Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 15/2012

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, föstudaginn 28. september 2012, var tekið fyrir mál nr. 15/2012, A gegn barnaverndarnefnd B vegna ákvörðunar nefndarinnar frá 28. júní 2012 í máli dætra kæranda.

Kveðinn var upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Í máli þessu hefur A kært þá ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 28. júní 2012 að ekki væru forsendur til beitingar neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga.

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Kæra Vigdísar Ó. Sveinsdóttur héraðsdómslögmanns fyrir hönd A er dagsett 25. júlí 2012. Þar er kærð sú ákvörðun barnaverndarnefndar B að ekki væru forsendur fyrir beitingu neyðarráðstöfunar á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Af efni kærunnar má ráða að þess sé krafist að ákvörðun barnaverndarnefndar B verði hnekkt.

 

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir umsögn barnaverndarnefndar B með bréfi dagsettu 27. júlí 2012 og barst svar Velferðarsviðs B til kærunefndarinnar með bréfi dagsettu 28. ágúst 2012. Lögmanni kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina, með bréfi kærunefndar dagsettu 30. ágúst 2012 og bárust athugasemdir lögmannsins 24. september 2012.

 

Kærandi óskaði eftir því að afgreiðslu máls þessa yrði frestað ótiltekið, þar til niðurstaða fengist í Héraðsdómi C um kröfu um að aðfarargerð sú er framkvæmd var 29. júní 2012 yrði felld úr gildi, en þeirri umleitan var hafnað.

 

II.

Málavextir

 

Kærandi og D kynntust í E í lok árs 2002. Dóttir þeirra, F, fæddist árið 2004 og dóttirin G fæddist árið 2006. Fjölskyldan fluttist til Íslands í júní 2006. Árið 2007 fæddist þeim dóttirin H árið 2007. Auk þessara telpna á kærandi soninn I, fæddan 1997. Öll börnin eru íslenskir ríkisborgarar. Í janúar 2009 fluttist fjölskyldan til E. Vegna erfiðleika í sambúð kæranda og föður barnanna fór hún til Íslands með börnin 22. mars 2010. Faðir barnanna tilkynnti brottför kæranda til J en kærandi sneri aftur til E með börnin 26. apríl 2010, en þá hafði faðirinn lagt fram kröfu um skilnað að borði og sæng. Aðalmeðferð um forsjárkröfu og kröfu um umgengni föður við börn sín var háð í E 17. september 2010 og var kveðinn upp úrskurður varðandi umgengni barnanna við föður sinn meðan á rekstri forsjármálsins stæði, 24. september 2010, en ákveðið var að forsjáin skyldi áfram vera sameiginleg. Með dómi K frá 28. október 2010 var úrskurðurinn staðfestur, en áður, eða 22. október 2010, hafði kærandi farið til Íslands með börn sín og flutt til L. Faðir barnanna lagði þá fram kröfu fyrir Héraðsdómi Austurlands um að dætur hans yrðu teknar úr umráðum kæranda og færðar sér. Kvað dómurinn upp úrskurð 7. febrúar 2011 þar sem fallist var á kröfu föður. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 7. mars 2011. Kærandi sneri aftur til E eftir að dómurinn féll en ákvað í janúar 2012 að fara með dæturnar aftur til Íslands. Lögmaður föðurins hefur farið fram á afhendingu dætranna og hugðist sýslumaðurinn á L láta fara fram aðfarargerð 27. apríl sl. Tilkynning barst barnavernd í B 24. apríl sl. um að áhyggjur væru af líðan dætranna og öryggi þeirra yrðu þær sendar til föður. Í tilkynningunni kom fram að móðirin væri búsett í B ásamt dætrum sínum. Upplýsinga og gagna var aflað frá barnaverndaryfirvöldum á L og var kærandi boðuð til viðtals 26. apríl sl. Kemur fram í gögnum barnaverndarnefndar B að starfsmenn nefndarinnar hefðu viljað ræða við dætur kæranda á meðan könnun máls færi fram, enda væri líklegt að þær þyrftu aðstoð í kjölfar skilnaðar foreldra þeirra. Í greinargerð barnaverndarnefndar B kemur fram að áður en til þess hafi komið hafi kærandi snúið aftur til L og hafi það fengist staðfest frá skólayfirvöldum og barnavernd á svæðinu. Lauk þá barnaverndarnefnd B könnun máls með ákvörðun 11. maí 2012.

 

Kveðinn var upp dómur í K 16. janúar 2012, um að dætur kæranda og föður þeirra lúti sameiginlegri forsjá þeirra, en þær skuli eiga lögheimili hjá föður sínum. Hinn 7. júní sl. barst tilkynning frá lögmanni föðurins um að heilsu og þroska barnanna kynni að vera hætta búin vegna þess framferðis kæranda að hafna því að afhenda börnin til föður þeirra, flytja þau stöðugt á milli staða og hindra þannig framgang réttvísinnar. Í kjölfar þeirrar tilkynningar hóf Barnavernd B könnun máls skv. 21. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, en kærandi býr nú í B. Hinn 26. júní sl. kom kærandi í viðtal með börnin hjá félagsráðgjafa Barnaverndar B, en 27. júní sl. átti að fara fram innsetningargerð til afhendingar barnanna til föður síns. Samkomulag varð um að fresta gerðinni til 29. júní sl. Hinn 26. júní sl. barst formanni barnaverndarnefndar B beiðni frá lögmanni kæranda um að börnin yrðu kyrrsett á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Barnaverndarnefnd B tók beiðnina fyrir á fundi 28. júní sl. þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til beitingar neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga. Hinn 29. júní sl. fór innsetningargerð fram og börnin voru afhent barnaverndaryfirvöldum í B.

 

III.

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi kveður að hún hafi farið fram á það með erindi til Barnaverndar B frá 26. júní 2012 að dætur hennar yrðu kyrrsettar meðan rætt yrði við þær og mál þeirra kannað. Kærandi vísar til 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga, en hún kveður dætur sínar hafa verið á yfirráðasvæði íslenska ríkisins. Lögin taki til allra barna á yfirráðasvæði ríkisins án tillits til ríkisborgararéttar og þess hversu varanleg dvöl barnanna sé hér á landi. Bent er á að í 5. mgr. 15. gr. sömu laga segi að barnaverndarnefnd í því umdæmi þar sem barn dveljist skuli fara með mál þess. Þetta eigi við í þeim tilvikum ef barn eigi ekki lögheimili á Íslandi eða sé hér án forsjáraðila. Kærandi telji að barnaverndarnefnd B hefði haft fullt tilefni til að kyrrsetja dætur kæranda, þær F, G og H, hér á landi á meðan mál þeirra væri rannsakað af þar til bærum aðilum. Í staðinn hafi barnaverndarnefnd B litið fram hjá því að um nýtt mál væri að ræða, ofbeldismál og þar með barnaverndarmál sem lyti að íslenskum ríkisborgurum.

 

Kærandi telur að ný og afgerandi gögn hafi sannanlega legið fyrir sem hefðu verið forsenda beitingar neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Barnaverndarnefnd B hefði borið að kyrrsetja börnin á meðan rannsókn færi hér fram, eða í E, en ekki afhenda þau föður án fullnægjandi tryggingar fyrir því að öryggi þeirra eða velferð væri tryggð.

 

Kærandi mótmælir þeim staðhæfingum barnaverndarnefndar B að ósannað hafi verið að börnunum myndi stafa hætta af því að vera afhent föður sínum og að ásakanir á hendur honum væru ósannaðar. Þegar ákvörðun í málinu hafi verið tekin af hálfu Barnaverndar B 28. júní 2012 hafi legið fyrir að F hefði verið lögð inn á sjúkrahús í E sökum áfalls, streitu og áverka. Þá hafi legið fyrir í málinu gögn er bentu sterklega til þess að faðir stúlknanna hefði beitt hana ofbeldi þegar hún var í hans umsjá tilteknar helgar. Fyrir hafi legið læknaskýrslur, áverkavottorð og tilkynningar til læknis. Um þetta hafi íslensk barnaverndaryfirvöld verið upplýst. Með ákvörðun barnaverndarnefndar B hafi verið brotið gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins enda sýni rökstuðningur barnaverndarnefndar B að ákvörðun nefndarinnar sé tekin með hliðsjón af einhliða frásögn föðurins til málsins.

 

Kærandi áréttar þau sjónarmið er fram komi í beiðni hennar um kyrrsetningu barnanna og í kæru til kærunefndar barnaverndarmála. Tekið er fram að rökstuðningur barnaverndarnefndar B taki í engu mið af þeim málsástæðum er þar komi fram. Í öðru lagi er bent á að barnaverndarnefnd B hafi haldið því fram að hafa ekki haft lögsögu í málinu þar sem hið meinta ofbeldi hafi átt sér stað. Tekið er fram að réttur barna til verndar skv. 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga sé til staðar óháð því hvar lögheimili þeirra sé skráð. Börnin séu íslenskir ríkisborgarar og hafi verið staðsett hér á landi þegar barnaverndaryfirvöld hafi haft mál þeirra til skoðunar, sbr. einnig 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga. Bent er á að barnaverndarnefnd hafi í andmælum sínum tekið fram að ákvörðun nefndar um að beita ekki neyðarráðstöfun hafi verið tekin með hagsmuni barnanna að leiðarljósi, þó án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. Þessari fullyrðingu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.


Kærandi telur að barnaverndarnefnd B hefði borið að kanna hagi barnanna nánar og afstöðu þeirra til máls m.t.t. meints ofbeldis, ekki síst í ljósi beiðna kæranda. Ákvörðun Barnaverndar B að beita ekki neyðarráðstöfun í skilningi 31. gr. barnaverndarlaga sé röng að efni til og í andstöðu við lög. Þess er krafist að kærunefnd barnaverndarmála felli umræddan úrskurð úr gildi.

 

IV.

Sjónarmið barnaverndarnefndar B

 

Barnaverndarnefnd B kveður að ekki hafi verið skilyrði til beitingar neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þær ráðstafanir sem hér komi til greina séu meðal annars þær að taka barn af heimili eða kyrrsetja það á þeim stað sem það er.

 

Barnaverndarnefnd B hafi talið það ósannað að börnum kæranda væri hætta búin af því að vera afhent föður og fyrir hafi legið dómsúrskurður um afhendingu barnanna til föðurins. Tilkynningar um meint ofbeldi föður gegn börnunum eigi ekki undir lögsögu íslenskra barnaverndaryfirvalda þar sem meint ofbeldi hafi átt sér stað í E. Það sé skylda barnaverndaryfirvalda og lögreglu í E að rannsaka þær tilkynningar, en ekki barnaverndaryfirvalda á Íslandi. Barnaverndarnefnd B hafi haft að leiðarljósi hagsmuni barnanna við ákvörðun sína. Ekki sé að finna í íslenskum lögum heimildir til þess að íslensk barnaverndaryfirvöld grípi inn í ferli sem varði úrlausn forsjármáls, eins og hér hagi til, eða ákvarðanir sem lúta að framkvæmd Haag-samningsins.

Því hafi barnaverndarnefnd B ekki talið skilyrði til þess að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga.

 

V.

Forsendur og niðurstaða

 

Í máli þessu er til úrlausnar sú ákvörðun barnaverndar B að beita ekki neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.


 

Með lögum nr. 80/2011 um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, var gerð breyting á 6. gr. laganna, þar sem kveðið er á um kærunefnd barnaverndarmála. Í ákvæðinu er nú kveðið á um að heimilt sé að skjóta til kærunefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögum þessum. Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 80/2011 kemur fram að stefnt sé að því að geta þess sérstaklega í barnaverndarlögum hvenær stjórnsýsluákvörðun er tekin sem unnt er að skjóta til kærunefndar. Þyki fara betur á því að fjalla um kæruheimildir í einstaka ákvæðum en að telja upp öll tilvik í 6. gr. laganna.

 

Eins og áður greinir er til úrlausnar í máli þessu ákvörðun sem barnaverndarnefnd B tók á fundi 28. júní 2012, að ekki væru tilefni til beitingar neyðarráðstöfunar á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga. Í athugasemdum við ákvæði 31. gr. í frumvarpi að barnaverndarlögum kemur fram að þær ráðstafanir sem hér um ræðir séu þær er varði töku barns af heimili, kyrrsetningu þess á stað þar sem það er o.s.frv. Sé gert ráð fyrir því að formaður eða starfsmaður í umboði hans geti framkvæmt ráðstöfun án undangenginnar málsmeðferðar. Í 2. mgr. 31. gr. komi hins vegar fram hvert framhald málsins skuli vera. Þar segir að ef barnaverndarnefnd telji þörf á áframhaldandi ráðstöfun, skuli hún kveða upp úrskurð innan 14 daga frá því að formaður eða starfsmaður í umboði hans tók ákvörðun. Komi hér fyrst og fremst til álita úrskurður skv. 27. gr. laganna. Kærandi telur að barnaverndarnefnd B hafi átt að beita þeim úrræðum sem kveðið er á um í 27. gr. laganna og fjallar um kyrrsetningu barns. Þær ákvarðanir sem barnaverndarnefnd tekur á grundvelli þessa ákvæðis er unnt að bera undir dómstóla skv. 2. mgr. 27. gr. laganna. Löggjafinn hefur metið það svo að um svo viðurhlutamikla skerðingu réttinda geti verið að ræða, þegar barnaverndarnefnd tekur ákvörðun og kveður upp úrskurð um neyðarráðstöfun eins og kyrrsetning barns er, að einungis dómstólar eigi mat um lögmæti þeirra ákvarðana. Réttaröryggi borgaranna er talið betur tryggt með því að dómstólum sé falið að skera úr um lögmæti ákvarðana þessara. Úrskurðarvald kærunefndar barnaverndarmála nær samkvæmt framangreindu ekki til þess að fjalla um þá ákvörðun sem barnaverndarnefnd B tók 28. júní sl. um að ekki væri tilefni til beitingar neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og er því kærunni vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Kröfu kæranda, um að hnekkt verði þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar B að hafna beitingu neyðarráðstöfunar á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Gunnar Sandholt

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta