Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 254/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 254/2023

Mánudaginn 21. ágúst 2023

A og B

gegn

Barnaverndarþjónustu T

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 22. maí 2023, kærði C, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarþjónustu T, dags. 15. febrúar 2023, um að ekki verði framkvæmt nýtt forsjárhæfismat að beiðni kærenda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. maí 2023. Kærð er ákvörðun Barnaverndarþjónustu T, sem tekin var á meðferðarfundi 15. febrúar 2023, um að synja beiðni kærenda um að framkvæmt yrði nýtt forsjárhæfismat á foreldrahæfni kærenda.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Barnaverndarþjónustu T, dags. 15. febrúar 2023, varðandi ósk kærenda um að framkvæmt verði nýtt forsjármat á foreldrahæfni þeirra.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun stjórnvaldsins verði hnekkt og framkvæmt verði nýtt heildstætt forsjársmat þar sem jafnframt verði byggt á réƫti kærenda til fullnægjandi stoðþjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og heildstæðu mati á stuðningsþörf.

Um atvik málsins segir í kæru að kærendur séu seinfærir og hafa notið aðkomu og liðsinnis Barnaverndar T og félagsþjónustu sveitarfélagsins frá árinu 2010 við uppeldi tveggja barna sinna. Í X fæddist kærendunum dóttir, sem síðar kom í ljós að sé langveik. Önnur dóttir þeirra kom í heiminn í X. Með tilliti til breyttra heimilisaðstæðna og aukinnar umönnunarábyrgðar óskaði barnvernd eftir því um vorið 2022 að unnið yrði nýtt forsjármat á foreldrunum fyrir fæðingar seinni dótturinnar.

Ætlunin hafi verið að matið yrði unnið í byrjun júní 2022, áður en matsmaður færi í sumarfrí og áður en gert væri ráð fyrir fæðingu yngri dótturinnar. Þegar til kom hafi hins vegar orðið sviplegt fráfall í fjölskyldu móðurinnar þegar […] lést. Lagðist missirinn þungt á móðurina og olli henni auknu álagi og streitu sem hún var í veikri stöðu til að vinna skipulega og markvisst úr. Meðgangan reyndist henni einnig erfið vegna veikinda og stöðugra áhyggna yfir eigin heilsu og velferð barnanna á meðan hún lægi fyrir og svo fór að hún eignaðist barnið fyrir áætlaðan tíma. Í sængurlegunni ágerðust veikindi móðurinnar með þeim afleiðingum að hún var lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegar sýkingar í […] og gert að hvílast þar. Fyrir vikið tafðist framkvæmd matsins fram til byrjun ágúst 2022.

Niðurstaða forsjármatsins lá fyrir 17. október 2023, hvar eftirfarandi ályktun var sett fram.

Sé ofangreint haft til hliðsjónar er ljóst að það eru miklir veikleikar í forsjárhæfni A og B. Þau veita börnum sínum ást og hlýju en síðan eru alvarlegar brotalamir þegar kemur að öllum öðrum þáttum forsjárhæfninnar. Í þessu mati var framkvæmt greindarskimun sem hefur verið stöðluð við íslenskar aðstæður og var útkoman mjög slæm fyrir bæði A og B. Því var framkvæmt ítarlegt greindarmat og byggt á norrænum viðmiðum. Útkoman var mun betri en úr skimuninni en ljóst að þau eru bæði talsvert undir þroskahömlunarmörkum. Vitrænir þættir einir og sér skýra ekki skort á forsjárhæfni en taka verður tilliti til þessarar útkomu sem hluti af heildarmyndinni

Að framansögðu er það mat undirritaðs að A og B nái ekki þeim viðmiðunum sem eru sett fyrir lágmarks forsjárhæfni. Með þann stuðning sem þau eru með í dag er aðstæður óviðunandi og ætti að vera ljóst að það eru ekki að fara að breytast.

...

Með tilkomu stúlknanna tveggja flækist málið verulega og ekki síst í ljósi þess að eldri stúlkan er langveik. Frásagnir frá leikskóla og þær breytingar sem eiga sér stað hjá stúlkunum um leið og [stuðningsaðili] kemur inn í myndina og svo aftur leikskóli með eldri stúlkuna bendir til vanörvunar og tengslaskorts. Þessu þarf að bregðast við og mælt með að horft verði til varanlegs fósturs í því samhengi þar sem forsagan gefur góða forspá fyrir framhaldið.

Kærendur hafi gert margvíslegar athugasemdir við fyrirliggjandi forsjármat og lögðu fram formlega ósk um nýtt forsjármat í febrúar 2023.

Beiðnin hafi verið tekin fyrir á meðferðarfundi Barnaverndarþjónustu T þann 15. febrúar 2023. Þar hafi verið komist að eftirfarandi niðurstöðu, sem kynnt hafi verið með bréfi, dags. 23. febrúar 2023.

Fyrir liggur nýlegt forsjárhæfnimat þar sem afstaða matsmanns er skýr. Foreldrar ná ekki þeim viðmiðum sem sett er fyrir lágmarks forsjárhæfni. Fyrir liggja skýrslur stafsmanna barnaverndarþjónustu sem og tilsjónaraðila sem benda til þess sama. Ekki er talin ástæða til að endurtaka forsjárhæfnimat þar sem starfsmenn telja forsendur foreldra ekki hafa breyst svo um muni, Beiðni um að endurtaka forsjárhæfnimat er hafnað.

Það sé í sjálfu sér ekkert óvenjulegt að Barnavernd T hafi óskað eftir því að mat væri unnið á forsjáhæfni kærenda áður en gert hafi verið ráð fyrir að síðari dóttir þeirra kæmi í heiminn og það hafi verið aðkallandi að vinna matið fljótt. Eins sé engin efi um niðurstöður prófananna á greind kærenda og lýsingum af vanrækt og ófullnægjandi aðbúnaði sem finna megi í matsskýrslu; þær gefa tiltekna mynd af tilteknu ástandi á tilteknum tíma. Aftur á móti sé, í ljósi þeirra sérstæðu aðstæðna sem móðirin fann sig í að þessum tíma, óvarlegt að ætla að alhæfa út frá þeim eða telja að þær gefi altæka og óhverfula mynd af möguleikum kærenda og aðstæðum til langframa og að fullreynt sé með stuðning. Í ljósi þess að ákvörðun um varanlega vistun verður að teljast fjölskyldunni íþyngjandi verður að gera ríkari kröfu til rannsóknarskyldu og þess að meðalhófs sé gætt. Íslensk stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um virðingu fyrir heimili og fjölskyldulífi, þar sem m.a. sé kveðið á um að ákvörðun sem þessi megi ekki reisa „á grundvelli fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja“, sbr. 4.tl. 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar af leiðir er brýnt að mat sem ætlun er að liggi til grundvallar varanlegum og íþyngjandi ákvörðunum, sem stríða gegn vilja kæranda, gefi með réttmætum og áreiðanlegum hætti mynd af ástandi, öðru en skerðingu, sem óyggjandi sé að fáist ekki breytt.

Endurmat á forsjárhæfni sé ekki síður mikilvægt þar sem núverandi mat virðist að mestu reist á huglægum þáttum, fyrir utan niðurstöður greindskimunar. Matið sé fyrir vikið viðkvæmt fyrir ableískri slagsíðu, hvar hæfni hvílir á greiningu á skerðingum og ályktunum sem séu dregnar út frá þeim. Þrátt fyrir að matsmaður tali um að kærendur „nái ekki þeim viðmiðunum sem eru sett fyrir lágmarks forsjárhæfni“ ber að hafa í huga að þessi meintu lágmarksviðmið séu hvergi skilgreind með hlutlægum hætti og engin önnur efnisleg tilvísun sett fram á hverju meint lágmarksviðmið byggja á. Þar sé á engu að byggja. Kærendur séu vikið settir í aðþrengda stöðu til andmæla efnislega um þetta tiltekna atriði, þ.e. hvaða hlutlausu viðmiðunum þeir séu ekki að ná, eða leggja fram kæru um óbeina mismunun á grundvelli lög um jafna meðferða utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 í því samhengi.

Varðandi niðurstöður greindarskimunar vilja kærendur einnig benda á að þær séu ekki alhæfanlegar og við lestur á þeim þurfi að hafa til hliðsjónar aðra sállíkamlega og félagslega þætti sem kunna að hafa haft hamlandi áverkan á hugsanir og einbeitingu.

Hafa þarf í huga að þroskahömlunin, í bland við skert aðgengi að þjónustu/stuðningi og viðeigandi aðlögun, getur valdið því að einstaklingar með þá skerðingu er hættara við að ílengjast í úrvinnslu áfalla og veikinda, ásamt því að vera viðkvæmari fyrir því að finna til kvíða og lenda í aðstæðum sem geta framkallað hann. Rannsóknir sýna auk þess að langvarandi sálrænt og andlegt álag getur með almennari hætt verið valdur að því að skerða vitræna getu, s.s. með því að gera hugsunina óskýrari og hafa hamlandi áhrif á minni, athygli og einbeitingu. Slíkir þættir séu í raun tilgreindir sem þekkt einkenni kvíða, hvar áhyggjur gagnvart því sem veldur álaginu geta yfirtekið hugsanir og rænt fólk nauðsynlega hugarró.

Líkt og lesa má í matsgerðinni upplifði móðirin verulegan kvíða vegna matsins:

Hún virkaði einlæg en það var stutt í kvíða og áhyggjur út af þessu máli. Hún brast í grát þegar hún fór að tala um börnin sín og ótta sinn við að missa þau frá sér.

Samhliða matinu hafi hún enn að vinna úr fráfalli föður síns sem henni hafði gefist lítið ráðrúm til syrgja vegna erfiðrar meðgöngu og sjúkrahúslegu. Að samanlögðu – fráfalli nákomins, erfiðri meðgöngu, veikindum, sjúkrahúslegu og aðkomu barnaverndar – sem hvert um sig gæti fengist skilgreint sem streituvaldur, sé ekki ósanngjarnt að áætla að þessar álagsbundnu aðstæður, sem kunnar séu að dragi úr þrótt og vitrænni getu, hafi haft hamlandi áhrif á færni móðurinnar til að halda heimili og svara greindarprófunum á þeim tíma. Þá greinir matsgerðin á nokkrum stöðum frá mjög takmarkaðri þátttöku föðursins í heimilisstörfum og uppeldinu. Í þeim aðstæðum sem móðirin fann sig í, hvar hún var líkamlega verr í stakk búin til að halda utan um heimilið og sinna uppeldinu, hafi hún því aukinheldur verið að glíma áhyggjur af hvoru tveggja á meðan hún ófrísk og að eiga við veikindi, ásamt því að finna til sektar yfir því að geta ekki verið nægilega vel til staðar.

Kærendur séu þakklátir þeim skilningi sem þeim hefur verið sýndur við uppeldi sona sinna og þann stuðning sem þeir hafa notið frá barnaverndaryfirvöldum síðastliðin tólf ár. Hann hafi verið fjölskyldunni ómetanlegur. Hins vegar segir í matinu að með þann stuðning sem þau voru með á þeim tíma sem matið var framkvæmt hafi aðstæður engu að síður verið óviðunandi. Eins og áður nefnir getur skerðing, skilgreind út frá t.a.m. greindarprófun, ekki staðið til grundvallar ákvörðunum um vistun barns utan heimilis. Að öllu eðlilegu ætti forsjármat einstaklinga því jafnframt að taka mið af lögbundinni þjónustu, félagslegum réttindum og stuðningi sem fatlað fólk á rétt á í því skyni að njóta almennra réttinda í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Staðhæfing matsmanns veki þar af leiðandi eðlilega spurningar um A) hvaða heildstæða faglega mat hefur farið fram á stuðningsþörf kærenda að höfðu tilliti til laga nr. 38/2018 og lögbundnum rétti þeirra til stoðþjónustu á grundvelli 8. gr. laganna og B) hvort hann hafi verið fullreyndur. Nutu kærendur fullnægjandi stuðnings og tæmandi úrræða, á grundvelli annarra laga en aðeins barnaverndarlaga, til að halda eigið heimili? Er eitthvað til fyrirstöðu því að þau fái fullnægjandi þjónustu og viðeigandi stuðning til að þrífa, halda gæludýr, tryggja öryggi, sinna líkamlegri umönnun o.s.frv.? Er einhvers staðar kveðið á um að foreldrar þurfi að vera sjálfum sér næg til að fá alið börn og megi ekki treysta á að fá heildstæða og langvarandi stoðþjónustu, sbr. 8.gr. laga nr. 38/2018, til að geta farið með uppeldið?

Líkt og lesa má úr niðurstöðum matsmanns sé engum blöðum um það að fletta að kærendur séu með langvarandi skerðingu og þar af leiðandi fatlaðir. Þeir ættu fyrir vikið að njóta lögbundins réttar til stoðþjónustu, sbr. 4.tl. 2.gr. og 8.gr. laga nr. 38/2018, að höfðu frekari miði að markmiðsgrein sömu laga og málsmeðferðarkafla þeirra. Í 5. tölulið 8. greinar eru sérstaklega áréttaðar þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna, sem er í samræmi við 2. mgr. 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réƫndi fatlaðs fólks þar sem fram kemur að aðildarríki skuli veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna. Með því hafi verið ætlun að leiða inn stefnu sem tryggði fötluðum foreldrum, óháð skerðingum þeirra, fullnægjandi stoðþjónustu til að fá rækt skyldur sínar til jafns við aðra, að gefnu frekari tilliti til annarra félagslegrar aðstoðar/tilfærslu, s.s. fjárhagsstuðnings, félagslegs húsnæðis, þroska- og iðjuþjálfunar, stoðtækni, ráðgjafar og einstaklingsmiðaðs og -bundins stuðnings. Hæfni verði aldrei undanskilin þeim stuðningi og ráðum sem fólki sé gefið tækifæri til að njóta í því skyni að rækta hlutverk sín og þar sem um fatlaða einstaklinga er að ræða, sem vitað er að hafa skerðingu, ríður á að þarfir þeirra fyrir fjölþættan stuðning sé metin á faglegan hátt og þeim mætt, enda eiga þeir lögbundinn rétt hans og hann verður að teljast viðeigandi. Að öðrum kosti er hætt við að þeim verði mismunað á grundvelli fötlunar. Í ljósi fötlunar kærenda, og að höfðu frekari tilliti til laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018, verður að telja að það sé hlaðið ósanngirni að gera kærendur eina ábyrga fyrir takmörkunum sem kunna að leiða af skerðingu þeirra, þegar horft sé til þess að þeir njóta lögbundis réttar til stoðþjónustu og félagslegs stuðnings til að koma í veg fyrir að þeim verði mismunað vegna hennar. Telja má að skortur á fullnægjandi stoðþjónustu og heildstæðu mati á henni, sem tryggja æti viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur kærenda sem uppalendur barna sinna, standi til hindrunar því að þeir fái notið, til jafns við önnur, réttinda sem lúta að virðingu fyrir heimili og fjölskyldu, sbr. 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Að ofangreindu virtu sé það krafa kærenda að synjun barnaverndarþjónustu T um nýtt forsjármat, sem þeim var kynnt í bréfi dags. 23. febrúar 2023, verði hnekkt og nýtt mat framkvæmt þar sem jafnframt verði byggt á lögbundnum rétti kæranda til fullnægjandi stoðþjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og heildstæðu mati á stuðningsþörf þeirra.

II.  Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarþjónustu T, dags. 15. febrúar 2023, var beiðni kærenda um nýtt forsjárhæfismat synjað.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 úrskurðar nefndin í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.

Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er heimilt að skjóta úrskurðum og örðum stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarþjónustu, umdæmisráða barnaverndar og Barna- og fjölskyldustofu, eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála. Aðrar ákvarðanir stjórnvalda á grundvelli barnaverndarlaga eru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds.

Ljóst er af ákvæðum barnaverndarlaga að ákvörðun barnaverndarþjónustu um að framkvæma ekki nýtt forsjárhæfismat á foreldrahæfi kærenda er ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Úrskurðarnefnd velferðarmála er því samkvæmt framangreindu ekki ætlað að fjalla um ágreining kærenda og barnaverndarþjónustu T.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 8. gr. bvl. fer Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga eftir því nánar er mælt fyrir um í lögum. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021 fer stofnunin m.a. með eftirlit á gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá er það m.a. verkefni Barna- og fjölskyldustofu samkvæmt c. lið 2. mgr. 7. gr. bvl. að stuðla að því að vinnsla barnaverndarmála sé í samræmi við lög, reglugerðir og leiðbeiningar.

Með vísan til alls framangreinds er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru frá 22. maí 2023 vegna ákvörðunar Barnaverndarþjónustu T, dags. 15. febrúar 2023, um að synja beiðni kærenda um nýtt forsjárhæfismat, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta