Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 345/2023-Úskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 345/2023

Föstudaginn 17. nóvember 2023

A

gegn

barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 13. júlí 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarþjónustu B, dags. 26. júní 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna barna kæranda, D og E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengirnir, D og E, eru X og X ára gamlir synir kæranda sem er móðir þeirra. Kærandi og faðir drengjanna fara saman með forsjá þeirra en lögheimili þeirra er hjá kæranda. Mál drengjanna hefur verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda allt frá árinu 2010 vegna gruns um vanrækslu og ofbeldi. Máli drengjanna var lokað í lok september 2020 en frá þeim tíma til júní 2022 bárust fjöldi tilkynninga vegna drengjanna, m.a. frá lögreglu og skóla. Í kjölfar ásakana drengjanna um kynferðislegt ofbeldi af hálfu kæranda voru drengirnir vistaðir tímabundið hjá föður frá 31. ágúst 2022 til 31. desember 2022.

Á vistunartíma var reynt að koma á umgengni við kæranda en án árangurs. Máli drengjanna var lokað í byrjun janúar 2023. Á meðferðarfundi 26. maí 2023 var bókað að ástæða væri til að hafa áhyggjur af líðan drengjanna vegna afstöðu þeirra til kæranda og var málið opnað að nýju. Í bókuninni kom fram að samþykkt væri að greiða fyrir sálfræðiviðtöl fyrir drengina í því skyni að breyta viðhorfi þeirra til móður. Lögmaður föður mótmælti orðalagi bókunar og upplýsti að faðir gæti ekki samþykkt að sálfræðimeðferð drengjanna yrði svo þröngur stakkur skorinn.

Að undangenginni könnun var mál drengjanna tekið fyrir hjá starfsmönnum Barnaverndarþjónustu B þann 26. júní 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri ástæða til  frekari afskipta af málinu og því var málinu lokað. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. júlí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. júlí 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 14. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Barnaverndarþjónustu B að halda meðferð málsins áfram og veita kæranda stuðning í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 og lög 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Kærandi kveðst hafa lagt fram beiðni til Barnaverndarþjónustu B um samþættingu þjónustu í þágu farsældar drengjanna sbr. 23. gr. a. í barnaverndarlögum. Í þessu tilviki sé því haldið fram að Barnaverndarþjónusta B teljist stuðningsteymi í skilningi 22. gr. laga nr. 86/2021.

Kærandi og faðir drengjanna fara sameiginlega með forsjá drengjanna. Samkvæmt dómi Héraðsdóms F frá 17. apríl 2019, sé lögheimili drengjanna hjá kæranda. Á fundi barnaverndarþjónustu B þann 28. september 2022 hafi verið samþykkt að bræðurnir myndu vistast utan heimilis kæranda til 31. desember 2022, vegna lögreglurannsóknar um meint kynferðisbrot kæranda gagnvart drengjunum. Ákvað barnavernd að drengirnir myndu dvelja hjá föður sínum, til 31. desember 2022 og hafa þeir dvalist hjá honum í G síðan en eru samt í skóla í B.

Ásakanir um einhvers konar kynferðislega háttsemi kæranda gagnvart drengjunum hafi ekki átt við nein rök að styðjast og hafi lögreglurannsókninni verið lokið í nóvember 2022. Þann 9. janúar 2023 ákvað Barnaverndarþjónusta B að gera ekkert í því að koma því til leiðar að koma á fyrri skipan um að drengirnir flyttust aftur til lögheimilisforeldrisins þ.e., kæranda, heldur lokaði einungis málinu og felldi niður vistun drengjanna utan heimilis kæranda.

Faðir drengjanna hafi ekki viljað eiga neitt samstarf við kæranda hvorki um umgengni né um það að drengirnir flytjist aftur til móður sinnar og hafi þvert á móti leitast við að innræta drengjunum andúð gegn móður sinni og komið þannig í veg fyrir að þeir vilji flytja aftur til hennar. Drengirnir dveljist því ennþá hjá föður sínum í G og neiti að fara til kæranda. Innsetningarmál hafi verið rekið í Héraðsdómi F en innsetning hafi ekki náð fram að ganga vegna andstöðu drengjanna. Faðir hafi spillt sambandi drengjanna við kæranda með öllum tiltækum ráðum. Nú haldi hann drengjunum hjá sér í heimildarleysi og í andstöðu við framangreindan dóm héraðsdóms F frá 17. apríl 2019. Ekkert bendir til annars en að faðir muni halda áfram að leika þennan sama leik og sé alveg óvíst hvenær og með hvaða hætti drengirnir koma aftur til kæranda. Kærandi fellir sig ekki við það að Barnaverndarþjónusta B hafi lokað málinu á nýjan leik eins og raun ber vitni án þess að lausn hafi fundist. Hún þurfi nauðsynlega á stuðningi að halda bæði við almenna umsjón drengjanna og við að koma þeim til dvalar hjá sér.

Í niðurstöðu dóms héraðsdóms F frá 17. apríl 2017 í máli nr. […], komi fram að lögheimili drengjanna eigi að vera hjá kæranda en þar segir m.a.:

„Einnig þykir ljóst a af gögnum málsins að drengirnir þurfi ýmsan stuðning. Stefnandi (kærandi hér) virðist átta sig á þeim þörfum þeirra og þiggur aðstoð á meðan stefndi (faðir hér) hefur á sama tíma gert lítið úr þeim þörfum þeirra og telur sig ekki þurfa þá aðstoð. Með vísan til þessa er það álit dómsins að lögheimili drengjanna sé best fyrir komið hjá stefnanda“

Á meðferðarfundi barnaverndar B þann 28. desember 2022 hafi verið gerð eftirfarandi bókun vegna drengjanna:

Bræðurnir […] hafa verið vistaðir frá ágústlokum sl. hjá föður í kjölfar ásakana þeirra um að móðir þeirra hafi beitt þá kynferðislegu ofbeldi í mörg ár. Málið var kært til lögreglu en hefur nú verið fellt niður. Engar tilkynningar um vanlíðan drengjanna hafa borist frá því að vistun hófst en áður hafði fjöldi tilkynninga borist um vanlíðan þeirra, sérstaklega eldri drengsins. Mikill skortur hefur verið á samstarfsvilja föður við barnaverndarnefnd á vistunartímanum sem var helsta forsenda þess að drengirnir vistuðust hjá honum. Barnaverndarnefnd er ljóst að aðstæður drengjanna á heimili föður eru ekki eins og best verður á kosið og eru m.a. áhyggjur af eindreginni afstöðu þeirra gegn umgengni við móður. Meðferðarfundur telur, með hliðsjón af skorti á samvinnuvilja föður og því að margvíslegur stuðningur barnverndar hefur ekki skilað árangri fram að þessu, að frekari stuðningsúrræði barnaverndar muni ekki bæta stöðu drengjanna og leggur til að málinu verði lokað“.

Af hálfu kæranda sé því haldið fram að þetta réttarástand sem nú ríki þ.e. að drengirnir dveljist hjá föður sem tálmar og hamlar allri umgengni þeirra við kæranda sé óviðunandi afleiðing af þeirri ákvörðun Barnaverndarþjónustu B í lok ágúst 2022, að vista drengina hjá föður. Það sé jafnframt óviðunandi niðurstaða að Barnaverndarþjónusta B geti ábyrgðarlaust hlaupið frá málinu án þess að hafa fundið á því viðunandi lausn.

III.  Sjónarmið Barnaverndarþjónustu B

Í greinargerð Barnaverndarþjónustu B kemur fram að mál kæranda og fjölskyldu hennar hafi verið til meðferðar hjá barnavernd í B um árabil, eða frá árinu 2010 og þar til nú á þessu ári. Fjöldi tilkynninga hafi borist á þessum tíma vegna gruns um vanrækslu og ofbeldi. Mikið ósætti hafi verið með foreldrum og fór svo að þau skildu en þau fara sameiginlega með forsjá bræðranna, drengirnir eiga lögheimili hjá kæranda. Þrátt fyrir ýmiss konar stuðningsúrræði barnaverndar í mörg ár hafi ekki náðst mikill árangur og áttu foreldrar erfitt með að tileinka sér þær leiðbeiningar og úrræði sem í boði voru. Áfram hafi borist tilkynningar vegna vanlíðan drengjanna á heimili kæranda, einkum þess eldri, og í júní árið 2022 hafi verið tilkynnt um ofbeldi af hálfu sambýlismanns kæranda og í skýrslutöku í Barnahúsi vegna þessa sögðust bræðurnir báðir hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi af móður sinni í langan tíma. Vegna þessara alvarlegu ásakana hafi verið ákveðið að vista drengina utan heimilis móður á meðan lögreglurannsókn færi fram.

Samkvæmt 67. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002 skuli, þegar barn sé vistað tímabundið utan heimilis og foreldrar fara sameiginlega með forsjá, kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins. Var svo gert í þessu tilviki, enda hafi drengirnir báðir lýst því yfir að þeir vildu helst búa hjá föður sínum. Þegar sú ákvörðun hafi verið tekin hafi vissulega ekki verið hægt að sjá fyrir að þeir myndu ekki vilja fara aftur til kæranda og hafi verið gert ráð fyrir að drengirnir flyttu aftur heim til kæranda að lögreglurannsókn lokinni að því gefnu að niðurstaða rannsóknarinnar gæfi ekki tilefni til annars.

Mjög erfiðlega hafi gengið að fá föður til samvinnu við barnavernd eftir að bræðurnir voru vistaðir á heimili hans, þrátt fyrir loforð og fyrirheit um annað, og ekki reyndist unnt að koma á umgengni drengjanna við kæranda sína þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir barnaverndar, vegna afdráttarlausrar andstöðu þeirra. Benda megi á að af sömu ástæðu náði innsetning ekki fram að ganga í innsetningarmáli sem rekið hafi verið í Héraðsdómi F.

Þegar vistunartími hafi verið liðinn og fyrirséð að enginn árangur næðist og að barnavernd tækist ekki að þoka málinu í þátt átt að koma á samskiptum bræðranna við móður sína, hafi verið ákveðið að loka málinu enda höfðu engar tilkynningar borist barnavernd eftir að drengirnir fluttu til föður. Í skýrslu sálfræðings sem unnin hafi verið undir rekstri innsetningarmálsins í héraðsdómi komi fram að bræðurnir hafi afdráttarlaust lýst því yfir að þeir vildu ekkert með móður sína hafa og taldi sálfræðingurinn ástæðu til að mæla með því að unnið yrði með þennan þátt. Því hafi verið samþykkt að opna málið í barnavernd á ný og veita þeim sálfræðimeðferð sem miðaði fyrst og fremst að því að bæta samskipti þeirra við kæranda. Ekki náðist samkomulag um þetta við föður og í ljósi fyrri reynslu taldi barnavernd þá að fullreynt væri með afskipti af þessu máli og því verið lokað.

Barnaverndarþjónusta B telur að allt hafi verið gert sem hægt sé og sem lög leyfa til að fá drengina til að flytja til kæranda eða a.m.k. að hafa við hana umgengni en allt hafi komið fyrir ekki. Barnavernd geti tekið undir áhyggjur kæranda af stöðu mála en hafi því miður ekki yfir neinum þeim úrræðum að ráða sem gætu orðið til þess að liðka fyrir eða breyta einarðri afstöðu drengjanna til kæranda eða gagnast að öðru leyti í þessu tilviki.

VI.  Niðurstaða

Drengirnir, D og F, eru synir kæranda. Kærandi og faðir drengjanna fara saman með forsjá þeirra en lögheimili þeirra er hjá kæranda.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Samkvæmt gögnum málsins hefur mál drengjanna verið til meðferðar hjá  barnaverndaryfirvöldum allt frá árinu 2010 en var lokað í september 2020. Frá þeim tíma til júní 2022 bárust fjöldi tilkynninga vegna drengjanna, m.a. frá lögreglu og skóla. Í kjölfar ásakana drengjanna um kynferðislegt ofbeldi af hálfu kæranda voru drengirnir vistaðir tímabundið hjá föður sínum frá 31. ágúst 2022 til 31. desember 2022. Drengirnir hafa ekki viljað snúa aftur á lögheimili sitt.

Á fundi meðferðarteymis barnaverndar 26. maí 2023 var samþykkt bókun þess efnis að ástæða væri til að hafa áhyggjur af líðan drengjanna vegna afstöðu þeirra til kæranda. Með hliðsjón af umsögn sálfræðilegs mats þar sem fram komu sömu áhyggjur var samþykkt að greiða fyrir drengina sálfræðiviðtöl í því skyni að breyta viðhofi þeirra til kæranda. Þá var samþykkt að gerð yrði meðferðaráætlun til þriggja mánaða. Í kjölfarið var foreldrum og lögmönnum þeirra tilkynnt að mál drengjanna hefði verið opnað að nýju. Faðir var ekki sáttur við framsetningu bókun hvað varðar markmið sálfræðiviðtala og var málinu því lokað.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnaverndarþjónusta B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengjanna og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl. Ákvörðun barnaverndarþjónustu B byggist á því að barnaverndarþjónustan gæti ekkert frekar aðhafst í máli drengjanna. 

Samkvæmt gögnum málsins eru til staðar áhyggjur af líðan drengjanna. Þá liggur fyrir að drengirnir þurfa ýmsan stuðning. Ástæða þess að ákveðið var að lögheimili drengjanna yrði hjá kæranda var að hún virtist átta sig betur á þörfum drengjanna. Nú liggur fyrir að drengirnir vilja ekki snúa aftur til kæranda og telur úrskurðarnefndin að þörf drengjanna fyrir stuðning sé engu að síður enn til staðar, sbr. skýrslu I sálfræðings frá 26. febrúar 2023. Þar kemur fram m.a. fram að báðir drengirnir lýsi hræðslu við kæranda og ekki síður við sambýlismann hennar. Þetta líkist viðbrögðum sem börn sýni gjarnan við áföllum, þau flýji þá aðstæður, leiti öryggis og vilja síðan engar breytingar á högum sínum. Afdráttar- og gagnrýnisleysi þeirra gagnvart föður þjóni þá þeim tilgangi að tryggja þetta öryggi. Um sé að ræða varnarviðbrögð sem óhjákvæmilegt sé að hlusta á. Til framtíðar séu þessi viðbrög ekki heppileg, sérstaklega að þeir skuli útloka kæranda úr lífi sínu. Mælir I með að unnið verði með þennan þátt t.d. hjá sálfræðingi.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengjanna. Úrskurðarnefndin bendir á að hafi úrræði 24. gr. og 25. gr. barnaverndarlaga, þar sem forsenda er samþykki foreldra, ekki borið árangur, sé í 26. gr. laganna úrræði sem hægt er að beita án samþykkis foreldra. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að metið hafi verið hvort slík úrræði væru til þess fallin að skila árangri í máli drengjanna.  

Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Barnaverndarþjónustu B og er málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá þjónustunni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarþjónustu B, dags. 26. júní 2023, um að loka máli vegna drengjanna D og F, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta