Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 116/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 116/2016

Föstudaginn 24. júní 2016

A

gegn

B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 23. mars 2016 kærði C hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð B frá 25. febrúar 2016 vegna umgengni við dóttur hennar, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er fædd árið X. Samkvæmt gögnum málsins hefur mál stúlkunnar verið til vinnslu hjá B frá X. Með úrskurði B 27. mars 2015 var stúlkunni ráðstafað í fóstur allt að tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), þar sem meðal annars var talið að kærandi sinnti ekki forsjárskyldum sínum með fullnægjandi hætti. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar úrskurðaði B X um umgengni kæranda við stúlkuna á tímabili tímabundinnar fósturvistunar. Með úrskurði nefndarinnar var ákveðið að umgengni kæranda væri fyrstu helgi hvers mánaðar frá kl. 10:00 á laugardegi til kl. 17:00 á sunnudegi. Ákveðið var að óboðað eftirlit væri á heimili kæranda.

Kærandi kærði úrskurð nefndarinnar um fósturráðstöfun til Héraðsdóms E 2. júní 2015 og krafðist þess að úrskurðinn yrði felldur úr gildi. B krafðist þess, fyrir hönd B, að fósturráðstöfun samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. yrði framlengd í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar. Með úrskurði dómsins 2. júní 2015 var úrskurður B felldur út gildi og hafnað kröfu nefndarinnar um að fósturráðstöfun yrðri framlengd í 12 mánuði. Með dómi Hæstaréttar Íslands 24. júní 2015 í máli nr. 400/2015 var fallist á kröfu sveitarfélagsins um að stúlkan væri vistuð utan heimilis lengur en tvo mánuði en þó ekki lengur en í átta mánuði. Í kjölfarið var stúlkan aftur vistuð hjá föðurömmu sinni, F, og afa, G, en þar hafði hún verið frá X til X á grundvelli framangreinds úrskurðar B um tveggja mánaða fóstur. Gerður var fóstursamningur við F og G sem gilti til X. B höfðaði mál til forsjársviptingar fyrir dómi, sbr. 29. gr. bvl., sem var þingfest 22. febrúar 2016, og var kærandi svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E 23. maí 2016.

B úrskurðaði um umgengni kæranda við stúlkuna á fundi nefndarinnar 25. febrúar 2016 og voru úrskurðarorð svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„A, fær umgengni við D,  fyrstu helgi hvers mánaðar frá kl. 16:30 á föstudegi til kl. 17:00 á sunnudegi. A skal sækja D á fósturheimili við upphaf umgengni og skila henni þangað aftur þegar umgengni er lokið. Óboðað eftirlit getur verið á heimili A á meðan á umgengni stendur.

A er heimilt að sækja D í leikskóla á X og fylgja henni á [...] út vorönn X. Að [...] lokinni, í síðasta lagi kl. X skal A skila D á fósturheimili. Við upphaf haustannar X verður fyrirkomulag þetta tekið til endurskoðunar.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þá leið að umgengni kæranda verði viku í senn á móti viku fósturforeldra. Til vara sé þess krafist að umgengni verði með sama hætti, nema hún fari fram aðra hvora helgi í stað fyrstu helgi hvers mánaðar.

Hinn kærði úrskurður byggist á þeirri forsendu að mál hafi verið höfðað til forsjársviptingar og því séu „líkur á því að vistun barnsins verði varanleg á fósturheimili“. Þar sem sigurlíkur í forsjármálinu hafi verið sjónarmið sem nefndin byggði þá ákvörðun sína á, að ákveða helmingi minni umgengni en áður var, sé ekki úr vegi að líta á staðreyndir. Þótt tölfræðilega megi færa rök fyrir því að stefnandi vinni gjarnan forsjársviptingarmál sé ekkert sem bendi til þess að kærandi verði svipt forsjá í sínu máli.

Skipti þar verulegu máli að nefndin hafi ákveðið að rétt væri að bjóða kæranda á fundi X að samþykkja vistun utan heimilis í eitt ár. Í tölvupóstsamskiptum lögmanns kæranda annars vegar og lögmanns nefndarinnar hins vegar komi þetta skýrt fram þótt nefndin hafi ekki tekið þetta atriði upp í bókun um fundinn.

Það hafi verið með ólíkindum að halda því fram að forsjársvipting væri nauðsynleg á sama tíma og talið væri að vistun utan heimilis í eitt ár gæti komið að gagni. Ágreiningur um tímalengd vistunar utan heimilis hefði átt að leiða til þess að nefndin freistaði þess að fá úrskurð héraðsdóms fyrir vistun í allt að eitt ár fremur en að fara í forsjársviptingarmál. Hér hafi skipt máli að kærandi hafði lýst því yfir á framangreindum fundi að hún myndi vera til samstarfs hver sem niðurstaðan yrði um vistun utan heimilis þótt hún féllist ekki á nema einn mánuð. Kærandi telur að þetta hafi verið skýrt brot á meðalhófsreglu við meðferð barnaverndarmáls og beinir því til úrskurðarnefndar velferðarmála að málið verði tekið til alvarlegrar skoðunnar og að umgengni verði að minnsta kosti nær því sem gilti fyrir hinn kærða úrskurð.

III.  Sjónarmið B

Í úrskurði B kemur fram að við vistun stúlkunnar hafi verið tekið mið af því sem þjónað hafi hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Eftir að heimiluð var aukin umgengni kæranda við stúlkuna haustið X hafi orðið breytingar á líðan stúlkunnar og greinilegt að það fyrirkomulag hefði valdið henni óþarflega miklu álagi. Í bréfi frá leikskóla hafi komið fram að stúlkan væri orðin lítil í sér, stundum óörugg og þráðurinn væri stuttur hjá henni. Þá hafi komið fram að það væri eins og hún væri ekki í jafnvægi og væri oftar pirruð. Fósturforeldrar hafi talið þetta mat leikskóla rétt og þau hafi einnig tekið eftir breytingum á stúlkunni vegna aukinnar umgengni. Af þeim sökum hafi verið tekið til skoðunar að minnka umgengni við kæranda í því skyni að auka stöðugleika í lífi hennar.

Þá hafi verið litið til þess að höfðað hafi verið mál til forsjársviptingar kæranda og því hafi verið líkur á því að vistun stúlkunnar yrði varanleg á fósturheimilinu. Markmið fóstursvistunar hafi því breyst frá haustinu X en þá hafi verið vonast til þess að kærandi myndi bæta forsjárhæfni sína þannig að stúlkan gæti farið á ný í daglega umsjá hennar. Þrátt fyrir að mál hafi verið höfðað til forsjársviptingar hafi einnig verið litið til þess að tengsl stúlkunnar við kæranda virtust sterk og umgengni væri því áfram rífleg miðað við það sem almennt gerðist í sambærilegum aðstæðum. Nefndin hafi talið það þjóna hagsmunum stúlkunnar best að umgengni við kæranda yrði minnkuð frá því sem var og að umgengni við kæranda væri í samræmi við tillögur starfsmanna að umgengnissamningi.

Í greinargerð B dags. X kemur fram að vegna ummæla í kæru sé sérstaklega áréttað að á fundi B X hafi verið til skoðunar hjá nefndinni hvort nauðsynlegt hefði verið að höfða forsjársviptingarmál gegn kæranda. Kærandi hefði ekki verið í samvinnu við starfsmenn barnaverndar með að vinna að bættum hag sínum. Kærandi virtist ekki hafa náð framförum á eigin forsendum og því hafði tímabundin vistun stúlkunnar utan heimilis ekki skilað þeim árangri sem vonast hefði verið eftir. Kæranda hafi á framangreindum fundi verið boðið að samþykkja lengri vistun stúlkunnar utan heimilis, eins og fram komi í fundargerð nefndarinnar, þrátt fyrir að ekki hafi verið sérstaklega tiltekið að kæranda hafi verið boðið að samþykkja vistun stúlkunnar í eitt ár og að samþykkja meðferðaráætlun sem miðaði að því að gera kæranda hæfari til þess að takast á við uppeldi stúlkunnar. Kærandi hafi ekki samþykkt tillögur nefndarinnar en talið sig geta samþykkt að stúlkan yrði vistuð utan heimilis í einn mánuð til viðbótar en það hafi nefndin ekki talið líklegt til þess að skila kæranda árangri í því að bæta forsjárhæfni hennar.

B hafi tekið ákvörðun um tilhögun umgengni kæranda við dóttur hennar með úrskurði á fundi nefndarinnar 25. febrúar 2016, en þá hafi tímabil samnings um umgengni verið lokið og ekki náðst samkomulag við kæranda um minni umgengni frá því sem verið hafði. Umgengni hafi verið aukin í X, að beiðni kæranda, en í lok X hafi fengist þær upplýsingar hjá leikskóla að neikvæðar breytingar hefðu orðið á stúlkunni síðustu X mánuði. Þegar leitað hafi verið til fósturforeldra til að fá upplýsingar um líðan stúlkunnar hafi þau veitt sömu upplýsingar. Það hafi því verið ljóst að aukin umgengni kæranda við stúlkuna hafi ekki haft góð áhrif á líðan hennar. Það hafi verið álit nefndarinnar að auka þyrfti stöðugleika í lífi stúlkunnar með því að takmarka umgengni. Þessi takmörkun á umgengni hafi verið í samræmi við þau málefnalegu sjónarmið sem líta skuli til við ákvörðun á umgengni, sbr. 74. gr. gr. bvl.

III.  Sjónarmið fósturforeldra

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturforeldra, F og G, sem barst nefndinni með tölvubréfi þeirra X. Í svari þeirra kemur fram að þau séu sammála þeirri umgengni sem B hafi ákveðið. Þau vilji því að umgengnin verði í sama horfinu áfram. Þá telja þau að hegðun og líðan stúlkunnar hafi breyst til batnaðar frá því að umgengni hafi fest sig í sessi. Stúlkan hafi sýnt miklar framfarir. Hún sé mun glaðari og sáttari með þessa festu og föstu rútínu í lífi sínu. Stúlkan hafi einnig sýnt miklar framfarir í tali/málþroska og hafi félagsþroskinn styrkst gríðarlega mikið á þessum stutta tíma. Þá telja fósturforeldrar að sjálfstraustið hjá stúlkunni hafi stórbatnað við þessar breytingar.

IV.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd árið X og munu barnaverndaryfirvöld hafa haft afskipti af málefnum hennar frá X sama ár í kjölfar tilkynninga um slæman aðbúnað á heimili kæranda. Í tilefni af áhyggjum af þroska stúlkunnar, félagslegum og heilsufarslegum aðstæðum hennar hjá kæranda voru gerðar áætlanir um meðferð máls á grundvelli 23. gr. bvl. á tímabilinu X til X.

Stúlkan hefur verið í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum, fyrst frá X til X sama ár og síðan frá X sama ár. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E þann X.

Með úrskurði B X var ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna væri einu sinni í mánuði frá laugardegi til sunnudags. Þann X var umgengni aukin og gerður samningur við kæranda til X þess efnis að umgengni stúlkunnar við kæranda væri aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags. Nýr samningur var gerður við kæranda X þar sem ákveðið var að umgengni stúlkunnar við kæranda til X væri aðra hvora helgi eins og fyrri samningur.  Með sérstökum samningi X um [...] stúlkunnar var umgengni aukin og kæranda heimilað að sækja stúlkuna í leikskóla og fara með hana á [...]. Með samningi Xvar umgengni enn aukin þannig að hún skyldi vera frá föstudegi til þriðjudags aðra hvora helgi til X.

Með hinum kærða úrskurði 25. febrúar 2016 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda væri einu sinni í mánuði frá föstudegi til sunnudags, auk þess sem kæranda var heimilt að sækja stúlkuna í leikskóla á X og fylgja henni á [...] út vorönn X. Hinn kærði úrskurður er byggður á því að breytingar hafi orðið á stúlkunni eftir að heimiluð var aukin umgengni foreldra við hana árið X. Greinilegt væri að það fyrirkomulag væri að valda stúlkunni óþarflega miklu álagi. Í bréfi frá leikskóla X kemur fram að breytingar hafi orðið á stúlkunni um það bil síðustu X mánuði. Stúlkan væri orðin lítil í sér, stundum óörugg og reiddist stundum fljótt. Þá væri stúlkan ekki alveg í jafnvægi og oftar pirruð. Fósturforeldrar hafi talið þetta mat leikskóla rétt og hafi einnig tekið eftir breytingum á stúlkunni vegna aukinnar umgengni.

Kærandi krefst þess að umgengni verði viku í senn á móti viku fósturforeldra. Til vara er þess krafist að umgengni verði með sama hætti og í hinum kærða úrskurði, nema hún fari fram aðra hvora helgi í stað fyrstu helgi hvers mánaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengniréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. bvl. skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 4. gr. sömu laga skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum stúlkunnar og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í fóstur. Hagsmunir stúlkunnar eru þeir að öryggi hennar verði sem best tryggt og hún njóti verndar.

Í málinu liggur fyrir ítarlegt forsjárhæfismat kæranda frá X þar sem fram kemur að forsjárhæfi kæranda sé verulega skert. Úrskurðarnefndin telur að við úrlausn málsins sé nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar það sem fram komi í umræddu forsjárhæfismati. Í niðurstöðu matsins kemur fram að kærandi sé seinfær en búi yfir ýmsum styrkleikum í uppeldislegu tilliti. Kærandi hafi myndað góð geðtengsl við stúlkuna, sýni henni hlýju og kærleika og beiti aga. Veikleikar varðandi foreldrahæfni kæranda tengist öryggi, líkamlegri umönnum og atlæti. Veikleikar í lífstíl kæranda hafi áhrif á hana sem fyrirmynd fyrir stúlkuna. Veikleikar kæranda séu einnig þeir að hún fari illa eftir ráðgjöf og leiðbeiningum sem ætlaðar séu til að styrkja hana í foreldrahlutverkinu. Kærandi þurfi leiðsögn til þess að valda foreldrahlutverkinu, geta sinnt þörfum stúlkunnar, örvað hana, veitt henni öryggi og gott atlæti. Kærandi hafi fengið margvísleg tilboð um stuðning sem ekki hafi skilað þeim árangri til var ætlast. Reynslan hafi sýnt að kærandi hafi litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem henni standi til boða til að styrkja stöðu hennar sem foreldri. Hún eigi erfitt með að sjá samband milli orsakar og afleiðingar og standi ekki við skuldbindingar sínar. Í forsjárhæfismati kemur fram að kærandi sé með greind á tornæmisstigi.

Um er að ræða rúmlega X ára stúlku sem hefur átt við að etja verulega örðugleika, meðal annars vegna máltöku og félagsþroska. Gögn málsins sýna að breytingar til hins verra hafi orðið á líðan og hegðun stúlkunnar eftir að umgengni var aukin árið X. Ályktað var að ójafnvægi í hegðun og líðan stúlkunnar hafi verið vegna hinnar auknu umgengni.

Kærandi er seinfær og metin með vitsmunalega greind á tornæmismörkum og telur úrskurðarnefndin engan vafa leika á því að það hefur haft mikil áhrif á forsjárhæfni kæranda, enda hefur komið í ljós að kærandi hefur illa tekið við leiðbeiningum og leiðsögn. Við mat á því hvernig haga ber umgengni við stúlkuna verður að líta þess að kærandi er illa fær um að sinna þörfum hennar. Fram kemur í hinum kærða úrskurði að endurskoða eigi fyrirkomulag umgengni við upphaf haustannar X. Úrskurðarnefndin telur að með hinum kærða úrskurði hafi verið stefnt að því að kærandi hefði umgengni við stúlkuna í samræmi við lagafyrirmæli um að gæta beri hagsmuna barnsins við slíka ákvörðun. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Úrskurðarnefndin telur að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Verður því að hafna kröfum kæranda um lengri umgengni en metin var hæfileg í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta hina hinn kærða úrskurð B.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður B frá 25. febrúar 2016 varðandi umgengni A við dóttur hennar, D, er staðfestur.

 

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta