Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 50/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 50/2024
Þriðjudaginn 23. apríl 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. janúar 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B, dags. 22. janúar 2024, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn, D, er X ára gamall. Kærandi og móðir drengsins fara saman með forsjá drengsins en lögheimili hans er hjá kæranda samkvæmt dómi Landsréttar frá 2019. Drengurinn hefur verið í umsjá móður frá 6. febrúar 2023 án allrar umgengi við kæranda. Þann 14. mars 2023 var mál drengsins flutt á grundvelli 15. gr. bvl. frá  E til B. Með dómi Landsréttar þann 23. maí 2023 var ákveðið að drengurinn skyldi tekinn úr umráðum móður og afhentur kæranda með beinni aðfarargerð.

Umdæmisráð B úrskurðaði þann 15. nóvember 2023 um vistun drengsins í tvo mánuði utan heimilis á grundvelli 27. gr. bvl. Foreldrar kærðu úrskurðinn til Héraðsdóms B sem felldi hann úr gildi með dómi 10. janúar 2024.

Mál drengsins var tekið fyrir hjá starfsmönnum ar B þann 22. janúar 2024 og var niðurstaðan sú að loka máli drengsins. Tilkynnt var um lokun málsins með bréfi til foreldra, dags. 22. janúar 2024.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. janúar 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. janúar 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi, dags. 20. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 29. febrúar 2024 var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns bárust með bréfi, dags. 11. mars 2024 og voru þær sendar barnavernd til kynningar með bréfi, dags. 12. mars 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir barnavernd að leggja fyrir umdæmisráð B að forsjársvipta móður til að lögregla geti á grundvelli beiðni barnaverndar fundið drenginn tafarlaust.

Í kæru kemur fram að kærandi telji fráleitt að uppfyllt hafi verið skilyrði til að loka málinu á grundvelli 1. mgr. 23. gr. bvl. þó barnavernd kunni að upplifa sig úrræðalausa.

Líkt og fram komi í bókun meðferðarfundar barnaverndar 22. janúar 2024 hafi það verið mat barnaverndar að fullt tilefni væri til að hafa áhyggjur af drengnum í umsjá móður sinnar. […]. Kærandi og starfsmenn barnaverndar séu sammála um mikilvægi þess að drengurinn finnist og verði tekinn úr ólögmætum vörslum móður sinnar.

Aftur á móti virðast starfsmenn barnaverndar hafa fyllst vonleysi og úrræðaleysi eftir að kveðinn hafi verið upp úrskurður í héraði þar sem ógildur hafi verið úrskurður umdæmisráðs um vistun drengsins utan heimilis bæði móður og föður. Kærandi hafi kært úrskurðinn til héraðsdóms af því að ekki voru skilyrði til að kveða á um vistun drengsins utan heimilis hans. Það hafi verið augljóst og héraðsdómur sammála því en það merkti jafnframt að ógilda varð úrskurðinn í heild sinni.

Þá hafi verið á það bent í héraðsdómi að leitunarheimild lögreglu í kjölfar úrskurðar um vistun utan heimilis urðu ekki rýmri. Starfsmönnum barnaverndar hafi þó verið bent á að sé kveðið á um forsjársviptingu móður verði leitarheimild lögreglu rýmri. Þá séu skilyrði 29. gr. fyrir forsjársviptingu augljóslega uppfyllt:

„29. gr. Forsjársvipting.

[Barnaverndarþjónustu, að fengnum úrskurði umdæmisráðs barnaverndar], 1) er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur:

a. að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,

b. að barni sem er sjúkt eða fatlað sé ekki tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennsla,

c. að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,

d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

Kröfu um sviptingu forsjár skal því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aögerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum X. kafla.“

Að mati kæranda séu að minnsta kosti a-, b- og d-liðir 1. mgr. 29. gr. bvl. uppfylltir og mögulega e-liður en ljóst sé að einn stafliður dugir til að kveða megi á um forsjársviptingu.

Kærandi fái ekki skilið hvað starfsmönnum barnaverndar gangi til og hvernig þeir telji eðlilegt að taka ekki til aðgerða vegna barns sem hafi verið á flótta og í felum í rúmt ár, af því að barnavernd hafi ekki fengið staðfest hvernig aðstæður barnsins séu. Barnið hljóti allaf eiga að njóta vafans.

Í athugasemdum lögmanns kæranda séu gerðar eftirfarandi athugasemdir við greinargerð B:

1. Drengurinn hafi ekki verið í umsjá móður sinnar frá 6. febrúar 2023. Hið rétta sé að móðirin hafi stolið honum úr umsjá E 11. janúar 2023. Sama dag hafi verið kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi F um að úrskurður barnaverndar um vistun utan heimilis skyldi felldur úr gildi. Brot móður varða við 193. gr. almennra hegningarlaga og bæði um refsivert og ólögmætt ástand að ræða.

2. Í greinargerð segir að drengurinn hafi verið í umsjá móður sinnar án allrar umgengni við föður. Hér gæti mikils misskilnings. Drengurinn sé með lögheimili hjá föður. Faðir fær ekki umgengni við drenginn enda býr drengurinn hjá honum. Móðir hans heldur drengnum frá föður með ólögmætum og refsiverðum hætti sem sé ástæða þess að hún fer huldu höfði með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á drenginn og eldri systur hans.

3. Í framhaldi sé því lýst hvernig sérfræðingar og fagaðilar hafi áhyggjur af drengnum í umsjá móður og um mikilvægi þess að hann finnist. Tekið sé undir það sem fram kemur í greinargerð barnaverndar um áhyggjur af drengnum. Þá sé rétt að byggt hafi verið á því af hálfu föður fyrir dómi að úrskurður um vistun utan heimilis gæfi lögreglu ekki ríkari leitarheimild heldur en hún þegar hafði að því frátöldu að […] sem bar ekki árangur. Til að lögregla leiti af drengnum þurfi að forsjársvipta móður en lögregla kveðst þá hafa ríkari heimildir. Þess vegna sé fráleit niðurstaða starfsmanna barnaverndar að þar sem ekki hafi verið hægt að kanna aðstæður drengsins nægjanlega vegna þess að móðir sé ekki til samstarfs þá séu skilyrði forsjársviptingar 29. gr. laganna ekki til staðar.

4. Starfsmenn lýsi því réttilega að áhyggjur séu af drengnum og hann fái ekki […]. Því sé fráleitt að telja að skilyrði 29. gr. laganna séu ekki uppfyllt en ljóst hljóti að vera að barnið hljóti að njóta vafans.

5. Úrskurðir héraðsdóms og Landsréttar um að föður sé heimilt að fá drenginn sér afhentan með aðfarargerð eigi engin áhrif að hafa hér. Rétt eins og ekki hefur hér áhrif að drengurinn eigi að vera hjá föður sínum samkvæmt dómi Landsréttar. Raunin sé bara ekki sú. Móðir sé í felum með drenginn og því ekki hægt að koma á lögbundnu ástandi. Þess megi geta að drengurinn hafi […]. Allt vegna þess að móðir vill ekki afhenda hann kæranda.

6. Ætla má af greinargerð barnaverndar að starfsmenn hafi misst móðinn eða hreinlega móðgast við það að héraðsdómur hafi fellt úr gildi úrskurð þeirra, sem bent hafði verið að á að væri ekki til neins. Starfsmenn telji drenginn í hættu og hafi áhyggjur af honum en þar sem héraðsdómur hafi ekki fallist á vistun utan heimilis föður sjái starfsmenn sér ekki unnt að fara fram á forsjársviptingu.

7. Eins og komi fram í kvörtun til úrskurðarnefndarinnar séu skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga augljóslega uppfyllt. Drengurinn […] sem geti haft varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir hann. Óafturkræfan skaða á […] o.fl. Þá sé hann einangraður og geti ekki verið meðal fólks því hann sé í felum þar sem móðir hans veit að um leið og upplýsingar fást um hvar hann er niður kominn verður hann sóttur með atbeina sýslumanns. Þetta séu ekki aðstæður sem séu barni boðlegar og kærandi telur sýnt að búið sé að eyðileggja æsku drengsins. Hversu mikinn skaða það hafi haft á hann sé óvíst á þessu stigi en hvaða heilbrigði einstaklingur ætti að geta áttað sig á því að aðstæður sem drengurinn sé í séu honum mjög skaðlegar og nauðsynlegt sé að aflétta þessu ástandi sem fyrst.

8. Fær kærandi ekki skilið að barnavernd segi að áhyggjur séu af barninu, líðan þess, þroska, heilsu o.s.frv. en telji að nefndin þurfi ekki að gera neitt þar sem það liggi fyrir úrskurður (ársgamall) um að drengurinn skuli færður honum með beinni aðfarargerð. Þá sé mikill tvískinnungur í því að benda á að meginmarkmið barnaverndarstarfs sé að tryggja að börn, sem búi við óviðunandi aðstæður, fái nauðsynlega aðstoð. Segir svo að með tilliti til þessa hafi verið tekið ákvörðun um að ljúka máli drengsins. Það sé fáheyrt að barnaverndaryfirvöld ljúki máli þar sem gríðarlegar áhyggjur séu af barni og aðstæður óumdeilanlega óviðunandi af því að ljóst sé að ekki verði hægt að eiga samstarf við móður. Ef það séu áhyggjur af barninu og allir sammála um að aðstæður séu óviðunandi hvernig getur það verið vægasta mögulega ráðstöfun að loka málinu! Ef vistun utan heimilis móður sé ekki nægileg af hverju sé þá ekki gripið til næsta mögulega úrræði sem sé forsjársvipting. Það liggi fyrir að vægari úrræði koma ekki að haldi í þessu tilviki vegna afstöðu móður.

9. Þá sé fráleitt af hálfu barnaverndar að loka máli drengsins. Það hafi þá þýðingu að G, sem nú sé með málið til meðferðar, þurfi að byrja á upphafsreit. Þarf þannig að fara fram aftur könnun á sömu atriðum og tók barnavernd í B um níu mánuði að kanna. Hefði barnavernd B í það minnsta átt að sjá sóma sinn í því að framsenda málið til G, teldu starfsmennirnir sig ekki valda því, í stað þess að loka því. Veldur þetta töfum á málinu og skaða fyrir kæranda. Áskilur hann sér rétt til að krefjast skaðabóta vegna ólögmætrar meðferðar barnaverndar B á máli sonar hans.

10. ítrekað skal að lokum að ekkert réttlæti að barnavernd B hafi lokað málinu og kærandi segir þyngra en tárum taki að nefndin hafi ekki séð sóma sinn í því að reyna að bjarga drengnum úr hinum skaðlegu aðstæðum. Virðist sem starfsmennirnir telji að það eina sem réttlæti aðgerðir sé vímuefnaneysla foreldra en af tvennu illu væri líklega minna skaðlegt fyrir drenginn að móðirin væri undir áhrifum þegar hann væri í umsjá hennar, heldur en þær aðstæður sem hann sé í.

11. Ekkert sem fram komi í greinargerð barnaverndar geti stutt þá ákvörðun að loka málinu enda óumdeilt að drengurinn sé í hættu og áhyggjur séu af honum. Eina sem geti réttlætt það að barnaverndarmáli sé lokað sé að ekki sé lengur áhyggjur af barni og það ekki lengur talið í hættu.

12. Þá sé það ekki að ástæðulausu sem faðir sé með lögheimili drengsins og móðir aðeins með takmarkaða umgengni undir eftirliti skv. dómi Landsréttar. Virðist starfsmönnum barnaverndar það ekki atriði við mat á aðstæðum barnsins.

13. Þá sé þess krafist að  B greiði fyrir veitta lögmannsaðstoð í tengslum við rekstur málsins fyrir úrskurðarnefnd.

III.  Sjónarmið ar B

Í greinargerð B kemur fram að um sé að ræða X ára gamlan dreng sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, með lögheimili hjá föður sínum skv. dómi Landsréttar frá 2019. Drengurinn hafi verið í umsjá móður sinnar frá 6. febrúar 2023 án allrar umgengni við föður en þann dag hafi móðir sótt drenginn í vistun sem hafi verið lokið með dómi Héraðsdóms F, dags. 6. febrúar 2023. Frá þeim tíma hafi móðir neitað að afhenda drenginn til föður og ekki gefið upp hvar hún og drengurinn dvelja. Málið hafi verið flutt til B á grundvelli 15. gr. bvl. frá  E, með bréfi dags. 14. mars 2023 sem barst þann 22. mars 2023 en málið hafði verið unnið þar vegna áhyggna af velferð drengsins. Í bréfi E komu fram áhyggjur af velferð drengsins í umsjá móður þar sem hún væri ekki að mæta með hann í […] auk þess sem drengurinn væri ekki að […]. Ekki hafði náðst samvinna við móður til að kanna aðstæður drengsins. Þar sem móðir hafi verið búsett í B hafi málinu vísað til vinnslu hjá B.

B hafa borist tilkynningar um áhyggjur af aðbúnaði og líðan drengsins í umsjá móður, svo og um meint kynferðisbrot sem drengurinn á að hafa orðið fyrir af hálfu föður. Ekki hafi náðst samvinna við móður til að unnt væri að kanna málið frekar. Ekki hafi verið hægt að staðfesta tilkynningar frá þriðja aðila um meint kynferðislegt ofbeldi þar sem tilkynnendur, undir nafnleynd, höfðu þær upplýsingar frá móður. Greindi móðir frá því að hún treysti sér ekki til að ræða málið fyrr en hún hefði fengið sálfræðiviðtöl. Að mati starfsmanna hafi móðir ekki verið til neinnar samvinnu og því hafi ekki orðið við sálfræðiviðtölum fyrir móður.

Leitarbeiðni hafi verið send lögreglu í kjölfar bókunar meðferðarfundar þann 23. maí 2023 þar sem drengurinn hafði ekki notið læknisþjónustu vegna […] auk þess sem hann hafði þá ekki […]. Leit af drengnum hafi ekki skilað árangri þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir lögreglu. Leitaði lögregla m.a. eftir upplýsingum frá lækni drengsins í júlí 2023. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fengust frá lækni taldi lögregla drenginn ekki vera í yfirvofandi lífshættu og því hafi það verið mat lögreglu að það þjónaði ekki hagsmunum drengsins að auglýst yrði eftir honum í fjölmiðlum. Jafnframt kom fram hjá lögreglu að væri það mat ar B að nauðsynlegt væri að auglýst yrði eftir drengnum, og beiðni þess efnis bærist lögreglu, yrði ákvörðun lögreglu endurskoðuð. Í bréfi læknis, dags. 14. júlí 2023, kom fram að […].

Fjallað hafi verið um mál drengsins á meðferðarfundi stafsmanna B að nýju þann 12. október 2023 þar sem niðurstaðan hafi verið að hagsmunir og velferð drengsins til lengri tíma væri hætta búin ef ekki yrði brugðist við stöðu hans. Að mati starfsmanna bæru gögn málsins með sér að drengurinn hafi ekki notið […]. Þar sem ekki hafi legið fyrir staðfestar upplýsingar um að […] annars staðar eða væri að njóta […] í öðru viðurkenndu formi auk þess sem miklar áhyggjur hafi verið af félagslegri einangrun drengsins í umsjá móður hafi það verið mat starfsmanna B að fullt tilefni væri til að hafa miklar áhyggjur af velferð og líðan drengsins í umsjá móður. Í ljósi forsögu málsins, þeirrar staðreyndar að móðir hafi ekki verið til neinnar samvinnu þannig að hægt hafi verið að kanna aðstæður drengsins með fullnægjandi hætti, þótti nauðsynlegt að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði. Aðeins þannig væri hægt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi hans, viðurkennda skólagöngu og heilbrigðisþjónustu sem hann á rétt á og þykir nauðsynleg […]. Þá hafi verið bókað um að nauðsynlegt væri að metið yrði hvort drengurinn væri í þörf fyrir sálfræðiviðtöl eða annan sérfræðistuðning. Bókað hafi verið um að aflað yrði afstöðu foreldra til vistunar utan heimilis skv. 25. gr. barnaverndarlaga auk þess sem lagt hafi verið til að gerð yrði áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga í málinu til tveggja mánaða um fyrrgreint í samvinnu við foreldra. Yrðu foreldrar ekki til samvinnu um vistun utan heimilis hafi verið bókað um að mál drengsins yrði lagt fyrir umdæmisráð arB með tillögu um að úrskurðað yrði um vistun drengsins utan heimilis foreldra skv. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Yrðu foreldrar ekki til samvinnu um meðferð máls yrði unnið skv. einhliða áætlun skv. 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.

Foreldrar hafi ekki verið til samvinnu um vistun drengsins í samræmi við fyrrgreindar tillögur starfsmanna og hafi mál hans verið lagt fyrir fund umdæmisráðs B þann 7. nóvember 2023. Fyrir lá greinargerð starfsmanna, dags. 1. nóvember 2023 með tillögum um drengurinn myndi vistast utan heimilis foreldra í tvo mánuði skv. 27. gr. barnaverndarlaga. Báðir foreldrar hafi verið andvíg tillögum B og komu þeim andmælum á framfæri á fundi ráðsins. Umdæmisráð B kvað upp úrskurð um vistun drengsins í tvo mánuði, skv. 27. gr. barnaverndarlaga, þann 15. nóvember 2023.

Þann 20. nóvember 2023 hafi leitarbeiðni til lögreglu verið ítrekuð og óskað eftir að lýst yrði eftir drengnum í fjölmiðlum.

Faðir kærði úrskurð umdæmisráðs til Héraðsdóms B þann 28. nóvember 2023. Í greinargerð móður sem lögð var fyrir dómþing þann 14. desember 2023 gerði móðir einnig kröfu um að úrskurður umdæmisráðs yrði felldur úr gildi. Þann 10. janúar 2024 lá úrskurður Héraðsdóms B fyrir þar sem úrskurður umdæmisráðs hafi verið felldur úr gildi. Að mati dómsins hafi ekki verið sýnt fram á að uppfyllt væru þau skilyrði ráðstöfunar að brýnir hagsmunir drengsins mæli með vistun hans utan heimilis föður. Þar sem úrskurður héldi ekki gildi sínu gagnvart öðru foreldrinu hafi hann verið ógiltur í heild sinni. Því hafi ekki verið fjallað sérstaklega um hvort uppfyllt væru skilyrði vistunar utan heimilis móður en þess hafi þó verið getið að ýmis fyrirliggjandi gögn styðji mat B um nauðsyn þess að drengurinn verði vistaður utan heimilis móður, sérstaklega þau gögn sem benda til þess að móðir tryggi drengnum ekki […] auk þess að móðir hafi ekki verið til samstarfs við . Þá sé í úrskurði Héraðsdóms B tiltekið að fyrir liggi úrskurður Landsréttar frá 23. maí 2023 um að drengurinn skuli tekinn úr umráðum móður og afhentur föður með aðfarargerð. Þá komi það fram mat dómsins að B hafi ekki sýnt fram á að kærður úrskurður auki möguleika lögreglu á að finna drenginn og koma honum í betri aðstæður og hafi því verið nauðsynlegur að því leyti. Í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms B bárust fjölmargir tölvupóstar frá föður og lögmanni hans þar sem m.a. hafi verið bent á að hægt væri að forsjársvipta móður.

Þann 17. janúar 2024 funduðu starfsmenn B með fulltrúum Barna- og fjölskyldu stofu og fulltrúa borgarlögmanns um niðurstöðu Héraðsdóms og hafi verið fengin ráðgjöf um framhaldið. Leit lögreglu af drengnum hafi engan árangur borið.

Fjallað hafi verið um mál drengsins á meðferðarfundi starfsmanna B þann 22. janúar 2024. Þar sem niðurstaða fundarins hafi verið að fullt tilefni væri til að hafa áfram áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá móður enda bendi margt til að drengurinn fái ekki notið l[…]. Hins vegar, í ljósi meðalhófs, rannsóknarskyldu og þeirrar staðreyndar að ekki hafi verið hægt að kanna aðstæður drengsins nægjanlega og því ekki fullvitað um stöðu hans, hafi það verið niðurstaða fundarins að ekki væri hætt að telja að skilyrði forsjársviptingar skv. 29. gr. barnaverndarlaga séu til staðar. Í ljósi niðurstöðu Héraðsdóms B frá 10. janúar 2024 auk niðurstöðu Landsréttar frá 23. maí 2023, um að drengurinn skuli tekinn úr umráðum móður og afhentur föður með aðfarargerð, hafi það verið mat starfsmanna B að ekki væri tilefni til að vinna málið áfram á grundvelli barnaverndarlaga hjá B. Í bókun sé bent á að fyrir liggur að faðir sé með virka beiðni um aðför hjá embætti sýslumanns. Gera verði ráð fyrir að þegar drengurinn finnst, t.d. á grundvelli aðfarargerðar, að hann fari í umsjá föður sem búsettur sé og með lögheimili í G ásamt drengnum. Mál drengsins verði þá unnið hjá  G en faðir/lögmaður hans hafi lýst því yfir að faðir verði til fullrar samvinnu um málefni drengsins þegar hann fari í hans umsjá. Drengurinn fái þá notið þar þeirrar sérfræði- og heilbrigðisþjónustu sem hann sé í þörf fyrir auk skólagöngu. Ekki hafi verið talið tilefni til að flytja málið á grundvelli 15. gr. barnaverndarlaga þar sem drengurinn væri ekki enn kominn í umsjá föður síns.

Í ljósi alls framanritaðs hafi það verið niðurstaða B að málinu skuli lokað þar sem engar frekari aðgerðir B geti komið drengnum til aðstoðar. Foreldrum hafi verið kynnt ákvörðunin með bréfi þar sem leiðbeint hafi verið um kæruleið.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn, D, eru sonur kæranda. Kærandi og móðir drengsins fara saman með forsjá þeirra en lögheimili hans er hjá föður.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 23. gr. bvl. segir að þegar mál hafi verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarþjónustu skal þjónustan taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Í greinargerð skal sérstaklega tiltaka hvernig barni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig tillit var tekið til skoðana barnsins, eftir því sem við á. Ákvörðun barnaverndarþjónustu um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Samkvæmt gögnum málsins hefur mál drengsins verið til meðferðar hjá  barnaverndaryfirvöldum frá árinu 2022. Foreldrar drengsins skildu í X og við skilnað þeirra var forsjá barna þeirra ákveðin með dómi Landsréttar í máli nr. 487/2021 frá nóvember 2021 og júní 2022. Við uppkvaðningu dóms Landsréttar neitaði móðir að afhenda drenginn en í kjölfar innsetningar í júní 2022 for drengurinn í umsjá kæranda. Í nóvember 2022 […]. Í nóvember 2022 barst tilkynning frá móður er varðaði meint ofbeldi og vanrækslu af hálfu föður. Drengurinn var í kjölfarið vistaður utan heimilis með úrskurði 7. desember 2022 á grundvelli 27. gr. bvl. Þann 11. janúar 2023 felldi Héraðsdómur F þann úrskurð úr gildi. Að vistunartíma loknum sótti móðir drenginn til vistunaraðila og neitaði að afhenda drenginn föður. Málið var flutt til ar B á grundvelli 15. gr. bvl. frá  E en málið hafði verið þar í vinnslu vegna þess að áhyggjur voru af velferð drengsins í umsjá móður þar sem hún væri ekki að mæta með hann í […]. Ekki náðist samvinna við móður hjá  E til að kann aðstæður drengsins. Við vinnslu málsins hjá  B hafi ekki náðst samvinna við móður drengsins og hafi hún neitað að afhenda hann föður. Borist hafi tilkynningar um áhyggjur af aðbúnaði drengsins í umsjá móður, svo og um meint kynferðisbrot af hálfu föður. Leitarbeiðni drengsins sé hjá lögreglu þar sem hann hafi ekki notið […]. Leit lögreglu hefur ekki borið árangur. Í ljósi þeirra upplýsinga sem lögregla fékk frá lækni drengsins um að sjúkdómur hans væri ekki lífshættulegur taldi lögregla að það þjónaði ekki hagsmunum hans að auglýsa eftir honum í fjölmiðlum. Í bréfi læknis, dags. 14. júlí 2023 kemur fram að […]. Jafnframt kemur fram að […].

Í bókun meðferðarfundar, dags. 22. janúar 2024, kemur fram að mál drengsins hafi verið lagt fyrir umdæmisráð ar B þann 7. nóvember 2023 með tillögum um vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði. Báðir foreldrar voru andvíg tillögu barnaverndar. Þann 15. nóvember 2023 úrskurðaði umdæmisráð ar B um vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði og var þess óskað að lögregla myndi leita að drengnum með auglýsingu í fjölmiðlum. Með úrskurði Héraðsdóms B þann 10. janúar 2024 var úrskurðinn felldur úr gildi þar sem dómurinn taldi að ekki væru uppfyllt þau skilyrði vistunar hans utan heimilis. Þar sem úrskurðurinn héldi ekki gildi sínu gagnvart öðru foreldrinu var hann ógildur í heild sinni. Þá kemur fram í bókun ar B að það sé mat barnaverndar að fullt tilefni sé til að hafa áfram áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá móður enda bendi margt til þess að drengurinn fái ekki notið […]. Hins vegar í ljósi meðalhófs, rannsóknarskyldu og þeirrar staðreyndar að ekki hafi verið hægt að kanna aðstæður drengsins nægjanlega og því ekki sé fullvitað um stöðu hans, verður að telja að skilyrði forsjásviptingar samkvæmt 29. gr. bvl. séu ekki til staðar. Í ljósi niðurstöðu Héraðsdóms B frá 10. janúar 2024 auk niðurstöðu Landsréttar frá 23. maí 2023, um að drengurinn skuli tekinn úr umráðum móður og afhentur kæranda með aðfaragerð, hafi það verið mat starfsmanna ar B að ekki væri tilefni til að vinna málið áfram á grundvelli barnaverndarlaga hjá  B. Gera verði ráð fyrir því að þegar drengurinn finnst, t.d. á grundvelli aðfarargerðar, að hann fari í umsjá föður og verði málið þá unnið hjá  G en kærandi og lögmaður hans hafa lýst því yfir að hann verði til fullrar samvinnu um málefni drengsins þegar hann fer í hans umsjá. Drengurinn fái þá notið þar þeirrar sérfræði- og heilbrigðisþjónustu sem hann sé í þörf fyrir auk skólagöngu.  

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl. Ákvörðun B byggist á því að ekki hafi tekist að gera fullnægjandi könnun í málinu vegna skorts á samvinnu við móður og engar nýjar tilkynningar hafi borist frá desember 2022. Þá væri ekki ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir í máli drengsins.

Samkvæmt gögnum málsins eru til staðar áhyggjur af líðan og aðstæðum drengsins. Auk þess liggur fyrir að drengurinn þarf ýmsan stuðning. Móðir er ekki til samvinnu og hefur afþakkað alla þjónustu fyrir drenginn. Í 1. mgr. 22. gr. bvl. segir að markmið könnunar máls sé að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf á úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal afla ýmissa upplýsinga sem í þessu tilfelli hefur ekki tekist vegna þess að móður drengsins hefur ekki verið til samvinnu.

Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar er að í ljósi niðurstöðu Héraðsdóms B frá 10. janúar 2024 auk niðurstöðu Landsréttar frá 23. maí 2023, um að drengurinn skuli tekinn úr umráðum móður og afhentur kæranda með aðfaragerð, hafi ekki verið tilefni til að vinna málið áfram á grundvelli barnaverndarlaga. Þannig væri gert ráð fyrir að þegar drengurinn mundi finnast færi hann til föður og þá yrði málið unnið í fullri samvinnu við föður.

Úrskurðarnefndin telur að könnun máls hafi þegar sýnt fram á að beita þarf úrræðum til handa drengnum í samræmi við hagsmuni hans og þarfir enda liggja fyrir gögn sem sýna að aðstæður drengsins eru ekki ásættanlegar sem stendur. Í ljósi þess koma til álita þau úrræði sem kveðið er á um í VI. kafla barnaverndarlaga um ráðstafanir barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar. Úrskurðarnefndin telur að fullt tilefni sé til að beita þeim úrræðum. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins.

Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun B og er málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá þjónustunni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B, dags. 22. janúar 2024, um að loka máli vegna drengsins D, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum