Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 529/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 529/2024

Mánudaginn 20. janúar 2025

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 22. október 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs B frá 25. september 2024 vegna umgengni hennar við D, E, F og G.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkurnar D, X ára, E X ára, F X ára og G X ára eru systur í forsjá kæranda. Mál stúlknanna hefur verið til vinnslu hjá B frá 11. júní 2022. Með úrskurði umdæmisráðs frá 2. júlí 2024 var B veitt heimild til að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlknanna. Forsjársviptingarmál er til meðferðar dómstóla. Frá upphafi vinnslu málsins hafa stúlkurnar verið vistaðar alls fjórum sinnum utan heimilis kæranda, með samþykki hennar, vegna andlegra og líkamlegra veikinda kæranda. Stúlkurnar eru nú vistaðar á þrem mismunandi heimilum og hafa verið samfellt vistaðar í utan heimilis frá apríl 2023.

B lagði til að umgengni kæranda við stúlkurnar væri einu sinni í mánuði í allt að tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði B, á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Lögmaður kæranda hafnaði tillögum B og óskaði eftir að málið yrði lagt fyrir umdæmisráð. Fyrir umdæmisráði krafðist kærandi umgengni við stúlkurnar yrði aukinn verulega frá tillögum B.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„A, skal eiga umgengni við dóttur sína, D , einu sinni í mánuði í allt að þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði B, á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Túlkur verði viðstaddur umgengni til að aðstoða móður við að eiga samskipti við stúlkuna og fylgjast með umgengninni. Móðir skal mæta ein í umgengni við stúlkuna.

A, skal eiga umgengni við dætur sínar, E , F og G, einu sinni í mánuði, í allt að tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði B, á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Túlkur verði viðstaddur umgengni til að aðstoða móður við að eiga samskipti við stúlkurnar og fylgjast með umgengninni. Móðir skal mæta ein í umgengni við stúlkurnar.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. október 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi 6. nóvember 2024, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2024, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns bárust með bréfi, dags. 13. nóvember 2024 og voru þær sendar B til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. nóvember 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði umdæmisráðs B verið breytt á eftirfarandi hátt:

1) Móðir hitti börnin öll tvisvar í mánuði í 4 klukkustundir í senn eða til vara að umgengni verði a.m.k. 4 klukkustundir í senn einu sinni í mánuði.

2) Móðir hitti D í eina klukkustund fyrir umgengni með hinum börnunum í hvert sinn.

3) Að umgengnin fari fram á heimili móður.

Þann 13. ágúst 2024 hafi verið þingfest stefna í máli nr. E-4261/2024 hjá Héraðsdómi H þar sem H vegna B fari fram á að kærandi verði svipt forsjá barnanna. Í málinu liggi fyrir tvö forsjárhæfnimöt frá I sálfræðingi, sem komst að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni kæranda væri skert.

Dómari í forsjárhæfnimálinu hafi úrskurðað um að skipa skuli einn dómkvaddan matsmann til að meta hæfi kæranda og mun vinna viðkomandi matsmanns hefjast innan skamms. Almennt sé ekki dómkvaddur matsmaður í slíkum málum en það mál sem hér sé til umfjöllunar sé mjög sérstakt sem og saga móður og dætranna á allan hátt. Í ljósi þess hvernig þessu máli sé háttað hafi dómari fallist á þetta. Sú saga verði ekki rakin hér heldur sé vísað til meðfylgjandi gagna hvað það varði.

1) Umgengni verði aukin: Á því sé byggt að umgengni sú sem ákvörðuð hafi verið sé til þess fallin draga úr tengslum kæranda við börnin. Kærandi hafi ekki verið svipt forsjá barnanna heldur sé það mál í eðlilegu ferli fyrir dómstólum. Niðurstaða málsins geti farið á hvorn vegin sem er. Börnin eigi rétta á umgengni við kæranda og kærandi á rétt á því að ekki sé leitast við að hafa áhrif á niðurstöðu málsins með því að takmarka umgengni hennar við börnin svo mikið. Kærandi geri ekki athugasemdir við að umgengni fari fram undir eftirliti og því sé ljóst að börnunum sé engin hætta búin í hennar umsjá, enda hafi hún aldrei beitt börnin alvarlegu ofbeldi.

Um sé að ræða fjögur börn og augljóst að kærandi eigi erfitt með að sinna hverju og einu barni svo einhverju nemi í tveggja klukkustunda umgengni. Í þeirri umgengni sem henni hafi verið úrskurðuð virðist ekkert tillit hafa verið tekið til þess að börnin séu svo mörg og þurfi hvert og eitt að fá sín samskipti og ná sínum tengslum við móður. Fram til þessa hafi lögmaður kæranda ekki séð úrskurð um minni umgengni en tvær klukkustundir í senn þegar um sé að ræða eitt barn. Hér séu þau fjögur og á mismunandi aldri með mismundandi þarfir. Jafnframt verði að hafa í huga að börnin búi á mismundi heimilum og hitti líka sjaldan hvort annað. Fyrir kæranda að ná að sinna þeim og gefa af sér til þeirra á allra á svo skömmum tíma sé verulega krefjandi og væri það fyrir alla.

Á það sé bent að kærandi hafi tekið gífurlegum framförum á flestum sviðum frá því hún hafi flutt til landsins með börnunum um mitt ár X. Hún hafi sýnt gífurlega aðlögunarhæfni, náð að tileinka sér tungumálið nokkuð vel og lært ensku frá grunni. Hún sé í námi og stefni hún að því að komast í vinnu sem fyrst, hafi náð að mynda góð tengsl við fólk í umhverfi sínu og hafi komið sér á flestan hátt vel fyrir á Íslandi. Kærandi hafi verið veik eftir að hafa upplifað mjög erfiða hluti þegar hún kom til landsins. En hún hafi náð góðum tökum á þeim veikindum og þau hamli henni ekki lengur.

Kærandi hafi ávallt sýnt í verki að hún vilji vera í samstarfi við barnavernd og hlíta þeirra ráðleggingum varðandi uppeldi barnanna og tileinka sér það sem henni sé kennt. Kærandi hafi alist upp við allt annan veruleika en við þekkjum og því sé eðlilegt að hún hafi þurft að endurlæra hluti enda sjálf alin upp í gjörólíku samfélagi og menningu. Um sé að ræða unga móður sem sé að gera sitt allra besta til að byggja sér og börnunum betra líf en henni hafi boðist áður. Kærandi glími ekki við nein fíknivandamál né alvarlega geðsjúkdóma.

Börnin hafi þegar verið hjá fósturforeldrum það lengi að ekki þurfi að hafa áhyggjur af tengslum þeirra við fósturfjölskyldurnar og að umgengni hafi áhrif á það. Af hálfu barnaverndaryfirvalda hafi verið bent á að börnunum líði ekki vel í kringum umgengni en engin rannsókn hafi farið fram á því hvers vegna svo sé heldur liggi einungis fyrir umsögn fósturforeldra um að svo sé. Ljóst sé að fósturforeldrar bindi vonir við að fá stúlkurnar til sín í varanlegt fóstur og líti á sig sem betri kost fyrir stúlkurnar. Því sé augljóslega erfitt fyrir þau að vera hlutlaus þegar þau séu spurð álits.

2) Meiri umgengni við D: Vísað sé til þess sem komi fram í niðurstöðu í úrskurði umdæmisráðs B varðandi umgengni barnsins D við kæranda.

3) Umgengni fari fram á heimili móður: Ekki sé rökstutt í niðurstöðu umdæmisráðs B hvers vegna nauðsynlegt sé að umgengni fari fram í starfsstöð Barnaverndar. Á því sé byggt að það sé betra fyrir börnin að umgengni fari fram á heimili kæranda. Kærandi eigi fallegt heimili sem búið sé húsgögnum, leikföngum og föndurdóti sem börnin þekki og njóti sín að leika með. Fyrir utan hjá kæranda séu margir leikvellir sem unnt sé að komast á án þess að fara yfir götu.

Umgengni á heimili kæranda væri einnig á allan hátt til þess fallin að auðvelda henni að sinna þörfum hvers barns fyrir sig. Þar geti þau bakað saman eða föndrað og börnin leikið sér í mismunandi herbergjum þannig að kærandi fái betri tækifæri til að sinna hverju og einu barni um stund.

Almennt sé á því byggt að svo lítil umgengni sem ákvörðuð hafi verið og að umgengni fari ekki fram á heimili kæranda sé brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og að ákvörðunin sé ekki í samræmi við það sem sé börnunum fyrir bestu.

Að öðru leiti sé vísað til ítarlegrar greinargerðar lögmanns kæranda til umdæmisráðs B dags. 26. ágúst [2024] og greinargerðar kæranda í héraðsdómsmálinu E-4261/2024, sem sé meðfylgjandi, ásamt úrskurði dómara í máli E-4261/2024.

Í athugasemdum lögmanns kæranda, dags. 13. nóvember 2024, við greinargerð B kemur fram að í greinargerð B sé því hafnað að börnin hittist ekki oftar en með kæranda. Kærandi telji að það sé rétt, þó hún hafi ekki verið upplýst um það sérstaklega hvort börnin hitti hvort annað án hennar eða ekki. Þá komi fram í greinargerðinni að börnin hittist mjög reglulega án kæranda en af hálfu kæranda séu uppi verulegar efasemdir um að það þýði oft, enda komi ekkert fram um það í greinargerðinni. Í þessari höfnun B felist grundvallarmisskilningur á því hvers vegna verið sé að nefna þetta atriði í kæru.

Málið snúist um hvort umgengni kæranda við börnin eigi að verða meiri en ákvörðuð hafi verið. Ein af röksemdunum fyrir því að mikilvægt sé að kærandi fái meiri tíma með börnunum sé að þau séu vistuð á þremur mismunandi fósturheimilum og í þremur mismunandi sveitarfélögum. Þegar þau komi í umgengni til kæranda séu þau því að koma úr sitt hvorri áttinni og hafa ekki hist svo neinu nemi á milli þessarar umgengni. Það valdi því að aukið álag verði á umgengnistímanum við kæranda, enda börnin að hitta hvort annað eftir all langan tíma, sem og móður sína. Það hafi augljós áhrif á það hvernig kæranda gangi að sinna og tengjast sem skyldi öllum börnunum þegar þau komi saman á einn stað og hitti móður sína. Er þetta nefnt af hálfu kæranda í því samhengi að þetta geri það enn frekar að verkum að tvær klukkustundir með öllum börnunum sé alltof skammur tími til að sinna öllum sem skyldi.

Þá sé lögð áhersla á það í greinargerð barnaverndar að ekki sé stefnt að því að börnin fari aftur í umsjá kæranda. Á það sé bent að það sé ekki endanleg ákvörðun B heldur dómstóla enda varði mál til forsjársviptingar svo mikilvæg persónuleg réttindi, bæði fyrir foreldra og börn, að vanda verði verulega alla málsmeðferð þeirra mála.

Dómari, í forsjársviptingarmáli því sem höfðað hafi verið gegn kæranda, hafi með úrskurði fallist á að dómkveðja matsmann til að meta á nýjan leik forsjárhæfni kæranda.

Gefi það til kynna að nokkur vafi leikur á því að fyrri forsjárhæfnimöt á kæranda gefi raunsanna mynd af forsjárhæfni hennar. Fyrir liggi að minnsta kosti all nokkur vafi á því hvort niðurstaða málsins verði sú að kærandi verði svipt forsjá barnanna. Þá liggi einnig fyrir að það mun dragast nokkuð að fá niðurstöðu í dómsmálið, en matsmaður hafi nú nýhafið matsvinnuna.

Ákvörðun um umgengni barnanna við kæranda einu sinni í mánuði í þrjár/tvær klukkustundir í senn sé til þess fallin að draga úr tengslum barnanna við kæranda sem geti haft áhrif á niðurstöðu dómsmálsins. Af hálfu kæranda sé það talið mikilvægt að barnaverndaryfirvöld tryggi að tengsl kæranda við börnin rofni ekki á meðan dómsmálið sé rekið. Er það mikilvægt svo kærandi njóti réttlátrar málsmeðferðar og jafnframt sé það mikilvægt fyrir börnin sérstaklega ef niðurstaða dómsmálsins verði á annan veg en barnaverndaryfirvöld hafa krafist.

Allir sem hafi aðkomu að þessu máli séu sammála um að mál þetta sé mjög sérstakt og ólíkt flestum barnaverndarmálum sem þau hafi áður haft aðkomu að. Verði því að horfa á þetta mál með þeim augum og ekki taka ákvarðanir í samræmi við hvað almennt tíðkist í barnaverndarmálum heldur sé mikilvægt að meta vandlega hvernig rétt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem hér séu uppi.

Vísað sé til þess er komi fram í kæru til úrskurðanefndarinnar sem og fylgigagna með kærunni. Ítrekað sé að telja verði að það sé brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að ákvarða kæranda svo takmarkaða umgengni við börnin í ljósi aðstæðna.

Ítrekuð sé krafa kæranda um aukna umgengni við börnin á meðan dómsmálið sé rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og að umgengni fari fram á heimili hennar.

III.  Sjónarmið B

B gerir þá kröfur að hinn kærði úrskurður umdæmisráðs B frá 25. september 2024 verði staðfestur.

Í málinu séu fjögur systkini, D f. X, E f. X, F f. X og G f. X. Kærandi hafi komið með dætur sínar til Íslands í X. Mál stúlknanna hafi verið unnið hjá B frá þeim tíma og hafi alls 12 tilkynningar borist í máli stúlknanna. Gerðar hafi verið sex áætlanir um meðferð máls skv. 23. gr. bvl. á tímabilinu með það að markmiði að tryggja öryggi og velferð stúlknanna og að kærandi leiti sér meðferðar og endurhæfingar við áföllum og bæti uppeldisaðstæður stúlknanna. Stúlkurnar hafi alls fjórum sinnum verið vistaðar utan heimilis, með samþykki kæranda, vegna andlegra og líkamlegra veikinda hennar. Vistun þeirra hafi nú verið samfelld frá apríl 2023. Þann 2. júlí 2024 hafi umdæmisráð veitt heimild með úrskurði til að gera kröfu fyrir dómi um að kærandi yrði svipt forsjá stúlknanna á grundvelli a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. bvl. Er því nú rekið forsjársviptingarmál á hendur kæranda fyrir Héraðsdómi H.

Varðandi forsögu málsins sé vísað til hins kærða úrskurðar umdæmisráðs, dags. 25. september 2024, ásamt greinargerð starfsmanna, dags. 13. ágúst 2024 sem lögð hafi verið fyrir umdæmisráð vegna málsins.

Þann 10. júlí 2024 hafi umgengni kæranda við stúlkurnar á tímabili forsjársviptingarmáls fyrir dómstólum verið bókuð á meðferðarfundi starfsmanna B. Kærandi hafi óskað eftir umgengni við dætur sínar og krafist þess að umgangast börnin aðra hvora helgi í um það bil þrjá sólarhringa í senn á meðan málið yrði rekið fyrir dómstólum. Í bókun komi fram að skv. upplýsingum, dags. 25. júní 2024 frá sálfræðingi E hafði umgengni við kæranda sett stúlkuna úr jafnvægi og rifjast upp fyrir stúlkunni ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu móður. Þá hafi komið fram að E hafi ekki viljað fara í umgengni þann 25. júní 2024 en samt viljað hitta systur sínar. Stúlkan hafi farið samdægurs til sálfræðings fyrir umgengni vegna kvíða. D hafi neitað að hitta móður sína í umgengni þann 8. júní 2024 og í upplýsingum frá fósturforeldrum hafi komið fram að stúlkurnar hafi sýnt einkenni vanlíðunar í kjölfar umgengni. Þá hafi verið einnig talið til hagsbóta fyrir kæranda og stúlkurnar að hafa túlk viðstaddan í umgengni til að aðstoða kæranda við að eiga samskipti við stúlkurnar.

Starfsmenn hafi lagt til í bókun þann 10. júlí 2024 að umgengni kæranda við stúlkurnar yrði einu sinni í mánuði í allt að tvær klst. í senn, undir eftirliti og í húsnæði B á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Þá yrði túlkur viðstaddur og lögð yrði áhersla á að kærandi mætti ein í umgengni við stúlkurnar til að ró þeirra yrði ekki raskað og til að auka gæðastundir móður við stúlkumar.

Kærandi hafi ekki samþykkt tillögur starfsmanna og hafi umdæmisráð B tekið málið til úrskurðar þann 25. september 2024. Starfsmenn B hafi lagt til að úrskurðað yrði um umgengni kæranda við stúlkumar einu sinni í mánuði í allt að tvær klst. í senn, undir eftirliti í húsnæði B og að túlkur yrði viðstaddur umgengni til að aðstoða kæranda við samskipti. Í greinargerð starfsmanna, dags. 13. ágúst 2024, hafi komið fram að stúlkurnar þyrftu nú að upplifa stöðugleika og öryggi þar sem stefnt væri að því að þær færu í varanlegt fóstur. Stúlkurnar þekki uppruna sinn og líði vel í þeim aðstæðum sem þær búi við hjá fósturforeldrum. Að mati starfsmanna B hafi verið mikilvægt að skapa ró í kringum umgjörð fóstursins, enda ekki stefnt að því að stúlkurnar færu aftur í umsjá kæranda.

Í hinum kæra úrskurði hafi verið ákveðið að kærandi ætti umgengni við dætur sínar einu sinni í mánuði í allt að tvær klst. í senn, undir eftirliti í húsnæði B og að túlkur yrði viðstaddur til að aðstoða móður með samskipti. Þá hafi einnig verið úrskurðað að elsta stúlkan, D, ætti umgengni í allt að þrjár klst. í senn, sbr. vilja stúlkunnar sem hafði lýst því að vilja eiga umgengni við móður án þess að systur hennar væru viðstaddar. Í málinu sé talsmannskýrsla D, dags. 13. ágúst 2024 þar sem vilji hennar komi fram. Stúlkan virðist tengjast móður, m.a. í gegnum tungumál sem þær báðar tali. Hún eigi því, skv. úrskurði umgengni við kæranda ein í eina klst. áður en systur hennar mæti til umgengni og sé umgengni hennar því þrjár klst. í stað tveggja klst.

Þá hafi einnig legið fyrir talsmannskýrsla E, dags. 12. ágúst 2024. Þar hafi komið fram að hún segist stundum vera hrædd við að fara til móður af því að þá gæti eitthvað gerst, en stundum væri hún glöð að hitta móður. Hún vildi stundum vera ein með móður og stundum með systrum sínum, sjá nánar í talsmannsskýrslu. Sökum ungs aldurs F og G hafi þeim ekki skipaður talsmaður við málsmeðferð.

Í hinum kærða úrskurði sé m.a. vísað til umfjöllunar sem umgengni barnanna fékk í forsjárhæfnismati sem I sálfræðingur gerði, dags. 4. júní 2024. Þar hafi komið fram að allar stúlkumar hafi sýnt erfiðar tilfinningar fyrir og eftir umgengni sem sé í samræmi við frásögn fósturforeldra. Þá hafi G sérstaklega sýnt bakslag í þroska. Umdæmisráð vísi til þess í úrskurði að D og E hafa báðar tjáð vilja sinn til að hitta móður sína mun meira en fram hafi komið í tillögum B en E stundum sagst vera hrædd við að hitta móður. Ráðið hafi sagst taka réttmætt tillit til afstöðu stúlknanna en talið það ótvíræða hagsmuni og almenna líðan stúlknanna allra að ró og stöðugleiki skapist í lífi þeirra og að þeim væru skapaðar aðstæður í samræmi við þá hagsmuni, eins og þær eigi rétt á samkvæmt lögum. Stúlkurnar fjórar séu í dag á þremur fósturheimilum. Fósturforeldrar D hafi óskað eftir að umgengni yrði á mánaðarfresti og á móti gætu fósturforeldrar stúlknanna skipulagt systra hitting. Fósturforeldrar E hafi óskað eftir að umgengni yrði ekki oftar en einu sinni í mánuði, undir eftirliti í húsnæði B. Fósturforeldrar F og G hafi óskað eftir að umgengni yrði á þriggja til fjögurra vikna fresti í tvær til fjórar klst. í senn. Í úrskurði hafi ráðið vísað til þess að lýsingar fósturforeldra hafi verið í góðu samræmi við umsagnir skóla og leikskóla en fósturforeldrar séu að jafnaði þeir aðilar sem þekki hagi og líðan barnanna best, sbr. álit umboðsmanns Alþingis, dags. 7. apríl í máli nr. 4474/2005.

Þá vísi lögmaður í kæru til þess að börnin búi á mismunandi heimilinum og hitti sjaldan hvort annað. Það sé ekki rétt þar sem fósturforeldrar allra stúlknanna hafa átt í mjög góðu samstarfi og skipulagt umgengni á milli stúlknanna. Stúlkurnar hittist því allar mjög reglulega umfram þá umgengni sem þær eigi með kæranda.

Afstaða B vegna umgengni kæranda við stúlkurnar hafi ekki breyst frá því að málið hafi verið lagt fyrir umdæmisráð B með tillögu um að kærandi ætti umgengni við stúlkurnar í tvær klst. í senn, einu sinni í mánuði, undir eftirliti og í húsnæði B. Ekki séu þó gerðar athugasemdir við það að umdæmisráð hafi úrskurðað um viðbótar klst. í máli elstu stúlkunnar þar sem það sé í samræmi við vilja stúlkunnar. Í 4. gr. bvl. komi fram þær meginreglur sem gildi í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Fari svo, að hagsmunir foreldra stangast á við hagsmuni barnsins, þá verði hagsmunir foreldris að víkja. Sú reglu komi m.a. fram í 1. tölul. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar í máli nr. 58/2019.

Að öðru leyti sé vísað til gagna málsins, þá sérstaklega bókunar meðferðarfundar, dags. 10. júlí 2024, greinargerðar starfsmanna, dags. 13. ágúst 2024 og hins kærða úrskurðar, dags. 25. september 2024.

í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlknanna að leiðarljósi sé fyrir hönd B gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.


 

IV. Afstaða stúlknanna

Í gögnum málsins liggja fyrir skýrslur talsmanns D, dags. 13. ágúst 2024 og E, dags. 12. ágúst 2024. Sökum ungs aldurs F og G var þeim ekki skipaður talsmaður. Í samantekt talsmanns D kemur fram að stúlkan vilji hitta móður sína sem oftast. Hún vilji byrja á því að hitta hana í umgengnisrými barnaverndar en líka gista hjá henni. Hún vilji gera eitthvað skemmtilegt með móður sinni, t.d. hafi hún nefnt að mála mynd. Stúlkan vilji að sé settur skýr rammi í kringum umgengni af hálfu kæranda og telji hana þurfa að vera ákveðnari við yngri systur. Hún telji að það þurfi tvo stafsmenn með í umgengni til að hjálpa til með yngri systur hennar. Stúlkan hafi óskað eftir að fá samtal við ráðgjafa barnaverndar um umgengnisfyrirkomulag.

Í samantekt talmanns E kemur fram að stúlkan sé stundum hrædd við að fara til móður sinnar því það gæti eitthvað gerst en hún hafi ekki útskýrt það nánar. Hún hafi sagst vilja hitta móður fyrst í umgengnirými barnaverndar og fara svo heim til hennar og gista hjá henni. Hún sagðist vilja hitta móður sína ein og stundum með systrum sínum.

V.  Niðurstaða

Stúlkurnar D, X ára, E X ára, F X ára og G X ára eru systur í forsjá kæranda sem er móðir þeirra. Stúlkurnar eru í fóstri á þremur fósturheimilum, en tvær yngstu stúlkurnar eru saman á fósturheimili.

Með hinum kærða úrskurði umdæmisráðs B frá 25. september 2024 var ákveðið að umgengni D við kæranda væri einu sinni í mánuði í allt að þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði B, á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Umgengni E, F og G við kæranda var ákveðin einu sinni í mánuði, í allt að tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði B, á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum.

Kærandi gerir kröfu um að hitta börnin öll tvisvar í mánuði í fjórar klukkustundir í senn eða til vara að umgengni verði fjórar klukkustundir í senn einu sinni í mánuði. Kærandi gerir einnig kröfu um að hitta D í eina klukkustund fyrir umgengni með hinum börnunum í hvert sinn. Þá gerir kærandi kröfu um að umgengni fari fram á heimili hennar.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkurnar eru í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dætur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt gögnum málsins veitti umdæmisráð B þann 2. júlí 2024 B heimild til þess að kærandi verði svipt forræði á grundvelli a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. bvl. Umgengni samkvæmt hinum kærða úrskurði á við meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber við úrlausn málsins að líta fyrst og fremst til þess hvaða hagsmuni stúlkurnar hafi af umgengni við kæranda. Í skýrslum talsmanns D og E, sem lagðar voru fyrir úrskurðarfund umdæmisráðs, kemur fram að þær vilji hitta móður sína oftar en einu sinni í mánuði. Afstöðu F og G til umgengni við kæranda var ekki aflað sökum ungs aldurs þeirra en fósturforeldrar þeirra hafa lýst spennu og vanlíðan stúlknanna í kjölfar umgengni við kæranda þegar umgengni var tíðari. Þá liggur fyrir að þegar umgengni hefur verið aukin hefur hún ekki gengið sem skildi og kærandi átt í erfiðleikum með að sinna öllum stúlkunum, þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er það mat nefndarinnar að það þjóni best hagsmunum stúlknanna að umgengni þeirra við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem þær eru í samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og að um er að ræða tímabundna ráðstöfum meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum.

Með hliðsjón af atvikum máls og afstöðu stúlkunnar til umgengni verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að gætt hafi verið meðalhófs.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráð B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs B frá 25. september 2024 varðandi umgengni A, við D, E , F og G0, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta