Mál nr. 424/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 424/2019
Þriðjudaginn 17. mars 2020
A
gegn
Félagsmálanefnd D
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.
Með kæru, dags. X, kærði B lögmaður, f.h.A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Félagsmálanefndar D frá 5. september 2019 vegna umgengni við dótturson hennar,C.
Heimilt er sveitastjórn að fela félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar samkvæmt 4. mgr. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Í máli þessu gegnir Félagsmálanefnd D störfum barnaverndarnefndar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
C er X ára drengur sem lýtur forsjá Félagsmálanefndar D. Kærandi er móðuramma drengsins.
Mál drengsins á sér langa sögu en það hefur verið í vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá fæðingu hans. Félagsmálanefnd D er fjórða nefndin sem kemur að málefnum drengsins. Drengurinn hefur verið í fóstri hjá föðurömmu, fyrst í tímabundnu fóstri frá árinu X en fóstrið hefur verið varanlegt frá nóvember X í kjölfar þess að móðir drengsins var svipt forsjá hans.
Kærandi hefur átt umgengni með óreglulegum hætti við drenginn frá upphafi vistunar hans utan heimilis. Kærandi hefur farið fram á aukna umgengni sem ekki hefur náðist sátt um slíkt. Kærandi fór fram á að umgengni fari fram mánaðarlega án eftirlits og að drengurinn gisti hjá henni yfir nótt. Tillaga starfsmanna félagsmálanefndar var á þann veg að umgengni fari fram fjórum sinnum á ári, sex klukkustundir í senn.
Félagsmálanefnd D tók málið til úrskurðar á fundi nefndarinnar X. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:
„Umgengni móðurömmu, A, við drenginn skal fara fram fjórum sinnum á ári, sex klukkustundir í senn. Umgengnin skal fara fram fyrsta laugardag í mars, maí, september og desember ár hvert. Umgengni skal fara fram á milli kl: 11:00-17:00.
Eitt símtal er heimilað yfir jólahátíðina og skal nánari útfærsla vera ákveðin í samráði við fósturforeldri og félagsmálanefnd D. Eitt símtal er heimilað þegar barnið á afmæli og skal nánari útfærsla vera ákveðin í samráði við fósturforeldri og félagsmálanefnd D.“
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að úrskurður Félagsmálanefndar D frá 5. september 2019 verði hrundið og breytt á þá leið að umgengni fari fram mánaðarlega án eftirlits og að barnið gisti hjá henni yfir nótt. Einnig krefst kærandi þess að fá að hringja í barnið án eftirlits á milli heimsókna.
Mál þetta varði dótturson kæranda, C. Frá því að hann fæddist hafi kærandi sinnt honum ríkulega og annast hann eftir bestu getu. Kærandi hafi verið boðin og búin til að hlaupa undir bagga með dóttur sinni, móður drengsins, í uppeldinu og öðrum þeim aðstæðum sem hafi þurft að kljást við. Sem dæmi megi nefna, að það hafi verið kærandi sem hafi mætt með drenginn í sérhæfða læknisskoðun hinn X. Þá hafi kærandi jafnframt ábyrgst að dóttursonur hennar mætti í leikskóla á tímabili sérstakrar áætlunar sem hafi verið gerð fyrir drenginn á tímabilinu X til X en kærandi hafi séð um að skutla honum og sækja í lok skóladags. Jafnframt hafi drengurinn margsinnis verið í umsjá kæranda en þangað hafi hann sótt öryggi og festu og hafi hún verið honum afar nærkomin. Kærandi hafi ekki veigrað sér undan þeirri ábyrgð sem á hennar herðar hafi fallið vegna erfiðleika í lífi dóttur hennar. Þvert á móti hafi kærandi lagt sig alla fram til að tryggja velferð og öryggi dóttursonar hennar og sinnt því hlutverki af alúð. Á þessum grundvelli hafi einkar sterk tilfinningatengsl myndast þeirra á milli sem sé afar brýnt að varðveita. Nú þegar hafi orðið talsvert rask á aðstæðum og lífi drengsins og því aðkallandi að hann fái að halda og njóta þeirra tengsla sem á milli þeirra hafi myndast enda þjóni það hagsmunum drengsins. Með því fái hann að halda í tiltekinn stöðugleika í lífi sínu í nánd við þá sem hann þekki í stað þess að upplifa eingöngu umrót og breytingar. Með vísan til framangreinds sé það ósk kæranda að henni verði heimiluð sjálfstæð umgengni við barnið í samræmi við áðurnefnda kröfugerð.
Kærandi hafi alið börn sín upp af myndarskap og eigi sér ekki sögu um óreglu. Hún sé atorkumikil kona sem hafi alla tíð staðið sína plikt og lagt sig alla fram til þess að skapa sér og sínum nánustu gott líf. Hún hafi ætíð verið samvinnufús við starfsmenn barnaverndaryfirvalda og telji mikilvægt að halda áfram góðri samvinnu með það að markmiði að skapa barninu sem bestar uppeldisaðstæður og öryggi. Með hliðsjón af framangreindu hafi kærandi ávallt lagt á það mikla áherslu að samstarf gangi vel með hagsmunum barnsins að leiðarljósi og að barnið upplifi ekki togstreitu eða kvíða vegna erfiðleika í samstarfi.
Kærandi kveðst þaulreynd þegar komi að uppeldi barna enda hafi hún alið fjögur börn, þar af eitt barnabarn. Hún sé því vel í stakk búin til að veita drengnum þá ást, umhyggju og stöðugleika sem honum beri þörf til svo hann megi þroskast og dafna. Óumdeilt sé að frá fæðingu drengsins hafi kærandi verið honum máttarstoð og komið honum í móðurstað vegna erfiðleika dóttur hennar og fjarveru föður drengsins.
- Réttur til umgengni
Kærandi byggi kröfur sínar í málinu á 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. bvl. um rétt barns á umgengni við foreldra sína og þá sem séu nákomnir því. Í 2. mgr. síðastgreinds ákvæðis sé mælt fyrir um rétt kynforeldra og annarra nákominna, svo sem ömmu, til umgengni við barn. Af ákvæðinu og athugasemdum í greinargerð sé ljóst að um sé að ræða gagnkvæman rétt til umgengni, annars vegar foreldra og nákominna ættingja og hins vegar barna sem ráðstafað hafi verið í fóstur til umgengni meðan slík ráðstöfun vari. Í greinargerð komi fram að um eðlilegan rétt að ræða sem leiði af mannréttindum og alþjóðasamningum. Ákvæði 2. mgr. mæli jafnframt svo fyrir að umgengni nákominna við barn þurfi að vera barninu til hagsbóta svo hún verði heimiluð. Í greinargerð þeirri er hafi fylgt frumvarpi að barnaverndarlögum sé tekið fram að umgengni barns við nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir barnið, einkum þegar umgengni kynforeldra sé lítil. Þá sé sérstaklega áréttað að sterk rök þurfi að vera til staðar ef hafna eigi allri umgengni.
Kærandi telji að við úrlausn málsins skuli hafa það að leiðarljósi sem barni sé fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Hagsmunir barnsins og kæranda fari saman en sameiginlegir hagsmunir þeirra lúti að því að umgengni verði tíðari og fari fram með reglubundnum hætti. Kærandi hafni því alfarið að aukin umgengni muni hafa í för með sér rask á högum drengsins og að hún sé ekki fær til að veita drengnum það aðhald sem nauðsynlegt sé. Ekkert sé fram komið til stuðnings slíkum fullyrðingum annað en einhliða frásögn föðurömmu drengsins sem telja verði harla óáreiðanlega með vísan til afskiptasemi hennar á afstöðu drengsins með tilliti til umgengni við kæranda, sbr. ummæli í skýrslu talsmanns.
Þá skuli þess getið að varanlegt fóstur hafi að jafnaði í för með sér mikið tengslarof við kynforeldra. Óumdeilt sé að það sé barni einstaklega mikilvægt að halda tengslum við kynforeldra sína og nánustu fjölskyldu og þá ekki aðeins með tilliti til tilfinningalegra tengsla þeirra á milli heldur einnig svo að barn fái tilfinningu fyrir samfellu í lífi sínu. Úrskurður Félagsmálanefndar D sé til þess fallinn að viðhalda því átakanlega rofi sem nú þegar hafi myndast á tengslum kæranda og drengsins, sem og að höggva enn dýpra skarð í tilfinningatengsl þeirra að óbreyttum umgengnisrétti kæranda samkvæmt úrskurðinum. Með því að rýra umgengnisrétt kæranda með þeim hætti sem gert sé í úrskurði félagsmálanefndar séu blóðtengsl barnsins við upprunafjölskyldu rofin enn frekar en telja verði að slíkt fari í bága við c-lið 1. mgr. 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.
Í 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, sbr. lög nr. 19/2013 sé svo mælt að barn skuli skráð þegar eftir fæðingu og það eigi frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang og eftir því sem unnt sé rétt til að þekkja foreldra sína og umönnunar þeirra. Við túlkun ákvæðisins hafi það sjónarmið verið lagt til grundvallar að það verndi rétt barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Í 8. gr. Fyrrgreinds samnings segi enn fremur að aðildarríki, þ.m.t. Ísland, skuldbindi sig til þess að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkenni það sem einstakling, m.a. fjölskyldutengslum eins og viðurkennt sé með lögum, sbr. áðurnefnt ákvæði 1. mgr. 74. gr. bvl., án ólögmætra afskipta. Réttur kæranda og barnsins, með vísan til framangreinds, sé því ríkur. Það verði að teljast almennt viðurkennt að jákvæð og þroskavænleg tengsl drengsins við kæranda þjóni hans hagsmunum. Umgengni skuli ekki ákvörðuð með þeim hætti að barn fari þess á mis að njóta jákvæðra tengsla og stuðnings frá fjölskyldu, líkt og kæranda, sem komi barni til góða.
Óumdeild og venjumótuð séu þau sjónarmið við ákvörðun um umgengni að leggja beri til grundvallar að móta aðstæður og tengsl sem styðji á besta tiltækan máta við þroska barns. Kærandi telji að framangreind sjónarmið eigi við í máli drengsins. Líkt og áður hafi verið tíundað hafi kærandi reynst drengnum stoð og stytta meðan það hafi verið í forsjá móður sinnar, og því verði kærandi að teljast drengnum nákomin í skilningi 74. gr. bvl. Óvéfengjanlegt sé að sterk tengsl ríki á milli drengsins og kæranda, sbr. ummæli í greinargerðum starfsmanna barnaverndarnefnda og skýrslu talsmanns hans. Í umsjá kæranda hafi drengurinn upplifað öryggi og festu sem hafi orðið grundvöllur þess trausts sem á milli þeirra ríki. Fáir, ef nokkur, hafi reynst drengnum betur eða verið honum meira innan handar en kærandi. Rof þessara tengsla verði að telja barninu skaðlegt sem kunni að leiða til þess að torvelt verði að skapa traust á nýjan leik eða upplifa öryggi annars staðar. Þar af leiðandi sé afar brýnt fyrir drenginn að fá að upplifa samfellu eða framhald á því öryggi og trausti sem mótað hafi verið í sambandi þeirra á milli. Börn sem upplifað hafi tengslarof sem forsjársvipting og fósturráðstöfun hafi í för með sér, hafi stórfellda þörf fyrir að finna festu í lífi sínu en ekki að liðin tíð og skyldmenni geti horfið úr þeirra lífi án fyrirvara. Af öllu framangreindu sé ljóst að það sé drengnum til hagsbóta að fá að umgangast kæranda.
Þá verði einnig að hafa í huga að drengurinn njóti afar lítillrar umgengni við móður sína en samkvæmt ummælum í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga hafi umgengni við nákomna sérstaka þýðingu þegar umgengni við kynforeldra sé lítil. Í tilviki drengsins þá sé umgengni við móður aðeins í nokkra klukkutíma fjórum sinnum á ári. Í ljósi þessa sé auðsætt að sjálfstæð umgengni við kæranda hafi sérstaka þýðingu fyrir drenginn og þroska hans sem samræmist tilgangi fósturráðstöfunar. Kærandi hafi til að mynda litið svo á að það sé hennar hlutverk að viðhalda og rækta tengsl drengsins við móðurfjölskyldu. Í því skyni hafi hún haldið sérstakt afmælisboð í kringum afmæli drengsins og boðið frændsystkinum hans í móðurætt. Kærandi hafi óskað þess að hún fái umgengni í kringum afmæli drengsins ár hvert í þessum tilgangi. Hafi þeirri beiðni verið hafnað í hinum kærða úrskurði án nokkurs rökstuðnings. Kærandi telji það brjóta í bága við réttindi barnsins samkvæmt þeim sjónarmiðum sem hafi verið reifuð og ganga beinlínis í berhögg við tilgang fósturráðstöfunar og lögboðnar skyldur sem hvíli á herðum barnaverndaryfirvalda og fósturforeldra þess efnis að tryggja að barn í fósturráðstöfun þekki uppruna sinn.
- Um næturgistingu
Kærandi geri þá kröfu að drengurinn fái að gista nótt hjá henni þegar umgengni fari fram. Sú afstaða helgist af sömu rökum og getið hafi verið að framan. Þar að auki telji kærandi að lengri tími í umgengni í hvert skipti komi til með að skapa stöðugri og rólegri aðstæður fyrir drenginn í umgengninni þannig að mögulegt rask af völdum hennar verði hverfandi. Í því samhengi beri að geta þess að kærandi hafi alla jafna fengið drenginn til sín í fjórar til sex klukkustundir í senn. Af þeim tíma sem kæranda sé veittur með drengnum fari tvær klukkustundir í ferðalög með strætó milli E og F. Heimsóknir drengsins til kæranda með tilliti til framangreinds séu því oft á tíðum undir áhrifum þessa knappa tíma sem þeim sé veitt og umgengnistíminn því síður til þess fallinn að ró nái að setjast yfir. Lengri tími, og þá sérstaklega með næturgistingu, sé því hentugri til að skapa betri aðstæður fyrir drenginn og kæranda svo þau fái notið samveru hvors annars í ró og næði í stað þreytandi ferðalags og álagi því tengdu.
Þessu til viðbótar hafi drengurinn síendurtekið kvartað undan því við kæranda að hann sé sendur í næturgistingu til G frænku, sem búi í sama hverfi og kærandi, en sé svo meinað að gista hjá ömmu sinni. Drengnum sárni þetta og hafi oft orð á því að fósturforeldri banni honum að gista hjá kæranda. Kærandi telji að engar röksemdir séu því til fyrirstöðu að drengurinn fái að gisti hjá henni enda sé ljóst að fósturforeldri sendi hann í næturgistingu hjá öðrum sem hafi hvoru tveggja minni tengsl og þýðingu fyrir drenginn. Í þessu felist ójafnræði og mismunun sem drengurinn skynji sjálfur og sé farinn að tjá sig um. Þá vísi kærandi jafnframt til þess að í úrskurði Félagsmálanefndar D sé á því byggt að það sé eigi til hagsbóta fyrir drenginn að fá að gista hjá kæranda en það skuli áréttað að þessi niðurstaða nefndarinnar sé á sandi byggð enda engin haldbær rök færð fyrir þeirri niðurstöðu hvað þá rök yfir höfuð.
Enn fremur vilji kærandi árétta það sem hún hafi margoft komið á framfæri við barnaverndaryfirvöld að hún njóti hverfandi umgengni við drenginn í gegnum móður hans. Fullyrðingar þess efnis séu bæði ósannaðar og haldslausar. Í því samhengi megi benda á ummæli drengsins í skýrslu talsmanns þar sem hann segi að flest öll leikföngin hans séu heima hjá kæranda en ekki heima hjá móður sinni enda sé íbúðin hennar lítil. Af þessu sé ljóst að ekki sé hægt að samsama kæranda við móður drengsins.
- Afstaða barnsins
Kærandi bendi á að við ákvörðun á umgengni skipti sköpum að taka ríkt tillit til þroska barna á mismunandi aldursskeiðum. Þannig séu börn sem komin séu á skólaaldur, líkt og drengurinn, betur til þess fallin að ráða við meiri umgengni en yngri börn og ráði þau betur við að vera ekki hjá aðalumönnunaraðila. Börn á aldri drengsins hafi yfir aukinni getu að búa til að tjá sig um hvað þeim líki og mislíki en yngri börn. Það sé ótvíræð meginregla barnaréttar að taka skuli tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til, sbr. 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 2. mgr. 4. gr. bvl., sbr. einnig 2. mgr. 46. gr. bvl. Þá sé þessi grundvallarréttur barns einnig ítrekaður í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segi afdráttarlaust að barni sem fært sé að mynda eigin skoðanir skuli hafa rétt til að láta þær frjálslega í ljós og að réttmætt tillit skuli tekið til skoðana barnsins. Í 2. mgr. 12. gr. samningsins segi að vegna þessa skuli barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varði, annað hvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar á þann hátt sem best samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. Í framangreindum ákvæðum felist virðing fyrir sjónarmiðum barnsins og beri aðilum sem að málefnum barna komi að virða skoðanir barnsins.
Samkvæmt framangreindu hvíli lögskylda á stjórnvöldum að leita eftir afstöðu barns og taka réttmætt tillit til hennar. Í gögnum þessa máls liggi fyrir skýrsla talsmanns varðandi afstöðu drengsins til sjálfstæðrar umgengni við kæranda. Drengurinn sé nú X ára og ráði hann því við aukna ábyrgð í samskiptum og hafi einnig yfir að búa auknum vitsmunaþroska. Hann sé því á þeim aldri þar sem skilningi hans og þroska fleygi fram. Af viðtölum við tilsjónaraðila við barnið sé skýrt að það sé eindreginn vilji hans að umgangast kæranda meira en tíðkast hafi. Einnig komi fram að drengurinn vilji fá að gista hjá kæranda. Þar að auki komi skýrt fram að honum líði vel hjá kæranda. Kærandi byggi á því með vísan til skýrslu talsmanns að fyrir liggi skýr og áreiðanleg afstaða drengsins sem hafi úrslitaþýðingu fyrir úrlausn þessa máls sem byggi á þeim lagarökum sem að framan séu reifuð.
Þá vekji kærandi einnig sérstaka athygli á fyrstu línum í meginefni skýrslu talsmanns drengsins þar sem því sé lýst að í upphafi viðtals hafi drengurinn kveðið á um það að hann vildi ekki hitta kæranda meira og alls ekki gista hjá henni sökum þess að fósturforeldri banni það. Kærandi telji þetta vera skýlaust merki þess að fósturforeldri reyni að hafa áhrif á afstöðu barnsins og hindra umgengni. Drengurinn hafi margoft kvartað undan því við kæranda að fósturforeldri gefi barninu fyrirmæli um hvað hann megi segja kæranda og hvað ekki. Með þessum hætti sé barnið flækt í ágreiningsefni sem sé því óviðkomandi og komi því í uppnám og skapi kvíða. Þessi háttsemi fósturforeldris gangi í berhögg við hagsmuni barnsins og tilgang fósturráðstöfunar. Kærandi telji þessa háttsemi kunna vera tilefni til sérstakrar skoðunar af hálfu barnaverndarnefndar.
- Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga
Kærandi telur það leiða af 1. mgr. 70. gr. bvl., sbr. 1. mgr. 74. gr. sömu laga, að sönnunarbyrði fyrir því að umgengni, þar með talið umfang hennar, samræmist ekki hagsmunum barnsins, hvíli á barnaverndarnefnd og verði að gera ríka kröfu í þeim efnum. Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best fyrir barnið hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þannig sé brýnt að mál sé vel undirbúið og rannsakað í því skyni að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Þannig hvíli á stjórnvöldum, þ.e. félagsmálanefnd í máli þessu, að sjá til þess að málsatvik séu upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Í máli þessu liggi ljóst fyrir að rannsóknarskylda stjórnsýslulaga hafi verið virt að vettugi. Þannig sé engum gögnum til að dreifa eða mat fagaðila sem styðji þær fullyrðingar að aukinn umgengnisréttur kæranda og næturgisting sé til þess fallin að raska högum barnsins. Grundvöllur mats félagsmálanefndar á því hvað sé til hagsbóta fyrir drenginn sé á engum haldbærum rökum byggð en svo virðist sem afstaða nefndarinnar mótist fyrst og fremst af einhliða og staðhæfulausum fullyrðingum fósturforeldris. Þvert á móti gefi gögn þessa máls til kynna að kærandi sé vel í stakk búin til að búa drengnum gott umhverfi í samveru þeirra og stuðla að þroska og velferð hans.
Kærandi telji, með tilliti til rannsóknarreglunnar, að félagsmálanefndinni hafi borið að afla nánari upplýsinga um með hvaða hætti aukin umgengni teldist drengnum ekki til hagsbóta. Ótækt sé að byggja á einhliða frásögn fósturforeldris og leggja hana til grundvallar gegn andmælum kæranda. Hið eina sem hugsanlega gæti rennt stoðum undir mat nefndarinnar sé fullyrðing barnsins er lúti að því að kærandi heimili nammiát og leyfi því að aðhafast ýmislegt. Þessu sé alfarið hafnað af hálfu kæranda og jafnframt bent á að nammiát á samverutíma þeirra í þau örfáu skipti sem samvera þeirra sé heimiluð sé naumast óeðlilegt. Með vísan til framangreinds sé bersýnilegt að rannsóknarregla 10. gr. laga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl., hafi ekki verið virt við meðferð málsins.
Ljóst sé að málatilbúnaður félagsmálanefndar sé haldinn slíkum annmörkum að kærandi hafði enga eða í hið minnsta takmarkaða möguleika á að geta nýtt sér lögmæltan andmælarétt sinn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Líkt og áður hafi verið reifað sé með öllu óljóst á hvaða grundvelli nefndin byggi ákvörðun sína um að aukinn umgengnisréttur kæranda sé eigi til hagsbóta fyrir drenginn. Það sé algjört grundvallaratriði svo að aðili máls, þ.e. kærandi, geti nýtt sér andmælarétt sinn með fullnægjandi hætti að rökstuðningur stjórnvalds sé þannig úr garði gerður að kærandi geti áttað sig á þeim röksemdum, málsástæðum, gögnum og öðru sem á sé byggt og teflt fram réttum og viðeigandi mótbárum. Að þessu virtu liggi fyrir að kæranda hafi verið ófært að nýta sér lögmæltan andmælarétt sinn þar sem hann hafi í reynd með engu móti getað gert sér grein fyrir því á hvaða grundvelli félagsmálanefndin hafi byggt málatilbúnað sinn og sé hinn kærði úrskurður ógildanlegur af þeim sökum.
- Frekari athugasemdir
Í athugasemdum kæranda við greinargerð félagsmálanefndar D er því alfarið hafnað að engir ágallar séu fyrir hendi á hinum kærða úrskurði. Kærandi taki undir það sjónarmið félagsmálanefndar, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl., að réttur foreldra til umgengni sé ríkari en réttur annarra nákominna. Hins vegar hafi aukinn umgengnisréttur við nákomna sérstaka þýðingu í máli þessu í ljósi þess að umgengni við kynforeldra sé takmörkuð. Þá sé jafnframt svo mælt að í framangreindu tilviki þurfi umgengnin að vera barninu til hagsbóta. Ólíkt hinum kærða úrskurði og þeim forsendum sem niðurstaða hans grundvallist á hafi kærandi fært fram margvísleg rök sem styðji málstað hennar og leiði í ljós að aukin umgengni sé barninu til ávinnings. Enda þó að kærandi hallmæli ekki fullyrðingum fósturforeldris um nytsemd hins varanlega fósturs hafi í engu verið leidd í ljós rök er hnígi í þá átt að aukin umgengni sé ekki til hagsbóta fyrir barnið.
Þá skuli jafnframt áréttað að fullyrt hafi verið af hálfu félagsmálanefndar að kærandi njóti að einhverju leyti umgengni í þau örfáu skipti þegar móðir drengsins hafi umgengni. Hins vegar hafi ekkert verið leitt fram er styðji þá fullyrðingu, hvorki haldbær gögn né tilvísun í dagsett tilvik þar sem slíkt á að hafa átt sér stað. Röksemdir nefndarinnar séu þar af leiðandi hvoru tveggja tilhæfulausar og villandi. Með vísan til framangreinds sé auðsætt að andmælaréttur kæranda sé takmarkaður, ef nokkur, enda ómögulegt að gera athugasemdir og leiðrétta röksemdir og sjónarmið sem ekki fáist upplýsingar um.
Þá sé því alfarið hafnað af hálfu kæranda að 4 - 6 klukkustunda umgengni, einu sinni í mánuði, fullnægi þeim áskilnaði 7. – 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, sbr. lög nr. 19/2013, um rétt barns til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn og fjölskyldutengsl, líkt og haldið sé fram af hálfu félagsmálanefndar. Enn fremur sé ekki á það fallist að í kröfu kæranda felist mjög tíð umgengni líkt og staðhæft sé í greinargerð félagsmálanefndar. Þvert á móti sé svo knappur umgengnisréttur, líkt og hann sé nú, fremur til þess fallinn að viðhalda þeim aðskilnaði og sundrun sem hafi myndast á tengslum barnsins við kæranda og móðurfjölskyldu. Aukinn umgengnisréttur, í samræmi við kröfu kæranda, stuðli aftur á móti að þeim markmiðum sem framangreind lagaákvæði mæli fyrir um og leiði til aukinnar kyrrðar og betri aðstæðna fyrir barnið í umgengni við kæranda og móðurfjölskyldu. Þó svo að málið varði umgengnisrétt kæranda við barnið sé engum vafa undirorpið að aukin umgengni við kæranda stuðli að aukinni samveru við móðurfjölskyldu drengsins. Því sé eðlilegt að tilhlýðilegt tillit sé tekið til þess við ákvörðun um umgengnisrétt kæranda.
Varðandi næturgistingu þá sé vísað til þess að slík tilhögun sé til þess fallin að skapa stöðugri og rólegri aðstæður fyrir drenginn. Engar röksemdir eða málefnaleg sjónarmið hafi verið færð fram til að styðja þá fullyrðingu að næturgisting raski fósturráðstöfuninni. Kæranda sé ógerlegt að nýta lögmæltan andmælarétt sinn þar sem engin rök eða sjónarmið séu tíunduð sem móti niðurstöðu félagsmálanefndar sem kærandi geti andmælt. Afstaða drengsins skipti hér höfuðmáli og beri að taka fullt tillit til hennar.
Varðandi afstöðu drengsins skuli þess getið að það komi skýrt og greinilega fram að vilji hans standi til þess að umgangast kæranda meira en hafi tíðkast. Kærandi sé vel í stakk búin til að móta þá umgjörð sem drengurinn þarfnist til að vaxa og dafna með tilliti til öryggis, festu og stöðugleika. Tilvísun til afstöðu drengsins í tengslum við aðstæður hjá kæranda sem skapi óöryggi og óstöðugleika sé alfarið hafnað sem haldbærri röksemd til að synja kæranda um aukinn umgengnisrétt. Á það skuli bent, líkt og fram komi í kæru, að nammiát og aukið frelsi til athafna sé hvoru tveggja sjálfsagt og eðlilegt með hliðsjón af þeim örfáu samverustundum sem þau eigi saman.
Kærandi hafni þeim málatilbúnaði félagsmálanefndar að málið sé fyllilega upplýst og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar með fullnægt. Ljóst sé að málatilbúnaður nefndarinnar byggist í meginatriðum á einhliða og staðhæfulausum fullyrðingum fósturforeldris. Ótækt sé að byggja á einhliða frásögn fósturforeldris og leggja hana til grundvallar gegn andmælum kæranda. Á þeim forsendum sé kæranda ómögulegt að nýta sér lögmæltan andmælarétt sinn með fullnægjandi hætti enda óljóst á hvaða grundvelli nefndin byggi ákvörðun sína. Með vísan til framangreinds hafi andmælaréttur kæranda í reynd ekki verið fyrir hendi.
Í athugasemdum kæranda er vikið að þeim upplýsingum sem fram koma í viðbótargreinargerð Félagsmálanefndar D varðandi umsagna eftirlitsaðila með umgengni móður drengsins á árunum X og X, alls fimm skipti. Líkt og framlögð gögn nefndarinnar beri með sér hafi kærandi notið verulega takmarkaðrar umgengni við drenginn í þau örfáu skipti sem móðir hafi haft drenginn. Kærandi vísar til þess að framangreind fimm skipti áttu sér stað á 20 mánaða tímabili, eða í um það bil 14 klukkustundir í heildina. Það sé óbilgjarnt af hálfu félagsmálanefndar að líta svo á að óbein umgengni kæranda jafngildi einhvers konar rétti sem kærandi njóti. Kærandi hafni því alfarið að sá takmarkaði umgengisréttur sem móðir njóti, og kærandi á ekki beina aðild að, sé lagður að jöfnu við sjálfstæðan rétt kæranda og hafi þau áhrif að sá réttur skerðist.
Kærandi vilji jafnframt vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á fyrirhuguðum búferlaflutningi fósturforeldris til X. Óumdeilt sé að núverandi fósturráðstöfun yrði snögglega og með óundirbúnum hætti rift, verði framangreind ráðagerð fósturforeldris að raunveruleika, áður en settum markmiðum fósturráðstöfunar yrði náð. Fósturrof sem sé í vændum sé til þess fallið að raska verulegum hagsmunum drengsins og grafa undan þeim árangri sem að hafi verið stefnt með ráðstöfun hans í fóstur. Enda þó að sóst hafi verið eftir upplýsingum um téða fyrirætlun föðurömmu, sem líkt og áður hafi verið nefnt, varði mikilfenglega hagsmuni barnsins, hafi engin svör borist af hálfu Félagsmálanefndar D. Sé ráðagerð fósturforeldris raunrétt sé hvoru tveggja eðlilegt og sjálfsagt að kærandi verði upplýst um eins afdrifaríka ákvörðun enda feli hún eðli máls samkvæmt í sér fósturrof. Fáir standi barninu nær en kærandi líkt og reifað hafi verið í gögnum þessa máls og beri hún þann einskæra vilja að fá drenginn í sína umsjá. Stöðugleiki sé óvéfengjanlega veigamikill þáttur í lífi barna og ekki síst þeirra sem hafi áður búið við óviðunandi heimilisaðstæður. Því sé réttmætt að sú krafa sé gerð til félagsmálanefndar, og því beint til hennar, að hlutast til um fyrirætlun fósturforeldris og geri viðeigandi og nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni að kærandi fái drenginn í sínar hendur.
III. Sjónarmið Félagsmálanefndar D
Félagsmálanefnd D krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Félagsmálanefnd telur enga þá ágalla vera á hinum kærða úrskurði sem lýst sé í kæru.
- Réttur til umgengni
Í kæru sé fullyrt að ákvörðun félagsmálanefndar hafi falið í sér verulegt inngrip í réttindi drengsins og feli í sér rof á tengslum kæranda og drengsins sem fari í bága við 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. bvl. sem og c-lið 1. mgr. 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.
Í ákvæðum 70. og 74. gr. bvl. sé kveðið á um réttindi barns í fóstri og umgengnisrétt. Af orðalagi 2. mgr. 74. gr. sé ljóst að réttur foreldra til umgengni sé ríkur en réttur annarra nákominna ekki jafnríkur. Það sé staðfest í greinargerð við 74. gr. laganna en þar segi: „Þegar um aðra nákomna er að ræða er aftur á móti tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi er réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra.“ Í greinargerðinni komi einnig fram að í þeim tilvikum þar sem fóstur sé varanlegt, líkt og í þessu máli, geti hagsmunir barnsins leitt til þess að umgengni verði takmörkuð allverulega.
Það sé meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni sé fyrir bestu, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. bvl. Þannig beri að leysa úr kröfu kæranda með tillit til þess hvað þjóni hagsmunum drengsins best. Umgengni kæranda þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti beri sérstaklega að horfa til þess að tryggja þurfi að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið sé að tryggja honum stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum.
Drengurinn hafi verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldri frá X og fyrir þann tíma í vistun á grundvelli 84. gr. bvl. frá X hjá sama aðila. Aðstæður drengsins hafi einkennst af stöðugleika og reglufestu í þroskavænlegu umhverfi hjá fósturforeldri. Kærandi fari fram á töluverða umgengni við drenginn, í það minnsta mánaðarlega og yfir nótt. Þá fari kærandi fram á að fá að hringja í drenginn án eftirlits fósturforeldris. Fósturforeldri hafi lagst gegn því að kærandi fái frekari umgengni við drenginn og telji að rask á hans venjum geti haft neikvæðar afleiðingar á líðan hans.
Félagsmálanefnd geti fallist á með kæranda að mikilvægt sé að drengurinn þekki uppruna sinn og hafi tilfinningalegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra nákomna. Drengurinn hafi notið umgengni við kæranda og móður sína á þeim grundvelli. Ákvörðun félagsmálanefndar sé þar af leiðandi í fullu samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í 7. og 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem vísað sé til í kæru. Að mati félagsmálanefndar tryggi núverandi fyrirkomulag að þau réttindi séu virt. Það sé hins vegar mat félagsmálanefndar að mjög tíð umgengni sé ekki til þess fallin að auka þau réttindi enn frekar, en geti á hinn bóginn raskað stöðugleika í umhverfi drengsins og haft áhrif á öryggi hans og líðan hjá fósturforeldri. Tilvísun í kæru til c-liðar 1. mgr. 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna eigi ekki við í máli þessu, enda sé í ákvæðinu fjallað um réttindi barns sem sé svipt frjálsræði.
Í kæru komi fram að með umgengni við kæranda sé drengurinn einnig að hafa umgengni við móðurfjölskyldu sína og sé að mati kæranda mikilvægt að drengurinn fái að vera í reglulegum samskiptum við móðurfjölskyldu sína. Bent sé að ákvörðun félagsmálanefndar snúi að umgengni við kæranda en ekki móðurfjölskyldu, þó félagsmálanefnd geri ekki athugasemdir við það að kærandi kjósi að verja umgengninni með móðurfjölskyldunni. Umgengni drengsins við móðurfjölskyldu sína í tengslum við umgengni við kæranda geti því ekki haft áhrif á niðurstöðu máls þessa.
- Um næturgistingu
Hvað varði kröfu kæranda um að drengurinn gisti hjá henni yfir nótt og röksemdir þar að lútandi sé vísað til þess sem áður hafi komið fram. Félagsmálanefnd telji að það fyrirkomulag að umgengni sem nú sé til staðar tryggi réttindi barnsins með sem bestum hætti. Aukin umgengni, þ.m.t. gisting yfir nótt hjá kæranda, sé til þess fallin að auka óöryggi og raska stöðugleika í umhverfi drengsins.
- Afstaða barnsins
Félagsmálanefnd mótmæli því ekki sem fram komi í kæru að mikilvægt sé í barnaverndarmálum að taka tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, í samræmi við aldur þess og þroska. Um réttindi barnsins að þessu leyti sé fjallað í 2. mgr. 46. gr. bvl. Af ákvæðinu leiði að félagsmálanefnd beri að vega og meta það sem fram komi hjá barni, hvernig barnið myndi sér skoðun og láti þá skoðun í ljós, í samræmi við aldur þess og þroska.
Eins og greini í hinum kærða úrskurði hafi félagsmálanefnd aflað afstöðu fósturforeldris til kröfu kæranda. Fósturforeldrið segi að drengurinn þurfi þétt utanumhald og þrífist best þegar rammi sé í kringum hann, hann viti hvað bíði hans og hann þurfi að fara eftir reglum. Drengurinn hafi verið greindur með slæmt ADHD og sé enn í frekara greiningarferli hjá læknum. Drengurinn taki inn þrjár tegundir lyfja á dag sem hann verði að taka á svipuðum tíma kvölds og morgna. Fósturforeldri finni gríðarlegan mun á drengnum eftir að hann taki morgunlyfin, hann verði rólegri og líði á allan hátt betur. Einnig þurfi hann að taka kvöldlyfin á milli klukkan 18 og 19 á kvöldin og fara í rúmið ekki seinna en klukkan 20 þegar skóli sé daginn eftir. Mikilvægt sé að fara eftir þessu skipulagi í umönnun drengsins.
Afstaða barnsins komi fram í skýrslu talsmanns, dags. X. Þó ekki sé dregið í efa að afstaða drengsins sé jákvæð gagnvart umgengni við kæranda þá þurfi félagsmálanefnd að taka ákvarðanir með hagsmuni drengsins í huga. Af skýrslu talsmannsins megi sjá að þau atriði sem helst virðast móta afstöðu drengsins til aukinnar umgengni við kæranda séu sömu atriði og leiði til aukins óöryggis og óstöðugleika í lífi drengsins að mati félagsmálanefndar. Meginástæða þess að drengurinn sækist í frekari umgengni við kæranda virðist vera sú að þar komist hann út úr hinni reglubundnu rútínu hins daglega lífs. Drengurinn lýsi því að hann fái „mikið nammi“ hjá kæranda, hann þurfi ekki að fara eftir neinum reglum og megi gera það sem hann vilji. Fósturforeldri lýsi því að það taki langan tíma að ná drengnum niður eftir heimsóknir til kæranda, drengurinn sýni hroka og fari lítið eftir fyrirmælum.
Grundvallarréttindi drengsins, sem nú sé vistaður í varanlegu fóstri sem eigi að vara til 18 ára aldurs, sé að njóta öryggis og stöðugleika í þeim uppeldisaðstæðum, sbr. m.a. 3. mgr. 4. gr. bvl. Kærandi njóti nú þegar umgengni við drenginn. Því hafi verið gætt að réttindum barnsins og kæranda samkvæmt lagaákvæðinu. Í máli þessu sé hins vegar farið fram á aukna umgengni frá því sem hafi verið. Með hliðsjón af framansögðu sé það mat félagsmálanefndar að drengurinn hafi ekki þörf fyrir breytingu á sínum högum og aukin umgengni sé því ekki honum til hagsbóta.
- Rannsóknarregla og andmælaréttur
Félagsmálanefnd hafnar fullyrðingum kæranda um að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð máls þessa og telur málið fyllilega upplýst. Þau gögn sem hafi legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar séu rakin í fundargerð félagsmálanefndar. Meðal þeirra hafi verið greinargerðir starfsmanna félagsmálanefndar um kröfu kæranda frá í X og X, svarbréf frá deildarstjóra X, greinargerð talsmanns um viðtal við fósturforeldri og drenginn, skýrsla talsmanns um viðtal við drenginn og afstaða aðila, þ. á m. fósturforeldris. Kærandi hafi haft aðgang að öllum þessum gögnum fyrir fyrirtöku málsins. Í gögnunum séu allar þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að taka ákvörðun í málinu.
Rétt sé að taka fram að skipaður talsmaður drengsins, I, sé eftirlitsaðili með umgengni kæranda við drenginn. Hún uppfylli allar hæfniskröfur sem talsmaður, sbr. 30. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd en hún sé ekki starfsmaður félagsmálanefndar né nefndarmaður hennar og hafi ekki hagsmuni af úrlausn barnaverndarmálsins. Afstaða drengsins samkvæmt skýrslu talsmanns birtist í hinum kærða úrskurði. Með því hafi verið tryggt að afstaða drengsins væri nægilega fram komin með þessum hætti.
Af sjálfu sér leiði að hafnað sé að brotið hafi verið gegn andmælareglu en í kæru sé það brot talið felast í því að kæranda hafi verið ókleift að nýta sér andmælarétt vegna meintra brota á rannsóknarreglu.
- Frekari athugasemdir
Í viðbótargreinargerð Félagsmálanefndar D er vísað til þess að í athugasemdum kæranda komi fram að ekkert hafi verið leitt fram er styðji þá fullyrðingu að kærandi njóti umgengni við drenginn á sama tíma og móðir hans njóti umgengnisréttar. Af þessu tilefni sé vakin athygli á umsögnum eftirlitsaðila með umgengni móður drengsins í fimm skipti á árunum X og X. Í umsögnunum komi fram að kærandi njóti umgengni við drenginn í tengslum við umgengnisrétt móður. Telur félagsmálanefnd að þess gögn sanni fyrrgreind samskipti kæranda við drenginn.
Þá sé sett fram af hálfu kæranda ný málsástæða um meina fyrirhugaða búferlaflutninga fósturforeldris drengsins. Af því tilefni taki félagsmálanefnd fram að mál þetta lúti að umgengnisrétti kæranda. Meintar breytingar á núverandi tilhögun fóstursamnings sé sjálfstætt stjórnsýslumál sem kærandi eigi ekki aðild að. Skoðanir og sjónarmið kæranda um slíkar meintar breytingar geti engin áhrif haft á niðurstöðu þessa máls. Þá sé vandséð á hvaða grundvelli sú krafa sé gerð á hendur félagsmálanefnd að „hlutast til um fyrirætlun föðurömmu og gera viðeigandi og nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni að kærandi fái drenginn í sínar hendur.“ Slíkar kröfur og sjónarmið eigi ekki erindi inn í þetta mál. Úrskurðarnefnd beri alfarið að líta fram hjá meintum búferlaflutningum fósturforeldris og skoðunum kæranda á þeim í úrskurði sínum um umgengnisrétt kæranda.
IV. Sjónarmið fósturforeldris
Í tölvupósti fósturmóður til úrskurðarnefndarinnar X kemur fram að það sé afstaða hennar að umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári sé yfirdrifið nóg. Hún telji drenginn ekki hafa gott af því að umgangast kæranda of mikið. Hann komi alltaf hrokafullur til baka þannig að það taki hana tvo til þrjá daga að ná honum niður aftur. Þá segir hún kæranda tala sérstaklega illa um föðurfólk drengsins. Þá telji fósturmóður að drengnum líði ekkert mjög vel hjá kæranda.
V. Sjónarmið drengsins
Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins X. Þar kemur fram að í fyrstu hafi drengurinn sagst ekki vilja hitta kæranda meira en hann geri og alls ekki gista hjá henni. Hann hafi ekki viljað það vegna þess að fósturforeldri leyfi honum ekki að gista hjá kæranda. Talsmaður hafi þá spurt drenginn hvað hann vilji sjálfur en þá hafi komið fram hjá honum að hann vilji vera meira hjá kæranda og einnig gista hjá henni. Hann sé spenntastur fyrir að komast í allt dótið sem hann eigi hjá kæranda og langi að fara til hennar til að leika sér oftar með dótið sem sé hjá henni. Þá fái hann mikið nammi hjá kæranda og gott að borða. Hann segi kæranda mjög skemmtilega og að hann þurfi ekki að fara eftir neinum reglum hjá henni og megi gera flest sem hann vilji gera.
VI. Niðurstaða
C er fæddur árið X. Hann hefur verið í fóstri hjá föðurömmu frá X, fyrst í tímabundnu fóstri en síðan í varanlegu fóstri frá X. Kærandi er móðuramma drengsins. Drengurinn hefur átt umgengni við móðurömmu með óreglulegum hætti frá upphafi vistunar utan heimilis.
Með hinum kærða úrskurði frá 5. september 2019 var kröfu kæranda um aukna umgengni við drenginn hafnað, en kærandi krefst þess að umgengni verði mánaðarlega án eftirlits og að drengurinn fái að gista hjá henni yfir nótt. Einnig að hún megi hringja í drenginn án eftirlits á milli heimsókna. Með úrskurðinum var ákveðið að umgengni kæranda við drenginn yrði fjórum sinnum á ári, sex klukkustundir í senn. Umgengni fari fram fyrsta laugardag í mars, maí, september og desember ár hvert, milli klukkan 11:00 til 17:00. Eitt símtal sé heimilað yfir jólahátíðina og annað símtal á afmæli drengsins en nánari útfærsla skal vera ákveðin í samráði við fósturforeldri og Félagsmálanefnd D.
Kærandi geri athugasemdir við málsmeðferð barnaverndar. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð máls þess, sem og andmælareglu stjórnsýslulaga vegna meintra brota á rannsóknarreglu. Félagsmálanefnd hafnar þessum fullyrðingum kæranda og telur málið fyllilega upplýst.
Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Samkvæmt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því. Þá er andmælareglu að finna í 1. mgr. 47. gr. bvl. þar sem fram kemur að aðilar barnaverndarmáls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð.
Í málinu liggja fyrir greinargerðir starfsmanna félagsmálanefndar um kröfu kæranda, bréf frá deildarstjóra X, greinargerð talsmanns um viðtal við fósturforeldri og drenginn. Þá liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða drengsins til aukinnar umgengni áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að félagsmálanefndin hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins en í því felst að það er mat úrskurðarnefndarinnar að félagsmálanefnd hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt. Ekki er fallist á að andmælaréttur kæranda hafi verið brotin við meðferð málsins.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt.
Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Samkvæmt því sem þarna kemur fram skal barn í fóstri, kynforeldrar þess og aðrir nákomnir eiga rétt á umgengni, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Þegar barnaverndarnefnd telur að umgengni barns við foreldra þess sé andstæð hag þess og þörfum þurfa að vera til staðar sérstök atvik sem valda því.
Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla á meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu ber barnaverndaryfirvöldum að leita eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.
Drengnum var skipaður talsmaður í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu hans til aukinnar umgengni, sbr. 3. mgr. 46. gr. bvl., en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Í skýrslu talsmanns, dags. X, kemur meðal annars fram að drengurinn vilji hitta kæranda oftar og gista hjá henni.
Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnanna, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.
Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við drenginn, verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir drengsins og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta frekari umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni drengsins við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári, sex klukkustundir í senn. Kærandi heldur því fram að núverandi fyrirkomulag sé til þess fallið að viðhalda átakanlegu rofi sem nú þegar hafi myndast á tengslum kæranda og drengsins. Hins vegar er það mat Félagsmálanefndar D að núverandi fyrirkomulag tryggi að réttindi þeirra sem í hlut eiga séu virt. Mjög tíð umgengni verði ekki til þess fallin að auka réttindi frekar heldur geti raskað stöðugleika í umhverfi drengsins og áhrif á öryggi og líðan hans hjá fósturforeldri.
Eins og vikið er hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins eru þeir að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái áfram svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að drengnum líði vel og ekkert bendi til þess að hann hafi þörf fyrir breytingar. Er einnig til þess að líta að fósturmóðir drengsins hefur skýrt frá því að drengurinn sé erfiður þegar hann kemur úr umgengni og nokkra daga að jafna sig. Þá telji hún að umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári sé yfirdrifið nóg.
Úrskurðarnefnd telur með hliðsjón af veikindum drengsins sem hefur verið greindur með alvarlegt ADHD sem almennt hefur í för með sér óstöðugleika, hvatvísi og annan vanda, sé hann ekki í stakk búinn að meta hvernig umgengni skuli best háttað við kæranda. Taka verður líka mið af því að drengurinn er að nálgast mjög erfiðan aldur þar sem reynir ennþá meira á reglusemi og staðfestu í uppeldi hans. Með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna að styrkja tengsl þeirra frekar heldur viðhalda og hlúa að þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að mat fullorðinna liggi til grundvallar því hvað verði talið drengnum fyrir bestu varðandi umgengni við kæranda og hvernig lögbundnir hagsmunir hans verði best tryggðir.
Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró drengsins verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hann nái að þroskast og dafna sem best.
Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Félagsmálanefndar D.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Félagsmálanefndar D frá 5. september 2019 varðandi umgengni C við A, er staðfestur.
Kári Gunndórsson
Björn Jóhannesson Helgi Viborg