Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 235/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 235/2021

Þriðjudaginn 20. júlí 2021

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. maí 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 8. apríl 2021, um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar um aðstæður dætra kæranda, C og D. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd B barst tilkynning undir nafnleynd þann 29. desember 2020. Efni tilkynningar voru áhyggjur af framkomu foreldra við D þar sem þau hafi litla þolinmæði gagnvart henni, hafi öskrað og slegið til hennar.

Með beiðni kæranda til Barnaverndar B, dags. 11. mars 2021, var þess óskað að nafnleynd tilkynningarinnar yrði aflétt. Beiðni kæranda var hafnað með ákvörðun, dags. 8. apríl 2021. Í ákvörðun Barnaverndar B kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé þér mikilvægt að vita hver tilkynnandi er verður ekki talið að fyrir hendi séu aðstæður til þess að aflétta megi nafnleynd, sérstaklega með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir barnaverndarstarf almennt. Þá er í þessu tilviki ekki grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningu þannig að ástæða sé til þess að aflétta nafnleynd og ákæra með vísan til refsiákvæða barnaverndarlaga.“

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. maí 2021. Með bréfi, dags. 10. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndar B vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndar B barst með bréfi, dags. 11. maí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021, var hún send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst sammála því að börn eigi að njóta vafans í öllum málum en þegar ásakanir séu ósannar eigi að taka hart á þeim. Að mati kæranda fái börn ekki að njóta vafans ef hægt sé að koma með falskar ásakanir um aðstæður og velferð barna.

Kærandi kveðst upplifa tilkynninguna sem persónulega árás. Hún sé virkilega að gera það besta sem hún geti gert í uppeldinu með dætur sínar og fái aðstoð frá öllum sínum nánustu. Börnin fái ný föt, mæti snyrtileg í skólann og stundi þær íþróttir sem þau vilja allan ársins hring, fá aðstoð hjá fagaðilum, sálfræðingum, læknum og allt sem kærandi hafi talið að þær þurfi í þessu lífi.

Kærandi kveðst hafa boðið ráðgjafanum, sem sá um hennar mál, að hafa samband við alla hennar fjölskyldumeðlimi og taka viðtal við þá. Að mati kæranda hljóti að vera hægt að skoða sögu og aðstæður barna betur. Dóttir kæranda hafi til dæmis farið í greiningarferli við lesblindu og vegna athyglisbrests, fengið sálfræðiaðstoð vegna kvíða og annað. Kærandi telji að það sé verið að draga X ára gamla stelpu sem hafi góða rökhugsun inn í þetta mál og hún hugsi sjálf um það af hverju verið sé að tilkynna móður sína fyrir ofbeldi.

Kærandi tekur fram að málið hafi valdið henni mikilli vanlíðan vitandi af því að einhver í hennar nærumhverfi sé að tilkynna hana til barnaverndar. Hennar upplifun á því sé eins og að hafa „eltihrelli“ eða einhvern sem sé að fylgjst með sér sem sé hrikalega óþægilegt.

Eftir að málið hafi verið opnað hafi það valdið efasemdum hjá kæranda um hvernig hún sé sem móðir og hafi dregið úr sjálfstrausti hennar. Það sé enginn stuðningur hjá ráðgjöfum til þess að ræða um þetta eða fá aðstoð í sambandi við þessa tilkynningu. Þetta komi kæranda algjörlega úr jafnvægi og meira en það.

Kærandi kveðst hafa farið yfir barnaverndarlögin og að hennar mati sé Barnaverndarnefnd B ekki að fara eftir þeim lögum í þessu máli. Kærandi kveðst upplifa þetta sem risastóra árás á sig persónulega og börnin sín.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B er vísað til þeirrar meginreglu að virða eigi nafnleynd tilkynnanda því að annars geti skapast sú hætta að almenningur veigri sér við að tilkynna um bágar aðstæður barna. Hagsmunir barnaverndarstarfs í heild eigi að vega þyngra en hagsmunir einstakra málsaðila af því að fá nafnleynd tilkynnanda aflétt.

Vísað er til þess að töluleg gögn sýni að nokkur hluti þeirra tilkynninga sem barnavernd berast á hverju ári séu tilefnislausar og sé þeim málum lokað eftir könnun. Þrátt fyrir að könnun mála leiði í ljós að ekki sé þörf á inngripi barnaverndar megi þó ekki ætla sem svo að tilkynnandi hafi ekki haft góðan ásetning þegar tilkynnt sé um aðstæður barns. Mikilvægt sé að halda því til haga að tilkynning til barnaverndar sé ekki kæra heldur ósk um aðstoð fyrir viðkomandi fjölskyldu. Könnun máls sé ekki íþyngjandi inngrip inn í líf fjölskyldu. Á síðustu misserum hefur verið brýnt fyrir almenningi að tilkynna um aðstæður barna og beri skylda til þess, hafi það minnsta grun um að aðstæður þeirra séu ekki eins og best sé á kosið. Mikilvægt sé eins og fram hefur komið að almenningi sé gert kleift að upplýsa barnavernd um aðstæður barna og það sé svo hlutverk barnaverndar að kanna málið og meta hvort tilkynning eigi við rök að styðjast, það sé ekki hlutverk tilkynnanda.

Af hálfu Barnaverndarnefndar B er að öðru leyti vísað til þeirra röksemda sem fram koma í bréfi til kæranda, dags. 8. apríl síðastliðinn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndar B um að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst Barnavernd B 29. desember 2020.

Kærandi telur að tilkynning hafi verið ósönn og því skuli aflétta nafnleynd tilkynnanda.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og  þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 8. apríl 2021 um að synja kröfu A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningu vegna dóttur sinnar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta