Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 10/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 22. október 2014 var tekið fyrir mál nr. 10/2014, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dætra hennar, B og C.

Kært er að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki orðið við þeirri kröfu kæranda að aflétta nafnleynd í málinu. Enn fremur eru kærð vinnubrögð barnaverndarnefndarinnar við vinnslu könnunar málsins og lok hennar.

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

Ú R S K U R Ð U R

 

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar meðferð barnaverndarmáls A, fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur, vegna dætra hennar, B, og C. Kært er vegna þess að kröfu kæranda um að aflétt verði nafnleynd í tilefni af barnaverndartilkynningu var ekki sinnt og skorti á leiðbeiningum í tengslum við það og enn fremur er kært vegna málsmeðferðar og loka könnunar málsins.

Kæra lögmanns kæranda, D hdl., til kærunefndar barnaverndarmála er dagsett 16. júlí 2014. Kærandi kærir það í fyrsta lagi að ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun um að aflétta nafnleynd í málinu, sem hún hafi ítrekað farið fram á við Barnavernd Reykjavíkur, en af hálfu Barnaverndar komi fram að kærandi hafi aldrei lagt fram formlega beiðni þar að lútandi. Þess er farið á leit, varðandi þennan kærulið, að kærunefnd barnaverndarmála leggi fyrir Barnavernd Reykjavíkur að aflétta nafnleynd. Í öðru lagi eru kærð vinnubrögð Barnaverndar Reykjavíkur við meðferð málsins. Kærandi vísar til þess að bréfi hennar frá 16. apríl 2014 hafi ekki verið svarað og hún hefði ekkert heyrt af málinu fyrr en með bréfi 27. júní 2014 þar sem henni hafi verið tilkynnt að könnun væri lokið. Hún kæri þessa ákvörðun sem alltof seint fram komna og vísar í því sambandi til 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga svo og til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 21. gr. sömu laga. Barnavernd Reykjavíkur ákvað á meðferðarfundi 25. júní 2014 að loka málinu og var kæranda tilkynnt sú ákvörðun með bréfi Barnaverndar 27. júní 2014.

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt verði vísað frá enda sé ekki til staðar kæranleg ákvörðun í málinu. Varðandi kröfu kæranda um að könnun sé lokið sem of seint fram kominni er þess krafist að henni verði einnig vísað frá og bent á að einungis sé gert ráð fyrir því að ákvörðunin sem slík sé kæranleg en ekki einstaka ágreiningsatriði um það hvernig beri að kanna mál eða hvaða úrræða væri rétt að grípa til. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í greinargerð frá meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 25. júní 2014 segir að tilkynning hafi borist undir nafnleynd 14. apríl 2014 þar sem fram komi að kærandi sé í áfengis- og vímuefnaneyslu og sé í talsverðu ójafnvægi vegna þess. Í framhaldi af því hafi verið tekin ákvörðun um könnun málsins. Áður hafi Barnavernd Reykjavíkur borist 23 tilkynningar vegna annarrar stúlkunnar, B, frá árinu 2006. Hafi þær flestar fjallað um átök milli foreldra þar sem faðir hafi beitt kæranda ofbeldi. Enn fremur hafi verið tilkynnt um neyslu foreldranna og þá aðallega neyslu föðurins. Tilkynningar hafi einnig borist varðandi grun um að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Mál B hafi verið kannað alls fjórum sinnum og hafi kærandi alltaf verið til samvinnu og ekki hafi verið talin ástæða til frekari afskipta af henni eftir kannanirnar. Einnig hafi málefnum stúlkunnar verið lokað alls þrisvar sinnum án þess að könnun hafi farið fram en þá hafi tilkynningar verið metnar þannig að ekki hafi verið þörf á könnun málsins.

Í greinargerðinni segir enn fremur að fyrir fyrrnefnda tilkynningu 14. apríl 2014 hafi borist 16 tilkynningar varðandi hina stúlkuna, C, frá árinu 2005. Hafi þær flestar fjallað um átök milli kæranda og stjúpföður stúlkunnar þar sem hann hafi beitt kæranda ofbeldi. Meðal annars hafi einnig verið tilkynnt um neyslu foreldranna. Málum vegna stúlkunnar hafi verið lokað alls fjórum sinnum án þess að könnun hafi farið fram en þá hafi tilkynningar verið metnar þannig að ekki hafi verið þörf á könnun málsins.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi mætt til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur ásamt vinkonu sinni 11. júní 2014. Hafi hún sagt að hún væri mjög ósátt við að málið væri á borði Barnaverndar og hún ætli að reyna að fá nafnleynd aflétt en hún upplifi tilkynningarnar sem einelti. Hana gruni að tilkynnandi sé faðir yngri dóttur hennar en hann sé ósáttur við kæranda. Hann hafi beitt hana ofbeldi og séu tilkynningar þess efnis í málinu. Fram hafi komið hjá kæranda að báðar stúlkurnar væru mjög flottar og að þeim liði vel. Kærandi hafi sýnt starfsmanni einkunnir og umsagnir úr skóla stúlknanna sem hafi verið mjög góðar. Kærandi hafi sagst hugsa vel um stúlkurnar. Varðandi neyslu hafi kærandi sagt að hún væri ekki í neyslu fíkniefna en hún færi einstaka sinnum út að skemmta sér og fengi sér þá áfengi en það gerði hún þegar stúlkurnar væru ekki í hennar umsjá. Kærandi hafi neitað að skrifa undir samþykkt könnunar en sagt að starfsmenn væru velkomnir á heimilið og að hitta stúlkurnar og ræða við fólk í kringum hana sem hún þekki. Fram kom að kærandi væri afar ósátt við málsmeðferð hjá Barnavernd Reykjavíkur.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi ítrekað hafið hjá kæranda könnun máls í kjölfar nafnlausra tilkynninga sem kærandi telji að stafi frá fyrrverandi sambýlismanni sínum þar sem bornar hafi verið á hana ósannar ávirðingar. Eðlilega reyni slíkt á kæranda og þyki henni nóg komið af því að Barnavernd Reykjavíkur taki mark á þessum ósönnu ávirðingum sem settar séu fram undir nafnleynd. Kærandi sé einnig ósátt við vinnslu Barnaverndar Reykjavíkur í kjölfar tilkynninga og vísar því til stuðnings til tölvubréfs sem kærandi hafi skrifað starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur 16. apríl 2014. Tölvubréfið hafi hún skrifað í kjölfar símtals sem hún hafi fengið frá starfsmanninum deginum áður eða 15. apríl þar sem starfsmaðurinn hafi tilkynnt henni að borist hefði tilkynning varðandi hana og uppeldi barna hennar. Kærandi hafi aldrei fengið svar við þessu tölvubréfi og hafi hún ekkert heyrt af málinu fyrr en henni hafi borist bréf 27. júní 2014 þar sem henni hafi verið tilkynnt að könnun sé lokið. Kærandi kærir þessa ákvörðun sem alltof seint fram komna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, en samkvæmt 1. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga skuli barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því að henni barst tilkynning eða upplýsingar hvort ástæða sé til að hefja könnun í máli, sbr. og ákvæði í 3. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga. Verði því að telja að málshraðaregla og fleiri ákvæði barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga hafi verið brotin við vinnslu málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Í kærunni kemur einnig fram að mælirinn sé fullur hjá kæranda eftir að ítrekað hafi borist slíkar tilkynningar vegna hennar og iðulega hafi verið skrifað niðrandi og ósæmilega um hana í niðurstöðum kannana og ekki tekið tillit til andsvara hennar þannig að það sé ljóst að andmælareglan hafi ekki verið virt, sbr. niðurstöðu könnunar frá 3. nóvember 2008 sem sé meðal gagna málsins, en þar virtist varla tekið mark á skýringum kæranda. Móðir kæranda hafi átt við andleg veikindi að stríða og hafi kærandi þurft að láta svipta hana sjálfræði en það vandamál virtist vera talið neikvætt fyrir kæranda og eins og skýringum hennar sé ekki trúað. Einnig sé þar fjallað um atvik þegar bláókunnugur maður hafi ráðist á kæranda í Kringlunni sem hafi verið að innheimta fíkniefna- eða spilaskuld. Hann hafi áttað sig á að hann færi mannavillt og verði að telja óþarft að taka slíkt með í umfjöllun um málsatvik. Einnig virtist sem skýringu kæranda á því sé ekki trúað. Eitt sinn hafi kærandi gleymt veski sínu og ekki áttað sig á því fyrr en hún hafi ætlað að greiða fyrir leigubíl. Hún hafi greint bílstjóranum frá því og sagst mundu greiða daginn eftir. Um þetta tilvik sé fjallað sem fjársvik og sagt að hún hafi sloppið við ákæru og þarna sé um alvarlegar rangfærslur að ræða. Einnig komi fram að kærandi hafi glímt við félagslegan vanda lengi, en hún geti ekki fallist á það þó svo að hún búi í félagslegri íbúð og hafi þegið framfærslustyrk tímabundið. Hún sé einstæð móðir í námi og sé nú D.

Í frekari athugasemdum kæranda, sem bárust með bréfi lögmanns hennar 3. október 2014, segir að í fyrsta lagi sé kært að Barnavernd Reykjavíkur hafi aldrei orðið við beiðni kæranda um að aflétta nafnleynd. Í greinargerð Barnaverndar segi að kærandi hafi aldrei lagt fram formlega beiðni um að nafnleynd verði aflétt en í greinargerðinni komi eigi að síður ítrekað fram að kærandi hafi gert starfsfólki Barnaverndar Reykjavíkur grein fyrir því að hún vildi fá nafnleynd aflétt, fyrst í viðtali 11. júní 2014. Í því viðtali hefði verið eðlilegt og skylt samkvæmt stjórnsýslulögum að gera kæranda grein fyrir því með skýrum hætti að hún yrði að óska eftir því skriflega. Jafnframt hefði verið eðlilegt að hún fengi að leggja fram slíka beiðni skriflega á fundinum úr því að gert sé ráð fyrir að hún þurfi að berast skriflega, en slíkar beiðnir séu jafngildar skrifaðar með eigin hendi og í tölvu. Þarna skorti því greinilega mjög á að leiðbeiningarskyldu stjórnvalda væri sinnt samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í greinargerð Barnaverndar komi jafnframt fram að kærandi hafi rætt símleiðis um málið við framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur 25. júní 2014, sbr. skýrslu sem sé meðal gagna málsins en þar segi: „Farið var yfir málin með móður og henni leiðbeint um formlega beiðni til að fá aflétt nafnleynd, hlutverk kærunefndar og Barnaverndarstofu.“ Það sé því ljóst að leiðbeiningarskylda stjórnvalda hafi ekki verið nægilega uppfyllt í þessu tilviki. Af framansögðu megi vera ljóst að kærandi hafi ítrekað óskað eftir að nafnleynd yrði aflétt. Henni hafi fyrst verið sagt að ekki væri unnt að fá nafnleynd aflétt og síðan verið vísað á kærunefnd barnaverndarmála. Hún hafi því ekki fengið nafnleynd aflétt þótt hún hafi ítrekað greint starfsfólki frá þeirri kröfu sinni og verði því að telja eðlilegra í ljósi framangreinds að kærunefnd barnaverndarmála leggi fyrir Barnavernd Reykjavíkur að aflétta nafnleynd frekar en að vísa málinu frá.

Í fyrrnefndu bréfi lögmanns kæranda 3. október 2014 kemur fram að verið sé að kæra vinnubrögð við vinnslu könnunar og lok hennar og hvernig hafi almennt og ítrekað verið komið fram við kæranda vegna tilefnislausra tilkynninga sem borist hafi undir nafnleynd. Meðal annars hafi verið komið fram við kæranda á niðurlægjandi hátt og henni send bréf þar sem hún hafi verið borin röngum sökum og gefið í skyn að hún sjálf eigi hugsanlega við ýmis persónuleg vandamál að etja og hafi komist í kast við lögin.

Þá er bent á að skýrt komi fram að kærandi hafi ekki fengið að heyra um ákvörðunartöku varðandi könnunina formlega fyrr en 11. júní 2014 en daginn þar áður eða 10. júlí hafi starfsmaður tilkynnt það símleiðis þegar kærandi hafi hringt til að spyrjast fyrir um málið því liðinn hafi verið undarlega langur tími. Í greinargerð Barnaverndar sé fullyrt að ákveðið hafi verið að hefja könnun 22. apríl 2014 en það komi ekki heim og saman við gögnin eða tilkynningar.

Enn fremur er bent á að fjallað sé um 23 tilkynningar vegna kæranda og barna hennar en halda skuli því til haga að flestar tilkynningarnar sem um ræði séu vegna vandræða og ofbeldis barnsföður og fyrrverandi sambýlismanns en þær kvartanir virðast virtar að vettugi. Þá sé ítrekað að móðir kæranda hafi oft og tíðum hringt vegna ofbeldis sem barnsfaðir hafi beitt kæranda en ekki hafi það þó verið tekið til greina heldur þunganum varpað á kæranda að því er virðist.

Lögmaður kæranda tekur loks fram að kæran beinist að því að við vinnslu málsins hafi framangreindar meginreglur um málsmeðferð stjórnvalda verið brotnar og einnig meginregla barnaverndarlaga um að barnaverndaryfirvöld skuli í starfi sínu sýna foreldrum virðingu og nærgætni og er því andmælt að kærunni verði vísað frá.

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 3. september 2014 er afstaða Barnaverndar til málsins reifuð.

Fram kemur að í kærunni sé því haldið fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki orðið við kröfu kæranda um að aflétta nafnleynd af tilkynnanda. Bent er á að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki borist erindi kæranda þar sem þess sé krafist að aflétt verði nafnleynd af tilkynnanda. Barnavernd Reykjavíkur hafi borist tölvupóstur kæranda en af þeim pósti verði ekki ráðið að hún óskaði eftir að nafnleynd yrði aflétt af tilkynningu eða tilkynningum í máli barnanna. Í tölvupóstinum hafi kærandi hins vegar óskað eftir öllum gögnum málsins og hafi henni verið afhent gögnin með bréfi frá 15. maí 2014. Af tölvupóstinum verði ekki ráðið að svari við öðru hefði verið vænst. Áður hafi kæranda og lögmanni hennar verið afhent gögn málsins með bréfum 22. júlí 2010 og 30. september 2008. Ekki hafi önnur bréf borist frá kæranda þar sem þess sé krafist að nafnleynd verði aflétt og því hafi kæranda ekki verið svarað varðandi það. Kærandi hafi haft samband við framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur 25. júní sl., sbr. dagál þar um. Hafi þar verið farið yfir kæruleiðir og kæranda leiðbeint um að óska formlega eftir að nafnleynd yrði aflétt.

Í greinargerðinni er greint frá því að í kæru kæranda komi fram að hún hafi ritað tölvupóst 16. apríl 2014 í kjölfar þess að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi daginn áður hringt í kæranda og tilkynnt henni að borist hefði tilkynning í máli dætra hennar. Í kærunni sé fullyrt að kærandi hafi aldrei fengið svar við tölvupósti sínum og ekkert heyrt af málinu fyrr en henni hafi borist bréf 27. júní 2014 þar sem henni hafi verið tilkynnt að könnun væri lokið. Barnavernd Reykjavíkur hafi borist tilkynning undir nafnleynd 14. apríl 2014 um að kærandi væri í áfengis- og vímuefnaneyslu og væri í talsverðu ójafnvægi vegna þess. Málið hafi verið tekið fyrir á úthlutunarfundi 22. apríl 2014 þar sem tekin hafi verið ákvörðun um könnun. Beri að hafa í huga að ekki hafi verið um að ræða fyrstu tilkynningu í málinu en á árunum 2006–2013 hafi borist fjölmargar tilkynningar bæði frá lögreglu, spítala og undir nafnleynd. Tölvupósti kæranda frá 16. apríl 2014 hafi verið svarað með bréfi 15. maí 2014 þar sem henni hafi verið afhent öll gögn málsins. Málinu hafi verið úthlutað 19. maí 2014. Hafi kærandi verið boðuð til viðtals 11. júní 2014 og hafi hún mætt ásamt vinkonu sinni. Fram hafi komið hjá kæranda að hún væri mjög ósátt við að málið væri á borði Barnaverndar og hafi hún ætlað að fá nafnleynd aflétt. Hafi hún neitað að undirrita könnun máls en sagt starfsmenn velkomna á heimilið og ræða við stúlkurnar og fólk sem stæði að henni. Starfsmaður hafi sent kæranda tvo tölvupósta 23. júní 2014 auk þess sem kærandi hafi haft samband við framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur 25. júní 2014. Í því samtali hafi verið farið yfir kæruleiðir og kæranda leiðbeint um að óska formlega eftir að nafnleynd yrði aflétt. Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna 25. júní 2014. Það hafi verið bókað að mál stúlknanna hafi verið könnuð í nokkur skipti frá árinu 2006 og hefði ekki verið tilefni til frekari afskipta af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að loknum könnunum og málunum verið lokað. Málinu hafi verið lokað 27. júní 2014 í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og kæranda sent bréf um lok málsins þann sama dag. Barnavernd Reykjavíkur bendir á að í ljósi gagna málsins hafi vinnsla þess verið í samræmi við kröfur barnaverndarlaga m.t.t. til málshraðareglu, lögbundna tímafresti og rannsóknarreglu. Fullyrðing lögmanns kæranda um að kærandi hefði hvorki fengið svar við tölvupósti sínum né heyrt af málinu fyrr en henni hafi borist bréf 27. júní 2014 sé vísað á bug enda sýni gögn málsins vinnslu þess.

Fram kemur af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að af orðalagi seinni málsliðar 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga verði ekki ráðið að gert sé ráð fyrir að ákvörðun um að loka máli sé kærð vegna þess að hún sé of seint fram komin. Ákvæðið hafi verið sett inn með lögum nr. 80/2011 en með þeim lögum hafi barnaverndarlögum verið breytt. Í greinargerð sem hafi fylgt frumvarpinu sem hafi orðið að fyrrgreindum breytingalögum nr. 80/2011 komi eftirfarandi meðal annars fram: „Í einhverjum tilvikum geta foreldrar hins vegar verið ósammála mati barnaverndarnefndar og óskað frekari aðgerða, ýmist frekari könnunar eða úrræða. Á þetta hefur reynt fyrir kærunefnd barnaverndarmála sem úrskurðaði til dæmis í máli nr. 15/2013 þar sem foreldri var ósátt við ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli þar sem nefndin taldi ekki þörf á frekari könnun vegna gruns um kynferðisofbeldi. Rétt þykir að taka hér af öll tvímæli. Skv. a-lið 9. gr. laganna er gert ráð fyrir að ákvörðun um að loka máli í kjölfar könnunar sé kæranleg. Árétta ber að einungis er gert ráð fyrir að ákvörðunin sem slík sé kæranleg en ekki einstaka ágreiningsatriði um hvernig ber að kanna mál eða hvaða úrræða væri rétt að grípa til.“

IV. Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2011, er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Ef tilkynnandi samkvæmt lagagreininni óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því, sbr. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga. Þá segir enn fremur í sama lagaákvæði, sbr. 10. gr. laga nr. 80/2011, að ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd sé heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála.

Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að barnaverndarnefnd taki formlega ákvörðun um það hvort nafnleynd verði virt og að henni verði ekki aflétt þegar farið er fram á slíkt af hálfu aðila máls. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins liggur slík formleg ákvörðun ekki fyrir. Kærandi hafði þó lýst því í viðtali við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur 11. júní 2014 að hún ætlaði að reyna að fá nafnleynd aflétt og í símtali við starfsmann 25. sama mánaðar sagðist hún vilja fá aflétt nafnleynd. Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttarins sem meðal annars má leiða af 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur erindi til stjórnvalds verið skriflegt eða munnlegt. Erindi kæranda til barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að hún vilji fá nafnleynd aflétt hefur ekki verið afgreitt í samræmi við framangreindar reglur. Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga getur kærunefnd barnaverndarmála vísað máli til barnaverndarnefndar að nýju. Með vísan til þess og þar sem málið hefur samkvæmt ofangreindu ekki verið afgreitt með viðunandi hætti af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þessum þætti málsins vísað til nefndarinnar til meðferðar að nýju.

Af hálfu kæranda er vísað til ákvörðunar um að könnun hafi lokið sem kæranda var tilkynnt um með bréfi 27. júní 2014. Af hennar hálfu er þessi ákvörðun kærð sem alltof seint fram komin með vísan til 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga. Í kærunni er einnig vísað 1. mgr. 21. gr. sömu laga en samkvæmt henni skal barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því henni barst tilkynning eða upplýsingar hvort ástæða sé til að hefja könnun í málinu, sbr. og ákvæði 3. mgr. 21. gr. laganna. Kærandi kveðst ósátt við að ítrekað hafi verið ákveðið að hefja könnun án þess að haldbær ástæða væri til þess og þrátt fyrir að kærandi hafi ávallt komið vel út úr könnunum.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2 gr. laga nr. 80/2011, er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á í lögunum. Í 21. gr. laganna er fjallað um málsmeðferð vegna tilkynninga til barnaverndarnefnda í V. kafla um upphaf barnaverndarmáls. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir meðal annars að þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu eða berast upplýsingar með öðrum hætti um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, skuli nefndin taka afstöðu til þess án tafar, og eigi síðar en innan sjö daga frá því henni berst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 80/2011, er ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða að hefja ekki könnun máls hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli eftir að mál hefur verið nægilega kannað að mati barnaverndarnefndar geta foreldrar hins vegar skotið til kærunefndar barnaverndarmála samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 80/2011.

Í athugasemdum við 12. gr. laga nr. 80/2011 í frumvarpi til þeirra laga segir að í a- og b-liðum sé að finna nýmæli um lok barnaverndarmáls. Samkvæmt núgildandi lögum taki barnaverndar­nefnd formlega ákvörðun um að hefja könnun máls og marki slík ákvörðun um leið formlegt upphaf barnaverndarmáls. Lögin fjalli hins vegar ekki með sama hætti um lok máls en gengið sé út frá því að barnaverndarnefnd láti mál niður falla á síðari stigum um leið og í ljós komi að ekki sé ástæða til frekari afskipta. Reynslan sýni að foreldrar séu yfirleitt sáttir við þá niðurstöðu að ekki sé þörf frekari afskipta. Í einhverjum tilvikum geti foreldrar hins vegar verið ósammála mati barnaverndarnefndar og óskað frekari aðgerða, ýmist frekari könnunar eða úrræða. Samkvæmt a-lið 9. gr. laganna sé gert ráð fyrir að ákvörðun um að loka máli í kjölfar könnunar sé kæranleg. Árétta beri að einungis sé gert ráð fyrir að ákvörðunin sem slík sé kæranleg en ekki einstaka ágreiningsatriði um hvernig beri að kanna mál eða hvaða úrræða væri rétt að grípa til.

Samkvæmt framangreindu á kæruheimildin í 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 80/2011, ekki við um þá ákvörðun sem kærandi vísar til frá 27. júní 2014 um að loka máli hennar eða að sú ákvörðun sé of seint fram komin. Tímafrestir sem kærandi vísar til varða ákvarðanir um að hefja skuli könnun máls samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga eins og að framan greinir. Frestir til að ljúka könnun máls eru tilgreindir í 2. mgr. 41. gr. laganna en þar segir að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og henni skuli hraðað svo sem kostur sé. Tímafrestir sem kærandi vísar til eiga því ekki við um þann þátt málsins sem tekin var með hinni kærðu ákvörðun frá 27. júní 2014. Þar sem kæruheimild skortir samkvæmt því sem að framan er rakið ber að vísa þessum þætti málsins frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu varðandi þá kröfu kæranda að fá nafnleynd aflétt er vísað til meðferðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur að nýju.

Kæru kæranda um að ákvörðun um að könnun máls sé lokið sé alltof seint fram komin er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.


Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta