occur. The restrictions and prohibitions imposed on the applicants’ access to their children, far from preparing a possible reunification of the family, rather contributed to hindering it. What is striking in the present case is the exceptionally firm negative attitude of the authorities. Consequently, the Grand Chamber agrees with the Chamber that there has been a violation of Article 8 of the Convention as a result of the authorities’ failure to take sufficient steps towards a possible reunification of the applicants‘ family”

Þá skuli ekki gleyma því að starfsfólki barnaverndar í þessu tiltekna máli hefur verið svo illa við föður að það hafi stefnt honum fyrir dóm fyrir að tjá sig um óréttið og tengslarofið og kært hann til persónuverndar. Í fimm ár eftir stefnuna hafi faðir verið með vanhæfa barnaverndarstarfsmenn að vinna umgengnismálið. Á sama tíma reyndu þessir starfsmenn að refsa föður með að hafa enga umgengni, fella niður alla umgengni eða, nýjasta útspilið, hafa umgengni eitt skipti á ári. Tefja málið endalaust - þetta tiltekna umgengnismál hafi verið í gangi frá því í desember 2022. Faðir hafi nú ekki fengið að umgangast dóttur sína á að verða tvö ár. Hér sé alveg ljóst að neikvætt viðhorf þessara starfsmanna hafi skilað sér í skýrslur og vinnslu málsins og tillögur starfsmannanna. Ítrekuð og alvarleg aðför barnaverndar að þessari litlu fjölskyldu í átta ár hafi skiljanlega leitt til þess að faðirinn sé sem sært dýr sem reynir að bíta frá sér. Frá honum sé tekið það sem skiptir hann mestu máli í lífinu. Sársauki föðurs og reiði sé síðan notuð gegn honum til að dæma hann óalandi og óferjandi og takmarka enn frekar umgengni hans við dóttur hans. Það sé engin samkennd, skilningur eða áhugi á því að skilja eða aðstoða föður við þær vítiskvalir sem hann hafi gengið í gegn um í öll þessi ár vegna alls þessa.

Og til hvers? Ef umgengni hefði verið líkt og um hafi verið samið í upphafi - önnur hver helgi og jafnt í fríum hefði ekkert af þessu gerst. Stúlkan og faðir ættu heilbrigt og náið og fallegt samband í dag og væru að hittast reglulega. Fósturforeldrar væru væntanlega búnir að sætta sig við að faðir stúlkunnar yrði partur af lífi hennar. Umgengni væri regluleg og afskipti barnaverndar óþörf. Þess í stað hafi geysað stöðugt stríð, óánægja og vandamál, tengsl milli barns og foreldris rofin, stríð á milli opinberra starfsmanna og föður barnsins, hver úrskurðurinn á fætur öðrum, endalausir sérfræðingar og síendurtekin viðtöl við stúlkuna, lögfræðikostnaður og sérfræðikostnaður og kostnaður ríkisins upp á tugi miljóna króna og enginn ánægður.

Þá sé ekkert launungarmál að faðir hafi undanfarna mánuði glímt við […]. Í kjölfarið á þessu kraftaverki hafi faðir fengið nýjan lífsvilja og vilji leggja allt sitt í að byggja upp samband við dóttur sína. Ljóst sé því að hann sé ekki að fara neitt í bráð.

Þess ber að geta að faðir ber engan kala lengur til fósturforeldra eða barnaverndar. Reynslan að greinast með lífsógnandi sjúkdóm, verða nær dauða en lífi, undirbúa sig undir það að deyja, breytir manneskju. Faðir sé byrjaður að byggja sig upp, bæði andlega og líkamlega, sé að hitta sálfræðing og farinn að hreyfa sig. Jafnvel þótt hann eigi enn langt í land heilsufarslega séð, þá sé hann staðráðinn í að ná tengingu við dóttur sína á ný.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan F er X ára gömul og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum, sem eru kærendur.

Kærendur krefjast þess að framkvæmd hins kærða úrskurðar verði frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn sbr., 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga þar sem formgalli sé á hinum kærða úrskurði. 

Í 1. mgr. 8. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 er fjallað um réttaráhrif. Þar segir að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Úrskurðarnefndinni er þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Þá segir í 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að málskot til nefndarinnar fresti ekki framkvæmd úrskurðar sem kærður er til úrskurðarnefndarinnar. Þegar sérstaklega stendur á getur úrskurðarnefndin þó ákveðið, að kröfu aðila, að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.

Í kæru kemur fram að formgalli sé á hinni kærðu ákvörðun að kærendur hafi ekki verið boðuð á fund umdæmisráðs þann 15. júní 2023 og þau ekki getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Samkvæmt gögnum málsins voru aðilar máls, þ.m.t. lögmaður kæranda, boðuð á fund umdæmisráðs í 18. apríl 2023, þar sem málið var lagt fyrir ráðið. Á þeim fundi gerðu allir aðilar grein fyrir afstöðu sinni til umgengni föður við stúlkuna. Þann 15. júní 2023 var fundur umdæmisráðs með lögmanni föður vegna þess að umdæmisráð var að leita að sérfræðingi til að vinna að tengslamati sem ráðið hafði óskað eftir. Þann 25. mars 2024 var málið svo tekið fyrir hjá umdæmisráðinu til úrskurðar.

Að mati úrskurðarnefndar komu aðilar máls á fundi 18. apríl 2023 sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi umgengni við föður líkt og fram kemur í hinum kærða úrskurði. Verður því ekki fallist á að kærendur hafi ekki komið sjónarmiðum sínum varðandi umgengni við föður þegar málið var tekið fyrir hjá umdæmisráði. Úrskurðarnefndin gerir því ekki athugasemdir við málsmeðferð umdæmisráðs hvað þetta varðar og í ljósi þess taldi úrskurðarnefndin að ekki væri ástæða til þess að fresta réttaráhrifum hins kærða úrskurðar.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að stúlkan hefði umgengni við föður í fjögur skipti á ári, tvær klukkustundir í senn. Þá var ákveðið að umgengni færi fram undir eftirliti sérfræðinga í málefnum barna sem barnaverndarþjónusta tilnefni. Forsenda hins kærða úrskurðar er að áður en umgengni verði komið í fastar skorður þurfi viðeigandi aðlögunarferli að eiga sér stað sem hefja þurfi tafarlaust. Þá er jafnframt tekið fram að hafni stúlkan umgengni staðfastlega og upplifi vanlíðan í tengslum við hana verði hún ekki neydd til að hitta föður sinn.

Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar. Kærendur kveðast hafa tekið undir tillögur þær er komu fram í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C til umdæmisráðs. Í umræddri greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustunnar var lagt til að umgengni yrði stöðvuð tímabundið vegna líðan og afstöðu stúlkunnar. Kærendur óskuðu einnig eftir því að umgengni yrði stöðvuð.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni föður við dóttur hans á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við föður. Í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C, sem lögð var fyrir umdæmisráð í E, kemur fram að eftir að stúlkan vistaðist utan heimilis árið 2016 hefði hún haft umgengni við föður annan hvern laugardag, fimm klukkustundir í senn. Umgengni var minnkuð í júní 2017 þannig að hún var einu sinni í mánuði, þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Í nóvember 2017 var ákveðið að umgengni yrði fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Í maí 2018 var hlé gert á umgengni í tólf mánuði, en hún færð aftur í fyrra horf í janúar 2019. Síðasti úrskurður barnaverndarnefndar C um umgengni var kveðinn upp þann 6. maí 2021 þar sem umgengni var ákveðin tvisvar sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn.

Í greinargerð starfsmanna kemur fram að umgengni hafi gengið misjafnlega og borið hafi á því að faðir sýni þar mikið tilfinningalegt ójafnvægi sem hafi leitt til þess að stúlkan upplifði hræðslu og vanlíðan bæði í umgengni og eftir hana. Síðasta umgengni sem fram fór í nóvember 2022 hafi verið stöðvuð eftir stuttan tíma vegna tilfinningalegs ójafnvægis föður, sem hafi talað hátt, haldið fast um höfuð stúlkunnar og talað ítrekað um barnaverndarmálið fyrir framan hana.

Þá kemur fram að á fósturheimili sé búið vel að stúlkunni og hún njóti ástar, öryggis og stöðugleika hjá fósturforeldrum sínum. Fósturforeldrar hafi lýst hræðslu stúlkunnar í kjölfar síðustu umgengni og íhugi nú hvort þörf sé á frekari áfallameðferð fyrir stúlkuna, en hún hafi verið í listmeðferð.

Af gögnum málsins verður ráðið að umgengni í nóvember 2021 og maí 2022 hafi gengið vel og samkvæmt skýrslum eftirlitsaðila virðast faðir og stúlkan hafi notið samveru hvors annars. Ólíkt umgengninni í nóvember 2021 og maí 2022 hafi umgengnin í nóvember 2022 ekki gengið vel þar sem stúlkan hafi upplifað togstreitu milli föður og eftirlitsaðila.

Í minnisblaði barnaverndarþjónustu C, dags. 19. febrúar 2024 kemur fram að í ljósi afgerandi afstöðu stúlkunnar til umgengni við föður sé rétt að uppfæra tillögu um umgengni frá því í apríl 2023 og leggur þjónustan til að umgengni verði engin. Að mati þjónustunnar sé þvinguð umgengni andstæð hagsmunum stúlkunnar sem lýsir svo eindregið og skýrt að hún vilji ekki hitta kynföður. Þá sé það mat barnaverndarþjónustunnar að stúlkan hafi náð aldri þar sem afstaða hennar hafi aukið vægi og verði ekki litið framhjá skýrum vilja hennar.                 

Samkvæmt hinum kæra úrskurði umdæmisráðs var málið upphaflega tekið fyrir þann 18. apríl 2023 þar sem aðilar mættu og gerðu grein fyrir kröfum sínum og málsástæðum. Þann 19. apríl 2023 sendi umdæmisráð erindi til barnaverndarþjónustu C á grundvelli 2. mgr. 49. gr. bvl. og lagði fyrir þjónustuna að afla mats viðeigandi fagaðila á tengslum stúlkunnar og föður auk þess sem lagðar yrðu fram upplýsingar um heimsóknir stúlkunnar til listmeðferðarfræðings frá síðustu umgengni í nóvember 2022. I, félagsráðgjafi var fenginn til að taka að sér umsjón málsins fyrir hönd barnaverndarþjónustu B. Erfiðlega gekk í upphafi að fá fagaðila til að vinna tengslamatið en vinna við það hófst í desember 2023. Vegna ósættis fósturforeldra við vinnslu matsins þá var það mat I að ekki myndi takast að ljúka tengslamati. Hið umbeðna tengslamat lá því ekki fyrir í málinu þegar umdæmisráð tók ákvörðun um umgengni föður við stúlkuna þann 25. mars 2024.

Í forsendum hins kærða úrskurðar kemur fram að það sé mat umdæmisráðs að málið sé komið í algjört öngstræti. Samskipti milli aðila séu þannig að ekkert traust ríki og erfitt að sjá fyrir sér að unnt sé að bæta úr því. Það sé einkum tilkomið vegna háttsemi og ummæla föður í gegnum tíðina sem hann hefur m.a. viðhaft á opinberum vettvangi. Í síðustu umgengni föður við stúlkuna í nóvember 2022 hafi hann sýnt af sér mikinn dómgreindarbrest þegar hann lýsti vanþóknun sinni á störfum eftirlitsaðila í viðurvist stúlkunnar. Ofsakennd viðbrögð föður fengu verulega á stúlkuna og hafa orðið til þess að hún hefur ekki viljað eiga frekari samskipti við hann. Í ljósi þessa hafi barnaverndarþjónustan lagt til að umgengni yrði lögð af. Umdæmisráðið taldi þó að mikilvægt væri að stúlkan þekki uppruna sinn líkt og hún á rétt á. Í því samhengi væri mikilvægt að unnið væri að því að koma á umgengni og að hlutaðeigandi aðilar fengu aðstoð og viðeigandi stuðning til þess að það gæti orðið að veruleika. Þá segir í forsendum niðurstöðu að stúlkan sé ung að árum og þrátt fyrir skýra afstöðu hennar til umgengni sé hún barn sem ekki geti tekið jafn stóra ákvörðun og þessa sjálf og búið við hana alla æfi. Þá leggur ráðið áherslu á að umgengni verði ekki komið á nema með viðeigandi aðlögun og undirbúa þurfi bæði stúlkuna og föður fyrir næstu umgengni. Framhald og fyrirkomulag umgengni ræðst af því hvernig aðlögun gengur en ljóst sé að hafni stúlkan staðfastlega umgengni og upplifir vanlíðan í tengslum við hana verður hún ekki neydd til að hitta föður sinn. Í ljósi framangreinds var það niðurstaða ráðsins að umgengni skyldi vera fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti og að undangenginni aðlögun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hagsmunir stúlkunnar, öryggi hennar og þroski séu best varðir með því að stuðla að stöðugleika í uppvexti hennar. Til þess að svo geti orðið þarf að ríkja ró og friður í hennar nánasta umhverfi. Þá er mikilvægt að tekið sé réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska, sbr. meginreglur barnaverndarlaga.

Í apríl 2023 beindi umdæmisráð sérstöku erindi til barnaverndarþjónustu C á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 49. gr. bvl. um að aflað yrði mats viðeigandi fagaðila á tengslum stúlkunnar við föður sinn auk þess sem lagðar yrðu fram upplýsingar um heimsóknir stúlkunnar til listmeðferðarfræðings frá umgengni hennar við föður sinn í nóvember 2022. Í fyrrnefndu lagaákvæði kemur fram að umdæmisráð geti lagt fyrir barnaverndarþjónustu að afla frekari gagna sem ráðið telur nauðsynleg til að komast að niðurstöðu í máli. Fram kemur í hinum kærða úrskurði að ekki hafi verið lokið við umbeðið mat en málið engu að síður tekið til úrskurðar að beiðni barnaverndarþjónustu C.

Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur undir þá afstöðu umdæmisráðs um að nauðsynlegt sé að afla mats fagaðila á tengslum stúlkunnar við föður sinn. Nefndin telur að tengslamat geti varpað skýrara ljósi á hver sé raunverulegur vilji stúlkunnar til umgengni og hvað sé henni fyrir bestu. Í þessu samhengi finnst úrskurðanefndinni mikilvægt að benda á að sú langvarandi togstreita sem hefur ríkt á milli málsaðila hefur haft veruleg áhrif á stúlkuna og því erfitt að meta hver sé  hennar vilji. Ekki síst þess vegna álítur nefndin að það sé  mikilvægt  að afla nákvæmara mats áður en ákvörðun er tekin um umgengni.

Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í hinum kærða úrskurði að mikilvægt sé að hlutaðeigandi aðilar leggi til hliðar ágreining þannig það bitni ekki á hagsmunum stúlkunnar.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki hjá því komist að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og er lagt fyrir umdæmisráð að taka málið til meðferðar að nýju.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs barnaverndar á E frá 25. mars 2024 varðandi umgengni F, við G, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar ráðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta