Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 654/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 654/2021

Mánudaginn 21. mars 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 3. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 vegna umgengni hennar við D.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi er kynmóðir drengsins.

Mál drengsins hafa verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í B frá því skömmu eftir fæðingu hans.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 15. júní 2021, var ákveðið að drengurinn yrði vistaður utan heimilis kynmóður sinnar í tvo mánuði frá og með 15. júní 2021 með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. bvl. Einnig var lögmanni barnaverndarnefndarinnar falið að krefjast þess fyrir dómi að vistun drengsins utan heimilis kæmi til með að vara í eitt ár, eða til 15. júní 2022, sbr. 1. mgr. 28. gr. bvl.

Móðir drengsins bar úrskurðinn undir héraðsdóm og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi. Fyrir héraðsdómi krafðist barnaverndarnefnd staðfestingar úrskurðarins og að drengurinn yrði vistaður utan heimilis á vegum barnaverndarnefndarinnar í allt að 12 mánuði frá og með 15. júní 2021 samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurði Héraðsdóms E var fallist á vistun drengsins utan heimilis á vegum Barnaverndarnefndar B, þó ekki lengur en til 15. júní 2022. Með úrskurði 15. september 2021 staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis móður.

Mál barnsins var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 10. nóvember 2021. Fyrir fundinn lá tillaga starfsmanna Barnaverndar B um að umgengni kæranda við barnið yrði tvisvar á ári, tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti tveggja fagaðila og færi fram í húsnæði á vegum barnaverndar.

Kærandi féllst ekki á tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að barnið D, skuli njóta umgengni við móður, A á meðan á vistun hans stendur þannig að umgengni verði einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti tveggja fagaðila og í húsnæði á vegum barnaverndar.

Barnaverndarnefnd B samþykkir jafnframt fyrirliggjandi einhliða meðferðaráætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 23. desember 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hún hafi umgengni við son sinn alla miðvikudaga frá klukkan 7:30 til 19:30 og frá klukkan 7:30 á föstudögum til 19:30 á sunnudögum sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum sonar kæranda, og að umgengnin verði án eftirlits.

Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengnin verði alla miðvikudaga frá klukkan 7:30 til 19:30 og frá klukkan 7:30 á föstudögum til 19:30 á sunnudögum sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum sonar kæranda, undir eftirliti.

Drengurinn D er á öðru aldursári og lýtur forsjá kæranda. Drengurinn er vistaður utan heimilis í allt að 12 mánuði frá 15. júní 2021 samkvæmt dómi Héraðsdóms E þann 20. september 2021 á grundvelli 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Drengurinn hefur dvalið hjá móðurömmu sinni. Kærandi þessa máls er móðir drengsins.

Barnaverndarnefnd B úrskurðaði um umgengni drengsins með úrskurði, dags. 10. nóvember 2021. Samkvæmt úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar skyldi drengurinn njóta umgengni við móður sína, kæranda, á meðan á vistun hans stæði þannig að umgengnin yrði einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti tveggja fagaðila og í húsnæði á vegum barnaverndar. Jafnframt var samþykkt einhliða meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga. 

Kærandi telur að ekki séu rök fyrir því að synja um aukna umgengni hennar við son sinn. Kröfur sínar styður kærandi að meginstefnu við eftirfarandi málsástæður:

Friðhelgi einkalífs og velferð barna

Kærandi vísar til þess að allir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgis einkalífs, fjölskyldu og heimilis sem ekki verði skertur nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er vísað til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að börnum skuli í lögum tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Nefnt ákvæði á sér meðal annars stoð í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 19/2013. Þar segir í 1. mgr. 3. gr. að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Í 1. mgr. 9. gr. samningsins segir að barn skuli ekki skilið frá foreldrum sínum, nema aðskilnaðurinn sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins og ákvörðun þar um sé tekin af lögbæru stjórnvaldi en slík ákvörðun sé háð endurskoðun dómstóla.

Það sem er barni fyrir bestu

Kærandi byggir á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnalaga á hvert barn rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram fyrrgreind regla um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Í 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram það meginmarkmið laganna og tilgangur barnaverndarstarfs að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga kemur fram að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Kærandi byggir á því að fyrst og fremst beri að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hafi af umgengni við kæranda. Í hinum kærða úrskurði sé lítt rökstutt hvernig nefndin telji það vera barninu fyrir bestu að lágmarka tengsl þess við kæranda með þeim hætti sem hinn kærði úrskurður felur í sér. Barnaverndarnefnd byggir niðurstöðu sína einkum á því að svo ungt barn sé ,,í þörf fyrir rútínu og ramma“, og því sé ekki ráðlagt að umgengni verði jafn mikil og kærandi leggi til. Auk þess er meðal annars vísað til samskipta móður við eftirlitsaðila og móðurömmu drengsins. Kærandi byggir á því að hagsmunum barnsins sé best þjónað með aukinni umgengni við kæranda þar sem drengurinn er aðeins tæpra tveggja ára að aldri og sé einungis vistaður tímabundið utan heimilis. Að þeim tíma loknum sé fyrirhugað að hann fari aftur í umsjá móður. Með jafn lítilli umgengni og hér um ræðir er komið í veg fyrir nauðsynlega tengslamyndun á milli drengsins og kæranda. Mikilvægt sé að tengslum sé ekki einungis viðhaldið heldur þau einnig styrkt. Aukin umgengi sé til þess fallin að viðhalda og styrkja tengsl á milli drengsins og kæranda sem sé aftur til þess fallin að auka frið ró, stöðugleika og öryggi í lífi drengsins, einkum þegar kemur að því að færa drenginn aftur í umsjá móður.

Réttur barns til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra

Kærandi byggir á 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem fram kemur að barn skuli, eftir því sem unnt er, eiga rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 8. gr. samningsins að aðildarríki skuldbindi sig til þess að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta. Réttur barns til að þekkja uppruna sinn hefur einnig verið talinn felast í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem kveður á um réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Í ljósi framangreinds telur kærandi að of langt sé gengið með því að takmarka umgengni kæranda við barn sitt við tvær klukkustundir á viku, undir eftirliti. Með því sé gengið á rétt barns kæranda til að þekkja foreldri sitt og njóta umönnunar þess. Á það einkum við í ljósi ungs aldurs barns kæranda. Svo takmörkuð samskipti á fyrstu æviárum geta haft alvarlegar og varanlegar afleiðingar á tengslamyndun barns við foreldri. Líta verður til þess að vistun drengsins utan heimilis er ekki varanleg ráðstöfun heldur er henni ætlað að vara í skamman tíma og er áætlað að drengurinn snúi aftur til kæranda.

Umgengnisréttur

Kærandi byggir á gagnkvæmum umgengnisrétti barns og foreldris með vísan til 46. gr. barnalaga. Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga. Að sama skapi á foreldri, sem barn býr ekki hjá, í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnalaga. Þrátt fyrir að ákvörðum um vistun utan heimilis, samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga feli í sér að foreldrar séu sviptir rétti til að ráða persónulegum högum barna sinna um lengri tíma ber að miða við að foreldrar haldi lögráðum sínum yfir barni að öðru leyti og beri aðrar skyldur gagnvart barni, sbr. athugasemdir við 28. gr. frumvarps sem varð að barnaverndarlögum. Af því má skýrt ráða að vistun utan heimilis getur ekki ein og sér orðið til þess að barn og foreldri verði svipt gagnkvæmum umgengnisrétti sínum.

Kærandi vísar til 70. gr. barnaverndarlaga þar sem kemur fram að eftir að foreldri hefur afsalað sér umsjá eða forsjá eða verið svipt umsjá eða forsjá barns samkvæmt ákvæðum laganna eigi barn rétt á umgengni við foreldra eða aðra sem eru því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum þess. Í sama ákvæði kemur fram að um umgengni fari í öllum tilvikum samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga, óháð því hver taki við umsjá eða forsjá barns. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Þá eiga  foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara, sbr. sama ákvæði. Kærandi vísar til þess að fyrirhugað er að vista son kæranda utan heimilis ekki lengur en til 15. júní 2022, eða í minna en sex mánuði frá þeim tíma er kæra þessi er lögð fram. Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps sem varð að barnaverndarlögum segir jafnframt að ef neita eigi um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verði að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins. Í hinum kærða úrskurði sé umgengnisréttur kæranda takmarkaður verulega en hvergi sé rökstutt hvernig aukin umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum sonar kæranda. Kærandi byggir á því að þvert á móti séu það mikilvægir hagsmunir drengsins að njóta aukinnar umgengni við móður sína, sbr. framangreindar röksemdir um gagnkvæman umgengnisrétt og það sem sé barni fyrir bestu. Með hinum kærða úrskurði sé því þrengt um of að framangreindum umgengnisrétti, sbr. einnig meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

Meðalhóf

Í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og aðeins skuli beitt íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verður ekki náð með öðru og vægara móti. Af ákvæðunum leiðir að úrskurður um umgengni verði að vera til þess fallinn að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Kærandi telur hinn kærða úrskurð brjóta í bága við framangreinda meðalhófsreglu barnaverndarlaga sem og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu tilfelli sé markmiðið einkum að gera það sem sé drengnum fyrir bestu og stuðla að friði, ró, stöðugleika og öryggi í lífi hans, auk þess að framfylgja gagnkvæmum rétti foreldris og barns til umgengni. Í ljósi 2. gr. barnaverndarlaga um að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu, verður ekki séð að svo veruleg takmörkun á umgengni, svo sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði, hafi falið í sér nægilega hófsama beitingu á umræddu úrræði.

Önnur atriði

Kærandi hafi sýnt aukinn vilja til samvinnu. Hún sé reiðubúin að stuðla að sem bestum samskiptum við starfsmenn barnaverndarnefndar, enda telji hún bráðnauðsynlegt að njóta rýmri umgengni við drenginn.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að kærður sé úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 þar sem umgengni kæranda við drenginn D hafi verið ákveðin einu sinni í viku undir eftirliti fagaðila, tvær klukkustundir í senn. Drengurinn sé vistaður utan heimilis, hjá móðurömmu, þó ekki lengur en til 15. júní 2022 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms E sem staðfestur hafi verið af Landsrétti 15. september 2021.

Af hálfu Barnaverndarnefndar B er þess krafist að úrskurður nefndarinnar verði staðfestur.

Mál drengsins hefur verið unnið sem barnaverndarmál frá fæðingu hans. Barnaverndarnefnd B úrskurðaði um vistun drengsins utan heimilis með úrskurði, dags. 30. september 2020. Málið fór fyrir Héraðsdóm E sem samþykkti ekki vistunina og taldi að ekki lægju fyrir nægilegar upplýsingar um að umönnun og aðbúnaði drengsins væri ábótavant. Drengurinn fór á ný í umsjá móður 19. nóvember 2020 og frá þeim tíma hafi umtalsverður stuðningur verið veittur, bæði inn á heimili móður og auk þess sem móðir dvaldi um tíma á vistheimili með drenginn. Móðir fékk sértækan stuðning frá F nærþjónustu og G uppeldisráðgjafar með nálgun sem kallast „Step by step“. Móðir hætti að taka á móti stuðningsaðilum í maí 2021 og var drengurinn vistaður utan heimilis í júní síðastliðnum, í allt að 12 mánuði.

Í greinargerð starfsmanna sé að finna stutta samantekt á þeirri umgengni sem eftirlit hefur verið með. Umgengnin hefur gengið misjafnlega. Starfsmenn barnaverndar, oftast tveir, hafa séð um eftirlit og stuðning. Umgengni hafi að jafnaði verið vikulega en í sumar voru foreldrar stundum saman í umgengninni. Faðir hafi nú skrifað undir umgengnissamning og meðferðaráætlun og sé umgengni hans og drengsins frá klukkan 10:00 – 18:00 á laugardögum. Óboðað eftirlit sé með umgengninni.

Kærandi flutti í H í júní og hafi umgengni því ekki farið fram á heimili hennar heldur í húsnæði á vegum barnaverndar og á útisvæðum í nágrenninu. Kærandi hélt flutningnum í fyrstu leyndum fyrir starfsmönnum barnaverndar sem og því að hún væri barnshafandi. Kærandi eignaðist stúlku þann 19. september 2021 með föður D, en hún hafði aldrei greint frá því að vera barnshafandi.

Fyrsta umgengni eftir úrskurðinn var þann 24. júní, í klukkustund, og nýttu báðir foreldrar umgengnina. Samskipti móður við félagsráðgjafa hafi verið neikvæð á meðan á umgengninni stóð en kærandi upplýsti meðal annars að hún væri flutt í H og því ætti að flytja mál drengsins þangað. Umgengnin gekk vel varðandi drenginn, hann hafi verið glaður, hoppaði með foreldrum á ærslabelg, týndi blóm og fékk Svala og sætindi. 

Í umgengni þann 30. júní 2021 hafði kærandi einnig umgengni við eldri bróður drengsins og hafi verið óskað eftir að faðir drengsins yrði ekki í þeirri umgengni. Umgengnin gekk að mestu ágætlega, kærandi sagði setningar sem hæfa ekki sem umræðuefni við börn en reyndi að sinna báðum drengjunum og hafa stundina góða. 

Í umgengni þann 7. júlí 2021 mættu foreldrar saman. Umgengnin gekk vel og foreldrar og D áttu góða stund þar sem þau sinntu honum vel. 

Foreldrar mættu bæði í umgengni þann 14. júlí 2021. Þau nýttu tímann á Bókasafni B en fóru einnig á ærslabelginn fyrir utan. Þau borðuðu saman nesti og móðir las fyrir drenginn. Foreldrar sinntu drengnum vel en kærandi átti í neikvæðum samskiptum við móðurömmu og var ekki tilbúin til að fylgja leiðbeiningum frá starfsmönnum.

Þann 21. júlí 2021 hafi umgengni verið í Húsdýragarðinum. Kærandi hafi verið ein í umgengninni sem gekk að mestu leyti vel. Kærandi hafi átt í neikvæðum samskiptum við móðurömmu drengsins í upphafi umgengninnar og erfitt hafi verið fyrir starfsmenn að eiga í samskiptum við hana á meðan á umgengninni stóð.

Þann 4. ágúst 2021 hafi báðir foreldra verið í umgengninni. Þau voru á ærslabelgnum við bókasafnið og fóru einnig í leiktæki á Rútstúni. Umgengnin gekk vel.

Þann 11. ágúst 2021 hafi kærandi verið ein í umgengninni. Hún átti í erfiðleikum með að halda einbeitingu á meðan umgengni fór fram og var mikið í símanum og drengurinn hafi því fengið litla athygli. Kærandi hafi einnig verið harkaleg við hann á leikvellinum. Í göngu frá Rútstúni mótmælti drengurinn því að ganga og dró kærandi hann þá áfram á ónærgætinn hátt. Starfsmenn höfðu áhyggjur eftir þessa umgengni. 

Ekki hafi verið skipulögð umgengni í vikunni 16. – 20. ágúst 2021 og hafi kærandi verið upplýst um að fyrirkomulag umgengninnar yrði tekið fyrir á meðferðarfundi þar sem drengurinn væri að byrja í leikskóla. Kærandi hafi verið ósátt við það en hafnaði fundarboði til að fara yfir stöðuna með þeim orðum að hún ætlaði ekki undir neinum kringumstæðum á fund hjá barnavernd.

Umgengni þann 1. september 2021 fór fram í húsnæði á vegum barnaverndar og í Bókasafni B. Kærandi byrjaði umgengnina með hótunum í garð móður sinnar sem hún vill ekki að drengurinn sé vistaður hjá. Umgengnin gekk síðan vel og kærandi sinnti drengnum.

Í umgengni 3. september 20201 fór kærandi með drenginn að andapollinum og var hann glaður þegar þau gáfu öndunum brauð. Samskipti við kæranda voru erfið og hafi hún ekki verið tilbúin til að fara eftir leiðbeiningum starfsmanna.

Þann 10. september 2021 fór umgengni fram í húsnæði barnaverndar, á ærslabelg og í Bókasafni B. Í umgengninni spurði kærandi starfsmenn hvort það væru til skæri í húsinu og starfsmaður fann þau til fyrir hana. Kærandi tók síðan stígvél drengsins og klippti þau með þeim orðum að drengurinn væri innskeifur og mætti ekki vera í stígvélum. Kærandi hækkaði róminn og var ógnandi á meðan á þessu stóð. Hún tók síðan föt drengsins og reif úr þeim nafnamerkimiða, sagði að drengurinn héti ekki D eins og stóð á miðunum heldur D. Hún tók síðan stígvélin og sagðist ætla að henda þeim og var áfram ógnandi við starfsmenn.

Þann 17. september 2021 féll umgengni niður því að drengurinn var í sóttkví.

Þann 24. september 2021 fór umgengni fram í húsnæði á vegum barnaverndar. Tveir starfsmenn voru til eftirlits og stuðnings. Umgengni gekk ágætlega en kæranda virtist ekki líða vel og virtist vera verkjuð.

Umgengni þann 1. október 2021 gekk ekki vel og drengurinn var mjög vansæll í umgengninni, Kærandi hafi verið hranaleg við hann, reyndi ekki að hugga hann heldur rökræða við hann, þrátt fyrir mikinn grát hjá honum. Starfsmenn höfðu miklar áhyggjur af stöðunni og hafi bakvakt barnaverndar verið kölluð út til að aðstoða starfsmenn. Samskipti kæranda við starfsmenn voru óviðunandi.

Í umgengni þann 8. október 2021 óskaði móðuramma eftir því að drengurinn yrði inni í umgengninni því að hann hafði verið lasinn. Þegar kærandi fékk þá beiðni klæddi hún drenginn strax í útiföt og dreif sig út en veðrið var leiðinlegt, rigning og rok. Gengið var að andapollinum þar sem kærandi meðal annars hló að því þegar drengurinn féll næstum í tjörnina. Drengurinn var mjög kvefaður og hóstaði mikið en kærandi fór með hann í fjöru eftir þetta. Drengurinn datt ítrekað í fjörunni og var orðinn rennandi blautur, bæði vegna þess og þess að það rigndi mikið. Hann var kaldur og rauður í framan.

Þann 15. október 2021 fór kærandi með drenginn að gefa öndunum en stakk upp á því að fara á bíl og fóru starfsmenn barnaverndar með henni. Síðan var farið í húsnæði barnaverndar að leira og umgengnin endaði á bókasafninu. Umgengnin gekk vel en í lok hennar leiðrétti kærandi drenginn þegar hann kallaði ömmu sína ömmu og vildi að hann notaði nafn hennar.

Umgengnin þann 22. október 2021 gekk vel. Kærandi og drengurinn gáfu öndunum brauð og fóru svo inn að mála. Í lok umgengninnar fóru þau aftur út og voru úti þegar móðuramma drengsins kom að sækja hann. Drengurinn vildi ekki sleppa móður í lok umgengninnar og knúsaði hana innilega. 

Þann 29. október 2021 var annar eftirlitsaðilanna karlmaður og móðir brotnaði saman vegna þess í upphafi umgengninnar. Ákveðið hafi verið að hann færi af staðnum. Umgengnin gekk vel og kærandi og drengurinn léku úti allan tímann.

Umgengni var skipulögð fyrir móður hjá I þann 5. nóvember 2021, 26. nóvember 2021 og 1. desember 2021, kl. 14-16. Í öll þessi skipti hafi verið farið í gönguferð að andapolli og niður í fjöru. Í öll skiptin gekk umgengnin vel.

Umgengni hefur gengið upp og ofan eins og hér að ofan er rakið. Áberandi sé að kærandi virðir ekki eftirlitsaðila og fari ekki eftir leiðbeiningum. Þetta hafi verið áberandi í umgengni þann 8. október 2021 þegar móðir var beðin um að hafa drenginn inni þar sem hann hafði verið lasinn. Kærandi klæddi hann þá strax í útiföt, var lengi úti með hann í leiðinlegu veðri og drengurinn hafi orðið bæði blautur og kaldur af útiverunni. Andlegt ástand og jafnvægi kæranda sé misjafnt í umgengni en verst gekk þann 10. september 20210 þegar kærandi hafi verið ógnandi við starfsmenn og skemmdi eigur drengsins. Drengurinn hafi sýnt merki óöryggis og vanlíðanar eftir þá umgengni. Þann 1. október 2021 gekk umgengni einnig mjög illa, kærandi hafi verið ógnandi, talaði illa til starfsmanna og sinnti vansælum drengnum illa. Þá hafði áhrif að kalla til bakvakt, kærandi stillti sig þá af og hægt var að láta umgengnina halda áfram. Samskipti kæranda við eftirlitsaðila séu oft neikvæð og ófyrirsjáanlegt sé hvernig umgengni muni ganga því að það fer alveg eftir dagsformi kæranda. Í upphafi og við lok umgengni veigrar móðuramma sér við að hitta kæranda vegna ógnunar og neikvæðra samskipta sem kærandi viðhefur.

Þar sem um mjög ungt barn sé að ræða og fóstrið tímabundið sé mikilvægt að hafa umgengni reglulega og nokkuð tíða svo að ekki verði frekari rof á tengslum. Umgengnina sé einnig hægt að nýta til að efla kæranda og leiðbeina í umönnunarhlutverki og örvun drengsins. Að sama skapi sé svo ungt barn í þörf fyrir rútínu og ramma og því sé ekki ráðlagt að umgengni sé jafn mikil og kærandi leggur til, sérstaklega í ljósi þess að kærandi hefur ekki verið í neinu samstarfi við barnavernd frá því í maí 2021. Umgengni í nóvembermánuði og það sem af er desember hefur gengið vel og ekki hafa komið upp nein vandræði. Virðist því ágætis stöðugleiki hafa komist á og vísbending sé um að þetta fyrirkomulag virki vel fyrir bæði móður og barn og samræmist því sem barninu sé fyrir bestu. 

IV. Afstaða barns

Drengnum var skipaður talsmaður og lá skýrsla hennar fyrir þann 15. ágúst 2021.

Í skýrslu talsmanns vegna kemur fram að drengurinn sé X mánaða gamall og taki skýrslan mið af því. Talsmaður ræddi því ekki við drenginn um umgengni við kæranda sökum ungs aldurs hans. Í skýrslu talsmanns kemur fram að drengnum virðist líða vel á heimili móðurömmu, hann sé hændur að henni og leiti í öryggi til hennar.

V.  Niðurstaða

Drengurinn D, er X ára gamall og er í tímabundnu fóstri hjá móðurömmu sinni. Kærandi er kynmóðir drengsins.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að um sé að ræða mjög ungt barn í tímabundnu fóstri og mikilvægt sé að umgengni sé regluleg og tíð svo að ekki verði frekari rof á tengslum. Umgengni sé einnig hægt að nýta til þess að efla móður og leiðbeina í umönnunarhlutverki. Þar sem barnið sé ungt og í þörf fyrir venju og ramma sé ekki ráðlagt að umgengni verði jafn mikil og móðir leggur til, sérstaklega í ljósi þess að hún hafi ekki verið í neinu samstarfi við barnavernd frá því í maí 2021.

Kærandi krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hún hafi umgengni við son sinn alla miðvikudaga frá klukkan 7:30 til 19:30 og frá klukkan 7:30 á föstudögum til 19:30 á sunnudögum sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum sonar kæranda og að umgengnin verði, án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengnin verði alla miðvikudaga frá klukkan 7:30 til 19:30 og frá klukkan 7:30 á föstudögum til 19:30 á sunnudögum sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum sonar kæranda, undir eftirliti.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem barnið er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni barnsins við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þess best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við drenginn, verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir hans til aukinnar umgengni við kæranda. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni hans við kæranda með hliðsjón af því að stefnt er að því fóstri sé ætlað að vara til 15. júní 2022. Hagsmunir drengsins eru að mati nefndarinnar best varðir með því að ró og öryggi skapist í fóstrinu en að hann eigi jafnframt umgengni við kæranda svo að ekki verði frekari rof á tengslum þeirra á milli. Þegar miðað er við aldur og þroska drengsins og þörf hans fyrir stöðugleika og fasta rútínu telur úrskurðarnefndin að umgengni kæranda við drenginn hafi réttilega verið ákvörðuð með hinum kærða úrskurði.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og aðra nákomna er ákveðin. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 um umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta