Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 94/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 94/2024

Föstudaginn 7. júní 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 23. febrúar 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs B frá 29. janúar 2024 um synjun kröfu kæranda um endurupptöku úrskurðar umdæmisráðs B frá 12. desember 2023 vegna umgengni kæranda við dóttur hennar, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul dóttir kæranda. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Landsréttar X 2022. Faðir fer einn með forsjá stúlkunnar og hefur hún búið hjá honum og stjúpmóður frá því í nóvember 2020. Haustið 2022 féll faðir á vímuefnabindindi og hefur stúlkan síðan þá búið hjá stjúpmóður.  

Á grundvelli úrskurðar umdæmisráðs B frá 12. desember 2023 hafa börnin haft umgengni við kæranda annan hvern mánuð í allt að 1,5 klst. í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum B. Alls sex sinnum á ári. Skilyrði fyrir umgengi sé að kærandi sé edrú og í jafnvæfi að mati starfsmanna B. Kærandi skal undirgangast vímuefnapróf áður en umgengni fer fram. Kæranda sé heimilt að hringja í stúlkuna á eftirfarandi dögum: á afmæli stúlkunnar þann X ár hvert, afmæli kæranda þann X ár hvert, afmæli móðurafa þann X ár hvert, jóladag þann 25. desember ár hvert, á gamlársdag þann 31. desember ár hvert og á páskadag ár hvert, í allt að 20 mínútur í senn.

 

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins barst B með bréfi lögmanns, dags. 14. desember 2023. Óskað var endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á úrskurði umdæmisráðs frá 12. desember 2023. Fram kemur í beiðni um endurupptöku úrskurðar að mistök hafi átt sér stað hjá lögmanni kæranda þannig að greinargerð hennar hafi ekki verið send til umdæmisráðs fyrr en eftir að úrskurður í málinu lá fyrir 12. desember 2023.

Þann 29. janúar 2024 var beiðni kæranda tekin fyrir hjá umdæmisráði B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Hafnað er kröfu A, um að úrskurður umdæmisráðs B í máli C, verði endurupptekinn.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 5. mars 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 19. mars 2024, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. mars 2024. Athugasemdir lögmanns bárust með bréfi, dags. 28. [mars] 2024 og voru þær sendar B til kynningar með bréfi, dags. 3. apríl 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærandi krefjist þess að felldur verði úr gildi úrskurður umdæmisráðs B frá 29. janúar 2024 og fallist verði á kröfu kæranda sem lagðar voru fyrir umdæmisráðið með greinargerð kæranda, dags. 17. nóvember 2023 þess efnis að umgengni hennar við dóttur sína fari fram 12 sinnum á ári, einu sinni í mánuði með þeim hætti að hún fari áfram fram í húsnæði á vegum B í tvær klukkustundir í senn og undir eftirliti fyrst um sinn. Þá krefst hún þess að símtölum milli kæranda og dóttur hennar verði fjölgað, þau verði vikuleg í allt að 20 mínútur í senn og að símtöl fari fram í daglegu skólaumhverfi stúlkunnar, með aðstoð tengiliðar stúlkunnar en ekki á vistunarheimili.

Til vara sé þess krafist að felldur verði úr gildi úrskurður umdæmisráðs B frá 29. janúar 2023 og fallist verði á kröfu kæranda þess efnis að úrskurður umdæmisráðs frá 12. desember 2023 verði endurupptekinn, sbr. beiðni kæranda þess efnis dags. 14. desember 2023.

Í greinargerð kæranda segir að rétt sé með farið í greinarger að mál stúlkunnar hafi verið unnið með hléum um margra ára skeið eða allt frá árinu 2014. Kærandi hafi glímt við vímuefnafíkn árum saman og hafi það leitt til þess að hún var svipt forsjá stúlkunnar í E sem staðfest var með dómi Landsréttar í X 2022. Faðir hafi í kjölfarið farið einn með forsjá stúlkunnar og bjó hún á heimili hans og þáverandi eiginkonu hans allt þar til hann féll sjálfur á vímuefnabindindi sínu sama haust og dómur var kveðinn upp í Landsrétti, árið 2022. Hann hafi verið í virkri neyslu, með hléum upp frá því og skildu þau eiginkona hans haustið 2023. Stúlkan hafi verið vistuð á heimili fyrrverandi eiginkonu föður frá þeim tíma.

Kærandi telur mikilvægt að vekja athygli úrskurðarnefndar á þessu því nauðsynlegt sé að hafa í huga tímaramma málsins í heild. Þegar umdæmisráð B tilgreini 49 tilkynningar vegna vímuefnaneyslu kæranda þá hafi umræddar tilkynningar verið á tímabilinu frá því áður en málið kom til vinnslu barnaverndar árið 2014 og þar til hún varð edrú árið 2022. Staðreynd málsins sé sú að kærandi fór í vímuefnameðferð á Vog og í framhaldsmeðferð á Vík frá X til X 2022 og hafi að [eigin] sögn verið edrú frá þeim tíma. Barst B bréf frá meðferðarheimilinu Vík í september sama ár þar sem lýst hafi verið góðri meðferðarheldni kæranda og hvernig hún sýndi hvort tveggja í senn mikla ábyrgð og „mótiveringu gagnvart bata sínum“. Um þetta megi lesa í greinargerð B dags. 14. nóvember 2023 sem lögð hafi verið fyrir fund Umdæmisráðs B 21. nóvember 2023. Kærandi sinni viðhaldsmeðferð sinni vel, mæti vikulega á sjúkrahúsið Vog til eftirfylgni og fái því afar gott utanumhald. Kærandi hafi þannig haldið sig frá vímuefnum frá X júlí 2022.Það mál sem hér sé fjallað um varði umfang umgengni kæranda við dóttur sína og verður ekki um það fjallað án þess að hafa í huga rétt til umgengni og tilgang hennar. Er þannig hvorki fjallað um forsjá, búsetu eða annað heldur umgengni. Kærandi hafi verið svipt forsjá með úrskurði héraðsdóms sem staðfestur hafi verið með dómi Landsréttar í september 2022, eftir að hún varð edrú. Frá þeim tíma, eða í nærri tvö ár hefur kærandi einhliða gert það sem hún getur til að byggja upp sitt líf og rækta tengsl sín við dóttur sína. Hún og dóttir hennar hafa frá þeim tíma notið verulega skertrar umgengni og lítið sem ekkert verið gert til að byggja upp traust þeirra á milli eftir það sem áður hafði gerst í lífi þeirra. Hefur kærandi frá þeim tíma ítrekað óskað eftir að fenginn verði sálfræðingur til að aðstoða mæðgurnar við uppbyggingu sambands þeirra. Hún hafi óskað eftir sálfræðingi fyrir stúlkuna hjá SÁÁ, sem sérhæfir sig í aðstoð við börn fíkla og hafi hún jafnframt óskað eftir að umgengni verði samhliða þessu aukin og þurfi ekki alltaf að fara fram í húsnæði á vegum barnaverndar. Því miður þá hafi B ekki orðið fyrir þessum ítrekuðu beiðnum og ekki sinnt því að veita stúlkunni þá nauðsynlegu aðstoð sem hún þarf, ekki síst eftir að forsjáraðilinn féll á sínu vímuefnabindindi og hvarf úr lífi stúlkunnar haustið 2022. Barnavernd hafi varið neikvæða afstöðu sína með því að stúlkan vilji ekki njóta aðstoðar sálfræðings, hvorki fyrir sig né þær mæðgur. Hún hafi verið spurð að þessu þegar hún var tíu ára gömul og yngri og ekki í neinni aðstöðu til að þekkja til þess góða starfs sem fram fer hjá SÁÁ til aðstoðar börnum vímuefnasjúklinga. Þannig hafi Barnavernd einnig varið neikvæða afstöðu sína til uppbyggingar á sambandi og samskiptum kæranda og stúlkunnar með því að stúlkan vilji ekki að umgengni eða símtöl séu með öðrum hætti en barnavernd hafi fyrirskipað.

Kærandi sé þess fullviss að það yrði stúlkunni fyrir bestu að fá notið reglulegri og ríkulegri umgengni við kæranda en nú sé. Þær aðstæður sem þeim sé gert að hittast í séu ekki þeirra náttúrulega umhverfi heldur húsnæði á vegum B. Umgengni eigi sér einungis stað í eina og hálfa klukkustund á tveggja mánaða fresti og telur kærandi þann tíma alls ekki fullnægjandi til að hægt sé að byggja upp traust að nýju, sér í lagi þar sem engin viðbótaraðstoð hafi verið boðin af fagaðilum svo hægt sé að vinna í tengslamyndun og trausti milli mæðgnanna með faglegum hætti. Þá kveður kærandi þá erfiðleika sem voru á vistheimili stúlkunnar, fyrst vegna falls föður hennar á vímuefnabindindi sumarið 2022 og svo ítrekað misserin á eftir sem leiddi til flutnings föður út af heimilinu og skilnaðar við vistmóður lita samband stúlkunnar við kæranda. Kærandi hafi ítrekað fengið afar neikvætt viðmót frá vistmóður sem augljóslega eigi í erfiðum samskiptum við föður stúlkunnar. Telur hún að vistmóðir kenni kæranda að hluta til um erfiðleika föður við að halda sér edrú og að hún láti neikvætt viðhorf sitt til beggja foreldra stúlkunnar bitna á stúlkunni.

Kærandi telur afar mikilvægt að barnavernd taki nú þátt í því nauðsynlega uppbyggingarstarfi í lífi stúlkunnar sem kærandi vill fara í. Nú þegar faðir stúlkunnar hefur ítrekað fallið á sínu bindindi sé enginn nákominn eftir í lífi stúlkunnar sem gætt geti hennar fyllstu hagmuna annar en kærandi. Því þurfi að eiga sér stað raunveruleg uppbygging og það verði ekki gert með því að halda áfram þeirri mjög svo takmörkuðu umgengni í ókunnugu húsi eins og verið hefur. Löngu sé orðið tímabært að taka næsta skref, og hefja virkt uppbyggingarstarf svo tengsl mæðgnanna geti áunnist.

Kærandi gerir sér grein fyrir að það næst ekki á stuttum tíma heldur sé langtímaverkefni en það þurfi að hefjast af alvöru. Þess vegna hafi hún fallið frá kröfu sinni um að umgengni færi fram á hennar heimili og fallist á að umgengni færi áfram til skamms tíma fram í húsnæði á vegum barnaverndar en að tími umgengni yrði lengdur í tvær klukkustundir og að skiptum yrði fjölgað þannig að þau yrðu mánaðarleg en ekki á tveggja mánaða fresti. Með auknu trausti sé svo hægt að aðlaga umgengni að heimili kæranda.

Þá telur kærandi mjög mikilvægt að símtöl mæðgnanna eigi sér stað á hlutlausum stað með aðstoð fagaðila, svo sem tengiliðar stúlkunnar í skólanum. Símtöl falli of oft niður vegna fyrirstöðu vistmóður. Langoftast eigi sér stað átök í bakgrunni þegar þær mæðgur tali saman, stúlkan verði ítrekað fyrir truflunum af hálfu vistmóður þegar þær eiga í sínum stuttu samtölum og mun betra sé að hún fái að njóta þessara samtala í hlutlausu umhverfi á miðjum degi, þegar hún sé ekki á leið í einhverja skemmtun eða tómstundir um helgar. Nægur tími og góðar aðstæður séu í skólanum til þess að leyfa þessi símtöl sem þá geti orðið afslappaðri og í friði frá utanaðkomandi áreiti. Því krefst kærandi þess að fallist verði á þá tillögu sína.

Samkvæmt meginreglum barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber barnavernd að beita vægustu ráðstöfunum sem mögulegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að og grípa aðeins til íþyngjandi ráðstafana verði lögmæltum markmiðum ekki náð með öðru og vægara móti. Skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Kærandi telur að með áframhaldandi skertri umgengni sé barnavernd í störfum sínum að koma í veg fyrir nauðsynleg tengsl kæranda og dóttur hennar og viðhalda því tengslarofi sem hafi orðið á undanförnum árum. Þær séu þrátt fyrir allt nánar en uppbygging verði að eiga sér stað og það muni ekki gerast ef ekki verði breyting á fyrirkomulagi umgengni og samskipta á næstu mánuðum. Dóttir kæranda sé á viðkvæmum aldri við upphaf unglingsára þar sem sjálfsmynd hennar sem hluta af fjölskyldu skiptir miklu máli. Með svo takmarkaðri umgengni sé verið að lengja þann tíma sem tengslarof varir og minnka líkurnar á að mæðgurnar geti átt ríkulegt og gott samband út ævina. Telur hún áframhaldandi skerðingu á umgengni vera brot á meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sem sé grundvallarregla. Kærandi telji að með samþykki sínu fyrir áframhaldandi umgengni í húsnæði á vegum barnaverndar sýni að hún vilji gera allt til að vera í góðu samstarfi við barnavernd en að barnavernd verði að sýna að þar sé vilji til að hefja það uppbyggingarstarfs sem sé nauðsynlegt barninu. Ítrekar hún því áður framsettar kröfur sínar um breytingar á fyrirkomulagi umgengni hennar við dóttur sína.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B kemur fram að mál stúlkunnar hafi verið unnið með hléum hjá B frá árinu 2014 vegna vímuefnaneyslu kæranda og hafi alls borist 49 tilkynningar vegna vanrækslu og vímuefnaneyslu kæranda. Kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar í E þann X 2022 og staðfesti Landsréttur úrskurðinn þann X 2022. Faðir stúlkunnar hafi frá þeim tíma einn farið með forsjá stúlkunnar og hafi málið verið unnið áfram á grundvelli 70. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 m.a. til að tryggja kæranda umgengni við stúlkuna. Stúlkan hafi dvalið á heimili föður og stjúpmóður sinnar frá því í nóvember 2020 en faðir féll á vímuefnabindindi haustið 2022 og hafi ekki náð sér á strik. Faðir flutti af heimilinu 2022/2023 og hafi málefni stúlkunnar til verið vinnslu hjá F. Í samráði við F tók B aftur við vinnslu málsins í desember 2023.

Varðandi forsögu málsins sé vísað til úrskurðar umdæmisráðs frá 12. desember 2023 og 29. janúar 2024 ásamt greinargerð starfsmanna, dags. 14. nóvember 2023 sem lögð hafi verið fyrir umdæmisráð vegna málsins.

Þann 19. september 2023 hafi umgengni kæranda við stúlkuna verið bókuð á meðferðarfundi starfsmanna B. Kærandi hafði þá óskað eftir aukinni umgengni og að umgengni yrði ekki í húsnæði B. Umgengni fram að því hafði verið skv. samkomulagi við móður frá 2. nóvember 2022 um að umgengni yrði annan hvern mánuð, alls sex skipti á ári, undir eftirliti og í húsnæði B. Þá voru myndsímtöl annan hvern sunnudag í 20 mínútur. Í bókun komi fram það mat starfsmanna að mikilvægt væri fyrir stúlkuna að eiga umgengni við móður sína en mikilvægt væri að umgengni færi fram með hagsmuni og óskir stúlkunnar í fyrirrúmi. Í talsmannskýrslu stúlkunnar, dags. 19. september 2023 komi fram að hún vildi horfa á bíómynd eða spila með móður í umgengni en ekki tala saman. Sagði stúlkan móður sína tala stundum um erfiða hluti. Stúlkan greindi frá því að vilja hafa umgengni áfram á sama stað í húsnæði hjá barnavernd og sagðist þá vilja hafa áfram tvo aðila viðstadda umgengni.

Starfsmenn lögðu til í bókun þann 19. september 2023 að umgengni yrði áfram annan hvorn mánuð í alls sex skipti yfir árið, í allt að 1,5 klst. í senn. Umgengni yrði undir eftirliti í húsnæði B. Starfsmenn töldu mikilvægt að stúlkan upplifði öryggi og að fylgst sé með samskiptum þeirra til að halda áfram að byggja upp traust. Kom fram að markmiðið væri að auka umgengni í framtíðinni en starfsmenn töldu ekki hægt að fara fram úr vilja stúlkunnar að svo stöddu. Þá hafi verið bókað um myndsímtöl eða símtöl eins og stúlkan hafði óskað eftir, á afmælisdögum og um stórhátíðir, í allt að 20 mínútur í senn. Þá virtist stúlkan óviss með hversu oft hún vildi hitta móður sína, fyrst sagði hún fimm skipti á ári en svo einu sinni í mánuði. Að lokum sagði stúlkan fimm sinnum á ári.

Kærandi samþykkti ekki tillögur starfsmanna og tók umdæmisráð B málið til úrskurðar þann 12. desember 2023 í samræmi við tillögur starfsmanna. Í greinargerð starfsmanna, dags. 14. nóvember 2023 kom m.a. fram að tillögur starfsmanna væri í samræmi við vilja stúlkunnar en stúlkan hafi einnig viljað að umgengni yrði undir eftirliti og í húsnæði Barnaverndar. Töldu starfsmenn það ekki hagsmuni stúlkunnar að leggja til aukna umgengni umfram það sem stúlkan vilji. Stúlkan sé X ára gömul og hafi verið skýr í vilja sínum til umgengni en starfsmaður hafi heimsótt stúlkuna alls fjórum sinnum á tímabilinu frá 14. júní 2022 til 14. nóvember 2023. Þá hafi vilji stúlkunnar jafnframt komið skýrt fram í skýrslu talsmanns og listmeðferðarfræðings. Varðandi eftirlit þá hafi stúlkan verið ákveðin að vilja eftirlit með umgengni en það veitir henni öryggi. Starfsmenn tóku undir það að mikilvægt væri að hafa umgengni undir eftirliti til að stúlkan upplifi öryggi og að fylgst sé með samskiptum þeirra til að áfram sé hægt að byggja upp traust þeirra á milli. Á tímabili náðist að skapa traust hjá stúlkunni gagnvart kæranda en eftir umgengni í júní 2023 brást það. Kærandi hafi einnig átt auka umgengni við stúlkuna á jóladag 2022 án eftirlits. Stúlkan hafi ekki átt góða upplifun af þeirri umgengni og hafi lýst því að vilja ekki vera án eftirlits í umgengni við kæranda. Stúlkan hafi áður óskað eftir því við starfsmann að kærandi fái ekki þær upplýsingar sem stúlkan gefur starfsmanni vegna hræðslu við að kærandi ræði það við hana eða verði sár. Þá hafi stúlkan lýst vantrausti til meðferðaraðila þar sem upplýsingar hafa ratað til kæranda. Stúlkan hafi þó gefið starfsmanni leyfi til að upplýsingar verði opinberaðar gagnvart kæranda.

Í úrskurði ráðsins hafi komið fram að umdæmisráð taki undir mat starfsmanna Barnaverndar. Stúlkan njóti nú stöðugleika og öryggis, sem henni sé nauðsynlegt og hún eigi rétt á. Þá hafi verið horft til þess að stúlkan hafi verið skýr í afstöðu sinni til umgengni. Stúlkan vilji umgengni en undir eftirliti. Þá hafi komið fram í úrskurði þann 12. desember 2023 það mat ráðsins að það væri stúlkunni ekki talið til hagsbóta að auka eða breyta tilhögun umgengni við kæranda og þá hafi verið sérstaklega horft til vilja stúlkunnar og ekki talið henni til hagsbóta að þvinga hana meira í umgengni við kæranda en hún óskar eftir.

Þann 14. desember 2023 barst B erindi umdæmisráðs B þess efnis að ráðinu hafði borist beiðni um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 frá lögmanni kæranda á úrskurði ráðsins. Beiðni um endurupptöku hafi verið byggð á því að greinargerð lögmanns kæranda hafi ekki skilað sér til umdæmisráðs áður en úrskurður hafi verið kveðin upp. Fól umdæmisráð Barnavernd að kynna fyrir föður og stjúpmóður stúlkunnar sem sé í dag hennar vistunaraðili, framkomna beiðni. Í erindi B til umdæmisráðs þann 21. desember 2023 kom fram að stjúpmóðir kvaðst ekki setja sig upp á móti endurupptöku. Faðir hafði svarað Barnavernd þann 20. desember 2023 og kvaðst hann vilja óbreytt fyrirkomulag og tekið yrði tillit til vilja stúlkunnar og litið til fyrri dóms vegna málsins. B gerði ekki athugasemdir vegna beiðni lögmanns kæranda um endurupptöku málsins í ljósi þess að greinargerð lögmanns móður hafði ekki legið fyrir þegar úrskurður var kveðinn upp þann 12. desember 2023. Í hinum kærða úrskurði þann 29. janúar 2024 hafi kröfu lögmanns kæranda um að úrskurður ráðsins þann 12. desember 2023 yrði endurupptekinn hafnað með úrskurði. Í hinum kærða úrskurði komi fram að umdæmisráð geti ekki fallist á að úrskurður umdæmisráðs frá 12. desember 2023, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Afstaða B vegna umgengni kæranda við stúlkuna hafi ekki breyst frá því að málið hafi verið lagt fyrir fund umdæmisráð B með tillögu um að halda umgengni óbreyttri í alls sex skipti á ári, sbr. bókun meðferðarfundar þann 19. september 2023. Starfsmenn telja afar mikilvægt í þessu máli að tekið sé tillit til vilja stúlkunnar en það getur ekki talist til hennar hagsmuna að gengið sé fram yfir skýran vilja hennar til umgengni. í gögnum málsins hafi skýr vilji stúlkunnar komið fram en skv. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þá ber að taka réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska þegar teknar séu ákvarðanir á grundvelli barnaverndarlaga.

Að öðru leyti er vísað til gagna málsins, þá sérstaklega bókun meðferðarfundar þann 19. september 2023, greinargerð starfsmanna, dags. 14. nóvember 2023 og hinn kærða úrskurð, dags. 29. janúar 2024.

í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé fyrir hönd B gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul dóttir kæranda. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Landsréttar X 2022. Faðir fer einn með forsjá stúlkunnar og hefur hún búið hjá honum og stjúpmóður frá því í nóvember 2020. Frá árinu 2022 hefur stúlkan búið hjá stjúpmóður.  

Kærður er úrskurður umdæmisráðs B um synjun endurupptöku úrskurðar umdæmisráð B frá 12. desember 2023 um umgengni kærenda við stúlkuna. Með fyrrgreindum úrskurði frá 12. desember var ákveðið að umgengni yrði sex sinnum á ári í allt að 1,5 klst. í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum B. Skilyrði fyrir umgengi sé að kærandi sé edrú og í jafnvægi að mati starfsmanna B. Kærandi skal undirgangast vímuefnapróf áður en umgengni fer fram. Kæranda sé heimilt að hringja í stúlkuna á eftirfarandi dögum: á afmæli stúlkunnar þann X ár hvert, afmæli kæranda þann X ár hvert, afmæli móðurafa þann X ár hvert, jóladag þann 25. desember ár hvert, á gamlársdag þann 31. desember ár hvert og á páskadag ár hvert, í allt að 20 mínútur í senn.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um endurupptöku máls. Þar segir í 1. tölul. 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Við mat á því hvort úrskurður umdæmisráðs hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik skal líta til þess hvort um hafi verið að ræða upplýsingar sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skiptu við úrlausn þess. 

Í greinargerð kæranda, dags. 17. nóvember 2023, sem barst umdæmisráðinu eftir að úrskurður lá fyrir í málinu, kemur m.a. fram tillaga kæranda að umgengi einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn en fyrirkomulag umgengni verði hið sama og áður. Þá leggur kærandi til að símtölum verði fjölgað og á ekki á þeim tíma sem hún sé að vistunarheimili heldur fari símtalið fram með aðstoð tengiliðar í skóla. Þá bendir kærandi á að stúlkan hafi óskað eftir að umgengni yrði í tvær klukkustundir en ekki eina klukkustund.

Eins og vikið er að hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn málsins að líta til þess hvort úrskurður umdæmisráðs hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sem byggt var á að höfðu þýðingu við ákvörðun málsins. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um stöðu stúlkunnar verði það ekki talið henni til hagsbóta að auka eða breyta tilhögun umgengni við kæranda. Við mat hafi vegið sérstaklega þungt vilji og afstaða stúlkunnar sjálfrar. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru því ekki hægt að líta svo á að úrskurður umdæmisráðs hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs B frá 29. janúar 2024 um endurupptöku úrskurðar umdæmisráðs B frá 12. desember 2023 vegna umgengni A, við dóttur hennar, D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta