Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 284/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 284/2019

Miðvikudaginn 13. nóvember 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 4. júlí 2019, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 13. júní 2019 vegna umgengni við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er X ára drengur og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Hann hefur búið í búsetuúrræði E frá því í ágúst 2015. Foreldrar Daníels eru þau F og G.

Kærandi er föðuramma drengsins. Hún fór með forsjá drengsins frá X vikna aldri þar til faðir hans fékk forsjá hans aftur þegar drengurinn var X ára gamall. Faðir drengsins afsalaði sér forsjá til Barnaverndarnefndar B í X en þá hafði drengurinn verið vistaður utan heimilis frá því í X. Þegar drengurinn bjó hjá föður sínum lokaði hann á samband drengsins við kæranda en eftir að hann afsalaði sér forsjá drengsins lögðu starfsmenn barnaverndar mikið upp úr því að vinna með tengsl drengsins við kæranda. Kærandi hefur haft mikla umgengni við drenginn og er kærandi að mati þjónustuteymis drengsins ígildi foreldris.

Í X var staða drengsins metin það alvarleg að búsetuúrræði hans var breytt í öryggisbúsetu. Fram að þessu hafði drengurinn farið allar helgar til kæranda. Ákveðið var að heimsóknir til kæranda yrðu lagðar af og var hún hvött til að koma á heimili drengsins í E á fyrirframgefnum tímum, þrjá daga í viku, tvær klukkustundir í senn.

Samkomulag um áframhaldandi umgengni kæranda við drenginn náðist ekki og var málið því tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann X. Fyrir fundinn lá tillaga í greinargerð starfsmanna, dags. X, þess efnis að umgengni færi fram þrisvar sinnum í viku á ákveðnum tímum á heimili drengsins. Umgengni verði í tvær klukkustundir í senn. Minnst einn starfsmaður fylgi drengnum ef umgengni á sér stað utandyra. Umgengni verði metin að ári liðnu. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D hafi umgengni við föðurömmu sína, A, þrisvar sinnum í viku, tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram á heimili drengsins við E. Minnst einn starfsmaður fylgir drengnum ef umgengni á sér stað utandyra.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að umgengni verði endurskoðuð á tveggja mánaða fresti, fyrst þegar í kjölfar uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, með tilliti til heimsókna drengsins á heimili kæranda. Þá er þess krafist að kærandi fái að njóta umgengni án fylgdar frá starfsmanni.

Vísað sé til málsatvikalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna barnaverndarnefndar. Málsatvikalýsingin sé viðamikil en rétt sé því að draga fram eftirfarandi atriði sem kærandi byggi sérstaklega á. Kærandi hafi gengið drengnum í móðurstað þegar hann hafi einungis verið X gamall og alið hann upp til X ára aldurs. Faðir drengsins hafi fengið forsjá hans árið X og lokað á samskipti drengsins við kæranda. Þegar faðir hafi afsalað sér forsjá drengsins til Barnaverndarnefndar B árið X hafi hafist vinna við að styrkja samband drengsins við kæranda á nýjan leik. Drengurinn búi einn í E og séu þrír starfsmenn með honum á daginn og tveir á nóttunni. Áður en umgengni hafi verið takmörkuð í október síðastliðnum hafi drengurinn farið til kæranda hverja helgi í tvo sólarhringa. Drengurinn hafi ferðast með kæranda í tvígang erlendis í nokkra daga í senn, án fylgdar, fyrst árið X í tíu daga og svo árið X í fimm daga, án nokkurra uppákomna. Fáar sem engar uppákomur hafi orðið á heimili kæranda en drengurinn hafi sýnt mikla vanlíðan við lok umgengnishelgna og hafi það valdið vandræðum að drengurinn hafi ekki viljað fara aftur í E, heldur hafi hann viljað vera áfram hjá kæranda. Samstarf kæranda og starfsmanna barnaverndarnefndar og E hafi iðulega verið mjög gott.

Athygli veki að hvorki í greinargerð starsfmanna barnaverndarnefndar né í hinum kærða úrskurði sé minnst á lyfjabreytingu hjá drengnum haustið X en fyrirliggjandi læknisvottorð sé frá árinu X. Kærandi hafi lagt áherslu á að það hafi verið hún sem hafi lagt til að lyf drengsins yrðu endurskoðuð og hafi hún ýtt fast á eftir því. Hún telji jafnframt að bætta líðan drengsins megi fyrst og fremst rekja til nýrra lyfja. Þá sé það samdóma allra sem að málinu komi að kærandi sé ígildi foreldris drengsins.

Kærandi vísar til þeirra málsástæðna sem fram komu í bókun kæranda sem lögð hafi fram af hálfu kæranda á fundi barnaverndarnefndar X.

Eins og fram hafi komið í bókun kæranda hafi hún fallist á takmörkun á umgengni. Hins vegar telji hún mikilvægt að umgengni verði aukin og henni breytt í samræmi við hversu vel gangi hjá drengnum, þannig að hann finni árangur erfiðis síns. Kærandi hafi óttast að drengurinn fái þau skilaboð að enginn möguleiki sé á að hann fái að fara í heimsóknir til hennar fyrr en að ári liðnu. Það muni hafa slæm áhrif á líðan hans og þar með slæm áhrif á hegðun hans, árangur og heildarhag.

Eins telji kærandi mikilvægt að hjálpa drengnum að takast á við það álag sem fylgi því að fara á milli heimila. Lausnin sé ekki að loka alveg á heimsóknir á heimili kæranda. Honum líði mun betur á heimili kæranda, sem drengurinn líti enn á sem heimili sitt, heldur en í E og það sé ástæðan fyrir þeim erfiðleikum sem hafi fylgt því að fara á milli heimila.

Þá virðist sem hinn kærði úrskurður byggist á þeim misskilningi að kærandi sé ósátt við að umgengni verði ekki borin undir barnaverndarnefnd fyrr en að ári liðnu, en svo sé ekki. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) hafi barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni „[...] hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd“. Barnaverndarnefnd, og eftir atvikum starfsmönnum hennar, sé þannig í sjálfsvald sett að meta tímalengd ákvörðunar um umgengnisrétt og hvort og hvenær slík ákvörðun sé endurskoðuð. Við ákvörðun á tímalengd umgengnissamnings, eða eftir atvikum úrskurðar, sé barnaverndarnefnd einungis bundin af ákvæðum 4. gr. bvl. Í þessu tilliti sé sérstaklega vísað til 1., 2. og 4. mgr. greinarinnar, þ.e. að barnaverndaryfirvöld skuli ávallt beita þeim ráðstöfunum sem barni séu fyrir bestu, taka skuli tillit til sjónarmiða og óska viðkomandi barns og barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Í þessu tilliti sé ítrekað að kærandi sé ígildi foreldris drengsins, hún hafi haft forsjá drengsins í tíu ár frá fæðingu og sé honum sem móðir. Ítrekað sé að kærandi sé ósátt við að barnaverndarnefndin skuli ekki hafa tekið til umfjöllunar ósk hennar um reglulega endurskoðun, enda sé ósk um endurskoðun einungis sett fram með hagsmuni drengsins í huga. Með ósk um að umgengni verði endurskoðuð með reglulegu millibili sé óskað eftir því að staðan verði metin reglulega af fagfólki, í samráði við bæði kæranda og drenginn sjálfan. Mögulegar niðurstöður ráðist að sjálfsögðu af stöðu drengsins á þeim tíma sem endurskoðun færi fram.

Kærandi styðji það og skilji að fylgjast verði með framvindu mála drengsins næsta árið. Þó að honum gangi vel núna sé ekki sjálfgefið að árangurinn haldi áfram að aukast. Hins vegar telji kærandi það oftúlkun á framangreindu að í því tilliti sé nauðsynlegt að takmarka umgengni drengsins á heimili kæranda í heilt ár eins og hinn kærði úrskurður kveði í raun á um. Þá þyki sýnt af atvikum máls að fullkomlega óþarft sé að starfsmaður fylgi kæranda og drengnum eftir í umgengni. Eðlilegra væri að starfsmaður væri á bakvakt ef á þyrfti að halda.

Í athugasemdum við greinargerð barnaverndar kemur fram að kærandi telji ljóst að drengurinn þjáist af mikilli heimþrá. Í því tilliti sé rétt að nefna atvik sem hafi átt sér stað X Kærandi hafi þá vaknað um nóttina við símhringingu frá drengnum. Hann hafi sagt orðrétt: „I am coming to you. I can‘t take it anymore, I am so depressed“. Hafi hann sagst hafa X og væri X á leið til kæranda. Kærandi hafi leiðbeint drengnum að X en þá hafi sambandið slitnað. Kærandi hafi þá strax hringt í neyðarlínuna og tilkynnt lögreglu um atvikið. Því næst hafi kærandi hringt í E þar sem enginn starfsmaður hafi tekið eftir því að drengurinn væri ekki á staðnum. Hún hafi hringt aftur í drenginn, talað rólega til hans og útskýrt fyrir honum að lögreglan væri á leiðinni. Þegar hún hafi sagt honum að hún hafi einnig látið starfsmenn E vita, hafi hann orðið órólegur og sagst ætla hringja í hana aftur til baka. Hann hafi þá skellt á og hringt í starfsmenn E og sagt þeim að hann væri á leiðinni. Kærandi hafi einnig hringt í starfsmennina og tjáð henni að þeir væru að fara aftur að E þar sem drengurinn væri á leiðinni. Kærandi hafi orðið reið, enda alls ekki í lagi að drengurinn væri sjálfur að X, starfsmennirnir ættu að segja honum að bíða og sækja hann. Kærandi hafi þá aftur hringt í drenginn sem hafi fullvissað hana um að hann væri enn X og biði eftir lögreglunni. Athygli veki að atvikalýsing samkvæmt dagál E sé frábrugðin frásögn kæranda að því leyti að lítið sé gert úr því að drengurinn hafi í raun verið á leið til kæranda.

Tvö önnur atvik sé vert að nefna í þessu samhengi. Annað þeirra megi segja að sé smávægilegt en veki þó furðu kæranda. Að sögn kæranda hafi hún fyrr í sumar fengið símtal frá drengnum þar sem hann hafi sagst vera á leiðinni til hennar að sækja dósir, en kærandi hafi lengi safnað dósum fyrir hann. Hún hafi spurt hvort starfsmenn væru ekki örugglega með honum og sú hafi verið raunin. Kærandi hafi samþykkt að drengurinn og starfsmenn kæmu á heimili hennar að sækja dósir sem þeir svo hafi gert. Þótti kæranda þetta skjóta afar skökku við í ljósi þess að þvertekið hafi verið fyrir að drengurinn fengi að koma í heimsókn til hennar en þarna hafi hann verið óvænt mættur. Hitt atvikið hafi verið mun alvarlegra og átt sér stað á H. Að sögn kæranda þurfi sérstaka árverkni þegar drengnum sé fylgt á hátíðarsvæðið á H, auðvelt sé fyrir hann að verða ringlaður í mannfjöldanum og afar mikilvægt sé fyrir hann að hvíla sig reglulega og næra. Þetta hafi kærandi alltaf gert og aldrei orðið neinar uppákomur á H þegar drengurinn hafi verið í hennar umsjá. Nú á H X hafi drengurinn verið í fylgd starfsmanna á hátíðarsvæði. Að sögn kæranda hafi drengurinn verið orðinn verulega þreyttur og þjakaður af verkjum í baki og fótum. Hann hafi því fengið leyfi starfsmanna til að vaða út í sjó. Mikið af fólki hafi verið á svæðinu, enda flugeldasýning að hefjast og einhverjir tekið upp myndavélar sínar, tekið myndir og gert grín að drengnum. Þetta séu aðstæður sem starfsmenn beri ábyrgð á að drengurinn lendi ekki í, enda þrír honum til fylgdar. Kærandi hafi eftir drengnum að honum hafi liðið illa með alla þessa neikvæðu athygli og brugðið á það ráð að X. Drengurinn sé miður sín yfir atvikinu og sé kærandi sannfærð um að þetta hefði ekki gerst ef hún hefði fengið að hafa umsjá með honum þennan dag, enda þekki hún hann best. Kærandi hafi ekki fengið skriflega skýrslu um atvikið og fengið einungis munnlegar upplýsingar samkvæmt ákvörðun meðferðarfundar Barnaverndar I.

Ljóst sé af athugasemdum Barnaverndarnefndar B að álit J á drengnum vegi þungt við ákvörðunartöku um takmörkun á umgengni og rökstuðning hennar. Kærandi telji að álit J byggist fyrst og fremst á frásögnum starfsmanna E en ekki af beinu mati á drengnum sjálfum, enda hafi drengurinn sjálfur lítið verið til meðferðar sérfræðinga þar, ef frá sé talin fjölskyldumeðferð sem hann fái ásamt kæranda. Enn fremur veki athygli kæranda að eitt af vandamálum drengsins sé sagt vera „stöðug upplifun á höfnun“. Þyki kæranda það skjóta skökku við að af þeim sökum telji Barnaverndarnefnd B rétt að takmarka umgengni drengsins við sinn nánasta ættingja. Hún telji með ólíkindum að sérfræðingar telji að lausnin sé að einangra drenginn á stofnun þar sem ekkert heimilisfólk búi heldur starfsfólk sem skiptist á vöktum. Það sé einkennilegt þegar það sé alveg ljóst að hann hafi möguleika á reglulegum heimsóknum á hlýju og öruggu heimili kæranda.

Kærandi hafi reynt eftir fremsta megni að eiga góða samvinnu við starfsfólk Barnaverndarnefndar B og telji það vera farsælasta farveginn fyrir drenginn hennar að gott samstarf sé á milli allra sem að málinu komi. Af þeim sökum, þvert á eigin eðlishvöt, hafi hún samþykkt í stuttan tíma að umgengni yrði takmörkuð, til reynslu. Það að umgengni sé takmörkuð í lengri tíma geti hún ekki fallist á að sé drengnum fyrir bestu, þvert á móti telji hún það vera sérstaklega slæmt fyrir andlega heilsu hans.

Að lokum sé því harðlega mótmælt að kærandi ræði á þann veg við drenginn að þau séu „[ gagnvart þeim sem eru að brjóta á þeim.“ eins og segi í bréfi Barnaverndarnefndar B. Kærandi fullyrði að í öllum sínum samskiptum við drenginn gæti hún sín eftir bestu getu á því að hann finni ekki fyrir því þegar hún sé ósátt við aðferðir barnaverndaryfirvalda eða annarra sem að málinu komi. Þvert á móti segist hún hvetja drenginn til samvinnu og reyna eftir fremsta megni að fullvissa hann um að E sé besta úrræðið fyrir hann. Í samskiptum sínum við starfsmenn barnaverndarnefndar eigi hún það til að vera óstöðug, þá hlið fái drengurinn ekki að sjá. Að sögn kæranda hafi drengurinn þannig fullt leyfi til að aðlagast og líða vel í E. Hún vilji heilshugar að hann fái áfram að njóta þeirrar þjónustu sem hann fái þar. Á sama tíma telji hún nauðsynlegt að drengurinn fái einnig að njóta þess heimilis sem hann sannarlega eigi hjá henni.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða drenginn D sem er á X. aldursári. Foreldrar D séu F og G. D, sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B, sé greindur með röskun á einhverfurófi, gagntæka þroskaröskun, ofvirknihegðunarröskun, tourette heilkenni ásamt blönduðum sértækum þroskaröskunum. Árið X hafi verið staðfest greining á tengslaröskun úr bernsku. D sé búsettur í E þar sem hann sé í öryggisbúsetu. Kærandi, föðuramma hans, hafi fengið forsjá hans þegar hann hafi verið X vikna gamall en það hafi verið samkvæmt staðfestu samkomulagi sem hún og móðir drengsins gerðu hjá sýslumanni. Kærandi hafi farið með forsjá drengsins þar til faðir hans hafi fengið forsjá hans haustið X í kjölfar forsjármáls. Faðir hans hafi afsalað forsjá til Barnaverndarnefndar B í X en þá hafði drengurinn verið vistaður utan heimilis frá því í X. Á þeim tíma sem drengurinn hafi búið hjá föður sínum hafi faðir hans lokað á samband drengsins við kæranda. Eftir að faðir afsalaði sér forsjá drengsins hafi starfsmenn Barnaverndar I lagt mikið upp úr því að vinna með tengsl drengsins við kæranda. Kærandi hafi haft mikla umgengni við drenginn og sé að mati þjónustuteymis drengsins ígildi foreldris. D sé með mjög hamlandi hegðunarvalda, mikið eirðarleysi, athyglisvanda, ókyrrð, skapsveiflur og árásarhegðun. Hann missi stjórn á sér, meiði sjálfan sig og aðra og sé oft lengi að jafna sig. Drengurinn sé hættulegur sjálfum sér og öðrum þegar hann sé ekki í jafnvægi. Drengurinn geti ekki stundað nám í almennum skóla með stuðningi. Hann hafi verið í Kskóla síðastliðið ár. Alls hafi X tilkynningar borist frá lögreglu frá því að drengurinn hafi verið X  ára en mikið hafi verið unnið með hættulega ofbeldishegðun í því skyni að vernda hann frá sjálfum sér og öðrum en drengurinn beiti óhikað ofbeldi, ásamt því að skaða sjálfan sig og hótunum um að taka sitt eigið líf.

Þann X hafi Barnavernd I borist bréf frá lækni drengsins á J þar sem hafi verið gerðar alvarleg athugasemdir við að drengurinn væri að fara í leyfi til kæranda þar sem hann gæti verið frjáls ferða sinna. Fram hafi komið í bréfinu að það væri samdóma álit starsfmanna á J, sem hefðu komið að málum drengsins frá því að hann hafi verið ungur, að hann væri hættulegur sjálfum sér og öðrum. Í kjölfarið hafi vandi drengsins verið metinn það mikill að öflugt þverfaglegt þjónustuteymi hafi verið myndað utan um hann þar sem allar ákvarðanir í máli drengsins séu teknar til að geta sem best mætt hagsmunum hans og einnig tryggt öryggi hans og annarra. Þetta þjónustuteymi skipi barnageðlæknir drengsins, E, Kskóli og starfsmenn Barnaverndar I.

Fram hafi komið á fundum með þjónustuteyminu að gríðarlega mikilvægt sé að mæta drengnum með miklum stöðugleika og þéttum ramma. Í lok X hafi staða drengsins verið metin það alvarleg að ákveðið hafi verið að breyta búsetuúrræði hans í öryggisbúsetu frá og með Xog allar reglur í kringum drenginn verið hertar. Fram að þessum tíma hafi drengurinn farið allar helgar til kæranda í L. Þótti ljóst að drengurinn þyldi ekki þann óstöðugleika sem fylgi því að búa á tveimur heimilum. Hann hafi ekki verið metinn fósturhæfur og hafi þrjá starfsmenn með sér á daginn og tvo á nóttunni. Frá X hafi D haft umgengni við kæranda þrisvar í viku á heimili hans í E, tvær klukkustundir í senn. Einnig hafi verið skipulagður símatími í klukkustund öll kvöld sem E og kærandi nýta. Frá því í X hafi staða drengsins batnað, hann hafi aftur byrjað í skólanum, farið í sálfræðiviðtöl, átt betri félagsleg samskipti og alvarlegum uppákomum hafi fækkað og einnig lögregluafskiptum.

Ekki hafi tekist að ná samkomulagi um áframhaldandi fyrirkomulag um umgengni drengsins við kæranda og hafi málið verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann X. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna, dags. X, þar sem fram komi að mikilvægt sé að halda stöðugleika og jafnvægi í lífi drengsins svo að hann fái tækifæri til að þroskast. Að mati starfsmanna hafi gengið illa að ná stöðugleika í E þegar drengurinn hafi dvalið um helgar hjá kæranda. Hjá börnum, sem glími við tengslaröskun og vitræna skerðingu, sé lykilatriði að lagt sé upp með mikinn stöðugleika og ramma líkt og gert hafi verið í tilviki drengsins en aldrei hafi náðst jafnmikill árangur eins og nú að mati starfsmanna og þjónustuteymis drengsins. Mikilvægt sé að núverandi fyrirkomulag haldist í að minnsta kosti ár áður en hægt sé að meta málið með tilliti til umgengni drengsins við kæranda á heimili hennar. Starfsmenn telji að það sé ekki áhættunnar virði að bakka með það fyrirkomulag sem nú sé til staðar þar sem mikill árangur hafi náðst en ofbeldistilvikum drengsins hafi fækkað og einnig afskiptum lögreglu. Telja starfsmenn það vera hagsmuni drengsins að hitta kæranda á heimili hans í E samkvæmt núverandi skipulagi. Tillaga starsfmanna sé því sú að umgengni drengsins við kæranda fari fram þrisvar í viku á ákveðnum tímum á heimili drengsins, tvær klukkustundir í senn. Fari umgengni fram utandyra fylgi minnst einn starfsmaður drengnum. Umgengni verði endurmetin að ári liðnu.

Kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar þann X ásamt lögmanni sínum sem hafi lagt fram ódagsetta bókun ásamt fylgigögnum. Í henni hafi komið fram að afstaða kæranda sé sú að henni þyki of langur tími líða þar til leggja eigi málið fyrir nefndina að nýju og bent á að hún hafi mikil tengsl við drenginn og hafi haft forsjá hans um tíma. Kom fram að kærandi sé sammála því að umgengni fari fram á heimili drengsins þrisvar sinnum í viku á ákveðnum tímum í tvær klukkustundir í senn. Hún sé hinsvegar ósátt við að einhver verði hangandi á drengnum þegar hann sé utandyra. Hann þurfi pláss og verði órólegur þegar hann hafi einhvern sem fylgi honum. Hún vilji að drengurinn fái að koma í heimsóknir til hennar en ekki að hún komi einungis til hans. Í fyrirliggjandi skýrslu talsmanns, dags. X, komi fram að D hitti kæranda á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum á heimli sínu, tvo tíma í senn. Hann vilji hitta hana fleiri daga. Þá komi fram að hann vilji búa á heimili hennar í L. Enn fremur komi fram að drengnum líði ekki vel á heimili sínu og langi til að búa annars staðar. Drengurinn hafi sagt að hann væri ósáttur við að hafa starfsmenn með sér en stungið upp á að hafa einn til tvo en ekki þrjá.

Í bókun nefndarinnar frá X hafi verið tekið undir mat starfsmanna í greinargerð frá X að mikilvægt sé að viðhalda þeim stöðugleika og jafnvægi sem hafi náðst og ekki sé áhættunnar virði að breyta því fyrirkomulagi sem hafi verið undanfarna mánuði. Málið hafi verið tekið til úrskurðar á grundvelli 74. gr. bvl. og úrskurður nefndarinnar legið fyrir X.

D, sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B, sé vistaður í öryggisvistun í E en þar hafi hann verið vistaður frá árinu X. Hann sé ekki metinn fósturhæfur og hafi hann þrjá starfsmenn með sér á daginn og tvo á nóttunni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn sem vistað sé utan heimilis rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt á umgengni við barnið, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með vistun. Þeir sem telji sig nákomna barninu skuli með sama hætti eiga rétt á umgengni við barn, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Barn sem sé 15 ára og eldra geti sjálft gert kröfu um umgengni.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. bvl. eigi barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni foreldra og annarra nákominna við barn, hvort sem það varði rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valdi því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni sé andstæð hag þess og þörfum geti barnaverndarnefnd úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd geti á sama hátt ákveðið að aðrir sem telji sig nákomna barninu njóti ekki umgengnisréttar ef hún telji skilyrðum 2. mgr. ekki fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum komi fram að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Enn fremur komi fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vera í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Gagnályktun frá þessum athugasemdum leiði til þess að almennt sé gert ráð fyrir takmarkaðri umgengni þegar börn séu vistuð í varanlegu fóstri, auk þess sem við túlkun á skilyrðum 74. gr. bvl. verði að taka mið af því að réttur annarra nákominna sé ekki jafnríkur og kynforeldra. Við úrlausn mála sem þessara beri að meta hvort sá sem óski eftir umgengni teljist nákominn barni í skilningi 2. mgr. 74. gr. bvl. Eins og fram komi í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til barnaverndarlaga meti barnaverndarnefnd hvort aðili telst nákominn barni í skilningi lagaákvæðisins. Fyrir liggi í máli þessu að óumdeilt sé að föðuramma drengsins teljist nákomin drengnum í skilningi barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í kæru lögmanns kæranda komi fram að kærandi krefjist þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að umgengni verði endurskoðuð á tvegga mánaða fresti með tilliti til heimsókna drengsins á heimili kæranda. Þá sé þess krafist að kærandi fái að njóta umgengni án fylgdar frá starfsmanni.

Í fyrirliggjandi bréfi frá J, dags. X, sem hafi borist Barnavernd I þann X, komi meðal annars fram að drengurinn sé metinn bæði hættulegur sjálfum sér og öðrum þegar innra spennustig hans sé hátt og óstöðugleiki mikill. Samkvæmt mati þurfi drengurinn stöðugt eftirlit og aðhlynningu allan sólarhringinn, bæði til að auka þroskamöguleika hans og lágmarka líkur á því að hann skaði sjálfan sig og aðra alvarlega. Í bréfinu komi fram að það hafi reynst drengnum of erfitt að dvelja bæði í búsetuúrræðinu í E og vera um helgar hjá kæranda. Enn fremur komi fram að J sé sammála núverandi fyrirkomulagi, þ.e. að drengurinn sé alfarið í búsetuúrræði E og að starfsfólk þar fái reglulega handleiðslu frá J. Eins sé talið mikilvægt að drengurinn fari ekki til kæranda um helgar, heldur styðji og viðhaldi tengslum þeirra á milli með því að styðja og hvetja kæranda til að koma reglulega til hans og þar geti þau átt skipulagðar gæðastundir. Drengurinn og kærandi séu í fjölskyldumeðferð á J sem hafi nýst drengnum vel. Í bréfinu komi fram að tengslin á milli drengsins og kæranda séu sterk og í grunninn góð með gagnkvæmri væntumþykju og umhyggju kæranda. Þessir þættir hafi hins vegar verið að þróast í að verða of hamlandi fyrir þroskamöguleika drengsins. Drengurinn hafi verið greindur árið X með X hafi sýnt verulegan og hamlandi misstyrk. Einkenni séu meðal annars tilfinningalegur óstöðugleiki, viðvarandi hátt spennustig, erfiðleikar við að skilja og setja í samhengi, vantraust og stöðug upplifun á höfnun, hvatvísi og óútreiknanleg og í vaxandi mæli árásargjörn og hættuleg hegðun. Þess vegna sé öryggi, stöðugleiki, einfaldleiki, traust og samfella lykilþættir í allri hans umönnun hvort sem sé á vegum Er, í skólanum eða þegar hann sé hjá kæranda. Komi fram að þegar hafi verið rætt við kæranda um þessa þætti þá hafi hún virst á yfirborðinu ná að skilja og átta sig á mikilvægi þeirra. Hún segist alltaf ná að setja drengnum viðeigandi mörk þegar hann dvelji hjá henni og að vandinn liggi í því að starfsfólk E skilji hann ekki, kunni ekki á hann og vilji halda honum einangruðum. Þessum viðhorfum hafi hún deilt óhikað með drengnum þannig að þau upplifi sig bæði sem þolendur og „saman í liði“ gagnvart þeim sem séu að brjóta á þeim. Afleiðingarnar séu aukið öryggisleysi og vantraust hjá drengnum sem illmögulegt sé að vinna með á meðan hann hafi „ekki leyfi“ frá kæranda til að aðlagast og líða vel í E. Þetta sé mjög alvarlegt að mati J og sérstaklega gagnvart barni með tengslaröskun og vitræna skerðingu þar sem öryggisleysi, vantraust og upplifun á höfnun er grunnvandi drengsins og þar með lykilatriði í umönnun hans. Fram komi að þegar þetta sé rætt við kæranda verði hún oft tilfinningalega óstöðug og nái illa að skilja hversu skaðlegt þetta sé fyrir líðan og þroska drengsins.

Í bókun meðferðarfundar þann X komi fram að þann X sama ár hafi starfsmaður rætt við starfsmenn á J og í E vegna krafna kæranda um að fá drenginn í umgengni í L, annars vegar í helgarheimsóknir og hins vegar að markmið allra sé að stefna að því að drengurinn geti á ný átt helgardvalir hjá kæranda. Á fundinum hafi fagaðilar verið einhuga um að slík vinna gæti tekið langan tíma.

Niðurstaða nefndarinnar í bókun þann X og úrskurði, dags. X, sé því í samræmi við mat J og þjónustuteymis á aðstæðum drengsins og við mat á málinu hafi verið horft til heildarhagsmuna drengsins. Markmið með vistun drengsins sé að tryggja hagsmuni hans, öryggi og þroskamöguleika og lagt sé upp með mikinn stöðugleika og ramma. Beri að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða. Með því að haga umgengni kæranda við drenginn eins og gert sé með hinum kærða úrskurði sé stefnt að því að drengurinn fái frið til að viðhalda þeim stöðugleika sem unnið hafi verið markvisst að í því umhverfi sem hann nú búi í. Mikilvægt sé að halda áfram að vinna með D á þennan hátt svo að hann haldi áfram að sýna framfarir.

IV. Sjónarmið drengsins

Í skýrslu talsmanns, dags. X, kemur fram að D hafi talað um kæranda og hafi sagst fá að hitta hana þrisvar sinnum í viku. Honum finnist umgengnin of lítil og hafi ítrekað að hann vilji fá að hitta hana oftar. Hann væri til í að fá hana oftar í heimsókn því að hún lýsi upp líf hans. Honum finnist allt í lagi þegar starfsmenn séu með en hann vilji ekki að þeir séu þrír, frekar einn eða tveir. Drengurinn hafi sagst vilja fá meiri upplýsingar um stöðu sína. Hann segist vera reyna standa sig en það taki enginn eftir því. Hann sakni L, líði alls ekki vel og langi að vera meira hjá ömmu sinni.

V.  Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur árið X. Barnaverndarnefnd B fer með forsjá drengsins og er hann búsettur í E í öryggisvistun. Kærandi er föðuramma drengsins.

Með hinum kærða úrskurði frá 13. júní 2019 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda yrði þrisvar sinnum í viku, tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram á heimili drengsins við E. Minnst einn starfsmaður fylgi drengnum ef umgengni á sér stað utandyra.

Í hinum kærða úrskurði er meðal annars vísað til þess að af gögnum máls megi ráða að nokkur árangur hafi náðst undanfarið en ljóst sé að lítið megi út af bera til að ógna stöðugleika drengsins. Það sé mat nefndarinnar að mikilvægt sé að viðhalda þeim stöðugleika og jafnvægi sem náðst hefur og ekki sé áhættunnar virði að breyta því fyrirkomulagi sem hafi verið undanfarna mánuði. Barnaverndarnefnd B sé sammála því mati starfsmanna barnaverndar að kærandi teljist nákomin drengnum í skilningi bvl.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að umgengni verði endurskoðuð á tveggja mánaða fresti með tilliti til heimsókna drengsins á heimili kæranda. Þá er þess krafist að kærandi fái að njóta umgengni án fylgdar frá starfsmanni. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Í athugasemdum við 81. gr. bvl. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er vísað til athugasemda við 74. gr. bvl. Þar er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni drengsins við kæranda ákveðin þrisvar sinnum í viku, tvær klukkustundir í senn. Sjónarmið barnaverndarnefndar við ákvörðun um umgengni föðurömmu var að ekki yrði raskað þeim stöðugleika og ramma sem drengurinn búi nú við en aldrei hafi náðst jafnmikill árangur að mati starfsmanna og þjónustuteymis drengsins. Mikilvægt sé að núverandi fyrirkomulag haldist í að minnsta kosti eitt ár áður en hægt sé að meta málið með tilliti til umgengni drengsins við kæranda á heimili hennar.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan.

Kærandi krefst þess að umgengni verði endurskoðuð með tilliti til heimsókna á heimili kæranda. Samkvæmt 6. mgr. 81. gr. bvl. er barnaverndarnefnd ekki skylt að endurskoða fyrri úrskurð sinn um umgengnisrétt nema liðnir séu tólf mánuðir frá úrskurði barnaverndarnefndar. Kæranda er þó heimilt að óska eftir endurskoðun á umgengni fyrr, telji hún ástæðu til þess.

Þá krefst kærandi þess að hún fái að njóta umgengni við drenginn án fylgdar frá starfsmanni. Hér telur úrskurðarnefndin að líta verði til forsögu málsins, meðal annars þeirra lögreglutilkynninga sem liggja fyrir í gögnum málsins og mat þjónustuteymis drengsins. Verður öryggi drengsins og annarra að mati úrskurðarnefndarinnar best tryggt með því að umgengni fari fram með fylgd starfsmanns.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barna í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 13. júní 2019 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.

 

Kári Gunndórsson

Björn Jóhannesson                                         Guðfinna Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta