Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 16/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 19. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við son hennar, B, nr. 16/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 3. júní 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 3. mars 2015, vegna umgengni kæranda við son hennar, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði hefur kærandi umgengni við son sinn fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Þá er kæranda heimilt að koma með systkini og stjúpföður drengsins í umgengni. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum stað sem ákveðinn er fyrirfram og í samráði við alla aðila. Móður er heimilt að koma með systkini drengsins og stjúpföður í umgengni.

Kærandi telur að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún hafi borist að liðnum kærufresti. Kærandi krefst þess að úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði hrundið og breytt á þann veg að kærandi fái umgengni við drenginn B sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn. Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni og að umgengni fari fram á heimili kæranda. Verði ekki fallist á kröfugerð hennar er krafist að umgengni verði aukin á þann hátt sem kærunefndin telur hæfilegt. Kærandi mótmælir því að eftirlit verði með umgengninni og að hún fari fram í húsnæði barnaverndarnefndar en hún hafi verið talin hæf til að sinna forsjá heilbrigðra barna og ekkert bendi til þess að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að kæru kæranda verði vísað frá kærunefnd barnarverndarmála sem of seint fram kominni.

I. Helstu málavextir

Drengurinn B er fæddur árið X og er X ára gamall og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X. Faðir drengsins, D, afsalaði sér forsjá drengsins 23. janúar 2015. Drengurinn hefur verið vistaður utan heimilis hjá frænku sinni, E, og eiginmanni hennar, F, frá 30. september 2013 og er drengurinn nú í varanlegu fóstri hjá þeim hjónum.

Frá því drengurinn var vistaður utan heimilis í tímabundnu fóstri hefur hann haft reglulega umgengni við kæranda. Samkvæmt því sem kemur fram í hinum kærða úrskurði hefur umgengni gengið misvel og hefur skapað tilfinnanlegt álag á drenginn. Ekki tókst að ná samkomulagi milli kæranda og barnaverndarnefndar Reykjavíkur um umgengni kæranda við drenginn og var málið því lagt fyrir fund barnaverndarnefndarinnar 3. mars 2015. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna frá 24. febrúar 2015, ásamt fylgiskjölum. Tillaga í greinargerð starfsmanna var að umgengni yrði við kæranda og stjúpföður fjórum sinnum á ári í varanlegu fóstri. Þá var lagt til að umgengni yrði undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar í tvær klukkustundir í senn og að kærandi hefði heimild til að koma með systkini drengsins í umgengni.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var úrskurðað í málinu 3. mars 2015, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í úrskurðarorði kemur fram að úrskurði megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.

Þann 12. mars 2015 fékk kærandi í hendur hinn kærða úrskurð og er ekki uppi ágreiningur um þetta í málinu.

Í kæru kæranda, sem dagsett er 3. júní 2015 og var móttekin af hálfu kærunefndar barnaverndarmála 4. júní 2015, kemur fram að fyrir mistök hafi kæran ekki verið send innan þess frests sem greinir í barnaverndarlögum. Vilji kærandi reyna að koma kærunni að með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vísað er til þess af hálfu kæranda að hin kærða ákvörðun hafi veigamikil áhrif á hagsmuni kæranda og tengsl hennar við barn sitt. Kæran hafi það að markmiði að kærandi fái sanngjarna og eðlilega umgengni miðað við þá stöðu sem mál hennar sé í í dag. Telur kærandi að skilyrði ákvæðisins skuli ekki túlka þröngt og litið verði til þess að hún sé ein aðili þessa máls og eingöngu hagsmunir hennar og þess barns sem málið varði séu til skoðunar í málinu. Þá hafi yngri börn kæranda verulega hagsmuni af niðurstöðu í málinu þar sem þau séu verulega tengd drengnum B. Með núgildandi umgengnisfyrirkomulagi sé alfarið komið í veg fyrir að þau haldi lágmarkstengslum við drenginn. Fyrir liggi samkvæmt mati dómkvadds matsmanns að systkinin séu verulega tengd og því full ástæða til þess að líta til verulegra hagsmuna þeirra þegar metið sé hvort líta skuli framhjá því að kæra þessi berist eftir kærufrest. Sú tilhögun á umgengni sem ákveðin hafi verið sé til þess fallin að slíta alfarið í sundur tengsl barnsins og systkina þess en B tengist systkinum sínum verulegum tilfinningaböndum. Hann myndi ekki sterk tengsl við marga, hvorki vini né aðra. Slík tengsl eigi hann við systkini sín. Með þessari takmörkuðu umgengni sem ákveðin hafi verið með úrskurði barnaverndarnefndarinnar sé ekkert sem bendi til að þessi tengsl muni viðhaldast eða styrkjast. Veruleg áhætta sé því tekin varðandi hagsmuni barnsins. Hin kærði úrskurður sé því ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarlaga um meðalhóf. Drengurinn hafi sjálfur sagt að hann vilji vera meira með kæranda og systkinum sínum og gista hjá kæranda. Líta verði til vilja barnsins og þess að halda þurfi sambandi milli hans og kæranda. Jafnframt telur kærandi rétt að líta til þess að nýverið hafi Hæstiréttur kveðið upp endanlegan dóm í forsjársviptingarmáli kæranda þar sem hún hafi verið svipt forsjá. Telur kærandi því betri forsendur til þess að taka endanlega ákvörðun í málinu núna heldur en á fyrri stigum og meiri líkur á að rétt niðurstaða fáist í málinu nú en ef kæran hefði verið til meðferðar meðan enn var óleyst úr málinu fyrir Hæstarétti. Niðurstaða barnaverndarnefndarinnar sé ekki nægilega rökstudd. Fella eigi úrskurðinn úr gildi og veita kæranda meiri umgengni eða eftir atvikum fela barnaverndarnefndinni að taka málið aftur til meðferðar.

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. júní 2015 til kærunefndarinnar segir að kærufrestur hafi hafist 12. mars 2015 þegar kærandi fékk hinn kærða úrskurð í hendur. Vegna mistaka hafi úrskurðurinn þó ekki verið kærður innan fjögurra vikna kærufrestsins. Kæra lögmannsins hafi verið móttekin af kærunefndinni 4. júní 2015 eða rúmum sjö vikum eftir að niðurstaða barnaverndarnefndarinnar hafi verið kæranda kunn.

Með vísan til þess og í ljósi þess að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra lögmanns kæranda kom fram, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, sé þess krafist af hálfu barnaverndarnefndarinnar að kærunni verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni. Þá sé ekki fallist á þau rök lögmanns að 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í máli þessu en fyrir liggi að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi úrskurðað 3. mars 2015 um að umgengni kæranda við drenginn yrði fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur.

Með bréfi 22. júní 2015 var greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur send lögmanni kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

II. Niðurstaða

Í 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt lagagreininni til kærunefndar barnaverndarmála. Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga kemur fram að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Kærufrestur byrjaði að líða 12. mars 2015 en hinum kærða úrskurði var af hálfu kæranda skotið til kærunefndar barnaverndarmála 3. júní 2015. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur sem veittur er samkvæmt 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga til að kæra úrskurð barnaverndarnefndarinnar til kærunefndar barnaverndarmála og er það óumdeilt í málinu.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá. Tvær undantekningar eru frá þessari meginreglu og koma þær fram í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr., þ.e. ef afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæra sé tekin til efnismeðferðar. Kærandi telur, þrátt fyrir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar líkt og segir í 2. tölul. áðurnefndrar lagagreinar. Í kæru kemur fram að fyrir mistök hafi kæran ekki verið send innan þess frests sem barnaverndarlög segja til um.

Kærandi vísar til þess að ríkir hagsmunir liggi að baki í málinu og að kærandi, drengurinn B og systkini hans hafi öll hagsmuni af því að málið verði tekið til meðferðar. Samkvæmt mati dómkvadds matsmanns séu systkinin verulega tengd og því sé full ástæða til þess að líta til verulegra hagsmuna þeirra þegar metið er hvort líta skuli framhjá því að kæra barst að liðnum kærufresti. Kærunefndin fellst á það að í málinu sé deilt um ríka hagsmuni sem hafi veigamikil áhrif á líf kæranda og drengsins eins og eðli málins samkvæmt gildir um úrlausn á ágreiningi um umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga. Meta þarf hvort hagsmunir drengsins og kæranda séu af þeim toga að þeir teljist veigamiklar ástæður í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í skýrslu talsmanns drengsins 23. febrúar 2015 kemur fram að drengurinn vildi ekki ræða neitt um móður sína við talsmanninn. Þá sagði drengurinn við talsmanninn að hann hlakkaði til að hitta G systur sína og H bróður sinn. Þá kemur fram í skýrslunni að drengurinn er í afar góðum tengslum við fósturforeldra og hann á jafnframt mjög erfitt með að takast á við nýjar og óvæntar aðstæður og umhverfi. Þá er mikilvægt fyrir drenginn að mati talsmanns að festa og öryggi sé allt um kring í hans lífi. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur  í forsjársviptingarmáli kæranda, sem staðfestur var af Hæstarétti eins og áður segir, kemur fram að í gögnum málsins komi fram upplýsingar frá sálfræðingi barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að það virtist sem drengnum líði vel á fósturheimilinu, hann sýni meira traust en áður en tjái sig lítið. Í sálfræðilegri matsgerð J frá 5. október 2014 sem lögð var fram í forsjársviptingarmáli kæranda kemur fram að í viðtali við sálfræðing hafi drengurinn lýst einlægum vilja til að flytja aftur heim, hann hafi sagst vilja búa hjá mömmu og pabba og vera hjá systkinum sínum. Hann hafi þó tekið skýrt fram að sér liði vel hjá fósturforeldrum og hann vildi halda áfram að heimsækja fósturmóður sína en hann hafi hins vegar sagst vilja búa hjá kæranda. Þá kemur fram mat sálfræðingsins að tengsl og samskipti drengsins og systkina hans hafi virst góð og hafi drengurinn nefnt það sem eina af ástæðu fyrir því að hann vildi búa hjá kæranda, að þá gæti hann verið með systkinum sínum. Þá segir sálfræðingurinn að erfitt væri að segja til um hvernig tengsl drengsins við systkini sín myndu þróast með minni umgengni en líklegast megi þó telja ljóst að tengslin myndu verða fjarlæg eða dofna ef drengurinn yrði ekki inn á heimili kæranda. Í framangreindum dómi héraðsdóms kemur fram að drengurinn sé með fjölþættan vanda. Að mati dómsins breyti niðurstaða matsmanna um góða tengslahæfni kæranda og náin tengsl á milli hennar og drengsins annars vegar og systkina hans hins vegar ekki þeirri staðreynd að þarfir hans séu slíkar að góð tengsl ein og sér fullnægi þeim ekki. Að auki skorti, að mati dómsins, á að rök séu færð fyrir því að geðtengsl kæranda við drenginn séu örugg og góð. Tengsl þeirra á milli hafi eingöngu verið metin með viðtölum við kæranda, sjálfsmatslistum sem hún hafi svarað og með stuttu áhorfi á samskipti á heimili kæranda þegar drengurinn var staddur þar. Samkvæmt lýsingu þroskaþjálfa fyrir dóminum hafi framkoma kæranda í garð drengsins verið kuldaleg og einkennst af gagnrýni og jafnvel niðurlægingu. Drengurinn virtist óttast mjög að brjóta gegn fyrirmælum kæranda og að hann hafi ekki sýnt fögnuð við að mæta henni eftir langan aðskilnað. Að mati dómsins virtust gæði tengsla kæranda við drenginn þannig vafa undirorpin.

Af framangreindu er ljóst að drengurinn hefur þörf fyrir festu og öryggi sem fósturforeldrar hans hafa veitt honum. Af gögnum málsins og því sem að framan er rakið verður ekki ráðið að drengurinn hafi þörf fyrir að halda tengslum við kæranda umfram þá umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir að litið verði til þess að drengurinn hafi tengsl við systkini sín og hlakki til að hitta þau leiðir það ekki til þess að skilyrði þess að málið fái efnislega meðferð kærunefndarinnar verði talin uppfyllt enda verður ekki séð að þörf sé á að endurskoða hina kærðu ákvörðun til að tryggja hagsmuni drengsins. Með vísan til þessa er það mat kærunefndarinnar að ekki séu fyrir hendi skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um að veigamikilar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þá er það mat kærunefndarinnar að þrátt fyrir að nú liggi fyrir endanlegur dómur Hæstaréttar í forsjársviptingarmáli kæranda, þar sem hún var svipt forsjá drengsins, hafi ekki þau áhrif að kæra kæranda eigi að vera tekin til meðferðar á þeim grundvelli að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Að þessu virtu verður ekki talið að fram hafi komið veigamiklar ástæður fyrir því í skilningi lagaákvæðisins að kæran verði tekin til meðferðar hjá kærunefndinni.

Kæra kæranda telst samkvæmt framangreindu of seint fram komin. Með vísan til þess ber að vísa málinu frá kærunefnd barnaverndarmála.


Úrskurðarorð

Kæru A vegna sonar hennar, B, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.


Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta