Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 5/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Miðvikudaginn 19. júní 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 5/2013, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Málið varðar umgengni kæranda við dóttur sína, B. Upp var kveðinn svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi, dags. 12. mars 2013, kærði Guðríður Lára Þrastardóttir hdl., fyrir hönd A, úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2013 varðandi umgengni kæranda við dætur sínar, þær B, C, og D. Ákvörðunin er svohljóðandi:

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, og D, hafi umgengni við móður sína, A, aðra hvora helgi, frá skólalokum á föstudegi til upphafs skóladags á mánudegi. Móðir sækir telpurnar í skóla og leikskóla á föstudegi og fari með þær í skóla og leikskóla á mánudagsmorgni. Þá viku sem ekki er helgarumgengni skulu telpurnar hafa umgengni við móður sína frá fimmtudegi eftir skóla fram á föstudagsmorgun. Móðir sækir telpurnar í skóla og leikskóla á fimmtudegi og fer með þær aftur í skóla og leikskóla á föstudagsmorgni. Óboðað eftirlit verði með umgengni.

 

Þá ákveður barnaverndarnefnd Reykjavíkur að B, hafi umgengni við móður sína, A, einu sinni í viku í 2 klukkustundir og í 2 klukkustundir aðra hverja helgi. Umgengni skal fara fram í húsakynnum á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur og vera undir eftirliti allan umgengnistímann.“

 

 


 

Í tölvupósti Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl., lögmanns kæranda, til kærunefndar barnaverndarmála, kemur fram að kæran varðar eingöngu niðurstöðu hins kærða úrskurðar er snertir B en ekki hinar stúlkurnar tvær. Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður varðandi umgengni hennar við B verði úr gildi felldur. Kærandi krefst þess einnig að kærunefnd barnaverndarmála fjalli um vinnulag starfsmanna barnaverndarnefndar í tengslum við umgengni yfir jól og áramót.

 

 

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði.

 

 

I

Málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála

 

Kæra kæranda barst kærunefnd barnaverndarmála 13. mars 2013. Kærunefndin sendi Barnavernd Reykjavíkur kæruna með bréfi 18. mars 2013 og óskaði jafnframt eftir greinargerð fyrir 2. apríl 2013. Barnavernd Reykjavíkur óskaði eftir fresti til þess að skila greinargerðinni og var veittur frestur til 12. apríl 2013. Greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er dagsett 11. apríl 2013 og barst 12. apríl 2013 ásamt frekari gögnum. Lögmanni kæranda, Guðríði Láru Þrastardóttur hdl., var sent afrit af greinargerðinni með bréfi 16. apríl 2013 og henni gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Lögmanninum voru ekki send gögn málsins þar sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði með úrskurði frá 16. október 2012 takmarkað aðgang kæranda og lögmanna hennar að gögnum í máli dætra hennar hjá Barnavernd Reykjavíkur. Þeim úrskurði var skotið til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann 10. apríl 2013. Þann 21. maí 2013 barst tölvupóstur frá lögmanni kæranda þar sem fram kemur að mál þetta varði aðeins umgengni kæranda við B. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda vegna máls þessa.

 

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir núverandi afstöðu talsmanns B, Helgu Völu Helgadóttur, með bréfi dags. 30. maí 2013. Helga Vala Helgadóttir var skipuð talsmaður stúlkunnar með bréfi dags. 13. mars 2013. Bréf talsmannsins er dags. 10. júní 2013.

 


 

II

Helstu málavextir

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A vegna dóttur hennar, B. Systur B eru C og D, en mál þetta snýr aðeins að B eins og fram hefur komið. Faðir stúlknanna er E, en hann býr í F. Samband foreldranna hefur verið óstöðugt. Áhyggjur hafa verið af uppeldisaðstæðum telpnanna í umsjá foreldra og hafa verið afskipti af högum þeirra á grundvelli barnaverndarlaga bæði hér á landi og í F. Líf fjölskyldunnar einkenndist af tíðum flutningum og ferðum einkum vegna veikinda B. Var mikið álag á foreldrunum vegna þessa og ríkti mikill óstöðugleiki í uppeldisumhverfi fjölskyldunnar. Stúlkurnar lúta forsjá kæranda, en B, sem er fjölfötluð, var tekin úr umsjón móður sinnar af yfirvöldum  í F í janúar 2012. Við komu til Íslands í ágúst 2012 var B vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 30. ágúst 2012. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði 30. október 2012 um vistun allra systranna utan heimilis í allt að tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun systranna utan heimilis í alls sex mánuði eða til 30. apríl 2013. Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurð héraðsdóms 22. janúar 2013.

 

Eftir komu kæranda til landsins í ágústbyrjun 2012 hafði hún umgengni við B fimm daga vikunnar í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti af hálfu Barnaverndar. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 2012 var fjallað um umgengnina. Ekki var fallist á kröfur kæranda um að umgengnin yrði ótakmörkuð. Samkomulag náðist um að umgengnin yrði daglega á tilteknum tímum og færi fram í Rjóðrinu. Umgengnin yrði án eftirlits starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur en að heilbrigðisstarfsmaður yrði ávallt viðstaddur. Umgengnissamningur við kæranda var undirritaður 2. október 2012.

 

Yfirlit barst Barnavernd Reykjavíkur frá Rjóðri 12. desember 2012 yfir þann tíma sem kærandi hafði komið í umgengni þangað. Frá 19. nóvember til 9. desember 2012 hafði kærandi hvorki nýtt sér umgengni að fullu né komið á réttum tíma í umgengnina, þ.e. hún kom þegar henni hentaði. Helgina 1. og 2. desember 2012 fór kærandi með B út af Rjóðri og í annað skiptið var enginn fylgdarmaður með.

 

Kærandi óskaði rýmri umgengni yfir jól og áramót 2012 og náðist samkomulag um þá umgengni á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. desember 2012. Barnavernd Reykjavíkur stóð ekki að fullu við gert samkomulag um umgengni yfir hátíðirnar, þar sem ekki tókst að manna umgengnina með þeim hætti sem þurfti. Umgengnin gekk vel á jóladag og annan í jólum. Umgengni átti að vera 31. desember 2012 kl. 8:00 til 16:00 en ekkert hafði heyrst í kæranda kl. 10:45 og var þá hringt í hana og hún vakin. Aftur var fyrirhuguð umgengni 1. janúar 2013 kl. 10:00 til 18:00. Kærandi var ekki mætt um hádegi og var þá reynt að ná sambandi við hana í síma en hún svaraði ekki. Aftur var það reynt árangurslaust kl. 13:00. Klukkan 15:00 hringdi vinkona kæranda og óskaði eftir því að starfsmaður færi með B í leigubíl til kæranda. Barnavernd Reykjavíkur tók ákvörðun um að það yrði ekki gert og varð ekki af umgengni þennan dag.

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 28. janúar 2013, kemur fram að fimmtudaginn 10. janúar 2013 hafi Barnavernd Reykjavíkur borist tölvupóstur frá Rjóðri þess efnis að grunsemdir starfsmanna Rjóðurs hefðu vaknað um að kærandi væri að magna upp húðvandamál B og valda henni með því skaða. Enn fremur að kærandi hafi ekki verið að fylgja umgengnistíma. Þá hafi í janúar 2013 nokkuð oft komið fyrir að kærandi virti ekki umgengnissamning sem gerður var við hana 2. október 2012 og hafi hún komið í Rjóðrið og farið þegar henni hentaði. Hafi hún verið æst í samskiptum og ógnandi og látið ófriðlega. Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 21. janúar 2013 var gerð bókun þar sem fram kemur það mat starfsmanna að kærandi væri ekki til samvinnu við Barnavernd eða heilbrigðisstarfsmenn varðandi hagsmuni B. Þar sem upplýsingar hafi komið fram sem bendi til þess að kærandi sé að skaða B hafi starfsmennirnir talið að ekki væru forsendur til þess að halda umgengninni óbreyttri. Lagt var til að umgengni væri einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og í eina klukkustund aðra hverja helgi þegar kærandi væri með hinar dætur sínar. Lögmaður kæranda hafnaði þessum tillögum fyrir hennar hönd.

 

Barnavernd barst símtal frá Rjóðri 23. janúar 2013 kl. 14:30 þar sem látið var vita að kærandi væri þar stödd til þess að vera með B, en umræddur tími var ekki umsaminn umgengnistími. Barnaverndarstarfsmaður fór á staðinn og bað kæranda að koma afsíðis en hún neitaði því og varð strax æst. Var kæranda bent á að hún hefði ekki heimild til þess að vera á staðnum á þessum tíma en kærandi þrætti fyrir það og var æst og ógnandi. Annað símtal barst Barnavernd frá Rjóðri 24. janúar 2013 þar sem kærandi var komin þangað. Hafði hún komið að læstum dyrum og léti hún mjög ófriðlega fyrir utan og reyndi að sparka upp hurðina. Farið var með öll börnin á Rjóðri í annan hluta hússins svo þau yrðu ekki vitni að látunum. Þann 25. janúar 2013 boðaði kærandi til mótmæla á Facebook-síðu sinni við Rjóður, en ekki varð mikið úr því. Laugardaginn 26. janúar 2013 var umgengni kæranda við B í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Kærandi var ósátt við staðsetningu umgengninnar. Umgengnin gekk ekki vel eins og fram kemur í gögnum málsins þar sem kærandi eyddi mestum tímanum í að lesa gögn sem hún óskaði eftir í máli dætra sinna og leiddi það til þess að hún gat ekki sinnt stúlkunum sem skyldi.

 

Deildarstjóri Rjóðurs óskaði formlega eftir því 29. janúar 2013 við Barnavernd Reykjavíkur að umgengni kæranda við B færi ekki fram í Rjóðri vegna ónæðis sem af því stafaði. Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 28. janúar 2013, kemur fram það mat starfsmanna að kærandi sé ekki til samvinnu við Barnavernd eða heilbrigðisstarfsmenn varðandi hagsmuni B. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur taldi að það þjónaði hagsmunum B best í ljósi allra aðstæðna í máli þessu að umgengni kæranda yrði takmörkuð frá því sem var enda hafi kærandi ekki megnað að sjá til þess að umgengnin færi fram með þeim hætti sem stúlkan þyrfti á að halda. Þvert á móti hafi hún skapað streituvaldandi umhverfi og óstöðugleika sem gangi gegn hagsmunum stúlkunnar. Hinn kærði úrskurður um umgengni kæranda við B var síðan kveðinn upp 5. febrúar 2013 eins og fram hefur komið.

 

 

III

B

 

B er sjö ára gömul og hún lýtur forsjá móður sinnar, þ.e. kæranda í þessu máli. Stúlkan fæddist heilbrigð og var þroski eðlilegur í fyrstu. Hún var orðin mjög veik um 18 mánaða aldur og hefur ástand hennar oft á tíðum verið alvarlegt. B er fjölfötluð og algjörlega háð öðrum með allar sínar þarfir, hún getur ekki tjáð sig nema takmarkað með augum og hljóðum og hún þarf aðstoð við öndun. Kærandi hefur iðulega farið með stúlkuna í læknismeðferðir út um heim sem hafa að mati lækna verið óþarfar og jafnvel skaðlegar og miklir samskiptaerfiðleikar hafa verið á milli kæranda og þeirra meðferðaraðila sem hafa annast stúlkuna. Kærandi fór með stúlkuna til F í desember 2011 í óþökk lækna og fljótlega komu upp áhyggjur af málefnum hennar í umsjón foreldra þar af breskum barnaverndaryfirvöldum. B var tekin úr umsjá foreldara sinna í byrjun janúar 2012 og var sú ráðstöfun staðfest fyrir dómstólum í Bretlandi. Kærandi fór formlega fram á það við yfirvöld í Bretlandi að B yrði flutt til Íslands til að sameinast fjölskyldu sinni. Máli stúlkunnar í Bretlandi lauk með dómi sem féll í máli hennar 31. júlí 2012. Niðurstaða dómstóla var að stúlkan kæmi aftur til Íslands í ljósi gagna sem Barnavernd Reykjavíkur lagði fram um að leitast yrði við hér á landi að tryggja stúlkunni öryggi og stöðugleika. B dvaldi á sjúkrahúsi í Bretlandi framan af árinu 2012 en var útskrifuð af sjúkrahúsi og dvaldi á heimili fyrir fjölfötluð börn. Hún kom til Íslands í ágúst 2012 og hefur frá heimkomu verið vistuð á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur í Rjóðri og á Barnaspítala Hringsins.

 

Greinargerð þáverandi talsmanns B, Ingu B. Poulsen hdl., er dagsett 5. febrúar 2013. Þar er meðal annars vitnað í umönnunaraðila stúlkunnar og haft eftir þeim að kæranda hafi ekki tekist að sinna umgengninni innan þess tímaramma sem ákveðinn hafi verið, hún hafi komið of seint og eftir því sem henni hentaði. Hafi hún virst fremur sinna umgengninni á eigin forsendum en á forsendum stúlkunnar. Það hafi leitt til aukinnar streitu barnsins sem hafi vel skynjað þann tímaramma sem umgengninni hafi verið ákvarðaður. Ef kærandi hafi átt að hefja umgengni á ákveðnum tímapunkti hafi stúlkan strax verið orðin full tilhlökkunar fyrir þann tíma og hafi orðið óþolinmóð þegar kærandi mætti ekki á tilskildum tíma.

 

Í greinargerð talsmannsins kemur einnig fram að það sé niðurstaða hans að B sé í þörf fyrir reglulega umgengni við móður sína og undir bestu skilyrðum væri ákjósanlegt að sú umgengni færi fram á daglegum grundvelli en undir ströngu eftirliti. Gögn málsins og forsaga bendi þó til þess að kæranda sé ekki unnt að skapa slík skilyrði. Talsmaðurinn leggi áherslu á að fundin verði lausn á vanda í umgengni sem taki mið af þörfum barnsins fyrir ríka umgengni við móður sína.

 

B hóf skólagöngu í Norðlingaskóla 21. janúar 2013 eftir aðlögun sem gekk vel. Af hálfu talsmanns stúlkunnar kemur fram að það sé mat umönnunaraðila hennar í Rjóðrinu að skólagangan hafi haft jákvæð áhrif á hana og merki þeir framfarir hjá henni og almennt mjög jákvæð áhrif frá skólavistinni.

 

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir afstöðu núverandi talsmanns B, Helgu Völu Helgadóttur, með bréfi dags. 30. maí 2013. Helga Vala Helgadóttir var skipuð talsmaður stúlkunnar með bréfi dags. 13. mars 2013. Í bréfi talsmannsins til kærunefndarinnar, dags. 10. júní 2013, kemur fram að þær takmarkanir séu á hlutverki talsmanns í máli þessu að stúlkan geti ekki tjáð sig með orðum eða öðrum einföldum hætti. Sé því örðugt um vik að fá fram skýra afstöðu hennar til þess er fram komi í kærunni. Styðji talsmaðurinn afstöðu sína við margvísleg gögn og upplýsingar er fylgi málinu, svo sem nýtt forsjárhæfnismat Einars Inga Magnússonar sálfræðings, samtöl við Guðrúnu Ragnarsdóttur, deildarstjóra Rjóðursins, samtal við móður stúlkunnar og lögmann hennar, fyrri talsmann stúlkunnar og loks starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur. Þá hafi talsmaðurinn fengið aðgang að öllum þeim gögnum er málið varði og kynnt sér, auk þess sem talsmaðurinn hafi heimsótt stúlkuna í Rjóðrið.

 

Deildarstjóri Rjóðursins þar sem stúlkan hafi dvalið frá því í september 2012 hafi tjáð að stúlkunni líði mun betur í dag en þegar hún kom inn og að meðferð hafi gengið mjög vel. Kveði hún stúlkuna ánægða í skólanum sem hún hafi stundað þrisvar í viku frá því í janúar og að vonast sé til að fundið verði starfsfólk til að sinna fylgd hennar í skólann svo hún geti sinnt skólanum alla virka daga. Í dag sé staðan sú að þá daga sem engin fylgd sé fyrir stúlkuna fái hún heimakennslu, sem stúlkunni líki vel. Þá kunni starfsfólk Rjóðursins afar vel að annast stúlkuna, enda hafi þau annast börn með sambærilega fötlun.

 

Í greinargerð talsmannsins kemur einnig fram að fyrir liggi að um tíma hafi móður ekki verið heimilt að sinna umgengni í Rjóðrinu vegna samskiptaörðugleika móður og starfsfólks Rjóðurs og hafi umgengnið þá verið utan Rjóðurs í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Í dag fari umgengni að nýju fram í Rjóðri og gangi að sögn starfsmanna barnaverndar vel.

 

Í forsjárhæfni Einars Inga Magnússonar sálfræðings komi meðal annars fram að það sé mikilvægt að umgengni stúlkunnar við móður sé rík, ekki síst vegna hagsmuna stúlkunnar en að móðir þurfi þó að vera fús til samstarfs við starfsfólks dvalarstaðar hennar og barnaverndar.

 

Vitnað er til læknisvottorðs Jóns R. Kristinssonar, sérfræðings í barnalækningum, þar sem fram komi að stúlkan dvelji nú í öruggu umhverfi og að vel sé um hana hugsað hvað varði umhirðu og hjúkrun. Álíti læknirinn almennt að vel fari um stúlkuna í dag og gætt sé að almennri velferð hennar og hagsmunum.

 

Fram kemur að talsmaðurinn telji ljóst að stúlkunni líði vel á Rjóðrinu og að hún uni sér vel í skólanum. Því miður virðist sem nauðsyn hafi borið til að skerða umgengni móður töluvert en með nýjum umgengnissamningi sem gerður hafi verið 27. maí 2013 hafi umgengni verið aukin að nýju. Sé umgengni nú í tvær klukkustundir tvisvar sinnum í viku auk tveggja klukkustunda um hverja helgi. Fari umgengni fram í Rjóðri undir eftirliti. Talsmaðurinn kveðst hafa lagt áherslu á það fyrir meðferðarfund 30. apríl 2013 að gætt yrði að ríkri umgengni stúlkunnar við móður sína. Engu að síður virðist nauðsynlegt að umgengni sé undir eftirliti og sé sá háttur enn hafður á.

 

Það sé afstaða talsmannsins að hinn kærði úrskurður hafi verið hagsmunum stúlkunnar fyrir bestu á sínum tíma, enda virðist stúlkan hafa tekið áframhaldandi framförum eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Í ríkri samvinnu við móður hafi umgengni nú verið aukin og sé það mat talsmanns að það fyrirkomulag geri stúlkunni gott.

 

 

 

IV

Sjónarmið kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hún byggi á því að hinn kærði úrskurður sé andstæður 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, hagsmunum B og sjónarmiðum um meðalhóf.

 

Kærandi bendir á að engin gögn hafi verið lögð fram sem bendi til þess að B líði illa í umgengni við kæranda, þvert á móti bendi öll gögn málsins til þess að kærandi sé mikilvægasta manneskjan í lífi stúlkunnar og eina manneskjan sem skilji tjáskipti hennar vel. Svo takmörkuð umgengni sem úrskurðað hafi verið um í hinum kærða úrskurði sé til þess fallin að stúlkan missi að miklu leyti sambandið við móður sína, en hafa beri í huga að stúlkan sé vistuð á hvíldarheimili fyrir langveik börn þar sem starfsfólk vinni á vöktum og börnin sem þar dvelji komi og fari. Kærandi sé því eini fasti punkturinn í lífi stúlkunnar.

 

Kærandi vísar því á bug að hún sé haldin Munchausen-heilkenni. Greining á heilkenninu sé flókin og ekki nema á færi sérfræðinga í geðlækningum að greina slíka röskun. Engin rannsókn hafi farið fram á kæranda en breskir sérfræðingar hafi dregið allar vangaveltur um slíkt til baka á sínum tíma. Þá sé það atvik sem virðist leiða forstöðumann Rjóðurs að slíkri niðurstöðu afar óljóst.

 

Kærandi mótmælir þeirri staðhæfingu sem fram kemur í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur að hún hafi komið í veg fyrir að aðgerð yrði gerð á fótum B í nóvember 2012. Hún kveðst hafa fengið upplýsingar um fyrirhugaða aðgerð með stuttum fyrirvara. Auk þess hafi hún óskað þess að eiga fund með viðkomandi bæklunarlækni, sjúkraþjálfara B og stoðtækjafræðingi. Sá fundur hafi fyrst verið haldinn 1. mars 2013.

 

Kærandi telur að niðurstaða hins kærða úrskurðar mótist ekki af hagsmunum B heldur fremur af óskum forstöðumanns Rjóðurs. Forstöðumaðurinn hafi ítrekað kvartað undan samskiptaörðugleikum við kæranda. Kvartað hafi verið undan því að kærandi hafi sett inn ósannindi um Rjóður á samskiptasíðuna Facebook, hafi lesið möppu sem fylgir B, etji starfsfólki Rjóðurs hverju upp á móti öðru og að endingu sé haft eftir forstöðumanninum að starfsfólk Rjóðurs treysti sér ekki að eiga samskipti við kæranda þar sem hún hafi verið með óhróður um Rjóður og nafngreint starfsfólk á Netinu. Kærandi telur að umræddar kvartanir megi að einhverju leyti rekja til þess að hún hafi ítrekað kvartað undan umönnun stúlkunnar í Rjóðrinu, meðal annars sárum á höfði og andlegri örvun stúlkunnar.

 

Kærandi telur hinn kærða úrskurð vera í andstöðu við meðalhófsreglu. Ómögulegt sé að sjá á hvaða forsendum barnaverndarnefnd meti það svo að ekki sé hægt að tryggja öryggi Bá annan hátt en með umgengni einu sinni í viku í tvær klukkustundir og aðra hvora helgi í tvær klukkustundir. Hafi nefndarmenn raunverulegar áhyggjur af því að kærandi skaði stúlkuna væri eðlilegra að halda sömu umgengni og var en með stöðugu og ströngu eftirliti. Þannig væri öryggi telpunnar fyllilega tryggt.

 

 

V

Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 11. apríl 2013, kemur fram að gerður hafi verið umgengnissamningur við kæranda 2. október 2012 vegna B. Ekki hafi verið eftirlit með þeirri umgengni að öðru leyti en því að skilyrði fyrir umgengni hafi verið að heilbrigðisstarfsmaður væri viðstaddur. Ekki hafi gengið vel að framfylgja þeim samningi og hafi kæranda virt tímasetningar samningsins að vettugi. Hún hafi ítrekað sagt við starfsmenn nefndarinnar að enginn samningur væri í gildi og að hún gæti verið í Rjóðri þegar hún vildi.

 

Mál B hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. desember 2012 vegna umgengni um jól og áramót. Á fundinum hafi náðst samkomulag um umgengni kæranda við B yfir hátíðarnar en umgengnin hafi ekki gengið að öllu leyti þar sem ekki hafi náðst að manna vaktir með heilbrigðisstarfsmönnum sem hafi verið forsenda þess að umgengni gæti farið fram. Þá sé ljóst að kærandi hafi ekki nýtt sér að fullu þá umgengni sem hafi verið í boði.

 

Í greinargerðinni kemur fram að tilkynning hafi borist frá Rjóðri 10. janúar 2013 þess efnis að kærandi væri að valda dóttur sinni líkamlegum skaða í umgengni. Í framhaldinu höfnuðu starfsmenn Rjóðurs því að kærandi sinnti umgengni þar. Málið var kannað nánar eins og rakið er í greinargerðinni og kemur þar fram að starfsmenn Rjóðurs stæðu við fyrri staðhæfingar sínar og hefðu alvarlegar áhyggjur af málinu. Enn fremur kemur fram að kærandi hafi ekki verið til samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur eða heilbrigðisstarfsmenn varðandi hagsmuni B. Hafi því verið ákveðið, sbr. bókun á meðferðarfundi 21. janúar 2013, að stöðva umgengni með þeim hætti sem hún hafði verið, enda barnið vistað á vegum Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar og skylda barnaverndarstarfsmanna að tryggja öryggi barnsins í umgengni. Ekki náðist samkomulag um umgengnina við kæranda og var málið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. febrúar 2013 eða 13 dögum eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að takmarka umgengni í ljósi tilkynningar Rjóðursins.

 

Skýrsla talsmanns B var lögð fram á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. febrúar 2013 og gerði hann einnig grein fyrir máli sínu á fundinum. Fram hafi komið að það væru hagsmunir stúlkunnar að fá að umgangast kæranda og ákjósanlegt væri að sú umgengni færi fram á daglegum grundvelli en undir ströngu eftirliti. Gögn málsins og forsaga bendi þó til þess að kæranda sé ekki unnt að skapa slík skilyrði og hugsanlega sé það óraunhæft miðað við reynsluna. Allan vafa um að hagsmunum stúlkunnar sé ógn búin beri að skýra henni í hag. Leita verði allra lausna til að skapa þau skilyrði sem til þurfi til að stúlkan geti notið samvista við móður sína en á sama tíma fari fram umgengni undir ströngu eftirliti svo öryggishagsmunir stúlkunnar séu tryggðir.

 

Í bókun 5. febrúar 2013 kemur fram að barnaverndarnefnd Reykjavíkur telji að það þjóni hagsmunum B best í ljósi allra aðstæðna að umgengni kæranda verði takmörkuð frá því sem verið hefur enda hafi kærandi ekki megnað að búa þau ytri skilyrði í umgengni sem barnið þurfi á að halda. Þvert á móti hafi hún skapað streituvaldandi umhverfi og óstöðugleika sem gangi gegn hagsmunum stúlkunnar. Þá verði að túlka allan vafa um að hagsmunum Ellu Dísar sé ógn búin henni í hag. Í ljósi framangreinds hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur talið hæfilegt að B hafi umgengni við kæranda einu sinni í viku í tvær klukkustundir og í tvær klukkustundir aðra hverja helgi. Umgengni fari fram í húsakynnum á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og sé undir eftirliti allan umgengnistímann til að tryggja öryggi stúlkunnar. Ekki náðist samkomulag við kæranda um hvernig umgengni skyldi háttað og var málið því tekið til úrskurðar 5. febrúar 2012. Fram kemur að umgengni hafi farið fram samkvæmt hinum kærða úrskurði. Að mati starfsmanna barnaverndarnefndar hafi umgengni gengið ágætlega og meiri ró, festa og stöðugleiki hafi skapast um hana sem ekki hafi verið áður. Enn fremur kemur fram að á meðferðarfundi 20. mars 2013 hafi verið samþykkt að kærandi fengi eina auka umgengni um páskana og hafi hún farið fram 31. mars 2013 og gengið vel.

 

Í tilvitnaðri greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur kemur einnig fram að af læknaskýrslum Jóns R. Kristinssonar, sérfræðings á Landspítala, og skýrslum Rjóðurs sé ljóst að aðbúnaður B í Rjóðrinu sé eins og best verði á kosið. Sé allur aðbúnaður B í Rjóðrinu til mikillar fyrirmyndar og vel gætt að velferð hennar. Stúlkan sé í öruggu umhverfi og vel um hana hugsað hvað varði alla umhirðu og hjúkrun.

 

 

VI

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við dóttur sína, en hinn kærði úrskurður kveður á um. Umgengnin er einu sinni í viku í tvær klukkustundir og tvær klukkustundir aðra hverja helgi og fer fram í húsakynnum á vegum Barnaverndar Reykjavíkur undir eftirlitiB, sem er fjölfötluð og þarfnast aðstoðar við flestar athafnir daglegs lífs, dvelur á Landspítalanum í svokölluðu Rjóðri. B var vistuð utan heimilis í sex mánuði eða til 30. apríl 2013 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem var staðfestur fyrir Hæstarétti 22. janúar 2013.

 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til þess að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

 

Það er samdóma álit barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sérfræðinga sem hafa komið að málinu, móður og talsmanns barnsins að barnið hafi þörf fyrir tengsl við móður. Flókin veikindi B kalla á samvinnu margra aðila og þarf að vera sameiginlegt verkefni þeirra sem annast hana. Þessi samskipti þurfa að einkennast af jafnvægi, ró og stöðugleika. Engum vafa er undirorpið að fram að úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. febrúar 2013 rækti kærandi umgengnina stopult og stofnaði til síendurtekinna og alvarlegra samskiptaörðugleika við umönnunaraðila B. Kærunefnd barnaverndarmála kemst að þeirri niðurstöðu að til þess að verja hagsmuni barnsins og varna því að alvarlega veikt barn þurfi að búa við andlegt álag og streitu af völdum samskiptaörðugleika fullorðinna hafi nauðsyn borið til að takmarka umgengni eins og gert var. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Kærandi óskar eftir því að kærunefnd barnaverndarmála fjalli um vinnulag Barnaverndar Reykjavíkur í máli þessu um jól og áramót. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda. Kærunefndin getur ekki fjallað um ofangreinda kröfu þar sem engin kæruheimild er fyrir hendi varðandi þá kröfu.

 

 


 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2013 varðandi umgengni A við dóttur sínar, B, er staðfestur.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Guðfinna Eydal                                                         Gunnar Sandholt


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta