Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 14/2012

Miðvikudaginn 12. desember 2012 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 14/2012, A, gegn barnaverndarnefnd B, vegna meðferðar barnaverndarnefndar á málefnum sonar hans, C, og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R :

 

I.

Málatilbúnaður og kröfugerð

 

Í bréfi Páleyjar Borgþórsdóttur hdl. til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 29. júní 2012, eru kærðir, fyrir hönd A, ýmsir þættir í meðferð barnaverndarnefndar B á málefnum kæranda vegna sonar hans, C, auk úrskurðar um aðgang kæranda að gögnum málsins frá 16. júlí 2012. Drengurinn er í fóstri.

 

Kröfur kæranda eru eftirfarandi:

 

a) Að ákvörðun frá því í september 2011, um að vista barnið C í fóstri í 12 mánuði hjá fósturforeldrunum D og E, verði felld úr gildi.

 

b) Að ákvörðun barnaverndarnefndar B, dags. 4. júní 2012, um að barnið C, verði kyrrt í fóstri í allt að tvo mánuði, eftir að tímabundinni fósturráðstöfun lýkur, verði felld úr gildi.

 

c) Að ákvörðun barnaverndarnefndar B um að hafna tillögum kæranda, sbr. bréf lögmanns nefndarinnar, dags. 7. júní 2012, um umgengni við barnið C, verði felld úr gildi og er krafist úrskurðar um umgengni föður við barnið.

 

d) Að ákvörðun barnaverndarnefndar B að neita að afhenda öll gögn málsins, svo sem fósturvistunarsamning frá því í september 2011 og upplýsingar um samskipti föður við starfsmenn barnaverndarnefndar verði felld úr gildi og nefndinni verði gert að afhenda öll gögn málsins. Úrskurður barnaverndarnefndar um aðgang að gögnum málsins var kveðinn upp eftir að kæra barst kærunefnd barnaverndarmála, eða 16. júlí 2012, og verður því tekinn til endurskoðunar í úrskurði þessum.

 

e) Að ákvörðun barnaverndarnefndar B að synja kæranda um fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð til að gæta andmælaréttar, verði felld úr gildi, og nefndinni verði gert að veita kæranda fjárstyrk skv. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Afstaða barnaverndarnefndar B til krafna kæranda kemur fram hjá lögmanni nefndarinnar, J hrl., og er eftirfarandi:

 

a)  Lögmaður barnaverndarnefndar B bendir á að þegar fóstursamningur hafi verið gerður, 28. september 2011, hafi verið óvíst hvort kærandi væri faðir drengsins enda hafi hann véfengt það og hafi niðurstaða blóðrannsóknar ekki legið fyrir. Hafi það verið mat barnaverndarnefndar að hagsmunum C hafi verið best borgið með fósturvistun.

 

b)  Sú ákvörðun að vista C í áframhaldandi, tímabundinni vistun 4. júní 2012, hafi verið tekin með hagsmuni drengsins að leiðarljósi.

 

c)  Bent er á að endanleg stjórnsýsluákvörðun eða úrskurður um umgengni kæranda við C liggi ekki fyrir og hljóti kröfum kæranda um umgengni að verða hafnað.

 

d)  Varðandi kröfu um framlagningu gagna er bent á að kærandi hafi þegar fengið afhent afrit af fóstursamningi frá 28. september 2011. Varðandi kröfu um afhendingu annarra gagna er bent á úrskurð barnaverndarnefndar B frá 16. júlí 2012 þar að lútandi.

 

e)  Kröfu kæranda um greiðslu fjárstyrks til lögmannskostnaðar er hafnað þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði reglna Sveitarfélagsins B um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum.

 

 

II.

Málavextir

 

C er fæddur F. Hann er fyrirburi og átti í ýmsum erfiðleikum framan af vegna þess og dvaldist á vökudeild í þrjá mánuði. Móðir drengsins er G, hún fór ein með forsjá hans og hafa hún og faðir drengsins, A, aldrei verið í sambúð. Barnaverndarnefnd B hefur höfðað forsjársviptingarmál fyrir Héraðsdómi H með stefnu dagsettri 20. júní 2012, en þar kemur fram að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum móður og barnsins sé alvarlega ábótavant auk þess sem ekki sé tryggt að þörfum barnsins, sem þarf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda, verði sinnt af hálfu móður þess.

 

Vafi var uppi um faðerni C og óskaði faðirinn þess að DNA-rannsókn yrði framkvæmd. Var það gert og í bréfi Landspítala ‒ háskólasjúkrahúss, dags. 26. mars 2012, kemur fram að niðurstaða mannerfðafræðilegrar rannsóknar sé sú að kærandi sé faðir C.

 

C fór, þriggja mánaða gamall, í umsjá móður sinnar af vökudeildinni. Í september 2011 var það mat barnaverndarnefndar að vista þyrfti drenginn utan heimilis og var leitað samstarfs við móður varðandi það og samþykkti hún þá ráðstöfun tímabundið. Fóstursamningur um tímabundið fóstur frá 30. september 2011 til 30. september 2012 við D og E er dagsettur 28. september 2011. Í samningnum er umgengni drengsins við móður sína á fósturtímanum ákveðin en ekki við föður sinn, enda lá faðernið á þeim tíma ekki fyrir.

 

Barnaverndarnefnd B gerði umgengnissamning um umgengni föður við C 9. maí 2012, en hann neitaði að undirrita samninginn. Samkvæmt samningnum var fyrsta umgengni ákveðin 1. júní 2012 kl. 14‒16 á heimili fósturforeldra að I. Önnur umgengnin var ákveðin 13. júlí 2012 á sama tíma og stað og þriðja umgengnin var ákveðin 24. ágúst 2012, einnig á sama tíma og stað. Í öll skiptin skyldi barnaverndarstarfsmaður vera viðstaddur umgengnina.

 

Kærandi hefur kært úrskurð barnaverndarnefndar B frá 16. júlí 2012 um aðgang hans að gögnum vegna máls þessa. Í úrskurðinum kemur fram að þau gögn sem liggi fyrir hjá barnaverndarnefnd lúti að fernu, í fyrsta lagi upplýsingar og gögn er varði heilsufar C, í öðru lagi upplýsingar og gögn er varði persónulega hagi móður drengsins, í þriðja lagi gögn varðandi samskipti starfsmanna vegna aðstoðar við feðrun drengsins og í fjórða lagi upplýsingar og gögn er varði fósturvistun drengsins hjá fósturforeldrum. Barnaverndarnefndin hafi orðið við beiðni frá kæranda að afhenda gögn vegna aðkomu starfsmanna nefndarinnar að feðrun drengsins og upplýsingar frá fósturforeldrum sem varði hann. Barnaverndarnefndin telji sér ekki fært að afhenda önnur gögn er varði persónulega hagi móður drengsins enda hafi hún ekki gefið samþykki sitt fyrir því og telji nefndin að kærandi hafi ekki hagsmuni af því að fá þessi gögn afhent. Þá telji nefndin sér ekki fært að afhenda vinnugögn starfsmanna, svo sem minnispunkta og dagnótur, enda verði ekki séð að kærandi hafi nokkra hagsmuni af því að fá slík gögn afhent. Barnaverndarnefnd áréttar í úrskurðinum að málefni kæranda séu ekki til meðferðar hjá nefndinni að öðru leyti en því er varði umgengni hans við C.

 

 

III.

Sjónarmið kæranda

 

Lögmaður kæranda gerir eftirfarandi grein fyrir kæruatriðum:

 

a)  Varðandi ákvörðun um fósturvistun drengsins er bent á að undir samninginn hafi verið skrifað í umboði barnaverndarnefndar B og liggi ákvörðun nefndarinnar því fyrir um fósturvistunina.

 

b)  Ákvörðun um að drengurinn verði kyrr í fóstri í allt að tvo mánuði, eftir að fósturráðstöfun ljúki, hafi verið tekin með úrskurði barnaverndarnefndar 4. júní 2012.

 

c)  Ákvörðun um að hafna tillögum kæranda um umgengni byggi á upplýsingum frá lögmanni barnaverndarnefndar um að kröfum föður hafi verið hafnað þar sem lögmaðurinn skrifi undir bréf, dags. 7. júní 2012, fyrir hönd barnaverndarnefndar og því ekki um annað að ræða en að sú ákvörðun sé ákvörðun nefndarinnar. Það komi beinlínis fram í svari lögmannsins að barnaverndarnefndin telji sig ekki geta orðið við kröfum kæranda og því ljóst að sú ákvörðun sé einnig ákvörðun nefndarinnar.

 

d)  Ákvörðun um að neita að afhenda gögn málsins byggi á úrskurði dags. 16. júlí 2012.

 

e)  Lögmaður barnaverndarnefndar B hafi hafnað með bréfi sínu 7. júní 2012 að veita kæranda fjárstyrk. Í upphafi bréfsins komi fram að lögmanninum hafi verið falið að svara erindi lögmanns kæranda fyrir hönd barnaverndarnefndar B og undirriti lögmaðurinn bréfið fyrir hönd barnaverndarnefndarinnar. Ákvörðun um að synja kæranda um fjárstyrk sé því tekin af hálfu barnaverndarnefndarinnar sem hafi falið lögmanninum að rita bréfið.

 

Af hálfu kæranda er bent á að skv. 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála eftir því sem kveðið sé á um í lögunum. Þar sé ekki gerður greinarmunur á því hvort um úrskurði sé að ræða eða ákvarðanir nefnda. Eins og rakið hafi verið séu hinar kærðu ákvarðanir ýmist úrskurðir eða stjórnsýsluákvarðanir barnaverndarnefndar B sem samkvæmt lögunum sæti kæru til kærunefndar barnaverndarmála. Þess er krafist að úrskurðað verði um alla liði kærunnar.

 

 

V.

Sjónarmið barnaverndarnefndar B

 

Lögmaður barnaverndarnefndar B gerir eftirfarandi athugasemdir við kröfur kæranda í máli þessu:

 

a)  Bent er á að þegar fóstursamningur hafi verið gerður, 28. september 2011, hafi verið óvíst hvort kærandi væri faðir drengsins enda hafi hann véfengt það og hafi niðurstaða blóðrannsóknar ekki legið fyrir. Hafi það verið mat barnaverndarnefndar að hagsmunum C hafi verið best borgið með fósturvistun.

 

b)  Sú ákvörðun að vista C í áframhaldandi, tímabundinni vistun 4. júní 2012 hafi verið tekin með hagsmuni hans að leiðarljósi enda sé það grundvallarregla í barnaverndarstarfi.

 

c)  Bent er á að endanleg stjórnsýsluákvörðun eða úrskurður um umgengni kæranda við C liggi ekki fyrir og hljóti kröfum kæranda um umgengni því að verða hafnað.

 

d)  Barnaverndarnefnd B bendir á að kærandi hafi fengið afhent afrit af fóstursamningi frá 28. september 2011. Hann hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að halda kröfugerð sinni hvað það varðar til streitu. Um kröfugerð til afhendingar annarra gagna er vísað á úrskurð barnaverndarnefndar frá 16. júlí 2012, en þar komi fram að nefndin telji sér ekki fært að afhenda kæranda gögn er varði persónulega hagi móður drengsins. Þá telji nefndin sér ekki fært að afhenda frekari vinnugögn starfsmanna barnaverndarnefndar, svo sem vinnupunkta og dagnótur, enda verði ekki séð að kærandi hafi hagsmuni af því.

 

e)  Kröfu kæranda um greiðslu fjárstyrks til lögmannskostnaðar er hafnað þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði reglna Sveitarfélagsins B um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum.

 

 

VI.

Niðurstaða

 

C er rúmlega tveggja ára gamall drengur sem hefur verið ráðstafað í fóstur. Móðir hans hefur farið með forsjána en barnaverndarnefnd B hefur nú höfðað mál fyrir Héraðsdómi H til forsjársviptingar. Kærandi er faðir drengsins og hefur hann kært til kærunefndar barnaverndarmála ýmsa þætti varðandi meðferð barnaverndarnefndar B á málefnum drengsins auk úrskurðar um aðgang að gögnum málsins, sem kveðinn var upp eftir að kæran barst kærunefnd barnaverndarmála.

 

Í fyrsta lagi krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ráðstöfun barnsins í fóstur í 12 mánuði. Umrædd fósturráðstöfun var gerð í samráði við móður drengsins og með samþykki hennar, en skv. 25. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, getur barnaverndarnefnd, eftir því sem nánar er ákveðið í áætlun skv. 23. gr. laganna, með samþykki foreldris tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað því í fóstur. Móðir drengsins fór ein með forsjá barnsins og samþykkti fósturráðstöfun þá sem faðir drengsins hefur nú kært. Ekki bar nauðsyn til að faðir barnsins samþykkti ráðstöfun þessa, sbr. 4. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, og þaðan af síður verður fósturráðstöfun sem móðir barnsins, sem forsjárforeldri hefur samþykkt, kærð til kærunefndar barnaverndarmála. Kæru varðandi þennan þátt er því vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Í öðru lagi hefur kærandi krafist þess að úrskurður barnaverndarnefndar B, dags. 4. júní 2012, um að C verði kyrr í fóstri í allt að tvo mánuði, eftir að tímabundinni fósturráðstöfun lýkur, verði felldur úr gildi. Í lok úrskurðarorðanna kemur fram að foreldrum sé heimilt að bera úrskurð um fósturvistun skv. a-lið 27. gr. barnaverndarlaga undir Héraðsdóm H innan fjögurra vikna frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp. Úrskurðurinn í heild sinni hefur ekki verið lagður fram.

 

Í a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndarnefnd geti með tilteknum skilyrðum kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að foreldrum sé heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara. Skuli krafa þess efnis berast dómara innan fjögurra vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp. Umræddum úrskurði verður því ekki skotið til kærunefndar barnaverndarmála, heldur eru einungis dómstólar bærir til að endurskoða slíkan úrskurð.

 

Kröfu kæranda í þessum þætti málsins er því vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Í þriðja lagi hefur kærandi krafist þess að ákvörðun barnaverndarnefndar B um að hafna tillögum kæranda, sbr. bréf lögmanns nefndarinnar, dags. 7. júní 2012, um að umgengni við drenginn verði felld úr gildi.

 

Í 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að verði ágreiningur um umgengni hafi barnaverndarnefnd úrskurðarvald um það ágreiningsefni. Eins og þessi kröfuliður ber með sér, er ekki fyrir að fara endanlegum úrskurði sem unnt er að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála á grundvelli 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Verður þessum þætti kæru því vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Í fjórða lagi hefur kærandi krafist þess að ákvörðun barnaverndarnefndar B um að synja kæranda um fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð verði felld úr gildi og nefndinni verði gert að veita kæranda fjárstyrk skv. 47. gr. barnaverndarlaga. Kærandi heldur því fram að lögmaður barnaverndarnefndar hafi tekið ákvarðanir um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar fyrir hönd nefndarinnar.

 

Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga kemur fram að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun skv. 1. mgr. 6. gr. til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Í 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 80/2011, kemur meðal annars fram að heimilt sé að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum.

 

Í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð skv. 1. mgr. 47. gr., og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setji.

 

Í 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga um starfslið barnaverndarnefndar kemur fram að barnaverndarnefnd sé heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála og málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Barnaverndarnefnd getur enn fremur í slíkum reglum framselt tilgreindum starfsmönnum vald til að taka einstakar ákvarðanir samkvæmt lögunum. Félagsmálanefnd B fer með störf barnaverndarnefndar í Sveitarfélaginu B samkvæmt reglum um verkaskiptingu milli félagsmálanefndar B og starfsmanna Fjölskyldumiðstöðvar B sem samþykktar voru í félagsmálanefnd B 26. júlí 2004 og í bæjarráði Sveitarfélagsins B 15. ágúst 2004. Í reglunum er meðal annars gerð grein fyrir því með hvaða hætti starfsmönnum barnaverndarnefndar er falið að fara með könnun og meðferða einstakra barnaverndarmála. Í b-lið 4. gr. reglnanna kemur hins vegar fram að félagsmálanefnd B fari með vald til að kveða upp úrskurði samkvæmt barnaverndarlögum. Af framangreindu má ráða að ákvörðun um veitingu fjárstyrks til að greiða fyrir lögmannsaðstoð er í höndum barnaverndarnefndar og hefur barnaverndarnefnd B ekki kveðið upp úrskurð eða tekið ákvörðun um greiðslu lögmannskostnaðar til handa kæranda. Þessum þætti í kæru er því vísað heim til löglegrar meðferðar að nýju, sbr. 3. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

 

Í fimmta lagi hefur kærandi krafist þess að úrskurður barnaverndarnefndar B um aðgang kæranda að gögnum málsins, svo sem fósturvistunarsamningur frá því í september 2011 og upplýsingar um samskipti föður við starfsmenn barnaverndarnefndar, verði felldur úr gildi.

 

Kærandi er faðir drengsins C sem er í fóstri. Drengurinn á rétt á umgengni við kæranda nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum hans og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun hans í fóstur, sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Kærandi á því aðild að málum er varða umgengni hans við drenginn og hann á rétt á aðgangi að gögnum í málum sem varða umgengnina, sbr. 45. gr. barnaverndarlaga. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur þegar fengið aðgang að öllum gögnum máls þessa, öðrum en þeim sem varða persónulega hagi móður drengsins og vinnugögn starfsmanna, svo sem minnispunkta og dagnótur. Í 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að réttur aðila máls til aðgangs að gögnum taki ekki til vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota nema vinnuskjöl geymi endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verði aflað annars staðar frá. Undantekningarákvæði þetta á ekki við í máli þessu. Barnaverndarnefnd B hefur ekki kveðið upp úrskurð um umgengni kæranda við son sinn. Eins og fram hefur komið er C í fóstri og á kærandi því hugsanlega rétt á umgengni við hann, en gögn um hagi móður drengsins eru ekki hluti gagna í umgengnismáli kæranda við drenginn. Kröfu kæranda um aðgang að minnispunktum og dagnótum sem og gögnum um móður drengsins er því hafnað og hinn kærði úrskurður um aðgang kæranda að gögnum staðfestur.


 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Kröfu kæranda þess efnis að felld verði úr gildi ákvörðun frá 28. september 2011 um að ráðstafa C í fóstur í 12 mánuði er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Kröfu kæranda þess efnis að ákvörðun barnaverndarnefndar Árborgar, dags. 4. júní 2012, um að C verði kyrr í fóstri í allt að tvo mánuði, eftir að tímabundinni fósturráðstöfun lýkur, verði felld úr gildi er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Kröfu kæranda um umgengni við C er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Kröfu kæranda um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar er vísað til meðferðar hjá barnaverndarnefnd B.

 

Úrskurður barnaverndarnefndar B um aðgang kæranda að gögnum varðandi mál hans fyrir barnaverndarnefndinni er staðfestur.

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta