Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 24/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 14. október 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við dóttur hans, C, nr. 24/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 23. júlí 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við kæranda ákveðin tvisvar sinnum á ári undir eftirliti. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni C við föður sinn A verði tvisvar sinnum á ári, í byrjun maí og byrjun desember. Frekari tímasetningar og dagsetningar verði ákveðnar í samráði við föður og fósturforeldra. Einnig kveður nefndin á um að umgengnin verði undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna.

Kærandi setur ekki fram sérstakar kröfur í kæru en af málatilbúnaði má ráða að hann fari fram á að umgengni verði ákveðin einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Til vara óskar kærandi eftir því að umgengni verði annan hvern mánuð.

Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra C kemur fram í tölvupósti 9. október 2015 til kærunefndarinnar að þeir uni þeirri umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði og hafna því að alfarið kærandi fái rýmri umgengni við stúlkuna.

I. Málavextir

Stúlkan C er fædd árið X og er nú X ára gömul. Barnaverndarnefnd B úrskurðaði 24. mars 2014 um vistun stúlkunnar utan heimilis. Gengið var frá samningi við fósturforeldra, E og F, um varanlegt fóstur stúlkunnar í byrjun júní 2015. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá með dómi héraðsdóms G þann X, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess sem fram kemur í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar B um að samkomulag hafi náðst um umgengni í upphafi þegar stúlkan var vistuð utan heimilis en kærandi hafi ekki alltaf nýtt sér þá umgengni sem samið hafi verið um. Málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd B í maí 2014 og í ágúst 2014 þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni milli kæranda og starfsmanna barnaverndarnefndarinnar. Kærandi mætti ekki á fund barnaverndarnefndarinnar í maí 2014. Í ágúst 2014 taldi nefndin ekki hægt að verða við óskum hans um umgengni aðra hverja helgi og var kveðið á um umgengni mánaðarlega í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Var föður kæranda og stjúpmóður hans falið að hafa eftirlit með umgengninni.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 29. júní 2015. Fyrir fundinum lá tillaga starfsmanna barnaverndarnefndarinnar um umgengi tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Þar sem ekki hafði náðst samkomulag um umgengnina var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kæru kæranda eru ekki settar fram sérstakar kröfur en vísað til málatilbúnaðar kæranda fyrir barnaverndarnefndinni í aðdraganda hins kærða úrskurðar. Þar kemur fram að kærandi óski eftir því að umgengni verði einu sinni í mánuði. Til vara sé óskað eftir því að umgengni verði annan hvern mánuð.

Kærandi vísar til þess að hann hafi umgengni við eldri son sinn sem sé tíu ára sem gangi vel. Kærandi ætli sér að fara fram á að fá forsjá stúlkunnar. Þá sé það rangt að kærandi hafi verið í afplánun þegar stúlkan fæddist, hann hafi verið viðstaddur fæðingu hennar og verið í lífi hennar fyrstu sautján mánuðina. Kærandi telur ekki rétt að takmarka umgengni á þessum tímapunkti þar sem kærandi ætli sér að fá forsjá stúlkunnar aftur og því ekki tækt að rjúfa tengsl þeirra. Kærandi eigi sterk tengsl við stúlkuna og telur að tengslamyndun hafi verið í fullum gangi þegar stúlkan hafi verið tekin af foreldrum sínum. Kærandi leggur til að umgengni verði einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á meðan kærandi undirbúi forsjármál.

III. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B til kærunefndar barnaverndarmála 31. ágúst 2015 segir að barnaverndarnefndin krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Byggt sé á því að úrskurðurinn sé réttmætur að öllu leyti og hafi fengið lögformlega málsmeðferð.

Á því sé byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og að beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið C fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og hennar í huga, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði og vísi í því samhengi til forsendna sem fram komi í úrskurðinum.

Foreldrahæfnismat H sálfræðings frá 4. mars 2014 staðfesti að kærandi búi við margvísleg vandamál. Persónuleikapróf gefi þannig vísbendingar um andfélagslega hegðun, fíkniefnaneyslu, sjálfsvígshugsanir, áfengisánetjun, biturð og óvild. Þá liggi fyrir að kærandi hafi verið dæmdur fyrir margvísleg afbrot, svo sem þjófnað, eignaspjöll, skjalafals, akstur án ökuréttinda og fíkniefnabrot, en þyngst vegi dómur fyrir sifjaspell og nauðgun. Samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríksisins 30. september 2013 hafi kærandi hafið afplánun vegna síðastnefndu brotanna 4. október 2010 en hafi verið veitt reynslulausn 2. febrúar 2013. Meðal annars af framangreindum ástæðum sé að mati barnaverndarnefndarinnar mikilvægt að umgengnin verði takmörkuð og að hún fari fram undir eftirliti. Þetta sé gert til þess að tryggja öryggi stúlkunnar og að grunnþörfum hennar verði sinnt.

Stúlkunni hafi verið ráðstafað í varanlegt fóstur eftir að móðir hennar hafi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi Hæstaréttar X. Mikilvægt sé að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem tekið hafi að sér uppeldi hennar. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Á grundvelli meðal annars þessara sjónarmiða sé ákvörðun um hina takmörkuðu umgengni reist og byggt á því að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hennar í fóstur.

Mikilvægt sé að líta til þess að stúlkan sé ung að árum eða einungis X ára. Með því að ráðstafa henni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa henni nýja fjölskyldu til framtíðar og ekki séu áform um að barnið tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að stúlkan fái að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína í friði og ró.

Barnaverndarnefndin byggi á því að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengni verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið náist það markmið að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji barnaverndarnefndin að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur og því beri að staðfesta úrskurðinn. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda sem kærandi hafi glímt við um langt árabil sé það mat barnaverndarnefndarinnar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við stúlkuna.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra stúlkunnar 9. október 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að stúlkan hafi verið fjarlægð úr umsjá foreldra sinna vegna gífurlegrar vanrækslu og henni komið fyrir í varanlegu fóstri hjá þeim, þ.e. fósturforeldrum. Niðurstaða endurtekins forsjárhæfnismats á foreldrum sé að þau séu ekki hæf til að hafa börn sín á sínu framfæri, hvort sem það sé saman eða í sitt hvoru lagi. Hæstiréttur hafi staðfest rök og ákvörðun barnaverndarnefndar B í málinu.

Það felist í þeirri ákvörðun barnaverndarnefndarinnar að stúlkan skuli vera í varanlegu fóstri hjá þeim að hún alist um sem dóttir þeirra í það minnsta fram til 18 ára aldurs og henni sé ætlað að vera jafningi innan þeirra fjölskyldu. Hennar hagur sé hafður að leiðarljósi og hún njóti umhyggju, aðhlynningar og uppeldist sem geti þroskað hana og stutt út í lífið. Í uppeldinu skapi þeir trygg fjölskyldutengsl og tengslanet fyrir stúlkuna, sem hafi sýnt mikil einkenni tengslaröskunar við komu til þeirra.

Til að styðja stúlkuna í þessu þurfi hún að búa við reglusemi og öryggi í daglegu umhverfi sínu. Meðal annars af þeim sökum hafni þeir alfarið óskum um frekari umgengni við kæranda. Börn á þessum aldri eigi ekki að fara hús úr húsi til að uppfylla þarfir einstaklinga um að hitta þau en fyrir liggi óskir fleiri fjölskyldutengdra aðila um umgengni. Fósturforeldrar muni í samræmi við lög tryggja að stúlkan þekki uppruna sinn.

Auk þess sem að framan er rakið komi skýrt fram af málsgögnum að kærandi hafi auk fjölda afbrotamála viðurkennt og hlotið dóm fyrir sifjaspell og jafnframt verið til rannsóknar vegna kynferðislegrar misnotkunar á eldri hálfsystur stúlkunnar á meðan hann hafi búið á heimili hennar. Þó að fósturforeldrar uni ákvörðun barnaverndarnefndar B um umgengni samþykkja þeir ekki að stúlkunni sé gert að umgangast einstakling með slíkan feril umfram það sem ákveðið var í hinum kærða úrskurði. Hér verði að taka hag stúlkunnar fram yfir þarfir kæranda og tryggja öryggi hennar með því að láta hana njóta vafans.

V. Niðurstaða

C er X ára gömul og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, E og F, frá því hún var vistuð utan heimilis og í X var gengið frá samningi við fósturforeldra um varanlegt fóstur stúlkunnar. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin tvisvar sinnum á ári undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna. Kærandi krefst þess að fá umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Til vara krefst kærandi umgengni annan hvern mánuð.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Kærandi vísar til þess að hann telji ekki rétt að takmarka umgengni hans við stúlkuna núna þar sem hann ætli sér að fá forsjá stúlkunnar aftur og því sé ótækt að rjúfa tengsl þeirra. Kærandi telur sig eiga sterk tengsl við stúlkuna og segir að tengslamyndun hafi verið í fullum gangi þegar stúlkan hafi verið tekin af foreldrum sínum.

Í gögnum málsins kemur fram að samband foreldra stúlkunnar hafi hafist þegar kærandi var á Kvíabryggju á árinuX. Sambúð þeirra hafi hafist þegar kærandi hafði lokið afplánun dóms en fram kemur í bréfi Fangelsismálastofnunar 30. september 2013 að kærandi hafi hlotið reynslulausn 2. febrúar 2013.

Þá kemur einnig fram í gögnum málsins að barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað um vistun barnsins utan heimilis 24. mars 2014 samkvæmt b-lið 27. gr. barnaverndarlaga. Hefur stúlkan verið í fóstri frá þeim tíma.

Í foreldrahæfnismati H sálfræðings 4. mars 2014 kemur meðal annars fram að kærandi sé að mörgu leyti slæm fyrirmynd, hann hafi andfélagsleg viðhorf og eigi langa sögu um neyslu og glæpi. Hann sýni öðrum óvild og biturð, eigi við reiðivandamál að stríða og sýni almennt ábyrgðarleysi gagnvart því að bera ábyrgð á velferð, öryggi, framfærslu og uppeldi barna.

Þar sem sambúð foreldranna var lokið fór móðir stúlkunnar ein með forsjá hennar þegar dómur féll X í máli sem barnaverndarnefnd B höfðaði gegn móðurinni fyrir Héraðsdómi G. Með dóminum var hún svipt forsjá barnsins og var dómurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar X, eins og áður hefur komið fram.

Í greinargerð félagsráðgjafa 19. júní 2015 kemur fram að kærandi hafi verið í sambúð með móður barnsins en fyrir hafi móðirin átt tvö börn sem einnig hafi búið á heimilinu. Málið hafi verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd J áður en það fluttist til barnaverndar B. Ítrekarðar tilkynningar hafi borist vegna allra barnanna er vörðuðu vanrækslu, umsjón og eftirlit, vanrækslu varðandi nám og líkamlega vanrækslu sem og vegna líkamlegs-, tilfinningalegs- og kynferðisofbeldis auk heimilisofbeldis.

Að öllu þessu virtu telur kærunefndin ekki unnt að líta svo á að við þessar aðstæður hafi skapast stöðug og traust tengsl milli foreldris og barns á þeim tíma sem   kærandi vísar til. Við úrlausn málsins verður því lagt til grundvallar að ekki hafi myndast eðlileg tengsl á milli kæranda og barnsins og því standi engin rök fyrir þeirri fullyrðingu kæranda að hann hafi sterk tengsl við súlkuna.

Stúlkan hefur verið í fóstri frá þeim tíma er hún var vistuð utan heimilis rúmlega X gömul og er hún nú í varanlegu fóstri, eins og þegar hefur komið fram. Við úrlausn málsins ber að líta til þess að hagsmunir hennar eru ótvírætt þeir að hún fái að aðlagast fósturfjölskyldunni, tengjast henni og að hún njóti þar stöðugleika og öryggis. Með vísan til þess er óhjákvæmilegt að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna verulega í þeim tilgangi að tryggja ótruflaða tengslamyndun við fósturfjölskylduna. Með því er unnt að stuðla að því að þessum grunnþörfum stúlkunnar verði sinnt.

Að þessu virtu þykir umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess sem fram hefur komið og hér að framan er rakið um kæranda verður staðfest sú niðurstaða í úrskurðinum að umgengnin skuli fara fram undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna. Samkvæmt þessu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.  

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015 varðandi umgengni A við dóttur sína, C, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta