Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 22/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

  

Miðvikudaginn 18. mars 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við dóttur hennar, C, nr. 22/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 17. desember 2014 skaut D lögfræðingur, fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 24. nóvember 2014, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við móður sína einn laugardag í mánuði frá klukkan 9:00 til klukkan 14:00. Einnig er ákveðið að kærandi komi stúlkunni til og frá umgengni. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni C við móður sína A verður einn laugardag í mánuði frá kl. 09:00-14:00. Einnig kveður nefndin á um að A komi stúlkunni til og frá umgengni.

 Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi og að umgengni kæranda við dóttur sína, C, verði ákveðin þannig að umgengni mæðgnanna verði tvo laugardaga í mánuði í tíu klukkustundir í senn klukkan 10:00−20:00. Umgengnin fari fram á heimili kæranda. Kærandi komi stúlkunni til og frá umgengni. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.

Í greinargerð D, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu B, 17. nóvember 2014, kemur fram að D hafi rætt einslega við C í október 2014. Fram hafi komið að C finnist gaman í umgengni hjá kæranda en henni þyki óþægilegt að vinkonur kæranda og börn þeirra séu á heimilinu. Þá séu mikil læti og stúlkan njóti ekki samverunnar við kæranda. Stúlkan sagðist aðspurð vilja hafa umgengnina eins og hún er, en það komi stundum fyrir að hún vilji ekki fara til kæranda og vilji þá fremur vera hjá fósturmóður sinni.

Af hálfu fósturmóður stúlkunnar kemur fram í tölvupósti frá 13. mars 2015 að hún telji umgengnina hæfilega eins og hún er samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I. Málavextir

Mál C hefur verið til meðferðar hjá barnavernd B frá árinu 2008 vegna þess að aðbúnaði stúlkunnar og uppeldisskilyrðum þótti ábótavant hjá kæranda. Stúlkunni var síðan ráðstafað í fóstur til E í febrúar 2011, þar sem hún hefur verið síðan. Fram kemur í gögnum málsins að aðstæður stúlkunnar eru góðar á fósturheimilinu og hefur hún sjálf greint frá því að sér líði vel og vilji búa þar áfram.

Barnaverndarnefnd F krafðist þess fyrir Héraðsdómi F [...] að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar og var krafan tekin til greina með dómi [...]. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar [...].

Í greinargerð sem lögð var fyrir barnaverndarnefnd B 15. október 2012 vegna umgengnismálsins kemur fram að umgengni kæranda við stúlkuna hafi ekki alltaf gengið eins og vonast hafi verið eftir. Stúlkan hafi meðal annars greint frá því að hún fengi lítið að borða og að óregla væri á svefni hennar. Enn fremur hafi stúlkan kvartað undan vinkonum kæranda hjá kæranda og að hún vildi ekki vera í umgengni þegar þær væru þar. Kærandi óskaði eftir því að umgengnin yrði aukin til muna og fór hún fram á umgengni aðra hverja helgi. Með úrskurði barnaverndarnefndar B 15. október 2012 var ákveðið að umgengni kæranda við dóttur sína yrði annan hvern laugardag frá klukkan 10.00 til klukkan 20.00. Einnig var ákveðin umgengni um jól 2012, páska 2013 og á afmæli stúlkunnar í júní 2013.

Fram kemur að kærandi hafi eftir úrskurðinn frá 15. október 2012 bætt sig varðandi það að gefa stúlkunni að borða. Áhyggjur hafi hins vegar verið uppi af því að kærandi hefði ekki náð að skapa ró í kringum umgengnina, en að sögn C séu vinkonur kæranda ásamt börnum þeirra viðstödd umgengni. Einnig hafi verið áhyggjur af því að kærandi hafi ekki innsýn í hvað sé viðeigandi í umgengninni og að hún sé markalaus gagnvart stúlkunni, þrátt fyrir að hafa ítrekað fengið leiðbeiningar frá starfsmönnum barnaverndar hvað það varðar.

Meðal gagna málsins er enn fremur greinargerð sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar B 24. nóvember 2014. Þar kemur fram að umgengnin hafi ekki alltaf gengið vel og að stúlkan hafi ítrekað greint frá því að hún fengi lítið að borða hjá kæranda. Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð um umgengnina sama dag, þ.e. 24. nóvember 2014, og er sá úrskurður hér til meðferðar fyrir kærunefndinni.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 24. nóvember 2014 eins og áður er komið fram. Var það gert í tilefni af því að barnaverndarnefndin taldi að draga þyrfti úr umgengni þar sem ekki hefði gengið nógu vel, misbrestur hefði orðið á líðan stúlkunnar í umgengni og næringarþörf hennar hefði ekki verið sinnt, eins og fram kemur í úrskurðinum. Þá kemur þar fram að kærandi hefði ítrekað fengið ábendingar og leiðbeiningar varðandi fyrirkomulag umgengninnar og hún hafi ekki alltaf virt tímamörk umgengni líkt og kveðið hafi verið á um í fyrri úrskurði. Gögn málsins beri með sér að staða stúlkunnar sé flókin og vandamál tengd umgengni hafi áhrif á líðan hennar.

II.Afstaða kæranda

Í kærunni er því mótmælt að kærandi sé með fjölda fólks hjá sér í umgengni við C. Hún hafi leyft vinkonu sinni að dvelja hjá sér ásamt tveimur börnum hennar í um einn mánuð en konan hafi þá verið nýskilin og annað barnið að jafna sig eftir fótbrot. Kærandi mótmæli því sem fram komi í hinum kærða úrskurði þess efnis að hún hafi verið með fjölda fólks í umgengninni enda sé staðhæfing þar að lútandi í úrskurðinum óljós og órökstudd og ekki vísað til tilvika eða til hvaða fólks sé verið að vísa. Kærandi telji að ákvörðun barnaverndarnefndar hafi byggst á ósönnum og röngum staðreyndum um fjölda fólks í umgengni og hafi þar með brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að barnaverndarnefndin láti að því liggja að kærandi hafi ekki sinnt því að gefa dóttur sinni að borða í umgengninni. Væri það skoðun barnaverndarnefndar sé það mjög alvarlegt og hefði nefndinni þá borið að rannsaka málið til hlítar. Ekkert slíkt liggi fyrir og sé með því brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á að í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar sé kafli helgaður afstöðu C til málsins. Þar komi fram að henni finnist gaman í umgengni hjá kæranda og að hún vilji hafa umgengnina eins og hún sé. Ekki virtist hafa verið tekið neitt mark á þessum vilja barnsins þegar barnaverndarnefndin hafi kosið að minnka umgengnina úr 20 klukkustundum niður í fimm klukkustundir á mánuði. Kærandi telji að afstaða barnsins hefði átt að hafa vægi við ákvörðun barnaverndarnefndarinnar.

Kærandi bendir á að í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar komi fram ýmislegt varðandi afstöðu fósturmóður C til málsins sem kærandi hafi athugasemdir við. Sé þar til dæmis um að ræða óljósar athugasemdir um „sífelld atvik“ þar sem fósturmóðirin hafi þurft að skýra fyrir barninu atriði sem kærandi eigi með einhverjum hætti að hafa komið í kollinn á henni. Þá hafi fósturmóðirin dylgjað um að kærandi væri farin að drekka og hefði verið undir áhrifum áfengis í umgengni. Þessu hafi verið harðlega mótmælt af kæranda sem ósönnu og röngu. Í hinum kærða úrskurði sé fjallað um afstöðu fósturmóður en ekkert vikið að framangreindum atriðum. Því sé óljóst hvaða afstöðu barnaverndarnefndin hafi til ásakana fósturmóðurinnar um ölvun kæranda í umgengninni og óljóst hvaða áhrif þær hafi haft á ákvörðun nefndarinnar. Hafi nefndin látið þessar ásakanir hafa áhrif á ákvörðun sína sé ljóst að um brot á réttmætisreglu stjórnsýsluréttar sé að ræða. Þá liggi ekkert fyrir um að barnaverndarnefnd hafi rannsakað meinta áfengisneyslu kæranda og með því hafi hún brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá sé þeirri staðhæfingu fósturmóður að kærandi virði ekki tímamörk umgengninnar mótmælt sem ósannri enda liggi engin gögn fyrir um það. Þetta atriði hafi ekki verið rannsakað og með því hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur að ákvörðun barnaverndarnefndar brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Þannig sé í hinum kærða úrskurði ekkert fjallað um markmið ákvörðunarinnar en ætla megi að það sé að tryggja hag barnsins, laga þau vandamál sem kunni að vera til staðar og að leyfa umgengni að þjóna því hlutverki að stúlkan þekki uppruna sinn og mæðgurnar geti átt góðar stundir saman þrátt fyrir forsjársviptingu. Það sé órökstutt og óútskýrt hvers vegna fimm klukkustunda umgengni á mánuði sé betur til þess fallin að ná þessum markmiðum heldur en óbreytt umgengni. Þá leiði af meðalhófsreglunni að stjórnvaldi beri að velja vægustu leiðina sem tiltæk sé til að ná því markmiði sem stefnt sé að. Í þessu felist meðal annars að stjórnvaldi sé óheimilt að taka íþyngjandi ákvörðun ef hægt er að ná því markmiði sem að er stefnt án þess að íþyngja þeim málsaðila. Þegar ekki verði hjá því komist að íþyngja málsaðila beri stjórnvaldi að velja vægasta úrræði sem í boði sé. Þeim mun tilfinnanlegri sem sú skerðing sé þeim mun strangari kröfur beri að gera til sönnunar á nauðsyn skerðingar.

Kærandi telji að barnaverndarnefnd hafi brotið gegn framangreindu með ákvörðun sinni. Séu vandamál til staðar vegna umgengni kæranda við dóttur sína sé ljóst að þau megi laga með viðurhlutaminni hætti. Það sé einnig ljóst að ákvörðun barnaverndarnefndar gangi mun lengra en nauðsynlegt sé. Starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi lagt til að umgengni færi úr 20 klukkustundum í átta klukkustundir á mánuði en barnaverndarnefnd hafi kosið að ganga enn lengra og minnka umgengnina niður í fimm klukkustundir á mánuði. Kærandi hafi ekki fengið neina viðvörun um að til stæði að minnka umgengnina þetta mikið og ekki hafi verið vikið að því á fundi með barnaverndarnefnd 23. nóvember 2014.

Að mati kæranda hafi barnaverndarnefnd B brotið gegn stjórnsýslulögum og góðum stjórnsýsluháttum með úrskurði sínum. Meðal annars sé um að ræða brot á réttmætisreglu, rannsóknarreglu og meðalhófsreglu. Ákvörðun nefndarinnar sé því ólögmæt og beri að ógilda úrskurðinn.

Í tilefni af afstöðu fósturmóður C, sbr. tölvupóst frá henni 13. mars 2015, vill kærandi koma því á framfæri að í póstinum séu settar fram alvarlegar ásakanir um kæranda og fjölskyldu hennar. Þannig sé meðal annars talað um morðhótanir og dráp á dýrum. Kærandi mótmæli þessum fullyrðingum sem röngum. Dylgjur þessar bendi einnig til þess að fósturmóðirin virtist bera nokkurn kala til kæranda svo vægt sé til orða tekið. Hljóti umsögn hennar að skoðast í því ljósi.

 Í umsögninni sé enn vikið að lygilegu atviki um ösku kattar kæranda. Kærandi hafi útskýrt þetta atvik í greinargerð sinni til barnaverndarnefndar 23. nóvember 2014. Kærandi hafi hvorki vísað dóttur sinni á umrædda krukku né „dregið hana upp“ eins og lýst sé í umsögn fósturmóður. Hið rétta sé að C hafi komið auga á umrædda krukku í hillu heima hjá kæranda, en krukkan hafi ekki verið úti í bíl. 

Í umsögninni fjalli fósturmóðirin um meinta afstöðu C til umgengnistíma. Kærandi mótmæli því að það sem þar komi fram hafi nokkuð vægi í málinu, enda um einhliða lýsingu fósturmóður að ræða sem sé í algjöri andstöðu við greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar 17. nóvember 2014. Í þeirri greinargerð sé kafli helgaður afstöðu C til málsins og þar komi fram að henni finnist gaman í umgengni hjá móður sinni og að hún vilji hafa umgengnina eins og hún sé. Á þeim tíma hafi umgengnin verið tvo laugardaga í mánuði í tíu klukkustundir í senn.

III. Afstaða C

Í greinargerð D, félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu B, sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar B 24. nóvember 2014, kemur fram afstaða C, sem er X ára gömul, til umgengni við móður sína.

Barnaverndarstarfsmaðurinn ræddi einslega við stúlkuna í byrjun október 2014. Stúlkan hafi greint frá því að sér finnist gaman í umgengni hjá kæranda en það væri óþægilegt að vinkonur kæranda og börn þeirra séu á heimilinu. Þá væru mikil læti og hún njóti ekki eins samverunnar við kæranda. Stúlkan hafi greint frá því að hún væri mikið ein á leikvellinum þegar hún sé í umgengni og það leiðist henni. Mæðgurnar spili helst tölvuleiki en stundum leiki þær sér í „playmo“ og stundum kaupi kærandi dót sem stúlkunni finnist skemmtilegt. Aðspurð hafi stúlkan sagt að hún vildi hafa umgengnina eins og hún sé, en það komi stundum fyrir að hún vilji ekki fara til kæranda og vilji þá frekar vera hjá fósturmóður sinni. Hún sé mikið ein þegar hún dvelji á heimili kæranda því þar eigi hún enga vini. Mæðgurnar leiki sér saman en stundum gleymi kærandi að gefa henni að borða.

Í bréfi G 12. nóvember 2014, sem var beðin um að vera talsmaður C, kemur fram að þær hafi hist í viðtalsherbergi H. Hjá stúlkunni hafi komið fram að hún elskaði kæranda og fósturmóður sína jafnheitt og gæti engan veginn gert upp á milli þeirra ef til þess kæmi að hún ætti að velja um að búa hjá annarri hvorri þeirra. Fram hafi komið hjá stúlkunni að henni liði vel hjá fósturmóðurinni. Passað væri upp á að hún borði reglulega og að regla sé á hlutunum. Hún gangi heim eftir skóla og þegar heim sé komið eigi hún að fá sér að borða og sinna heimanámi. Að þessu loknu megi hún leika sér með vinum sínum sem búi í hverfinu. Oftast fari hún í langan göngutúr með hundinn.

Einnig hafi komið fram hjá stúlkunni að hún sé mikið ein þegar hún sé hjá kæranda vegna þess að hún eigi enga vini þar en að hún og kærandi leiki sér saman. Þær spili á spil eða séu í „playmo“. Stúlkan segist eiga mikið af dóti hjá kæranda. Kærandi gleymi stundum að gefa henni að borða. Fram hafi komið hjá stúlkunni að einhver kona með tvö börn hefði búið hjá kæranda og hafi henni ekki líkað það. Annað barnið (stúlka á leikskólaaldri) væri að leika sér með dótið hennar og eignaði sér það.

Loks kom fram hjá talsmanninum að C mætti alltaf á réttum tíma í skólann og segðist vera ánægð í skólanum.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B 12. janúar 2015 til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram að þess sé krafist að kærunefndin staðfesti hinn kærða úrskurð um umgengni C við kæranda.

Barnaverndarnefndin telji að úrskurðurinn sé réttmætur og hafi fengið lögformlega málsmeðferð og er öllum röksemdum kæranda fyrir því gagnstæða hafnað. Barnaverndarnefnd byggi á því að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið C fyrir bestu. Barnaverndarnefnd B byggi á því að það þjóni hagsmunum dóttur kæranda að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd B telji að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengni verði takmörkuð sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á dóttur sína og líf hennar. Það sé mat nefndarinnar að kærandi sé í ójafnvægi og að reynslan sýni að ekki sé hægt að treysta því að hún fari eftir þeim leiðbeiningum sem henni séu látnar í té um það sem betur megi fara. Þannig sé grunnþörfum stúlkunnar ekki sinnt með fullnægjandi hætti og tímamörk ekki alltaf virt. Hinn kærði úrskurður sé einnig í fullu samræmi við ákvæði 70. og 74. gr. barnaverndarlaga, en á því sé byggt að rýmri umgengni væri bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum stúlkunnar.

Markmiðið sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur sé fyrst og fremst að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturmóður sinni og þar með sé dregið úr neikvæðum áhrifum kæranda á dóttur sína. Þessi neikvæðu áhrif megi víða sjá stað í gögnum málsins en til að mynda liggi fyrir að svefn C hafi verið óreglulegur þegar umgengni hafi náð yfir heila helgi. Þá sýni reynslan að hún hafi ekki fengið nóg að borða í umgengni, komið vannærð til baka og almennt hreinlæti hafi verið lélegt. Jafnframt hafi hún oft og tíðum verið hrædd þegar hún komi og fari úr umgengni.

Því er sérstaklega mótmælt af hálfu barnaverndarnefndar sem haldið er fram í stjórnsýslukæru að barnaverndarnefndin hafi brotið gegn réttmætis- og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Því fari fjarri að ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ósönnum og röngum staðreyndum eða að málið hafi ekki verið rannsakað til hlítar. Bent er á gögn málsins og þá staðreynd að málefni C hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd B í verulega langan tíma eða frá árinu 2008.

V. Afstaða fósturmóður

Í tölvupósti fósturmóður C frá 13. mars 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að stúlkan kvarti sáran yfir að kærandi gefi henni aðeins sælgæti að borða meðan heimsókn standi. Heimiliskötturinn þeirra hafi verið drepinn og hafi kærandi geymt hann í heilt ár í frystikistunni. Fyrir jólin 2013 hafi kærandi brennt köttinn og sett hann í krukku. Þegar hún hafi náð í C hafi kærandi sagt að hún væri með „surprise“ fyrir hana og dregið upp krukkuna merkta kettinum sem hafi verið með ösku í. Þetta atvik hafi haft gríðarleg áhrif á C og hafi hún grátið í fangi fósturmóður sinnar við heimkomuna. Þær hafi talað lengi um atburðinn og hafi fósturmóðirin útskýrt fyrir henni að svona gerði maður ekki. C hafi sagt henni að hún vildi ekki fara til mömmu sinnar eftir þetta og spurt hvort hún mætti ekki vera bara veik. Margar slíkar uppákomur hafi komið fyrir. Kærandi hafi hýst vinkonu sína með tvö börn um nokkurt skeið og hafi C verið þreytt á öskrunum í börnunum.

Þegar fósturmóðirin hafi spurt C hvernig hafi verið hjá mömmu hennar hafi stúlkan verið áhyggjufull og sagt að mamma hennar væri að fara í ferðalag með konunni og börnunum og ömmunni og C ætti að koma með en hún þyrfti að vera í skottinu á bílnum því að það væri ekki sæti fyrir hana. Fósturmóðirin kveðst hafa verið lengi að útskýra fyrir C að hún væri ekki að fara með mömmu sinni í ferðalag en stúlkan hafi haft þungar áhyggjur af fyrirhuguðu ferðarlagi móður sinnar þar sem stúlkan hafði hvorki áhuga á að vera í skottinu né að fara í ferðalag með vinkonu móður sinnar og börnum hennar.

Það hafi verið mikil spenna í C og hún verið uppstökk og pirruð og hafi það komið fram þegar hún svaraði kennurum sínum. Myndast hafi mikil spenna vikuna eftir heimsókn stúlkunnar til kæranda og hafi stúlkan ekki getað unnið úr því. Fósturmóðirin hafi því talað við barnaverndarnefnd B og bent á að eitthvað þyrfti að gera í málunum. Í kjölfarið hafi verið dregið úr umgengninni. Þegar fósturmóðirin hafi sagt C frá því að búið væri að draga úr umgengninni hafi hún andað léttar eins og fargi væri af henni létt. Fósturmóðirin kveðst ekki hafa fundið þessa spennu í stúlkunni núna og sé hún mikið léttari og kátari í heimsóknunum. Fósturmóðirin hafi spurt C hvort hún vildi fara aftur hálfsmánaðarlega til mömmu sinnar eins og hún hafi gert en hún hafi sagt að umgengnin væri fín svona, fimm klukkustundir einu sinni í mánuði og fósturmóðirin kveðst vera hjartanlega sammála C.

VI. Niðurstaða

C er tíu ára gömul stúlka. Hún hefur verið í fóstri hjá fósturmóður sinni, E, frá því í febrúar 2011. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá 24. nóvember 2014 var umgengni stúlkunnar við kæranda minnkuð frá því sem verið hafði og ákveðið að umgengnin yrði einn laugardag í mánuði frá klukkan 9:00 til klukkan 14:00. Einnig var ákveðið að kærandi kæmi stúlkunni til og frá umgengni. Kærandi óskar rýmri umgengni við stúlkuna.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag geri barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eigi að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndar­nefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Í gögnum málsins kemur fram að stúlkan hefur haft umgengni við kæranda allan þann tíma sem hún hefur verið í fóstri. Í málinu liggja fyrir drög að samningi frá 21. maí 2012 um umgengni kæranda við dóttur hennar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga. Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar frá 15. október sama ár er því lýst að starfsmenn barnaverndar hafi ítrekað reynt að fá kæranda til að skrifa undir samninginn án árangurs. Fram kemur einnig að kærandi hefði þó samþykkt þá umgengni sem kveðið er á um í samningsdrögunum á fundi hjá barnaverndarnefndinni 21. maí 2012. Eins og áður er komið fram var hinn kærði úrskurður frá 24. nóvember 2014 kveðinn upp í tilefni af því að barnaverndarnefndin taldi að draga þyrfti úr umgengni þar sem hún hafði að mati nefndarinnar ekki gengið nógu vel en þessu mótmælti kærandi.

Við aðstæður eins og hér um ræðir ber að leysa úr málinu í samræmi við þá grundvallarreglu sem fram kemur í 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þess efnis að þegar tekin er afstaða til umgengnis barns í fóstri við foreldra skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Eins og áður hefur komið fram hefur stúlkan haft umgengni við kæranda allan tímann sem hún hefur verið vistuð utan heimilis frá því snemma á árinu 2011. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að umgengni hefði ekki gengið eins og best verði á kosið. Misbrestur hefði verið á líðan stúlkunnar í umgengni og næringarþörf hennar hefði ekki verið sinnt. Kærandi hefði ítrekað fengið ábendingar og leiðbeiningar vegna fólks, sem hafi verið á heimilinu þegar umgengni átti sér stað, og varðandi næringarþörf stúlkunnar. Þá hafi kærandi ekki alltaf virt tímamörk umgengni. Gögn málsins beri með sér að staða stúlkunnar sé flókin og vandamál tengd umgengni hafi áhrif á líðan hennar.

Í kærunni er vísað til þess að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu barnaverndar­nefndarinnar. Hinn kærði úrskurður hafi byggst á ósönnum og röngum staðreyndum um fjölda fólks í umgengni og ekki komi fram hvort og hvernig barnaverndarnefndin hefði rannsakað ásakanir um þetta atriði. Kærandi mótmælir því jafnframt að hún hefði ekki sinnt næringarþörf dóttur sinnar. Ekki lægju fyrir skýrar sannanir eða gögn um að næringarþörf barnsins hefði verið vanrækt og því hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga af hálfu barnaverndarnefndarinnar.

Í gögnum málsins kemur fram að stúlkan hefði skýrt talsmanni sínum frá því að kærandi gleymdi stundum að gefa henni að borða. Einnig er því lýst af hálfu talsmannsins í skýrslu 12. nóvember 2014 að stúlkan hefði talað um að einhver kona hefði búið hjá kæranda með tvö börn og líkaði stúlkunni það ekki. Yngra barnið, á leikskólaaldri, tæki dótið hennar. Þá kemur einnig fram í greinargerð D félagsráðgjafa 17. nóvember 2014 að hún hafi rætt einslega við stúlkuna í október sama ár. Fram hafi komið að stúlkunni finnist gaman í umgengni hjá kæranda en henni þyki óþægilegt að vinkonur kæranda og börn þeirra séu á heimilinu. Þá séu mikil læti og stúlkan njóti ekki samverunnar við kæranda. Stundum vilji hún ekki fara til kæranda og vilji fremur vera hjá fósturmóðurinni.

Að þessu virtu telur kærunefndin að málið hafi legið þannig fyrir að barnaverndarnefndinni hafi augljóslega borið að ganga nánar úr skugga um það hver áhrifin voru sem þessi atriði og annað varðandi umgengnina höfðu á stúlkuna og líðan hennar, einkum með tilliti til þess að skerðing á umgengni er studd þeim rökum í hinum kærða úrskurði að vandamál varðandi umgengnina hefðu áhrif á líðan hennar. Þá gáfu ítrekaðar ábendingar fósturmóður stúlkunnar um að hún hefði áhyggjur af líðan stúlkunnar í umgengni, sem varð tilefni þess að málið var tekið fyrir hjá barnaverndar­nefndinni eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði, enn frekar tilefni til þess að líðan stúlkunnar væri könnuð nánar af hálfu barnaverndarnefndarinnar af þar til bærum aðila sem hefði kunnáttu og þjálfun í að ræða við börn sem búa við erfiðar aðstæður. Eins og fram kemur í 1. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu. Skal meðal annars miða við að fram geti farið faglegar rannsóknir á félagslegum og sálrænum högum barna vegna meðferðar einstakra barnaverndarmála. Þá verður hér enn fremur að líta til þess hve rýr gögn málsins eru um líðan stúlkunnar og hina flóknu stöðu sem hún er talin vera í samkvæmt hinum kærða úrskurði. Þarna telur kærunefndin um grundvallaratriði að ræða sem geti haft úrslitaþýðingu við úrlausn á því hvað þjóni hagsmunum stúlkunnar best þegar tekin er afstaða til umgengni hennar við kæranda, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Með vísan til þessa verður að líta svo á að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað hvað varðar líðan stúlkunnar í umgengni áður en barnaverndarnefnd B tók ákvörðun í því og kvað upp hinn kærða úrskurð. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem þessa var ekki gætt af hálfu barnaverndarnefndarinnar ber að fella hinn kærða úrskurð nefndarinnar úr gildi.

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga getur kærunefndin vísað máli til barnaverndar­nefndar til meðferðar að nýju. Þar sem ekki var gætt réttra málsmeðferðarreglna samkvæmt því sem að framan greinir af hálfu barnaverndarnefndarinnar og með vísan til framangreinds lagaákvæðis ber að vísa málinu til nefnarinnar til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar B um umgengni A við dóttur sína, C, er felldur úr gildi og er málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta