Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 5/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 5. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 5/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 12. mars 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 3. febrúar 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni B við kæranda tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína A, tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Hljóð- og myndbandsupptökur eru óheimilar í umgengni. Umgengni fari fram í mars og september ár hvert að viðstöddum fósturforeldrum. Símtöl eru óheimil.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að kærunefnd barnaverndarmála ákvarði að hún fái meiri umgengni við stúlkuna.

Af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur er þess krafist að kæru kæranda verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

Af því tilefni var kæranda veittur andmælaréttur og bárust athugasemdir kæranda með tölvupósti 24. apríl 2015. Þar er því mótmælt að kæran sé of seint fram komin.

I. Helstu málavextir

Stúlkan B hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna frá 28. mars 2011. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann X. B er í varanlegu fóstri sem ætlað er að standi til 18 ára aldurs hennar.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur 3. febrúar 2015 vegna umgengni hennar við kæranda. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar 19. janúar 2015 ásamt fylgiskjölum. Þar var lagt til að umgengni kæranda við stúlkuna verði tvisvar á ári undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur í tvær klukkustundir í senn. Kærandi mætti á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum og gerðu þær grein fyrir sjónarmiðum kæranda. Þá mættu fósturforeldrar stúlkunnar einnig á fund nefndarinnar og kom fram að þau voru sátt við tillögu starfsmanna um umgengni.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var úrskurðað í málinu 3. febrúar 2015, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í úrskurðarorði kemur fram að úrskurði megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.

Með tölvupósti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur til lögmanns kæranda 3. febrúar 2015 var lögmaðurinn upplýstur um að fyrir lægi úrskurður í málinu og var lögmaðurinn spurður hvert ætti að senda hann. Þann 4. febrúar 2015 óskaði lögmaðurinn eftir að fá úrskurðarorðið sent í tölvupósti sem læst skjal. Var það gert 6. febrúar 2015 ásamt lykilorði sem sent var með smáskilaboðum. Þá var úrskurðurinn sjálfur sendur lögmanninum 6. febrúar 2015 með tölvupósti síðar sama dag. Þann 9. febrúar 2015 sendi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur lögmanninum tölvupóst þar sem fram kemur að ekki hafi tekist að senda úrskurðinn þar sem innhólf tölvupósts lögmanns virtist fullt. Þann 10. febrúar 2015 var lögmanninum sendur tölvupóstur þar sem fram kemur að reynt hafi verið að ná í lögmanninn. Þann 11. febrúar 2015 var lögmanninum sendur að nýju úrskurður á rafrænu læstu formi og vísað til þess að skjalið væri læst með sama lykilorði og lögmanninum hafi verið sent viku fyrr. Óskaði lögmaður eftir að lykilorð yrði sent aftur með tölvupósti sama dag kl. 15:49 og var það gert kl. 15:51.

Í kæru kæranda 12. mars 2015 kemur fram að þess sé krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að kærunefnd barnaverndarmála ákvarði að kærandi fái meiri umgengni við stúlkuna. Hún hafi falið lögmanni sínum að krefjast þess að hún fái forsjá stúlkunnar og að hún fái stúlkuna í sína umsjá og sé því afar mikilvægt að efla tengslin.

Barnavernd Reykjavíkur telur í athugasemdum til kærunefndarinnar 8. apríl 2015 að ljóst sé að lögmanni kæranda hafi í síðasta lagi 11. febrúar 2015 verið kunnugt um hver niðurstaða nefndarinnar væri. Kæra lögmannsins til kærunefndar barnaverndarmála sé dagsett 12. mars 2015 eða rúmum fjórum vikum eftir að lögmanni kæranda hafi verið niðurstaða nefndarinnar kunn. Með vísan til þessa og í ljósi þess að kærufestur hafi verið liðinn þegar kæra lögmannsins kom fram, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, sé þess krafist að kærunni verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

Í tölvupósti sem lögmaður kæranda sendi kærunefnd barnaverndarmála 24. apríl 2015 kemur fram að barnaverndarstarfsmönnum hafi ítrekað verið gerð grein fyrir því að tölvupóstur lögmannsins hafi verið bilaður á þessum tíma, enda engum gögnum framvísað um móttöku á úrskurði sem hafi verið sendur rafrænt. Lögmaður kæranda krefst þess að barnaverndarnefndin framvísi gögnum til sönnunar á því að kæran hafi verið send of seint.

II. Niðurstaða

Í 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt lagagreininni til kærunefndar barnaverndarmála. Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga kemur fram að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 3. febrúar 2015. Í gögnum málsins kemur fram að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur tilkynnti lögmanni kæranda með tölvupósti sama dag um úrskurðarorð í máli kæranda og spurði hvert hún vildi fá úrskurðarorðin send. Lögmaðurinn svaraði því næsta dag. Af hálfu kæranda er vísað til þess að barnaverndarnefndinni beri að sanna að kæran hafi komið fram of seint. Þar sem kærandi hefur ekki upplýst hvenær hún telur að henni hafi verið tilkynnt um úrskurðinn eða að henni hafi verið kunnugt um hann verður að miða við það sem fyrir liggur í málinu og fram kemur í gögnum þess að tilkynnt hafi verið um úrskurðinn af hálfu barnaverndarnefndarinnar þegar tilkynningin var send lögmanni kæranda 3. febrúar 2015.

Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða samkvæmt 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga 3. febrúar 2015. Hinum kærða úrskurði var af hálfu kæranda skotið til kærunefndar barnaverndarmála 12. mars 2015. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur sem veittur er samkvæmt lagaákvæðinu til að kæra úrskurð barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála. Kæra kæranda telst því of seint fram komin. Með vísan til þess ber að vísa málinu frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Úrskurðarorð

Kæru A vegna dóttur hennar, B, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta