Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 15/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 1. júlí 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna dóttur hennar, C, nr. 15/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 3. júní 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, bókun barnaverndarnefndar B frá 3. júní 2015, vegna beiðni kæranda um áframhaldandi vistun fyrir C, í E til 18 ára aldurs til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt bókuninni var beiðni hennar synjað.

Kærandi mótmælir því að vistun C í E ljúki þegar fyrirliggjandi samningur um vistun rennur út. Af kærunni og málatilbúnaði kæranda má ráða að gerð sé sú krafa að kærunefnd barnaverndarmála felli bókun barnaverndarnefndar B úr gildi og ákveði að C verði vistuð áfram í E. Þá er þess óskað af hálfu kæranda að kærunefndin ákveði að framkvæmd bókunarinnar verði frestað með vísan til 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar til kærunefndin hefur kveðið upp úrskurð í málinu.

I. Helstu málavextir

Stúlkan C er X ára gömul. Barnaverndarnefnd B gerði tímabundinn samning 1. nóvember 2014 við E, sem er búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda, um vistun stúlkunnar, þar sem meðal annars var tekið fram að eitt af verkefnum E væri að vinna að því að stúlkan færi aftur heim til móður. Af hálfu barnaverndarnefndar B hefur komið fram að ætlun nefndarinnar hafi aldrei verið að stúlkan yrði í E til 18 ára aldurs. Rann áðurnefndur samningur út 15. júní 2015.

Lögmaður kæranda mótmælti með tölvupóstum 26. og 27. maí 2015 þeim áformum barnaverndarnefndar B að binda enda á dvöl stúlkunnar í E og vista hana á fósturheimili eða senda heim til móður og veita þá heimilinu öflugan stuðning. Krafðist lögmaðurinn þess að C fengi að dvelja áfram í E til átján ára aldurs.

Mál kæranda og C var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 3. júní 2015 og var bókun samþykkt þess efnis að barnaverndarnefndin teldi að ekki væri tilefni til að C yrði vistuð áfram í E. Aðstæður stúlkunnar væru þó ekki með þeim hætti að nauðsynlegt væri að úrskurða hana í fóstur gegn eindreginni andstöðu kæranda og stúlkunnar. Var því niðurstaða nefndarinnar sú að vistun stúlkunnar í E myndi ljúka 15. júní 2015 þegar samningur rynni út og að hún myndi dvelja frá þeim tíma á heimili móður með fjölþættum stuðningi.

Í kæru kæranda kemur fram að bæði kærandi og C séu afar mótfallnar þeirri ráðstöfun sem kveðið er á um í hinni kærðu bókun barnaverndarnefndar B. Lagt hafi verið fyrir barnaverndarnefndina vottorð barnageðlæknis 27. mars 2015 sem segi að C þurfi sólarhringsaðstoð og að mikilvægt sé að lágmarka eins og hægt sé aðkomu nýrra meðferðaraðila. Gangi því hin kærða ráðstöfun þvert á álit sérfræðings í málinu varðandi hagsmuni stúlkunnar. Í „ákvörðun barnaverndar B“ felist því brot gegn barnaverndarlögum, meðal annars 4. gr. laganna sem skilgreini með skýrum hætti hvaða meginreglur skuli hafðar að leiðarljósi við ákvarðanir barnaverndaryfirvalda.

Í tölvupósti lögmanns kæranda til kærunefndarinnar 8. júní 2015 er vísað til þess að hin kærða ákvörðun falli undir 6. gr. reglugerðar um kærunefnd barnaverndarmála nr. 1007/2013 þar sem um sé að ræða úrskurð um úrræði án samþykkis foreldris sem lúti að eftirliti með heimili. Fram kemur þar einnig að ljóst sé að samkvæmt ákvörðuninni sé fyrirhugað að veita stuðning á heimili barnsins en það úrræði hafi ekki verið útfært með nokkrum hætti. Þá sé jafnframt um að ræða ákvörðun sem sé ígildi úrskurðar um endurskoðun á fóstursamningi, sbr. 77. gr. barnaverndarlaga, enda fyrirhugað að flytja barnið af E á heimili móður, gegn vilja bæði barns og móður.

II. Niðurstaða

Mál þetta varðar vistun stúlkunnar C og bókun barnaverndarnefndar B þess efnis að binda enda á dvöl stúlkunnar í E og að hún dvelji á heimili kæranda. Eins og málið er vaxið þykir ekki koma til álita að kærunefndin ákveði, eins og krafist er af hálfu kæranda, að framkvæmd bókunarinnar verði frestað þar til úrskurður kærunefndarinnar liggur fyrir en samkvæmt 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga getur kærunefndin, þegar sérstaklega stendur á, ákveðið að kröfu aðila að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er hlutverk kærunefndar barnaverndarmála afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til hennar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum. Í 6. gr. reglugerðar um kærunefnd barnaverndarmála nr. 1007/2013 eru taldar upp kæruheimildir til kærunefndar barnaverndarmála á grundvelli barnaverndarlaga. Samkvæmt e-lið greinarinnar eru kæranlegir úrskurðir um úrræði án samþykkis foreldra, sbr. 26. gr. barnaverndarlaga, og samkvæmt i-lið úrskurðir um endurskoðun fóstursamnings, sbr. 77. gr. barnaverndarlaga. Í 26. gr. barnaverndarlaga er fjallað um úrræði án samþykkis foreldra, en þar segir að barnaverndarnefnd geti með úrskurði meðal annars kveðið á um eftirlit með heimili gegn vilja foreldra. Eru úrskurðir samkvæmt greininni kæranlegir til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 3. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga. Um endurskoðun fóstursamnings er fjallað í 77. gr. barnaverndarlaga þar sem segir í 3. mgr. lagagreinarinnar að ef ekki næst samkomulag við fósturforeldra um breytingu á fóstursamningi geti barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Er slíkur úrskurður kæranlegur til kærunefndarinnar.

Í málinu liggur fyrir bókun barnaverndarnefndar B sem samþykkt var á fundi nefndarinnar 3. júní 2015. Í bókuninni er ekki kveðið á um eftirlit með heimili kæranda og samkvæmt gögnum málsins hefur enginn úrskurður verið kveðinn upp um slíkt eftirlit eins og lögmaður kæranda heldur fram. Þá getur 77. gr. barnaverndarlaga ekki átt við um málið enda er C ekki í fóstri og enginn fóstursamningur hefur verið gerður í málinu. Ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður ekki séð að sú ákvörðun barnaverndarnefndar B sem kærð hefur verið geti á grundvelli barnaverndarlaga verið kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt því ber að vísa kæru kæranda frá kærunefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru A vegna bókunar barnaverndarnefndar B 3. júní 2015 í máli dóttur kæranda, C, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta