Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 30/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 30/2015
Miðvikudaginn 23. mars 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd Reykjavíkur


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 27. október 2015 kærði B hrl., f.h. A, til kærunefndar barnaverndarmála ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur vegna umgengni við son hennar, C.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er fæddur árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X. Faðir drengsins, D, afsalaði sér forsjá drengsins X. Drengurinn hefur verið vistaður utan heimilis hjá frænku sinni, E, og eiginmanni hennar, F, frá X.  Drengurinn er nú í varanlegu fóstri hjá þeim hjónum.

Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur X var umgengni C við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Ákveðið var að umgengni færi fram undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum stað sem ákveðinn væri fyrirfram og í samráði við alla aðila. Kæranda var heimilt að koma með systkini drengsins og stjúpföður í umgengni. Ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur var kærð 3. júní 2015 til kærunefndar barnaverndarmála sem vísaði kærunni frá nefndinni sem of seint fram kominni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með úrskurði 19. ágúst 2015.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur X var tekin fyrir beiðni fósturforeldra barnsins um að umgengni kæranda við drenginn yrði felld niður í eitt ár. Á fundinum var bókað að málið yrði lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur með tillögu um að nefndin úrskurði að kærandi hefði ekki umgengni við drenginn í eitt ár. Málið var lagt fyrir fund barnaverndarnefndarinnar X. Fyrir fundinn lá framangreind tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að umgengni. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi ekki umgengni við móður sína, A, í eitt ár“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Kærandi vísar til þess að við blasi mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem sé verulegt inngrip í réttindi hennar auk þess sem ákvörðunin hafi mjög viðurhlutamikil áhrif á líf sonar hennar. Kærandi krefst þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum hennar og barnsins.

Kærandi vísar enn fremur til þess að tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur um umgengni hafi verið að frumkvæði fósturforeldra drengsins sem séu ekki hlutlausir þar sem kærandi ætli að freista þess að fá forsjá barnsins aftur þegar ár er liðið frá því að hún var svipt forsjá yfir drengnum með dómi. Fósturforeldrar hafi eðlilega tengst barninu tilfinningaböndum og ekki sé hægt að ætlast til að þau gæti hlutleysis gagnvart kæranda í lýsingum sínum á atvikum þegar hagsmunir þeirra fari ekki saman.

Í ljósi þess hversu alvarlegt inngrip í réttindi kæranda hafi falist í hinni kærða ákvörðun og hve viðurhlutamikið það sé að klippa algerlega á öll tengsl móður og sonar í heilt ár, sé með hreinum ólíkindum að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi ekki útvegað barninu talsmann vegna málsins. Telja verði að hér hafi m.a. verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 án þess að nokkur ástæða væri til að fara óvandaðri leið en efni stóðu til. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi hitt drenginn X og þá hafi komið fram að hann vildi hitta kæranda, stjúpföður sinn og systkin sín tvö sem búi hjá kæranda. Hann hafi frekar viljað hitta þau fljótlega en seinna. Þetta sé það eina sem liggi fyrir um aðstöðu drengsins til málsins.

Kærandi telur að ofangreind afstaða drengsins staðfesti að rétt sé að nálgast óróleika hans í tengslum við umgengni með tilliti til raskana og greininga. Augljóst sé að drengurinn þoli illa óvissu og því hefði ef til vill þurft að gefa því meiri gaum að undirbúa hann fyrir umgengni, hvernig og hvar hún yrði og með hversu löngu millibili o.s.frv. Ekkert í málinu bendi til, né staðfesti, að slíkt hafi verið nægjanlega reynt áður en farið var af stað með mál um að svipta drenginn réttinum til að hitta kæranda.

Kærandi mótmælir fullyrðingum sem fram komi í hinum kærða úrskurði og sér í lagi þeim sem byggi eingöngu á fullyrðingum fósturforeldra. Hvað svo sem teljist sannað í málinu megi vel vera að drengurinn hafi verið órólegur í tengslum við umgengni sumarið 2015. Umgengnin hafi þó gengið vel og ekkert sem kærandi hafi gert hafi valdið vanlíðan drengsins. Hafi því verið enn ríkari ástæða til en ella að vinna með barninu og gæta þess að það væri í stakk búið að fara í umgengni án þess að líða illa fyrir eða eftir.

Þá verði að hafa í huga að það rof, sem lagt sé til að verði á tengslum kæranda og sonar hennar, kunni að vera drengnum enn skaðlegra til lengri tíma litið en þau óþægindi sem umgengnin kunni að hafa skapað honum eða fósturforeldrum til skamms tíma.

Kærandi telur að það sé alþekkt með börn sem eigi við kvíða að etja að þeim kunni að vera erfitt fyrst um sinn að laga sig að nýjum eða breyttum aðstæðum. Gildi það jafnt um að þurfa að laga sig að umgengni sem nýlega hafi verið ákveðin mjög stopul, eða nokkrum sinnum á ári. Líklegast sé að jafnvel slíkt fyrirkomulag komist í vana og því hafi verið enn mikilvægara að stíga varlega til jarðar áður en klippt hafi verið á umgengni eins og í hinum kærða úrskurði.

Kærandi telur að engin lagaskilyrði séu fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hún sé efnislega röng og andstæð hagsmunum barnsins. Í öllu falli hafi ekki með neinum hætti verið sýnt fram á að svo sé eða að nauðsynlegt hafi verið að grípa til þessa úrræðis áður en reynt var að vinna með drengnum og undirbúa næstu umgengni með aðstoð sérfræðinga. Telur kærandi úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur því ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarlaga um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. Þá hafi drengnum ekki verið skipaður talsmaður eða tilaga þess efnis borin sérstaklega undir hann. Málið hafi því ekki verið nægjanlega vel unnið til að hægt væri að taka svo viðurhlutamikla ákvörðun um líf drengsins. Því beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Að mati kæranda sé ekkert í málinu sem bendi til annars en að fella eigi úrskurðinn úr gildi og mögulega fela barnaverndarnefnd að taka málið aftur til meðferðar, þyki ástæða til þess.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur X kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

C sé vistaður í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis til átján ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri, jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Í ljósi forsögu málsins, með vísan til allra gagna þess, upplýsinga um líðan drengsins, gengi á fósturheimilinu og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundinum X að mikilvægast væri að skapa C stöðugleika og öryggi. Slíkt væri nauðsynlegt til að hann gæti aðlagast, dafnað og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hann búi við. Niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi verið að það þjónaði hagsmunum drengsins best að hafa ekki umgengni við móður sína í eitt ár á meðan leitast yrði við að koma á stöðugleika og festu á líf hans um leið og hann fengi notið þeirra úrræða sem honum stæðu til boða. Eins og fram komi í bókun nefndarinnar X hafi starfsmönnum verið falið að freista þess að ná samkomulagi við kæranda um að drengurinn gæti átt umgengni við systkini sín fjórum sinnum á ári á tímabilinu í 1-2 klukkustundir. Ekki hafi tekist að fá afstöðu kæranda til þess en það mál sé í vinnslu.

Í ljósi ofangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Sjónarmið fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra BC þann X til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram að það hafi ekki verið léttvæg ákvörðun að óska eftir riftun á þeim umgengnisúrskurði sem fyrir var. Að þeirra mati væru til staðar skýr tengsl milli umgengni drengsins við kæranda og þeirrar vanlíðan og ofbeldis sem hann hafi sýnt vikurnar í kringum umgengni.

Að mati fósturforeldra glími C við gríðarlega mikla tilfinningaröskun sem geri honum erfitt að vinna úr tilfinningum sínum og tjá þær. Vanlíðan hans brjótist því út með miklum ofsa og æstum tilfinningum. Fósturforeldrar töldu skýr merki um þetta eftir umgengnina í X þar sem drengurinn hafi verið meyr og hryggur fyrsta sólarhringinn eftir umgengni. Að hann hafi mótað tilfinningum sínum þennan farveg töldu fósturforeldrar að hafi verið ákveðið skref í rétta átt fyrir hann. Það hafi hins vegar verið líkt og þær væru of miklar fyrir drenginn og hafi ofbeldið og reiðin brotist út af miklum krafti sólarhring síðar og hafi slík hegðun og líðan staðið fram í X.

Fósturforeldrar telja að umgengni fjórum sinnum á ári sé alltof mikil fyrir C þar sem sex vikur í kringum umgengni hafi verið drengnum gríðarlega erfiðar og valdið honum vanlíðan þar sem hann hafi ekki getað tekið þátt í daglegu lífi þennan tíma. Að mati fósturforeldra þurfi drengurinn að fá tækifæri til að ná tökum á tilfinningum sínum með þeirri aðstoð sem sé í boði, sem erfitt hafi verið að nýta vegna þeirra raskana sem verði á lífi hans í kringum umgengni. Þau hafi því óskað eftir að umgengni yrði stöðvuð í eitt ár.

Fósturforeldrar greina frá því að drengurinn hafi átt róstursamt haust vegna fyrirhugaðrar umgengni við kæranda. Ekkert hafi orðið af þeirri umgengni vegna úrskurðar barnaverndarnefndar í X.  Mikið ofbeldi og rótleysi hafi einkennt líf hans heima og í skóla á þessum tíma, svo mikið að skóli drengsins hafi ekki getað mætt þörfum hans. Drengurinn hafi því þurft að sækja annað skólaúrræði í G þar sem hann hafi stundað nám með börnum sem væru á H. Fyrstu tvær vikunnar í X hafi drengurinn tvisvar gripið til ofbeldis heima. Frá þeim tíma hafi jafnvægi og glaðlyndi einkennt drenginn. Fósturforeldrar telja þetta skýr merki um það tilfinningalega rót sem verði á drengnum við umgengni.

V. Afstaða C

Í skýrslu J, talsmanns drengsins, frá X kemur fram að hún hafi hitt hann en þá hafi hann ekkert viljað ræða um kæranda. Hann hafi komið því á framfæri að hann vildi hitta stjúpföður sinn og einnig hafi hann sagst hlakka til að hitta systkini sín.

Í gögnum málsins kemur fram að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi hitt C þann X og hafi  drengurinn þá greint frá því að hann vildi hitta kæranda, stjúpföður og systkini sín. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hitti drenginn X og þegar starfsmaður spurði hvort hann hefði einhverjar spurningar svaraði drengurinn því játandi. Fram kemur í greinargerð starfsmannsins að drengurinn hafi spurt án nokkurrar umhugsunar hvort hann gæti fengið að hitta fjölskyldu sína heima hjá þeim næst en ekki í húsinu sem Barnavernd eigi.  

Fram kemur í greinargerðinni að drengnum hafi ekki verið skipaður talsmaður nú þar sem hann hafi glímt við mikið ójafnvægi undanfarið. Mat starfsmanna hafi verið það að frekari samtöl við drenginn um umgengni við kæranda hefðu ekki góð áhrif á líðan drengsins og væri það á skjön við vinnslu málsins um að reyna að koma á ró hjá drengnum. Skýr afstaða hafi komið fram hjá drengnum þegar starfsmaður hafi hitt hann X að hann vildi hitta kæranda, stjúpföður og systkini á heimili þeirra.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C er fæddur X og er hjá fósturforeldrum sínum, E og eiginmanni hennar, F, í varanlegu fóstri. E er frænka drengsins. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá X var ákveðið að C hefði ekki umgengni við kæranda í eitt ár.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar.

Kærandi, sem er móðir drengsins, krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur gildi. Hún telur að engin lagaskilyrði séu fyrir úrskurðinum, hann sé efnislega rangur og andstæður hagsmunum barnsins. Kærandi telur að málið hafi ekki verið rannsakað í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem C hafi ekki verið skipaður talsmaður til að kanna afstöðu hans í málinu. Einnig telur kærandi að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við meginreglu barnaverndarlaga um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. Þá telur kærandi að rof á umgengni hennar við drenginn geti orðið honum skaðleg til lengri tíma litið.  Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði taldi barnaverndarnefndin að umgengni við kæranda væri til þess fallin að koma drengnum úr jafnvægi með alvarlegum afleiðingum. Það væri því mat barnaverndarnefndarinnar að það þjónaði hagsmunum drengsins best að hafa ekki umgengni við kæranda í eitt ár á meðan leitast yrði við að koma stöðugleika og festu á líf hans um leið og hann fengi notið þeirra úrræða sem honum stæðu til boða.

Í greinargerð félagsráðgjafa X er því lýst að fósturforeldrar telji að drengurinn hafi glímt við mikla vanlíðan í kjölfar umgengni í X. Drengurinn hafi beitt starfsmenn skóla líkamlegu ofbeldi svo á þeim sást og notað ljótt orðbragð í þeirra garð. Hann hafi ekki getað sinnt skóla og höfðu fósturforeldrar þá samband við ráðgjafa sinn hjá H til að koma að málinu með stjórnendum skólans og starfsmanni barnaverndar svo að finna mætti leiðir til að ráða bót á slæmri líðan drengsins. Áætlað hafi verið að greina drenginn m.t.t. einhverfuröskunar í X en það hafi ekki gengið eftir vegna mótþróa drengsins. Þann X hafi barnaverndinni borist tilkynning frá skóla drengsins þar sem fram hafi komið að verulegar áhyggjur væru af líðan drengsins í tengslum við fyrirhugaða umgengni síðar í mánuðinum. Í bréfi fósturforeldra drengsins til kærunefndarinnar X kemur fram að vel hafi gengið með drenginn þegar líða tók á X og fram í X en seinni hluta X hafi farið að bera á ójafnvægi hjá drengnum heima fyrir. Viku fyrir skólabyrjun hafi mótþróinn brotist út aftur í miklu ofbeldi. Í lok X hafi fósturforeldrar óskað eftir því að umgengni við kæranda yrði felld niður í eitt ár.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess hvort þörf sé að skipa barni talsmann. Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana samkvæmt 25., 27. eða 28. gr. Bvl. og áður en sett er fram krafa um sviptingu forsjár samkvæmt 29. bvl. nema barn njóti aðstoðar lögmanns. Almenna reglan er því sú að barnaverndarnefnd metur hvort þörf er á skipun talmanns barni til halds og trausts á meðan meðferð málsins stendur og til að tala máli barnsins. Hin kærða ákvörðun varðar umgengni samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl. og var skipun talsmanns því háð mati barnaverndarnefndar. Afstaða barnaverndarnefndar til skipunar talsmanns voru að frekari samtöl um umgengni við drenginn hefðu ekki góð áhrif á líðan hans og það hafi verið á skjön við þá vinnslu málsins um að verið væri að reyna að koma á ró hjá drengnum. Niðurstaða barnaverndarnefndar hafi því verið sú að drengnum yrði ekki skipaður talsmaður.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla meginreglu barnaverndarstarfs að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir því að barnaverndaryfirvöld leiti eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls. Samkvæmt gögnum málsins hefur ekki verið kannað með afstöðu drengsins til þeirrar ráðstöfunar sem gripið var til með hinum kærða úrskurði og var honum ekki skipaður talsmaður í því skyni að afla afstöðu hans.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl. en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi.

Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða dreng sem er í miklu ójafnvægi. Hann glímir við fjölþættar greiningar og eru uppi miklar áhyggjur um geðræna og andfélagslega hegðun hans. Ekki hefur tekist að greina nákvæmlega í hverju vandi hans liggur. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera ráð fyrir að drengurinn hafi mjög takmarkaðar forsendur til að tjá sig um hagsmuni sína varðandi umgengnina. Með tilliti til þessa verður að telja að ekki hafi verið réttmætt að fá drenginn til að tjá sig sérstaklega að þessu leyti, þar með talið með milligöngu talsmanns, við meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur samkvæmt 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl., sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.  

Í hinum kærða úrskurði er byggt á því að umgengni við kæranda sé það sem valdi vanlíðan drengsins og setji líf hans úr skorðum, bæði fyrir og eftir umgengni. Í málinu liggja fyrir gögn sem staðfesta að drengurinn er í erfiðri stöðu. Samkvæmt sjúkdómsgreiningu H frá X, þar sem óskað var eftir ummönnunarmati fyrir drenginn, kemur fram að tvívegis hafi hann komið í einhverfumat en ekki hafði tekist að prófa hann vegna mótþróa. Fram kemur að á meðan drengurinn hafi verið á H hafi verið metið að allar líkur væru á því að hann væri á einhverfurófi og/eða með mikla hamlandi tengslaröskun. Fram kemur að ekki hafi verið hægt að staðfesta þá greiningu og því verði að prófa hann aftur og þá í öðrum aðstæðum eftir ár eða svo. Í sjúkdómsgreiningu H segir að fósturforeldrar séu í krefjandi hlutverki gagnvart drengnum og að hömlun hans sé metin að jafnaði við fötlun.

Í málinu liggur einnig fyrir tilkynning X frá K til barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Í bréfinu kemur fram að ástæða tilkynningarinnar sé að skólinn vilji koma á framfæri hversu miklar og alvarlegar afleiðingar það hafi þegar kemur að umgengni við kæranda. Fram kemur að drengurinn væri ófær um að sækja skólann og sinna námi, ófær um félagsleg samskipti með öllu, drengurinn rífi sig niður andlega, mótþrói aukist og drengurinn sýni alvarlega ofbeldishegðun á borð við að kýla, klípa og sparka í kennara. Fram kemur að andleg líðan drengsins væri það slæm að hann hefði verið mjög veruleikafirrtur. Þá þyldi drengurinn engar kröfur eða áreiti í kringum umgengni. Í bréfi skólans kom fram að verulega hefði séð á fósturmóður drengsins í byrjun X eftir barsmíðar af hálfu drengsins og vissu starfsmenn skólans til þess að drengurinn hefði verið með morðhótanir í garð fósturforeldra sinna.  

Samkvæmt framangreindum gögnum málsins liggur fyrir að ekki hefur tekist að sjúkdómsgreina drenginn og finna honum viðeigandi úrræði. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála styðja gögn málsins niðurstöðu barnaverndarnefndar Reykjavíkur þess efnis að umgengni við kæranda valdi drengnum andlegu álagi og vanlíðan. Úrskurðarnefndin telur að ekki sé hægt að útiloka að umgengni kæranda við drenginn hafi truflað framkvæmd sjúkdómsgreiningar, en nákvæmari sjúkdómsgreining er forsenda þess að unnt sé að veita honum viðeigandi úrræði og meðferð.

Úrskurðarnefndin telur að með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að hann fái sjúkdómsgreiningu og viðeigandi úrræði án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda honum. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni drengsins. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að ekki hafi verið hjá því komist að kærandi hefði enga umgengni við drenginn í eitt ár frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar X að telja.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur X um umgengni A við son hennar, C, er staðfestur.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta