Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 25/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 11. nóvember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við börn hennar, C, D og E, nr. 25/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 27. júlí 2015 skaut F hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015, vegna umgengni kæranda við börn sín, C, D, og E, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C og D við kæranda ákveðin sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn undir eftirliti móðurömmu barnanna. Umgengni E við kæranda er ákveðin tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni C og D við móður sína A verði sex sinnum á ári, í febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember. Umgengni verði fyrsta laugardag í mánuði frá kl. 11:00 – 17:00. G, móðurömmu barnanna, er falið að hafa eftirlit með umgengninni

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni E við móður sína A verði tvisvar sinnum á ári, í byrjun maí og byrjun desember. Frekari tímasetning og dagsetningar verði ákveðnar í samráði við móður og fósturforeldra. Einnig kveður nefndin á um að umgengnin verði undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna.

Kærandi krefst þess að umgengni verði eigi minni en hún var fyrir hinn kærða úrskurð. Til vara krefst hún þess að C og D fái að hitta sig og systur sína að minnsta kosti einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn og að E fái að hitta sig og systur sína að minnsta kosti fjórum til sex sinnum á ári í að lágmarki sex klukkustundir í senn.

Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra C og D kemur fram í tölvupósti 28. október 2015 til kærunefndarinnar að þeirra afstaða sé að kærandi ætti að hitta börnin einu sinni í mánuði undir eftirliti móðurömmu sinnar og þá hugsanlega í átta klukkustundir í senn líkt og kærandi krefjist til vara. Ef sú umgengni gangi vel í einhvern tíma væri hægt að skoða aukna umgengni og þá jafnvel yfir nótt.

Af hálfu fósturforeldra E kemur fram í tölvupósti 5. nóvember 2015 til kærunefndarinnnar að þeirra afstaða sé að það sé ekki í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að umgengni verði aukin.

I. Málavextir

Málið varðar börnin C, fædd árið X og er nú X ára, D, fæddur árið X og er nú X ára, og E, fædd árið X og er nú X ára. Barnaverndanefnd B úrskurðaði 24. mars 2014 um vistun barnanna utan heimilis, sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Börnin C og D hafa frá úrskurðardegi verið vistuð hjá föðurömmu sinni, H, og föðurafa sínum, J. E hefur verið í fóstri hjá K og L frá því að hún var vistuð utan heimilis. Kærandi var svipt forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms B þann X og var niðurstaða Héraðsdóms staðfest með dómi Hæstaréttar X.  

Frá því að börnin fóru í fóstur hefur verið regluleg umgengni milli þeirra og kæranda. Samkvæmt gögnum málsins var mál kæranda lagt fyrir barnaverndarnefnd B í maí 2014 og ágúst 2014. Á fundi nefndarinnar 26. maí 2014 náðist samkomulag við kæranda um umgengni og var hún ákveðin tvisvar í mánuði í átta klukkustundir í senn undir eftirliti móðurömmu barnanna. Barnavernd B barst erindi frá lögmanni kæranda 26. júní 2014 þar sem óskað var eftir því að umgengni kæranda við börnin yrði aukin á þeim forsendum að aðstæður kæranda væru betri en áður hafði verið. Með úrskurði barnaverndarnefndar B 25. ágúst 2014 var umgengni kæranda við börnin ákveðin fyrsta laugardag og fyrsta sunnudag í mánuði, átta klukkustundir í senn hvorn dag. Auk þess var umgengni kæranda við C og D ákveðin þriðja laugardag í mánuði í átta klukkustundir í senn og umgengni við E þriðja laugardag í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Eftirlit með umgengni var ákveðið og var móðurömmu barnanna falið það eftirlit.

Í málinu liggur fyrir sálfræðileg álitsgerð tveggja sálfræðinga um forsjárhæfni kæranda sem dómkvaddir voru sem yfirmatsmenn af Héraðsdómi B þann X í tilefni af framangreindu forsjármáli kæranda fyrir Hæstarétti. Þar voru meðal annars metnir persónulegir hagir kæranda og eiginleikar og tengsl hennar við börnin. Fram kemur að matsmenn hafi fylgst með umgengni kæranda við börnin og að hún hafi sýnt þeim athygli og hlýju en hún hafi rætt mjög takmarkað um aðstæður barnanna á heimili og í skóla. Var það álit matsmanna eftir umgengnina að kæranda skorti ákveðni, reglufestu og hvatningu í samskiptum við börnin.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að umgengni kæranda við börnin hafi ekki alltaf gengið eins og vonast var eftir. Einnig kemur þar fram að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar meti það svo að umgengni hafi gengið með ágætum þegar starfsmenn sinntu eftirliti en töluverðir annmarkar hafi verið á því fyrirkomulagi sem var fyrir hendi fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Börnin hafi sýnt merki um vanlíðan eftir umgengni og að umhirðu þeirra hafi verið ábótavant.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 29. júní 2015. Fyrir fundinum lá tillaga starfsmanna barnaverndarnefndarinnar um umgengi kæranda við C og D sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn undir eftirliti móðurömmu þeirra og að umgengni kæranda við E yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndarinnar. Þar sem ekki hafði náðst samkomulag um umgengnina var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. bvl. og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kæru kemur fram að þess sé krafist að umgengni verði eigi minni en hún hafi verið fyrir hinn kærða úrskurð. Haft verði í huga að kærandi sé ung móðir og hafi ekki fengið þá aðstoð sem hún eigi rétt á samkvæmt barnaverndarlögum áður en hún hafi verið svipt forsjá. Þá hjálp sem henni hafi verið boðin hafi hún ekki getað nýtt sér vegna veikinda sinna sem hún hafi nú komist yfir. Kærandi muni höfða mál að ári liðnu og krefjast aftur forsjár barna sinna en hún vinni ötullega að því að bæta uppeldisfærni sína og heilsu. Því sé mikilvægt að tengsl hennar við börnin verði ekki eyðilögð frekar en orðið sé.

Kærandi krefst þess til vara að C og D fái að hitta kæranda og systur sína að minnsta kosti einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn og að E fái að hitta kæranda og systur sína að minnsta kosti fjórum til sex sinnum á ári í að lágmarki sex klukkustundir í senn.

Í athugasemdum kæranda til kærunefndarinnar 6. október 2015 við greinargerð barnaverndarnefndar B kemur fram að N hrl. hafi tekið við hagsmunagæslu kæranda í málinu. Þar kemur jafnframt fram að kærandi byggi á því að hinn kærði úrskurður sé andstæður 74. gr. bvl., hagsmunum barnanna og sjónarmiðum um meðalhóf. Þrátt fyrir að málið fjalli aðeins um umgengnisfyrirkomulag en ekki forsjárhæfni kæranda  mótmæli kærandi því að hún hafi fengið alla þá aðstoð sem hægt hafi verið að bjóða henni. Hún hafi þó fengið talsverða aðstoð en þar hafi hvorki verið um að ræða aðstoð með sálfræðimeðferð né aðstoð með það hvernig kærandi ætti að vinna á persónuleikaröskun sinni. Vægari úrræði hafi því ekki verið fullreynd þegar farið hafi verið af stað með forsjársviptingarmál gegn henni.

Í niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar sé fullyrt að „með vísan til fyrirliggjandi gagna“ hefði umgengni ekki gengið eins og best yrði á kosið. Þessu mótmæli kærandi sem röngu og ósönnuðu. Ekkert í fyrirliggjandi gögum sanni framangreinda fullyrðingu. Sérstaklega sé mótmælt ódagsettum og óundirrituðum meintum greinargerðum fósturforeldra. Í fyrsta lagi hafi slík skjöl ekkert gildi við úrlausn ágreiningsmála, „hvorki hjá úrskurðaraðilum“ þegar af þeirri ástæðu að ekki sé staðfest hver riti þau eða hvenær. Hvort tveggja hafi efnislega þýðingu við úrlausn málsins. Máli skipti til dæmis hvort um sé að ræða lýsingu annars fósturforeldris eða beggja. Þá skipti einnig máli á hvaða tímapunkti yfirlýsingarnar séu skrifaðar. Sama máli gegni um fleiri skjöl í málinu. Til dæmis sé í gögnum málsins að finna ódagsett og óundirritað skjal þar sem ónafngreind manneskja hafi að sögn eftir starfsmanni leikskóla E. Kærandi fer fram á það að sönnunargildi hvers skjals sé metið sjálfstætt. Hafa verði í huga við það mat að hinn kærði úrskurður feli í sér verulega íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda þar sem umgengni hennar við börn sín sé takmörkuð verulega og að barnaverndarnefnd B hafi verið í lófa lagið að afla sönnunargagna þannig að þau væru fullnægjandi grundvöllur. Til samanburðar megi benda á að kærandi hafi sjálf lagt fram dagsett og undirritað skjal máli sínu til stuðnings. Verði að gera þær kröfur til stjórnvalds sem taki ákvörðun í viðkvæmu máli sem þessu að það byggi úrskurði sína á traustum og haldbærum sönnungargögnum.

Jafnvel þótt mark væri takandi á framangreindum gögnum telur kærandi þau ekki benda til þess að umgengni hafi gengið illa eða að börnin hafi gott af minni umgengni. Til dæmsi sé það alkunna að börn verði oft órólegri dagana í kringum umgengni þegar um sé að ræða lögheimlisforeldra annars vegar og umgengnisforeldra hins vegar. Almennt hafi slíkt alls ekki verið talið rök fyrir minni umgengni. Kærandi telji að það reyni vissulega á E að þurfa að kveðja kæranda þegar hana langi það ekki og teljist því hegðun hennar eðlileg í samræmi við það. Kærandi telji að ekki hafi verið gætt nægjanlegs skilnings í málinu á hegðun ungra barna. Kærandi leggi fram útprentun af vefsíðunni www.fyrstuarin.is máli sínu til stuðnings.

Þó að það komi umgengnismáli þessu lítið við þá verði að gera athugasemdir við lýsingu sem sagðar séu frá fósturforeldrum í gögnum málsins. Þar sé því lýst að munur sé á E frá því að hún hafi komið fyrst til þeirra og þar til hlutfallslega löngu síðar miðað við stutta ævi barnsins. Fráleitt sé að tengja breytingar og framfarir, m.a. málþroska, hjá svo ungu barni við það að aðstæður hennar hafi verið slæmar áður. Þeir sem hafi kynnt sér þessi mál viti að málþroski barna eykst með aldri og sé auk þess ekki línulegur, þ.e. hann komi í stökkum. Þá sé harðlega mótmælt dylgjum í gögnum málsins um að starfsmaður hafi velt því fyrir sér hvort E hafi þurft að bjarga sér sjálf um mat af því að hún hafi ekki verið róleg fyrr en hún hafi verið komin með mat á diskinn.

Í hinum kærða úrskurði segi einnig að vísbendingar séu um að kærandi hafi virt fyrra samkomulag að vettugi og að börnin hafi þurft að segja ósatt við fósturforeldra og starfsmenn barnaverndarnefndarinnar af þeim sökum. Þessu mótmæli kærandi og bendi á að framangreint eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Jafnvel þótt kæranda hafi orðið þetta á jafngildi það því ekki að börnin eigi að fá minni tíma með kæranda. Í þessu sambandi sé rétt að ekki hafi verið leitast við að kanna afstöðu barnanna til málsins. Kærandi telji mikilvægt að C og D fái að tjá sig um hvernig þau vilji að umgengni sé háttað með tilliti til þeirra hagsmuna.

Kærandi taki fram að í forsjárhæfnismötum sé lýst manneskju sem hún þekki ekki í dag og fólk í kringum hana ekki heldur. Kærandi hafi eignast sitt fjórða barn þann X og sé kærandi, sögu sinnar vegna, með eftirlit frá Barnavernd Reykjavíkur og ráðgjafa. Kærandi og ráðgjafinn hafi farið af fæðingardeildinni í greiningar og kennsluvist á Vistheimili barna að Laugarási og þar hafi allt gengið vel. Ekkert hafi verið hægt að setja út á varðandi umönnun barnsins í höndum kæranda og hana skorti ekki innsæi í þarfir þess. Í framhaldi hafi þær mæðgur farið heim 30. september 2015 og kærandi fái aðstoð frá Barnavernd Reykjavíkur, m.a. varðandi sálfræðiviðtöl og vegna persónuleikaröskunnar sinnar. Sé því afar mikilvægt að hagsmunir barnanna séu hafðir að leiðarljósi við ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda og einnig við systur þeirra þar sem systkinatengsl séu einnig mikilvæg.

III. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B 31. ágúst 2015 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Á því sé byggt að úrskurðurinn sé réttmætur að öllu leyti og hafi fengið lögformlega málsmeðferð.

Það sé rangt sem fram komi í kæru að kærandi hafi ekki fengið þá aðstoð sem hún eigi rétt á samkvæmt barnaverndarlögum áður en hún hafi verið svipt forsjá barna sinna. Hið rétta sé að leitast hafi verið við að aðstoða kæranda með öllum tiltækum ráðum í því skyni að hún gæti rækt forsjárskyldur sínar en því miður án árangurs.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið börnunum fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og barna hennar í huga, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum barnanna best að umgengni þeirra við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísar barnaverndarnefndin til forsendna hins kærða úrskurðar.

Kærandi hafi með endanlegum dómi Hæstaréttar verið svipt forsjá barna sinna. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið á því reist að kærandi væri óhæf til að fara með forsjá barna sinna og sinna forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Þá hefðu önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga ekki skilað viðunandi árangri.

Mikilvægt sé við þær aðstæður sem hér séu fyrir hendi að börnin aðlagist fósturfjölskyldum sínum sem hafi tekið að sér uppeldi þeirra. Markmið fóstursins sé þannig að börnin aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunum. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Á grundvelli meðal annars þessara sjónarmiða sé ákvörðun um hina takmörkuðu umgengni reist og byggt á því að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum barnanna og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með fósturráðstöfun þeirra. Varðandi umgengni kæranda við E sé rétt að taka fram að stúlkan sé aðeins X ára. Með því að ráðstafa henni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa barninu nýja fjölskyldu til framtíðar og ekki séu áform um að barnið tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að E fái að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína í friði og ró. Fósturforeldrar hennar hafi greint frá því að barnið hafi verið mjög tætt og reitt dagana eftir umgengni og sofið illa fyrstu næturnar á eftir. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji barnaverndarnefndin rétt að umgengni kæranda við E verði aðeins tvisvar á ári.

Að mati barnaverndarnefndarinnar sé mikilvægt að umgengnin fari fram undir eftirliti. Þetta sé gert til þess að tryggja öryggi barnanna og að grunnþörfum þeirra verði sinnt. Í þessu sambandi sé meðal annars vísað til þess að umgengni barnanna við kæranda hafi ekki gengið eins og best verði á kosið. Í hinum kærða úrskurði sé í þessu sambandi vísað til þess að vísbendingar séu um að kærandi hafi virt fyrra samkomulag um umgengni og úrskurð barnaverndarnefndarinnar að vettugi.

Barnaverndarnefndin byggi á því að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á börn sín og líf þeirra. Þá sé umgengnin í samræmi við markmið fósturráðstafana um að börnin aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldum sínum.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji barnaverndarnefnd B að rýmri umgengnisréttur en ákveðin hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmalegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun barnanna í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda sem kærandi hafi glímt við um langt árabil sé það mat barnaverndarnefndarinnar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við börnin að svo stöddu.

IV. Afstaða fósturforeldra C og D

Í tölvupósti fósturforeldra C og D 28. október 2015 til kærunefndarinnar kemur fram sú afstaða þeirra að kærandi ætti að hitta börnin einu sinni í mánuði undir eftirliti móðurömmu barnanna og þá hugsanlega í átta klukkustundir í senn líkt og kærandi krefjist til vara. Ef það gangi vel í einhvern tíma væri hægt að skoða það seinna meir að auka umgengnina yfir nótt einu sinni í mánuði. Það hafi ekki gengið vel áður að hafa umgengni yfir heila helgi fyrir börnin, það hafi bitnað mjög á skólanum og andlegri líðan þeirra. Þeim líði betur núna en þau sakni umgengninnar sem hafi verið.

V. Afstaða fósturforeldra E

Í tölvupósti fósturforeldra E 5. nóvember 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að E hafi verið fjarlægð úr umsjá foreldra sinna vegna gífurlegrar vanrækslu og henni komið fyrir í varanlegu fóstri hjá þeim.  Niðurstaða endurtekins forsjárhæfnimats á foreldrum hafi verið að þau hvorki væru né fyrisjánlegt væri að þau verði hæf til að hafa börn á sínu framfæri, hvort sem er saman eða í sitt hvoru lagi.  Með hliðsjón m.a. af þessu hafi barnaverndarnefnd B talið að hagsmunum stúlkunnar væri til framtíðar best borgið með því að kærandi yrði varanlega svipt forsjá yfir stúlkunni. Hæstiréttur hafi staðfest rök og ákvörðun barnaverndarnefndarinnar í málinu. 

Í ákvörðun barnaverndarnefndar B felist að stúlkan skuli vera í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum og að hún alist upp sem dóttir þeirra í það minnsta fram til 18 ára aldurs og henni sé ætlað að vera jafningi innan þeirra fjölskyldu.  Hennar hagur sé hafður að leiðarljósi og hún njóti umhyggju, aðhlynningar og uppeldis sem geti þroskað hana og stutt út í lífið.  Í uppeldinu skapi fósturforeldrarnir trygg fjölskyldutengsl og tengslanet fyrir stúlkuna, sem hafi sýnt mikil einkenni tengslaröskunar við komu til þeirra.  Öll reynsla stúlkunnar hafi bein áhrif á sjálfsmynd hennar og samband við aðra.  Til að styðja stúlkuna í þessu þurfi hún að búa við reglusemi og öryggi í daglegu umhverfi sínu þar sem fjölskyldan sé til staðar frá degi til dags.  Fósturforeldrarnir hafi búið henni heimili þar sem fjölskyldan samanstandi af tveimur fósturfeðrum, P fóstursystur hennar og henni sjálfri. Það sé mat þeirra að það geti ekki talist hennar hagsmunir að trufla þá reglusemi og umgjörð sem hún búi við með því að gera henni að hitta kæranda eða aðra blóðskylda einstaklinga oftar en um geti í ákvörðun barnaverndarnefndar B.  Það sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum, sem Ísland sé aðili að, að til mannréttinda barna teljist að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á séu hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum.

 Það liggi í hlutarins eðli og komi fram í lögum um fósturforeldra að stúlkan þurfi að þekkja uppruna sinn.  Þeir muni tryggja að svo verði.  Þannig sé það hluti af uppeldi stúlkunnar að fósturforeldrarnir búi hana undir að hún geti síðar á lífsleiðinni, þegar hún hafi þroska til og óski hún þess sjálf, hitt kæranda oftar án þess að það hafi áhrif á tilfinningar hennar og sálarlíf.

VI. Niðurstaða

C er X ára gömul og D er X ára gamall og hafa þau verið hjá fósturforeldrum sínum, föðurömmu og föðurafa sínum H og J, frá því að þau voru vistuð utan heimilis í mars 2014. E er X ára gömul og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, K og L, frá sama tíma er hún var vistuð utan heimilis og í byrjun júní 2015 var gengið frá samningi við fósturforeldra um varanlegt fóstur stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015 var umgengni C og D við kæranda ákveðin sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn undir eftirliti móðurömmu barnanna. Umgengni E við kæranda var ákveðin tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar B. Kærandi krefst þess að umgengni verði eigi minni en hún var fyrir hinn kærða úrskurð. Til vara krefst hún þess að C og D fái að hitta sig og systur þeirra að minnsta kosti einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn og að E fái að hitta sig og systur sína að minnsta kosti fjórum til sex sinnum á ári í að lágmarki sex klukkustundir í senn.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barnsins við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ekki hafi náðst samkomulag milli kæranda og starfsmanna barnaverndarnefndarinnar um umgengni kæranda og barnanna. Í niðurstöðukafla úrskurðarins kemur meðal annars fram að með ráðstöfun barnanna í fóstur hafi markmiðið verið að tryggja börnunum það öryggi og þá umönnun sem börnin hafi þörf fyrir. Mikilvægt sé að halda þeim stöðugleika sem fósturforeldrunum hafi tekist að skapa börnunum en það sé nauðsynlegt til þess að börnin nái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem þau búi nú við.

Kærunefndin tekur undir þessi sjónarmið. Við úrlausn málsins er nauðsynlegt að líta til þess að fram kemur í dómi Héraðsdóms B þann X, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X, að frá árinu 2006 þar til börnin voru vistuð utan heimilis í mars 2014 hafi fjölmargar tilkynningar borist barnaverndarnefnd og barnvernd um vanrækslu móður barnanna varðandi umönnun og eftirlit með þeim. Tilkynningarnar hafi meðal annars fjallað um ófullnægjandi aðbúnað barnanna, svo sem varðandi ástundun í skóla, hreinlæti barnanna sjálfra og á heimilinu, næringu þeirra, öryggi og stöðugleika í aðstæðum. Í dóminum er enn fremur vísað til skýrslu sálfræðings 4. mars 2014 um mat á forsjárhæfni kæranda en þar komi fram að kærandi sé flöt og fálát gagnvart börnunum, hún sæki í að losna við þau af heimilinu og reyni að fá frið frá þeim. Öll samskipti við börnin hafi verið neikvæð og skilyrt. Hún hafi hugsað illa um börnin, þau hafi verið illa hirt og nærð og allt eftirlit og umönnun mjög slakt.   

Þessar lýsingar á aðstæðum barnanna telur kærunefndin að staðfesti að öryggi þeirra hafi verið ógnað verulega á löngum tíma hjá kæranda. Börnin eru því nú í enn meiri þörf en ella fyrir stöðugleika, frið og öryggi hjá fósturforeldrum sínum. Börnin eru í varanlegu fóstri og hafa þörf fyrir stöðugleika og öryggi. Hagsmunir þeirra eru þeir að fá að alast upp hjá fósturfjölskyldum sínum án utanaðkomandi truflunar og ber að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þess.

Kærandi vísar til þess að eldri börnin tvö hafi ekki fengið að tjá sig um hvernig þau vilji að umgengni sé háttað með tilliti til hagsmuna þeirra og ekki hafi verið leitast við að kanna afstöðu þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál er það varðar í samræmi við aldur þess og þroska. Ítarlegar upplýsingar liggja fyrir í málinu um börnin, sem eru aðeins X og X ára gömul, aðstæður þeirra og öryggisleysi á fyrstu æviárum þeirra hjá kæranda. Gera verður ráð fyrir því að börnin hafi mjög takmarkaðar forsendur til að tjá sig um hagsmuni sína varðandi umgengnina við þær aðstæður sem þau búa við í dag þótt það komi væntanlega til með að breytast með auknum þroska þeirra og aldri. Með tilliti til þessa verður að telja að ekki hafi verið réttmætt að fá börnin til að tjá sig sérstaklega að þessu leyti við meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd B.   

Kærunefndin telur að með því að takmarka umgengni kæranda við börnin, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að börnin fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldum sínum án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda þeim. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að umgengni kæranda við börnin hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að nauðsynlegt sé að hún verið undir eftirliti eins og kveðið er á um í úrskurðinum.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá 29. júní 2015 varðandi umgengni A við börn sín, C, D og E, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta