Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 289/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 289/2024

Fimmtudaginn 29. ágúst 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 24. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B, dags. 27. maí 2024, um synjun á beiðni hans um afléttingu nafnleyndar vegna tilkynningar í barnaverndarmáli varðandi börn kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

B barst tilkynning undir nafnleynd þann 29. febrúar 2024. Efni tilkynningar voru áhyggjur af líðan og velferð barna kærenda. Með ódagsettri beiðni kærenda til B var óskað eftir því að nafnleynd tilkynningar yrði aflétt. Beiðni kærenda var synjað með ákvörðun B, dags. 27. maí 2024. Í ákvörðuninni kom eftirfarandi fram, auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Í 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram sú meginregla að virða beri ósk tilkynnanda um nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarþjónustu, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Sjónarmiðið er að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi og vegur það þungt í þessu sambandi þar sem síður má gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt.

Það er ekki dregið í efa að það sé föður mikilvægt að vita hver tilkynnandi er en ekki liggur fyrir grunur um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi upplýsingum. Því er ekki talið að þær sérstöku ástæður séu fyrir hendi sem mæli gegn því að nafnleyndin verði virt. Beiðni um afléttingu nafnleyndar er því synjað.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júní 2024. Með bréfi, dags. 27. júní 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð B vegna kærunnar. Greinargerð B barst með bréfi, dags. 4. júlí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. júlí 2024, var greinargerðin send kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust 24. júlí 2024 og voru þær sendar B til kynningar með bréfi, dags. 27. mars 2024. Með tölvupósti, dags. 8. ágúst 2024, tilkynnti B að þjónustan hefði engar frekari athugasemdir í málinu.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um afléttingu nafnleyndar kemur fram að tilkynning hafi ollið honum miklum sársauka og hafi haft áhrif á fjölskyldu hans. Þann X hafi […] sem setti kæranda í erfiða stöðu með X ung börn […]. Þrátt fyrir ólýsandi sorg hafi kærandi leitað strax aðstoðar fagfólks til að tryggja velferð barna sinna og sjálfs síns. Í tilkynningu til B hafi komið fram að kærandi væri að vanrækja börn sín, gæti ekki sinnt daglegum þörfum þeirra og að hann hafi ekki leitað aðstoðar fagfólks. Tilkynningin hafi því verið alröng og í raun árás á kæranda persónulega. Rannsókn B hafi leitt í ljós að börnin væru glöð, orkumikil og vel um þau hugsað. Kærandi kveðst hafa rætt til kennara og alla þá sem hafi einhverja innsýn í líf þeirra og óskað eftir áliti þeirra. Öll hafi þau verið sammála um að tilkynningin hafi verið út í hött og meiðandi. Þá hafi hin ástæðulausa tilkynning ollið kæranda óþarfa álagi á erfiðum tímum. Kærandi telji að tilkynningin sé árás á hans andlegu æru og mikilvægt sé fyrir hann að fá að vita hver lagði fram þessar ósönnu ásakanir til að taka á þessu máli beint og vernda fjölskylduna fyrir frekari tilfinningalegum skaða. Kærandi tekur fram að einstaklingur sem ljúgi svona vilji hann ekki hafa í návist barna sinna.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar B sé ítrekað að efni tilkynningar sem barst 29. febrúar 2024 hafi verið röng og byggist á röngum og villandi upplýsingum. Kærandi kveðst hafa staðið sig vel í að tryggja velferð barna sinna eftir […], þar á meðal með því að leita til sérfræðinga, sálfræðinga og presta til að veita þeim öllum þann stuðning sem þau þurfi.

Sú fullyrðing sem lögfræðingur barnaverndar kastar fram “Við könnun málanna var vanlíðan stúlknanna staðfest en að þær hefðu sótt viðtöl eftir að […] og að faðir teldi stúlkurnar vera í þörf fyrir áframhaldandi sérfræðiviðtöl.” sé á skjön við það sem fulltrúi barnaverndar sagði við kæranda í síma eftir að hafa farið [yfir málið] og rætt við börn kæranda. Fulltrúinn hafi sagði að börnin væru glöð og ánægð heima hjá sér. Það að kærandi telji börnin sín þurfa áframhaldandi sérfræðiviðtöl ættu að vera rök gegn vanrækslu af hálfu kæranda.

Það kemur fram á tilkynningarsíðu að „Tilkynning þegar ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.“

Það þurfi að setja hlutina í samhengi, […]. Auðvitað sé ólýsanleg sorg sem þau þurfa að bera allt sitt líf, en að tilkynnandi fái að skýla sér á bakvið nafnleynd eftir að koma með röð fullyrðinga sem séu rangar á þeim forsendum að börnin séu í sorg sé út í hött.

[…]

Kærandi kveður það vera mjög mikilvægt að fá nafn þess einstaklings sem lagði fram þessa ósanngjörnu tilkynningu. Að gefa honum færi á að bregðast við þessum ásökunum með því að vita hver tilkynnandi sé, muni tryggja réttlæti og möguleikann á að vernda börn hans frá frekari röngum ásökunum.

Kærandi óskar þess að þessi ákvörðun verði endurskoðuð og að nafnleynd verði aflétt til að hann geti gripið til viðeigandi ráðstafana í málinu. Engar sannanir hafa komið fram sem benda til þess að hann hafi vanrækt börnin sín og það sé ávinningur fyrir þau öll að vita hver tilkynnandi sé til að fyrirbyggja frekari misskilning.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B  kemur fram að tilkynning sú sem barst undir nafnleynd 29. febrúar 2024 hafi varðað áhyggjur tilkynnanda af velferð barnanna vegna tilfinningavanda föður og vanlíðan þeirra í kjölfar […]. Tilkynnandi hafði áhyggjur af því að börnin fengju ekki þá aðstoð sem þau þyrftu, vegna vanrækslu föður. Efni tilkynningar hafi verið kannað í máli C og féll inn í yfirstandandi kannanir í málum […]. Við könnun málanna hafi vanlíðan stúlknanna verið staðfest en að þær hefðu sótt viðtöl eftir að […] og að faðir teldi stúlkurnar vera í þörf fyrir áframhaldandi sérfræðiviðtöl. Þá kom einnig fram að kærandi hefði þegið stuðning hjá […] og sótt sálfræðiviðtöl. Efni tilkynningar um vanrækslu hafi því ekki verið staðfest en efni tilkynningar um vanlíðan stúlknanna hafi verið staðfest.

Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi upplýsingum, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. B hafi ekki ástæðu til að ætla að tilkynnandi hafi haft aðra hagsmuni að leiðarljósi en raunverulegar áhyggjur af velferð barnanna í kjölfar mikils áfalls fjölskyldunnar.

Mikilvægt sé fyrir skilvirkni barnaverndarstarfs í þágu velferðar og öryggi barna að nafnleynd þess tilkynnanda sem hennar óskar samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé virt, sbr. greinargerð með frumvarpi til laganna. Hætt sé við að tilkynnendur veigri sér við að tilkynna sé þeim ekki tryggð nafnleynd, sem hefði í för með sér þann raunhæfa möguleika að barnavernd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf kynni að vera á afskiptum hennar.


 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun B að synja kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst þjónustunni 29. febrúar 2024.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarþjónustu skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því. Þess ber að geta að það getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að koma vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndarþjónustu um atriði sem barnaverndarlög taka til.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt og þá meðal annars með hliðsjón af 1. mgr. 4. gr. bvl. Úrskurðarnefndin telur að ekki beri að aflétta nafnleynd þrátt fyrir erfiðar aðstæður í kjölfar áfalls. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir sem réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun barnaverndarþjónustu Garðabæjar frá 27. maí 2024 um að synja beiðni A, um afléttingu nafnleyndar vegna tilkynningar um börn hans, er staðfest.

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta