Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 17/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 19. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, og B, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur þeirra, C, nr. 17/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 4. júní 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A og B, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. apríl 2015, vegna umgengni kærenda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við foreldra sína tvisvar sinnum á ári í eina klukkustund í senn undir eftirliti, í lok apríl og lok nóvember. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við foreldra sína A og B, tvisvar á ári, í eina klst. í senn, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Umgengni verði í lok apríl og lok nóvember ár hvert. Vegna ungs aldurs telpunnar verði fósturforeldrar viðstaddir umgengnina eins lengi og þurfa þykir. Skilyrði er að foreldrar séu edrú og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Foreldrar mæti saman í umgengni séu þau í sambúð en slitni upp úr sambúð verði umgengni við báða foreldra sama dag. Þá sendi fósturforeldrar foreldrum ljósmyndir 2x á ári. Símtöl á heimili eru ekki heimiluð.

Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni þeirra við stúlkuna, C, verði að minnsta kosti ákveðin fjórum sinnum á ári, helst annan hvern mánuð.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra kemur fram í tölvupósti þeirra 11. ágúst 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að þau telji hæfilega umgengni vera að hámarki tvisvar sinnum á árinu í eina klukkustund í senn undir eftirliti og að fósturforeldrum viðstöddum.

I. Málavextir

Stúlkan C fæddist X og er því rúmlega X gömul. Hún lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur en kærendur voru svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X. Stúlkan var vistuð utan heimilis X gömul vegna óviðunandi heimilisaðstæðna hjá kærendum. Hún var vistuð á Vistheimili barna frá 10. febrúar 2014 vegna alvarlegs neysluvanda kæranda A, þar til stúlkan fór í fóstur til núverandi fósturforeldra 15. mars 2014 þar sem hún er enn í fóstri.

Mál C var lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. apríl 2014 og kveðinn upp úrskurður um vistun hennar utan heimilis til X. Samhliða því var borgarlögmanni falið að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gera kröfu um forsjársviptingu kærenda.

Samkvæmt gögnum málsins óskuðu kærendur eftir umgengni við stúlkuna 21. maí 2014. Beiðnin var um umgengni í eitt skipti en áskilinn var réttur til að óska eftir aukinni umgengni í framhaldinu. Umgengni fór fram undir eftirliti í eina klukkustund í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og voru fósturforeldrar viðstaddir. Foreldrar mættu í vímuefnapróf fyrir umgengnina sem var sent til frekari greiningar til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Kom síðar í ljós að þau mældust bæði jákvæð fyrir rítalíni. Umgengnin við kærendur fór fram 26. maí 2014 og gekk vel.

Samkvæmt gögnum málsins barst Barnavernd Reykjavíkur erindi frá lögmanni kærenda 7. júlí 2014 þar sem fram kom að kærandi A óskaði eftir umgengni við stúlkuna á meðan málið væri rekið fyrir héraðsdómi. Var beiðnin bókuð á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur sem lögðu til að umgengni yrði einu sinni í mánuði í klukkustund, undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og að fósturforeldrum viðstöddum. Kærandi A samþykkti þetta og var gerður samningur um umgengnina. Kærandi A nýtti sér umgengni með þessum hætti í júlí og ágúst og gekk vel að sögn starfsmanna Barnaverndar. Hún óskaði ekki eftir umgengni í september.

Lögmaður kærenda lagði fram beiðni fyrir þeirra hönd um reglulega umgengni 25. febrúar 2015. Málið var bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 3. mars 2015 og lagt til að umgengni yrði tvisvar á ári í eina klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar. Þá var lagt til að fósturforeldrar væru viðstaddir umgengni og að kærendur fengju sendar þrjár ljósmyndir tvisvar á ári. Var bókun af fundinum send lögmanni kærenda ásamt samningi um umgengni til undirritunar fyrir kærendur. Þann 26. mars 2015 barst Barnavernd Reykjavíkur tölvupóstur frá lögmanninum þar sem fram kom að kærendur hefðu orðið sár og leið yfir þeirri litlu umgengni sem lögð var til á meðferðarfundinum og vildu fá umgengni oftar. Var lögmanninum í framhaldi tilkynnt að málið yrði lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðar þar sem ekki hefði náðst samkomulag um umgengnina.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur og lá þá fyrir greinargerð starfsmanna með fyrrnefndri tillögu um umgengni. Hinn 14. apríl 2015 kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp hinn kærða úrskurð.

II. Afstaða kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur telja að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að takmarka umgengnisrétt þeirra við C svo mjög sem gert hafi verið. Kærendur hafi lagt fram mjög hógværa kröfu um umgengni og hafi óskað eftir umgengni fjórum sinnum á ári. Áður hafi þau þó óskað eftir umgengni annan hvern mánuð. Með meiri umgengni gætu þau fylgst betur með uppvexti dóttur sinnar án þess að hagsmunum hennar væri raskað. Jafnframt væri með meiri umgengni svigrúm til að dóttir þeirra fengi að kynnast bræðrum sínum og þeir henni en þeir viti af tilvist hennar og skilji ekki hvers vegna þeir fái ekki að hitta hana. Það geti ekki verið markmið barnaverndarnefndar að útiloka barnið frá því að kynnast bræðrum sínum enda eigi börnin rétt á því að kynnast og þekkja systkini sín, foreldra og nánustu fjölskyldu.

Eins og fram komi í gögnum málsins hafi kærendur átt við vímuefnavanda að stríða um þó nokkurt skeið en þó með mörgum löngum hléum og edrúmennsku inn á milli. Áður en kærandi A hafi hafið að nýju vímuefnaneyslu í febrúar 2014, stuttu eftir fæðingu dóttur hennar, hafi hún verið edrú í fjögur ár.

Kærendur búi saman í dag á E og séu edrú og hafi verið frá því í október 2014. Þau séu tekin í óboðuð vímuefnapróf og engin óregla eða vímuefnaneysla hafi komið upp á þeim tíma. Þau hafi staðið sig vel og hjá þeim hafi gengið vel frá því í október 2014.

Kærandi B eigi fyrir soninn F sem sé X ára gamall og búi hjá móður sinni. Drengurinn komi í reglulega umgengni til kæranda og njóti kærandi fulls trausts barnsmóður sinnar og móðurömmu drengsins.

Kærandi A eigi fyrir soninn G sem sé X ára gamall. Faðir drengsins hafi svipt sig lífi í maí 2015 en engin tengsl hafi verið á milli þeirra. Kærandi A hafi ávallt farið ein með forsjá drengsins og séð að mestu um uppeldi hans frá fæðingu. Milli þeirra séu góð og mikil tengsl. Aldrei hafi komið til álita að svipta hana forsjá drengsins þrátt fyrir að kærandi A hafi hrasað af og til í lífinu. Drengurinn hafi verið vistaður hjá stjúpafa sínum í H, með samþykki kæranda A, frá því í febrúar 2014, en hafi margítrekað lýst því yfir að hann vilji búa hjá móður sinni. Drengurinn hafi verið í reglubundinni umgengni hjá kærendum. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. júní 2015 hafi verið tekin fyrir tillaga starfsmanna barnaverndarnefndarinnar þess efnis að tímabundnu fóstri drengsins lyki í júní og að drengurinn flytti þá alfarið til kærenda á E.

Þrátt fyrir að kærendur hafi verið svipt forsjá stúlkunnar búi þau bæði yfir góðum kostum sem foreldrar haldi þau sig frá vímuefnum. Kærendur njóti fulls trausts starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þrátt fyrir forsjársviptinguna. Þar sem forsenda umgengni kærenda við stúlkuna sé að þau séu edrú ætti ekki að vera varhugavert að þau fái að umgangast barnið meira enda muni þau gangast undir vímuefnapróf fyrir hverja umgengni. Með því móti séu hagsmunir stúlkunnar tryggðir að því leyti en kærendur telji það mjög mikilvægt fyrir sig og stúlkuna að viðhalda þeim kynnum í framtíðinni og ná tengslum við hana. Báðir kærendur eigi börn fyrir sem þau séu í miklum tengslum við og þekki þau vel móður- og föðurtilfinningu og þörf barna sinna að vera í návistum við foreldra sína. Áréttað sé að stúlkan eigi tvo hálfbræður og það sé mikilvægt fyrir öll börn að tengjast systkinum sínum. Það sé ljóst að því verði ekki við komið með svo takmarkaðri umgengni eins og ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Þrátt fyrir að kærendur hafi misst forsjá stúlkunnar réttlæti það ekki svo litla umgengni við barnið eins og raun beri vitni. Í sálfræðilegri matsgerð J frá 18. ágúst 2014 komi fram að kærandi A sé hæfur forsjáraðili haldi hún sig frá vímuefnum og starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur telji hana hæfa til að sjá um eldri drenginn. Það sé því ekki hægt að setja samasemmerki á milli þess að vera sviptur forsjá og njóta umgengni við barn.

Þetta sjónarmið megi finna í Hrd. 1999, bls. 1511 (511/1998) en þar hafi verið felldur í gildi úrskurður barnaverndarráðs Íslands 10. júní 1998 þess efnis að kona sem svipt hafði verið forsjá yfir syni sínum hafi einungis verið heimiluð umgengni í eina og hálfa klukkustund á ári. Þar segi meðal annars: „Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 58/1992 [sbr. núgildandi barnaverndarlög nr. 80/2002] kemur fram, að brýnt sé að lögfesta umgengnisrétt barns í fóstri við kynforeldra sína enda muni almennt talið að um raunverulegan rétt barnsins sé að ræða. Þá segir að í reynd sé alltaf reynt að viðhalda tengslum milli barns og kynforeldris og sé það aðallega vegna hagsmuna barnsins enda talinn réttur þess. Viðkomandi barnaverndarnefnd verði að komast að niðurstöðu um hvort það þjóni hagsmunum barns að umgangast foreldranna eða hvort sá kostur sé ef til vill óraunhæfur eða jafnvel skaðlegur. Með umgengni sé komið í veg fyrir að samband barns við kynforeldra sína verði rofið en þrátt fyrir þá annmarka foreldra, sem hljóti að hafa leitt til þess að barnið var vistað utan heimilis, geti þetta samband verið þroska barnsins afar mikilvægt. Meginreglan hljóti að vera sú, að barn í fóstri umgangist kynforeldra sína nema slíkt sé andstætt þörfum og hagsmunum barnsins.

Við meðferð umgengnismála […] verður að líta til þessara sjónarmiða, ekki aðeins við mat á því hvort umgengni skuli fara fram, heldur einnig við afmörkun á henni að öðru leyti. Hvorki í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 16. september 1997 né úrskurði barnaverndarráðs 10. júní 1998 er að finna nægilegan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að takmarka umgengni stefndu við son sinn svo mjög sem gert var. Í úrskurði barnaverndarráðs var umgengnin takmörkuð við eina og hálfa klukkustund á ári og skyldu þau hittast í húsnæði félagsmálastofnunar. Þá voru símhringingar einungis heimilaðar á afmælisdegi drengsins en ekki að öðru leyti, hvorki á fósturheimili né leikskóla hans. Loks voru gjafir heimilaðar í tengslum við jól og afmælisdag drengsins en ekki þess utan. Hefur ekki verið sýnt fram á réttmæti þessara ákvarðana við meðferð málsins fyrir dómstólum. Í álitsgerð hinna dómkvöddu matsmanna tóku þeir sérstaklega fram að mat þeirra um vanhæfi stefndu til að fara með forsjá sonar síns fæli ekki í sér það álit að óæskilegt væri að hún hefði nokkra umgengni við hann. Svipuð viðhorf komu fram í niðurstöðum K geðlæknis. Verður samkvæmt þessu fallist á varakröfu stefndu að því leyti að úrskurður barnaverndarráðs Íslands 10. júní verður felldur úr gildi.“

Kærendur telji að hvorki í hinum kærða úrskurði né í tillögu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2015 sé að finna nægilegan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun að takmarka umgengni kærenda við dóttur þeirra svo mjög sem gert hafi verið. Í hinum kærða úrskurði hafi umgengni verið takmörkuð við eina klukkustund í senn, tvisvar á ári, í húsnæði barnaverndarnefndar að viðstöddum fósturforeldrum. Engar símhringingar séu heimilar. Að mati kærenda hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti þessarar ákvarðana við meðferð málsins.

Í forsjársviptingarmálinu sjálfu, sem leitt hafi verið til lykta með dómi Hæstaréttar X, hafi legið fyrir ítarleg sálfræðileg matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem fram komi meðal annars að kærandi A búi yfir viðunandi forsjárhæfni og getu til að búa börnum sínum viðeigandi uppeldisskilyrði en það sé algerlega háð því að hún haldi áfengis- og vímuefnabindindi. Þrátt fyrir að kærandi A hafi verið svipt forsjá dóttur sinnar feli það ekki í sér að óæskilegt sé að hún hafi nokkra umgengni við barnið enda komi fram í matsgerðinni að hún búi yfir mörgum góðum kostum og sé í raun talin hæfur forsjáraðili. Í matsgerðinni komi jafnframt fram að styrkleikar kæranda B í uppeldislegu tilliti séu nokkrir og virðist hann fær um að mynda tilfinningaleg tengsl og taka ábyrgð á hagsmunum barna sinna þegar illa gangi.

Að mati kærenda byggi barnaverndarnefnd Reykjavíkur niðurstöðu sína á þeim sjónarmiðum að rjúfa öll tengsl við foreldra, systkini og fjölskyldu. Slíkt sjónarmið sé ólögmætt enda andstætt meginreglu barnaverndarlaga sem gangi út á það að halda fjölskyldum saman. Þá sé það einnig í andstöðu við 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem segi meðal annars að barn eigi rétt til að þekkja foreldra sína, sbr. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskrifta, og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem segi að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þetta séu grundvallarmannréttindi sem vikið hafi verið frá með því að svipta foreldra forsjá yfir barni sínu. Hagsmunir barnsins hafi verið teknir fram yfir hagsmuni foreldra að því leyti en í því felist ekki að halda eigi barninu frá tengslum við kynforeldra. Varðandi umgengni við kynforeldra eigi allt önnur sjónarmið að ráða.

Samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli K eigi markmiðið að vera að sameina fjölskyldur á ný. Af því megi leiða að ganga eigi eins skammt og unnt sé að halda börnum frá tengslum við kynforeldra.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki rökstutt hvers vegna þörf sé á að takmarka umgengni með þessum hætti. Barnaverndarnefndin telji að barnið muni skaðast án þess að rökstyðja það. Þvert á móti telji kærendur að mun meiri líkur séu á því að barnið muni skaðast af þessari ráðstöfun, sér í lagi þegar það sé komið á unglingsárin og vilji þekkja uppruna sinn og átti sig á því að það hafi farið á mis við kynni við fjölskyldu sína. Er því krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni við barnið C verði að minnsta kosti fjórum sinnum á ári, helst annan hvern mánuð.

III. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. júní 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri og ekki sé annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kærenda til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verður lögráða sé umgengni yfirleitt mjög takmörkuð. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 14. apríl 2015 að mikilvægt sé að skapa C stöðugleika og öryggi. Hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni C að leiðarljósi geri barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Kærunefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra C. Í tölvupósti þeirra 11. ágúst 2015 kemur fram að stúlkan sé í varanlegu fóstri og því þjóni umgengni einkum þeim tilgangi að kærendur fái tækifæri til þess að sjá hvernig hún vaxi og dafni og þegar fram líði stundir að hún þekki til uppruna síns. Í ljósi þess að stúlkan sé viðkvæm, hafi ríka þörf fyrir rútínu og nálægð við þá sem standi henni næst telji þau afar mikilvægt að raska ró hennar sem minnst. Með því að halda stöðugleikanum eflist hún frekar og öðlast öryggi. Með hagsmuni hennar að leiðarljósi ítreki þau fyrri afstöðu sem lögð hafi verið fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Þau hafi borið upp þá tillögu að umgengni yrði að hámarki tvisvar sinnum á ári, einu sinni að vori og síðar á hausti þannig að kynforeldrar gætu fylgst með þroskaframförum. Hæfilegur tími sé ein klukkustund í senn vegna þroska stúlkunnar og aldurs, undir eftirliti og að fósturforeldrum viðstöddum stúlkunni til halds og trausts. Nú þegar einni umgengni sé lokið samkvæmt síðasta úrskurði komi berlega í ljós að stúlkan þurfi stuðning til þess að geta verið í nálægð við kærendur og í lok tímans hafi verið komið að hennar þolmörkum. Fósturforeldrar telja því að fyrri afstaða þeirra sé fyllilega í samræmi við heildarhagsmuni stúlkunnar.

V. Niðurstaða

C er rúmlega X gömul stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, M og N, frá því 15. mars 2014. Kærendur voru svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X. Með hinum kærða úrskurði var umgengni kærenda við stúlkuna ákveðin tvisvar á ári í eina klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Jafnframt er sett það skilyrði að kærendur séu allsgáðir og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Þá sendi fósturforeldrar kærendum ljósmyndir tvisvar á ári og símtöl eru ekki heimiluð.

Mál þetta lýtur að kröfum kærenda um rýmri umgengni við C. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri og umgengni verður ekki ákveðin ef hún er bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur eins og lýst hefur verið hér að framan. Hagsmunir ungs barns, eins og hér um ræðir, sem bjó á fyrstu mánuðum ævi sinnar við ótryggar og óviðunandi aðstæður, eru þeir að njóta öryggis og umönnunar traustra forsjáraðila. Barnið hefur miðað við þann stutta tíma er það var hjá kærendum fyrstu vikur ævinnar ekki náð að mynda nokkur tengsl við þá sem máli geta skipt fyrir barnið og þroska þess. Barnið er nú í varanlegu fóstri en markmiðið með þeirri ráðstöfun er að tryggja barninu varanlegt öryggi í uppvextinum. Mikilvægt er að barnið verði fyrir sem minnstum truflunum í fóstrinu á því viðkvæma þroskaskeiði sem það er nú á. Hagsmunir barnsins á þessu stigi eru ekki þeir að mynda tengsl við kærendur eða tvo hálfbræður sína sem barnið þekkir ekki. Síðar getur komið til þess að barnið vilji kynnast upprunafjölskyldu sinni þegar það hefur aldur og öðlast þroska til en ekki er tímabært að slíkt verði lagt til grundvallar við þá úrlausn sem hér um ræðir. 

Með vísan til þeirra lagalegu sjónarmiða sem taka verður mið af samkvæmt framangreindu við úrlausn málsins ber að takmarka umgengni kærenda við barnið verulega. Hagsmunir kærenda af því að fá að fylgjast betur með uppvexti dóttur sinnar með rýmri umgengni en ákveðin hefur verið verða að víkja fyrir þessum ríku hagsmunum stúlkunnar. Hvort kærendur geti haldið áfengis- og vímuefnabindindi skiptir að mati kærunefndarinnar ekki máli við úrlausn á þessum hagsmunum barnsins. Verður að telja að umgengni kærenda við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin með hinni kærðu ákvörðun. Með þeirri umgengni sem ákveðin var er stuðlað að því að ekki verði rofin öll tengsl milli stúlkunnar, kærenda og fjölskyldu þeirra, eins og kærendur halda fram að gert hafi verið. Samkvæmt því ber að hafna þeim staðhæfingum kærenda.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. apríl 2015 varðandi umgengni A og B við dóttur þeirra, C, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta