Mál nr. 158/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 158/2024
Fimmtudaginn 29. ágúst 2024
A
gegn
B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 2. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B, dags. 21. mars 2024, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan, C, er X ára gömul. Móðir stúlkunnar fer með forsjá hennar og er lögheimili hennar hjá móður. Kærandi er faðir stúlkunnar.
Mál stúlkunnar var tekið fyrir hjá starfsmönnum B þann 19. mars 2024 og var niðurstaðan sú að loka bæri barnaverndarmálinu. Tilkynnt var um lokun málsins með bréfi til foreldra, dags. 21. mars 2024.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. apríl 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi, dags. 5. júní 2024. Með bréfi, dags. 11. júní 2024, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærð er ákvörðun B um að loka barnaverndarmáli dóttur kæranda. Ráðið verður af kæru að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Í kæru segir að fram komi í hinni kærðu ákvörðun um lokun máls að málið væri í viðunandi farvegi hjá öðru þjónustustigi og aðkoma barnaverndarþjónustu því ekki lengur þörf í málinu. Að mati kæranda sé óljóst hvað sé átt er við með "viðunandi farvegi". Þá komi ekki fram hvaða þjónustustig vitnað sé til. Það sé mat kæranda að barnavernd hefði mátt gera mun betur og að aðstæður og líðan barnsins séu ekki í viðunandi farvegi. Kærandi óskar eftir því að málið verði endurskoðað með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
III. Sjónarmið B
Í greinargerð B kemur fram að um sé að ræða mál sem varðar barn sem lúti forsjá móður. Mál stúlkunnar hafi fyrst komið á borð barnaverndar í mars árið 2022 og beindist tilkynningarefnið þá að móður. Málið hafi þá verið kannað en lokað tveimur mánuðum síðar þar sem ekki hafi verið talin þörf á frekari inngripum.
Í október 2023 barst nú tilkynning og hafi verið ákveðið að kanna málið. Móðir hafi verið boðuð í viðtal og kom hún sjónarmiðum sínum til málsins á framfæri. Óskað hafi verið eftir viðeigandi gögnum eins og upplýsingum frá skóla. Rætt hafi verið við stúlkuna sjálfa og gerð könnunargreinargerð. Niðurstaðan hafi verið sú að gera meðferðaráætlun til tveggja mánaða og sjá hvort það myndi styðja alla aðila, sérstaklega þegar kæmi að umgengni, en stúlkan hafði tjáð sig um það að hún vildi ekki hitta föður sinn en gat ekki skýrt ástæður þess að fullu.
Við meðferð málsins hafi verið haft samband við kæranda og hann upplýstur um stöðuna og honum boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Við vinnslu málsins hafi verið ljóst að foreldar þyrftu ráðgjöf í þessum efnum sem þau hafi fengið. Þau mættu saman í viðtöl og hafi verið lagt upp með áætlun sem báðir foreldrar samþykktu. Í meðferðaráætluninni kom fram það markmið sem stefnt hafi verið að, sem var að bæta líðan stúlkunnar og efla tengsl hennar við fjölskylduna.
Haldnir hafi verið teymisfundir hjá barnaverndarþjónustunni og staðan reglulega metin. Foreldrarnir og stúlkan hafi nýtt sér stuðningsviðtöl hjá barnavernd. Þá hafði stúlkan verið hjá sálfræðingi og hafði hún tjáð sig þar. Á seinni stigum hafi verið fengin annar sálfræðingur sem faðir stúlkunnar tók að sér að panta tíma hjá.
Umgengnismál foreldrana hafi svo verið komið í réttan farveg hjá sýslumanni, enda hafði þeim verið leiðbeint um það. Þau hafi verið hvött til þess að fara á SES (samvinna eftir skilnað) námskeið sem þau þáðu. Móðir mætti þó aðeins á það. Faðir og móðir hafa þó bæði nýtt sér ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum velferðarsviðs D eftir að málinu hafði verið lokað hjá barnavernd og séu enn í þeirri ráðgjöf.
Af efni kærunnar að dæma sé kærandi ósáttur við það að málinu hafi verið lokað hjá B þar sem það var mat teymisfundar barnaverndar að málið væri komið í viðunandi farveg og byggðu mat sitt á öllum þeim úrræði sem voru komin inn og hvar málið var statt á þeim tíma.
Það sé ekkert óeðlilegt við það að foreldrar átti sig ekki á stigskiptingu þjónustu við börn, jafnvel þó að þau séu upplýst um það. En þjónusta við börn sé veitt á þremur þjónustustigum. Þjónustan sé stigskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi. Á þriðja stigi sé veittur sérhæfður stuðningur til að tryggja að farsæld barns sé ekki hætta búin. Á því stigi sé þá að jafnaði um að ræða flókinn og fjölþættan vanda og mikla umörmunarþörf. Barnið sé þá í aðstæðum þar sem skortur á viðeigandi stuðningi og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu þess og þroska. Þegar litið sé á mál stúlkunnar þá hafi það verið mat teymis barnaverndar að málið væri í viðunandi farvegi á öðrum þjónustustigum og aðkoma barnaverndarþjónustu því ekki lengur þörf. Annað þjónustustig sé m.a. félagsþjónustan, en faðir hafi verið upplýstur um það að innan velferðarsvið væri t.d. umrædd SES ráðgjöf og námskeið og getur barnaverndarþjónustan vísað í þá þjónustu og sú þjónusta haldi áfram þrátt fyrir að málinu sé lokað í barnavernd. Barnaverndarþjónusta sé þriðja stigs þjónusta. Ávallt sé reynt að skýra þetta út, þ.e. að þó að barnaverndarþjónustan hafi ákveðið að loka máli þá sé farið yfir þá þjónustu sem barnið eða foreldrar eru séu að njóta og hafi slíkt verið gert í því máli sem hér um ræðir. Fyrir liggi að foreldrar og stúlkan séu enn að fá þjónustu, það sé bara ekki barnaverndarþjónustan sem veiti hana.
VI. Niðurstaða
Stúlkan, C, er dóttir kæranda. Móðir stúlkunnar fer með forsjá hennar og er lögheimili stúlkunnar hjá henni.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Í 23. gr. bvl. segir að þegar mál hafi verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarþjónustu skal þjónustan taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Í greinargerð skal sérstaklega tiltaka hvernig barni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig tillit var tekið til skoðana barnsins, eftir því sem við á. Ákvörðun barnaverndarþjónustu um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í niðurstöðu könnunar máls, dags. 27. nóvember 2023, kemur fram að tilkynning hafi borist frá sálfræðingi heilsugæslunnar, varðandi skólaforðun hjá stúlkunni, hugsanlegt ADHD og mikinn kvíða. Þá virðist stúlkan mjög háð móður og vilji lítið án hennar gera. Stúlkan hafi lítið sem ekkert samband við föður og hafi komið fram í viðtali við stúlkuna að hún upplifi mikinn kvíða varðandi samskipti við hann. Þá er greint frá samskiptum foreldra og skort á umgengni við föður. Í niðurstöðu könnunar kemur fram að málið hafi verið rætt við stúlkuna einslega og við foreldra hennar. Þá hafi verið aflað upplýsinga frá skóla og hafi stúlkan fengið góða umsögn þar. Stúlkan hafi verið í viðtölum hjá sálfræðingi hjá E en starfsmenn telja að foreldrar þurfi að leita sér ráðgjafar varðandi samskipti sín og finna leiðir til að stúlkunni geti liðið vel í reglulegri umgengni við föður. Rétt væri að gera áætlun um meðferðar máls með foreldrum með þeim ákvæðum að starfsmaður hitti foreldra á tímabili áætlunar. Þá væri fylgst með líðan stúlkunnar í gegnum sálfræðing E og skóla.
Í áætlun um meðferð máls stúlkunnar, dags. 9. febrúar 2024, kemur fram að markmið áætlunar sé að bæta líðan barnsins og efla tengsl við fjölskyldu. Tímabil áætlunar var frá 9. janúar 2024 til 9. mars 2024. Í bókun teymisfundar B, dags. 19. mars 2024, kemur fram að tveggja mánaða áætlun sé runnin út. Fram kemur að foreldrum hafi verið veittur stuðningur vegna samskiptavanda auk þess sem stúlkan hafi komið tvisvar í viðtal. Samþykkt var að loka málinu þar sem það væri komið í viðunandi farveg á öðru þjónustustigi og því væri aðkoma barnaverndarþjónustu ekki lengur þörf í málinu.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum stúlkunnar og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.
Fyrir liggur að þegar ákvörðun var tekin um að hefja könnun máls var í ljósi þeirrar tilkynningar sem borist hafði verið lagt upp með því að bregðast við vanda stúlkunnar. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að áætlun um meðferð málsins hafi gengið eftir í samræmi við fyrirætlan þar um. Þá er til þess að líta að gögn málsins gefa til kynna að stúlkan fái áfram þá þjónustu sem hún þarfnast og ekki verði rof í þjónustu þrátt fyrir breytingu á þjónustustigi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað var í málinu.
Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati B að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Aflað hafi verið viðeigandi upplýsinga um hagi stúlkunnar og rannsókn málsins í samræmi við 41. gr. bvl.
Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun B, dags. 21. mars 2024, um að loka máli vegna stúlkunnar A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson