Mál nr. 18/2013.
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, 8. janúar 2014, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við dóttur hans, B, nr. 18/2013.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R
I. Málsmeðferð og kröfugerð
Með bréfi 2. október 2013 skaut Júlí Ósk Antonsdóttir hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá 28. ágúst 2013 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við dóttur sína, B. Úrskurðarorð eru svohljóðandi:
„Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar ákveður að barnið B skuli hafa umgengni við föður sinn, A sem hér segir:
a) Í fyrsta sinn fyrir 21. september 2013 í eina klukkustund. Nánari tímasetning skal ákveðin af starfsmanni barnaverndarnefndar í samráði við föður og fósturforeldra.
b) Í annað sinn dagana 10., 21., eða 22. janúar í tvær stundir. Nánari tímasetning skal ákveðin af starfsmanni barnaverndarnefndar í samráði við föður og fósturforeldra.
c) Í þriðja sinn laugardaginn 24. maí 2014 kl. 14-16.
d) Í fjórða sinn laugardaginn 27. september kl. 14-16.
e) Í fimmta sinn sem næst afmælisdegi barnsins 21. janúar. Nánari tímasetning skal ákveðin af starfsmanni barnaverndarnefndar í samráði við föður og fósturforeldra.
f) Umgengni svo eftirleiðis síðasta laugardag maí mánaðar kl. 14-16 og síðasta laugardag septembermánaðar á sama tíma, svo og á afmælisdegi barnsins 21. janúar í tvær stundir, nánari tímasetning ákveðin af starfsmanni barnaverndarnefndar í samráði við aðila.
g) Umgengni skal fara fram á fósturheimilinu nema samkomulag verði um aðra staðsetningu.
h) Heimilt er að barnið hafi umgengni við báða foreldra sína samtímis, í umgengnistíma annars hvors foreldrisins.
i) Heimilt er að hnika tímasetningu umgengni til um nokkra daga í samkomulagi aðila, enda sé það ákveðið með hæfilegum fyrirvara.“
Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar Eyjafjarðar verði felld úr gildi og kærunefnd barnaverndarmála úrskurði um rýmri umgengni við dóttur hans þar sem gagnkvæmur réttur barns og kynforeldris sé virtur.
Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar vísar til rökstuðnings í hinum kærða úrskurði og annarra gagna málsins. Barnaverndarnefndin hafnar kröfum kæranda og krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fósturforeldrar B eru C og D. Af þeirra hálfu kemur fram að þau telji að ekki séu forsendur fyrir aukinni umgengni kæranda við A.
II. Helstu málavextir
B er fædd árið 2013 og er því tæplega eins árs gömul. Móðir hennar, E, skrifaði undir samþykki þess efnis að barnaverndarnefnd Eyjafjarðar sækti um varanlegt fósturheimili fyrir stúlkuna til 18 ára aldurs 13. mars 2013. E fól síðan barnaverndarnefnd Eyjafjarðar forsjá stúlkuna með yfirlýsingu 21. mars 2013. Barnaverndarstofa veiti hjónunum C og D leyfi til þess að taka B í fóstur samkvæmt 66. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 11. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004. Barnaverndarnefnd Akureyrar gerði samning við þau 2. júlí 2013 um varanlegt fóstur stúlkunnar. Í samningnum kemur fram að fyrirkomulag umgengni barnsins við kynforeldra sína verði nánar ákveðið í samningi sem barnaverndarnefnd geri við foreldrana eða í úrskurði nefndarinnar. Varðandi önnur samskipti við barnið en umgengni er kveðið á um það að kynforeldrum og öðrum ættingjum barnsins sé heimilt að senda því jóla- og afmælisgjafir. Varðandi símtöl er vísað til samnings eða úrskurðar um umgengni.
Í greinargerð Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar 8. ágúst 2013 kemur fram að tilkynnt hafi verið til barnaverndar 13. febrúar 2013 um vanrækslu barnsins í umsjá móður sinnar. Við könnun málsins bárust fleiri tilkynningar. Móðirin var 18 ára gömul og bjó hjá föður sínum. Fram kemur í greinargerðinni að áhyggjur hafi verið meðal annars af óstöðugleika og vanþroska móðurinnar og truflun á tengslamyndun við barnið. Á könnunartímanum hafi það gerst að móðirin yfirgaf barnið í meira en sólarhring oftar en einu sinni. Þá hafi barnið verið að verulegu leyti í umsjá móðurafa síns í nokkrar vikur og konu sem hann þekkir. E fór ein með forsjá barnsins og hún óskaði eftir því að barninu yrði ráðstafað í varanlegt fóstur. Barnaverndarnefnd vistaði barnið í umsjá hjónanna C og D með samningi samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga, þar til fósturleyfi fengist frá Barnaverndarstofu. Það leyfi hefur nú fengist eins og fram hefur komið.
Í tilvitnaðri greinargerð segir einnig að samkvæmt 1. og 4. mgr. 67. gr. a barnaverndarlaga hafi grundvöllur þess að vista barnið hjá kynföður þess verið kannaður og umsagnar hans leitað vegna fóstursins auk þess sem aflað hafi verið upplýsinga hjá lögreglu. Hafi kynfaðir óskað eftir því að taka barnið að sér, en það hafi verið mat starfsmanna barnaverndarnefndar að þarfir og hagsmunir barnsins væru engu að síður betur tryggðir í umsjá þeirra C og D. Hafi það einnig verið afstaða móður barnsins. Hafi þá meðal annars verið horft til þátta eins og félagslegra aðstæðna, atvinnustöðu, tengsla við barnið, sögu um áfengisvanda og brotaferils mannsins. Þá hafi hann aldrei annast barnið eða haft það í sinni umsjá.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi telur að sú umgengni sem barnaverndarnefnd Eyjafjarðar hafi kveðið á um sé of sjaldan og í of stuttan tíma í senn. Barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem þeim eru nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Enn fremur sé byggt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við börn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna. Kærandi telji með engu móti að sýnt hafi verið fram á að slíkt eigi við í máli þessu, þar sem hann hafi sýnt vilja til þess að umgangast barn sitt og ekkert hafi komið fram um að umgengni barnsins við hann sé andstæð högum þess.
Þá þyki kæranda með öllu óásættanlegt að umgengni föður og barns sé skert með þessum hætti af þeirri ástæðu einni að móðir barnsins hafi ákveðið að gefa eftir forsjá barnsins. Kærandi sé enn faðir barnsins og eigi að eiga rétt á að njóta umgengni við það og barnið eigi rétt á að umgangast hann, sbr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 1. gr. a sömu laga segi einnig að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína, en það sé með öllu óljóst hvernig þeim rétti geti verið framfylgt með umgengni þrisvar sinnum á ári í tvo klukkutíma í senn.
Hefði móðir barnsins haldið forsjánni hefði kærandi átt rétt á að umgangast barnið að lágmarki aðra hverja helgi og allt upp í að fá barnið í umgengni aðra hverja viku, en vegna ákvörðunar móður barnsins um að gefa eftir forsjá barnsins þyki barnaverndarnefnd forsvaranlegt að takmarka umgengni kæranda svo að hann fái aðeins tækifæri til að eyða sex klukkustundum á ári með barninu að hámarki. Ekki verði séð að málefnalegar ástæður séu að baki því að takmarka rétt kæranda svo til umgengni og það vegna atvika sem hann beri enga ábyrgð á.
Í athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. frumvarps til barnaverndarlaga komi fram að réttur til umgengni við barn sé mjög ríkur þegar um kynforeldra er að ræða. Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar hafi úrskurðað svo takmarkaða umgengni að það sé ljóst að umgengni fósturbarns við kynforeldra sé svo lítil að ekki sé um raunverulega umgengni að ræða. Ljóst sé að ómögulegt sé að mynda tilfinningatengsl á þeim tíma sem barnaverndarnefnd hafi úrskurðað um.
Kærandi telji að barnaverndarnefnd Eyjafjarðar hafi í úrskurði sínum takmarkað verulega rétt kæranda til umgengni við barnið án þess að sýna fram á að umgengnin væri bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins.
Kærandi mótmælir því að hann hafi ekki haft umsjá með eða annast barnið en hann hafi séð um það fyrstu viku þess á sjúkrahúsinu og einnig áður en móðirin afsalaði sér forsjánni. Hann hafi misst tengslin við barnið stuttu áður en móðir afsalaði sér forsjánni til barnaverndarnefndar þar sem móður hafi mislíkað þegar hann gerði athugasemdir við umönnun hennar á barninu. Kærandi hafi því haft tengsl við barnið þegar barnaverndarnefnd tók við forsjá þess, en barnaverndarnefnd hafi séð til þess að þau tengsl hafi slitnað, en kærandi hafi ekkert fengið að hitta barnið fyrr en nú og þá samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar sem bjóði upp á skammarlega litla umgengni. Barnaverndarnefnd haldi því áfram að standa í vegi fyrir því að kærandi geti hitt barnið nema að verulega takmörkuðu leyti, en taka verði mið af sérstöðu þessa máls, þar sem kærandi hafi ekki verið fundinn vanhæfur til þess að annast barnið og ekkert liggi fyrir um að það sé í andstöðu við hag og þarfir barnsins að fá að byggja tengsl við hann.
IV. Sjónarmið barnaverndarnefndar Eyjafjarðar
Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndar Eyjafjarðar að stúlkan, B, hafi verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum þegar hún var tveggja mánaða gömul, þ.e. 20. mars 2013, að ósk móður hennar. Móðirin hafi daginn eftir afsalað sér forsjá stúlkunnar til barnaverndarnefndar með það í huga að stúlkan fengi varanlegt fóstur á nýju heimili sínu. Hafi verið gerður samningur þar að lútandi milli barnaverndarnefndar Eyjafjarðar og fósturforeldranna 2. júlí 2013.
Barnaverndarnefndin bendir á að tilraunir í aðdraganda fóstursins í þá átt að ná samkomulagi við kæranda um umgengni við stúlkuna hafi ekki borið árangur og hafi málið því verið lagt fyrir nefndina til úrskurðar. Hafi kærandi komið á fund barnaverndarnefndar Eyjafjarðar 14. ágúst 2013 ásamt lögmanni sínum og komið andmælum sínum á framfæri.
Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar hafi horft til þess að um er að ræða mjög ungt barn, sem kærandi hafi ekki haft í umsjá sinni eða annast og hafi því ekki átt kost á að mynda við það tengsl. Barnið sé í fóstri sem sé ætlað að vara þar til það verði lögráða og telji nefndin þá umgengni sem úrskurðað hafi verið um hæfilega í ljósi markmiðs fóstursins, sem sé að barnið aðlagist og tilheyri þeirri fjölskyldu sem tekið hafi að sér uppeldi þess. Eins og segi í skýringum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum sé það viðurkennt að hagsmunir barns í varanlegu fóstri kunni að krefjast þess að umgengni við kynforeldra sé verulega takmörkuð. Slíkt eigi við í þessu tilviki og sé hin kærða ákvörðun um umgengni þrisvar sinnum á ári í góðu samræmi við það sem tíðkist í svipuðum málum.
Barnaverndarnefnd tekur sérstaklega fram, vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda, að það geti ekki samræmst markmiði varanlegs fósturs eins og hér um ræðir, að umgengni sé ætlað að mynda tilfinningatengsl milli barns og foreldris eða sé ákvörðuð á grundvelli sömu sjónarmiða og gildi um umgengni samkvæmt ákvæðum barnalaga.
V. Sjónarmið fósturforeldra
Fósturforeldrar B sendu kærunefnd barnaverndarmála bréf þar sem þau greina frá afstöðu sinni til máls þessa. Þar kemur meðal annars fram að upphafleg tillaga þeirra hafi verið að umgengni kynforeldra stúlkunnar, þeirra E og A, væri tvisvar sinnum á ári a.m.k. á meðan stúlkan væri svo ung að hún bæri ekki skilning á hvern hún væri að hitta. Vegna ótryggra aðstæðna kynforeldranna hafi fósturforeldrunum þótt það eðlilegt. Vegna óska E og A hafi barnaverndarnefnd Eyjafjarðar úrskurðað að umgengi yrði þrisvar á ári og hafi þau lotið þeim úrskurði.
Það sé einlæg skoðun þeirra, eftir að hafa hitt A og rætt við hann um aðstæður hans og framtíðaröryggi, að hann sé á engan hátt tilbúinn til að takast á við foreldrahlutverk, né að hugsa um ungabarn án eftirlits. Fósturforeldrar séu ekki í aðstöðu til að meta slíkt fullkomlega en greinilegt hafi verið í síðustu umgengni að hann hafi sjálfur þurft umsjón á meðan hann annaðist B.
Fósturforeldrar telja að B sé enn of ung til hægt sé að útskýra fyrir henni erfiðar aðstæður E og A og því spurning um hverjum aukin umgengi þjóni. Þau hafi í dag afar gott samband við F, föður E, að ósk þeirra og hans. Litlar gjafir og kort gangi á milli B og afa síns og fullur skilningur hans og þeirra sé á að slíkt sé nauðsynlegt, gott fyrir B og gefi henni mikið. B sé ríkari fyrir vikið og taki þau við öllum þeim sem vilji henni vel með ábyrgum hætti fagnandi. Þau telji hlutverk sitt sem fósturforeldra vera þá að setja hagsmuni B fram fyrir allra annarra. Með það í huga telji þau ekki að það séu forsendur fyrir aukinni umgengni A.
VI. Niðurstaða
Mál þetta snýst um kröfu föður, kæranda, um umgengni við dóttur sína, B, tæplega eins árs gamla. Stúlkan er fædd 21. janúar 2013 og fór móðir hennar ein með forsjá hennar þegar hún óskaði aðstoðar barnaverndar við að ráðstafa stúlkunni í fóstur með varanlegt fóstur í huga. Móðirin samþykkti 13. mars sama ár að barnaverndarnefnd Eyjafjarðar sækti um varanlegt fósturheimili fyrir dóttur hennar til 18 ára aldurs stúlkunnar. Í samráði við móðurina var gerður samningur við fósturforeldra stúlkunnar 20. mars 2013 um tímabundna vistun stúlkunnar samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga. Daginn eftir afsalaði móðir hennar forsjánni til barnaverndarnefndar Eyjafjarðar þar sem hún óskaði jafnframt eftir því að stúlkan yrði í fóstri hjá fósturforeldum hennar þar til hún næði 18 ára aldri. Samningur um varanlegt fóstur stúlkunnar var gerður af hálfu barnaverndarnefndar Eyjafjarðar við fósturforeldra 2. júlí 2013.
Í hinum kærða úrskurði er því lýst að kröfur kæranda um umgengni við stúlkuna hafi ekki legið fyrir þegar stúlkan fór til fósturforeldranna 20. mars 2013. Viðræður við hann um fyrirkomulag umgengni og hugsanlegt samkomulag um málið hafi ekki borið árangur. Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar frá 4. nóvember sl. til kærunefndarinnar er því lýst að úrskurðurinn um umgengni kæranda við stúlkuna hafi fallið 28. ágúst sl. eftir að kærandi hafði komið andmælum sínum á framfæri við barnaverndarnefndina. Barnið hafi verið vistað hjá fósturforeldrunum tveggja mánaða gamalt að ósk móður þess. Við ákvörðun barnaverndarnefndarinnar um umgengni við kæranda, sem tekin hafi verið með úrskurðinum, hafi verið horft til þess að um hafi verið að ræða mjög ungt barn, sem kærandi hefði ekki haft umsjá með eða annast, og hafi hann því ekki átt kost á að mynda tengsl við barnið. Fóstrinu sé ætlað að vara þar til barnið verði lögráða og hafi barnaverndarnefndin talið hæfilegt að úrskurða umgengnina eins og gert hafi verið í ljósi markmiðs fóstursins þannig að barnið aðlagaðist og tilheyrði þeirri fjölskyldu sem hafði tekið að sér uppeldi þess. Umgengnin hafi verið verulega takmörkuð og er í því sambandi vísað til þess sem komi fram í skýringum við 74. gr. barnaverndarlaga, sem fylgt hafi frumvarpi til þeirra, um að hagsmunir barns í varanlegu fóstri kunni að krefjast þess að umgengni við kynforeldra verði verulega takmörkuð.
Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins. Skal sérstaklega tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best eins og fram kemur í 3. mgr. sömu lagagreinar.
Kærandi hefur ekki annast barnið á þann hátt að myndast hafi djúp tilfinningatengsl á milli þeirra. Þar sem barnið er nú í varanlegu fóstri eru ekki rök fyrir því að það byggi upp tilfinningatengsl við kæranda. Hér verður að líta svo á að það þjóni hagsmunum barnsins að þekkja föður sinn og að tilgangur umgengni sé einkum sá að barnið viti þegar það vex úr grasi hver kynfaðir þess er. Telja verður að því markmiði verði náð með því að umgengni verði þrisvar á ári eins og ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Með fóstrinu er hins vegar ekki ætlunin að byggja upp sterk eða djúp tilfinningatengsl við kæranda. Aðstæður eru því ósambærilegar þeim sem lagðar eru til grundvallar þegar umgengni foreldris og barns er ákveðin samkvæmt barnalögum. Barnið sem hér um ræðir er í fóstri á grundvelli barnaverndarlaga og það hefur þegar myndað sterk tilfinningatengsl við fósturforeldrana sem barnið hefur verið hjá frá því það var mjög ungt. Þessi tengsl eru barninu nauðsynleg og sérstaklega mikilvæg. Þeirri tengslamyndun má ekki raska umfram það sem nauðsyn krefur. Samkvæmt framangreindu verður að telja að best þjóni hagsmunum barnsins að umgengni við kæranda verði þrisvar sinnum á ári.
Með vísan til þessa ber að hafna kröfu kæranda um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að ákveðin verði rýmri umgengni kæranda við stúlkuna en þar er ákveðin. Samkvæmt því og með vísan til 1., 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er úrskurðurinn staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Eyjafjarðar frá 4. september 2013 um umgengni B við kynföður sinn, A, er staðfestur.
Sigríður Ingvarsdóttir,
formaður
Guðfinna Eydal Jón R. Kristinsson