Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 10/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 18. september 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 10/2013, A og B, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Upp var kveðinn svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með kæru 27. maí 2013 kærðu A og B, úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 2013, þess efnis að hafa eftirlit með heimili dóttur kærenda, C, og skólasókn stúlkunnar í sex mánuði.

Kærendur krefjast þess aðallega að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að eftirliti með heimili stúlkunnar og skóla verði markaður skemmri tími. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

I. Málsmeðferð

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir gögnum og athugasemdum Barnaverndar Reykjavíkur vegna málsins með bréfi 28. maí 2013 og veitti frest til 18. júní 2013. Beiðnin var ítrekuð með bréfi kærunefndarinnar til Barnaverndar Reykjavíkur 23. júlí 2013 og veittur frestur til 1. ágúst 2013. Greinargerðin barst með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 30. júlí 2013. Í bréfinu kemur fram að við skoðun málsins hjá Barnavernd Reykjavíkur hafi komið í ljós að mistök hafi verið gerð við skráningu fyrra bréfs kærunefndar barnaverndarmála í skjalaskrá Barnaverndar Reykjavíkur. Það hafi ekki borist lögfræðingum Barnaverndarinnar til afgreiðslu og hafi tafir orðið á afgreiðslu erindisins af þeim sökum.


 

 

Lögmanni kærenda var með bréfi kærunefndarinnar 31. júlí 2013 sent afrit af greinargerð Barnaverndar og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 13. ágúst 2013. Bárust athugasemdir með bréfi 12. ágúst 2013 þar sem kærendur ítrekuðu fyrri kröfur sínar. Barnavernd Reykjavíkur voru með bréfi kærunefndarinnar sama dag sendar athugasemdir kærenda til kynningar.

Frekari gögn bárust frá Barnavernd Reykjavíkur til kærunefndarinnar með bréfi 29. ágúst 2013. Því fylgdu ýmis gögn, sem einkum vörðuðu eftirlit með heimili kærenda, sem fram fór ýmist með heimsóknum eða símtölum sem og samskipti við lögmann kærenda. Lögmanninum voru send umrædd gögn til kynningar.

 

II. Helstu málavextir

B er 55 ára gömul kona. Hún á fimm börn eldri en C. A er 51 árs gamall maður og hann á þrjár dætur eldri en C. Ragnheiður A og B hófu sambúð árið 1998 og giftu sig árið 1999. B hefur ekki stundað vinnu utan heimilis síðan C fæddist en vann áður í eldhúsi á sjúkrahúsi og í verksmiðju. Hún nýtur nú örorkubóta. A starfaði meðal annars hjá D í verkamannavinnu en hefur ekki stundað fasta vinnu frá árinu 2005. Hann nýtur nú örorkubóta. Frá árinu 2000 hefur hann starfað sem eftirherma á skemmtunum. A hefur átt í vanda vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Hann hefur í tvígang leitað sér meðferðar vegna þess á árunum 1997 og 1999 og hann komst í kast við lögin meðan á vímuefnaneyslunni stóð. A kveðst hafa látið af vímuefnaneyslu enda gangi atvinna hans sem eftirherma fyrir.

Í málinu liggur fyrir sálfræðiskýrsla Brynjars Emilssonar sálfræðings frá 9. apríl 2009. Barnavernd Reykjavíkur fól honum að gera skýrsluna í því skyni að meta hæfni foreldra til þess að fara með forsjá dóttur sinnar og að meta stúlkuna sálfræðilega. Þrátt fyrir að nefnd skýrsla hafi verið gerð í tengslum við mat á forsjárhæfni kærenda koma þar fram mikilvægar upplýsingar sem leggja verður til grundvallar við úrlausn máls þess sem hér liggur fyrir.


 

Í niðurstöðu skýrslunnar kemur meðal annars fram að kærendur séu bæði greindarfarslega mjög slök og mælist þau bæði á mörkum tornæmis og vægrar greindarskerðingar. Slík greindarstaða geti hamlað getu þeirra á öllum sviðum daglegs lífs og hindrað skilning þeirra á félagslegum samskiptum. Gefi greindarfarsleg staða þeirra til kynna að þau séu á mörkunum að geta séð um sig sjálf án töluverðra erfiðleika. Móðir virðist vera nánast óskrifandi en ekki séu upplýsingar um það hjá föður. Persónuleikapróf og klínísk próf gefi þá mynd að þau reyni bæði að fegra sig til að líta betur út en þau geri í raun. Bæði virðast þau þjást af mismunandi óljósum líkamlegum kvillum en A virðist hafa meiri áhyggjur af þessu en B. Bæði hafi þau lítið innsæi í eigin tilfinningar og hegðun sem geri það að verkum að ólíklegt sé að þau geti nýtt sér ráðgjöf eða meðferð. Einnig virðast þau bæði hafa fá bjargráð til að bregðast við álagi eða erfiðleikatímabilum. Ekki séu merki um eiginlega geðsjúkdóma og sé það staðfest af geðlækni þeirra. Hins vegar sé nokkuð um tortryggni og vantraust á annað fólk sem geri samskipti við aðra en mjög nákomna erfið. Þau virðist misskilja samskipti til dæmis við skólann og barnavernd og túlka sem ógnun eða óþarfa afskiptasemi.

Sálfræðingurinn telur að hæfni foreldra til að nýta sér stuðning sé verulega skert. Annars vegar sé augljóst að foreldrar vilji ekki nýta sér ráðgjöf eða stuðning vegna lítils innsæis í eigin veikleika og almenna tortryggni í garð fyrirætlana annarra. Hins vegar sé slök greindarstaða hindrun fyrir að nýta sér kennslu eða ráðgjöf með uppeldi og annað slíkt.

Fram kemur að styrkleikar foreldra séu sérstaklega þeir að þau séu góð við stúlkuna. Passað sé upp á að hún fái að borða og sé hún undir stöðugu eftirliti foreldra. Veikleikar séu hins vegar talsverðir. Greindarfarsleg staða foreldra gefi til kynna að þau geti ekki aðstoðað stúlkuna við nám. Einnig hafi þau ekki skilning á almennri umhirðu hennar enda sé hún í fötum sem passi ekki, séu rifin, oft óviðeigandi og stúlkan sé óhrein. Félagslega sé erfitt að sjá að foreldrar geti stutt stúlkuna. Þau séu stundum óviðeigandi í samskiptum og einnig sé líklegt að stúlkan læri slíka hegðun.

Í skýrslu sálfræðingsins kemur fram að A sé að mati hans ekki talinn hæfur til að fara með forsjá C. Geta B til að fara með forsjá stúlkunnar sé einnig verulega skert. Hún er þó metin hæf með nánar tilgreindum skilyrðum sem varða meðal annars að fjölskyldan verði undir eftirliti og fái leiðbeiningar um allt sem varðar uppeldi, þrifnað og aðbúnað barnsins, stúlkan mæti í skólann og sættist á eftirlit hjúkrunarfræðings skólans auk þess sem fjölskyldunni verði tryggt fast húsnæði.

 

 

Mikil vinnsla hefur verið á grundvelli barnaverndarlaga í máli C og hafa ýmis úrræði og stuðningur verið reyndur eins og rakið er í gögnum málsins. Alls hafa borist 25 tilkynningar í máli stúlkunnar og það hefur verið lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur samtals sjö sinnum.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað upp úrskurð í máli C 19. febrúar 2013 þess efnis að stúlkan skyldi vistuð á Vistheimili barna að Laugarásvegi í allt að tvo mánuði frá og með 19. febrúar 2013. Tildrög þess voru meðal annars þau að fjölskyldan hafði verið í miklum húsnæðishrakningum, tilkynning barst frá skóla þar sem fram kom að skortur væri á að föt væru nægjanlega hrein og oft væri óþrifalykt af stúlkunni. Í desember 2012 bárust tilkynningar frá Þjónustumiðstöð Breiðholts og skóla þess efnis að stúlkan hafi ekki mætt í skólann frá því í byrjun desember og um óviðunandi heimilisaðstæður hennar. Fram kemur að foreldrar voru oft boðaðir í viðtal til Barnaverndar Reykjavíkur árið 2012 en þau mættu ekki fyrr en 28. janúar 2013. Sögðust þau þá búa hér og þar og að stúlkan væri ekki búin að stunda skóla í nærri tvo mánuði.

Gerð var áætlun um meðferð málsins skv. 23. gr. barnaverndarlaga 26. febrúar 2013 sem báðir foreldrar skrifuðu undir. Þar er gerð grein fyrir ástæðum afskipta Barnaverndar Reykjavíkur. Fram kemur einnig að það sé mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að grípa þurfi tafarlaust inn í þá þróun sem orðin sé varðandi C sem virðist hafa lifað við vanrækslu til langs tíma. Ákveðið var að á vistunartímabilinu yrði unnið að því að kanna foreldrahæfni foreldra auk þess sem líðan stúlkunnar og þroskastaða yrði metin. Enn fremur kemur þar fram hvaða úrræðum og aðgerðum beita skuli til að markmiði áætlunarinnar verði náð.

Í greinargerð Vistheimilis barna 12. apríl 2013 kemur fram að í upphafi vistunar C á Vistheimilinu hafi kærendur verið mjög ósáttir við vistunina. Þeir hafi ekki verið til samvinnu og verið erfiðir í samskiptum. Það hafi breyst þegar á leið og hafi kærendur þá staðið við það sem af þeim hafi verið krafist. Kærendur hafi virt umgengni og átt góð samskipti við C á meðan á vistuninni stóð. Hún mætti vel í skóla og var það staðfest af kennara. Á þessum tíma sáu kærendur um að þvo af stúlkunni og fóru síðan einnig að sjá um nesti fyrir hana og að aka henni í og úr skóla. Hafi það gengið vel. Í greinargerðinni kemur einnig fram að C hafi verið nokkuð döpur á kvöldin og saknað foreldra sinna. Hún hafi verið dugleg að aðstoða við heimilisverk og þolinmóð við yngri börnin. Hún hafi orðið upplitsdjarfari og glaðari þegar leið á vistunina þótt hún hafi saknað foreldra sinna. C átti góð samskipti við foreldra sína á vistheimilinu og virtist kært á milli þeirra. Fram kemur að foreldrar stúlkunnar gera mikið með henni og sé hún virkur þátttakandi í málefnum fjölskyldunnar.

Haft var samband við aðstoðarskólastjóra 15. apríl 2013 og kom þar fram að C mætti í skólann og væri kát og glöð og ástundun væri góð.

Greinargerð barst frá Greiningu og ráðgjöf heim 18. apríl 2013. Þar kemur fram að búið sé að fara í þrjár heimsóknir á heimili kærenda frá 2. apríl 2013. Í þeim heimsóknum væri stefnan sú að fylgja eftir þeim árangri sem náðist á Vistheimili barna. Kærendur hefðu tekið vel á móti starfsmönnum og hafi þeir sýnt mikinn samstarfsvilja. Starfsmenn hafi fengið að sjá íbúðina og væri aðbúnaður nokkuð góður ef tekið væri tilliti til þess að fjölskyldan væri nýflutt. Fram kom að starfsmenn úrræðisins teldu frekari eftirfylgd óþarfa.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 22. apríl 2013 er lagt til að málinu verði fylgt eftir í tvo mánuði að lokinni dvölinni á vistheimilinu. Á þeim tíma verði unnið í samvinnu við Þjónustumiðstöð um almenn félagsleg úrræði til handa stúlkunni og foreldrum hennar, þ.e. eftirfylgd verði í skóla stúlkunnar vegna mætinga hennar þangað og almennrar námsstöðu. Þá verði fylgst með því að foreldrar haldi húsnæði. Farið verði í heimsókn til stúlkunnar í skóla og á heimili á tímabilinu og rætt við hana um líðan og stöðu. Óskað verði eftir því að sálfræðingur Barnaverndar Reykjavíkur ræði við hana í skóla, en sálfræðingur hafi þegar rætt við hana á Vistheimili barna.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram það mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt sé að C og foreldrar hennar njóti og þiggi áframhaldandi stuðning. Það sé nauðsynlegt í ljósi þess forsjárhæfnimats sem liggi fyrir í málinu og þeirrar stöðu sem komin hafi verið upp þegar grípa þurfti til greiningar- og kennsluvistunar á Vistheimili barna 19. febrúar 2013 gegn vilja foreldra. Fram hafi komið á fundi nefndarinnar 30. apríl 2013 að foreldrar hafni samvinnu um stuðning og eftirlit á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Áður hafi afskiptum á grundvelli barnaverndarlaga verið hætt vegna andstöðu foreldra og fyrirhugað að skipuleggja stuðning við foreldra á grundvelli félagsþjónustulaga hjá Þjónustumiðstöð. Þegar á hafi reynt hafi það ekki gengið eftir að foreldrar fengju stuðning hjá Félagsþjónustunni að undanskildum stuðningi er varði húsnæðismál. Hafi foreldrar ekki verið til samvinnu um annan stuðning. Afleiðing þess hafi verið sú að tilkynning hafi borist á ný vegna slæms aðbúnaðar barnsins, foreldrar væru á hrakhólum með húsnæði og stúlkan hafi ekki mætt í skóla til lengri tíma. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur leggi ríka áherslu á að reynt verði til hins ýtrasta að fylgjast með því að þær jákvæðu breytingar sem virtust hafa orðið í uppeldisumhverfi stúlkunnar verði varanlegar og stöðugar. Lögð sé rík áhersla á að veittur verði stuðningur sem foreldrar þurfi augljóslega á að halda við uppeldi stúlkunnar, hvort sem er á grundvelli barnaverndarlaga eða félagsþjónustulaga. Telji nefndin það þjóna hagsmunum stúlkunnar best að kveðið verði á um eftirlit og stuðning við C með úrskurði sem gildi í allt að sex mánuði, sbr. 26. gr. barnaverndarlaga.

Bréf Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndar barnaverndarmála er dagsett 29. ágúst 2013. Þar kemur fram að í kjölfar þeirra ummæla lögmanns kærenda í bréfi hans til kærunefndarinnar 12. ágúst 2013, þess efnis að í máli þessu ríki mikill stöðugleiki á heimili stúlkunnar og að heimsóknir í eftirlitsskyni séu óþarfar, enda sjái starfsmenn barnaverndar ekki lengur ástæðu til þess að koma í heimsókn, vilji Barnavernd Reykjavíkur koma á framfæri upplýsingum um það hvernig gengið hafi að framfylgja því eftirliti sem kveðið hafi verið á um í hinum kærða úrskurði. Fram kemur að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi frá úrskurði nefndarinnar 30. apríl 2013 reynt að framfylgja eftirliti á heimilinu, sbr. meðfylgjandi dagála. Foreldrar og lögmaður þeirra hafi hins vegar verið til takmarkaðrar samvinnu um eftirlit þrátt fyrir fyrirliggjandi úrskurð þar um og því hafi reynst erfitt að framkvæma eftirlitið. Þá liggi fyrir að foreldrar hafi flutt. Í júní síðastliðnum hafi móðir upplýst starfsmann eftirlitsins um það að þau væru að flytja. Hún hafi þó ekki viljað greina frá því hvert. Nýlega hafi fengist þær upplýsingar hjá Félagsbústöðum að fjölskyldan væri flutt að E. Samkvæmt upplýsingum frá skóla 28. ágúst 2013 hafi C ekki mætt í skólann í þrjá daga vegna veikinda það sem af sé skólaári. Því sé ljóst af gögnum málsins að reynt hafi verið að framfylgja úrskurði barnaverndarnefndar frá 30. apríl 2013.

 

III. C

C er 12 ára gömul stúlka. Hún hefur alist upp hjá foreldrum sínum. Hún var ekki í leikskóla sem barn og hóf skólagöngu í F en stundar nú nám í G


 

 

Sálfræðingur Barnaverndar Reykjavíkur ræddi við stúlkuna á vistheimilinu 6. mars 2013. Fram kom að það hefði borið á óöryggi hjá henni í byrjun viðtals sem virtist hverfa eftir smá spjall. Aðspurð af hverju hún mætti ekki í skólann sagðist hún ekki vita það. Aðspurð hvernig henni liði í skólanum sagði hún að henni liði vel þar. Hún sagði að sér gengi ágætlega í skólanum en væri léleg í lestri. Hún sagði að sér liði illa á Vistheimilinu og hún vildi fara heim til sín. Hún saknaði móður sinnar og föður.

Rætt var við aðstoðarskólastjóra í skóla C 15. mars 2013. Fram kom hjá honum að hún mætti á réttum tíma og liði vel í skólanum. Hún væri hress og engin lykt af henni lengur.

Sálfræðingur ræddi að nýju við C á Vistheimilinu 20. mars 2013. Hún sagði að sér liði ágætlega en hún vildi samt fara heim til sín sem allra fyrst. Hún sagði einnig að það skemmtilegasta sem hún gerði væri að vera með fjölskyldu sinni.

Í málinu liggur fyrir sálfræðileg athugun Elísu Guðnadóttur sálfræðings á C, gerð í janúar og febrúar 2011. Niðurstöður greiningar voru einkum þær að stúlkan á við almenna námserfiðleika að stríða. Orðaforði er slakur og hana skortir almenna þekkingu. Hún sé dugleg að leita eftir aðstoð og mjög vinnusöm og áhugasöm um námið. Hún sé kurteis, jákvæð og glaðlynd. Hún væri í sérkennslu og fengi aðlagað námsefni. Niðurstöður athugunar á vitsmunaþroska hafi sýnt að almenn færni stúlkunnar á vitsmunasviði væru fyrir neðan meðallag jafnaldra og hún væri því með þroska á tornæmisstigi. Styrkur stúlkunnar lægi í fínhreyfifærni í að vinna einföld verkefni hratt og örugglega, skipuleggja sig og endurgera form eftir fyrirmynd. Að auki hefði hún góða dómgreind og skilning á félagslegum aðstæðum. Mikilvægt væri að nýta þessa styrkleika til að efla námslega stöðu hennar.

 

III. Sjónarmið kærenda

Í kæru sinni 27. maí 2013 til kærunefndar barnaverndarmála krefjast kærendur þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 2013 um að eftirlit verði haft með heimili C, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, og skóla, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. sömu laga, í sex mánuði, verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að eftirliti með heimili stúlkunnar og skóla verði markaður skemmri tími.

 

Fram kemur að kærendur telja að afskipti Barnaverndar Reykjavíkur hafi skilað tilsettum árangri og að ekki sé þörf á frekari afskiptum af þeim. Þessu til stuðnings vísa kærendur til greinargerðar frá Greiningu og ráðgjöf frá 18. apríl 2013, þar sem fram komi að starfsmenn Vistheimilisins hafi metið aðstæður kærenda þannig að frekari eftirfylgd væri óþörf. Jafnframt hafi kærendur samþykkt að vera í samvinnu við Þjónustumiðstöð og hafi réttilega bent á að þannig gæti barnavernd fylgst með stúlkunni í gegnum skóla. Barnaverndarnefnd hafi eigi að síður ákveðið að eftirlit yrði haft með heimili og skóla stúlkunnar í sex mánuði. Sú ákvörðun hafi augljóslega hvorki verið tekin með hliðsjón af tillögu Barnaverndar Reykjavíkur, sem hafi lagt til að fylgst yrði með stúlkunni í tvo mánuði, né núverandi aðstæðum kærenda. Kærendur telji að rökstuðning hafi skort fyrir því að ákveða áframhaldandi eftirlit með stúlkunni í sex mánuði, en í greinargerð barnaverndar sé aðallega vísað til fyrri afskipta barnaverndar af kærendum ákvörðun sinni til stuðnings, sem endurspegli á engan hátt stöðu málsins í dag.

Í málinu liggi fyrir að mikill stöðugleiki ríki á heimili stúlkunnar og að heimsóknir á heimilið í eftirlitsskyni séu óþarfar, enda sjái starfsmenn barnaverndar ekki lengur ástæðu til þess að koma í heimsókn. Kærendur benda sérstaklega á að Barnavernd Reykjavíkur hafi tekið undir það álit að einungis hafi orðið jákvæðar breytingar á aðstæðum stúlkunnar og að þær breytingar séu stöðugar. Enn fremur telji kærendur að ákvörðun nefndarinnar hafi ekki verið tekin með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi. Kærendur árétta það sem fram kemur í kæru að afskipti barnaverndar hafi verið íþyngjandi fyrir stúlkuna og þjóni ekki lengur hagsmunum hennar. Stúlkan sé á viðkvæmum aldri, en ástæða sé til þess að ætla að áframhaldandi afskipti barnaverndar geti raskað stöðugleika og líðan hennar. Kærendur telji ljóst að meðalhófs hafi ekki verið gætt er hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Í þessu sambandi ítreka kærendur að Barnavernd Reykjavíkur hafi það úrræði að geta fylgst með stúlkunni í gegnum skóla með tilstuðlan Þjónustumiðstöðvar, en með þeim hætti megi ná sama markmið og að sé stefnt, þ.e. að gæta hagsmuna stúlkunnar og fylgjast með þeim breytingum sem nú hafi orðið, með því að beita vægara úrræði.

 


 

IV. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 30. júlí 2013 kemur fram að það sé mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt sé að C og foreldrar hennar njóti og þiggi áframhaldandi stuðning. Það sé nauðsynlegt í ljósi þess forsjárhæfnimats sem liggi fyrir í málinu og þeirrar stöðu sem komin hafi verið upp þegar grípa hafi þurft til greiningar- og kennsluvistunar á Vistheimili barna 19. febrúar 2013 gegn vilja foreldra. Fram hafi komið á fundi nefndarinnar að foreldrar hafni samvinnu um stuðning og eftirlit á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Áður hafi afskiptum á grundvelli barnaverndarlaga verið hætt vegna andstöðu foreldra og fyrirhugað að skipuleggja stuðning við foreldra á grundvelli félagsþjónustulaga hjá Þjónustumiðstöð. Þegar á hafi reynt hafi það ekki gengið eftir að foreldrar fengju stuðning hjá Félagsþjónustunni að undanskildum stuðningi er varði húsnæðismál. Hafi foreldrar ekki verið til samvinnu um annan stuðning. Afleiðing þess hafi verið sú að tilkynning hafi borist á ný vegna slæms aðbúnaðar barnsins, foreldrar hafi verið á hrakhólum með húsnæði og stúlkan hafi ekki mætt í skóla til lengri tíma. Hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur lagt ríka áherslu á að reynt yrði til hins ýtrasta að fylgjast með því að þær jákvæðu breytingar sem virtust hafa orðið í uppeldisumhverfi barnsins yrðu varanlegar og stöðugar. Lögð sé rík áhersla á að veittur verði stuðningur sem foreldrar þurfi augljóslega á að halda við uppeldi stúlkunnar, hvort sem það sé á grundvelli barnaverndarlaga eða félagsþjónustulaga. Hafi nefndin talið það þjóna hagsmunum stúlkunnar best að kveðið yrði á um eftirlit og stuðning við C með úrskurði sem gilti í allt að sex mánuði, sbr. 26. gr. barnaverndarlaga.

 

V. Niðurstaða

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákvað með úrskurði 19. febrúar 2013 að C skyldi vistuð á vistheimili barna við Laugarásveg í tvo mánuði þar sem talið var að grípa þyrfti tafarlaust inn í þá þróun sem orðin var vegna stúlkunnar sem virtist hafa búið við vanrækslu til langs tíma. Aðstæður, aðbúnaður og líðan stúlkunnar bötnuðu verulega meðan á dvölinni á vistheimilinu stóð, en barnaverndarnefnd taldi eigi að síður mikilvægt að C og foreldrar hennar nytu áframhaldandi stuðnings að lokinni dvölinni á vistheimilinu eins og rakið hefur verið. Þar sem ekki náðist samkomulag um slíkt ákvað barnaverndarnefndin því með hinum kærða úrskurði frá 30. apríl 2013 að eftirlit skyldi haft með heimili stúlkunnar, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, og skólasókn, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. sömu laga, auk þess sem sálfræðingur á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur myndi ræða við stúlkuna í skóla og fylgjast með líðan hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga. Úrskurðurinn skyldi gilda í sex mánuði. Þessum úrskurði hafa kærendur skotið til kærunefndar barnaverndarmála. Í 26. gr. barnaverndarlaga er fjallað um úrræði án samþykkis foreldra. Í a- og b-liðum lagagreinarinnar segir eftirfarandi:

„Hafi úrræði skv. 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði:

a. kveðið á um eftirlit með heimili,

b. gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun.“

Í hinum kærða úrskurði svo og í öðrum gögnum málsins kemur fram að ýmis úrræði og stuðningur hafa verið reynd af hálfu barnaverndar Reykjavíkur til að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður stúlkunnar. Faðirinn er samkvæmt niðurstöðu í skýrslu Brynjars Emilssonar sálfræðings frá 2009 ekki talinn hæfur til að fara með forsjá stúlkunnar og geta móðurinnar er talin verulega skert. Móðirin var metin hæf að uppfylltum þeim skilyrðum að fjölskyldan verði undir eftirliti og fái leiðbeiningar um allt sem varðar uppeldi, þrifnað og aðbúnað stúlkunnar og að hún mæti í skóla. Önnur gögn málsins styðja þessa niðurstöðu.

Aðstæður og aðbúnaður stúlkunnar á heimilinu leiddi til þess að hún var vistuð á vistheimili barna samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur í tvo mánuði frá 19. febrúar 2013. Á vistunartímanum fengu foreldrarnir leiðbeiningar og fylgst var með framförum þeirra varðandi umönnun stúlkunnar. Foreldrarnir virtu umgengi og áttu góð samskipti við stúlkuna sem mætti í skóla. Talið var að þessi úrræði hafi skilað umtalsverðum árangri.

Stúlkan hefur ótvírætt þörf fyrir sértæk úrræði. Hún er á þrettánda aldursári og er að fara inn í viðkvæmt þroskaskeið. Á þessu tímabili skiptir miklu máli að hún búi við þær aðstæður að hún geti eflt sjálfsmynd sína og að hún nái að fóta sig námslega varðandi framtíðina. Vegna erfiðleika foreldranna við að mæta þessum þörfum hennar er mikilvægt að stúlkan fái viðeigandi stuðning sem barnaverndaryfirvöldum ber að veita henni samkvæmt barnaverndarlögum. Einnig er mikilvægt að barnaverndaryfirvöld styðji foreldrana í uppeldishlutverkinu, eins og þeim ber skylda til að gera við þessar aðstæður samkvæmt sömu lögum.

Eins og gögn málsins leiða í ljós hafa foreldrar ekki haft nægan skilning á því hve eftirlit samkvæmt því sem að ofan greinir er nauðsynlegt í þeim tilgangi að styðja stúlkuna og jafnframt foreldrana í uppeldishlutverkinu. Foreldrarnir telja, eftir því sem fram hefur komið, að ekki sé þörf fyrir eftirlit að loknu vistunartímabili.

Við mat á því hvort unnt er að veita viðhlítandi stuðning við framangreindar aðstæður verður að líta til þess að stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra samkvæmt barnaverndarlögum kemur aðeins að gagni þegar foreldrar eru til samvinnu við barnaverndaryfirvöld um slíkan stuðning. Kærunefndin telur að sá stuðningur hafi verið reyndur án viðunandi árangurs fyrir og eftir vistunartímabilið.

Þegar litið er til þess að umtalsverður árangur náðist varðandi aðbúnað stúlkunnar á vistunartímabilinu verður engu að síður að telja að til að tryggja hann áfram hafi þurft að veita stúlkunni og foreldrum hennar stuðning í framhaldi af vistuninni. Þegar slíkur stuðningur byggist ekki á skilningi foreldra á þörf fyrir hann, eins og hér um ræðir, verður ekki unnt að byggja hann á trausti. Ekki er heldur hægt að þvinga foreldra til að þiggja stuðning. Við þessar aðstæður verður að telja að úrræði skv. 24. gr. barnaverndarlaga hafi verið reynd án þess að þau skiluðu árangri og þau verður enn fremur að telja ófullnægjandi við þessar aðstæður.

Kærendur hafa ekki verið til samvinnu um áframhaldandi stuðning barnaverndar­yfirvalda eftir að vistunartímabilinu lauk. Barnaverndarnefnd hafði því ekki önnur úrræði en að kveða á um eftirlit eins og gert var með hinum kærða úrskurði sem ætlað var að tryggja að grunnþörfum stúlkunnar væri mætt á heimilinu. Jafnframt verður að telja mikilvægt að fylgst verði áfram með stúlkunni, hvernig hún þroskast og að hún búi við viðunandi uppeldisskilyrði. Nauðsynlegt var því að kveða á um eftirlit með heimilinu og að fylgst yrði með því að stúlkan stundaði skóla. Þá var enn fremur nauðsynlegt að fylgjast með líðan stúlkunnar í skóla eins og ákveðið var að gert skyldi með hinum kærða úrskurði með því að sálfræðingur á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur ræddi við hana. Með tilliti til langvarandi vandamála varðandi uppeldisaðstæður stúlkunnar þykir eftirliti markaður hæfilegur tími í hinum kærða úrskurði.

Með vísan til þessa og a- og b-liða 26. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur í máli A og B vegna dóttur þeirra, C, frá 30. apríl 2013 er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Guðfinna Eydal                                 Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta