Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 588/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 588/2022

Föstudaginn 26. maí 2023

A
gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 13. desember 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð D frá 16. nóvember 2022 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul. Kærandi er móðir stúlkunnar og fór, ásamt föður, með forsjá hennar. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá 28. febrúar 2021.

Mál stúlkunnar vegna umgengni við kæranda á tímabili vistunar var tekið fyrir á fundi B 16. nóvember 2022. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„A fær umgengni við D, í eina klukkustund aðra vikuna í desember 2022 og svo eftir það, annan hvern mánuð í eina klukkustund í senn. Umgengni fer fram í Ráðhúsinu í E undir eftirliti barnaverndar/félagsþjónustu. Nánari tímasetning á umgengni verður fundin í samráði við móður. Móðurömmu stúlkunnar, F, er frjálst að vera viðstödd umgengni. Túlkur skal vera viðstaddur umgengni til þess að tryggja viðeigandi samskipti móður við stúlkuna. Fósturforeldrar verða viðstaddir umgengni ef D, kýs það. Úrskurður þessi er með þeim fyrirvara að stúlkan verður ekki þvinguð til umgengni við móður sína.

Úrskurður þessi gildir þar til dómur í máli E-333/2022 í Héraðsdómi G verður kveðinn upp.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. desember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2022, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst með bréfi, dags. 6. janúar 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2023 var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Dómsátt var gerð í máli E-333/2022 þar sem kærandi afsalaði sér forsjá stúlkunnar þann 10. mars 2023, auk þess sem gert var samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna sama dag. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði B verði hrundið og úrskurðað að umgengni verði aukin á eftirfarandi hátt:

•          Umgengni verði eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði

•          Umgengni verði í 1,5 klst.

Að öðru leyti vísar kærandi til þeirra sjónarmiða er fram koma í greinargerð lögmanns kæranda, dags. 15. nóvember 2022, til B, en þau byggi meðal annars á meginreglu barnaréttar um að gera skuli það sem sé barni fyrir bestu.

Í greinargerð lögmanns kæranda, dags. 15. nóvember 2022, til B kemur meðal annars fram að kærandi vilji gera allt hvað hún geti til að stuðla að því að dóttir hennar sé tilbúin í umgengni. Hún sé því tilbúin að láta umgengnina stjórnast af því hvað henti stúlkunni, þ.e. hvort hún vilji hafa fósturforeldra með í umgengni, hvort hún vilji hitta ömmu sína og frænkur á sama tíma og hvort hún vilji vera með systur sinni í umgengni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) á kærandi rétt á umgengni við dóttur sína á meðan hún er í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum dóttur hennar. Tillögur barnaverndar virðist einkum byggja á því að horfa beri til vilja dóttur kæranda þegar kemur að ákvörðunum um umgengni. Tillögur barnaverndar hljóða upp á afar takmarkaða umgengi við D og ljóst er að um er að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun. Að sjálfsögðu beri að virða vilja stúlkunnar en það geti ekki verið eina sjónarmiðið sem fái að ráða för við jafn íþyngjandi ákvörðun og um sé að ræða.

Kærandi bendir á að 6. janúar 2022 hafi verið gerður samningur um umgengni sem hafi hljóðað upp á vikulega umgengi, fyrst í eina og hálfa klukkustund í senn, auk þess sem samningurinn gerði ráð fyrir því að umgengnistími lengdist á samningstímanum þannig að hann yrði orðinn þrjár og hálf klukkustund undir lok samningstímans. Þrátt fyrir efni samningsins um ríkulega umgengni hitti kærandi dóttur sína einungis einu sinni á samningstímanum. Síðan samningstíma lauk í mars 2022 hafi kærandi einungis hitt D einu sinni.

Gögn málsins beri ekki með sér að það sé mat barnaverndar að umgengni við móður sé bersýnilega andstæð hagsmunum dóttur hennar líkt og 1. mgr. 74. gr. gerir ráð fyrir, heldur sé einungis byggt á því að ekki sé hægt að fara gegn vilja barnsins. Samningurinn frá 6. janúar 2022 sé til marks um að afstaða barnaverndar sé ekki sú að umgengni sé andstæð hagsmunum dóttur kæranda.

Kærandi bendir á að fram komi í gögnum málsins að umgengni sem fram fór í desember 2021 hafi gengið vel. Kærandi telji ljóst að ekkert í gögnum málsins beri með sér að síðan þá hafi hún nokkuð gert til að verðskulda að umgengni verði takmörkuð með enn frekari hætti. Ítrekað sé að það eina sem ráðið hafi för sé yfirlýstur vilji dóttur hennar. Kærandi telji að eftir því sem lengri tími líður án þess að fullnægjandi fyrirkomulag sé á umgengni og dóttir hennar hittir móður sína lítið sem ekkert, því líklegra sé að tengsl þeirra á milli rofni og að stúlkan verði enn forhertari í afstöðu sinni gegn móður.

Ábyrgð barnaverndar til að hvetja dóttir kæranda með uppbyggjandi hætti til umgengni við kæranda sé mikil og telur kærandi alveg ljóst af gögnum málsins að þessu hafi barnavernd ekki sinnt sem skyldi.

Því sé ekki haldið fram að ábyrgð kæranda á stöðu mála sé engin en aðilar barnaverndarmáls verði þó að fá tækifæri til að bæta úr ráði sínu. Það telji kærandi sig hafa gert, enda sé hún ekki lengur í sambandi við föður dóttur sinnar sem kærandi telji að hafi verið ein helsta orsök þess að dóttir hennar hafi verið vistuð utan heimilis og vísast meðal annars til niðurstöðu forsjárhæfnismats frá 2017 hvað þetta varðar. Þá sé kærandi komin í góða vinnu, hafi verið hjá sálfræðingi og mál hennar horfi til betri vegar.

Það geti ekki talist eðlilegar lyktir barnaverndarmáls að barn sem sé X ára gamalt sé tekið úr umsjá foreldra, því komið í fóstur og svo sé í framhaldinu einungis horft til vilja barnsins en ekki réttinda foreldra. Tilgangur þess að senda börn í tímabundið fóstur sé enda ekki að koma börnunum þar varanlega fyrir, heldur sé tilgangurinn sá að veita foreldrum tækifæri til þess að bæta aðstæður. Það að börnunum líði vel í tímabundnu fóstri eigi ekki að leiða til þess að þau endi þar í varanlegu fóstri. Nauðsynlegt sé að börn fái tækifæri til að sjá að foreldrar þeirra hafi vilja og getu til að taka aftur á móti þeim.

Í þessu sambandi komi kærandi því á framfæri að dóttir sín hafi sagt sér að fulltrúar barnaverndar hafi lofað henni að hún muni ekki snúa aftur til móður sinnar. Rétt sé að gera alvarlega athugasemd við þetta. Þá hafi kærandi einnig eftir dóttur sinni að henni finnist erfitt að hitta móður sína vegna þess að ef þær hittist of mikið þá fari stúlkan að sakna móður sinnar. Kærandi telji þetta vera til marks um að samband þeirra sé betra en ætla má af yfirlýstri afstöðu barnsins og að þær eigi sannarlega möguleika á því að rækta sambandið ef þeim gefst tækifæri til þess.

Það sé einlægur vilji kæranda að fá dóttir sína aftur í sína umsjá og telur hún að fyrirsjáanleg niðurstaða forsjársviptingarmáls sem rekið sé fyrir héraðsdómi verði sér í hag. Tillögur barnaverndar beri það með sér að barnavernd hafi gefist upp á því að sinna hlutverki sínu að tryggja umgengnisrétt kæranda við dóttur sína, sbr. 74. gr. bvl.

Kærandi telji að með því að vista dóttur sína svo lengi sem raun ber vitni á sama fósturheimili þar sem hún virðist vera ánægð og á sama tíma sé umgengnisréttur kæranda virtur að engu þá hafi óhjákvæmilega skapast þær breyttu aðstæður sem stúlkan hafi orðið of vön. Þá hafi hún jafnframt verið vanin á það að það sé í góðu lagi að neita að hitta móður sína og barnavernd geri engan reka að því að stuðla að umgengninni. Endurtekið sé að tilgangur þess að senda börn í tímabundið fóstur sé að veita foreldrum tækifæri til að bæta aðstæður en það sem átt hefur sér stað í máli kæranda sé að börn hennar hafa verið tekin af henni, henni hefur verið meinað að hitta þau og því virðast bættar aðstæður kæranda engu máli skipta varðandi rétt hennar til að njóta umgengni við þau. Dóttir kæranda sé ung og þó að horfa beri til vilja hennar sé ekki þar með sagt að hugmyndir hennar um umfang umgengni þurfi að vera þær sem lagðar séu til grundvallar. Afmarka megi af gögnum málsins að hún sé sannarlega viljug til umgengni, þ.e. 2- 4 sinnum á ári. Telur kærandi þetta vera til marks um að hún vilji sannarlega njóta umgengni við sig. Eðlilegra sé að umfangið verði þó til samræmis við tillögur kæranda.

Ítrekað sé að ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að það sé andstætt hagsmunum dóttur kæranda að njóta við hana umgengni. Barnavernd hljóti að geta stuðlað að því með uppbyggilegum bætti að dóttir kæranda sé send í umgengni við kæranda og það sé gert eins varlega og mögulegt er, til dæmis með fósturforeldra viðstadda ef það sé vilji barnsins. Kærandi telji að það sé nauðsynlegt að dóttir hennar sé vanin á að njóta samvista við hana, þrátt fyrir að hún segist ekki vera tilbúin til þess núna, enda sé óforsvaranlegt að vilji hennar sé einn látinn verða valdur þess að hún missi alfarið tengsl við móður sína og réttur móður til umgengni sé að engu virtur.

Loks sé vísað til 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. bvl. um að leitast skuli við að má markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Þá sé vísað til meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. hvað það varðar að ekki sé úrskurðað að ósekju um svo verulega takmarkaða umgengni einungis vegna yfirlýst vilja barns, enda sé slík ákvörðun afar íþyngjandi og eðlilegra sé að leggja kröfur kæranda til grundvallar.

Kærandi ítrekar að staða hennar sé betri en áður. Hún sé ekki lengur í sambandi við föður dætra sinna þó að þau séu ekki enn skilin. Þá sé kærandi komin í góða vinnu, hún hafi verið hjá sálfræðingi og horfa aðstæður hennar til betri vegar svo að hún sé enn betur búin undir það að sinna þörfum dætra sinna en áður.

Kærandi fellir sig ekki við forsjárhæfnismat H, dags. 28. mars 2022, enda hafi hún verið óánægð með vinnslu matsins og talið sér því að endingu ekki fært að vera til samráðs vegna vinnslu þess. Þá telji kærandi það óhjákvæmilega hafa komið niður á matinu að á matstímanum naut kærandi svo gott sem engrar umgengni. Telur kærandi ótækt að horfa til matsins. Kærandi bendir þó á að annað forsjárhæfnismat sé nú í vinnslu i tengslum við forsjársviptingarmál það sem rekið sé fyrir héraðsdómi. Hún hafi hitt matsaðila og hefur það að hennar sögn gengið vel. Telur hún fyrirsjáanlegt að niðurstöður matsins verði sér hagstæðar. Í öllu falli telur kærandi ljóst að engar forsendur séu fyrir því að fallast á jafn takmarkaða umgengni og lagt er upp með á þessum tímapunkti, þ.e. þegar ekkert liggur fyrir um niðurstöðu þess mats og niðurstöðu dómsmálsins. Mikilvægt sé að kærandi njóti ríkulegrar umgengni svo að hún missi ekki tengslin við dætur sínar á meðan málið sé rekið fyrir dómi.

III.  Sjónarmið B

B krefst þess að kröfugerð kæranda verði hafnað þannig að hinn kærði úrskurður um umgengni frá 16. nóvember 2022 verði staðfestur.

Í 51. gr. bvl. sé fjallað um málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála. Heimild nefndarinnar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði bvl. nái því einungis til þess að staðfesta eða hrinda úrskurði barnaverndarnefndar, eða að vísa máli aftur til efnislegrar meðferðar. Úrskurðarnefndin geti því ekki tekið aðra efnisákvörðun í málum sem til hennar sé skotið. B telji því að það beri að synja kröfu kæranda um að hinum kærða úrskurði verði breytt og umgengni kæranda aukin.

Varðandi forsögu málsins sé vísað til allra framlagðra gagna málsins, sérstaklega sé vísað til málavaxtalýsingar í greinargerðum starfsmanna barnaverndar og héraðsdómsstefnu sem séu meðfylgjandi greinargerð þessari. Þá sé einnig vísað til forsendna í hinum kærða úrskurði frá 16. nóvember 2022.

B tók ákvörðun um tilhögun umgengni kæranda við dóttur sína með úrskurði á fundi nefndarinnar þann 16. nóvember 2022 samkvæmt 74. gr. bvl., enda hafði ekki náðst samkomulag við kæranda um fyrirkomulag umgengni við stúlkuna sem sé vistuð utan heimilis.  Úrskurðað hafi verið um að kærandi fengi umgengni við stúlkuna í eina klukkustund aðra vikuna í desember 2022 og svo eftir það annan hvorn mánuð í eina klukkustund í senn. Umgengni færi fram í Ráðhúsinu í E undir eftirliti barnaverndar/ félagsþjónustu. Nánari tímasetning á umgengni yrði fundin í samráði við kæranda. Móðurömmu stúlkunnar sé samkvæmt úrskurðinum frjálst að vera viðstödd umgengni. Túlkur á að vera viðstaddur umgengni til þess að tryggja viðeigandi samskipti kæranda við stúlkuna. Úrskurðinum er ætlað að gilda þar til dómur í máli E-333/2022 í Héraðsdómi G verður kveðinn upp, en B hefur höfðað mál gegn kæranda og föður stúlkunnar og gert kröfu um að þau verði svipt forsjá stúlkunnar til frambúðar með vísan til a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Úrskurður B hafi tekið mið af því sem væri barninu fyrir bestu og hafi tekið mið af þörfum þess og hagmunum, sbr. 4. gr. og 74. gr. bvl. Í hinum kærða úrskurði komi fram að málefni stúlkunnar hafi verið til meðferðar frá því að stúlkan var tæplega eins árs vegna vanrækslu foreldra, aðbúnaðar á heimili og meints ofbeldis kæranda gagnvart stúlkunni. Á vegum Barnaverndar I þar sem málefni fjölskyldunnar hafi fyrst verið í vinnslu, fóru stúlkan og yngri systir hennar ásamt kæranda meðal annars í úrræði á Vistheimili barna en lítill eða enginn árangur virtist hafa náðst með að bæta samskipti kæranda gagnvart stúlkunum. Málinu hafi verið lokað hjá Barnavernd I þegar fjölskyldan flutti til E árið 2018. Vinnsla barnaverndarmálsins hjá B hófst í október 2019 í kjölfar tilkynningar til barnaverndar frá grunnskóla stúlkunnar. Frá því að málefni stúlkunnar voru tekin til vinnslu hjá Barnavernd I og nú hjá B hafi stúlkan, ásamt systur sinni, ítrekað verið vistuð utan heimilis. Á meðan á vinnslu barnaverndar hafi staðið hafi kærandi oft dvalið erlendis svo vikum og mánuðum skipti þar sem síma- og netsamband virðist hafa verið slitrótt. Fjölskyldunni hafi verið veittur ýmis konar stuðningur til að bæta aðstæður stúlkunnar á heimili, bæta samskipti kæranda við stúlkuna með það að markmiði að gera uppeldisskilyrði stúlkunnar hjá kæranda viðunandi, en án árangurs að mati B.

Frá því að málefni stúlkunnar komu til meðferðar hjá B hefur stúlkan ítrekað verið vistuð utan heimilis, fyrst þann 3. október 2019 með samþykki foreldra stúlkunnar. Þegar til loka þeirra vistunar kom neitaði stúlkan að fara heim með foreldrum sínum og greindi starfsmönnum barnaverndar frá ofbeldi kæranda á hendur henni. Vistunin hafi þá verið framlengd um mánuð. Farið hafi verið inn á heimili fjölskyldunnar og hafi ástandið verið mjög slæmt eins og nánar komi fram í gögnum málsins. Foreldrum hafi verið veitt aðstoð við að koma húsnæðinu í íbúðarhæft ástand. Ákveðið hafi verið að fram færi könnunarviðtal við stúlkuna í Barnahúsi vegna ásakana systur hennar um ofbeldi kæranda gagnvart sér og systur hennar. Í kjölfarið hafi verið farið fram á lögreglurannsókn vegna líkamlegs og andlegs ofbeldis kæranda gagnvart stúlkunni og systur hennar. Vistun stúlkunnar og systur hennar var í kjölfarið framlengd til 2. desember 2019.

Þann 2. desember 2019 hafi verið gerð áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr bvl. og fór stúlkan aftur í umsjá kæranda og föður. Þar hafi verið lagt upp með að styðja við og styrkja kæranda í uppeldisaðferðum gagnvart dætrum sínum og styðja við heimilið. Kæranda hafi verið veitt uppeldisráðgjöf og aðstoð við rekstur heimilisins. Kæranda hafi einnig verið veitt fjárhagsleg aðstoð til að tryggja aðgengi hennar að geðlækni/sálfræðingi og stúlkunni verið úthlutuð stuðningsfjölskylda sem hún heimsótti einu sinni til tvisvar í mánuði. 

Þann 18. júní 2020 hafi verið gerð ný áætlun sem fól meðal annars í sér að stúlkan færi til stuðningsfjölskyldu alla laugardaga og vikulegur stuðningur hafi verið inni á heimili af hálfu barnaverndar. Þann 1. nóvember 2020 hafi verið gerð ný áætlun um meðferð máls hjá barnavernd og ákveðið hafi verið að veita áframhaldandi stuðning inni á heimili og að stúlkan færi til stuðningsaðila frá föstudegi til sunnudags aðra hvora helgi. Á þessum tíma hafi stúlkan verið farin að sækja í að vera áfram hjá stuðningsfjölskyldu eftir stuðningshelgar og vildi ekki fara heim til kæranda að þeim loknum. Stúlkan hafi verið í stuðningi á aðfangadag en foreldar komu ekki að sækja stúlkuna líkt og lagt hefði verið upp með. Stúlkan varði því aðfangadegi og hluta af jóladegi með stuðningsfjölskyldu sinni. Samkvæmt kæranda hafði hún verið að kaupa bíl á aðfangadag í I og af þeim sökum hafi hún ekki getað sótt stúlkuna og systur hennar.

Þann 30. desember 2020 tilkynnti faðir stúlkunnar kæranda til barnaverndar vegna hótana hennar um að klippa hár stúlkunnar þegar stúlkan svæfi. Þá barst tilkynning til barnaverndar frá skóla stúlkunnar um að stúlkan hafi greint frá því að kærandi væri ekki góð við sig.  Samskiptin á heimilinu virtust áfram óviðunandi í byrjun árs 2021 og eftir tilkynningu til barnaverndar þann 27. febrúar 2021 hafi báðar stúlkurnar verið vistaðar utan heimilis frá 28. febrúar 2021 og hafi vistunin verið með samþykki foreldra fram til þess að kveðinn var upp úrskurður um vistun þann 24. maí 2022.

Á þeim tíma sem vistun hafi varað voru gerðar fjölmargar áætlanir með það að markmiði að stuðla að bættum samskiptum kæranda við dætur sínar. Stuðningurinn fólst meðal annars í því að fylgjast með líðan og stöðu stúlkunnar, kæranda og stúlkunni hafi verið útveguð viðtöl hjá fagaðilum til að vinna með líðan og tilfinningar sínar og til að vinna að bættum samskiptum sín á milli. Einnig hafi verið séð til þess að umgengni við foreldra væri regluleg og unnið hafi verið markvisst að því að stúlkan gæti snúið aftur í umsjá foreldra.

Frá júní 2021 hafi verið ákveðið að umgengni væri aðra hvora helgi frá föstudegi til mánudags. Umgengnin gekk erfiðlega vegna hegðunar kæranda í garð stúlkunnar og ekki hafi verið hægt að framfylgja umgengninni af þeim sökum. Í júní 2021 mátti sjá að samskipti stúlkunnar við kæranda ollu henni verulegri vanlíðan. Kærandi hringdi í stúlkuna á hverjum degi til þess að reyna að fá stúlkuna til að koma til sín og með sér í ferð erlendis. Stúlkan tjáði meðferðaraðila að hún væri ekki tilbúin að fara til útlanda með kæranda. Í umgengni 27. júlí 2021 gekk kærandi á stúlkuna um að koma með sér til útlanda og grætti stúlkuna með þeirri sögu að amma hennar væri komin með krabbamein og myndi deyja í september. Þann 20. júlí 2021 mætti kærandi óboðin inn á heimili vistfjölskyldu og olli þar uppnámi. Stúlkan fann til mikils ótta og kvíða gagnvart kæranda í kjölfarið, hún upplifði mikla vanlíðan og fékk meðal annars martraðir í kjölfarið. Kærandi fór til útlanda í lok júlí 2021 og dvaldi erlendis þar til rétt fyrir jólin 2021. Þann 21. desember 2021 fór stúlkan í umgengni við kæranda og föður síns undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Samkvæmt dagnótu barnaverndar gekk sú umgengni vel en passað hafi verið upp á að öll samskipti færu fram á forsendum stúlkunnar.

Ný meðferðaráætlun hafi verið gerð þann 6. janúar 2022. Í henni kom fram að kærandi hafi verið erlendis um nokkurra mánaða skeið og af þeim sökum hafi verið lítil sem engin umgengni stúlkunnar við kæranda. Kærandi hafi komið til landsins í desember 2021 en þegar gera átti umgengnissamning við kæranda í janúar 2022 hafi kærandi aftur verið komin til útlanda og þar af leiðandi gat umgengni ekki hafist samkvæmt umgengnissamskomulagi fyrr en um miðjan janúar. Gerður hafi verið umgengnissamningur við kæranda þar sem umgengnin hafi verið áætluð vikulega í 1,5 klst. í janúar og myndi lengjast í 3 klst og fara lengst í 5,5 klst. frá janúar fram í miðjan mars. Í upphafi átti starfsmaður barnaverndar að vera viðstaddur umgengnina. Heimkoma kæranda dróst og því hafi fyrsta umgengni verið fyrirhuguð þann 28. janúar en stúlkan neitaði að fara í umgengni við kæranda þann dag og ekki þótti forsvaranlegt að fara með stúlkuna gegn hennar vilja. Þann 11. febrúar 2022 hafi stúlkan verið tilbúin að fara í umgengni við kæranda og föður sinn. Umgengnin stóð yfir í um 30 mínútur. Eftir umgengnina greindi stúlkan svo frá að hún hafi verið stressuð fyrir umgengninni þar sem kærandi væri ávallt að reyna að fá stúlkuna heim en það vildi stúlkan ekki. Samkvæmt dagnótu starfsmanns barnaverndar mátti merkja mikla vanlíðan hjá stúlkunni og vildi stúlkan bara fara heim til fósturforeldra eftir umgengnina. Stúlkan hafi einnig greint frá því að kærandi hafi lofað henni hundi ef hún kæmi heim til kæranda og setti það stúlkuna í óþægilega stöðu. Ákveðið hafi verið að bíða með frekari umgengni þar til upplýsingar lægju fyrir frá Barnahúsi og meðferðaraðila stúlkunnar þar sem stúlkan neitaði alfarið að fara í umgengni við kæranda. Þann 22. febrúar 2022 hitti kærandi stúlkuna þar sem hún var að fara á fimleikaæfingu, án heimildar frá barnavernd, og vildi kærandi að stúlkan kæmi með sér heim. Atvikið olli stúlkunni mikilli vanlíðan og fór stúlkan að hafa miklar áhyggjur af því að kærandi kæmi á fósturheimilið og tæki hana. Stúlkan hafi verið skýr um að það færi gegn hennar vilja. Þann 5. maí 2022 hitti stúlkan kæranda, móðurömmu, móðursystur og frænku sína. Umgengnin við móðurfjölskyldu gekk vel að undanskilinni umgengni við kæranda. Það hafi verið augljóst að stúlkunni leið ekki vel í návist kæranda að mati starfsmanns sem hafði eftirlit í umgengninni. Stúlkan hitti móðurömmu sína og frænku þann 24. maí 2022 undir eftirliti sem gekk vel.

Þann 28. mars 2022 lá fyrir forsjárshæfnismat H sálfræðings. Matsmaður taldi kæranda ekki hafa nægilega innsýn í þarfir stúlkunnar og taldi að hagsmunum stúlkunnar væri betur borgið í fóstri. Þá taldi matsmaður að ef stúlkan færi aftur í umsjá kæranda og föður síns yrði daglegri umönnun og uppeldi hennar alvarlega ábótavant. Matsmaður taldi miklar líkur á því að kærandi myndi halda áfram að beita stúlkuna andlegu og líkamlegu ofbeldi og beita hana þvingunum á kostnað frelsis og eðlilegs þroska til jafns við jafnaldra hennar.

Þann 13. apríl 2022 barst B skýrsla frá meðferðaraðila stúlkunnar í Barnahúsi. Meðferðaraðili taldi það mjög mikilvægt að umgengni kæranda við stúlkuna yrði mjög takmörkuð og ávallt undir eftirliti og á forsendum stúlkunnar til þess að tryggja andlega heilsu hennar. Meðferðaraðilinn taldi það mikilvægt að stúlkan fengi gott rými og næði til að vinna með sína líðan í áframhaldandi áfallavinnu í Barnahúsi og að umgengni kæranda myndi trufla framvindu meðferðar stúlkunnar. Einnig kom fram að meðferðaraðili teldi það vænlegast að stúlkan yrði í sem allra minnstu samneyti við kæranda og föður sinn að svo stöddu svo að hún fengi gott rými til þess að vinna úr sínum erfiðleikum og venjast aðstæðum á traustu og góðu fósturheimili. Í kjölfar þessa skýrslna og skýrslu talsmanns var ákveðið á fundi barnaverndar að rifta umgengnissamningi frá 6. janúar 2022 þar sem ekki væri hægt að koma á umgengni að svo stöddu.

Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að kærandi telji sig nú betur í stakk búna til þess að mæta þörfum stúlkunnar. Meðfylgjandi greinargerð þessari sé færsla úr dagbók Lögreglustjórans á G frá 31. október 2022. Þar komi fram að tilkynning hafi borist frá fósturforeldrum stúlkunnar vegna þess að kærandi og móðir hennar hafi verið í nálægð við fósturheimili og hafi gert sig líklegar til þess gefa sig á tal við stúlkuna og systur hennar, þrátt fyrir að barnavernd hefði ekki heimilað slíka umgengni. Í skýrslunni sé haft eftir fósturforeldrum að kærandi og móðir hennar hafi ítrekað reynt að setja sig í samband við stúlkuna og systur hennar.

Ein umgengni hafi farið fram samkvæmt hinum kærða úrskurði. Meðfylgjandi sé dagnóta barnaverndar vegna umgengni kæranda við stúlkuna og systur hennar þann 7. desember 2022. Viðstödd hafi verið meðal annars túlkur og fósturforeldar stúlknanna þar sem systir stúlkunnar vildi ekki fara í umgengni nema fósturforeldrar væri einnig viðstaddir. Kærandi mætti með gjafir handa stúlkunum sem áttu að færa stúlkunum gæfu en stúlkurnar sýndu gjöfunum lítinn áhuga. Á meðan kærandi fór yfir gjafirnar ræddi hún einnig um að stúlkurnar ættu ekki að borða rautt kjöt þar sem það væri óhollt fyrir þær. Kærandi fór að tala illa um fósturforeldrana við stúlkurnar, var með athugasemdir um útlit, holdafar og heilbrigði þeirra og sagði að fósturfaðir væri örugglega mikið veikur. Á meðan á umgengni stóð hafi kærandi ítrekað verið að ræða um fósturforeldrana við stúlkurnar, ýmist að minna þær á að þau væru ekki foreldrar þeirra og að þau væru að reyna að stela stúlkunum. Stúlkan reyndi að segja kæranda að sér liði vel og það væri ekkert að hjá þeim. Kærandi ræddi einnig um einhvers konar hjátrú og sagði að það væri neikvætt karma hjá fósturforeldrunum og að það væri slæmt fyrir stúlkurnar að vera nærri þeim. Kærandi benti stúlkunum ítrekað á að amma þeirra væri veik og þær yrðu að fara hitta hana af þeim sökum en hún var ekki viðstödd umgengni eins og úrskurður varnaraðila heimilaði. Undir lok umgengni fór kærandi að tala um að hún hafi farið til spákonu sem sagði að kærandi ætti eftir að eiga tvo börn til viðbótar. Stúlkan hafi þá spurt kæranda nánar út í þetta og þá sagðist kærandi bara segja henni betur frá þessu þegar stúlkurnar kæmu til hennar. Einnig tjáði kærandi stúlkunum að hún væri komin með nýja íbúð og að hún væri búin að hitta nýjan aðila eða vin en sagðist ekki vilja segja þeim meira fyrr en stúlkurnar kæmu til hennar. Samkvæmt dagnótunni komst stúlkan í uppnám við umgengnina. Hún hafi verið ósátt við kæranda fyrir það að tala um að hún ætti fleiri systkini en hafa svo ekki viljað segja henni meira frá þessu. Samkvæmt fósturmóður leið stúlkunni frekar illa eftir umgengnina, hún hafi grátið og verið reið kæranda, sérstaklega vegna orða kæranda um systkini og hvernig kærandi talaði um fósturforeldrana. Stúlkan hafi einnig verið reið þar sem henni fannst kærandi ekki hlusta á sig þegar hún sagði henni að sér liði vel.

Í málinu liggja fyrir tvær talsmannaskýrslur þar sem könnuð hafi verið afstaða stúlkunnar til umgengni og líðan hennar. Talsmaður stúlkunnar ræddi við hana vegna fyrirkomulags umgengni þann 24. febrúar 2022, sbr. skýrslu, dags. 26. febrúar 2022. Í skýrslunni frá 26. febrúar 2022 kom fram að það væri vilji hennar að vera áfram vistuð utan heimilis þangað til að hún verði 18 ára gömul og ef hún fengi það þá væri hún reiðubúin til þess að hitta foreldra sína stundum, kannski einu sinni til tvisvar í mánuði. Hún byggði þessa afstöðu sína á því að það væri sama hvað móðir hennar gerði, hún myndi alltaf vera hjá fósturforeldrunum. Samkvæmt því sem kom fram í skýrslunni sé það hennar vilji að hún fái sjálf að stýra því hvort hún hitti móður sína eða ekki.

Talsmaður hafi hitt stúlkuna 20. október 2022, sbr. skýrslu, dags. 23. október 2022, til þess að fá upplýsingar um afstöðu til umgengni og fleira. Í skýrslunni kom fram að stúlkunni liði oftast frekar vel á vistheimilinu. Hún hafi svo greint frá því að hún fyndi fyrir kvíða þegar hún ætti að hitta kæranda. Aðspurð sagði stúlkan að hún vildi hitta kæranda 2-4 sinnum á ári, að umgengni færi fram í Ráðhúsinu í 30 mínútur og að annað fólk væri með þeim.

Í stöðumati frá Barnahúsi, dags. 12. apríl 2022, komi fram að meðferðaraðili telji það mjög mikilvægt til að tryggja andlega heilsu stúlkunnar að umgengni kæranda verði takmörkuð og undir eftirliti. Meðferðaraðili telji ekki ráðlegt að það séu fastir umgengnistímar til að stúlkan fái gott rými og næði til að vinna með sína líðan í áframhaldandi áfallavinnu í Barnahúsi, en að mati meðferðaraðila truflaði umgengni við kæranda meðferðarvinnu. Það sé jafnframt álit meðferðaraðila að stúlkan sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna kvíðaeinkenna sem hún glímir við.

B tók ákvörðun um tilhögun umgengni kæranda við dóttur sína með úrskurði á fundi nefndarinnar þann 16. nóvember 2022. Á þeim tíma sem málefni stúkunnar hafa verið til vinnslu hjá nefndinni hefur verið reynt að stuðla að bættum samskiptum kæranda við stúlkuna með rýmri umgengni en nú hafi verið ákveðin, sbr. umgengnissamning 6. janúar 2022, en það hafi leitt til þess að stúlkan hafi tímabundið hafnað öllum samskiptum við kæranda og upplifað mikla vanlíðan. Því miður hafi umgengni og þau meðferðarúrræði, sem kæranda hafa staðið til boða, ekki skilað tilætluðum árangri til að bæta samskipti kæranda við stúlkuna. Umgengni kæranda við stúlkuna hafi valdið stúlkunni frekari vanlíðan og stúlkan hefur orðið ákveðnari í að hafna umgengni við kæranda, nema umgengnin sé á hennar forsendum og þegar hún er tilbúin til umgengni. Vegna þeirrar stöðu sem stúlkan er í er það mat B að takmörkuð umgengni með þeim hætti sem ákveðin var í hinum kærða úrskurði þjóni stúlkunni best við núverandi aðstæður og er það mat stutt mati meðferðaraðila stúlkunnar í Barnahúsi. Ákvörðun B um umgengni í hinum kærða úrskurði byggist á heildstæðu mati á hagsmunum stúlkunnar en B telur það bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum barnsins að umgengni hennar við kæranda verði meiri en hinn kærði úrskurður kveður á um en samskipti kæranda við stúlkuna í umgengni hefur í gegnum tíðina valdið stúlkunni vanlíðan og hefur meðferðaraðili hennar talið að umgengni við kæranda geti haft áhrif á meðferð hennar. Þá telji B að ef umgengni verði meiri en úrskurður kveður á um, muni reynast erfitt og ef til vill ómögulegt að koma stúlkunni í umgengni en hún hefur ítrekað hafnað alfarið að fara í umgengni við kæranda í gegnum vinnslu málsins. Við matið hafi einnig verið horft til vilja stúlkunnar sjálfrar og óöruggra tengsla hennar við kæranda, sbr. upplýsingar í forsjárhæfnismati sem unnið hafi verið á árinu 2022. Tilgangurinn með því að takmarka umgengni með þessum hætti sé að skapa stöðugleika í daglegu lífi stúlkunnar og tryggja sem best hagsmuni hennar og öryggi.

Með vísan til alls framangreinds telur B ákvörðun sína hafi verið tekna í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldri og aðra nákomna er ákveðin.

IV.  Sjónarmið stúlkunnar

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns, dags. 23. október 2022 þar sem aflað var afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda.

Í skýrslu talsmanns kemur fram að ef stúlkan mætti velja myndi hún vilja búa hjá fósturforeldrum. Stúlkan kvaðst ekki vilja fara heim til móður og ekki sakna heimilisins. Varðandi umgengni vilji stúlkan hitta móður sína 2-4 sinnum á ári og hún vilji hafa fólk með sér í umgengni, til dæmis í Ráðhúsinu, og þá í 30 mínútur.

V.  Niðurstaða

D er X ára gömul. Kærandi er móðir hennar.

Með hinum kærða úrskurði frá 16. nóvember 2022 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda skyldi vera aðra vikuna í desember 2022 og svo annan hvorn mánuð eftir það, eina klukkustund í senn. Umgengni færi fram undir eftirliti í Ráðhúsinu í E. Þá var ákveðið að móðurömmu stúlkunnar væri frjálst að vera viðstödd umgengni. Til að tryggja viðeigandi samskipti var ákveðið að túlkur skyldi vera viðstaddur umgengni, auk fósturforeldra stúlkunnar.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði um umgengni verði hrundið og að úrskurðað verði að umgengni verði eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði í 1,5 klst. í senn.

Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um aukna umgengni bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni stúlkunnar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar.

Samkvæmt gögnum málsins var stúlkan í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum en laut forsjá kæranda. Stúlkan er nú í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Málefni stúlkunnar hafa verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda frá fyrsta ári vegna vanrækslu foreldra, aðbúnaðar á heimili og meints ofbeldis móður gagnvart stúlkunni. Samkvæmt gögnum málsins hefur stúlkan takmarkaðan vilja til umgengni við kæranda og hefur oft reynst erfitt að koma á umgengni vegna afstöðu stúlkunnar. Þá hefur umgengni oft gengið illa vegna samskiptavanda kæranda gagnvart stúlkunni sem meðferðaraðilar hafa talið vera djúpstæðan og alvarlegan. Í kjölfar kröfu B um forsjársviptingu kæranda var gerð dómsátt um afsal forsjár þann 10. mars 2023. Á sama tíma var gert samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna.

Eins og vikið er að hér að framan ber, að mati úrskurðarnefndarinnar, við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hafði af umgengni við kæranda frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar þann 16. nóvember 2022 fram til þess tíma er sátt náðist um umgengni þann 10. mars 2023.

Samkvæmt framansögðu fellst úrskurðarnefndin á sjónarmið B og telur að það hafi þjónað hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda á fyrrgreindu tímabili hafi farið fram á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður B frá 16. nóvember 2022 varðandi umgengni A við D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta