Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 646/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 646/2021

Miðvikudaginn 8. desember 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.

Með kæru, dags. 1. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 22. nóvember 2021, að taka við umsjá barnsins D, og vista hana utan heimilis samkvæmt b-lið 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D er X ára gömul. Kærandi kynfaðir stúlkunnar. Kynmóðir fer með forræði stúlkunnar.

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun barnaverndarnefndar B, dags. 22. nóvember 2021, að taka við umsjá stúlkunnar D og vista hana utan heimilis samkvæmt b-lið 1. mgr. 25. gr. bvl. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, því ástandi komið á sem var áður en ákvörðun var tekin og að málið fái lögmæta meðferð af hálfu barnaverndarnefndar. Þá er þess krafist að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn. Þá er þess krafist að rekstri málsins verði hraðað eins og kostur er og að það fái flýtimeðferð.

Í kæru kemur fram að forsaga málsins sé að barnið sem um ræðir hafi neitað að fara til móður sinnar vorið 2020 vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis sem það kvaðst og kveður sig enn hafa orðið fyrir af hennar hálfu. Barnið hefur lítið sem ekkert séð móður sína síðan þá. Rekin hafa verið dómsmál um að fá barnið tekið af heimili kæranda og afhent móður. Slík mál hafi verið í rekstri þegar hin kærða ákvörðun var tekin og því sé verið að sniðganga meðferð málsins með hinni kærðu ákvörðun. Þá hafi kæranda, sem aðila máls, ekki verið veittur andmælaréttur við meðferð málsins hjá barnavernd. Honum hafi ekki verið tilkynnt ákvörðunin fyrr en barnið var numið á brott úr skóla af starfsmönnum barnaverndar þann 29. nóvember 2021. Áður hafði verið reynt að ná barninu með fyrirvaralausri aðfarargerð þann 4. nóvember 2021. Kærandi vekur athygli á því að barnavernd hafi ekki fylgt lögboðinni skyldu sinni að leyfa barninu að tjá sig um þá aðgerð sem ráðist var í þann 29. nóvember 2021, sbr. ófrávíkjanlega skyldu 3. mgr. 25. gr. bvl. Um sé að ræða verulegan annmarka á ákvörðun sem leiði óhjákvæmilega til ógildingar hennar.

II.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul og lýtur forsjá kynmóður. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun B, var ákveðið að barnaverndarnefndin tæki við umsjá barnsins og hún yrði vistuð utan heimilis samkvæmt b-lið 1. mgr. 25. gr. bvl. sem kveður á um úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Barnaverndarnefnd getur, eftir því sem nánar er ákveðið í áætlun skv. 23. gr., með samþykki foreldra og barns sem náð hefur 15 ára aldri:

a. tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur,

b. tekið við forsjá eða umsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða skv. XIII. og XIV. kafla til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings.

Fóstur eða vistun barns skv. 1. mgr. skal eigi standa lengur en þörf krefur. Ráðstafanir þessar skulu að jafnaði vera tímabundnar og sæta reglulegri endurskoðun eftir því sem nánar er kveðið á um í fóstur- eða vistunarsamningi. Með tilliti til hagsmuna barns getur fóstur eða vistun þó varað þar til barn verður lögráða og tekur barnaverndarnefnd þá við forsjá þess. Ef fóstur eða vistun varir þar til barn verður lögráða ber barnaverndarnefnd eigi síðar en þremur mánuðum áður en það verður 18 ára að meta þarfir barnsins fyrir frekari úrræði. Barnaverndarnefnd getur ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstöfun haldist eftir að það verður 18 ára, allt til 20 ára aldurs. Ungmenni getur skotið synjun barnaverndarnefndar, um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ef ráðstöfun skv. a- eða b-lið 1. mgr. er gegn vilja barns sem ekki hefur náð 15 ára aldri skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta.

Fari foreldrar sem búa ekki saman sameiginlega með forsjá samkvæmt ákvæðum barnalaga þarf samþykki beggja foreldra til ráðstöfunar. Ef barn sem orðið er 15 ára samþykkir úrræði nægir samþykki þess foreldris sem barnið býr hjá en leita skal umsagnar hins foreldrisins.“

 

Samkvæmt 6. gr. bvl. er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ljóst er af 25. gr. bvl. að ákvörðun barnaverndarnefndar um að taka við forsjá eða umsjá barns og vista barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leita annarra úrræða samkvæmt XIII. og XIV. kafla til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings, sbr, b-lið 1. mgr. er ekki heimilt að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála nema í því eina tilviki að ungmenni getur skotið synjun barnaverndarnefndar um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára til nefndarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. bvl. hefur Barnaverndarstofa með höndum eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum. Í 8. gr. bvl. kemur fram að Barnaverndarstofa geti, á grundvelli kvartana eða annarra upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála og ef hún telur ástæðu til, aflað nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd og brugðist við hafi barnaverndarnefnd ekki farið að lögum, sbr. 3. og 4. mgr. ákvæðisins.

Með vísan til alls framangreinds er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru kæranda frá 1. desember 2021 vegna ákvörðunar Barnaverndarnefndar B, dags. 22. nóvember 2021, að taka við umsjá barnsins D, og vista hana utan heimilis samkvæmt b-lið 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 , er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta