Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 11/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Mánudaginn 24. nóvember 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd D vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 11/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 24. júlí 2014 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar D frá 23. júní 2014, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni B við móður sína einn laugardag í mánuði frá klukkan 10:00 til klukkan 21:00. Einnig er ákveðið að símtöl verði vikulega. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Umgengni B við móður sína A verður einn laugardag í mánuði frá kl. 10:00 til kl. 21:00. Einnig er ákveðið að símtöl verði vikulega.

 Kærandi krefst þess að fallist verði á kröfu hennar frá 6. maí 2014 um að umgengni verði þrjár helgar í mánuði frá klukkan 15:00 á föstudögum til klukkan 19:00 á sunnudögum auk viku umgengni í júní og viku umgengni í ágúst auk þess að símtöl verði daglega. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Í greinargerð C, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu D, 10. júní 2014, kemur fram að barnaverndarstarfsmaður hafi rætt einslega við B í maí 2014. Fram hafi komið að B finnist umgengnin fín eins og er og þurfi hvorki að vera meiri né minni.

Af hálfu fósturforeldra stúlkunnar, E og F,  kemur fram í tölvupósti frá 29. október 2014, að þau telji umgengnina eins og hún er ákveðin í hinum kærða úrskurði vera ásættanlega.

Barnaverndarnefnd D krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

1. Málavextir

Móðir B var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X. Með dómi Hæstaréttar Íslands Y var dómur héraðsdóms staðfestur. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi sé greind með fíkniheilkenni af völdum notkunar slævandi lyfja eða svefnlyfja, sem blandið sé kvíða- og geðlægðarröskun og vandamálum tengdum félagslegu umhverfi.

B hefur verið í fóstri hjá hjónunum E og F síðan í Z. E er móðursystir stúlkunnar.

B hefur haft reglulega umgengni við móður sína síðan hún fór í fóstur. Barnaverndarnefnd D kvað upp úrskurð um umgengnina x og var umgengni aðra hvora helgi frá föstudegi klukkan 19:00 til sunnudags klukkan 16:00 og fór umgengnin fram á heimili G, móður kæranda. Með úrskurðinum var ákveðið að hann skyldi gilda þar til niðurstaða dómstóla lægi fyrir varðandi forsjá stúlkunnar. Dómur Hæstaréttar Íslands varðandi forsjá stúlkunnar lá fyrir Y eins og fram hefur komið. Með þeim sama dómi fjallaði rétturinn einnig um úrskurð barnaverndarnefndar um umgengnina frá x. Í dómi Hæstaréttar segir að við málflutning fyrir dóminum hafi tilhögun umgengninnar samkvæmt úrskurðinum reynst vel, auk þess að upplýst hafi verið að B hitti kæranda mun oftar en aðra hverja helgi. Dómurinn taldi að af gögnum málsins yrði ráðið að tengsl milli mæðgnanna væru mjög náin og sterk. Haldi kærandi sig frá vímuefnum sé það barninu fyrir bestu að sú umgengni, sem ákveðin hafi verið, verði áfram í sama horfi.

Framkvæmd umgengninnar var í kjölfarið á dóminum tekin til umræðu að nýju fyrir barnaverndarnefnd D. Fram kemur að ágreiningur hafi verið um fyrirkomulag umgengninnar og framkvæmd og hafi hún ekki alltaf gengið sem skyldi eins og fram kemur í gögnum málsins. Umgengnissamningur var útbúinn ... 2013 en kærandi mætti ekki til þess að undirrita hann. Samkvæmt þeim samningsdrögum var gert ráð fyrir því að umgengnin yrði aðra hverja helgi á heimili kæranda frá föstudegi klukkan 19:00 til klukkan 16:00 á sunnudagi. Gert var ráð fyrir að stúlkan gisti hjá kæranda á aðfangadagskvöld. Samningurinn var í meginatriðum í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndarinnar frá x. Hann skyldi gilda til 1. maí 2014 og yrði endurskoðaður fyrir þann tíma. Í gögnum málsins kemur fram að umgengnin hafi að einhverju leyti farið eftir hinum óundirritaða samningi framan af en síðar hafi umgengni ekki gengið vel

Í maí 2014 barst barnaverndarnefnd beiðni þáverandi lögmanns kæranda um aukna umgengni. Óskað var eftir því að gerður yrði umgengnissamningur við kæranda vegna umgengi hennar við dóttur sína. Lagt var til að hún fengi stúlkuna í helgarumgengni í þrjár vikur af fjórum. Umgengni skyldi byrja á föstudegi klukkan 15.00 og ljúka á sunnudegi klukkan 19.00. Kærandi fái eina heila viku með stúlkunni í júní og frá 17. til 24. júlí. Loks var lagt til að kærandi fengi að hringja í dóttur sína alla daga. Samkomulag náðist ekki um þessa tilhögun umgengni og var málið lagt fyrir barnaverndarnefnd.

Í niðurstöðu greinargerðar C, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu D, 10. júní 2014, sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar 23. júní 2014, segir að starfsmenn barnaverndarnefndar telji kæranda vera í ójafnvægi og ekki sé hægt að treysta á hana. Símhringingar hennar á heimili fósturforeldra beri merki um algert markaleysi og beri enn fremur merki um að hún setji eigin þarfir ofar þörfum stúlkunnar. Erfiðlega hafi gengið að ná samvinnu við kæranda þar sem hún hafi ítrekað afboðað sig í viðtöl til starfsmanna og ekki skrifað undir umgengnissamninga. Fósturforeldrar hafi sýnt kæranda sveigjanleika með umgengni og hafi leyft henni að hringja í stúlkuna og hitta hana, þrátt fyrir að ekki sé kveðið á um það í umgengnissamningi. Fósturforeldrar hafi hins vegar ekki alltaf getað orðið við óskum kæranda þar sem þeir hafi þurft að meta ástand hennar í hvert sinn, en hún hafi mætt á heimilið með yfirgang og ekki virt það að fósturforeldrar þurfi að vernda B fyrir áreiti hennar. Starfsmenn efist um getu kæranda til þess að hafa stúlkuna aðra hvora helgi, þar sem upplýsingar hafi borist frá G, móður kæranda, varðandi það að hún sé oft þreytt þegar stúlkan sé hjá henni og hún sinni henni ekki mikið. Einnig hafi kærandi farið á geðdeild í nokkra daga í lok apríl 2014, svefnlaus og í sjálfsvígshugleiðingum. Starfsmenn telji mikilvægt að umgengnin sé nýtt sem gæðastund mæðgnanna til að efla jákvæð tengsl þeirra á milli og telja hæfilegt að umgengni B við móður sína verði einn laugardag í mánuði frá klukkan 10:00 til 21:00. Starfsmenn treysti ekki kæranda til þess að hafa stúlkuna yfir nótt, þar sem kærandi sé ítrekað lasin þegar hún eigi að hugsa um stúlkuna. Líta verði enn fremur til þess að móðir kæranda, G, sé ekki í aðstöðu lengur til þess að gefa fósturforeldrum upplýsingar varðandi ástand kæranda. Einnig þurfi að tryggja að stúlkan verði ekki fyrir áreiti og telji starfsmenn hæfilegt að símtöl verði vikulega. Telji starfsmenn að kærandi þurfi að sýna fram á að hún sé í ástandi til þess að hugsa um stúlkuna, láti af markaleysi varðandi heimsóknir og símhringingar á fósturheimilið og að hún virði umgengnissamning.

Í kjölfar þess að kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir frekari gögnum varðandi umgengni kæranda við dóttur sína barst greinargerð C, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu D, 12. nóvember 2014. Í greinargerðinni kemur fram að hún hafi verið tekin saman í tilefni af beiðni kærunefndarinnar um gögn varðandi samtöl starfsmanna barnaverndar við stúlkuna í ágúst 2013 og í maí 2014 svo og vegna beiðni um frekari gögn um umgengni frá því síðla árs 2013 til dagsins í dag. Greinargerðinni fylgdu dagálar um samtöl starfsmanna við stúlkuna frá 13. ágúst 2013, 15. maí 2014 og 7. nóvember 2014. Einnig fylgdi tölvupóstur fósturmóðurinnar til félagsráðgjafans 4. nóvember 2014.

Í greinargerðinni er því lýst að félagsráðgjafinn hafi verið í samskiptum við kæranda nýlega vegna beiðni hennar um aukna umgengni. Í samtölum við kæranda hafi komið fram að hún væri ósátt við að hafa ekki fengið umgengni eins og til hafi staðið í september og nóvember. Kærandi hafi greint félagsráðgjafanum frá því að hún hafi rætt um þann möguleika að stúlkan flytti aftur til hennar og að hún eigi rétt á því að óska eftir því að forsjármálið verði tekið upp að nýju. Í greinargerðinni kemur fram að þetta hafi valdið stúlkunni töluverðri vanlíðan og hafi verið ákveðið að sækja um stuðningsviðtöl hjá skólasálfræðingi vegna þessa. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að hún bíði eftir stúlkunni eftir skóla og gangi með henni heim, hringi daglega og sendi sms í síma sem hún hafi gefið dóttur sinni. Félagsráðgjafinn hafi bent kæranda á að í úrskurði barnaverndarnefndar D sé kveðið á um eitt símtal vikulega og ekki sé kveðið á um að hún sæki stúlkuna í skóla. Kærandi hafi ákveðið að virða það að vettugi og líti svo á að vikulegt símtal miðist við símtal á heimili fósturforeldra og henni sé frjálst að umgangast stúlkuna með þessum hætti þrátt fyrir úrskurð barnaverndarnefndar. Fram kemur í greinargerðinni að fósturforeldrarnir vilji hafa hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi varðandi umgengni við kæranda og hafi ekki gert athugasemdir við að hún gangi með stúlkunni úr skóla, svo lengi sem það angri ekki stúlkuna. Í lok greinargerðarinnar segir að stúlkan hafi átt erfitt vegna umgengninnar og hafi ítrekað greint fósturforeldrum frá því að hún vilji heldur vera heima en að fara til kæranda. Það hafi hún staðfest í samtali við félagsráðgjafann. 

2. Afstaða kæranda

Í kærunni  kemur fram að B hafi umgengist kæranda mikið frá því að forsjársvipting hafi átt sér stað. Stúlkan sé ánægð með það og þyki gaman í umgengni hjá móður sinni og telji umgengnina hæfilega.

Kærandi sé greind með geðhvörf og sé jafnframt fíkill. Hún hafi unnið mikið í veikindum sínum á undanförnum árum. Hún hafi nú haldið sig frá neyslu bæði áfengis og annarra ávanabindandi efna í 23 mánuði, hafi lokið meðferð á meðferðarheimilinu í H og verið virk í AA-starfi. Henni hafi farið mikið fram og samhliða því að hafa hætt neyslu hafi verulega dregið úr einkennum geðhvarfasjúkdóms hennar.

Kærandi telji það skjóta skökku við í ljósi þeirra framfara sem hún hafi sýnt að tekin sé ákvörðun um minni umgengni hennar við stúlkuna. Kærandi telji að sú ákvörðun hafi verið tekin á röngum forsendum og að illa rannsökuðu máli. Í fyrsta lagi sé það rangt að hún hafi verið með sjálfsvígshugsanir þegar hún hafi lagst inn á geðdeild í lok apríl sl. Hún hafi lagst inn vegna sjúkdóms síns, m.a. hafi hún átt mjög erfitt með svefn. Hið rétta í málinu sé að læknir hennar hafi talið sjálfsvígshættu til staðar vegna veikinda hennar og þeirra einkenna sem hún hafi verið með. Læknirinn hafi því ákveðið innlögn eins og komi fram í bréfi sem sent hafi verið til barnaverndarnefndar sem hafði þó ekki borist þegar málið var tekið til úrskurðar. Svo virtist sem barnaverndarnefnd byggi afstöðu sína um skerta umgengni að stórum hluta á þessu atviki en kærandi telji vafasamt að skerða umgengni hennar á þessum forsendum, sbr. það sem nánar er greint frá í kæru lögmanns kæranda.

Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu í greinargerð barnaverndarnefndar að móðir hennar, G, hafi greint frá því að kærandi sé oft þreytt, lasin og sinni B ekki á meðan umgengni vari, en þar sé um rangfærslu að ræða. Framangreind meint ummæli séu höfð eftir fósturforeldrum B og gangi þvert á það sem kærandi hafi sjálf eftir móður sinni.

Kærandi mótmælir einnig alhæfingum fósturforeldra um að hún hafi ekki virt mörk og valdið stöðugu ónæði á heimilinu, m.a. með því að hringja stöðugt og einnig að koma á heimilið. Hið rétta sé að hún hafi eingöngu verið í símasambandi við dóttur sína daglega en ekki verið með fjandsamleg tilmæli við fósturforeldra. Kærandi telji að fósturfaðir stúlkunnar hafi móðgast við kæranda út af einu tilgreindu tilviki sem greint er frá í kæru lögmanns kæranda.

Að mati kæranda hafi ákvörðun um umgengni verið tekin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga og svo virtist sem starfsmenn barnaverndarnefndar hafi byggt ákvarðanir sínar alfarið á alhæfingum fósturforeldra sem séu ekki í samræmi við upplifun kæranda, B eða móður kæranda. Kærandi telji að hagsmunum dóttur hennar sé best borgið með því að kærandi hafi rúma umgengni við hana. Ákvörðun barnaverndarnefndar um skerta umgengni sé ekki í samræmi við 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, 2. gr. laga nr. 19/2013 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Kærandi vísar einnig til gagnkvæms réttar foreldris og barns til þess að umgangast hvort annað samkvæmt 1. mgr. 70. gr. og 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Verði ekki fallist á kröfu um aukna umgengni geri kærandi þá kröfu að úrskurður barnaverndarnefndar verði felldur úr gildi. Telji kærandi að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað og því ekki nægjanlega upplýst svo sem áskilið sé í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið rætt við móður kæranda en umgengni hafi farið fram á heimili hennar. Þess í stað hafi eingöngu verið byggt á alhæfingum fósturforeldra um afstöðu móður kæranda. Barnaverndarnefnd hafi verið þessi mistök ljós þegar úrskurður var kveðinn upp en hafi þó látið hjá líða að leggja fyrir starfsmenn nefndarinnar að bæta úr þessu með því að ræða við hana. Ekki hafi verið beðið eftir bréfi frá lækni kæranda um innlögn hennar á geðdeild heldur byggt eingöngu á lauslegri endursögn starfsmanns barnaverndarnefndar sem hafi svo ekki reynst vera í samræmi við innihald bréfsins. Loks virtist nefndin byggja ákvörðun sína á meintri slæmri andlegri heilsu kæranda og byggist sú niðurstaða alfarið á mati fósturforeldra um ,,breytingar á geðslagi“ hennar. Telja verði að ef byggja eigi ákvörðun um skerta umgengni kæranda við dóttur sína á slæmri andlegri heilsu hennar sé það lágmarkskrafa að sérfræðingur sé fenginn til þess að meta heilsu hennar.

Kærandi telur ljóst að ákvörðun um skerta umgengni hafi verið tekin án þess að nein raunveruleg rannsókn ætti sér stað heldur hafi ákvörðunin nánast alfarið byggst á alhæfingum fósturforeldra. Því sé ljóst að málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og beri því að ógilda ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar.

3. Afstaða B

Í greinargerð C, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu D, sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar D 23. júní 2014, kemur fram afstaða B, sem er ellefu ára gömul, til umgengni við móður sína.

Barnaverndarstarfsmaðurinn ræddi einslega við stúlkuna í maí 2014. Fram kom að stúlkan hafi verið glöð og skýr og rætt fúslega við starfsmanninn varðandi líðan sína á fósturheimilinu og umgengni við móður sína. Stúlkan hafi rætt af stolti um árangur sinn í íþróttum og hvað margt skemmtilegt væri á döfinni í sumar því tengdu. B hafi lýst því að sér liði vel á fósturheimilinu og að hún eigi margar vinkonur í nágrenninu. Hún hafi greint frá því að sér fyndist gaman í umgengni hjá móður sinni og aðspurð hafi hún sagt að þær færu helst í göngutúra þegar þær gerðu eitthvað saman. B finnist umgengnin fín eins og hún sé og þurfi hvorki að vera meiri né minni.

Í minnisblaði frá 13. ágúst 2013, merkt upphafsstöfunum KK, sem fylgdi greinargerð félagsráðgjafa barnaverndarnefndar D til kærunefndarinnar 12. nóvember 2014 og áður er vísað til, kemur fram að viðkomandi hafi farið á heimili fósturforeldra og spjallað við B. Hún hafi sagt að kærandi hringdi til sín á hverju kvöldi og það væri í lagi, en henni fyndist stundum erfitt þegar hún væri að spyrja hana hvort hún vildi hitta sig og hvort hún vildi koma og búa hjá sér og þá væri svolítið erfitt að svara henni. Stúlkan viti ekki hvað hún eigi að segja þar sem hún vilji ekki særa kæranda. Bréfritari hafi bent henni á að það væri ágætt að segja að barnaverndarnefndin ákvæði hvenær hún ætti að hitta kæranda ef henni fyndist erfitt að svara og að það væri ákvörðun barnaverndarnefndar að hún byggi á fósturheimili.

Í minnisblaði frá 19. maí 2014, merkt upphafsstöfunum LL, sem einnig fylgdi sömu greinargerð til kærunefndarinnar, kemur fram að bréfritari haft rætt við B á heimili fósturforeldra og hafi þær verið einar í viðtalinu. Stúlkan sé glöð, virkilega skýr og hafi fúslega rætt við bréfritara. Hún hafi lýst sínum degi og talað af stolti um árangur sinn í íþróttum, bæði körfubolta og hestum. Hún tali ekki um kæranda að fyrra bragði en bréfritari hafi rætt um það hvernig dagurinn væri þegar hún væri hjá kæranda. B hafi sagt að það væri gaman, þær fari stundum í göngutúr. Kærandi eldi matinn og hún eldi góðan mat. Stúlkan svari því aðspurð um símtöl að kærandi hringi oft. Hún sé að spyrja hvernig stúlkunni gangi í skólanum og slíkt. B segi aðspurð að henni finnist umgengnin fín eins og hún er, hún þurfi hvorki að vera meiri né minni en stundum langi hana að vera heima hjá sér þar sem vinkonur hennar séu. Stundum vilji hún frekar vera heima þar sem  þangað komi stundum gestir og hana langi að vera með.

Í sambærilegu minnisblaði frá 7. nóvember 2014, merkt sömu upphafsstöfum, kemur fram að stúlkan hafi lýst því að henni þætti mjög skrýtið og óþægilegt að móðir hennar væri að reyna að fá hana til baka og forðaðist stúlkan að ræða það. Stúlkan hafi sagst oftast ánægð í umgengni og oft vilji hún fara til móður sinnar en stundum vilji hún frekar vera hjá fósturforeldrunum. Hlutverk skólasálfræðings var útskýrt fyrir stúlkunni og hafi hún lýst því að hún væri tilbúin að hitta hann og teldi gott að geta fengið að ræða við einhver í trúnaði þar sem staða hennar væri flókin og erfið varðandi umgengnismálið.  

4. Afstaða barnaverndarnefndar D

Í greinargerð barnaverndarnefndar D 21. ágúst 2014 til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram að á því sé byggt að hinn kærði úrskurður sé réttmætur að öllu leyti og hafi málið fengið lögformlega málsmeðferð. Það sé rangt sem fram komi í kærunni að barnaverndarnefnd D hafi tekið ákvörðun um umgengni 23. júní 2014 á röngum forsendum og að illa rannsökuðu máli. Hið rétta sé að mál dóttur kæranda hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni frá árinu 2006. Á þeim tíma hafi stöðugt farið fram mat á umgengni kæranda við stúlkuna, m.a. í samráði við hana sjálfa, fósturforeldrana,  kæranda og móður hennar. Barnaverndarnefnd telji að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og að beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið dóttur kæranda fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og dóttur hennar í huga, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga. Það þjóni hagsmunum dóttur kæranda best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefndin byggi á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á dóttur sína og líf hennar. Það sé mat barnaverndarnefndar að kærandi sé í ójafnvægi og að reynslan sýni að ekki sé hægt að treysta því að hún standi við þau fyrirheit sem hún hafi gefið. Ítrekaðar símhringingar kæranda á heimili fósturforeldra beri þess merki að kærandi setji eigin þarfir ofar þörfum stúlkunnar. Við þetta bætist að erfiðlega hafi gengið að ná samvinnu við kæranda eins og gögn málsins beri með sér.

Hinn kærði úrskurður sé einnig í fullu samræmi við ákvæði 70. og 74. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurðinum sé umgengni kæranda við dóttur sína ákveðin einu sinni í mánuði í ellefu klukkustundir í senn. Barnaverndarnefndin byggi á því að rýmri umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum dóttur kæranda. Í þessu samhengi sé vísað til forsendna hins kærða úrskurðar.

Markmiðið sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun dóttur kæranda í fóstur hafi fyrst og fremst verið að draga úr neikvæðum áhrifum kæranda á dóttur sína. Þessi neikvæðu áhrif komi víða fram í gögnum málsins. Hátterni og viðhorf kæranda styðji einnig takmarkaða umgengni kæranda við dóttur sína. M.a. hafi komið fram hjá dóttur kæranda, í samtali við starfsmann barnaverndarnefndar í ágúst 2013, að kærandi hringdi í hana á hverjum degi. Jafnframt greindi hún frá því að sér þætti erfitt þegar kærandi spyrði hana hvort hún vildi ekki koma til sín, hún væri óörugg varðandi það hvernig hún ætti að svara henni þar sem henni fyndist erfitt að segja að hún vildi ekki koma og vera hjá henni. Á þessum tíma hafi einnig komið fyrir að dóttir kæranda hafi ekki viljað fara í umgengni og hafi grátið fyrir utan heimili móður kæranda þegar hún hafi átt að fara til hennar.

Í kærunni sem fyrir liggi í máli þessu sé því haldið fram að það sé rangt að kærandi hafi verið með sjálfsvígshugleiðingar þegar hún hafi lagst inn á geðdeild þann X. Af hálfu kærða sé á það bent að þessi fullyrðing stangist á við það sem fram komi í bréfi M, sérfræðings á geðdeild Landspítala, og N félagsráðgjafa 19. júní 2014. Í bréfinu komi fram að kærandi hafi verið ör við innlögn, með sjálfsvígshugsanir og hún hafi verið hrædd við að skaða sig. Fram komi að kærandi hafi aukið við lyfjaskammt sinn vegna vanlíðanar í aðdraganda innlagnar og hafi hún lítið sem ekkert sofið. Talið hafi verið líklegt að of stór skammtur lyfja hafi útleyst svefnleysi, ógleði og uppköst og leitt til vökvataps. Hugsanlegt hafi verið talið að hún hefði fengið vægt serótónínheilkenni.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji barnaverndarnefnd að rýmri umgengni en ákveðin hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun dóttur kæranda í fóstur og því beri að staðfesta úrskurðinn.

5. Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra B, þeirra E og F, sem barst kærunefnd barnaverndarmála 29. október 2014, kemur fram að það séu um fjögur ár síðan B kom til fjölskyldunnar.  Í fyrstu hafi samskipti við kæranda verið eins mikil og í boði hafi verið en mikið hafi gengið á síðan, svo sem fangelsis- og geðdeildarvistun kæranda og margt fleira sem upplýsingar séu um í gögnum málsins.

Þar sem kærandi sé systir fósturmóður hafi fósturmóðirin leitast við að halda góðu sambandi en það hafi reynst æ erfiðara. Síðastliðið vor hafi kærandi viljað fá töluvert meiri umgengni en fósturforeldrar frekar viljað minnka umgengnina.

Eftirfarandi séu helstu ástæður fyrir því að fósturforeldrar vilji ekki meiri samskipti á milli kæranda og B:

  1. B vilji oft ekki fara til kæranda og taki það mikla samningatækni og orku að sannfæra hana um að fara.  B vilji stanslaust seinka brottför til kæranda sem hringi stanslaust í hana og barnið sé með samviskubit og gráti oft og líði illa en fari alltaf á endanum en í staðinn sitji fósturforeldrarnir uppi með samviskubit yfir því að senda hana.  B hafi farið til móður sinnar 4. október sl. og hafi kæranda legið mikið á að fá hana á réttum tíma. Fósturmóðir hafi farið með B til kæranda sem hafi verið að flýta sér mikið og rekið á eftir barninu vegna þess að kærandi var á leið á opinn fund hjá [...]. Þetta væri bara nærtækasta dæmið um tilgangsleysi samneytis þeirra mæðgna, B hafi þurft að finna sér eitthvað að gera á meðan kærandi hafi sinnt sínum þörfum sem virðast ávallt koma fyrst.

  2. Kærandi geti ekki farið eftir fyrirmælum eða úrskurðum barnaverndarnefndar. Hún hafi hringt stanslaust á heimili fósturforeldranna og jafnvel eftir miðnætti og fyrir klukkan sjö á morgnana og þá með þeim skilaboðum að muna eftir að senda B með sundtösku og annað í skólann. Þetta hafi hvorki verið þolanlegt né eðlilegt og því hafi verið leyft eitt símtal á viku. Kærandi hafi gefið B GSM síma í kjölfarið og hringi hún núna oft á dag og sendi textaskilaboð. Það sama eigi við um umgengni en kærandi hafi setið fyrir B á leiðinni heim úr skólanum og jafnvel sótt hana í skólann. Fósturforeldrarnir hafi ekki gert neitt mál úr því en það sýni enn og aftur að kærandi geri það sem henni sýnist þegar henni sýnist. Nú gæti einhver haldið að þetta væri vegna þess að kærandi væri í svo mikilli þörf fyrir að hitta barnið en því miður hafi líka komið tímabil þar sem hún hafi ekkert sinnt umgengi við B og ekki mætt á viðburði sem mjög eðlilegt hefði verið að hún mætti á. 

  3. Kærandi búi hjá móður systranna, G, sem sé mikill sjúklingur.  Móðir þeirra hafi verið mikið inni á spítala sl. ár vegna lungnaþembu og þurfi súrefni allan sólarhringinn. Sá stuðningur sem kærandi hafi haft af móður sinni sé enn til staðar en ekki sé hægt að treysta á hana vegna veikinda. 

Í fyrsta lið hafi verið nefnd aðalástæðan fyrir því að fósturforeldrarnir telji að kærandi ætti ekki að eiga meiri samskipti við B en í lokin langi fósturforeldrana að nefna að það sé líka mjög slítandi og erfitt fyrir þau sem hjón og fjölskyldu að standa í þessu stappi og áreiti frá kæranda. Í fyrstu vilji maður gera allt og voni að allt fari á besta veg en í dag séu þau búin að sætta sig við að kærandi breytist ekki og því þurfi þau að aðlaga líf sitt sem best að því hvað sé ásættanlegt og hvað ekki. Þessi umgengi sem hafi verið ákvörðuð síðastliðið vor af barnaverndarnefnd D sé ásættanleg en fósturforeldrarnir vilji ekki leggja meira á B eða fjölskylduna enda nóg búið að ganga á sl. fjögur ár.

6. Niðurstaða

B er ellefu ára gömul stúlka. Hún hefur verið  í fóstri hjá fósturforeldum sínum síðan ...2011. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar D frá 23. júní 2014 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði einn laugardag í mánuði frá klukkan 10:00 til klukkan 21:00. Einnig var ákveðið að símtöl yrðu vikulega. Úrskurðurinn var kveðinn upp í tilefni af því að samkomulag hafði ekki tekist um umgengni kæranda við stúlkuna eftir að dómur Héraðsdóms Reykjaness frá X um að kæranda skyldi svipt forsjá stúlkunnar var staðfestur með dómi Hæstaréttar Y sama ár. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þegar barni er ráðstafað í fóstur. Skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag geri barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eiga að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndar­nefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara.

Í 46. gr. barnaverndarlaga er fjallað um réttindi barns við málsmeðferð. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Eins og rakið hefur verið ræddi starfsmaður barnaverndarnefndar D við B í maí 2014 til þess að kalla eftir afstöðu hennar til  umgengni hennar við móður sína. Fram kom að stúlkan sé glöð og skýr og hún hafi rætt fúslega við starfsmann varðandi líðan sína á fósturheimilinu og umgengni við móður sína. Hún hafi lýst því að sér liði vel á fósturheimilinu og að hún eigi margar vinkonur í nágrenninu. Henni finnist gaman í umgengni hjá móður sinni og umgengnin sé fín eins og hún er, þurfi hvorki að vera meiri né minni. Af gögnum málsins verður þó ráðið að umgengnin hefur valdið stúlkunni erfiðleikum og van­líðan. Hún hefur sjálf lýst því að hún vilji ræða við sálfræðing vegna þeirrar erfiðu og flóknu stöðu sem hún er í vegna umgengnismálsins.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að umgengi stúlkunar við kæranda hafi ekki gengið eins og best verði á kosið. Kærandi hafi ekki verið fús til samstarfs við barnaverndarnefnd og virði ekki þau mörk sem barnaverndarnefndin og fóstur­foreldrarnir hafi sett henni. Þá hafi umgengnin sjálf ekki alltaf gengið vel og nokkrar líkur séu á því að rúm umgengni muni hafa slæm áhrif á líðan barnsins þegar til lengri tíma er litið. Mat barnaverndarnefndarinnar samkvæmt hinum kærða úrskurði var að hagsmunum stúlkunnar yrði best borgið með því að umgengni við kæranda yrði takmörkuð í samræmi við tillögur starfsmanna barnaverndar­nefndarinnar og fósturforeldranna.

Við aðstæður eins og hér um ræðir ber að leysa úr málinu í samræmi við þá grundvallarreglu sem fram kemur í 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þess efnis að þegar tekin er afstaða til umgengnis barns í fóstri við foreldra skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. 

Stúlkan er í varanlegu fóstri sem gengur vel og er hún sátt við fósturráðstöfunina. Mikilvægt er fyrir hana að staða hennar sé trygg og að reynt verði eftir því sem frekast er unnt að forða henni frá erfiðleikum sem fram hafa komið vegna umgengni hennar við kæranda. Þessir erfiðleikar felast í því að stöðugleika stúlkunnar er ógnað og hún hvílir ekki í því öryggi sem hún þarf mjög á að halda við þær aðstæður sem hún býr við. Miklu máli skiptir að friður ríki um umgengnina og fyrirkomulag hennar. Takist það ekki veldur það stúlkunni vanlíðan og kvíða. Við þessar aðstæður verður að telja að rýmri umgengni stuðli ekki að þeim markmiðum að stúlkan njóti þess öryggis sem henni er nauðsynlegt.

Kærunefndin telur að málið sé nægjanlega rannsakað til að unnt sé að leysa úr þeim ágreiningi sem uppi er í málinu. Gögn málsins bera með sér að staða stúlkunnar er flókin og vandamál tengd umgengni hafa áhrif á líðan hennar. Að mati kærunefndar barnaverndarmála eru dagleg símtöl kæranda við stúlkuna til þess fallin að valda stúlkunni óróleika.

Með vísan til framangreinds og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga verður að telja að sú umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði þjóni hagsmunum stúlkunnar best. Ber því að hafna aðalkröfu kæranda um rýmri umgengni við stúlkuna. Kærunefndin telur enga annmarka á úrskurði barnaverndarnefndarinnar sem valdi því að hann beri að fella úr gildi. Ber því einnig að hafna þeirri kröfu kæranda.

Samkvæmt framangreindu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar D um umgengni A við dóttur sínar, B er staðfestur.


Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta