Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 9/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 7. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við börn hennar, B og C, nr. 9/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 26. apríl 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2015, vegna umgengni kæranda við börn hennar, B, og C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði hefur kærandi umgengni við börn sín tvisvar á ári í allt að þrjár klukkustundir undir eftirliti við upphaf og lok umgengni. Þá er kæranda heimilt að hringja í börnin á jóladag og á afmælisdegi barnanna. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, og C, hafi umgengni við móður sína, A, tvisvar á ári í allt að þrjár klukkustundir. Umgengni fari fram þriðju vikuna í mars og september ár hvert. Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni. Móður er heimilt að hringja í börnin á jóladag og á afmælisdag barnanna. Tímasetning símtala skal ákveðin í samráði við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og fósturforeldra.

Kærandi krefst þess að umgengni barnanna við kæranda verði aukin í samræmi við þær kröfur sem hún gerði fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að kæru kæranda verði vísað frá kærunefnd barnarverndarmála sem of seint fram kominni.

Af því tilefni var kæranda veittur andmælaréttur og bárust athugasemdir kæranda með bréfi 27. maí 2015. Þar er því mótmælt að kæran sé of seint fram komin.

I. Helstu málavextir

Drengurinn B og stúlkan C eru tvíburar fædd árið X og eru því X ára. Lúta þau forsjár barnaverndarnefndar Reykjavíkur en foreldrar þeirra, E og kærandi, voru sviptir forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar X. Börnin hafa verið vistuð utan heimilis frá október 2010, fyrst í tímabundnu fóstri en frá 28. maí 2013 í varanlegu fóstri sem ætlað er að standa til 18 ára aldurs þeirra. Fósturforeldrar barnanna eru F og G. Úrskurður um umgengni kæranda við börnin í varanlegu fóstri var kveðinn upp 25. júní 2013 og staðfesti kærunefnd barnaverndarmála þann úrskurð með úrskurði 29. október 2013.

Kærandi óskaði eftir endurskoðun á fyrri úrskurði nefndarinnar um umgengni 13. febrúar 2015, sbr. 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, eins og fram kemur í gögnum málsins. Óskaði hún eftir aukinni umgengni sem fólst í umgengni einu sinni í mánuði á heimili hennar til að byrja með. Þá gerði kærandi kröfu um að símtöl verði leyfð á jólum, afmæli barnanna, á páskadag og nýársdag. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins eru fósturforeldrarnir alfarið á móti svo mikilli umgengni en eru sáttir við að lengja tímann um eina til tvær klukkustundir á þeim dögum sem umgengni hefur verið, þ.e. í mars og september ár hvert. Að þeirra mati myndi aukin umgengni raska ró barnanna og huga þurfti fyrst og fremst að því hvað þeim sé fyrir bestu.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 17. mars 2015. Fyrir fundinum lá tillaga starfsmanna um að umgengni yrði óbreytt frá úrskurði nefndarinnar 25. júní 2013. Mætti kærandi á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum. Lagði lögmaðurinn fram greinargerð 17. mars 2015. Fósturforeldrar mættu einnig á fund nefndarinnar. Kom fram hjá þeim að þeir eru sammála tillögum starfsmanna um óbreytta umgengni. Varðandi símtöl á jólum og afmælum milli móður og barnanna finnst fósturforeldrum sjálfsagt að svo verði áfram. Lögðu fósturforeldrar áherslu á að þetta sé varanlegt fóstur og börnin blómstri í núverandi aðstæðum.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var úrskurðað í málinu 17. mars 2015, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Í úrskurðarorði kemur fram að úrskurði megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.

Með ábyrgðarbréfi starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur 20. mars 2015, með viðtökunúmerið Y, var lögmanni kæranda send bókun nefndarinnar og úrskurðarorð. Úrskurður barnaverndarnefndarinnar var svo sendur lögmanninum með ábyrgðarbréfi 25. mars 2015, með viðtökunúmerið Z. Í gögnum málsins liggur fyrir útprentun af vefsíðu Póstsins, postur.is, þar sem má sjá að fyrra bréfið var móttekið af lögmanninum 25. mars 2015. Þá má sjá að ekki tókst að afhenda lögmanninum síðara ábyrgðarbréfið.

Í kæru kæranda 26. apríl 2015 kemur fram að þess sé krafist að umgengni barnanna við kæranda verði aukin. Áréttað er að kærandi sé að vinna í að fá börnin aftur í sína umsjá og sé því aukin umgengni mikilvægur þáttur í því. Ljóst sé að með úrskurði barnaverndarnefndar sé reynt að útiloka slíkt og sé því andmælt enda ekki í samræmi við barnaverndarlög þar sem gert sé ráð fyrir að unnt sé að endurskoða fósturvistun eftir eitt ár.

Barnavernd Reykjavíkur telur ljóst í greinargerð sinni 19. maí 2015 að lögmanni kæranda hafi verið kunnugt um hver niðurstaða nefndarinnar var 25. mars 2015. Í 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga sé gert ráð fyrir að úrskurði megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. sömu laga geti aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði til kærunefndarinnar innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Kæra kæranda til kærunefndar barnaverndarmála sé dagsett 26. apríl 2015 eða fjórum vikum og fjórum dögum eftir að lögmanni kæranda voru kynnt úrskurðarorð og bókun nefndarinnar. Með vísan til þessa og í ljósi þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra lögmannsins kom fram, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, sé þess krafist að kærunni verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

Með bréfi 20. maí 2015 var greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur send lögmanni kæranda og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi 26. maí 2015 bárust athugasemdir frá lögmanninum og þar er því alfarið mótmælt að frestur hafi verið liðinn þegar kæra hafi verið send. Ekki sé unnt að miða við það þegar úrskurðarorð eru móttekin án forsendna og rökstuðnings. Gerð sé krafa um að miðað verði við hvenær tekið hafi verið við úrskurðinum í heild þannig að unnt sé að átta sig á grundvelli og forsendum úrskurðar og kæra hann með tilliti til forsendna. Ekki sé rétt að ekki hafi tekist að afhenda síðara bréfið og hafi það verið móttekið. Eðlilegt sé að miða við hvenær viðtakandi fái bréfið en ekki hvenær það sé sent. Mótmælt sé að barnaverndarnefnd Reykjavíkur reyni að komast með þessum hætti undan því að úrskurður sé kærður til kærunefndar barnaverndarmála.

Með bréfi 29. maí 2015 voru athugasemdir kæranda við greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur sendar nefndinni til kynningar.

II. Niðurstaða

Í 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt lagagreininni til kærunefndar barnaverndarmála. Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga kemur fram að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Orðalag í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar eru að þessu leyti ekki í samræmi við orðalag 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að skjóta megi úrskurðinum til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn. Samkvæmt orðalagi áðurnefndrar lagagreinar verður að miða við að frestur þessi hefjist þegar viðkomandi hefur verið tilkynnt formlega um úrskurð eða ákvörðun.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 17. mars 2015. Í gögnum málsins eru tvær afhendingarskýrslur útprentaðar af postur.is. Samkvæmt fyrri afhendingarskýrslu, með viðtökunúmerið Y, var fyrra ábyrgðarbréfið móttekið af lögmanni kæranda 25. mars 2015 en bréfinu fylgdi bókun nefndarinnar og úrskurðarorð frá 17. mars 2015. Af þessu er ljóst að lögmanni kæranda var afhent umrætt bréf 25. mars 2015 og þar með tilkynnt um hinn kærða úrskurð.

Kærandi heldur því fram að ekki sé hægt að miða við að kærufrestur byrji að líða við það tímamark er henni var tilkynnt um úrskurðarorðin, heldur verði að miða við það tímamark er henni var afhentur úrskurðurinn sjálfur. Að mati lögmanns kæranda verði að vera unnt að átta sig á grundvelli og forsendum úrskurðar og kæra hann með tilliti til forsendna. Við úrlausn málsins verður samkvæmt  afdráttarlausu orðalagi 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga að miða upphaf kærufrests við það tímamark þegar viðkomandi var tilkynnt um úrskurðinn. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þegar lögmanni kæranda barst fyrrnefnt bréf 25. mars 2015.

Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða 25. mars 2015 en hinum kærða úrskurði var af hálfu kæranda skotið til kærunefndar barnaverndarmála 26. apríl 2015. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur sem veittur er samkvæmt 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga til að kæra úrskurð barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála. Kæra kæranda telst því of seint fram komin. Með vísan til þess ber að vísa málinu frá kærunefnd barnaverndarmála.


Úrskurðarorð

 

Kæru A vegna barna hennar, B og C, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta