Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál 327/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 327/2022

Föstudaginn 28. október 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. júní 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 9. júní 2022 vegna umgengni hennar við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er móðuramma drengsins.

Drengurinn hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá 21. janúar 2014 […]. Fyrst var hann í tímabundnu fóstri en hefur verið í varanlegu fóstri frá X. Fram að því að drengurinn fór í fóstur dvaldi hann á Landspítalanum og Vistheimili barna. Drengurinn hefur aldrei búið hjá foreldrum sínum. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms B þann 26. maí 2014.

Drengurinn á eldri bróður, F, sem er fæddur X og er í varanlegu fóstri hjá föðurafa sínum og maka hans. D nýtur umgengni við F.

Kærandi mun einu sinni hafa hitt drenginn D. Var það á Vistheimili barna í eina klukkustund sama dag og hann fór til fósturforeldra sinna þann 21. janúar 2014.

Kærandi hefur áður óskað eftir því að fá umgengni við drenginn. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 18. mars 2014, var ákveðið að kærandi hefði ekki sérstaka umgengni við drenginn en fengi myndir af honum einu sinni á ári. Þeim úrskurði var skotið til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti hann með úrskurði þann 9. júlí 2014 í máli nefndarinnar nr. 3/2014. Var það niðurstaða kærunefndarinnar að kærandi teldist ekki nákomin drengnum í þeim skilningi að tengslamyndun hefði ekki farið fram á milli hennar og drengsins.

Á árinu 2015 gerði kærandi að nýju kröfu um umgengni við drenginn. Var erindi hennar tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B 29. september 2015. Í bókun fundarins var vísað til úrskurðar kærunefndar barnaverndarmála í máli nr. 3/2014 og var talið að engar breytingar hefðu orðið í málinu sem gæfu tilefni til að ætla að það þjónaði hagsmunum drengsins að kærandi hefði umgengni við hann.

Kærandi óskaði enn á ný eftir umgengni við drenginn með beiðni, dags. 11. október 2016. Úrskurðað var í málinu á fundi Barnaverndarnefndar B þann 1. mars 2017 og ákveðið að kærandi hefði ekki umgengni við drenginn, enda teldist hún ekki nákomin honum í skilningi barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Málið var kært til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. úrskurð í máli nr. 126/2017 frá 30. júní 2017. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kom fram að þegar úrskurðað hafi verið í máli drengsins þann 9. júlí 2014 hafi aðstæður verið ólíkar þeim sem voru árið 2017. Á árinu 2014 hafi drengurinn, sem þá var eins mánaða gamall, verið nýkominn í fóstur og þurft frið og ró til að geta myndað varanleg, heilbrigð og góð geðtengsl við fósturforeldra sína. Það hafi ekki verið tilefni til að drengurinn myndaði geðtengsl við aðra en fósturforeldra á þessum tíma. Því hafi ekki komið til álita að kærandi tengdist drengnum. Þá taldi úrskurðarnefndin mikilvægt að taka sérstakt tillit til fósturforeldranna til að valda þeim ekki óþarfa spennu og hugsanlegri togstreitu með því að kærandi hefði samskipti við drenginn þannig að fósturforeldrar gætu einbeitt sér að því mikilvæga verkefni að tengjast drengnum. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 126/2017 tók úrskurðarnefndin fram að tengslamyndun hefði gengið vel og drengurinn hefði fengið tækifæri til að tengjast fósturforeldrum eins og um kynforeldra væri að ræða. Drengurinn myndi ekki mynda sterk geðtengsl við aðra en þau þar sem djúptengslamyndun væri lokið. Úrskurðarnefndin tók fram að uppi væri önnur staða en áður og eðlilegt væri að amma drengsins, þ.e. kærandi, fengi möguleika til að sjá drenginn og hafa einhver samskipti við hann. Úrskurðarnefndin taldi að slík umgengni gæti þjónað hagsmunum drengsins. Þá bæri ekki síst að líta til þess að drengurinn ætti albróður sem hefði tengsl við kæranda og bræðurnir hefðu tengsl sín á milli. Ef samband bræðranna héldist áfram væri staða þeirra mjög ójöfn gagnvart kæranda sem væri líffræðilega skyld þeim báðum. Það kynni að valda D hugarangri og vanlíðan að uppgötva seinna meir að bróðir hans ætti samskipti við kæranda en hann ekki. Kærandi væri náskyld D en ekki nátengd honum þar sem tengslin væru engin. Þegar drengurinn hefði aldur og þroska til gæti hann sjálfur metið og ákveðið hvort hann vildi hafa samband við kæranda eða ekki. Úrskurðarnefndin taldi að það væri réttur drengsins að honum væru búnar þær aðstæður sem gerðu honum kleift að taka sínar eigin ákvarðanir í framtíðinni varðandi umgengni við kæranda og hefði verið horft fram hjá framangreindum atriðum í úrskurði barnaverndarnefndar og því hafi ekki verið lagður réttur grunnur að málinu við úrlausn þess. Málinu var því vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju með vísan til 4. mgr. 51. gr. bvl.

Barnaverndarnefnd B tók málið aftur til meðferðar og að nýju var úrskurðað í málinu á fundi nefndarinnar þann 27. febrúar 2018 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl. og ákveðið að kærandi hefði ekki umgengni við drenginn, enda teldist hún ekki nákomin honum í skilningi bvl. Sá úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 26. júní 2018 í máli nr. 120/2018 var úrskurðurinn felldur úr gildi og málinu vísað til meðferðar barnaverndarnefndarinnar að nýju. Í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar sagði að við áframhaldandi vinnslu málsins hjá Barnavernd B og Barnaverndarnefnd B væri óhjákvæmilegt annað en að leggja til grundvallar það sem fram kæmi í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála frá 30. júní 2017 í máli nr. 126/2017 varðandi umgengni kæranda við drenginn. Við úrlausn málsins yrði ekki hjá því komist að líta til þess að drengurinn ætti rétt á umgengni við þá sem væru honum nákomnir ef það samrýmdist hagsmunum hans, sbr. 1. mgr. 70. gr. bvl., sbr. 38. gr. og 1. mgr. 74. gr. sömu laga. Úrskurðarnefndin teldi það samrýmast hagsmunum drengsins að fá að þekkja kæranda með vísan til framangreindra forsendna. Að mati úrskurðarnefndarinnar ógnaði það engan veginn tengslamyndum drengsins að fá tækifæri til að þekkja kæranda þar sem frumtengsl myndist mest á fyrstu tveimur árum barns og því mætti ætla að þeim væri lokið. Úrskurðarnefndin taldi að það væri málefnalegt sjónarmið að bræðurnir, F og D , fengju báðir möguleika til að kynnast kæranda. Ef hagsmunir D væru settir í brennidepil og aðilar legðu sig fram við að ná fram farsælli lausn væru forsendur fyrir því að drengurinn fengi að kynnast kæranda. Þar sem deilur og togstreita hafi litað málið væri augljóst að til þess að árangur myndi nást þyrfti að vinna málið í litlum skrefum, gefa sér góðan tíma í aðlögun og takmarka umgengni verulega í upphafi.

Enn tók Barnaverndarnefnd B málið til meðferðar og úrskurðaði þann 26. nóvember 2018 að drengurinn skyldi eiga umgengni við kæranda einu sinni á ári í eina klukkustund í senn, undir eftirliti og á þeim stað sem fósturforeldrar teldu góðan fyrir barnið. Fósturforeldrum væri heimilt að vera viðstaddir umgengni. Sá úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 18. desember 2018 og fjallaði úrskurðarnefnd velferðarmála um málið í úrskurði sínum í máli nr. 448/2018 frá 15. mars 2018. Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun barnaverndarnefndarinnar með þeim rökum að kærandi hefði þegar umgengni við bróður drengsins annan hvorn laugardag og hefði byggt upp tengsl við hann undanfarin ár. D hefði tengsl við bróður sinn og væri staða þeirra gagnvart kæranda ólík að því leyti að annar þeirra hefði mikil tengsl við hana en hinn ekki. Á hinn bóginn væru samskipti og tengsl á milli bræðranna og trúlegt að svo yrði áfram. Eins og fram kæmi í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 120/2018 telji úrskurðarnefndin af þeim sökum það réttlætismál fyrir D að hann fengi tækifæri til að þekkja kæranda og það væri honum til hagsbóta að hafa raunhæfan möguleika á að kynnast henni til þess að geta ákveðið sjálfur í framtíðinni hvort hann vilji hafa samband við kæranda eða ekki. Við úrlausn málsins bæri að leggja þessar aðstæður til grundvallar við mat á því hvað þjóni best hagsmunum drengsins. Þá tók úrskurðarnefndin fram að málið yrði að vinna í litlum skrefum, gefa drengnum góðan tíma til aðlögunar og því yrði umgengni takmörkuð í upphafi.

Fósturforeldrar drengsins stefndu Barnaverndarnefnd B og kæranda fyrir Héraðsdóm B og kröfðust þess að úrskurður nefndarinnar í máli nr. 448/2018 yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms B, dags. 9. september 2020 í máli nr. E-6187/2019, var fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála felldur úr gildi. Í niðurstöðu dómsins kom fram að ekki hafi verið sýnt fram á að ein klukkustund á ári í umgengni við kæranda væri drengnum til hagsbóta. Líta yrði til fleiri atriða en nefndin hefði gert við mat á því hvort það væri drengnum til hagsbóta að hefja umgengni við kæranda. Þá benti dómurinn á að drengurinn ætti við erfiðleika að stríða. Hann væri með nokkrar greiningar og væri enn í greiningarferli. Auk þess hefði fósturmóðir drengsins veitt trúverðuga lýsingu fyrir dómi á líðan drengsins. Að þessu vitru var það niðurstaða héraðsdóms að skilyrði 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga væru ekki uppfyllt og úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála væri því haldinn slíkum annmörkum að ekki væri hjá því komist að fella hann úr gildi.

Þann 12. október 2021 gerði kærandi enn á ný kröfu um umgengni við drenginn annan hvorn laugardag, auk þess að fá sendar myndir af drengnum ársfjórðungslega, alls 12 myndir á ári hverju. Ekki náðist samkomulag um fyrirkomulag umgengni og var mál drengsins því lagt fyrir Barnaverndarnefnd B sem tók málið til úrskurðar þann 9. júní 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, njóti ekki umgengni við móðurömmmu sína, A.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. júní 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. júlí 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 10. ágúst 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. ágúst 2022, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með tölvupósti, dags. 15. september 2022, var fósturforeldrum drengsins gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum til málsins. Athugasemdir fósturforeldra drengsins bárust úrskurðarnefndinni þann 28. september 2002.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurður Barnaverndarnefndar B, dags. 9. júní 2022, verði felldur úr gildi og að hún fái umgengni við barnið annan hvorn laugardag og jafnframt óskar hún þess að hún fái sendar þrjár myndir af barninu ársfjórðungslega sem eru samtals 12 myndir á ári og að myndirnar verði teknar 1.-10. hvers mánaðar af barninu sjálfu í fókus.

Vísað er til þess að málavextir séu í stuttu máli þeir að kærandi hafi frá fæðingu barnsins óskað eftir umgengni við það. Hún hafi einu sinni fengið umgengni við barnið í rúma klukkustund þegar barnið var kornabarn. Sama dag og umgengni fór fram hafi barnið farið í fóstur til núverandi fósturforeldra, en frá þeim tíma hafi allri umgengni verið hafnað af hálfu barnaverndaryfirvalda, lengst af til að tengslamyndun gæti átt sér stað.

Þann 1. mars 2017 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað að kærandi skyldi ekki hafa neina umgengni við barnið. Þann 27. mars sama ár var úrskurðinn kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi úrskurðinn úr gildi og vísaði málinu til meðferðar að nýju þann 30. júní 2017 (mál nr. 127/2017).

Meðal raka fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar var meðal annars að aðstæður barnsins væru ólíkar en þær voru í júlí 2014. Barnið myndi ekki mynda sterk geðtengsl við aðra en fósturforeldra þar sem djúptengslamyndun væri lokið. Þá taldi nefndin að uppi væri önnur staða nú en áður og að eðlilegt væri að kærandi, þ.e. amma barnsins, fengi möguleika á að sjá það og hafa einhver samskipti við barnið.

Allt frá því að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 126/2017 féll hafi Barnaverndarnefnd B reynt að hundsa úrskurðinn. Í upphafi hafi málið verið dregið úr hófi fram. Fyrst með þeim rökum að starfsmenn væru í sumarleyfi, svo að þau væru að leita sér að lögmanni og loks var málinu frestað því að lögmaður fósturforeldra þurfti meiri tíma sökum anna hjá sér við að sinna öðrum verkefnum. Fór svo að lögmaður kæranda sendi kvörtun fyrir hönd kæranda vegna vinnslu málsins til Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa gerði alvarlegar athugasemdir við vinnslu málsins og að það skyldi ekki vera búið að taka nýja ákvörðun um umgengni við móðurömmu drengsins. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Barnaverndarstofa gerði athugasemdir varðandi vinnslu Barnaverndarnefndar B gagnvart kæranda og krafna hennar um umgengni við dótturson sinn.

Þann 27. febrúar 2018 var úrskurðað af hálfu Barnaverndarnefndar B um að kærandi hefði ekki umgengni við barnið. Sá úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem felldi fyrri úrskurð úr gildi og vísaði málinu á ný til barnaverndarnefndar, sjá mál nr. [120/2018]. Barnaverndarnefndar B úrskurðaði aftur í málinu 26. nóvember 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt á umgengni við barnið í eina klukkustund á ári.  Bæði kærandi og fósturforeldrar kærðu þann úrskurð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti úrskurð Barnaverndarnefndar B, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 448/2018. Í kjölfarið höfðuðu fósturforeldrar dómsmál gegn kæranda og barnaverndarnefnd og kröfðust ógildingar á úrskurðinum og jafnframt var þess krafist að kærandi ætti engan umgengisrétt við barnið. Í máli héraðsdóms í máli nr. E-6187/2019 var úrskurðurinn felldur úr gildi, kröfunni um að kærandi ætti ekki umgengnisrétt var vísað frá dómi.

Í hinum kærða úrskurði frá 9. júní 2022 fjallar barnaverndarnefnd ítarlega um 2. mgr. 74. gr. sem er svohljóðandi:

,,Foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Barn sem er 15 ára og eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni."

Í umfjöllun í greinargerð um 74. gr. laganna kemur vissulega fram eftirfarandi: “Leggja ber áherslu á að með nákomnum er ekki endilega átt við skyldmenni. Aðrir geta fallið undir það að vera nákomnir, svo sem nánir vinir fjölskyldu. Barnaverndarnefnd metur hvort aðili telst nákominn barni í skilningi þessa ákvæðis.”

Þrátt fyrir að barnaverndarnefnd hafi verið sett það hlutverk í greinargerð að meta hverjir teljist nákomnir barni, þá sé sú lagaskylda hvorki sett í lagabálkinn sjálfan né er þar skilgreint hvað átt sé við með orðinu nákomnir. Það sé einungis tekið fram að aðrir en skyldmenni geti einnig talist nákomnir barni. Hafa ber í huga að lagaákvæðið sjálft kveður á um þá sem telja sig nákomna barninu, eigi rétt á umgengni við barnið. Það sé alveg ljóst að kærandi telur sig nákomna barninu. Kærandi telur að barnaverndarnefnd geti ekki hafnað umgengni með því einu að úrskurða að hún sé ekki nákomin barninu, að mati nefndarinnar, meira þurfi að koma til. Í hverju máli þurfi fyrst og fremst að úrskurða með hag barnsins i huga. Því þurfi að taka tillit til þess hverjir séu hagsmunir og þarfir barnsins og hvað sé barninu sjálfu fyrir bestu, allt annað víki fyrir þeim sjónarmiðum. Kærandi telur klárlega að það sé barninu fyrir bestu að fá að njóta umgengni við sig og í leiðinni að fá að kynnast móðurfjölskyldu sinni. Barnið sé ríkt þar sem það eigi, þrátt fyrir allt, þrjár fjölskyldur sem standi því þétt að baki, það er móðurfjölskylda, föðurfjölskylda og fósturfjölskylda.

Í umfjöllun um 2. mgr. 74. gr. laganna kemur einnig eftirfarandi fram:

“Þegar um aðra nákomna er að ræða er aftur á móti tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi er réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kann að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra er lítil sem engin.”

Hafa ber i huga eins og áður segir að kærandi telur sig vera nákomna barninu. Kærandi er einnig náskyld barninu. Þá tekur kærandi fyllilega undir mat úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 126/2017 þar sem fram kom að þá hafi verið önnur staða uppi en áður og að eðlilegt sé að amma drengsins, þ.e. kærandi, fái möguleika á að sjá hann og hafa einhver samskipti við hann. Nefndin taldi að slík umgengni væri ekki varhugaverð fyrir drenginn heldur gæti hún þvert á móti þjónað hagsmunum hans. Eins og áður segir tekur kærandi fyllilega undir þetta mat úrskurðarnefndarinnar.

Í dómi héraðsdóms í máli nr. E-6187/2019 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að fallast á með stefnendum, þ.e. fósturforeldrum, að stefnda, þ.e. kærandi/amma barnsins gæti ekki talist nákomin drengnum í skilningi barnaverndarlaga. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að amma barnsins væri nákomin barninu í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að barnið þekkti ömmu sína. Dómurinn taldi að ekki hafi verið sýnt fram á að ein klukkustund á ári myndi skipta sköpum fyrir barnið. Dómurinn taldi hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á að svo stöddu að það væri barninu fyrir bestu að njóta umgengni, enda hefði barnið nýlega fengið ýmsar greiningar. Í úrskurði barnaverndarnefndar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi skipa drengnum talsmann því að slíkt gæti raskað ró hans, öryggi og stöðugleika verulega. Þessu sé mótmælt. Að sjálfsögðu þarf að fara gætilega í návist drengsins og leyfa honum að nálgast til dæmis talsmann, en slíkt verður ekki gert með því að einangra barnið. Að sama skapi kemur fram í úrskurði barnaverndarnefndar að drengurinn hafi verið í betra jafnvægi undanfarna mánuði og sé það rakið til þess að hann sé byrjaður á lyfjum og sé lyfið Medikinet meðal annars nefnt til sögunnar. Fósturforeldrar taki undir að barnið sé í mun betra jafnvægi en áður eftir að það byrjaði á lyfjunum. Þegar dómsmálið átti sér stað var drengurinn, eftir því sem best er vitað, ekki byrjaður á lyfjunum. Þá taki barnaverndarnefndin fram í úrskurði sínum að líðan drengsins í dag sé góð, en engu að síður kýs nefndin að fara gegn fyrri úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í þessu máli. Það eina sem varð til þess að dómurinn felldi úr gildi fyrri úrskurð nefndarinnar, var [að drengurinn var] í greiningarferli á þeim tíma og nýlega hafi verið komin greining. Drengurinn hafi á þeim tíma ekki verið byrjaður á lyfjum. Varðandi þær kröfur sem gerðar séu í málinu þá útskýri þær sig sjálfar. Fyrsta krafan sé sú að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og í framhaldinu sé gerð krafa um umgengni. Kærandi geri ítrustu kröfur um umgengni. Þá geri kærandi kröfu um að fá sendar myndir af ömmubarninu sínu.

Varðandi umgengnisþáttinn þá sé búið að rökstyðja hér að framan af hverju kærandi telji sig eiga rétt á umgengni. Ljóst sé að það er kominn meiri stöðugleiki hjá drengnum nú en hafi verið þegar dómsmálið var rekið. Deila megi um hversu oft umgengni eigi að eiga sér stað og í hversu langan tíma umgengni skuli standa í hvert sinn. Kærandi geri sér vel grein fyrir því að það þurfi jafnvel að fara mjög rólega af stað. Hún viti vel að hún þurfi að ávinna sér traust drengsins og að það þurfi að fara varlega. Þannig gæti umgengni verið styttri til að byrja með en með tímanum orðið lengri og örari. Kærandi viti líka að hún fái aldrei meiri umgengni en hún óski eftir og því sé óskað eftir ríflegri umgengni.

Þá hafi barnaverndarnefnd á engan máta rökstutt af hverju það gæti verið barninu hættulegt að móðuramma þess, þ.e. kærandi, fái myndir af barninu.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að um sé að ræða X ára gamlan dreng sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Drengurinn hafi aldrei verið í umsjá foreldra sinna en móðir hans yfirgaf hann á fæðingardeildinni þegar drengurinn var sólarhrings gamall. Drengurinn fór í umsjá fósturforeldra sinna þegar hann var X gamall og er þar nú í varanlegu fóstri. Barnaverndarnefnd B tók mál kæranda vegna umgengni fyrir á fundi nefndarinnar þann 30. október 2018. Nefndin úrskurðaði þann 26. nóvember 2018 að móðuramma ætti umgengni við drenginn einu sinni á ári, í eina klukkustund í senn. Fósturforeldrar kærðu úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar þann 18. mars 2019 í máli nr. 488/2018. Fósturforeldrarnir stefndu þá Barnaverndarnefnd B og kæranda fyrir Héraðsdóm B og kröfðust þess að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms B í máli nr. E-6187/2019, dags. 9. september 2020, var úrskurður úrskurðarnefndarinnar felldur úr gildi.

Barnavernd B barst þann 12. október 2021 beiðni frá lögmanni kæranda þar sem óskað var eftir að hún fengi umgengni við drenginn. Þann 14. febrúar 2022 var fjallað um beiðni kæranda um umgengni við drenginn á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B. Á fundinum var bókað það mat starfsmanna að ekki væru forsendur fyrir því að leggja til að kærandi fengi umgengni við drenginn eins og hún hafði óskað eftir. Í bókun er vísað til þess að kærandi hafi ekki hitt drenginn eða átt umgengni við hann nema í eitt skipti þegar drengurinn var mánaðargamall og vistaður á F. Í bókun barnaverndar kom einnig fram að staða drengsins hafi ekki breyst frá úrskurði héraðsdóms en í úrskurðinum var rakið að það hafði ekki verið sýnt fram á að umgengni kæranda við drenginn væri honum til hagsbóta.

Fyrir fund barnaverndarnefndar þann 17. maí 2022 var kannað viðhorf fósturforeldra til umgengni við kæranda samkvæmt 74. gr. a barnaverndarlaga og var afstaða fósturforeldra drengsins óbreytt frá því sem áður var. Vísuðu þau til dóms Héraðsdóms B frá 9. september 2020 og að ekkert hafi breyst í aðstæðum drengsins. Þá sé drengurinn að sögn fósturforeldra í betra jafnvægi eftir að hann byrjaði á lyfjum en sé engu að síður viðkvæmur og telji þau mikilvægt að vernda drenginn eins og hægt sé til þess að halda áfram því góða jafnvægi sem hafi skapast með lyfjatöku. Fósturforeldrar hafi því alfarið hafnað umgengni kæranda við drenginn og vísi jafnframt í fyrri gögn sem sýni að drengurinn hafi komist úr jafnvægi þegar talsmaður ræddi við hann síðast og að það hafi tekið drenginn nokkra mánuði að verða sjálfum sér líkur aftur. Þá hafði drengurinn ekki sýnt því neinn sérstakan áhuga að hitta kæranda og hafði lítinn áhuga á að ræða við talsmann. Starfsmenn Barnaverndar B töldu ekki æskilegt að afla afstöðu drengsins til umgengni við kæranda fyrir fund nefndarinnar í maí sl. þar sem það var mat starfsmanna að slíkt gæti raskað ró hans, öryggi og stöðugleika verulega eins og áður hafi gerst. Þá lágu fyrir ýmsar greiningar og gögn í máli drengsins sem staðfestu að hann fari úr jafnvægi þegar slíkt sé gert.

Málið fór fyrir Barnaverndarnefnd B þann 17. maí 2022 og þann 9. júní 2022 var úrskurðað um að drengurinn skyldi ekki hafa umgengni við kæranda, enda þjónaði það ekki hagsmunum drengsins að eiga umgengni við hana í varanlegu fóstri. Í ljósi gagna málsins væri umgengni drengsins við kæranda honum ekki til hagsbóta. Í bókun barnaverndarnefndar frá 17. maí 2022 sé vísað til þess að kærandi hafi hitt drenginn aðeins einu sinni þegar hann var mánaðargamall og vistaður á F. Drengurinn þekki ekki kæranda og sé ekki í neinum samskiptum eða umgengni við hana. Barnaverndarnefndin vísi til dóms Héraðsdóms B í máli nr. E-6178/2019 þar sem fram komi að ekki hafi verið sýnt fram á að það væri drengnum til hagsbóta að eiga umgengni við eða hitta kæranda og að kærandi hafi ekki áfrýjað þeim dómi. Nefndin samþykkti því tillögur starfsmanna um að kærandi ætti ekki umgengni við drenginn eins og þær lágu fyrir á fundinum í greinargerð starfsmanna.

Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé fjallað um umgengni í fóstri. Segir þar í 1. mgr. að barn eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Þá segir meðal annars í 2. mgr. að kynforeldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá segi enn fremur að þeir sem telji sig nákomna barninu eigi með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi til laganna kemur fram að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Enn fremur kemur fram að við ákvörðun um umgengni verður barnaverndarnefnd að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Álykta megi í ljósi athugasemda frumvarpsins að almennt sé gert ráð fyrir takmarkaðri umgengni þegar börn eru vistuð í varanlegu fóstri, auk þess sem við túlkun á skilyrðum 74. gr. barnaverndarlaga verði að taka mið af því að réttur annarra nákominna sé ekki jafnríkur og kynforeldra. Við úrlausn mála sem þessara beri að meta hvort sá sem óskar eftir umgengni teljist nákominn barni í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Eins og fram komi í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpinu meti barnaverndarnefnd hvort aðili teljist nákominn barni í skilningi lagaákvæðisins. Við lögskýringu á lagaákvæðinu verði að líta til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að túlka bæri hverjir teldust nákomnir barni út frá stöðu barnsins og hagsmunum þess.

Í málinu sé það óumdeilt að drengurinn þekkir ekki kæranda. Hann hefur einungis hitt hana einu sinni og þá aðeins mánaðargamall í klukkustund á vistheimilinu F og engin tengslamyndun hafi átt sér stað á milli þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga verði að uppfylla tvö skilyrði, annars vegar að kærandi teljist vera nákomin drengnum og hins vegar að umgengni drengsins við kæranda teljist honum til hagsbóta. Hugtakið nákominn aðili samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga sé þannig túlkað að það nái eingöngu til þeirra aðila sem hafi þegar myndað tengsl við barnið. Hafi tengslamyndun ekki farið fram væri verið að búa til tengsl á milli þeirra sem myndu aldrei verða náin því að tengslin yrðu afar lítil, sbr. niðurstöður í máli úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 420/2017.

Í 1. mgr. 74. gr. a barnaverndarlaga komi fram að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Í 2. mgr. 74. gr. a kemur fram að fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri eru aðilar máls. Fósturforeldrar eru að jafnaði þeir aðilar sem þekkja hagi og líðan barnanna best, sbr. álit umboðsmanns Alþingis, dags. 7. apríl 2006, í máli nr. 4474/2005. Það sé vel þekkt meðal fósturbarna að regluleg endurskoðun á umgengni geti haft í för með sér álag og verið íþyngjandi fyrir fósturbörn og fósturforeldra. Gögn málsins sýna að drengurinn sé afar viðkvæmur, þolir illa breytingar og sé því mikilvægt að hlúa að honum, efla hann andlega og líkamlega og tryggja þannig uppeldi hans og umönnun innan fósturfjölskyldunnar. Umönnun drengsins sé krefjandi og hafa fósturforeldrar lýst því að drengurinn hafi farið úr jafnvægi þegar talsmaður ræddi síðast við hann og að það hafi tekið nokkra mánuði fyrir drenginn að verða sjálfum sér líkur aftur. Drengurinn hafi ekki sjálfstæða þörf fyrir að hitta eða tengjast kæranda og þá telji starfsmenn Barnaverndar B að ekki sé rétt að þvinga fram umgengni við kæranda gegn vilja fósturforeldra en slíkt geti haft neikvæð áhrif á drenginn og orðið til þess að raska ró og öryggi hans. Mikilvægt sé að viðhalda þeim stöðuleika sem drengurinn búi nú við. Hagsmunir barns í fóstri skal ávallt vera í fyrirrúmi og beita skal þeim ráðstöfunum sem barni séu fyrir bestu, með tilliti til til stöðu þess og hagsmuna.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi svo og með vísan til forsendna í niðurstöðu úrskurðar Barnaverndarnefndar B þann 9. júní 2022 gerir Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.


 

IV. Afstaða drengsins

Samkvæmt hinum kærða úrskurði töldu starfsmenn Barnaverndar B að ekki væri ráðlegt að afla afstöðu drengsins með talsmanni þar sem slíkt gæti raskað ró hans, öryggi og stöðugleika verulega eins og áður hafi gerst.

Þá kemur fram í úrskurðinum að drengnum hafi tvisvar verið skipaður talsmaður á fjögurra vikna tímabili, seinni hluta árs 2018, í tengslum við beiðni móður og móðurömmu um umgengni. Í kjölfar aðkomu talsmanns hafi fósturforeldrar drengsins og starfsfólk leikskóla tekið eftir miklum neikvæðum breytingum í hegðun og líðan drengsins. Hann hafi sýnt öðrum börnum ofbeldisfulla hegðun, skaðað sjálfan sig, verið óöruggur gagnvart fósturforeldrum og ekki mátt af þeim sjá. Drengurinn hafi farið í sálfræðilegt mat á árinu 2018 og endurmat árið 2019, auk þess sem drengnum hafi verið vísað til einhverfuráðgjafa á árinu 2019. Aðkoma allra þessara fagaðila hafi verið vegna erfiðrar hegðunar drengsins og vanda hans í félagslegum athöfnum.

V. Afstaða fósturforeldra

Óskað var afstöðu fósturforeldra drengsins til kæru með tölvupósti, dags. 15. september 2022. Í bréfi lögmanns þeirra til úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. september 2022, kemur fram að fósturforeldrar krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fósturforeldrar taka undir þá málavaxtalýsingu sem fram kemur í hinum kærða úrskurði.

Vísað er til þess að kærandi hafi haldið uppi kröfu um umgengni allt frá upphafi fósturs drengsins hjá fósturforeldrum. Fram til ársins 2018 hafi Barnaverndarnefnd B hafnað kröfu kæranda og hafi nefndin í þrígang vísað þeim úrskurðum til úrskurðarnefndar velferðarmála og forvera hennar, kærunefndar barnaverndarmála. Um sé að ræða úrskurð í máli nr. 3/2014 hjá kærunefnd barnaverndarmála og úrskurði í málum nr. 126/2017 og 120/2018 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Eins og fram komi í kæru breytti Barnaverndarnefnd B afstöðu sinni á árinu 2018 varðandi umgengnisrétt kæranda við drenginn, fyrst og fremst með vísan til afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í fyrrgreindu máli nr. 120/2018, og úrskurðaði að umgengni skyldi fara fram einu sinni á ári. Sú niðurstaða hafi verið kærð af hálfu fósturforeldra til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti þá niðurstöðu, sbr. mál úrskurðarnefndar nr. 448/2018.

Í kjölfarið höfðuðu fósturforeldrar dómsmál fyrir Héraðsdómi B (mál nr. E-6187/2019) og féll dómur hinn 9. september 2020. Dómurinn felldi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 448/2018 úr gildi og dæmdi Barnaverndarnefnd B og kæranda til að greiða fósturforeldrum málskostnað. Dómnum hafi ekki verið áfrýjað.  

Um málavexti og gögn um forsögu málsins vísast til fyrrnefndra úrskurða og málsmeðferðar og einnig til greinargerðar starfsmanna Barnaverndar B, dags. 5. maí 2022. 

Kærendur leggi áherslu á að það sé með öllu óumdeilt að drengurinn þekki ekki kæranda og að engin tengslamyndun hafi farið fram þeirra á milli.

Fósturforeldrar hafi alla tíð byggt sjónarmið sín á því að það sé grundvallarskilyrði að sá aðili, utan kynforeldra sem æski umgengni við fósturbarn, verði að teljast barninu nákomið samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Auk þess krefst hið sama lagaákvæði þess að sá sem æski umgengni verði að sýna fram á að  umgengni sé talin til hagsbóta fyrir viðkomandi barn. Bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt og það hafi verið afstaða fósturforeldra að hvorugt skilyrða lagaákvæðisins sé uppfyllt í máli þessu.

Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms B hafi verið tekið undir þessi sjónarmið fósturforeldranna, þ.e. að bæði skilyrði 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þurfi að vera uppfyllt til að koma á umgengni á milli kæranda og drengsins. Í framhaldinu hafi dómurinn fjallað um það í forsendum sínum að fyrra skilyrðið, þ.e. að vera barni nákomið, sé uppfyllt í krafti þess að kærandi sé náskyld honum og sé hluti upprunafjölskyldu hans sem hann eigi rétt á að kynnast, kjósi hann það.

Hins vegar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að umgengni drengsins við kæranda væri honum til hagsbóta. Því til rökstuðnings sé bæði vísað til þess að ekki dugi að vísa til sjónarmiða um að annað barnabarn kæranda sé í umgengni við hana heldur verði einnig að líta til fleiri atriða þegar meta skuli hvort það sé drengnum til hagsbóta að byrja nú umgengni við kæranda. Í forsendum dómsins sé því lýst að fyrir liggi ótvíræð gögn um mikla erfiðleika drengsins og greiningar. Þá sé vísað til skýrslu fósturforeldris sem að mati dómsins hafi gefið góða og trúverðuga skýrslu um líðan drengsins og þau áhrif sem allar breytingar í lífi hans hafa á hann. Með vísan til þessa hafi það ekki verið talið drengnum til hagsbóta að eiga umgengni við kæranda og skilyrði 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga því ekki uppfyllt.

Augljóslega séu fósturforeldrar, jafnt sem kærandi og þau stjórnvöld sem að máli þessu koma, bundin við forsendur og niðurstöðu dóms héraðsdóms um þær kröfur sem dæmdar voru að efni til í málinu, sbr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (res judicata).

Fósturforeldrar séu þó engu að síður þeirra skoðunar að lögmætisregla stjórnsýsluréttar komi í veg fyrir að hægt sé að útvíkka eða túlka rýmkandi skýringu ákvæði 2. mgr. 74. gr. bvl., þannig að hugtakið nákominn geti náð til aðila sem sé barninu með öllu ókunnugur, jafnvel þótt viðkomandi sé tengdur barninu blóðböndum, eins og byggt sé á í dóminum.

Fósturforeldrar telji að með slíkri lögskýringu sé ekki verið að setja hagsmuni fósturbarns í varanlegu fóstri í forgrunn, enda hafa þau ávallt byggt á því að umgengni við aðila úr upprunafjölskyldunni, sem barnið þekki ekki, geti aldrei þjónað þeim markmiðum sem varanleg fósturvistun byggir á. Markmið þess sé óumdeilanlega að fósturbarnið aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin, myndi tengsl við fjölskylduna og teljist þannig órjúfanlegur hluti þeirrar fjölskyldu. Þá sé í engu verið að stefna að sameiningu barns í varanlegu fóstri á ný við upprunafjölskylduna, heldur þvert á móti. Með því að bæta við aðilum sem eigi rétt til umgengni við fósturbörn á þeim grunni að þeir séu börnunum nákomnir, einungis vegna blóðskyldleika, sé sífellt verið að grafa undan þessum markmiðum og einnig að grafa undan stjórnarskrárvörðum réttindum fósturbarna til friðhelgi (fóstur)fjölskyldu sinnar. 

Hvað varðar síðari lið forsendna dómsins eru fósturforeldrar hins vegar fyllilega sammála og taka heilshugar undir það sem þar kemur fram, þ.e.a.s. varðandi það að umgengni drengsins við kæranda geti ekki talist honum til hagsbóta. 

Hér sé um einstaklingsbundið mat að ræða sem fósturforeldrar vilji leggja áherslu á í máli þessu. Líta verði til þess hvað sé drengnum hagsbóta, en ekki til fósturbarna í heild eða annarra aðila sem tengist fósturbörnum blóðböndum.

Líkt og fjallað sé um í títtnefndum dómi hafi drengurinn átt við erfiðleika að stríða, hann sé með ýmsar greiningar og umönnun hans sé krefjandi. Þá sé hann afar viðkvæmur fyrir breytingum og öllu því sem raskar ró hans eða öryggi í fjölskylduaðstæðum sínum. Síðan dómur féll fyrir um tveimur árum hafi komið fram endanleg greining frá Þroska- og hegðunarstöð sem hafi legið fyrir í janúar 2021. Greining á drengnum staðfesti allt það sem fyrri gögn hafi sýnt um líðan hans og hegðun. Í greiningunni komi fram að drengurinn sé með ódæmigerða einhverfu, ADHD, kæki og kvíðaeinkenni en einnig að hann sé með vitsmunaþroska yfir meðallagi. Úrræði og eftirfylgni séu samkvæmt greiningunni viðamikil og talin upp í 11 liðum í greiningunni, en auk þess sé í viðhengi með greiningunni tveggja blaðsíðna yfirlit frá sálfræðingi um tillögur og úrræði fyrir drenginn. Við lestur skjalsins komi glöggt fram hvaða erfiðleika drengurinn glímir við vegna greininga sinna og hversu krefjandi umönnun hans sé, bæði heima við og í skólanum.

Þannig telji fósturforeldrar það blasa við að staða drengsins sé viðkvæm og erfið. Engu að síður líði honum vel og komi meðal annars fram í skýrslunni að hann sé glaðlyndur og ljúfur, kurteis og ófeiminn, klár og skemmtilegur. Þá hafi komið fram að nú á þessu ári hafi drengurinn byrjað á lyfjum sem hjálpi líðan hans.

Varðandi afstöðu drengsins eða skipun talsmanns til að afla afstöðu hans, vilji fósturforeldrar árétta að það tók ekki einungis nokkra mánuði að fá drenginn til að verða aftur sjálfum sér líkur eftir síðasta viðtal talsmanns við hann, eins og lýst er meðal annars í greinargerð Barnaverndar B til úrskurðarnefndarinnar, heldur upp undir tvö ár. Á því tímabili glímdi drengurinn við gríðarmikið óöryggi um aðstæður sínar sem braust út í miklum hegðunarerfiðleikum og vanlíðan hans.

Með vísan til þessa telji fósturforeldrar það blasa við að drengurinn hafi gríðarlega hagsmuni af því að hann megi halda áfram að búa við stöðugleika, frið og ró með fósturfjölskyldu sinni. Að gera einhvers konar tilraunir með umgengni við aðila sem hann kann enginn deili á, þó að þeir teljist honum nákomnir, geti ekki verið honum til hagsbóta og hann sé í engri þörf fyrir slíkt.

Fósturforeldrum sé að sjálfsögðu kunnugt um rétt drengsins til að þekkja uppruna sinn og vera í samvistum við upprunafjölskyldu sína, en benda á að drengurinn sé nú þegar í umgengni við móður sína, föður og bróður, um það bil 6 til 8 sinnum á ári. Því sé í raun um að ræða frekar mikla umgengni við upprunafjölskyldu fyrir barn í varanlegu fóstri. Að mati fósturforeldra geti það ekki verið drengnum til hagsbóta að bæta enn þar í, enda hafi hann enga sjálfstæða þörf fyrir umgengni við kæranda.

Það sé þannig mat og sannfæring fósturforeldra að sú umgengni sem nú þegar sé til staðar, sé nægileg til þess að drengurinn fá notið þeirra réttinda að þekkja uppruna sinn og viðhalda tengslum við upprunafjölskyldu sína. Það geti því ekki verið honum ekki til hagsbóta að bæta fleiri aðilum við. Allra síst geti það verið honum til hagsbóta að bæta inn í umgengnina núna aðilum sem óumdeilt sé að eru honum með öllu ótengdir.

Með vísan til alls framangreinds telja fósturforeldrar að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að lagaskilyrði séu ekki til staðar til að fallast á kröfur kæranda um breytingu á hinum kærða úrskurði. Þá séu ítrekuð res judicata áhrif fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms B. Fósturforeldrar geri því kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn, D, er X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er móðuramma drengsins.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að drengurinn hefði enga umgengni við kæranda. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram að barn, sem sé vistað í varanlegu fóstri, eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl., nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Það væri mat barnaverndarnefndar að krafa kæranda um að eiga umgengni við drenginn samræmdist ekki hagsmunum eða þörfum hans. Kærandi hafi aldrei átt umgengni við drenginn og hafi aðeins hitt hann einu sinni þegar drengurinn var eins mánaðar gamall. Þá vísar barnaverndarnefnd til dóms Héraðsdóms B frá 9. september 2020 í máli nr. E-6187/2019 þar sem fjallað hafi verið um kröfu kæranda um umgengni við drenginn. Í niðurstöðu dómsins hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði séð, með hliðsjón af stöðu og líðan drengsins, að það væri honum til hagsbóta að eiga umgengni við kæranda í eina klukkustund á ári og því hafi verið felldur úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá 15. mars 2018 þar sem kveðið hafði verið á um það að kærandi skyldi eiga umgengni við drenginn í eina klukkustund einu sinn á ári. Að mati barnaverndarnefndar hafi ekkert nýtt komið fram í málinu sem gefi til kynna breytta stöðu drengsins frá áðurnefndum dómi Héraðsdóms B.

Kærandi, sem er móðuramma drengsins, krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að fallist verði á að hún hafi umgengni við drenginn, auk þess sem hún fái sendar myndir af drengnum með reglulegu millibili. Hvað varðar tíðni umgengni er tekið fram í kæru að kærandi geri sér vel grein fyrir því að mikilvægt sé að umgengni fari rólega af stað þar sem hún þurfi að ávinna sér traust drengsins og því þurfi eðlilega að fara varlega í upphafi.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengninnar.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem séu barni fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til núverandi stöðu drengsins. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um hvort umgengni hans við kæranda þjóni best hagsmunum hans, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til núverandi stöðu hans. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera honum til hagsbóta svo og við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið er að tryggja honum uppeldi og umönnun innan fjölskyldu sem best hentar þörfum hans, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. er það meginregla að þegar ákvarðanir eru teknar í máli barns skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Fram kemur í hinum kærða úrskurði að afstöðu drengsins til umgengni við kæranda hafi ekki aflað með vísan til þess að slíkt gæti komið honum í uppnám, líkt og gerst hafi á árinu 2018 þegar talsmaður hafi rætt við drenginn. Þá hafi drengurinn komist úr jafnvægi og það hafi tekið drenginn langan tíma að verða aftur sjálfum sér líkur.

Þær upplýsingar, sem fyrir liggja í þessu máli, bera með sér að drengurinn sé nú í mun betra jafnvægi en fyrir fjórum árum, þ.e. á árinu 2018, og þá sérstaklega eftir að hann fékk greiningu og hóf lyfjameðferð. Þá er drengurinn nú nokkrum árum eldri en þegar rætt var við hann síðast og telur úrskurðarnefndin að drengurinn hafi í dag aldur til að láta í ljós skoðun sína og afstöðu til umgengni við kæranda. Úrskurðarnefndin telur því að aðstæður drengsins séu ekki þær sömu og þær voru þegar Héraðsdómur B kvað um dóm sinn í málinu, en það var forsenda hins kærða úrskurðar að aðstæður drengsins hefðu ekki breyst frá því að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir 9. september 2020. Þá verður jafnframt ekki séð af hinum kærða úrskurði að Barnaverndarnefnd B hafi tekið afstöðu til þeirrar kröfu kæranda um að fá sendar myndir af drengnum ársfjórðungslega. Í ljósi alls framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti og því er lagt fyrir Barnaverndarnefnd B að taka málið til frekari rannsóknar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að fella hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 9. júní 2022 varðandi umgengni D, við A, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir nefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta